Liverpool 2-0 Chelsea

Tek boltann fyrir Óla sem er rétt eins og Liverpool alltaf að vinna – Einar Matthías. 

Þetta er leikur sem við höfum haft hugan við mest allt þetta tímabil. Samlíkingar við þessa viðureign árið 2014 voru óhjákvæmilegar og óþolandi. Andstæðingar Liverpool, ekki síst þeir sem starfa í fjölmiðlum hafa varla talað um annað en vendipunktinn í leiknum 2014 en varla minnst á það sem líklega varð Liverpool að falli í þeim leik, fjarveru Jordan Henderson. Hann var svo sannarlega með í dag og spilaði eins og hann væri fyrirliði Liverpool.

Gangur leiksins

Fyrri hálfleikur var ógeðslega erfiður, Liverpool stóð sig svosem ágætlega gegn þéttum og öguðum varnarpakka Chelsea en þar sem ég er fyrir lifandis löngu farinn á taugum var þetta aðalega erfitt fyrir mig, ekki liðið. Enn einn auðveldur sigur Man City fyrr um daginn hjálpaði ekkert en hann gerði það líka að verkum að Liverpool einfaldlega varð að vinna í dag. Ef við vinnum ekki titilinn í ár var a.m.k. ekki í boði að tapa honum í þessum leik.

Fabinho var áfram djúpur á miðjunni með Henderson og Keita fyrir framan sig og það snarbreytir Liverpool sóknarlega. Chelsea var í bullandi vandræðum og spiluðu mjög djúpt mest allan hálfleikinn. Þeir áttu samt nokkur hættuleg upphlaup sem lítið varð úr. Edin Hazard var fremstur í dag með Hudson-Odi og Willian á vængjunum. Flott mál fyrir Liverpool enda Hazard allt annar leikmaður á vængnum þegar hann hefur meira pláss og fær boltann meira. Hversu oft hefur hann átt sinn besta leik á tímabiliinu gegn Liverpool í þeirri stöðu? Kanté er svo bara í alvörunni ekki djúpur miðjumaður í Sarri-ball, alveg galið en er frábært mál fyrir okkur sem höldum ekki með Chelsea.

Staðan var 0-0 í hálfleik og ljóst að Klopp þurfti að fá sína menn til að bera boltann hraðar upp völlinn. Chelsea var búið að tefja í öllum föstum leikatriðum og ljóst að þeir voru fyrst og fremst mættir til að halda stiginu. Þeir urðu reyndar fyrir áfalli í fyrri hálfleik þegar Rudiger tæklaði sjálfan sig og tjónaði eitthvað hnéð á sér þannig að hann þurfi að fara af velli.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri, Liverpool miklu meira með boltann og áfram líklegri. Anfield Road var gjörsamlega frábær allar 90 mínúturnar, sannkölluð Evrópuleikjastemming og þakið fauk af húsinu þegar Jordan Helvítis Henderson komst upp að endalínu eftir frábært uppspil í gegnum vörn Chelsea og kom blöðrunni fyrir á Sadio Mané sem skallaði af öryggi í netið. Þvílíkur léttir, þvílíkur karakter í þessu liði. Besta við þetta mark var að Reynir sem horfði á leikinn með mér var að pissa akkurat þegar Mané skoraði, ég þarf mjög líklega að smúla baðherbergið eftir hann en hvað um það.

Það var ekki nokkur maður sestur á Anfield eftir þetta mark þegar Van Dijk sendi á Salah sem fann smá pláss á hægri vængnum og svoleiðis hamraði boltanum beint upp í Samúel Örn Erlingsson af 357 metra færi. Hann er búinn að senda hvern boltann á fætur öðrum í dauðafæri á markmanninn undanfarið og varla drifið yfir fyrsta varnarmann í hornspyrnum, svo gerir hann bara þetta upp úr þurru. Troðið þessu upp í nýfundið svartholið á ykkur sprengju-rasista-syngjandi-lægsti-nefnari-samfélagsins-wannabe Millwall stuðningsmenn Chelsea sem nú þegar er búið að banna frá fótboltaleikjum.

Tvö – núll og allt fullkomlega vitlaust á Anfield. Þetta gerði það að verkum að Sarri þurfti að taka Chelsea úr handbremsu, Higuain kom inná og Hazard fór í sitt náttúrulega umhverfi. Hann minnti svo sannarlega á sig nánast um leið og hann skipti um stöðu og komst einn í gegn en Alisson lokaði vel á hann og skot hans fór í stöngina. Skömmu seinna fór Chelsea aftur illa með rangstöðuvörn Liverpool og komu Hazard aftur í gegn en Brasilíu-Alli sá við honum. Chelsea opnaðist töluvert hinumegin einnig en ekkert varð úr sóknaraðgerðum Liverpool.

Chelsea var með yfirhöndina í rosalegar tíu mínútur eftir mörk Liverpool en þegar Hazard nýtir ekki svona færi vinnur Chelsea ekki á Anfield Road. Klopp áttaði sig á taktískum breytingum Sarri og henti Wijnaldum inná til að loka þessu áhlaupi Chelsea sem og hann gerði. Milner kom líka inná fyrir meiddan Henderson sem þó labbaði útaf. Erfitt að meta hvort hann var meiddur eða bara éta niður klukkuna. Hann fékk í það minnsta verðskuldað standandi lófaklapp.

Chelsea var fullkomlega bensínlaust undir lokin, sigraðir af betra liði þó þetta hafi verið betra frá þeim en oft undanfarið.

Geggjaður 2-0 sigur og síðasti topp 6 mótherji Liverpool í vetur.

Maður leiksins

Heilt yfir mjög góð frammistaða hjá Liverpool liðinu. Þessi miðja er mjög grimm í pressuvörn og færir liðið ofar á völlinn í anda þess sem við sáum ítrekað á síðasta tímabili. Fabinho og Keita eiga alveg sinn þátt í því með Jordan Henderson sem þó hefur verið lykillinn í síðustu tveimur deildarleikjum og það var hann sem fann leiðina í gegnum vörn Chelsea í dag. Miðjan hjá Chelsea er gríðarlega vel mönnuð og þetta tríó fékk heldur betur að vinna fyrir kaupinu sínu í dag. Eins var klárlega kominn tími á Wijnaldum eftir klukkutíma leik og frábært að eiga Milner líka til að sjá út síðasta korterið. Henderson stóð samt uppúr í dag og fær nafnbótina maður leiksins.

Firmino, Mané og Salah voru engu að síður allir frábærir í dag, Salah setti mark tímabilsins og var mjög ógnandi í leiknum. Mané braut ísinn og Firmino vann á við N´Golo Kanté. Vörnin hélt svo hreinu þó lukkan hafi vissulega verið með þeim á kafla í seinni hálfleik.

Slæmur dagur

Gáfnaljósin sem sungu níðsöngva um Salah í aðdraganda þessa leiks, Salah tróð gammosíum upp í þá með þessu marki. Spáið í því að fara til Tékklands til að styðja Chelsea í leik sem hefur ekkert með Liverpool að gera en syngja samt um Salah. Sýnir vel hversu uppteknir stuðningsmenn annarra liða eru af Liverpool, þetta er bara eitt af mímörgum dæmum.

Stuðningsmenn Chelsea sem sungu meira um Steven Gerrard en sitt eigið lið fá einnig honurable mention.

Eftir svona risasigur, svona rosaleg mörk og ekkert mark fengið á sig kemur ekki til greina að tilnefna neinn úr okkar liði í dag. Þvílíkt lið sem við erum með. Það langbesta sem við höfum nokkurntíman haft í úrvalsdeildinni, stigataflan staðfestir það.

Umræðupunktar

 • Pressan var á Liverpool eftir sigur City í dag og þessi sigur breytir ekki stöðunni í deildinni frá því sem hún var í morgun. City þarf ennþá einhversstaðar að tapa stigum og Liverpool má ekki misstíga sig.
 • Liverpool var samt að klára risaleik og síðasta leik tímabilsins gegn einum af topp sex risunum í deildinni. Man City var að klára skyldusigur gegn liði sem stjórnað er af mesta eilífðarlúser í sögu enska fótboltans. Roy Hodgson gæti stýrt þessu Man City liði niður í 49 stiga tímabil, (Liverpool var með 25 stig eftir 20 leiki þegar hann var rekinn frá félaginu, einn besti árangur Hodgson í deildinni).
 • Næstu tveir leikir Liverpool eru gegn Cardiff úti fjórum dögum eftir útileikinn í Portúgal, engin Evrópuþynnka í boði þar. Þar á eftir er það föstudagsleikur á Anfield gegn Huddersfield. Man City á Tottenham á laugardaginn sem kemur í kjölfarið á seinni leik liðanna í Meistaradeildinni á miðvikudaginn. Þeir eiga svo Man United á Old Trafford tveimur dögum áður en við mætum Huddersfield. Þeir geta algjörlega unnið alla þessa leiki, en pressan er well and truly á þeim núna.
 • Liverpool er með 85 stig eftir þennan leik eða stigi meira en liðið fékk 2014 og stigi minna en liðið var með 2009. Það eru fjórir leikir eftir og enginn af þeim gegn efstu liðunum sex! Það þurfti gjörspillt Olíuríki og áður óþekkta stærðargráðu af financial doping til að koma í veg fyrir að Liverpool væri fyrir löngu búið að vinna þessa deild í vetur.
 • U23 ára liðið spilaði fyrr í dag sem væri kannski ekki frásögufærandi nema fyrir það að þar byrjðu allir þeir sem hafa verið í langtímameiðslum í vetur. Ox, Gomez og Brewster sem skoraði og lagði upp í 6-0 sigri. Það væri rosalega gott að fá Gomez inn núna fyrir síðustu leikina, vonandi kemur hann eitthvað við sögu í Portúgal.
 • Maggi á afmæli í dag, Liverpool hefði aldrei vogað sér að tapa stigum í dag.
 • Að lokum þá er rétt að minna á að á morgun eru 30 ár frá Hillsborough harmleiknum og var þess auðvitað minnst á Anfield í dag.

Einar Matthías

25 Comments

 1. Sælir félagar
  Sanngjarn sigur okkar manna og þreytan var greinilega farin að bíta bláliða í restina. Grunsamleg vináttulæti við Eden Hazard og vekur hjá mér grunsemdir um að Torgan bróðir hans sé á leiðinni til Liverpool – svona ef maður les í látbragð og hvað Hazard var nákvæmlga sama um þennan leik. Það er auðvitað ekkert leiðinlegt fyrir hinn Hazard bróðurinn að vera að koma til englandsmeistaranna í sumar. Markið hjá Salah var nottla alger öskrari.

  Vörnin sofnaði tvisvar á verðinum og einhverntíma hefði Grasmaðkurinn skorað ú báðum þeim færum. En Alisson var vel vakandi og hitt fór stöngin út eftir að Alisson hafði þrengt skotvinkilinn verulega. Allir að spila vel og varamenn komu vel inn í leikinn. Ekki hægt annað fyrir alla Púllara en vera helsáttir við þetta stórkostlega lið sem Klopp og félagar eru að búa til.

  Það er nú þannig

  YNWA

  39
 2. Wooohooo! Gat ekki horft á leikinn en fylgdist með textalýsingu. Er þetta árið??

  8
 3. 3 feit stig og mjög vel spilaður leikur að mestu leiti. Salah með frábært mark og við höldum hreinu !

  Yfir til shitty !

  7
 4. Sæl og blessuð.

  1. Salah er maður leiksins. Sturlað mark, eitt af mörkum tímabilsins reyndar, og hann átti mikinn þátt í fyrramarkinu.
  2. Alison, Mane, Firmo, Hendo, Virgill, Fabinho og Robertson í annað sætið? Take your pick.
  3. Trent, Keita og Matip eru einhverjum sjónarmun á eftir þeim. Ef óheppnin hefði elt okkur þá hefðu þeir jafnað með tveimur ódýrum mörkum og Keita var góður en vantaði smá sinnep í hann.

  Glæsilegur sigur og ég er viss um að ,,slip” Robertsons hafi verið gjörningur til að reka burt bölvunina sem kom yfir liðið í viðureign sömu liða fyrir fimm árum.

  25
 5. Stórkostlegur sigur og 3 stig.

  Chelsea liðið var komið til að skemma partýið, þeir settu í 11 manna varnarpakka og ætluðu að loka öllu. Fjölmiðlar sem þola ekki Liverpool kepptust við að skrifa greinar um að liverpool tapaði meistaratitlinum 2014 gegn Chelsea og var eins og að liðið átti að keppa við fortíðar drauga í leiðinni.
  Liverpool undir stjórn Klopp spilar ALLTAF í núinu og eru ekki að pæli í fortíð sem ekki er hægt að breyta eða framtíð sem ekki er hægt að hafa áhrif á í dag.

  Við unnum sangjarnan sigur gegn gríðarlega vel skipulögðu Chelsea liði. Við stjórnuðum leiknum nánast allan tíman ef frá eru taldar 10 mín eftir að við komust í 2-0.
  Þá finnst mér við hafa verið of gráðugir en Chelsea fékk nokkur dauðafæri og hefði maður viljað sjá bæði Andy og Trent aðeins að róa sig í hlaupunum fram en Chelsea náðu að keyra á okkur með Trent/Andy hvergji í mynd.

  Salah átti eitt af mörkum tímabilsins og Henderson sem var maður leiksins ásamt Salah lagði upp frábært mark fyrir Mane.

  4 leikir eftir og sorglega er að það er ekki víst að sigur í þeim öllum dugi til að vinna deildina en djöfull er maður stoltur af þessu liði og ef við vinnum ekki titilinn með 90+ stig þá er erfitt að vera fúll út í strákana okkar.

  YNWA – Nú er bara að gleðjast yfir þessu og mæta svo og klára Porto á miðvikudaginn með hausinn vel skrúfaðan á.

  17
 6. Viss um að næsti póstur Einars Matthías verður að sundur greina næstu leiki liðanna hehe en prógrammi? er –
  Liverpool: Cardiff (u) Hfield (h) Ncastle (u) Wolves (h)…þetta eru alveg mõgulega 12 stig

  City: Spurs (h) United (u) Burnley (u) Leicester (h) Brighton (h)….ég held að þeir taki ekki 15 stig út úr þessu.

  Helvíti var þetta stór 3 stig YNWA

  10
 7. Mér finnst að það hefði mátt vera meiri sól. Annars bara góður.

  12
 8. Hrikalega sterkt skref.
  Menn eru ekkert að grínast. 110% einbeiting og elja.

  Vonandi að Hendo sé í lagi, sá er að taka endasprettinn í áttunni.

  Salah, svona svarar maður fíflum, booom.

  City gætu klárað þetta en það yrði afrek aldarinnar miðað við stöðuna.
  70% líkur að svo verði ekki.

  Næst að klára Porto, áram með smérið.
  YNWA

  6
 9. Núna er maður gjörsamlega að fara á taugum… Shíti eiga spurs næst og svo manhjú. Við spilum bara við Cardiff á milli þessara leikja. Klárum hann og þá væntanlega/vonandi verður komin önnur staða í þessu rosalegasta einvígi sögunnar!

  Ég hef trú á þessu og vil að allir aðrir hafi það líka.

  27
 10. Magnað þetta lið okkar, og mörkin hreint út sagt frábær. Komnir á toppinn aftur, og vonandi að þessu jójói fara nú að ljúka. Koma svo bara Reds!!

  YNWA

  6
 11. Eins og staðan er í dag þá er Liverpool eitt besta lið í heiminum í dag, þvílík mörk og allt liðið að spila þrusu vel.
  Salah og Aquero leiða markatitilinn með 19 mörk og engin annar en Mane með 18 kvikindi á eftir.

  Ég trúi að þetta verður árið okkar YNWA.

  12
 12. One season wonderið maður hahahaha djufull er þessi gaur búinn að troða feitum sokk uppí efasemdamenn og flott að svara þessum mógúlum hjá Chelsea með screamer ársins hahahaha djufull er þetta sætt.

  12
 13. eftir að syna svona mikið klassaleysi með þessum rasistasöngvum er maður ánægður með að sjá stuðmingsmenn chelsea hofa á tapleik, og ánægður með að ólikt síðast þegar Mo skoraði gegn þeim, þá fagnaði hann markinu núna.

  8
 14. ég held að við séum komnir með þetta, pressan er orðin gríðarleg á city núna.

  hugsa að tottenham og united fari ílla með þá.

  10
 15. Það var kannski eitthvert smá sannleikskorn í þessu hjá Chelsea-rasistunum, því þetta mark var náttúrulega algjör bomba!!

  29
 16. Þegar moldríkur Olíugálki frá Saudi Arabíu keyptu Man City, í einni af kaupferð sinni til Englands, var ég sannfærður um að allri keppni í enskri knattspyrnu væri lokið. Ég stóð í þeirri meiningu að Man City tæki yfir fótboltaheiminn og yrði innan tíðar stærsta lið veraldar. Áhyggjur mínar voru ekki ástæðalausar. Einn ríkasti maður veraldar hafði keypt klúbbinn og var margfallt ríkari en Roman Abramovich, eigandi Chelsea.

  Í kjölfarið flæddi stjarnfræðilega háum fjárhæðum inn í klúbbinn, stórstjörnur voru keyptar á hverju ári og það var augljóst að önnur lið gætu ekki boðið þeim verðmætara salt í grautinn sinn öðruvísi en að fara á hvínandi kúpuna.

  Það sem verra var að þeir sem standa á bak við fjáraustrið voru engir vitleysingar þó deila megi um siðferði þeirra. þeir þekkja allar kungstir bjúrókratana og bókhaldsbrellur viðskiptabransans og léku sér að því að fara á bak við reglur sem voru settar til að spornast gegn svimandi háu verði á hágæðaleikmönnum og héldu áfram að kaupa allt sem þeim sýndist.

  Þegar Gardiola tók við klúbbnum gerðust augljósar framfarir á hans öðru ári. Þá var komið fram fullmótað stórlið,drápsvél sem valtaði yfir flesta andstæðinga sína eins og þeir væru kökudei og náðu þeir þeim stórmerka árangri að komast upp í 100 stig.

  Á þessu tímabili er Liverpool samt sem áður tveimur stigum á undan þessu liði sem á köflum virðist vera hálf útopískt. Liverpool er 85 stig þó enn séu fjórar umferðir eftir og gæti endað tímabilið með 97 stig en samt ekki unnið titilinn sem verður að teljast ótrúlegt. Samkvæmt öllu eðlilegu ætti liðið að vera komið með fjóra fingur á meistaratitilinn um þessar mundir en þarf þess í stað að treysta á að Man City misstígi og það er ágætlega raunhæft því Man City á eftir að keppa við tvo andstæðinga sem eru býsna sterkir og ef þeir glutruðu aðeins einum leik niður í jafntefli gætu okkar menn unnið titilinn.

  Fyrir mér yrði það magnaðasti árangur Liverpool fyrr eða síðar ef liðið endaði með 97 stig, jafnvel þó liðið endaði í öðru sæti. Mín skoðun er sú að enska deildin í dag er sú sterkasta í heimi og Man City gæti þessvegna á næstum árum orðið svipað stórt á Englandi og Bayern Munich er í þýskalandi.

 17. Það er eitthvað stórkostlegt að gerast hjá liðunu sem við elskum allir og þráum svo heitt að vinni loksins Englandsmeistaratitilinn. Liðið er ekki svona heppið af ástæðulausu eða hvað haldið þið. Við skorum ekki sláinn inn gegn Everton á lokasekundúndunum í leik gegn Everton rétt fyrir áramótin og náum að knýja Lloris till mistaka á lokaminutum í leik gegn Tottenham um daginn og í dag stöngin út hjá Hasard til að verða í öðru sæti !!!! Ég bara neita að trúa því. Liverpool gerir ekki út um sigur í deildinni með hnífinn á barkanum ! Ég trúi því að bæði Tottenham og Man .United í stigaþörf til að ná inn í Meistaradeildina að ári sjái til þess. Ef allt gengur eftir komum við að spila um titilinn í síðustu leikvikunni og um sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. JÜRGEN KLOPP hefur gert klúbbinn að stórveldi í evrópskum fótbolta að nýju ! Takk Klopp.

  13
 18. Takk fyrir þetta og frábær sigur gegn góðu liði. Óþarfi samt að gera lítið úr R Hogdson sem er nú ekki alltaf með bestu liðin í höndunum. Mér þætti gaman að sjá td Pep G stýra svipuðum liðum, manni sem fær alltaf bestu liðin upp í hendurnar og þarf nánast ekki að gera neitt. Nei MC liðið er það gott að nánast hvaða bjálfi sem er væri með slíkt lið í toppbaráttu.
  Annars allt frekar jákvætt eftir þennan leik…
  …2 stiga forysta
  …menn virðast vera klárir að berjast til loka
  …Salah að hrökkva í markagírinn
  …halda hreinu sem hefur gengið frekar illa eftir áramót
  …Hendó mjög góður þriðja leikinn í röð
  …sennilega er minna stress í Klopp er var í jan
  …þetta lið okkar er alltof gott til að fara titlalaust í gegnum veturinn
  …síðan núverandi deildarkeppni var tekin upp með 20 liðum (nú tímabil nr 24) hefðu 85 stig 18 sinnum dugað til sigurs
  Ef finna á eitthvað neikvætt…
  …bara 2 stiga forskot
  …smáhnjask hjá Hendó?
  …þó ótrúlegt sé þá getur Liverpool náð 97 stigum en óvíst er að það dugi til sigurs.

  3
 19. Alveg rétt hjá Tomma hér að ofan, þetta skot frá Salah var auðvitað bara B O B A.

  Það er náttúrulega alveg svakalegt að hugsa til þess að það verði að öllum líkindum tvö lið með 90+ stig í lok tímabilsins, og að annað þeirra verði ekki meistari. Þess vegna vil ég hvetja alla til að sjá fyrir sér skýrt og greinilega Jordan Henderson lyfta bikarnum á loft í lok leiktíðar. Það er þangað sem Klopp, leikmenn, og við aðdáendur erum að stefna.

  Bara svo það sé á hreinu: þessir síðustu fjórir leikir í deildinni eru ekkert unnir fyrirfram. Svo fjarri því. Cardiff hefðu nú með réttu átt að vinna Chelsea, og eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Jújú, Huddersfield eru fallnir, en er það ekki oft þannig að eftir að lið eru formlega fallin að þá sé eins og þungu fargi létt af leikmönnum? Rafa hefur ekkert verið þekktur fyrir að tapa viljandi, og leikirnir við Newcastle alltaf eftirminnilegir. Og þó Úlfarnir séu ekki í top 6 þá eru þeir líklega eitt besta liðið sem kemur þar á eftir. Það mun enginn bikarúrslitaleikur bíða þeirra, og því ekkert til að trufla þeirra einbeitingu.

  Ég hef samt fulla trú á að Klopp nái að mótívera sinn mannskap í að tækla þessa leiki. Svo þarf bara að trúa því að City tapi stigum. Því þeir munu gera það.

  5
 20. Nú eru strákarnir okkar á leiðini, eða komnir til Porto, nema hvað. Ekki það að maður reikni með sömu sprengju og síðast, en trúin á þá er mikil, það er næsta víst.

  YNWA

Byrjunarliðið gegn Chelsea á Anfield

Upphitun: Meistadeildarslagur á Drekavöllum