Strákarnir hans Hodgson koma í heimsókn

Það kom mér pínu á óvart árið 2015 að saga tímabilsins yrði að miklu leyti að Liverpool hefði tapað titlinum á Selhurst Park, í leik sem var oft kallaður Crystanpul af hreint út sagt ótrúlega svakalega hrikalega sniðugum orðasmiðum.

Vissulega var leikurinn dramatískur, þar sem Liverpool náði að klúðra niður 3-0 forystu á mettíma, en liðið var enga síður í þeirri stöðu að þurfa skora einhver 15 mörk í tveim leikjum til að ná City á markatölu. Fyrir mér fór titillinn viku fyrr en gegn Chelsea, en síðan hefur sagan gefið þessum leikjum jafnt vægi.

Það er ekki bara út af þessum leik sem stuðningsmenn Liverpool hafa ákveðin kvíðahnút í maganum fyrir leiknum á morgun. Síðan Crystal Palace komst upp í úrvalsdeild árið 2013 hafa þeir reynst Liverpool andskoti erfiðir. Þetta verður tíundi deildarleikur liðanna frá og með tímabilinu 2013-14. Síðustu ár hafa Liverpool unnið fjóra og Crystal Palace fjóra, auk áðurnefnds jafnteflis. Fyrir lið eins og Palace, sem hefur í besta falli verið um miðja deild, er þetta bara þrusugóður árangur. Leikurinn á morgun fer fram á Anfield en þar hefur Palace gengið vel á þessum tíma, unnið þrjá sigra. Með öðrum orðum, þetta verður hörkuleikur.

Andstæðingurinn – Crystal Palace

Á síðasta tímabili fóru Crystal Palace sögulega illa af stað. Þeir höfðu ráðið Sam Allardyce um veturinn til að bjarga liðinu frá falli eftir þjálfaratíð Alan Pardew en Sámur hætti eftir tímabilið. Að lokum var Frank De Boer ráðinn um sumarið. Hann reyndist starfinu engan vegin vaxinn, liðið skoraði ekki mark fyrr en í áttunda leik tímabilsins. Þegar þar var komið við sögu var búið að reka De Boer og kunnulegt andlit komið í brúnna.

Þegar menn eru komnir með bakið upp við vegg þá þarf oft að grípa til örvæntingarráða. Það þarf að gera hluti sem enginn vill gera, hluti sem enginn getur verið stoltur af og jafnvel hluti sem flestir myndu skammast sín fyrir. Það gerðu Crystal Palace tólfta september 2017 þegar liðið réð Roy Hodgson sem aðalþjálfara liðsins. Með þessara ráðningu kláraði liðið líka á innan við ári ákveðna þrennu. Það er að segja gullþrennu enskra þjálfara sem fara milli miðlungsstórra liða, annað hvort klúðra og eru reknir eða tekst að bjarga liðinu frá falli.

Þegar vel gengur byrja spekingar svo að spyrja af hverju ensku risaeðlurnar fá aldrei séns hjá stóru liðinu, fimm mínútum áður en klúbburinn ákveður að fara í nýja og spennandi átt (hæ Frank De Boer) og segja enska þjálfaranum upp. Þegar byrjar að halla undir fæti er þjálfarinn rekinn og næsti í ensku röðinni tekur við. Ég er að sjálfsögðu að tala um Pardew, Allerdyce og Hodgsons þrennuna.

Mér er skelfilega illa við að hrósa Roy fyrir nokkurn skapaðan hlut en ætla samt að gera það. Það sem hann er búin að gera hjá Palace er bara alveg ágætt. Að skila liði sem var stiglaust eftir átta leiki í fyrra og koma því í ellefta sæti er virkilega fínn árangur. Eins og stendur í ár eru þeir með 22 stig, fjórum frá fallsæti og ættu að ná að halda sér uppi nokkuð öruggt. Þeir eru líka búin að grípa stig af stóru liðunum, náðu jafnteflum á móti Arsenal og United og unnu síðan Manchester City í desember.

Leikstíll liðsins byggir á tveimur grunnstoðum: Öguðum varnarleik og Wilfried Zaha. Að kunna að liggja til baka og verja stigið er aðalsmerki Hodgson-boltans og þeir munu væntanlega liggja mjög, mjög djúpt á morgun. Wilfried Zaha fór aftur til uppeldisliðs síns eftir frekar glataðan tíma hjá Manchester United og er búin að finna sig frábærlega sem stór fiskur í lítilli tjörn Palace. Það eru ekki endilega mörk frá honum. Hann er flinkur með boltann, lætur spilið tikka og er öskufljótur. Varnamenn eiga það til að missa af honum og brjóta. Það gefur Palace föst leikatriði sem geta verið eitruð.

Við vitum hvað Palace gerir á morgun, þeir munu verjast með öllum tiltækum mönnum, leyfa Liverpool að vera með boltann og beita skyndisóknum til að reyna að stela stigunum þremur. Ef leikurinn fer núll núll verða þeir meira en sáttir, spurningar hvort strákarnir hans Klopp nái að brjóta niður varnarmúrinn.

Okkar menn

Á laugardaginn braut Liverpool niður annað lið sem reyndi að liggja til baka og tryggði fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar í allavega viku í viðbót. Sigurinn var ekki alveg kostnaðarlaus. Í upphitun meiddist Trent okkar á hné, en spilaði leikinn samt og verður frá í fjórar vikur. Eins og stendur er því meiðslalistinn: Gomez, Trent, Lallana, Chamberlain, Lovrem, Brewster og þess að auki er Gini Wijnaldum eitthvað tæpur.  Daníel fór ágætlega yfir þetta í vikunni.

Það léttir aðeins verkið að spá fyrir um byrjunarliðið, því það eru bara ekkert voðalega margir sem koma til greina. Alisson, Andy Robertson og Van Dijk verða á sínum stað. Ég held að Matip verði skellt aftur í byrjunarliðið, þó það myndi ekki trufla mig neitt að sjá Fabinho aftur í vörninni. Í hægri bak eru það svo Milner og Fabinho sem koma til greina. Svo fyrrnefndi getur skilað fínu dagsverki hvar sem er á vellinum, sá síðarnefndi hefur spilað bakvörðinn með Brasilíska landsliðinu. Ég ætla að tippa á Milnerinn þarna, svo að Fabinho komist fyrir inn á miðju.

Fyrst Henderson er komin aftur í leikform held ég að hann byrji, ef ekki þá kemur hann klárlega inn sem varamaður. Með þeim kumpánum vil ég sjá Shaqiri. Svo segir framlínan sig sjálf.

Grái kallinn er Milner

Spá

Ég held að þessi leikur verði ansi svipaður leiknum gegn Brighton. Crystal Palace eru bara örlitið verri en Brighton, en Liverpool munu væntanlega mæta peppaðari til leiks á heimavelli. Þetta verður þolinmæðisverk en ég hef bara enga trú á því að Crystal Palace nái að stöðva skytturnar þrjár í heilan leik. Að sama skapi hef ég enga trú að Alisson fái á sig mark í neinum leik, þannig þannig að ég set 2-0 á þennan leik, Salah með sitt skyldumark og svo held ég að Van Dijk nái að stanga einn inn í seinni bylgjunni eftir misheppnaða hornspyrnu.

Smá auka – Útsendingin

Í annað sinn í vetur þurfa púllarar að taka pirringskast yfir að leikur liðsins sé ekki sýndur í beinni. Það er ekki við Stöð2 að sakast þannig séð, þetta er vegna hrikalega gamaldags hugsunarháttar tjallans. Ef þú segir við Íslending „Það er blakkát klukkan þrjú“ mun hann væntanleg halda að þið séuð að fara á djamm sem endar illa. En ef þú notar sömu orð við Breta mun hann skilja að þú ert að tala skortinn á sjónvarpsútsendingum frá Úrvalsdeildinni.

Á sjöunda áratugnum var formaður Burnley, Bob Lord, sannfærður um að útsendingar frá stórleikjum klukkan þrjú (sem er venjulegur leiktími í neðri deildunum) væri að minnka miðasölu hjá minni liðunum í minni deildunum. Hann byggði þetta á engum gögnum en tókst að sannfæra FA. En þann dag í dag er blakkátið virt á Englandi. Þess má geta að gögnin frá löndum án sambærilegs benda til að útsendingarbannið hafi nákvæmlega engin áhrif á aðsókn.

Það er þessum manni að kenna að leikurinn er ekki í beinni

Fyrir þá sem hafa ekki áhuga á að taka þátt í slíku mæli ég óhikað með LFC-radio á heimasíðu félagsins. Ég öskraði með útsendingunni á Arsenal leiknum á bílferð um Borgarfjörð og þeir félagar eru alveg lausir við allt óþarfa hlutleysi.

KOMA SVO STRÁKAR!

26 Comments

  1. Ég þoli ekki Palace leiki því að þeir eru alltaf svo óútreiknalegir. Já við haft gott tak á þeim undanfarinn ár en þeir virðast alltaf fá 2-3 dauðafæri gegn okkur en gott fyrir okkur að Benteke hefur verið að fá þau.
    Zaha er líka einn af fáum framherjum í deildinni sem er ekki í top 6 liði sem getur skorað mark uppúr engu og elskar hann að nota hraðan til að taka menn á(pínu ánægður að Lovren þarf ekki að lenda 1 á 1 gegn honum á morgun).
    Liðið okkar er að fara í smá pásu og væri helvíti sterkt fyrir móralinn að fara í frí með 4 stiga forskot og ég hef trú á að það takist en það verður aðeins 2-1 sigur og spái að Sakho skorar eftir hornspyrnu en Mane/Salah svarar fyrir okkur.

    YNWA

    p.s Ox verður kominn á fullt í lok Feb eða byrjun Mars samkvæmt fréttum frá Anfield sem eru frábærar fréttir.

  2. Stöð2 kaupir ódýrari pakka en vanalega og þess vegna mega þeir bara sýna einn leik klukkan 15:00. Þrjú tímabil sýndu þeir alla 360 leikina í beinni útsendingu á minnstu vandkvæða. Svo það er við 365 að sakast og skora ég á alla að segja upp áskrift við þá, láta þá finna fyrir því að það sé ekki í boði að sleppa toppliðinu og sýna eitthvað miðjumoð klukkan 3 á laugardegi.

  3. Sæl og blessuð.

    Skínandi upphitun og mér léttir að leikurinn skuli fara fram á Anfield. Hafði bitið það í mig að við værum að fara í Arnarhreiðrið.

    Jú, ,,örlagaleikurinn” var víst 2014 og það er fljótgert að laga. Ég, eins og höfundur, skildi aldrei af hverju allur þunginn var á þeim leik. Vissulega hefði City verið undir meiri pressu með sigri, en fallöxi drauma okkar hafði þegar fallið í leiknum þar á undan. Makalaust að kenna Moses um þetta – þótt hann hafi klúðrað einhverju færi í lokin (hvað maður man þetta!). Sigurinn gutraðist þó öðru fremur niður vegna leiðtogakreppu í vörninni. Þarna var Sakho nokkur, fagurbúinn rauðum klæðum, nú er hann kominn í CP og það var átakanlegt að sjá ugginn og óttann í pilti sem bakkaði með vörnina meira en góðu hófi gegndi. Líklega voru það mistökin á þeim tíma að spila ekki Aggernum í Chelsea-leiknum en téður Sakho átti einmitt bjálfasendinguna á Gerrard sem rann til, eins og alþjóð veit.

    Hvað varðar liðsuppstillinguna þá spyr ég hvort e.t.v. væri ekki öruggara að hvíla Matip og spila Fabinho (sem er orðinn einn helst öxull liðsins) í miðverði. Þá getur vonarstjarnan, Keita, ,,hinn gíneski Joe Allen” mætt á miðjuna og troðið sokki upp í mig og 90% áhangenda með bærilegri frammistöðu.

  4. Fabinho var flottur í miðverðinum síðast og ég held að hann byrji þar, Milner kemur í hægribak. Vill sjá Keita byrja leiki og kominn tími til að hann nái nokkrum leikjum í röð og verður með Hendo sér við hlið. Klopp hefur verið með Shaq ásamt skyttunum þremur alla inná í flestum heimaleikjum, sérstaklega hinum svokölluðu lakarai liðum, og býst við svo verði í þessum leik.

    Allir sem lesa kop.is eru þakklátir fyrir ykkar óeigingjarna starf sem hér fer fram en er þó með eina athugasemd varðandi upphitanir. Finnst vanta oft að líkleg lið andstæðinga séu sett upp ásamt taktík og einnig mætti koma fram gengi þeirra cirka síðustu 5 leiki. Annars bara kærar þakkir fyrir allt.

  5. Þar sem Zaha er á vinstri kannt hjá þeim er ég ekkert að deyja úr spenning að hafa Milner á móti honum.
    Spurning hvort Fabinio ráði ekki betur við hann og hafa Matip í miðverði, þá erum við líka búin að stækka vörnina slatta sem kemur sér vel gegn föstu leikatriðunum þeirra 😉

  6. Sælir félagar

    Ég held að þetta verði ekkert erfiður leikur. Það verður ákveðin þolinmæðisvinna að klára þetta en eftir fyrsta mark (Mané) þurfa þeir að skríða út úr strætónum og þá opnast allar flógáttir. Sakho mun svo brjóta á Salah inn í teig og hann fær víti og skorar af öryggi. Hann mun síðan skora úr opnum leik en Virgillinn mun svo setja síðasta naglann í kistu Hodgeson og negla inn kollspyrnu undir lok leiksins. Sem sagt 4 – 0 og allir kátir nema Hodgeson sem kennir dómurunum um sauðurinn sá.

    Það er nú þannig

    YNWA

  7. #6
    Ég vona svo sannarlega að þú hafir rétt fyrir þér Sigkarl en er líka nokk viss um að City menn hafi hugsað þetta svipað alls ekki fyrir svo löngu á Etihad þar sem þeir jú töpuðu 2-3 fyrir Palace.

    En auðvitað eru okkar menn ekki með neitt vanmat á neinu liði enda hafa þeir sýnt það að þeir halda haus gegn hvaða liði sem er.

    YNWA

  8. Ótrúleg upprisa. Engar hækjur. Það eru nær allir orðnir “heilir” eftir að Klopp upplýsti að hann færi með liðið á Sunnudag til Dubai !!! Næsti leikur ekki fyrr en eftir 11 daga.

    Maður jesúar sig bara þegar Klopp er annars vegar.

  9. Þetta er Himinn-eða-Haf-leikur.

    Vonbrigði eru möguleg en svo getur Palace brotnað og við vinnum 5-0.

    Tek síðari kostinn.

    YNVA

  10. Við erum allavega 100 íslendingar hérna í Liverpool núna sem munu öskra úr sér lungun á morgun.

  11. EKKI VERA OF BJARTSÝNIR.
    Ótrúlegt en satt Hodgeson hefur aldrei tapað þegar hann hefur komið með lið (Fulham, WBA, Palace)á Anfild og það sem meira er Liverpool hefur ekki einu sinni náð að skora eitt einasta mark. Núiðitrú

  12. Þessi leikur er bananahýði.
    En fjandakornið … við erum komnir langt á þróunarbraut liðsins og það er ekki bara að vera með helling af hæfileikum.
    Það er líka hellingur að fótboltagáfum, þolinmæði, trú og útsjónarsemi.

    Það mun fleyta okkur gegnum þetta.

    Roy kallinn mun nudda á sér andlitið og hökta hokinn um boxið.

    En hann var þjálfarinn okkar einu sinni … munið eftir því?
    Þess vegna ætti stúkan að gefa honum kurteislegt klapp. Við erum þannig.
    3- 0 YNWA

  13. Ég er ekkert að segja að þessi leikur verði léttur, en getumunurinn er bara allt of mikill milli þessara liða til þess að CP eigji breik, bara á jafntefli. Spái 2-0.

    YNWA

  14. #7 Og bara vegna þess hversu illa CP fóru með Man City þurfum við valtar yfir þessa fugla með fult af rauðu blóðbragði í munni takk 5 – 0 takk fyrir.

  15. Örn (fuglinn ) nr 2

    Algerlega sammála, eg er loksins buin að segja þessari drasl stöð upp og þott fyrr hefði verið..

    Eg er komin með app i sjonvarpið með 6 þusund stöðvum og bara þar get eg séð liverpool leikinn a morgun a tugum stöðva asamt ollum iþrottum sem eg vill.. algjort snilldar dæmi og hellingur af stöðvum bara i HD.. mæli með þessu appi..

    En ja sniðganga sportið sem hafa ekkert gert nema minnka umfjollun síðustu arin oghækka verð um leið 🙂

  16. Ég er með áskrift að IPTV.SHOP og með um 6.000 sjónvarpsstöðvar og get horft á alla leiki, ég keypti 6 mánaða áskrift á 40 Evrur.

  17. Fyrir þá sem eru í Hafnarfirði að þá er leikurinn í beinni á Ölhúsinu á Reykjavíkurvegi.
    Búnir að sýna alla Liverpool leiki í vetur og eru ekki að fara að klikka á þessum.

  18. Vitiði um fleiri staði en Ölhúsið sem sýna leikinn? Eða eruð með hlekki á leikinn?

  19. Þetta eru ágætis fréttir varðandi markmanninn hjá CP:

    Hinn 39 ára gamli Ju­li­an Speroni mun standa á milli stang­anna í marki Crystal Palace á morg­un þegar liðið sæk­ir topplið Li­verpool heim í ensku úr­vals­deild­inni.

    Markverðirn­ir Vicente Guaita og Wayne Henn­ess­ey eiga báðir við meiðsli að stríða og Speroni þarf því að draga fram hansk­ana og reyna að koma í veg fyr­ir að leik­menn eins og Mohamed Salah, Roberto Fir­mino og Sa­dio Mané skori í leikn­um.

    Speroni, sem er Arg­entínumaður, mun þá spila sinn fyrsta leik í ensku úr­vals­deild­inni frá því í des­em­ber 2017.

    Li­verpool er ósigrað á heima­velli 31 leik í röð í deild­inni en liðið tapaði síðast á An­field í apríl 2017 og það gegn Crystal Palace.

    Fyr­ir leik­ina í 23. um­ferðinni sem hefst á morg­un er Li­verpool með fjög­urra stiga for­skot á Manchester City, sem sæk­ir botnlið Hudders­field heim á sunnu­dag­inn.

  20. Það þýðir ekkert vanmat á þetta cp lið. Við verðum að brjóta niður varnarmúr 11 leikmanna og því fyrr sem það tekst því betra, þá þurfa þeir að koma framar á völlinn. Það á ekki að vera erfitt að leikgreina þetta Palaca lið, þarf að stoppa saha og townsend þeir sækja á þeim upp kantana.

    Liðið er komið hjá okkur og Milner er í hægri bakv og Matip í vörn með VVD. Keita, Hendó og Fab á miðjunni, þetta verður eitthvað, Winjaldum ekki í hóp :-/

  21. Liverpool: Alisson, Milner, Matip, Van Dijk, Robertson, Henderson, Fabinho, Keita, Mane, Salah, Firmino.

    Subs: Mignolet, Sturridge, Moreno, Lallana, Shaqiri, Origi, Camacho

    Hálf varnarsinnuð miðja hjá okkur, nú verður Keita að stíga upp !

Robertson skrifar undir nýjan samning

Trent skrifar undir nýjan samning