Kvennalið West Ham kemur í heimsókn

Eftir aaaaaallt of langt hlé hjá bæði karla- og kvennaliðunum okkar, þá fer nú loksins að rofa til. Yngri liðin léku reyndar um helgina, U18 strákaliðið lék á móti United í bikarkeppninni og tapaði í framlengingu 2-3 eftir að hafa misst mann útaf með rautt. U18 stúlknaliðið spilaði á móti Reading í gær og vann góðan 2-1 sigur.

Það verður auðvitað sér upphitun fyrir Leicester leik karlaliðsins, en í kvöld mæta West Ham konur á Prenton Park og mæta þar Vicky Jepson og hennar fótgönguliðum. Nokkrir leikir fóru fram um helgina, og staðan í deildinni fyrir leikinn í kvöld er svona:

Eins og sjá má er hægt að tala um 3 hópa: toppliðin City, Arsenal, Chelsea og Birmingham, liðin í miðjunni: Bristol, Reading, West Ham og Liverpool, og svo eru Brighton, Everton og Yeovil að slást á botninum. Það er því alveg ljóst að leikurinn á eftir er algjör 6 stiga leikur, því með sigri gætu okkar konur komist upp að hlið West Ham, en þarf að vinna með 3 mörkum til að komast upp fyrir þær.

Fyrri leikur liðanna fór fram á heimavelli West Ham seinnipartinn í október, og endaði með 0-1 sigri hjá stelpunum okkar. Það var Courtney Sweetman-Kirk sem skoraði sigurmarkið, en hún hefur átt það til á þessari leiktíð, og er markahæst okkar leikmanna með 8 mörk á leiktíðinni. Sweetman-Kirk lék með Everton á síðustu leiktíð en færði sig um set á Merseyside í sumar, og hefur heldur betur staðið fyrir sínu.

Félagsskiptaglugginn er búinn að vera opinn í janúar í kvennadeildinni rétt eins og hjá körlunum, og það hefur verið eitthvað um breytingar. Jemma Purfield kom til Liverpool fyrir rúmri viku síðan, hún leikur með U23 landsliði Englands og er kantmaður að upplagi. Af breytingum annarra liða má m.a. minnast á að Rakel okkar Hönnudóttir gekk til liðs við Reading og kom inná undir lokin í sínum fyrsta leik með liðinu í 0-3 tapi gegn Arsenal í gær.

En þá að leik kvöldsins. Svona verður liðinu stillt upp:

Preuss

S.Murray – Bradley-Auckland – Little – Robe

Fahey – C.Murray – Coombs

Linnett – Sweetman-Kirk – Daniels

Bekkur: Kitching, Thomas, Roberts, Purfield, Rodgers, Babajide

Jemma Purfield byrjar semsagt á bekknum, og gott að sjá að Rinsola Babajide er komin aftur. Liðið hinsvegar saknar Jesse Clarke, vonum að hún verði ekki frá lengi.

Þess má svo geta að leikurinn verður sýndur beint á Facebook síðu Liverpool Women (linkurinn verður uppfærður um leið og útsending hefst).

Útsendingin hefst kl. 18:50, og það verður blásið til leiks kl. 19. Við uppfærum færsluna að leik loknum með úrslitum.


Leik lokið með sigri Liverpool, 1-0, og það var að sjálfsögðu Courtney Sweetman-Kirk sem skoraði sigurmarkið á 48. mínútu. West Ham byrjuðu betur í leiknum, voru meira með boltann og áttu sýnu hættulegri færi, án þess þó að skapa sér einhver virkilega hættuleg færi. Það var hins vegar á 40. mínútu að Laura Coombs átti þrumuskot fyrir utan vítateig, boltinn small í slánni og lenti svo á jörðinni, og við endursýningar var ekki annað að sjá en að boltinn væri inni. Það var hins vegar ekki dæmt mark, og full ástæða til að minni vellirnir á Englandi komi sér upp marklínutæknibúnaði (magnað hvað svona lagað verður sjálfsagður hlutur fljótt).

Eftir markið í byrjun síðari hálfleiks hefði maður haldið að West Ham myndu bæta í sóknarþungann, en það voru allt eins okkar konur sem áttu hættuleg færi, og í nokkur skipti munaði bara hársbreidd að sendingar inn á teiginn rötuðu á tærnar á Sweetman-Kirk eða Kirsty Linnett. Undir lokin jókst reyndar sóknarþunginn hjá West Ham og þær áttu tvö mjög hættuleg skot, en Anke Preuss töfraði fram algjörar meistaramarkvörslur í báðum tilfellum.

Semsagt, verðskuldaður sigur þegar upp er staðið, og liðin eru núna jöfn með 16 stig í töflunni, en markahlutfallið hjá West Ham er ögn hagstæðara.

8 Comments

  1. West Ham miklu sterkara hér í upphafi leiks.

    Heimastúlkur mest í hreinsunum og útafspörkum…

  2. En skömm er að þessum velli, Prenton Park. Boltinn skoppar bara eitthvað út í loftið þegar hann lendir. Minnir á gamla daga hér heima þegar stelpunum var bannað að æfa og spila á grasinu.

  3. Sjit, fullkomlega löglegt mark tekið af okkar konum!

    Er bara EIN myndavél á öllum vellinum?

    Þetta var svona meter fyrir innan marklínu.

  4. Mér finnst endursýningin sýna það mjög skýrt að boltinn var inni. Auðvitað ætti að vera marklínutækni á þessum völlum eins og öðrum.

  5. Þetta er ömurlegt. Engin marklínutækni og ekkert VAR og ekki neitt.

  6. Gaman að fá fréttir af kvennaliðinu. Takk fyrir þetta Daníel.

Níu Brendan Rodgers leikmenn gera næsta sumar spennandi

Loksins aftur leikur!