Genk annað kvöld

Undanfarin ár hafa verið nokkurskonar gullöld í Belgískum fótbolta, þeir hefur framleitt heimsklassa knattspyrnumenn undanfarin ár og er með eitt besta landsliðið í boltanum. Félagsliðin heimafyrir hafa hinsvegar ekki verið að marka sérstaklega djúp spor í Evrópukeppnunum og er því mjög jákvætt fyrir Belgískan fótbolta að þeir eru með tvö lið í riðlakeppninni og tvö önnur í Evrópudeildinni á þessu tímabili.

Genk er í sögulegu samhengi ekki eitt af stóru liðunum í Belgíu. Liðið varð til árið 1988 við sameiningu tveggja liða sem höfðu flakkað milli tveggja efstu deildana. Tíu árum seinna vann Genk bikarinn í Belgíu og komst fyrir vikið í Evrópukeppnina. Strax þá voru belgarnir farnir að sýna kænsku á leikmannamarkaðnum því fyrir næsta tímabil keyptu þeir Þórð Guðjónsson af þýska Bundesliga liðinu Bochum. Þórður small vel við liðið sem tryggði sér sinn fyrsta meistaratitil þá um vorið. Kaupin á Þórði voru svo góð að þeir keyptu báða bræður hans einnig til liðsins og voru þeir um tíma allir á mála hjá Genk.

Eitthvað er rétt í uppeldi knattspyrnumanna í Belgíu því að frá því þeir unnu þennan fyrsta titil um aldarmótin hafa nokkrir alvöru leikmenn komið þar við. Bæði uppaldir leikmenn hjá Genk og eins leikmenn sem þeir fengu til sín unga og seldu svo áfram.

Byrjunarlið leikmanna sem hafa verið á mála hjá Genk gæti litið einhvernvegin svona út:

Misstór nöfn auðvitað og leikmenn sem stoppuðu misjafnlega lengi við en Genk liðið væri öllu sterkara með Courtois í markinu, Koulibaly í vörninni, Milinkovic-Savic, De Bruyne og Ndidi á miðsvæðinu og Benteke frammi. Allt leikmenn sem eru enn fullu fjöri.

Belgíska deildin er auðvitað fyrir neðan stærstu deildir Evrópu í fæðukeðjunni og byggir módelið þeirra því á að selja sína allra bestu leikmenn með góðum gróða þegar þeir hafa vaxið upp úr Belgíska boltanum. Undanfarin 10 tímabil hefur Genk gengið vel á leikmannamarkaðnum og selt leikmenn fyrir €182m en þeir eru alveg óhræddir við að eyða þessum peningum einnig og hafa á sama tíma keypt leikmenn fyrir €120m sem maður myndi ætla að sé nokkuð heilsusamlegt rekstrarmódel fyrir félag af þessari stærðargráðu.

Síðasta sumar seldi Genk leikmenn fyrir €47m en keyptu í staðin fyrir €33m Deildin í Belgíu er fyrir neðan þær stærstu en mjög góður viðkomustaður fyrir leikmenn á uppleið. Genk liðið í dag er má segja í smá uppbyggingarfasa því byrjunarliðið í Meistaradeildinni í vetur hefur verið með undir 22 ára meðalaldur og fóru helstu lykilmenn síðasta tímabils í sumar.

Genk hefur unnið deildina þrisvar sinnum til viðbótar eftir titilinn sem Þórður vann með þeim og í öll skiptin komist í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kjölfarið. Síðast voru þeir með tímabilið 2011-12 þar sem þeir gerðu jafntefli í öllum heimaleikjunum, m.a. gegn Chelsea og Valencia. Spánverjarnir unnu hinsvegar 7-0 á Mestalla og Genk endaði í neðsta sæti í riðlinum.

Fyrsta tímabilið þeirra í Meistaradeildinni var 2002-03 og þá gerðu þeir fjögur jafntefli, m.a. gegn Real Madríd. Það dugði hinsvegar ekki til og aftur endaði Genk í neðsta sæti.

Núna hófu þeir leik á rassskellingu í Salzburg en náði enn einu sinni mjög öflugu jafntefli á heimavelli gegn Napoli, eina liðinu sem hefur unnið Liverpool síðan 1.maí.

Það er engin ástæða til að tala Genk liðið of mikið upp en það er ástæða fyrir því að þeir eru í Meistaradeildinni og það að fá Evrópumeistarana í Liverpool í heimsókn er stórmál í Genk. Liverpool á að vinna þetta en sagan segir okkur að það þarf heldur betur að hafa fyrir öllum stigunum þremur á Luminus Arena.

Genk vann Belgísku deildina á síðasta tímabili með sjö stiga forystu en af 30 leikjum unnu þeir “bara” 18 leiki sem gera 12 leiki sem þeir unnu ekki. Líklega þurfum við stuðningsmenn Liverpool að horfa á stöðuna í öðrum deildum til að átta okkur á hversu sturluð toppbaráttan hefur verið og er ennþá á Englandi. Liverpool missti stig í átta leikjum á síðasta tímabili og þar af enduðu sjö þeirra með jafntefli, þrátt fyrir það dugði það á einhvern óskiljanlegan hátt ekki til sigurs í deildinni.

Genk hefur ekki byrjað tímabilið eins vel núna og er strax komið tíu stigum á eftir toppliði Club Brugge, hinu Meistaradeildarliðinu úr Jupiter League. Þjálfari Club Brugge, Philippe Clement fór einmitt frá Genk eftir síðasta tímabil og tók við Brugge.

Ferðalagið til Genk verður skemmtileg tilbreyting fyrir þá örfáu stuðningsmenn Liverpool sem fá miða á útileikinn því þessi lið hafa aldrei mæst áður.  Genk var í byrjun 20.aldarinnar 2.000  manna þorp í austurhluta landsins en stækkaði hratt í byrjun aldarinnar í kjölfar þess að kolanámur fundust í nágreninu og er í dag 66.000 manna borg.

Kolavinnslan leið endanlega undir lok á níunda áratugnum þegar síðustu námunum, Winterslag og Waterschei og var lokað. Forverar knattspynuliðsins K.R.C. Genk hétu einmitt Waterschei Thor og KFC Winterslag sem gefur okkur kannski hugmynd um mikilvægi námana í sögu borgarinnar.

Liverpool

Hvort erum við að fara spila við liðið sem RB Salzburg keyrði yfir með látum eða liðið sem vann Napoli 0-0? Satt að segja á það ekki að skipta máli, það eru himinn og haf milli liða þessara liða en okkar menn verða að sýna það. Liverpool var mjög ósannfærandi á útivelli í riðlakeppninni á síðasta tímabili og tapaði m.a. fyrir Rauðu Stjörnunni, liði sem er ekkert sterkara en Genk.

Jurgen Klopp hefur haft tvær vikur til að skipuleggja viku sem inniheldur heimsókn á Old Trafford, útileik í Meistaradeildinni og svo heimaleik gegn Tottenham. Það er ekki hægt að keyra á sama byrjunarliðinu í öllum þessum leikjum og ef það er einhversstaðar svigrúm til að nota hópinn ætti það að vera í þessum leik. Hann var sannarlega ekki að finna upp hjólið fyrir United leikinn.

Klopp er aldrei að fara gera einhverjar róttækar breytingar en það eru vissulega nokkrir á bekknum sem ættu vel að ráða við þetta verkefni og þurfa sannarlega mínúturnar til að sýna sig. Fyrstur á blað er auðvitað belginn Divock Origi sem verður vonandi áfram í byrjunarliðinu þrátt fyrir að Salah sé farin að æfa aftur.

Einhvernvegin svona milliveg gæti ég séð fyrir mér að Klopp fari. Salah verði áfram á bekknum og Origi spili í sínu heimalandi. Milner kemur pottþétt inn og vonandi förum við að sjá Keita miklu meira í liðinu. Ef ekki hann koma Ox og Lallana einnig til greina.

Henderson hefur verið afar dapur undanfarið og er líklega í mestri hættu með að missa byrjunarliðssæti sitt, bæði m.v. frammistöður og eins vegna samkeppni um hans stöðu. Hef hann sem djúpan í þessum leik til að hvíla Fabinho en myndi þá vilja sjá hann á bekknum gegn Tottenham um helgina. Klopp var of varfærin gegn United og stór partur af því var að keyra áfram á Henderson – Wijnaldum miðjunni í leik sem öskrað á miklu meiri ógn frá miðsvæðinu.

Vörnin velur sig svo nokkuð sjálf. Trent fór ekki með til Belgíu og Matip var ekki heldur með á æfingu í dag.

Spá

Þetta lið tapar ekki mikið á heimavelli í Evrópu og Liverpool er í mjög þungri viku og líklega að eitthvað þurfi að rótera hópnum. Held að þetta verði frekar ósannfærandi 0-2 sigur. Mané og Lovren sjá um mörkin.

Leikurinn hefst klukkan 19:00 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð. 

8 Comments

 1. Takk fyrir þetta yfirlit. Þetta verður verulega spennandi leikur. Umhugsunarefnin um okkar lið eru nokkur…
  … hefur ekki riðið feitum hesti á útivelli í rðlakeppni CL sl ár
  …hefur ekki náð sér á alvöru flug í haust þrátt fyrir frábær úrslit
  … Henderson???
  … VvD þarf hvíld
  … verður ekki að nota Shagiri ef hann er heill
  … Origi verður að grípa þau tækifæri sem hann fær
  … eru lið að læra inn á spil okkar manna, m.a. með því að loka á bakverðina
  … er Allison alveg heill?
  … á eðlilegum degi er eins til tveggja marka sigur en eins og vitum eru ekki allir dagar eðlilegir

  1
  • Shaqiri er enn að jafna sig af meiðslum, hefði annars sjálfsagt verið í hóp um helgina. Já ég held að Alisson sé búinn að ná sér 100%, auðvitað gæti Adrian alveg spilað en ég myndi segja að það sé ólíklegt.

 2. Sælir félagar

  Mér líst ekki á Origi í byrjunarliði hefur ekki virkað sem slíkur nema einu sinni. Brewster á að koma þar inn. Mané á alltaf að vera á vinstri kanti hvernig sem allt annað raðast. Það er bara þannig. Ég vil að Firmino fái hvíld og Lallana getur alveg komið inn fyrir hann. Uxinn inn fyrir Hendo og Milner djúpur. Ef þetta gengur ekki koma Sala og Firmino inn fyrir Brewster og Lallana. Þetta er mín tillaga og koma svo og leggja sig fram af alvöru en ekki með hálfum huga eins og á Klósettinu.

  Það er nú þannig

  YNWA

  2
 3. Adrian, hoever, gomez, lovren, milner, keita, lallana, chamberlain, elliot, jones, origi. Væntanlega fóru ekki allir upptaldir til Belgíu en svona ætti liðið að vera.

  Allavega þurfa ox og keita minutur. Sammála með hendo en henda honum á bekkinn, leysir keita af e.60min svo augljóst þyki að hann starti á móti spurs. Hendo var flottur á vormánuðum sem box to box en þessi iðnaðarmiðja er orðinn þreytt og kominn tími á creative miðju.

  • Hoever er í landsliðsverkefnum hjá yngra landsliði Hollands. Elliott má ekki spila fótbolta þangað til í næstu viku (minnir mig) út af vídeóinu þar sem hann hæddist að Harry Kane. Og Curtis Jones fór ekki með til Belgíu, ekki frekar en Trent eða Matip.

   2
   • Engin breidd í þessu liði hehe. Þá stillum við þessu svona upp; Adrian, Gomez, VVD, Lovren, Milner, Hendo, Keita, Lallana, Chamberlain, Origi, Brewster. Sáttur Daníel?

    1
  • Liverpool er ekki í þannig stöðu í þessum riðli og Genk sýndi það gegn Napoli að það er ekkert gefið að fá þrjú stig gegn þeim. Afhverju í veröldinni ætti Klopp að fara inn í þennan leik með Deildarbikarsbyrjunarlið sem hefur aldrei spilað saman?

   3
   • Bara, Matip er meiddur, Salah tæpur, Trent veikur, kominn tími á hvíld hjá Robertson. Gini, Hendo, Mane og Firmino voru mjög slakir gegn united og þurfa kannski líka hvíld. Alisson má líka chilla, verð effing brjálaður ef það kæmi bakslag hjá honum gegn Genk.

    Ok, settu Firmino eða Mane í stað Brewster í seinna liðinu og þú ert kominn með nokkuð solid byrjunarlið, er það ekki?

2 Pings & Trackbacks

 1. Pingback:

 2. Pingback:

Manchester United 1-1 Liverpool

Gullkastið – Vont 1-1 tap