Sheyi Ojo lánaður til Glasgow Rangers (Staðfest)

Fyrstu formlega leikmannaviðskipti sumarsins hjá Liverpool áttu sér stað fyrr í dag þegar að ungliðinn Sheyi Ojo var lánaður norður yfir landamærin til að spila fyrir bláa helming Glasgow-borgar undir leiðsögn goðsagnarinnar Steven Gerrard.

Lánssamningurinn hafði legið í loftinu síðustu vikuna og orðrómur var um að við sama tækifæri myndi Ojo framlengja sinn leikmannasamning við Liverpool en það hefur þó ekki enn verið staðfest. Slíkt hafði hann þó gert sumarið á undan er hann fór á láni til Frakklands og reimaði skóna fyrir Reims í Ligue une. Þau vistaskipta voru þó ekki heillaspor fyrir Sheyi en hann spilaði eingöngu 3 byrjunarliðsleiki í deildinni með engu marki skoruðu og að viðbættum mörgum innkomum af bekknum samtals 486 mínútur.

Honum hafði því miður ekki tekist að fylgja eftir ágætum en þó kaflaskiptu lánstímabili veturinn 2017-18 fyrir Fulham í Championship sem endaði með uppkomu liðsins í úrvalsdeildina. Í þeim uppgangi lagði hann sitt að mörkum með 4 deildarmörkum og 1.422 spilamínútum í 22 leikjum og þar á meðal góða markatvennu í 5-4 sigri á Sheffield United:

Hvort sem að Sheyi Ojo á enn raunhæfan möguleika á að vera leikmaður LFC í framtíðinni skal ósagt látið en í það minnsta þá er það allra hagur að hann nái að láta ljós sitt skína hjá Gerrard og Rangers líkt og Ryan Kent gerði með fantafínum árangri á nýliðnu tímabili. Ojo hefur óneitanlega hæfileika sem að enn hefur ekki náðst að hámarka og sem vitnisburð um það hefur hann á ferilskránni heimsmeistaratitil með Englandi í U-20 ára landsliðinu árið 2017.

Hann sýndi ágætan efnivið sinn á fyrsta tímabili Klopp 2015-16 þegar mannekla og velgengni í Evrópu gáfu honum glufu fyrir 4 deildarleiki í byrjunarliðinu og samtals hefur hann spilaði 13 leiki fyrir meistaraflokk Liverpool. Þar á meðal setti hann þessa snuddu í FA bikarleik gegn Exeter:

Það verður í það minnsta vel þess virði að hafa annað augað á leikjum Rangers undir stjórn Gerrard næsta vetur með Ojo á öðru vængnum og sér í lagi ef að Ryan Kent stillir sér aftur upp á gagnstæðum væng. Sheyi getur því fagnað nýju og spennandi atvinnutækifæri í 22 ára afmælisveislu sinni á morgun og vonandi sjáum við strákinn blómstra í landi köflóttra Skotapilsa og djúpsteikts Mars-súkkulaðis.

YNWA

Ein athugasemd

  1. Eins og staðan er núna þá er erfitt fyrir svona menn að komast í byrjunarliðið hjá okkar mönnum. Ég vona því að þessir menn standi sig vel þar sem að þeir eru á láni og verða svo seldir fyrir góða upphæð eins og gæti t.d. gerst með Marko Grujic eða komist í liðið okkar sem að er þó ólíklegra eins og staðan er núna.

    2

One Ping

  1. Pingback:

Opinn þráður – Hvað er að gerast á markaðnum?

Frábært tímabil – Uppgjör Kop.is 2018/19