Peningamál 2017

Ég er búinn að vera með þennan pistil í vinnslu í tæpt ár. Ég ákvað að lokum að bíða með hann þar til ársreikningur félagsins fyrir tímabilið 1.6.2015-31.5.2016 lægi fyrir. Hann var svo birtur í þar síðustu viku sem eru eiginlega jólin fyrir menn eins og mig, endurskoðanda með fótboltadellu.

Ég ákvað að skipta pistlinum upp í tvennt, í dag einblíni ég á:

  • ársreikning félagsins
  • þróunina síðan 2010/11
  • kaup FSG á klúbbnum og mína sýn á FSG sem eigendur og framtíðina

Á sunnudaginn mun ég svo birta síðari helminginn þar sem einblínt verður á samanburð við samkeppnisaðilana, skoðað hver fylgnin er á milli árangurs og peninga og lagt mat á það hvort að gengi Leicester sé ekki frekar undantekningin sem sannar regluna heldur en þróun sem við getum átt von á að sjá oftar í framtíðinni.

Tölurnar tala sínu máli

Liverpool FC var rekið með £21,3 milljóna tapi rekstrarárið 2015/16. Klúbburinn hefur í raun bara skilað hagnaði eitt rekstrarár sem heitið getur síðan að FSG keypti klúbbinn í október 2010, það var 2014/15 þegar Suarez var seldur til Barcelona með bullandi hagnaði.

Það er þó vert að geta þess að um bókhaldslegt tap er að ræða. Sjóðstreymi félagsins gefur oft skýrari mynd af rekstri félagsins og í hvað peningarnir fara og hvaðan þeir koma.

Ég ætla að reyna að hafa þennan pistil eins einfaldan og  auðlesin eins og mögulegt er, held að það sé engum til gagns að vera að slá um sig, en þegar ég tala um bókhaldslegan hagnað þá verður að hafa í huga reikningshaldslega meðferð við kaup og sölu leikmanna:

  • Sala – Við sölu leikmanna er söluhagnaður eða sölutap fært strax í rekstrarreikninginn án tillit til þess hvenær greiðslurnar koma til með að fara fram. Þessi áhrif sjást greininlega í líkaninu hér að ofan fyrir ársreikning félagsins 31.5.2015 þegar söluhagnaður Suarez er stærsta ástæðan fyrir þeim viðsnúningi í rekstri sem við sjáum á milli 2013/14 og 2014/15.
  • Kaup – Við kaup á leikmönnum er kaupverðinu dreift línulega yfir samningstíma leikmannsins. Þannig að þegar Liverpool kaupir t.d. Henderson á £20,0 milljónir árið 2011 og hann gerir 4 ára samning við Liverpool þá er kaupverði og kostnaði sem fellur til við kaupin dreift línulega yfir þessi fjögur ár.
  • Áhrif – Þetta getur valdið því að rekstrarreikningur verður svolítið sveiflukenndur þegar klúbbar selja dýra leikmenn og fjárfesta í nokkrum leikmönnum í staðinn(Suarez & Sterling hjá Liverpool, Bale hjá Tottenham). Söluhagnaður fer í gegnum rekstrarreikning strax við sölu en ef að klúbburinn fjárfestir svo í nýjum leikmönnum sem allir gera 4 ára samning þá fer þessi upphæð aftur í gegnum rekstrarreikninginn í þetta skiptið línulega sem gjöld næstu 4 árin.

Þetta er ein af ástæðum rekstrartaps tímabilsins en það eru aðrir hlutir sem þó vega þyngra. Áður en við greinum rekstrarreikninginn og sjóðstreymi klúbbins nánar þá ætla ég að draga saman einfalda mynd af þeim liðum sem mynda tap tímabilsins og reyna að skýra hvern lið með nokkuð einföldum hætti. Hér að neðan hef ég tekið rekstrareikning félagsins, eins og hann var birtur, og dregið út og sýni sérstaklega þessa einskiptisliði ásamt skýringum:

Eins og sést hér að ofan þá núllar söluhagnaður út launahækkun á milli tímabila og má rekja tapið að stórum hluta til einskiptis kostnaðarliða upp á £23,5 milljónir:

  • brottrekstur Rodgers kostaði klúbbinn £15,7 milljónir
  • virðisrýrnun upp á £7,9 milljónir sem er í raun bara bókhaldsleg færsla. Það tíðkast ekki oft að slík virðisrýrnun leikmanna sé færð en hana er eingöngu hægt að gera að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (ef leikmaður er settur utan hóps o.þ.h.). Ég gef mér það að þarna sé um að ræða Balotelli vegna eðli kostnaðarliðarins og fjárhæðar. Þess ber að geta að þessi “kostnaðarliður” hefði ávalt fallið til, ef ekki sem virðisrýrnun í 2015/16 ársreikningnum þá hefði þetta bara komið inn sem sölutap í 2016/17 reikningnum.

Það er aftur á móti ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að ef Liverpool finnur ekki leið til þess að annað hvort auka tekjurnar verulega (kem inn á það hér að neðan), lækka launakostnað eða selja einn af sínum stjörnu leikmönnum þá erum við einnig að horfa fram á tap á næsta rekstrarári. Jafnan gengur bara ekki upp, tekjur eru lægri en almennur rekstrarkostnaður sem kann aldrei góðri lukku að stýra (þá tek ég einskiptis kostnaðarliði og söluhagnað út fyrir jöfnuna).

Tekjuhliðin

Tekjur Liverpool jukust um 17-24% á árunum 2013-2015 sem má að stærstum hluta rekja til sjónvarpssamninga sem gerðir voru á þessum árum. Það er því ákveðin vonbrigði að sjá að tekjurnar standa nánast í stað á milli ára (2015/16) en það má auðvitað rekja til bæði þess tekjutaps sem fylgdi því að vera í Europa League í stað Champions League sem og vegna þeirra framkvæmda sem voru á Main Stand hluta af tímabili. Ég mun koma nánar inn á það í síðari hluta þessa pistils á sunnudaginn en tekjuvöxtur Liverpool FC er lægri en hjá topp 6 liðinum í ensku úrvalsdeildinni sem og topp 10 tekjuhæstu knattspyrnufélögum í heiminum á milli tímabila 2014/15-2015/2016.

  • Sjónvarpstekjur

Sjónvarpstekjur standa nánast í stað á milli ára og eru áfram stærsta tekjulind klúbbins eða um 41,0% af tekjum tímabilsins. Þær fara úr £122,6 milljónum í £123,6 milljónir, sem er hækkun upp á 0,8%. Það má fastlega búast við því að þessi liður breytist eitthvað á tímabilinu 2016/17. Bæði vegna nýja sjónvarpssamningsins (sem farið verður nánar í hér að neðan) sem og vegna þess að Liverpool var í Champions League 2014/15 og Europa League 2015/16 sem hefur þarna talsverð áhrif en var ekki í neinni Evrópukeppni 2016/17 og fór styttra í bikakeppnunum en á síðasta tímabili.

Það er fróðlegt að skoða sjónvarpstekjur efstu 6 félaganna í ensku úrvalsdeildinni og þá sérstaklega þann mun sem er á milli Liverpool og Tottenham annars vegar og Manchester liðanna, Arsenal og Chelsea hins vegar. Liverpool er reyndar að fá merkilega mikið í aðrar sjónvarpstekjur sem er beintengt góðum spretti í Europa League og League Cup á meðan Tottenham er t.a.m. að fá tæpum £50 milljónum minna í sjónvarpstekjur en Manchester City.

Sjónvarpstekjur vegna ensku úrvalsdeildarinnar eru að skiptast nokkuð jafnt á milli þessara liða, eins og sést í ólituðu dálkunum í töflunni hér að ofan eru skiptast 3 liðir af 5 jafnt á milli allra liða í úrvalsdeildinni á meðan Facility Fees og Merit Payment getur verið mismunandi á milli félaga og stjórnast það m.a. af endanlegri stöðu í deildinni og fjölda leikja í beinni útsendingu (Arsenal var með flesta leiki í beinni útsendingu tímabilið 2015/16).

Núverandi sjónvarpssamningur rann út 2016. SkySports and BT Sports unnu uppboðið og halda því sjónvarpsréttinum áfram út tímabilið 2018/19 en það var ekki ókeypis. Það er talað um að tilboðið hafi verið 70% hærra en það sem þeir greiddu síðast sem skilar sér auðvitað beint til félaganna í ensku úrvalsdeildinni og er búist við að sjónvarpstekjur liðanna komi til með að aukast um s.a. £40-£50 milljónir punda á hvert lið og að liðið sem endi í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar muni fá um £100 milljónir í sinn hlut!

Ég er mjög hlynntur þessari jöfnu skiptingu í úrvalsdeildinni. Í La Liga hafa félög samið hvert fyrir sig (nokkur minni reyndar saman en það er önnur saga) sem skilar sér í miklum ójöfnuði. T.a.m. fengu Barcelona og Real Madrid um €140 milljónir í sinn hlut á meðan Atletico Madrid fékk ekki nema €42 milljónir og liðið í neðsta sæti, Almeria, fékk ekki nema €18 milljónir sem eru tæp 20% af þeirri fjárhæð sem að neðsta sæti ensku úrvaldreildarinnar kemur til með að fá 2016/17! Þetta er ástæða þess að enska úrvalsdeildin er erfiðasta deild í heimi, þó að sterkustu lið í heimi séu ekki endilega þar, enda hafa Real Madrid, Barcelona og Bayern gríðarlegar tekjur af sjónvarpssamningum ofl. Þessu fyrirkomulagi er blessunarlega búið að breyta á Spáni frá og með 2016/17, nú selur deildin sjónvarpsréttinn fyrir öll félögin og dreifir tekjunum jafnt með sama hætti og gert er í EPL.

Það má fastlega búast við að áhrif þessa samnings muni vera þau sömu og sá síðasti hafði. Verðbólga á leikmannamarkaðnum og ég myndi gefa því 2-3 ár þar til að launakostnaður félaga hefur náð sama hlutfalli af tekjum og hann stendur í dag. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessi þróun verður ásamt áhrifum Brexit þegar fram líða stundir.

  • Tekjur á leikdegi

Tekjur á leikdegi jukust um tæp 6% á milli tímabila, þrátt fyrir að meðalfjöldi áhorfanda hafi lækkað lítilega. Fer úr £59,0 milljónum í £62,4 milljónir. Þetta má rekja að mestu leyti til fjölda leikja Liverpool á síðustu leiktíð, en Liverpool fór auðvitað í úrslit League Cup og Europa League.

Tekjur á leikdegi eru minnsta sneiðin af þessari köku og eru um 20,7% af tekjum klúbbins. Það hlutfall er nokkuð svipað ef við skoðum hin topp 10 liðin sem eru í Deloitte Money League (samantekt Deloitte á tekjuhæstu knattspyrnufélögum í heimi). Þar eru Juventus og Manchester City með um 13% á meðan hin 8 félögin eru á bilinu 18-21%.

Þetta hlýtur að vera jafnframt sú tekjulind, ásamt sjónvarpstekjum með nýjum sjónvarpssamingi og með því að vinna sér þáttökurétt í Champions League,  sem að félagið sér fram á hvað mestu vaxtarmöguleikana í. Það má búast við talsverðri aukningu þarna á næstu árum í ljósi stækkunar Anfield. Þarna mun þó klárlega spila inn í sú staðreynd að Liverpool var ekki í Evrópukeppni 2016/17 og spilaði færri bikarleiki en 2015/16.

Það að Liverpool hafi ekki ráðist í að stækka völlinn eða byggja nýjan völl mikið fyrr hefur haldið aftur af klúbbnum. Ef við berum okkur saman við Arsenal þá er Liverpool með um £12,5 hærri auglýsingatekjur en taka að sama skapi inn £43,1 milljónum minna yfir tímabilið í tekjur á leikdegi. Stækkun Main Stand er vissulega skref í rétta átt en betur má ef duga skal.

  • Auglýsingatekjur

Auglýsingatekjur er eini tekjuflokkurinn sem er að lækka á milli tímabila. Fer úr £116,4 milljónum í £115,7 milljónir, sem er lækkun upp á -0,6%. Þessa lækkun má m.a. rekja til framkvæmda á Main Stand. Þetta hafði áhrif á skoðunarferðir og annað slíkt en félagið gerði samt sem áður samninga við 10 nýja styrktaraðila á tímabilinu, þ.á.m. Draftkings, Vixlet, Claymore Wines og Skype.

Þrátt fyrir þessa lækkun eru auglýsingatekjur enn um 38,3% af tekjum félagsins. Það er vert að benda á það að Liverpool er að fá s.a. £25,0 milljónir á ári fyrir samning sinn við New Balance. Samningurinn var gerður 2012/13 (þá við Warrior) og er til 2018, m.v. verðlag í fótboltanum þá má ætla að markaðsvirði slíkra samninga sé um 50% hærri í dag en það var 2012/13 (byggt á raun tekjuaukningu félagsins á þessum árum).

Samningar sem aðrir klúbbar hafa verið að gera á síðustu árum (2015-2017) eru £60-100 milljónir á ári, en varast skal að bera sig saman við aðra klúbba, ekki alltaf verið að bera saman epli og epli (eins og t.d. samningur Manchester United var við Adidas, þar kemur inn ákvæði er tengjast ágóða af treyjusölu o.fl.).

Það er kannski ákveðin mótsögn í því en þrátt fyrir smávægilega lækkun á milli tímabila þá er þetta sá flokkur sem bæði sýnir hve stórt félag Liverpool FC er þrátt fyrir að vera meira og minna utan Champions League síðasta áratug (þeir eru n.b. eini klúbburinn í topp 10 lista Deloitte Money League sem ekki spilar í Champions League) sem og sérflokk Manchester United í dag ef maður skoðar 10 tekjuhæstu klúbba Evrópu. Auglýsingatekjur þeirra voru £272,1 milljónir á síðasta tímabili samanborið við okkar £115,7 milljónir sem er ótrúlegur munur, enda er Manchester í algjörum sérflokki hvað þetta varðar (meira um það í næsta pistli). Liverpool hefur þó verið með hærri auglýsingatekjur en Chelsea, Juventus og Arsenal síðustu árin.

“It’s not the employer who pays the wages. Employers only handle the money. It’s the customer who pays the wages”

Random tilvitnun dagsins. Ég er samt ákaflega hrifin af henni, ekki síst í ljósi hækkandi miðaverðs og þeirri gjá sem er vissulega til staðar á milli klúbba og stuðningsmanna, sérstaklega í ensku úrvalsdeildinni.

Langstærsti kostnaðarliður Liverpool FC er launakostnaður. Þegar FSG keypti klúbbinn voru launin 73,4% af tekjum félagsins sem er hættulega hátt hlutfall, ekki síst í ljósi þess að þeir tóku við leikmannahóp með tiltölulega háum meðalaldri. Það tók FSG um 3 ár að ná tökum á launakostaðinum og var hann kominn niður um tæp 10% á tímabilinu 2012/13 og nam þá 64,2% af tekjum félagsins. Síðan þá hafa tekjurnar aukist mikið, eins og áður var rakið, og laun lækkað í sama hlutfalli:

Eins og ég kom inn á í inngangi pistilsins þá var gríðarlega mikil launahækkun á milli tímabila og hefur launakostnaður ekki verið jafn hátt hlutfall af tekjum síðan 2011/12 eða 69,0%. Aukning á milli tímabila eru heilar £42,2 milljónir punda sem gerir hækkun upp á heil 25,4%. Til að setja þetta í samhengi þá er þessi hækkun um 14% af veltu félagsins!

Þessir menn eru þó engir asnar og það má gera ráð fyrir að þeir hafi verið búnir að gera ráð fyrir nýja sjónvarpssamingnum þegar farið var í fjárfestingar síðustu tveggja ára. En tekjuaukning vegna þessa nýja samnings verður á bilinu £40-50 milljónir punda eins og áður var rakið. Með aðrar stærðir nokkuð jafnar á milli ára má sjá fram á að launakostnaður næsta tímabils verði nær 59,0% af veltu félagsins heldur en núverandi 69,0% sem er mjög svipað samkeppnisaðilum okkar (farið nánar ofan í það í næsta pistli).

Það verður þó að segjast að Liverpool verður að fá meira fyrir peninginn. Að vera að greiða £208,3 milljónir í laun (sem er n.b. hærri launakostnaður en Manchester City og Arsenal eru að greiða og helmingi hærra en þær £103,0 sem að Tottenham greiddu 2015/16), sem eru þriðju hæstu launin í ensku úrvalsdeildinni en að enda í 8 sæti er óásættanlegt.

FSG sem eigendur

Síðan að FSG keyptu Liverpool FC á tombóluverði í október 2010 hefur klúbburinn aðeins einu sinni endað ofar en 6 sætið, en það var leiktíðina 2013/14. Utan það tímabil hefur uppskeran verið fremur rýr. Klúbburinn hefur 1 sinni endað í 2 sæti, 2 sinnum endan í 6 sæti, 1 sinni endað í 7 sæti og 2 sinnum í 8 sæti. Tímabilið 2013/14 er undantekningin í þessari upptalningu og því spyr maður sig, hvers vegna er lið af þessari stærðargráðu sífellt utan Champions League? Getur það verið vegna þess að það eru nú þegar 3-4 ensk knattspyrnufélög sem að hafa hærri tekjur, greiða hærri laun og eyða hærri fjárhæðum í leikmenn en Liverpool eða ristir þetta dýpra?

FSG keypti Liverpool á um £300 milljónir. Sú fjárhæð er aðeins á reiki því hluti af kaupverðinu fól í sér uppgjör við RBS sem að öllum líkindum hafði í för með sér niðurfellingu hluta þeirra skulda sem voru í félaginu sem Hicks og Gillett stofnuðu utan um eignarhlut sinn í félaginu.

Ef skoðaðar eru veltutölur síðustu 5 ára þá er ljóst að þetta var einfaldlega tækifæri sem þeir gátu ekki hafnað.

Velta Liverpool FC á tímabilinu 2010/11 var £183,6 milljónir eða rúmur helmingur af kaupverðinu. Auðvitað verður að taka inn í dæmið að félagið var á barmi gjaldþrots og var að skila £40-50 milljóna tapi þrjú ár í röð. Veltan hefur síðan þá aukist um £118,1 eða 64,3% og ef við höfum í huga kaupverðið útfrá veltu félagsins í dag þá er það nánast á pari og m.t.t. þeirra framkvæmda sem eru í gangi, nýja sjónvarpssamningsins og annað sem ég hef rakið hér að ofan þá eru vaxtamöguleikarnir gríðarlegir og ljóst að klúbburinn færi eflaust fyrir a.m.k. tvisvar sinnum hærri fjárhæð en þá sem FSG greiddi í október 2010.

Skuldir félagsins eru að aukast gríðarlega mikið á milli ára eða um £101,5 (35,9%) og má rekja þetta að langmestu leyti til stækkunar Anfield. Kostnaður við stækkunina m.v. 31/5/2016 var kominn yfir £90,0 milljónir. Þessi stækkun er að mestu leyti fjármögnuð af FSG en fjármögnunin er í raun tvíþætt:

  • nýtt bankalán (skammtímaláni umbreytt í langtímalán) að fjárhæð £55,0 milljónir punda til ársins 2020 og ber 2,24% vexti.
  • lán frá FSG (félagi í þeirra eigu) upp á £59,6 milljónir punda og ber 1,24% vexti.

Þetta er nýtt hjá FSG. Það kom sérstaklega fram í 2013/14 reikningnum að lán eigenda væri vaxtalaust. Þessi klásúla var fjarlægð úr 2014/15 reikningnum en í 2015/16 reikningsskilunum eru veitta auknar upplýsingar þar sem fram kemur að lánið er nú vaxtareiknað. Það má ekki mála skrattann á vegginn strax og halda að þeir séu að fara Hicks og Gillett leiðina því þessir vextir eru nánast helmingi lægri en þeir vextir sem standa félaginu til boða á markaði við ótengdan aðila. Ársvextir þessa láns eru tæpar £1,4 milljónir en vextir til tengdra aðila námu um £14,0 milljónum til Hicks og Gillett þegar verst lét og eru greiddir vextir á tímabilinu 2015/16 mjög svipaðir og þeir hafa verið síðan 2011.

Ég skrifaði sambærilegan pistil 2014 um peningahlið Liverpool FC. Þá dró ég saman úr sjóðstreymi félagsins aftur til ársins 2010 þau skipti sem að FSG hafði komið með peninga inn í klúbbinn með beinum hætti.

FSG hefur ekki komið með fjármuni inn í klúbbinn síðan þá nema í formi lánveitinga sem í dag eru svo vaxtareiknaðar eins og áður var rakið.

Under promise over deliver

Mig langar að enda þessa samantekt á vangaveltum. Það er alveg ljóst að verðmæti klúbbsins helst i hendur við árangur. Spurningin er samt hver er fylgnin? Mitt álit, og það er eingöngu byggt á minni túlkun á störfum FSG hingað til, mínum skoðunum á ársreikningum félagsins síðan 2010 og þeim þráláta orðrómi um að Liverpool sé til sölu fyrir rétt verð, er að FSG eru allir af vilja gerðir til þess að gera Liverpool að besta félagi í ensku úrvalsdeildinni en það verður eingöngu á þeirra forsendum (smarter than the rest).

Ég leyfi mér að setja spurningarmerki við “mótiveringu” þeirra. Þeir hafa nú þegar hagnast gríðarlega á fjárfestingunni og sama hvort að Liverpool verði enskur meistari eða haldi áfram að sigla lygnan sjó meðalmennskunar þá mun FSG líklega fá tvöfalt ef ekki þrefalt til baka það sem þeir greiddu fyrir félagið á sínum tíma. Þeir hafa ekki verið að dæla peningum inn í félagið heldur hafa þeir séð um að fjármagna það með lánum og nema að þú sért Chelsea þá eru lán greidd til baka. Þeir sáu einfaldlega tækifæri og stukku á það.

Hvort að betri eigendur séu þarna úti á ég erfitt með að segja til um. FSG hefur í raun gert flest af því sem þeir ætluðu sér að gera og í raun verið sá eigandi sem flestir (margir) okkar óskuðu eftir á slæmum tíma í sögu félagsins. Þeir hafa greitt upp skuldir, klúbburinn er orðinn sjálfbær og þeir hafa loksins gengið í það mál sem hefur hangið yfir félaginu síðan fyrir aldamót, vallarmálin (spade in the ground og allt það).

Þegar við veltum þessari spurningu upp þá verðum við að gera okkur grein fyrir að hvað fjárhagshliðina varðar þá er módelið að ganga upp. Ef við viljum að eigendur liðsins eyði meiri fjármunum í félagið til þess að ná árangri í dag þá jú líklega þurfum við eigendur inn sem eru tilbúnir að leggja meiri fjármuni inn í félagið til þess að þeir geti keppt við lið sem hafa næstum helmingi hærri veltu en Liverpool FC. Þá erum við komnir meira í þennan sykurpabba eiganda sem margir hafa gagnrýnt síðustu ár og það er ekkert gefið að slík vegferð liggi til fyrirheitna landsins.

Viljum við aftur á móti ná árangri með öðrum hætti (og þeim rétta) þá tekur það tíma, eitthvað sem er ekki söngur í eyrum flestra stuðningsmanna eftir eyðimerkur göngu klúbbsins síðustu tvo áratugina eða svo. Spurning er bara hvort að innkaupastefna félagsins sé sú rétta ef við viljum síðari kostinn. Árangur liðsins m.t.t. tekna þess og launakostnaðar er ákveðin falleinkun á þessa stefnu en það er efni í allt annan pistil.

Við ættum samt að þekkja það að stundum er betur heima setið en af stað farið.

22 Comments

  1. Frábær innsýn og þokkalega idjótprúf málfar (allavega skil ég þetta nokkurn veginn). Það er mest um vert að tekjurnar frá 2013 hafa stóraukist og rekstur félagsins alls er mun heilbrigðari en hann var. Við vitum alveg að rekstur sykurpabbaliðanna er fullkomlega ósjálfbær og það er alltaf bara tímaspursmál hvenær þeir missa áhugann. Helvítið hann Abramovic virðist samt ætla að halda þessu gangandi í Lundúnum og svo eru auðvitað Man U, Arsenal og Tottenham (held ég) mjög vel rekin batterí þótt árangurinn á vellinum sé ekki fullkominn (fyrir stuðningsmenn þeirra). Það er alltaf þessi þolinmæði sem er svo snúin.

  2. Ekkert smá fróðlegt að lesa þetta og skemmtilegt, þið haldið áfram að toppa ykkur í pistlum og fleira! Algjörir fagmenn

  3. Vá, þið setjið ykkar eigin viðmið það má segja og skrifa. Hlakka til seinni hlutar greinarinnar.
    Takk.
    Björn I

  4. Frábærlega framsett og auðskilið – meira að segja fyrir leikmann í fjármálum.

  5. Nkl
    Frábær pistill.

    Fær mig til þess að verða ennþá sannfærðari um að FSG eru ekki réttir eigendur félagsins.

  6. Flottur pistill! Hvað með leikmenn eins og Markovich, geta þeir ekkert haft áhrif á rýrnun verðmæti leikmanna eða er það eitthvað sem sést ekki í bókhaldinu fyrr en eftir sölu?

    Ég bjóst ekki við því að launakostnaður okkar væri svona hár, sérstaklega þar sem við erum með frekar lítinn hóp.

    Mestar áhyggjur hef ég af getu okkar til leikmannakaupa. Hvað ætli við getum verið að bæta miklu við launakostnað? Kannski meðal laun (fyrir fótboltamenn allavega) fyrir 5- 6 leikmenn með evrópubolta? 3 – 4 án evrópukeppni? Svo er spurning hvaða áhrif kostnaður við nýtt æfingarsvæði mun hafa, minnir að hann sé einhverjar 50 milljónir punda.

    Takk fyrir góða lesningu, gefur manni mikið til að velta fyrir sér!

  7. Takk fyrir þennan frábæra pistil og að taka þetta svona vel saman.

  8. Takk fyrir hreint frábæran pistil Eyþór. Þvílík forréttindi að fá svona innsýn í klúbbinn okkar.

    Mér finnst FSG hafa staðið sig mjög vel og eru í raun góðir eigendur og rekstraraðilar. Vandinn er hins vegar sykurpabbarnir sem dæla inn “gefins” fjármagni og gera FSG illa samkeppnishæfa og jafnvel þannig að við stuðningsmennirnir viljum frekar “gefins” eigendur. Sárt en kannski satt.

  9. Mjög áhugavert.

    Það vekur athygli að uppsafnað tap frá 2011 er 70m þrátt fyrir sölu á Suarez og sterling.

    Svo er spennandi að sjá næsta reikningur kemur út. Áhrif Mr. Klopp ættu að koma í ljós sbr hreinsun í sumar og auknar tekjur.

  10. Sælir félagar

    Takk fyrir frábæran pistil Eyþór sem ég meira að segja skil svona nokkurn veginn. Það hefði verið aðhugavert að sjá hvaða leikmenn keyra svona upp launakostnaðinn hjá félaginu (Sturridge??) eða eru leikmenn LFC bara betur borgaðir yfirleitt? Hverja er hægt að losna við af launalistanum og hverju þarf að bæta við er svona spurning til framtíðar? Líklegt er að nýir og hærri sjónvarpssamningar muni hækka leikmannakostnað þar sem fleiri félög munu hafa peninga á markaðnum. En sem sagt takk fyrir mig.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  11. Athugið….. Liverpool – Real Madrid Legends að byrja núna kl 3…… í beinni á lfc tv og svo sýnt líka á youtube og facebook liverpool…

    tune in

  12. Frábær grein Eyþór.

    Ég vill aðeins koma inn á slúðrið með Coutinho. Það verður ábyggilega erfitt fyrir Liverpool að halda honum ef áhugi risanna á Spáni reynist réttur. Hvað eiga klúbbar að gera ef leikmenn vilja fara?
    Ég myndi samt vilja sjá Liverpool og önnur lið ef út í það er farið. Krefjast þess að fá leikmenn á móti frá Real, Barca og þessum liðum.
    Auga fyrir auga – ef þú vilt leikmann hjá mér, þá tek ég leikmann frá þér. Maður sér afskaplega lítið af svona viðskiptum í fótboltanum.

  13. Besti pistill sem hingað hefur komið inn. Mjög vel gerður í alla staði og er ég mjög sammála Eyþóri í uppgjörinu.

    “Þeir sáu einfaldlega tækifæri og stukku á það” er lykillinn hér og það hefur aldrei farið leynt að þegar þeir fengu LFC stórveldið á litlar £300m voru þeir í raun að hagnast um £600m+ strax. Þessi bréf sem menn gátu lesið í á milli eigenda FSG á þeim tíma sem þeir “stálu” LFC er það sem þeir hafa verið að gera síðan þeir tóku yfir klúbbinn. Styrkja rekstur, gera góða samninga og fita púkann á fjósbitanum þannig að þegar næsti milljarðamæringurinn langaði að eignast eintak af “Real Life” Football Manager væri Liverpool verulega góður kostur á £1000m+.

    Svo er það spurningin: “Hvort að betri eigendur séu þarna úti?” er svo spurningin. Þetta sem FSG eru að gera er virkilega flott og eiginlega eins og að á að reka klúbbinn til lengri eða skemmri tíma. Þeir þurfa ekkert að selja því það er hellings peningur í PREM en hvort þeirra áhugi sé á fótbolta eða bara að græða sem mest innan 6-10 ára og fara svo með allan peninginn til USA í Red Sox eða annað verkefni, eða halda þessu verkefni áfram. Ég tel seinni kostinn vera það sem þeir eru að gera.

  14. Við sjáum það best þetta sumarið ÞEGAR við seljum Coutinho hvað við eyðum í nýja leikmenn.

  15. Epic pistill takk.
    Mér finnst FSG bara búnir að standa sig nokkuð vel það er varla hægt að atast útí þá og þeir hafa gert það sem þeir hafa sagt ætla gera og það virðist heldur ekki ekki vera vandamál hjá þeim að eyða þegar það vantar réttu mennina.

    Manni finnst andrúmsloftið í kring um LFC mjög gott þessa stundina eina sem vantar sárlega það er fara ná í eitthverjar dollur sem allra fyrst en ég hef trú á Klopp og það sem þeir eru að gera svo lengi sem FSG styður dyggilega við bakið á Klopp og leyfir honum að gera það sem hann vill gera þá er ég sáttur.

  16. Það er alltaf eitthvað coutinho tal þegar hann fer að spila með landsliðinu. Síðast kom í ljós að hann er ánægður hjá okkur en núna segist Neymar vilja fá hann til Barcelona. Get ekki séð Neymar svara spurningu þar um með öðrum hætti án þess að vera dónalegur.

    En fínn pistill.

  17. Stórvirki ! Takk kærlega fyrir þetta.

    Ekki oft sem excel nördið og KOParinn í manni fá bæði sinn skammt…
    :O)

Árshátíð Liverpoolklúbbsins og Jamie Carragher

Peningamál 2017 (síðari hluti) – samkeppnisaðilarnir