Byrjunarliðið vs. Genk á Luminus Arena

Rauði herinn er kominn til lands hinna þúsund bjórtegunda en leikmenn Liverpool þurfa að halda fullri einbeitingu að boltasparkinu til að koma sér ekki í klandur í riðli sínum. Spilamennska á útivelli í riðlakeppni Meistaradeildarinnar hefur verið Akkilesarhæll liðsins undir Klopp og hvernig sem á því stendur að þá er kominn tími til að gera bragarbót á því. Við höfum eingöngu unnið sigur á Maribor á útivelli í CL-riðli undir Klopp og það var fyrir rétt sléttum 2 árum en úrslit í ætt við þann 0-7 sigur á Ljudski-vellinum væru kærkomin í kvöld.

Einar Matthías gerði Genk góð skil í gær og nú þegar þjálfararnir eru að birta sín spil kemur í ljós hversu sannspár hann er með liðsuppstillingarnar. Klopp hefur kýlt á það og birt sitt mannaval til að hefja leikinn í rauðleitu í kvöld:

Liverpool: Alisson, Milner, Lovren, Van Dijk, Robertson, Fabinho, Keita, Oxlade-Chamberlain, Mane, Salah, Firmino.

Bekkurinn: Adrian, Wijnaldum, Gomez, Henderson, Lallana, Brewster, Origi.

Felice Mazzú hefur einnig stillt upp sínum taflmönnum fyrir refskákina og er það birt von bráðar.

Snillingarnir James Milner og Jurgen Klopp sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í gær og um að gera að renna því í gegn áður en að leikurinn hefst.

Til að hita hraustlega upp á haustlegu kvöldi í norð-austur Belgíu þá fáum ómþýða og undurblíða tóna til heiðurs gestgjöfunum. Genk var stofnað árið1988 og upphitunarlagið var einmitt valið besta lag þess árs á Brit Awards. Textagerðin á vel við Rauða herinn sem gefst aldrei upp fyrr en í fulla hnefana og hinn höfuðprúði hárlitur er í stíl við Liverpool-rauða treyjuna. Allir eru hvattir til að rugga mjöðmum undir rykfrökkum við þetta Rick ‘n’ roll classic. You have been Rickrolled!

 

Leikurinn hefst klukkan 19:00 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.

Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

YNWA!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

13 Comments

  1. Skrítið að sjá Salah byrja þennan leik á miðvikudegi eftir að hafa ekki komist í hóp á sunnudaginn vegna meiðsla.

    Annars er þetta mjög sókndjaft lið og vonandi munu Keita og OX nýta þetta tækifæri.

    Svo er líka athyglisvart að Milner fær hægri bakvörðin og Gomez er enþá út í kuldanum eftir lélegan leik gegn Salzburg um daginn.

    2
  2. Spennandi midja og yrði gaman ef teir tveir kæmu vel ut og stimpludu sig inni lidid. Tetta fer ad verda minn seinasti séns a Keita og hans meidslum og veseni, núna ma hann fara ad gíra sig i gang, haldast heill og syna af hverju Klopp ekki bara keypti hann heldur beid lika i ar eftir honum

    2
  3. Er hægt að vera með meiri attacking uppstillingu fyrir utan TAA ? held ekki þetta er spennandi vonandi stíga menn upp í þessum leik vill sjá menn koma brjálaða til leiks. Klárt mál að Keita býr yfir gæðum höfum ekki séð þaug útaf hann er meira meiddur en hann hefur náð að spila vonandi helst hann heill !

    2
  4. Verð að segja ég óttast að breyddin verði okkur að falli í vetur. Álagið framundan er gríðarlegt.

    1
  5. Ætli þessi maður sé með dómararéttindi, nei segi nú bara svona ? Eigum að klára þennan leik en það má samt hvorki slaka á né verða of gráðugur
    YNWA

    1
  6. Ég mæli með að Liverpool fari að drullast til að laga varnarleikinn hjá sér. Það er hlægilegt hvað virðist vera auðvellt að komast í gott færi gegn þeim. Það er bara ALLIR fram og svo sjá til hversu fljótir við erum til baka.

    1
    • Hreinlega skelfilegt að sjá. Fínt ef varnarmennirnir gætu bara hugsað um sitt svæði ?

      1

Gullkastið – Vont 1-1 tap

KRC Genk 1-4 Liverpool