FC Bayern

Fyrir utan hið stórkostlega mannvirki Allianz Arena heimavöll FC Bayern frá Munchen er Kurt Landauer torgið. Það er til heiðurs heiðursforseta félagsins og þeim manni sem lagði hvað mest grunninn að því veldi sem félagið varð eftir hans tíma. Saga hans hefur hinsvegar síður en svo verið í hávegum höfð og ekki fyrr en í seinni tíð sem félagið er farið að meta hans framlag.

FC Bayern var ekki stofnað fyrr en um aldamótin 1900 í tilefni af því að Knattspyrnusamband var stofnað í Þýskalandi. Stofnendur félagsins höfðu fram að því verið partur af MTV 1879 sem var frjálsíþróttafélag en eigendur þess félags bönnuðu knattspyrnudeild félagsins að ganga í hið nýja knattspyrnusamband og vildu vera án áhrifa knattspyrnunnar. Knattspyrna náði ekki fótfestu eins snemma í Þýskalandi og nágrannalöndunum og var af mörgum kallað enska veikin til að byrja með.

Árið 1913 var hinn 29 ára Kurt Landauer kosinn forseti félagsins. Hann hafði áður reynt fyrir sér sem leikmaður en pabbi hans bannaði honum að festast í því “starfi” og sendi hann til Sviss þar sem hann var lærlingur í banka. Tímasetningin gat ekki verið mikið verri enda var Franz Ferdinandi skotinn ári seinna sem leiddi af sér fyrri heimsstyrjöldina. Landauer fékk Járnkrossinn fyrir framlag sitt á stríðsárunum og tók aftur við sem forseti félagsins ári eftir að stríðinu lauk.

Landauer fór töluvert á móti straumnum sem forseti og lagði meiri áherslu leikmenn og þá sérstaklega unglingastarfið frekar en að byggja nýjan heimavöll líkt og margir af félagsmönnum (eigendum) FCB vildu á þeim tíma. Landauer vildi skapa félag sem spilaði í heild sinni sama fótboltann og skapaði sjálft megnið af sínum leikmönnum með því að kenna þeim ungum. Hann lagði áherslu á að gera Bayern að atvinnumannaliði sem hefur eflaust alls ekki verið auðvelt í Þýskalandi á millistríðsárunum. Hann vildi einnig fallegan fótbolta Ungverja frekar en kick & run fótbolta Englendinga sem flest félög horfðu til.

Hægt og rólega byggði hann upp öflugt lið sem var mjög sterkt í Bæjaralandi og Suður-Þýskalandi þar til á endanum árið 1932 að liðið vann titilinn í fyrsta skipti. Loksins eftir tæplega tuttugu ár og eina heimsstyrjöld tókst ætlunarverkið.  Landauer var engu að síður áfram einstaklega seinheppinn með tímasetningar því á sama tíma var Þjóðernissósíalíski þýski verkamannaflokkurinn, betur þekktur sem Nasistaflokkurinn að ná völdum í Þýskalandi.

Þjóðverjar hættu reyndar ekki að spila fótbolta eftir að Hitler komst til valda en ástæða þess að Kurt Landauer hefur ekki alla tíð verið í hávegum hafður í öllum sögubókum Bayern er sú að hann var gyðingur. Sama átti við um stjóra liðsins Richard “Little” Dombi  sem gerði þá að meisturum. Nasistar gáfu fyrirmæli þess efnis að allir gyðingar skyldu fjarlægðir úr félögum og landsliðum.

Bayern Munchen neitaði að reka sjálfviljugt sína meðlimi (gyðinga) enda bæði Landauer og Dombi gríðarlega vinsælir. Sú mótstaða var engu að síður skammgóður vermir þó líklega hafi enginn gert sér í hugarlund harmleikinn sem var í vændum. Þetta eru enda atburðir sem eiga sér stað 1933, heimsstyrjöldin braust út sex árum seinna.

Fyrstu útrýmingabúðir Nasista voru settar upp í Dachau þann 22.mars 1933 en Dachau er fimmtán kílómetra fyrir utan Munchen og telst í dag eitt af úthverfum borgarinnar. Þann sama dag sagði Landauer af sér sem forseti félagsins en Dombi fór stuttu seinna til Spánar og tók við Barcelona. Svipaða sögu var að segja af mörgum innan félagsins sem og auðvitað annarra félaga í Þýskalandi. Bayern var stimplað ‘Judenklub’ og gert það ljóst að allur framgangur félagsins yrði hindraður þar til allir gyðingar hefðu yfirgefið félagið. Það er t.a.m. talið að leikmenn Bayern hafi fengið mun verri og hættulegri stöður á vígvellinum en leikmenn hins Munchen liðsins í 1860.

Ofsóknir nasista stigmögnuðust árin fyrir stríð og í nóvember 1938 var Landauer handtekinn og sendur til Dachau. Honum var haldið í 33 daga en sleppt úr haldi þar sem hann hafði barist í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann flúði í kjölfarið til Genf í Sviss þar sem hann varði stríðsárunum. Þrír bræður hans og systir voru ekki jafn heppin sem og stór hluti af ættingjum hans.

Bayern var eðlilega í lamasessi á meðan t.d. nágrannar þeirra í 1860 með mun minni tengsl við gyðinga nutu töluvert meiri stuðnings. Fimm árum eftir að öllum gyðingum hafði verið bolað burt frá félaginu var farið í æfingaferð til Genf til að spila við landslið Sviss. Gestapo vissi af Landauer og tók skýrt fram að meðlimir Bayern mættu ekki hitta hann, en þar sem Sviss var hlutlaust land skellti Landauer sér á völlinn. Það þótti vera töluverð ögrun af hendi félagsins þegar allir leikmenn liðsins röðuðu sér upp og klöppuðu fyrir Landauer þegar þeir sáu hann í stúkunni. Hann var síður en svo gleymdur.

Tveimur árum eftir að stríðinu lauk sneri Kurt Landauer aftur til Munchen og var nánast um leið enn á ný kosinn forseti félagsins og var í fjögur ár. Hann var kosinn burt árið 1951 og lenti félagið í fjárhagslegum hrakningum í kjölfarið og féll um deild. Grunnurinn var hinsvegar góður og félagið skilaði sér fljótt upp aftur og tók yfir þýska boltann.

Það að Landauer hafi ekki verið gleymdur á meðan seinni heimstyrjöldin stóð sem hæst og hafi verið kosinn forseti aftur strax eftir stríð sýnir hversu virtur hann var hjá félaginu. Hafa ber í huga að þegar nasistar náðu völdum árið 1933 voru um 10.000 gyðingar í Munchen. Árið 1939 voru þeir orðnir tæplega 5.000 og árið 1944 er talið að sjö gyðingar hafi verið eftir í borginni. Eftir stríð sneru aðeins um þrjú hundruð aftur heim. Borgin var þar fyrir utan mjög illa farin eftir miklar loftárásir bandamanna á stríðsárunum.

Bayern rétt eins og fjölmargar aðrar þýskar stofnanir ákvaðu að grafa nasista tímann í opinberum gögnum eins og kostur var. Örlög gyðinga innan félagsins voru umorðuð þannig að aldrei var talað um gyðinga heldur t.d. “ekki-arískur” og þess háttar. Nasistatíminn var “pólitískir atburðir milli 1933 og 1945”. Lái það þeim hver sem vill að vilja grafa þennan part sögunnar, erfitt núna að setja sig inn í aðstæður þess tíma.

Það má ekki misskilja þetta þannig að félagið hafi reynt að strika Landauer úr sögubókum félagsins. Síður en svo en það er ekki fyrr en núna í seinni tíð sem hann hefur verið að fá þá virðingu sem hann á skilið.

Stærsta ástæðan fyrir því að hans þáttur hefur gleymst er einfaldlega sú að í seinni tíð hefur félagið skapað goðsagnir á færibandi og orðið langbesta lið Þýskalands og eitt besta lið í heimi.

Hugmyndafræðin sem Kurt Landauer innleiddi sem kjarnan i starfsemi Bayern kom sér vel er félagið var ekki boðið að vera með þegar Bundesligan var sett á laggirnar árið 1963. Félagið hafði ekki fjárráð til að kaupa nýja leikmenn og treysti því fremur á uppalda félagsmenn. Þessir uppöldu strákar lögðu grunninn að stórveldinu sem við þekkjum í dag og hafa með einum eða öðrum hætti stjórnað félaginu síðan.

Franz Beckenbauer, Gerd Müller, Sepp Maier

Það er ekki lengra síðan en 1963 að FC Bayern Munchen var ekki nógu stórt til að vera boðið að vera eitt af stofnmeðlimum Bundesliga. Þeir eru í dag of stórir fyrir þá sömu deild ef eitthvað er. Hinu liði borgarinnar 1860 Munchen var boðið að vera með í staðinn á þeim forsendum að þeir höfðu unnið Suður-Oberliga þá um vorið. Alls fengu fimm lið úr Suður-Oberliga þáttökurétt en þrátt fyrir að hafa náð þriðja sæti var Bayern ekki eitt þeirra. Rökin voru þau að hafa ekki tvö lið frá sömu borginni. Alls voru þetta sextán lið sem sameinuðust úr fimm landshluta- eða héraðsdeildum. Forráðamenn Bayern voru vægast sagt ekki sáttir við þessa niðurstöðu enda með betra lið en mörg þeirra sem fengu inngöngu.

Það var dýrt að vera ekki með í þessari nýju deild og Bayern þurfti að setjast aftur að teikniborðinu til að komast upp. Líklega var þessi bið lán í óláni fyrir félagið þar sem ungu strákarnir sem þeir gátu gefið sénsinn tóku hann svo hressilega að þeir tóku bókstaflega fyrir knattspyrnuheiminn.

Þrír leikmenn stóðu alla tíð uppúr.

Sepp Maier er einn besti markmaður í sögu Þjóðverja sem og auðvitað Bayern. Hann spilaði allann sinn 18 ára feril hjá félaginu og var markmannsþjálfari í önnur fjórtán ár þar sem hann skólaði m.a. Oliver Khan til.

Gerd Muller er ein mesta markamaskína sögunnar, 30 marka tímabil var vonbrigði hjá honum enda skoraði hann eitt tímabilið 67 mörk fyrir félagið sem er galið. Hann spilaði í fimmtán ár hjá félaginu. Þeirra Ian Rush eða Roger Hunt.

Frægastur af þeim og líklega mesti leiðtogi í sögu knattspyrnunnar var síðan sjálfur Franz Beckenbauer eða Der Kaiser. Hann vann HM bæði sem fyrirliði Þjóðverja sem og þjálfari þeirra. Meðal goðsagna er Franz Beckenbauer goðsögn og jafnan talað um hann í flokki með Pelé, Maradona og Cruyff sem einn af þeim allra bestu á síðustu öld.

Sagan hefði þó getað verið töluvert önnur því árið 1958 ákvað Franz Beckenbauer þá þrettán ára að ganga til liðs við 1860 Munchen þar sem hans uppeldisfélag SC 1906 Munchen var í fjárhagsvandræðum. Beckenbauer var stuðningsmaður 1860 og draumur auðvitað að spila fyrir aðallið félagsins. Það breyttist hinsvegar þá um sumarið í leik gegn 1860 Munchen. Beckenbauer lenti í útistöðum við Gerhard König varnarmann 1860 og snerist í kjölfarið hugur og kaus að ganga til liðs við Bayern.

Hann var því 18 ára þegar Bundesliga hóf göngu sína árið 1963 og naut góðs af því að margir af bestu leikmönnum Bayern vildu spila meðal þeirra bestu og skiptu yfir í Bundesliga lið. Ári seinna var Beckenbauer kominn í þýska landsliðið og á öðru ári hans í aðalliði Bayern fór liðið upp um deild.

Þetta unga og efnilega lið endaði í þriðja sæti árið 1966 og vann bikarinn. Tvítugur Franz Beckenbauer var jafnframt hársbreidd frá því að vinna Heimsmeistaratitilinn með landsliðinu þá um sumarið. Fyrsti Evróputitill félagsins fylgdi í kjölfarið er liðið vann Evrópukeppni Bikarhafa og reyndar bikararinn heima fyrir líka annað árið í röð.

Sex árum eftir að Bundesliga var stofnuð án Bayern vann félagið svo loksins titilinn (árið 1969) og reyndar bikarinn einnig enn eitt árið. Tveimur árum síðar opnaði hinn stórglæsilegi Ólympíuleikvangur í Munchen sem varð heimavöllur félagsins.

Nýr heimavöllur féll mjög vel í kramið og vann Bayern titilinn þrjú ár í röð í kjölfarið. Sigarnir heimafyrir voru þó ekki allt því öll þrjú árin sem Bayern vann titilinn fylgdu þeir því eftir í Evrópu og unnu Evrópukeppni Meistaraliða líka.

Kjarninn úr þessu frábæra liði var einnig kjölfestan í landsliði Vestur-Þjóðverja á sama tíma og ekki síður sigursælir með því liði. Vestur-Þýskaland vann Evróputitilinn árið 1972 og hlaut Franz Beckenbauer Ballon d´or nafnbótina í kjölfarið, sömu nafnbót og Muller hafði hlotið tveimur árum áður. Landsliðið rétt eins og Bayern liðið fylgdi sigrinum eftir á næsta stórmóti og vann HM á heimavelli í Munchen árið 1974.  Beckenbauer, Müller, Maier og Uli Hoeness spiluðu allir úrslitaleikinn gegn Johan Cruyff og félögum.

Þannig var grunnurinn lagður fyrir því stórveldi sem Bayern hefur verið alla tíð síðan. Der Kaiser fór til Bandaríkjanna árið 1977 en hann hafði árið áður aftur hlotið Ballon d´or nafnbótina. Sepp Maier tók við sem fyrirliði liðsins þar til hann hætti líka árið 1979. Gerd Muller var sá seinasti af þeim til að yfirgefa félagið en hann tók við bandinu af Meier árið 1979. Þeir komu upp saman og hættu allir á svipuðum tíma. Ótrúlegt tríó.

Hver veit hver saga Bayern hefði verið hefðu þeir fengið að vera eitt af stofnfélögum Bundesliga árið 1963. Beckenbauer, Müller og Maier hefðu mögulega ekki fengið jafn semma tækifæri eða tækifæri yfirhöfuð. Eftir þeirra tíma var Bayern aftur á ákveðnum krossgötum og komið í fjárhagsvandræði þrátt fyrir alla velgengnina.

Uli Hoeness

Uli Hoeness byrjaði að spila fyrir aðalliðið árið 1970 varð fljótt ein skærasta stjarna liðsins. Hann var lykilmaður í öllum titlum bæði Bayern sem og landsliðsins áður en hann neyddist til að leggja skóna á hilluna aðeins aðeins 27 ára gamall. Hann jafnaði sig aldrei almennilega eftir að hafa meiðst í úrsiltaleik Evrópukeppninnar tveimur árum áður.

Hann var þrátt fyrir það aðeins rétt að hefja leik hjá Bayern. Hoeness fór má segja beint af æfingasvæðinu heim í jakkafötin. Hann var ráðin framkvæmdastjóri félagsins 27 ára gamall.

Hoeness er líklega hinn eiginlegi arkitekt af því veldi sem Bayern er í dag. Hoeness frekar en bæði Kurt Landauer og Franz Beckenbauer þó allir hafi spilað veigamikið hlutverk. Hoeness var auðvitað stór partur af gullaldarliði Bayern þó hann hafi alla tíð verið aðeins í skugga félaga sinna. Framkvæmdastjórinn Uli Hoeness hefur hinsvegar allar götur síðan verið aðalmaðurinn hjá Bayern en er í dag jafnframt umdeildasti maður félagsins. Jant innan félagsins sem utan.

Hoeness kom fjármálum félagsins í lag og náði að gera alla stjórnun félagsins fagmannlegri. Hann fékk fyrrum goðsagnir til starfa hjá félaginu og hefur alla tíð verið mjög umhugað um að viðhalda þeim gildum sem félagið stendur fyrir, svona Boot Room hugsun. Flestir toppar félagsins í dag eru fyrrum leikmenn félagsins og m.a.s. er stjóri og aðstoðarstjóri liðsins báðir fyrrverandi leikmenn.

Enska deildin og seinna sú ítalska tóku yfir í Evrópuboltanum en Bayern tókst að viðhalda yfirburðum sínum heimafyrir og fóru að vinna titla aftur í kjölfarið á ráðningu Hoeness. Liverpool sá til þess að Bayern færi ekki í úrslit Evrópukeppni Meistaraliða 1981 eftir hörkurimmu í undanúrslitum. Paul Breitner og Karl-Heinz Rummenigge voru þarna búnir að taka við sem stjörnur liðsins og liðið stundum kallað FC Breitnigge. Rummenigge vann Ballon d´or bæði 1980 og 1981 þrátt fyrir að hafa ekki verið í sigurliði á stórmóti eða í Evrópukeppni.

Fótbolti breyttist töluvert í byrjun tíunda áratugarins og þá ekki hvað síst utan vallar. Sjónvarpsútsendingum fjölgaði, leikmenn fóru að færa sig mun meira milli landa og fá mun hærri fjárhæðir fyrir að spila fótbolta. Athyglin jókst samhliða þessu og varð Bayern engin undantekning. Leikmenn félagsins fóru að koma oftar fyrir á síðum slúðurmiðlanna en á íþróttasíðunum og fóru gárungarnir í kjölfarið að kalla félagið FC Hollywood. Þetta er á svipuðum tíma og Liverpool var í svipuðum málum með Spice Boys hópinn.

Hoeness var ekki lengi að slökka á svona bulli og var um miðjan áratuginn búinn raða gömlum félögum sínum í kringum sig við stjórnun félagsins. Beckenbauer var forseti félagsins og Rummenigge varaforseti. Meier var kominn í þjálfarateymið en yfir þeim öllum var auðvitað Hoeness og var hann með puttana í öllu í rekstri félagsins. Beckenbauer sem áður hafði auðvitað stýrt landsliði Þjóðverja tók m.a.s. tvisvar tímabundið við liðinu.

Bayern hefur núna í hálfa öld verið stærsta lið Þýskalands og eins og gefur að skilja hefur framkvæmdastjóri félagsins töluverð völd. Hoeness er ekki bara stórt nafn í knattspyrnuheiminum, árangur hans í rekstri Bayern hefur vakið athygli langt út fyrir knattspyrnuheiminn. Hann var margoft fenginn í sjónvarpsþætti, til að halda fyrirlestra í viðskiptaheiminum og eins á hann afar volduga vini í pólitíkinni. Angela Merkel er t.a.m. persónulegur vinur.

Hoeness var þekktur fyrir að gefa mikið af sér í góðgerðamál og hvatti jafnan aðra til að gera slíkt hið sama. FC Bayern undir hans stjórn hefur eins margoft komið öðrum Þýskum liðum í fjárhagsvandræðum til aðstoðar á einn aða annan hátt. Allt frá því að spila æfingaleiki og gefa ágóðan eða með beinhörðum peningu. FC St. Pauli, Hertha BSC, 1860 München og Hansa Rostock hafa öll fengið slíka aðstoð frá Bayern en frægast er líklega þegar Dortmund fékk lán til að forða félaginu frá gjaldþroti. Lán sem þeir hafa endurgreitt að fullu.

Það var því mikið áfall er Hoeness var sakaður um skattsvik í apríl 2013 og dæmdur í þriggja ára fangelsi ári seinna. Hann hafði stungið um $39m undan skatti og fallið var gríðarlega hátt.

Hoeness var þarna búinn að taka við sem forseti Bayern af Beckenbauer og þurfti eðlilega að afsala sér þeim titli sem og öðrum afskiptum af félaginu. Hann sat inni í 18 mánuði og sneri aftur til Bayern sem forseti í ágúst 2016, enginn bauð sig fram á móti honum en endurkoma hans er engu að síður vægast sagt umdeild, bæði meðal stuðningsmanna Bayern sem og almennt.

Hvað sem gengið hefur á þá heldur vélin áfram að malla, liðið hefur unnið titilinn sex ár í röð og skilað hagnaði 26 ár í röð sem er einsdæmi meðal elítuliðanna í fótboltaheiminum.

50+1

Uli Hoeness og félagar er ekki eina ástæðan fyrir frábærum rekstri FC Bayern undanfarin ár þó ekki megi heldur draga úr mikilvægi þeirra. Fyrirkomulagið er töluvert öðruvísi í Þýskalandi en öðrum löndum og hefur það smátt og smátt hjálpað FC Bayern að auka forskot sitt fjárhagslega gagnvart öðrum liðum í deildinni.

Forsagan er sú að um aldamótin höfðu Þjóðverjar ekki komist í úrslitaleik HM tvö mót í röð og ekki unnið EM síðan 1996. Auðvitað hneyksli og sérstaklega mikið áhyggjuefni í ljósi þess að þeir áttu að halda HM árið 2006. Framtíðin var ekki eins björt og oft áður í Þýskalandi og höfðu menn miklar áhyggjur af þróun Bundesligunnar m.t.t. landsliðsins og ungra Þýskra leikmanna. (Höfum samt alveg í huga að löngu áður en þeir náðu að þróa næstu kynslóð fóru gömlu jálkarnir á seiglunni í úrslit HM 2002). Landsliðið var samt ekki eina áhyggjuefnið, fjárhagsstaða félaganna var tæp og ekki vilji fyrir því að fá inn misjafna auðjöfra líkt og við höfum séð í öðrum löndum þó sú þróun hafi ekki almennilega verið byrjuð þá.

Þýska knattspyrnusambandið brást við þessum með því að innleiða svokallaða 50+1 reglu sem gengur út á það að meirihluti allra liða í deildinni verður að vera í meirihlutaeigu stuðningsmanna liðsins. Einu undantekningarnar voru þau lið sem höfðu verið í eigu sömu aðila í 20 ár eða meira. Leverkusen hefur verið í eigu Bayer bankans í áratugi, Wolfsburg er bókstaflega stofnað af starfsmönnum Volkswagen en höfuðstöðvar bílaframleiðandans eru einmitt í borginni. Hamborg hefur verið í eigu auðjöfurs lengi. Undanfarin ár hafa svo bæst við öllu umdeildari félög, Hoffenheim og Leipzig. Hoffenheim skoðuðum við í fyrra, Leipzig bíður betri tíma.

Jafnframt voru settar strangar reglur um að öll félög myndu innleiða hjá sér ungliðaakademíu og útávið virkuðu Þjóðverjar mjög samtaka í átaki sínu að bæta þýska landsliðið á næstu árum og áratugum.

Væntanlega sáu þjóðverjar ekki fyrir um aldamótin þá ótrúlegu þróun sem verið hefur í fótboltanum á þessari öld. Reglan er alls ekki óumdeild og hefur alveg sína galla. En á móti hefur hún haldið góðum stöðugleika í þýska boltanum hvað vissa þætti varðar. Það er uppselt á nánast alla leiki í deildinni og mun færri komast jafnan að en vilja þökk sé heilbrigðu miðaverði. Félögin eru í meirihlutaeigu stuðningsmanna og þeir taka ekki í mál að hækka miðaverðið í þá fáránlegu vitleysu sem viðgengst á Englandi. Fjölskyldan getur ennþá mætt öll á völlinn í Þýskalandi, félagarnir geta ennþá átt miða saman á alla leiki o.s.frv. án þess að setja sig á hausinn við það.

Fjárhagslegur stöðugleiki félaganna er einnig betri. Með þessu er auðvitað allt að því vonlaust fyrir ríki eins og Abu Dhabi og Katar að kaupa lið í Þýskalandi ekki frekar en rússneskan olíubarón með meira en vafasöm tengsl við forseta Rússlands. Þjóðverjar hafa því þurft að þróa unga leikmenn muna meira og gefa þeim fyrr séns á meðan ensku liðin kaupa þá jafnan tilbúna. Þetta er aðalástæðan fyrir því að Jurgen Klopp gat soðið saman lið af óþekktum leikmönnum sem kostuðu sama og ekkert og þróað það þannig að það komst í úrslit Meistaradeildarinnar þar sem það mætti öðru þýsku liði.

Bayern er langstærsta félag deildarinnar og með 233.985 meðlimi. Þeir eiga 75% hlut í félaginu Hin 25% eru í eigu þriggja gríðarlega sterkra félaga sem öll eru jafnfram sterkir styrktaraðilar félagsins. Öll fengu þau að kaupa hlut til að fjármagna kaup á nýjum heimavelli.

Adidas keypti hlut í félaginu árið 2001 fyrir €77m. Forráðamenn FC Bayern vildu byggja nýjan heimavöll í tilefni af HM 2006 og seldu því 8,33% hlut. Tengsl FC Bayern og Adidas ná reyndar alveg aftur til ársins 1974, félagið hefur ekki spilað í öðru síðan. Adidas var jafnframt fyrsta auglýsingin sem kom framan á Bayern búning.

Audi keypti jafn stóran hlut í félaginu árið 2009 fyrir €90m. Það var til að klára að greiða inn á eftirstöðvar á láni vegna vallarins.

Allianz bættist svo í hópinn með 8,33% eins og hinir árið 2014. Þeirra hlutur kostaði €110m og með þeirri greiðslu gerði Bayern endanlega upp útistandandi lán vegna vallarins og var með öllu skuldlaust, 16 árum á undan áætlun. Völlurinn hefur heitið Allianz Arena frá opnun en gert var samning til 30 ára.

Er Bayern með forkaupsrétt á þýskum leikmönnum?

Bayern er í dag með skuldlausan stórglæsilegan 75.000 manna heimavöll og meira en $120m hagnað á ári. Þó að 50+1 reglan sé jákvæð að mörgu leiti þá er þetta alls ekkert staðan hjá öðrum liðum í deildinni. Bayern hefur enda nýtt sér þetta til hins ítrasta og keypt alla bestu leikmenn þeirra liða sem ógna þeim tímabundið í deildinni.

Það er eins og þýskir leikmenn geti hreinlega ekki hafnað Bayern en þeir eru þar að auki auðvitað með forskot þegar kemur að því að finna þessa stráka áður en verðmiðinn á þeim springur alveg út. Þeir hafa svo í bland verið mjög klókir í kaupum á góðum leikmönnum á grín verði þó vissulega sé kominn tími á smá endurnýjun núna. 50+1 reglan gerir kröfu á öll lið að vera með öflugt unglingastarf og hefur Bayern nýtt sér þetta til hins ítrasta.

Skoðum aðeins hópinn hjá FC Bayern og hvaðan leikmenn liðsins koma:

Þetta er auðvitað bara núverandi hópur félagsins. Undanfarna áratugi hefur Bayern keypt endalaust af leikmönnum frá keppinautum sínum og slegið þannig tvær flugur í einu höggi.

Manuel Neuer var fyrirliði Schalke og þeirra aðalmaður áður en hann fór til Bayerm, einna helstu erkifjenda félagsins. Goretzka er nýbúinn að skipta og kom samningslaus á meðan Rafinha tók eitt tímabil á Ítalíu áður en hann kom aftur til Þýskalands og fór til Bayern.

Til að stoppa Dortmund undir stjórn Jurgen Klopp keypti Bayern Lewandowski, Hummels og Gotze og eyðilagði um leið þýska boltann þannig að hann hefur ekki jafnað sig síðan. Hummels telst reyndar sem uppalinn leikmaður hjá Bayern en hann varð nafn hjá Dortmund.

Boateng tók eins og Rafinha eitt gap year erlendis áður en hann fór aftur til Þýskalands og til Bayern. Sule, Rudy og Wagner komu allir saman frá Hoffenheim, sá síðarnefndi fór reyndar til Kína núna í janúarglugganum og Rudy er einnig farinn aftur, hann er reyndar einnig upphaflega frá Bayern.

Kimmich og Gnabry voru svo hrifsaðir yfir um leið og þeir áttu gott tímabil með öðrum þýskum liðum. Bayern er svo þegar búið að kaupa leikmann frá öðru þýsku liði fyrir næsta tímabil, Pavard kemur frá Stuttgart.

Eini alvöru uppaldi leikmaður Bayern í dag er Thomas Muller sem er auðvitað frekar sorgleg staðreynd fyrir félag með þetta metnaðarfulla akademíu. David Alaba hefur reyndar eingöngu spilað meistaraflokksleiki með Bayern en hann er vissulega uppalinn hjá Austia Wien.

Robben og Ribery hafa verið hjartað og sálin í liði Bayern síðan þeir komu á sínum tíma og töluvert verk fyrir menn eins og Coman og Gnabry að fylla þeirra skörð. Hames Rodriguez er á láni frá Real Madríd.

Bayern eyðir alveg háum fjárhæðum þegar tilefni er til og rétt eins og þessi samantekt sýnir er þetta lið ekkert í líkingu við það sem Klopp bjó til hjá Dortmund. Engu að síður er dýrasti leikmaður í sögu félagsins Corentin Tolisso sem kom á €41,5m.

Bayern er ennþá ríkjandi á Þýskalandsmarkaði en samkeppnin er vissulega aðeins farin að bíta og Bayern ekki því með sama forskot fyrir leikmenn sem geta valið úr stórliðum Evrópu. De Bruyne og Sané spila t.d. á Englandi.

Að lokum…

Þetta eru nákvæmlega leikirnir sem Liverpool á að vera spila ár eftir ár. Svona kvöld eru ástæðan fyrir því að við liggjum á bæn um að liðið komist í Meistaradeildina. Liverpool hefur verið fjarverandi allt of oft undanfarin ár. Meistaradeildin eða Evrópukeppni Meistaraliða er partur af DNA félagsins og þó félagið sé ekki alltaf með þá er keppnin jafnan tekin með trukki og dýfu þegar við loksins erum með. Það er ótrúlega grátlegt að framganga félagsins hafi ekki dugað til sigurs á síðasta tímabili. Þar fengum við samt svo sannarlega fiðringinn aftur og Liverpool gerði betur en Arsene Wenger tókst nánast öll þessi 489 ár í röð sem hann fór með Arsenal inn í Meistaradeildina. Stuðningsmenn og þá sérstaklega þessi Evrópukvöld á Anfield fleyta liðinu í alvöru ótrúlega langt og kannski ágætt dæmi um það að Liverpool hefur farið alla leið í úrslit tvisvar í röð þegar liðið tekur á annaðborð þátt.

Bayern lenti síðast fyrir utan efstu þrjú sætin í Bundesligunni árið 1995. Síðan hafa þeir ávallt haft þáttökurétt í Meistaradeildinni og jafnan komist langt. Liverpool hefur á móti aðeins tvisvar tekið þátt á síðasta áratugi og fyrra skiptið telur varla með enda Suarez skipt út fyrir Lambert og Balotelli! Þrátt fyrir það er það þýski risinn sem pakkar í vörn á Anfield og fer himinlifandi með 0-0 heim til Munchen. Hvort sem það var ætlunin eða ekki var Bayern þar að sína virðingu sem þeir eru ekkert vanir að gera. Auðvitað má búast við þeim töluvert sókndjarfari á heimavelli en Liverpool getur farið nokkuð áhyggjulaust inn í þennan leik, all the best ef þeir skilja eftir pláss á eigin vallarhelmingi.

Get ekki beðið, farinn til Munchen, bókstaflega. 

Einar Matthías. 

21 Comments

  1. Vvvvvvááááááaá, ef leikurinn verður eitthvað í líkingu við upphitunina þá erum við að fara að sjá Istanbul leik! Takk kærlega fyrir mig.

    11
  2. Er ég eini sem fær allt aðra forsíðu þegar ég opna KOP.is í Chrome heldur en t.d. Firefox.

    Afsakið þetta.

    8
  3. Eru virkilega engin takmörk fyrir því hvað Einar Matthías getur toppað sjálfan sig í upphitunum?

    Takk fyrir mig!

    21
  4. Sæl og blessuð.

    Liðið hefur hingað til ekki riðið feitum hesti frá þessum stórleikjum og jafnvel ,,stór”leikir hafa ekki staðið undir væntingum.

    1. City – 0-0 og 2-1
    2. Mu (A) 0-0
    3. Ev. (A) 0-0 (og H var nú hálfgerður grís)
    4. Útileikir í CL hafa hingað til valdið okkur vonbrigðum.

    Get ekki sagt að ég sé fullur bjartsýni. Mögulega verður þessi upphitun að ofan það besta sem hægt verður að segja um rimmuna en við vonum sannarlega að sú verði ekki raunin, þótt góð sé.

    2
  5. Sælir félagar

    Þakka Einar fyrir góða upphitun að vanda og þú virðist alltaf ná að toppa sjálfan þig sem er afrek. Aðrir í universinu komast ekki nálægt þér svo þetta er alfarið keppni milli þín og þín. oG þú vinnur oftast. Einu athugasemdir eru málfarslegar og varða sagnbeygingar en það er smámál.

    AÐ leiknum sjálfum. Ég er sammála Einari um það að meistaradeildin setur allt aðra sýn á leiktíðina og það er verulega meira gaman að vera með en utan hennar. Samt er ég líka sammála Salah hvað það varðar að vinna enska titilinn. Það yrði okkur stuðningsmönnum meira virði en meistaradeildar titill. En ég mundi samt með ánægju þyggja hvorutveggja.

    Ég tel að Liverpool geti alveg unnið Bayern Munchen þó þeir séu með frábært lið. Liverpool er nefnilega líka með frábært lið og einhverja bestu vörn í heimi á góðum degi. Ég spái 1 – 1 og við förum áfram á útivallarmarki.

    Það er nú þannig

    YNWA

    16
  6. Verður án efa hörku leikur, en stór hlekkur hefur komið inn hjá okkur, VvD, frá síðasta leik sem munar ekkert smá um. Samt segji ég 1-1 og við áfram.

    YNWA

    4
  7. Glæsileg upphitun og takk kærlega fyrir að fræða okkur um sögu BM. Er spenntur og pínu kvíðinn fyrir þessum leik m.a. vegna árangurs Lpool á útivelli eins og bent hefur verið á hérna á síðunni. Spurning hvort ekki verði einu sinni smálukka með okkar liði og leikar fari 1-1 og næst 8 liða úrslit takk.

    6
  8. Sælir og takk fyrir góða upphitun Einar, ég ætla að vera svolítið bjartari enn margur hér held að við skorum snemma í þessum leik og fáum síðan smá panik varnarvinnu í 20 mín en síðan keyrum við aftur á þá og klárum þetta um miðjan seinni 0-2 fyrir LFC.

    Koma svo YNWA.

    8
  9. Takk fyrir frábæra upphitun!

    Ég spái markajafntefli annað hvort 1-1 eða 2-2. Segjum 2-2 og Salah skorar.

    4
  10. ætli einhver United maður hafi komið á síðuna og sett nokkra thumbs down á allt sem er búið að skrifa, en að leiknum í kvöld þá held ég að þetta fari 1 -1 og Mane með markið í háspennuleik 🙂

    14
  11. Maður talar bara þýsku reiprennandi eftir svona upphitun, mein herr.

    Þetta verður stalemate 0—0 jafntefli.
    Sturridge klárar vító Panenka style.
    YNWA

    4
  12. Menn verða stíga upp það er allt undir og þeir vita það Bayern er með gott lið og eru á heimavelli en Liverpool er líka með lið sem getur unnið hvaða lið sem er og hvar sem er þegar þeir eru í takti.

    5
  13. Hvar er pod kastið sem var búið að “lofa” fyrir leik ? Hvernig á ég að geta beðið fram að leik án þess ?

    0-3 og fáum Utd í næstu umferð

    2

Liverpool 4-2 Burnley

Létt upphitun og liðið gegn Bayern