Sheffield United – Liverpool (upphitun)

Ég er á því að leikurinn í vikunni hafi verið svo til fullkominn. Gátum hvílt allt byrjunarliðið eins og það leggur sig, leikmenn sem vantaði mínútur undir beltið fengu helling af þeim, ung vonarstjarna steig fram og liðið spilaði sig áfram í næstu umferð. Virkilega jákvætt!

Það er þá komið að næsta verkefni, við fyrstu sýn þá virðist þetta vera auðvelt verkefni en það er meira spunnið í þetta Sheffield United lið en margir halda.

Sagan og formið

Þessi lið hafa nú ekki oft leitt saman hesta sína síðustu tvo áratugina eða svo en liðin hafa eingöngu mæst fjórum sinnum á þessari öld og sex sinnum síðan nafninu á efstu deild var breytt. Síðast mættust þau á þessum velli á haustmánuðum 2006 þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli.

Heimavöllur Sheffield United er einn af eingöngu þremur völlum sem Liverpool hefur spilað á, síðan úrvalsdeildin var sett á laggirnar, án þess að sigra. Liðin hafa mæst þrisvar sinnum þarna síðan 1992 og uppskeran verið 2 stig af 9 mögulegum (2 jafntefli, 1 tap). Ef Liverpool á einhverntímann að sækja þangað sigur þá er það væntanlega núna, liðið hefur sigrað síðustu 12 leiki gegn nýliðum í deildinni og skorað í þessum 12 leikjum 35 mörk og eingöngu fengið á sig 4 mörk á sama tíma. Ekki nóg með það heldur er Liverpool ósigrað í síðustu 23 deildarleikjum og eru á 15 leikja sigurhrinu! Ég man alveg eftir verri tímum sem Liverpool stuðningsmaður.

Heimamenn hafa byrjað leiktíðina nokkuð vel, ekki síst í ljósi þess að flestir spáðu þeim rakleitt niður aftur. Eftir að hafa sótt stig til Bournemouth í fyrsta leik sínum í efstu deild í rúman áratug þá unnu þeir sinn fyrsta heimaleik (1-0 gegn Crystal Palace) en hafa nú tapað  tveimur heimaleikjum í röð (Leicester og Southampton) en unnu góðan útisigur gegn arfaslökum Everton mönnum í síðustu umferð.

Sheffield United

Þó það sé skortur á stórum nöfnum hjá heimamönnum þá er hellings hjarta í þessu liði. Sheffield United var með sterkustu vörnina í Championsship í fyrra og hefur hún haldið vel fyrstu 6 leikina í deildinni þar sem eingöngu Liverpool og Leicester hafa fengið færri mörk á sig. Á móti hafa þeir ekki verið að skora mikið, komnir með 7 mörk í þessum 6 leikjum.

Við Liverpool menn þekkjum hve mikilvægt það er að vera með uppaldna leikmenn í eða í kringum liðið. Sheffield gerir það einnig en stjóri liðsins, Chris Wilder, er fyrrum leikmaður liðsins og hefur gert frábæra hluti með þetta lið – tók við liðinu í þriðju efstu deild (league one) árið 2016 og sló stigamet hjá félaginu á sína fyrsta tímabili þegar þeir pökkuðu deildinni saman með 100 stigum. Þeir tóku sér ár í að ná andanum í næst efstu deild áður en þeir tryggðu sér aftur sæti í deild þeirra bestu í vor þegar þeir enduðu í öðru sæti.

Hjá heimamönnum er það helst McGoldbrick, sem er frá vegna meiðsla, og fyrirliði liðsins, Billy Sharp, er enn í banni eftir að hafa fengið rautt spjald gegn Southampton annars eiga allir að vera svo gott sem heilir. Rétt eins og við þá hvíldu þeir marga leikmenn í vikunni þegar liðið féll úr leik í deildarbikanum á heimavelli gegn Sunderland. Þeir ættu því að vera með ferskar lappir á morgun. Mér hallast að því að það verði sama lið og gegn Everton sem byrji leikinn á morgun:

Henderson

Basham – Egan – O´Connell

Baldock – Lundstram – Norwood – Fleck – Stevens

McBurnie – Robinson

Liverpool

Á blaðamannafundi fyrir leikinn sagði Klopp að Origi og Mané hefðu báðir æft í gær án nokkurra vandamála og verða því væntanlega báðir a.m.k. á bekknum. Alisson er farinn að æfa en hann nær þó ekki þessum leik. Shaqiri er einnig frá eftir að hafa tognað lítilega á kálfa, ef ég man rétt þá voru það einnig kálfameiðsli sem urðu til þess að hann missti af stórum hluta undirbúningstímabilsins, vonandi ekki alvarlegt þar. Aðrir eiga að vera heilir, Milner fékk eitthvað högg á miðvikudaginn en á að vera heill fyrir morgundaginn og Keita, Lallana og Ox fengu allir dýrmætar mínútur. Ég ætla að skjóta á að Klopp stilli þessu svona upp á morgun:

Adrian

TAA – Matip – Virgil – Robertson

Henderson – Fabinho – Gini

Salah – Firmino – Mané

Ef Mané spilar ekki þá er alveg spurning hvort að við fáum að sjá Milner eða Keita á miðjunni og Gini spili þá úti vinstra megin – þó líklegra sé að Origi taki hans stað ef hann er orðinn næglega góður af þessum ökla meiðslum. Við erum a.m.k. með alveg helling af möguleikum, sérstaklega á miðjunni – helst þarna fram á við þar sem við erum heldur fáliðaðir.

Spá

Eins og Steini sagði á þriðjudaginn, það eru bananahýði alls staðar! Þetta er samt leikur sem við eigum að vinna og ég held að við munum gera einmitt það. Við höldum hreinu í annað sinn á tímabilinu og skorum á sama tíma þrjú, Salah með tvö og Gini með eitt.

Koma svo!

YNWA

 

3 Comments

  1. Fyrirfram er hægt að segja, eins og með alla leiki, þá verður þetta engin labbitúr í garðinum. En LFC er bara á allt öðru leveli, maður vonar bara að engin meiðist því SU er að spila á heimavelli, og vilja sýna stuðningsmönnum sínum hvers þeir geti verið megnugir gegn Evrópumeisturunum. Spái 0-3.

    YNWA

    2
  2. Það er ömurlegt veður á Englandi rok og rigning. Spái harðlífi 1-0 Mane reddar okkur yfirleitt i svoleidis leikjum.

  3. Gæti orðið snúinn leikur. Etv væri sterkt hjá Klopp á rótera liðinu eitthvað í leik sem þessum. Því ekki á láta Lallana byrja þennan leik og sjá hvernig gengur. Annars treystir maður Klopp en finnst þó samt enn að hann megi nota mannskapinn meira, ekki bara í deildarbikarnum. Ox og Lallana þurfa að spila í alvöru leikjum 60-90 mín til að komast vel í gírinn því ef maður þekkir okkar lið rétt verða einhver meiðsli þegar líður á veturinn. Við þurfum að hafa 16-18 menn sem eru í spilaformi, alltaf.

    1

MK Dons 0-2 Liverpool

Kvennaliðið mætir United