Vinnan bakvið tjöldin

New England Sports Group, seinna betur þekktir sem Fenway Sports Group eða FSG, tóku yfir rekstur Liverpool þann sjötta október 2010. Þá skuldaði liðið 218 milljónir punda og rekstrarárið 2010-11 var tap félagsins um fimmtíu milljónir punda. Sem dæmi um sturlun fyrri eiganda þá eyddu þeir fimmtíu milljón punda í þróun á nýjum velli sem varð aldrei meira en nokkrar flottar tölvumyndir. Liðið var nýbúið að falla úr deildarbikarnum gegn fjórðu deildarliði Northampton, það var ugla í þjálfarasætinu og allt logaði í innra átökum. Níu árum seinna, ekki einni grunnskólagöngu síðar er liðið búið að fara í þrjá úrslitaleiki í Evrópu og eru núverandi Evrópumeistarar.

Myndaniðurstaða fyrir stanley park stadium
Þetta kostaði 50 milljón punda.

Spurningin sem margir hafa spurt síðustu vikur er: Hvernig var þetta hægt? Það er auðvelt að segja að Klopp hafi breytt öllu, meðal annars vegna þess að Klopp breytti öllu, en ráðning hans var aðeins ein af tugum nær fullkominna skrefa sem klúbburinn hefur tekið síðustu árin. Ekki er hægt að segja að eigendurnir hafi ekki gert mistök, þau hafa verið fjöldinn allur, en einn helsti styrkleiki þeirra líkt og Klopp virðist vera að læra af téðum mistökum.

Ein deild liðsins sem hefur fengið verðskuldaða athygli eftir sigurinn í meistaradeildinni (og þá sérstaklega sigurinn á Barcelona þökk sé grein New York Times) er greiningardeild liðsins. Sú deild hefur, eins og sambærilegar deildir í öðrum liðum FSG, orðið eitt mikilvægasta verkfærið í baráttu Liverpool við ríkari keppinauta. Bæði hefur deildin hjálpað við að tryggja að varla pund hefur farið til spillis á leikmannamarkaðnum sem og að finna pínulitlar glufur á andstæðingunum sem liðið hefur nýtt til að sigra andstæðinganna.

 

Þegar FSG tóku við liðinu var eitt morgunljóst: Liverpool átti ekki séns á að keppa við fjármuni hinna stóru liðanna. Hitt var að innra starf klúbbsins mátti bæta gífurlega. Til þess að koma liðinu aftur í fremstu röð þyrfti að nútímavæða reksturinn og margfalda tekjur liðsins. Regluleg þáttaka í meistaradeildinni var algjört lágmark til að ná síðarnefnda markmiðinu, svo ekki sé talað um til að laða til sín bestu bitana á markaðnum. Ekkert lítil áskorun.

Myndaniðurstaða fyrir liverpool champions league

Það er efni í annan pistil að fara yfir markaðsstarfið sem FSG hefur unnið, tóku fram úr Chelsea og Arsenal  í ár og nálgast lið eins og PSG og Bayern Munchen. Mig langar að benda á prýðisgóða pistla Eyþórs um fjármál Liverpool en í þessari grein verður aðeins fjallað um innra batteríið.

FSG eru ekki og verða aldrei sykurpabbar. Það var aldrei að fara að gerast að þeir dældu milljörðum í liðið til að styrkja. Þeir töldu möguleika sína liggja í að taka betri ákvarðanir en hin liðin. Safna betri upplýsingum, gera færri mistök og finna demanta á leikmannamarkaðnum sem engin annar sá. Þeir sáu líka leik á borði í því að flest ensk lið eru rekin með algjörri skammtímahugsun. John Henry hefur viðurkennt í viðtölum að þetta reyndist erfiðara en þeir bjuggust við. Það er ekkert leyndarmál að FSG höfðu mikla trú á Financial Fair Play. Ef þær reglur virkuðu eins og þær áttu að virka hefðu Liverpool staðið mun betur að vígi gagnvart ákveðnum keppinaut, en eins og er verðum við að sætta okkur við það gilda ekki sömu reglur um alla. Á móti verður árangur Liverpool síðustu tvö þeim mun ótrúlegri þegar við hugsum um að stærsti andstæðingurinn hefur í áratug verið að versla samkvæmt allt öðrum reglum.

 

Hugmyndafræðin.

Ein smá nóta: Þegar ég tala um greiningu hér að neðan er ég að tala um það sem heitir á ensku analytics en ekki analysis. Bæði kallast á íslensku greining eða greiningarvinna. Munurinn er skalinn sem unnið er á. Þumalputtareglan er að í analytics er gagnamagnið svo mikið og formúlurnar svo flóknar að það þarf tölvur til að sjá um útreikningana.

Liverpool var ekki fyrsta enska liðið til að stofna sérstaka greiningardeild innan félagsins. Sú fyrsta mun hafa verið hjá Chelsea 2009 og svo hjá Spurs og Arsenal skömmu síðar. En mögulega var Klopp fyrsti stjórinn til að virkilega nýta sér þá möguleika sem opnast við slíkt. Hugsanlega vegna þess að vinna greiningardeildarinnar var lykilástæða þess að hann fékk starfið á sínum tíma (sjá að neðan).

Það var hafa nær allir heyrt um bækurnar Moneyball og Soccernomics. Moneyball fjallaði um innra starf bandaríska hafnarboltaliðsins Oakland Athletics og hvernig þeim tókst aftur og aftur að standa sig miklu betur en fjárhagur liðsins hefði átt að spá fyrir um. Bókin breytti aldagömlum hugsunarháttum í íþróttinni og skömmu eftir útgáfu hennar var hálf deildin farin að nýta sér aðferðirnar sem bókin fjallaði um. Eitt liðanna tók bókina sérstaklega til sín og batt enda á 86 ára bið eftir titlinum. Það lið var Boston Red Sox í eigu FSG. Það var ekkert leyndarmál á sínum tíma að FSG ætlaði að reyna að nýta sér svipaða hugmyndafræði hjá Liverpool, nokkuð sem margir fótboltaspekingar hlógu að.

Myndaniðurstaða fyrir billy beane
Billy Beane, maðurinn sem breytti hafnarbolta.

Það er algengur misskilningur á því sem bókin predikar. Moneyball snýst ekki um að finna ódýra mola á markaðnum. Moneyball snýst um að finna vanmetna mola með því að mæla hluti sem engin annar mælir. Það hljómar smávægilegt en þarna er risa munur á. Simon Kuper höfundur Soccernomics benti réttilega á að varnar-og markmenn væru líklega vanmetnustu leikmenn liða og sá fyrir að með tíð og tíma myndi bilið milli verðmats á varnar- og sóknarmönnum minnka. Það hefur ekki ennþá gerst að fullu.

Það er auðvelt að gleyma hversu mikið var hlegið af Liverpool fyrir að eyða 75 milljónum í Van Dijk. Ætlar nokkur lifandi maður að segja að hann hefði ekki átt að vera dýrari? Nákvæmlega sama gildir um Alisson. Með hjálp greiningardeildarinnar tókst Liverpool að finna tvo leikmenn sem myndu smellpassa í byrjunarliðið. Ef þeir væru seldir í dag mynd báðir fara á um það bil tvöfalt kaupverð. Þeir eru því alveg jafn mikil moneyball-kaup og Andy Robertson. Hlaupaóði Skotinn er líkari því sem fólk sá fyrir sér þegar talað er um moneyball í fótbolta: Keyptur úr fallliði, á nánast engan pening og blómstraði svo hjá stórliðinu í einn besta leikmann heims í sinni stöðu.

Myndaniðurstaða fyrir van dijk and alisson becker
Þrjár birtingarmyndir moneyball

Annar hluti hugmyndafræðinnar gleymist oft: Að selja leikmenn og nota peninginn til að styrkja liðið. Við höfum séð tug minni spámanna koma og fara frá Liverpool síðustu ár, oftar en ekki á mun hærra verði en þeir komu til liðsins. Í þessu samhengi skiptir máli að standast freistinguna að kaupa leikmenn á hátindi ferilsins. Yfirgnæfandi meirihluti leikmanna sem eru keyptir til liðsins eru ungir að árum. Þeir leikmenn, til dæmi Solanke, auka verðgildi sitt nánast sjálfkrafa. Svo eru leikmenn eins og Coutinho, sem var seldur á minnst tólf sinnum meira en hann var keyptur á. Peningurinn sem fékkst fyrir kappann var svo notaður í Van Dijk og Alisson.

 

Ég sakna hans samt.

Það er mikilvægt þegar reynt er að fylgja þessari speki að gera ekki mistök. Það er margt gott við að eiga sykurpabba, en eitt það besta er að geta gert risa mistök á leikmannamarkaðnum án þess að það hafi teljandi afleiðingar. Það eru bara ekki til fjármunir til að kaupa menn dýrum dómi hvert einasta sumar án þess að selja einhvern í staðinn. Því verður að skoða tilvonandi leikmenn af kostgæfni og velja rétt.

Aðferðirnar

Mennirnir sem fara fyrir þessum hóp eru líka engir muggar. Yfir hópnum er Ian Graham, fyrrum starfsmaður Tottenham sem kom yfir til Liverpool 2012. Með í hóp er stjarneðlisfræðingurinn (já, þú last þetta rétt) Tim Waskett, fyrrum skákmeistarinn Dafydd Steele og sá nýjasti Will Spearman skapaði sér nafn með rannsóknum á Higgs eindinni. Þetta eru ekki beint hefðbundnir fótboltaspekingar en það er einmitt hugmyndin. Það sem greiningardeildin á að gera er að líta öðruvísi á leikinn en aðrir gera og finna þannig vanmetna leikmenn og leikaðferðir sem engum öðrum dettur í hug.

Þetta var semsagt síðasti vinnustaður Will Spearman.

Helsta verkfæri greiningardeildarinnar er stórt forrit sem á að vera fært að greina framtak leikmanns án bolta til liðsins. Allir sem horfa á Liverpool vita að Gini Wijnaldum og Bobby Firmino skila miklu meira til liðsins en hefðbundin tölfræði segir til um. Það sem greinendur Liverpool eru að reyna að gera er að setja tölugildi á þá vinnu svo auðveldara sé að finna slíka leikmenn í öðrum liðum og kaupa þá, helst á miklu minna en seljandi ætti að rukka.

Smáatriðin eru auðvitað leyndarmál en þeir hafa verið opnir með hugsunina á bakvið það: Allar stöður sem koma upp á vellinum eru skoðaðar. Þegar leikmaður gerir eitthvað myndast ný staða. Hver einasta mögulega staða fær tölugildi byggt á hversu líklegt er að liðið skori. Ef leikmaður er alltaf að hækka líkurnar á marki, er það gott merki. Ótrúlegt einfalt í grunninn, erfitt í framkvæmd.

Paul Tomkins hefur lagst í gífurlega vinnu við að greina þúsundir leikmannakaupa á Englandi. Hann komst að þeirri niðurstöðu að hjá flestum liðum heppnuðust rétt rúmlega þriðjungur kaupa. Það er að segja leikmenn voru seldir með hagnaði og/eða skiluðu frábæri framtaki til liðsins. Um það bil þriðjungur kom út á nokkurn vegin sléttu og um það bil þriðjungur var skilgreindur sem flopp, leikmaður sem skilaði litlu til liðsins og var seldur með tapi.

Síðan Klopp tók við hefur Ragnar Klavan verið seldur með smá tapi, ólíklegt að Karius verði seldur á meira en hann kom á og svo er einhver spurningarmerki við Keita. Nánast allir aðrir leikmenn sem hafa eitthvað spilað undir leiðsögn Klopp hafa hækkað í verðgildi, sem ótrúlegur árangur bæði hjá honum sem þjálfara og þeim sem vinna að því að velja leikmenn.

Skýrustu dæmin um hvernig þessi greining hefur hjálpað Liverpool eru tvær stærstu stjörnur liðsins: Klopp og Salah. Síðasta tímabil Klopp hjá Dortmund var hrein martröð. Liðið var í fallsæti í janúar umferðir og tapaði fjórtán leikjum á tímabilinu. Greiningardeildin fór yfir þessi mál og komst að þeirri niðurstöðu að þetta endurspeglaði ekki hnignun hjá Klopp sem þjálfara, liðið hafði einfaldlega verið óheppnara en nokkuð lið hefur rétt á að vera yfir tímabilið.

Myndaniðurstaða fyrir klopp dortmund final season
Síðasta tímabilið hjá Dortmund var ekki gott.

Vegna þess hversu fá mörk eru skoruð í fótbolta er líklega engin íþrótt þar sem heppni hefur jafn mikil áhrif. Einn sentímeter til eða frá er munurinn á stöngin inn 1-0 sigri og jafntefli. Fimm svoleiðis atvik yfir tímabil geta skipt sköpun og atvikin hjá Dortmund voru mun fleiri en fimm. Greiningin sýndi að Klopp var ekki búin að missa tökin og því um að gera að ráða hann til Liverpool.

Ég ætla að að leyfa sjálfum Graham að útskýra áhrif greiningardeildarinnar á Salah kaupin:

“There’s this idea that Salah failed at Chelsea,” Graham said. “I respectfully disagree.” Based on Graham’s calculations, Salah’s productivity at Chelsea was similar to how he played before coming to England, and after he left. And those 500 minutes he played for Chelsea constituted a tiny fraction of his career. “They may be slight evidence against his quality,” Graham said, “but they are offset by 20 times the data from thousands and thousands of minutes.” In the conventional notion that playing in England is different, Graham saw an opportunity — an inefficiency in the system.

Þetta vanmat á Salah á Englandi olli því að Liverpool voru nánast einir að keppast um að fá hann á sínum tíma, sem betur fer. Það að hlusta ekki á almenna speki er algjör lykill í að láta hugmyndafræði liðsins ganga upp. Graham hefur svo upptekin af því að greina hlutlaust að hann vill helst ekki horfa á leikina, því að hann telur að það skemmi fyrir greiningu hans.

Annað sem mikið hefur verið rætt um er þolinmæði Liverpool á leikmannamarkaðnum. Þó það hafi gert menn dýrvitlausa af pirringi á sínum tíma, þá var rétt ákvörðun á að bíða eftir Van Dijk. Stóra breytingin á rekstri Liverpool frá því fyrir og eftir Klopp er að núna fara menn í fyrsta kost og ef hann er ekki í boði er engin kostur B(enteke). Það er að hluta til ástæðan fyrir árangri Liverpool síðustu ár.

Greiningardeildinn er ekki bara í því að fylgjast með næstu mönnum liðsins. Þeir hjálpa líka til við að skoða andstæðinga, finna örlitlar glufur á vörninni. Það er ekki þannig að prófessorarnir góðu rétt hverjum einasta leikmanni hundrað síðna skýrslu fyrir leiki. Þeir rétta Klopp skýrsluna, hann fer yfir hana og kemur því til leikmanna sem hann vill:

“By the time Klopp decides which of their insights are worth passing along to the team, the equations are long gone; the players are only dimly aware that some of the suggestions are rooted in doctorate-level mathematics. ‘We know someone has spent hours behind closed doors figuring it out,’ says the midfielder Alex Oxlade-Chamberlain. ‘But the manager doesn’t hit us with statistics and analytics. He just tells us what to do.’

Öll þessi vinna í greiningu gengur í raun út á einn hlut: Finna eitt og eitt pínulítið tækifæri. Við sáum þetta í Barca leiknum á Anfield. Hugsið út í ferlið sem býr til fjórða markið.

  • Eftir leikinn í Nou Camp leggjast greinendur yfir allt sem gerðist.
  • Einn þeirra tekur eftir að Barca-menn tuða meira en góðu hófi gegnir þegar litlir dómar eru dæmdir gegn þeim. Hann setur þetta í skýrsluna til Klopp.
  • Klopp tekur eftir þessum mola og biður alla leikmenn að vera extra vakandi fyrir tækifærum í hornum og innköstum. Jafnframt sendir hann skilaboð til allra boltastráka að koma boltanum eins fljótt og auðið er til leikmanna Liverpool í föstum leikatriðum.
  • Á 78. mínútu fær Liverpool horn. Kannski vegna fyrirmæla Klopp, kannski vegna þess að hann er sjúklega góður leikmaður, tekur Trent eftir að engin leikmaður Barca er að fylgjast með. Trent tekur tvö skref frá boltanum til að svæfa þá alveg snýr sér við og…
  • Divock Origi.
Myndaniðurstaða fyrir divock origi celebration
“Var þetta bara að gerast?” -Origi og allir sem horfðu á.

Bakvið þetta eina mark Liverpool eru tugir vinnustunda. Það eru fleiri svona dæmi frá því í vetur. Til dæmis var mark Mané gegn United í desember þaulæft á æfingasvæðinu. Fyrir úrslitaleikinn gegn Spurs spiluðu Liverpool æfingaleik við Benfica B og báðu andstæðingana að fara í hlutverk Tottenham. Sumir hlógu að því að Liverpool réði sérstakan þjálfara fyrir innköst. Svo eru örugglega tugir eða hundruð annara atvika sem við vitum ekki um, sem fóru örlítið betur vegna vinnunnar bakvið tjöldin. Liverpool eru Evrópumeistarar meðal annars vegna þessarar vinnu.

Framtíðin.

Jurgen Klopp and Pep Guardiola will be desperate to lift the Premier League trophy
Næsta tímabil í hnotskurn

Þegar lið ná forskoti á önnur lið með einhverri tækni, nýjung eða taktík er óhjákvæmilegt að önnur lið byrji að herma. Fimmtán árum eftir að Moneyball kom út eru nýjungarnar sem þar var lýst orðnar að stöðluðum aðferðum í hafnarbolta og liðið framkvæmdastjóri Oakland hefur sagt að það hafi gert vinnu þeirra mun erfiðari.

Liverpool er komið með frábært lúxusvandamál. Hvert einasta lið í Evrópu veit að Liverpool er betri í að greina leikmenn en þeir. Þegar fulltrúi Liverpool hefur samband við lið og segir „hey, þarna leikmaðurinn sem þið eruð lítið að nota, gætum við fengið hann“ er fyrsta pælingin hjá liðinu bíddu bíddu, hvað eru þeir að sjá sem við sjáum ekki. Verð Salah og Van Dijk hljóma eins og rán í dag. Það mun verða sífellt erfiðara að framkvæma slík rán. Prinsipp Liverpool á leikmannamarkaðnum munu breytast: Velja vel, vera þolinmóðir og ekki gera mistök. Það munu klárlega koma gluggar þar sem nánast ekkert er keypt en við stuðningsmenn getum reynt að hugga okkur við að líklega er hugsun á bakvið slíka bið.

Að sama skapi munu hin liðin í deildinni ekki ná að toppa greiningardeildina neitt í bráð. Jafnvel þó að okkar menn séu nánast búnir að auglýsa hvernig hugsunin bakvið módelinn er í grunninn, þá er er framkvæmdin mun erfið. Þar að auki eru þjálfarar mistilbúnir að hlusta á tölunörda í undirbúningi fyrir leiki. Það er þess að vert að rifja upp hvað stóð í frétt The Independent um ráðningu Klopp:

The main obstacle Klopp will be the club’s deep attachment to the theory that players’ statistics — analytics — can provide most of the answers.

Víða í enskri knattspyrnu er þetta viðhorfið, það mun taka langan tíma fyrir þetta viðhorf að deyja. Skal veðja við einhvern hér og nú að næst þegar Liverpool tekur nokkra vikna dýfu, eða jafnvel klúðrar harkalega á leikmannamarkaðnum, muni birtast grein eða greinar í ensku blöðunum þar sem því er haldið fram að nú séum við búin að sjá takmörk allra tölfræði lúðuna.

Eins og stendur eru tveir turnar í enskri knattspyrnu: Liverpool og City. Tottenham komust í úrslit Meistaradeildarinnar en allar líkur eru á að nýi völlurinn muni gera reksturinn erfiðari næstu ár, samanber fyrstu ár Arsenal á Emirates. Spurs eru samt það lið sem ég tel líklegast til að leika eftir árangur Liverpool bakvið tjöldin. Skammtímahugsun ræður lögum og lofum hjá Chelsea og United. Arsenal eru á slæmum stað, tekjur liðsins að hrynja með eiganda sem er alræmdur fyrir að eyða ekki í liðin sín. Þá eru bara eftir Liverpool og ljósblái fíllinn í herberginu. Annað liðið er að gera allt rétt, spilar eftir fjárhagslegum reglum og hefur náð ótrúlegum árangri síðustu ár. Hitt liðið eyðir og eyðir, hefur byggt upp ótrúlegt batterí í kringum liðið og veit að ef þeir spreða risa upphæð og leikmaðurinn er ekki nógu góður, geta þeir bara keypt nýjan eftir hálft ár. Þetta er ekki sanngjarnt en ef FSG ætlaði að gefast upp vegna þess að FFP virkar ekki betur en raun ber vitni, væru þeir líklega búnir að selja Liverpool.

Að leita allra mögulegra forskota er skráð í erfðaefni FSG. John Henry er milljarðamæringur vegna þess að honum tókst að skrifa forrit sem sá fyrir breytingar á sojamarkaðnum, aðferðir þeirra hafa umbreytt Liverpool  og Red Sox. Þeir eru ekki Mike Ashley eða Glazer fjölskyldan. Einhvern tímann munu þeir kannski selja Liverpool en þangað til er hagur þeirra að liðinu gangi sem allra best. Red Sox eru núverandi meistarar í hafnarbolta, fjórði titilinn á fjórtán árum eftir næstum aldar eyðimerkurgöngu þar á undan. Klopp og greiningardeildarinnar bíður risaverkefni í vetur: Finna leið til að bæta 97 stiga tímabil. Erfitt, já. Ómögulegt, nei.

 

 

18 Comments

  1. Mikið djö. var gaman og upplýsandi að lesa þessa grein. Þarna er kominn algerlega nýr vinkill fyrir mér, mjög áhugaverður vinkill. Til hamingju með snilldar grein Ingimar.

    YNWA

    26
  2. Mentality Monsters: How Jürgen Klopp Took Liverpool FC From Also-Rans To Champions of Europe
    Er bók frá P.Thomkins um breytingarnar á liði Liverpool frá því að Klopp tók við og þangað til að við unnum númer 6. Þetta er snilldar bók og í takt við þessa flottu grein hér að ofan og hvernig greiningardeildinn hefur áhrif á Liverpool innan vallar sem utan er magnað.
    Mæli með þessari bók fyrir alla gallharða Liverpool aðdáendur

    Þeir sem vilja rifja upp síðasta tímabili leik fyrir leik, þá er The Official Story of Liverpool’s 2018-2019 Season mjög þægileg í lestri en Klopp, Henderson og Ian Rush fá að tjá sig smá í henni.

    8
  3. Sælir félagar

    Takk fyrir fábærlega vel gerða og upplýsandi grein Ingimar. Hún eykur manni verulega skilning og þar með um leið þolinmæði fyrir árangri, leikmannakaupum og skipulagi Kolpp á hverjum leik. Allt er þaulhugsað og greint fyrir hvern leik og árangurinn ætti almennt að vera eftir því þó auðvitað geti komið leikir þar sem þetta klikkar.

    Það er nú þannig

    YNWA

    6
  4. Frábær grein.

    Mikið er ég nú ánægður með að félagið sé í höndum hjá fagaðilum sem kunna að reka klúbba en ekki einhverjum kaupóðum sykurpöbbum. Líklegasta ástæða þess að þeir vildu endursemja um verðið á Fekir hefur væntanlega mikið með þessa greiningarvinnu að gera. Að lokinni læknisskoðun, sáu væntanlega að líkur á meiðslum væru það miklar að þeir sáu sig knúna að endursemja um kaupverðið. Þetta voru rökkaldar ákvarðanir sem fóru mjög fyrir brjóstið á mörgum aðhangendum liðsins okkar en þannig á einmitt að vinna vinnuna. Gera það sem er klúbbnum fyrir bestu en ekki kaup sem býr til einhverjar skyndivinsældir.

    Ég þykist líka halda að kaupin á Sepp Van Der Berg og Harvey Elliott ( Kaupin á Elliot eru ekki enn staðfest) séu vel hugsuð kaup sem eru að stórum hluta út af þessari greiningarvinnu. Þetta eru leikmenn sem FSG telur að geti margfaldast í verði og eigi raunhæfa möguleika að komast í byrjunarlið Liverpool í framtíðinni. Ég upplifi að FSG sé að stefna að því að færa sig upp á næsta stig í greiningunni og kaupa unga polla sem þeir eru nokkuð vissir að komist í byrjunarlið Liverpool í framtíðinni. Það var jú eftir allt langtímadraumur FSG.

    Ég er líka nokkuð sannfærður um að FSG sé ekki að hafa sig mikið frammi á leikmannamarkaðnum út af þessum ástæðum. Þeir telja hópinn það sterkann að hann stenst Man City snúning og það er enginn plan A möguleiki þarna úti í boði eða þá leikmaður sem er ekki líklegur til að margfalda kaupverðið í framtíðinni.

    Stið þessa nálgun FSG heilshugar.

    7
  5. Frábær grein, sýnir okkur reyndar að við sófakartöflurnar sem þykjumst alltaf vita hvað er rétta liðið og hvaða leikaðferð er best að nota í öllum leikjum verðum áfram sófakartöflur (enda ekki með neina greiningardeild að baki nema kannski konuna) en mikið hlakka ég til komandi vetrar. Það verður gaman að sjá hversu margir þessara ungu drengja sem eru að alast upp hjá Liverpool eða hafa verið keyptir á smáaura miðað við aðstæður í dag brjóta sér leið í byrjunarliðið !
    Y.N.W.A

    5
  6. Greinin er fyrir mig eins og ljós í myrkri og skemmtileg eftir því. Takk Ingimar Bjarni.

    3
  7. Mjög góð og upplýsandi grein.

    Það er oft vanmetið hvað við erum með góða eigendur.
    Það sem er mikilvægast að þeir hugsa til langs tíma.
    Þessi pistill er staðfesting á því.

    3
  8. Hefur einhver hér reynslu að kaupa miða á Liverpool leiki beint í gegnum klúbbinn? Sé á netinu að ég get keypt mér membership aðild að klúbbnum og þá eiga 10.000 miðar að vera í boði á hverjum leik sem er selt til þeirra.

    Hefur einhver reynslu af þessu og getur miðlað? Finnst svo ólíklegt að ég geti keypt miða beint af klúbbnum. Er nota bene að skoða Liverpool vs Watford sem verður 14.12

    3
  9. Mjög góð grein og gríðarlega spennandi að kafa betur ofan í þessa vinnu á bak við tjöldin hjá Liverpool. Ótrúlega jákvætt að fara frá Gillett og Hicks í svona eigendur, svipaða eigendur og Moores og Parry vildu líklega að tækju við klúbbnum þegar þeir seldu félagið. Það er spurning hversu lengi módel Liverpool getur haldið í samkeppnið við lið eins og City en er á meðan er.

    Klopp var það sem félagið þurfti til að spilið gengi upp og vonandi er hans sigurganga rétt að byrja hjá Liverpool.

    1
  10. Þessi grein er eins og Lagavulin 16 og gráðostur! Algjör snilld! Takk kærlega! 🙂

    1
  11. Frábær grein sonur sæll. Nú sé ég hvað ég hef alið þig vel upp. En mundu að ég kem aldrei til með að kalla Kenny D sir Kenny. Hann er King Kenny í mínum bókum.
    Kv

    Pabbi

    2

Tranmere Rovers 0-6 Liverpool

Byrjunarliðið gegn Bradford City