Rauða Stjarnan frá Belgrad

Eftir tvo áratugi samfellt í Meistaradeildinni hóf Arsenal leik í Evrópudeildinni í fyrsta skipti á síðasta tímabili. Stuðningsmenn Liverpool þekkja af eigin raun hversu spennandi sú keppni er og Arsenalmenn voru engu minna spenntir, einn hafði þetta að segja eftir að dregið var í riðla:

“You know you’re in the Europa League when you draw teams called Crvena zvezda.”

Þessi ágæti stuðningsmaður Arsenal gerði reyndar lítið annað þarna en að útvarpa fáfræði sinni og fékk að heyra það margfalt til baka að Crvena zvezda væri ekki bara eitthvað lið frá Austur-Evrópu, þetta er Rauða Stjarnan frá Belgrad. Það nafn hefur í sögulegu samhengi töluverða vigt í Evrópu, meiri en Arsenal.

Rauða Stjarnan urðu síðustu meistarar Evrópukeppni Meistaraliða í upprunalega formati keppninnar þegar um var að ræða útsláttarkeppni frá fyrstu umferð og aðeins meistarar hverrar þjóðar gátu tekið þátt. Rauða Stjarnan varn mótið árið 1991. Tímasetningi gat ekki verið verri fyrir Júgóslavnesku meistarana því stríð var að brjótast út í heimalandinu. Þeir fengu keppnisrétt árið eftir en þurftu að spila heimaleiki sína í Búlgaríu og Austurríki vegna ástandsins heimafyrir. Síðan þá hefur Rauða Stjarnan aldrei komist þetta langt í keppni þeirra bestu. Það mun ekkert fara á milli mála þegar við setjumst niður til að horfa á leikinn á þriðjudaginn að Serbarnir eru ánægðir með að vera komnir aftur.

Hverjir standa að baki Rauðu Stjörnunni frá Belgrad?

Belgrad er ein elsta borg Evrópu og hefur í gegnum tíðina verið undir yfirráðum margra mismunandi aðila. Forn-Grikkir, Keltar og Rómverjar koma þar m.a. við sögu áður en slavneskir ættbálkar sem tóku að setjast að á Balkanskaga lýstu fyrir sjálfstæði á 8.öld og komu á fót öflugu konungsveldi. Kristin trú var tekin upp í kringum 870 og eru Serbar kristin þjóð en hefur mótast töluvert af því að liggja á landamærum ólíkra menningarheima.

Hið fjölmenna og öfluga Ottóman veldi (frá Tyrklandi) fór að herja á Balkanskagan undir lok 14. aldar og náðu þar yfirráðum. Serbar sem kristin þjóð var álitin óæðri í Ottóman veldinu sem voru súnní-múslimar og ríkti aldrei friður undir þeirra stjórn. Næstu aldir gerðu Serbar ítrekað uppreisn sem tvinnaðist inn í átök Ottóman veldisins á öðrum vígstöðum, t.a.m. við Habsurgara (Austurríki) sem náði nokkrum sinnum yfirráðum á svæðinu.

Serbar gerðu uppreisn í upphafi 19.aldar sem entist í 11 ár og endaði með að þeir lýstu aftur yfir sjálfstæði 1815. Átök héldu engu að síður áfram mest alla öldina og fékk Serbía ekki formlega sjálfstæði fyrr en eftir svokallaðan Berlínarfund árið 1878. Serbar höfðu myndað hernaðarbandalag með Rússum, Búlgurum, Rúmenum og Svarfellingum gegn Ottóman veldinu. Rússar vildu styrkja stöðu sína sem eitt af heimsveldum og ná aftur tengingu suður á bógin við Dauðahafið, eins deila þeir trúarskoðunum með Serbum. Rússar hjálpuðu þessum þjóðum að lýsa yfir sjálfstæði í kjölfarið. Serbar höfðu lýst því yfir á meðan átökum stóð að þeir vildu sameinast Bosníu sem eitt ríki eftir átökin enda að mörgu leiti sama þjóðarbrotið. Draumur slavneskra ættbálka var að sameinast í eina öfluga þjóð sem gæti betur varist yfirráðum anarra heimsvelda. Bosnía fór  hinsvegar undir yfirráð Austurríska-Ungvarska ríkisins sem einnig fór með yfirráð í Króatíu og Slóveníu á þessum tíma.

Þetta er auðvitað gríðarleg einföldun á sögunni en líklega markar þetta bandalag Rússa og Serba upphafið af sérstökum tengslum sem enn virðast ríkja milli þessara þjóða þó stundum hafi reynt verulega á þau. Eitt dæmi um samband Rússa og Serba í dag er vinátta Spartak Moskva við Rauðu Stjörnuna en þetta eru vinafélög eins og við lærðum í fyrra er Liverpool var með með Rússunum í riðli. Eins sýndu Rússar t.d. stuðning sinn í verki á leikjum Serbíu á HM í sumar.

20.öldin

Serbar voru í lykilhlutverki í öllum helstu átökum í Evrópu á 20.öldinni og væri óeðlilegt ef þetta hefði ekki markað þessa þjóð. Árið 1912 áttu Serbar enn eina ferðina í stríði við Ottóman veldið og myndaði bandalag með Grikklandi, Búlgaríu og Svartfjallalandi að hrekja Ottóman veldið endanlega úr Evrópu. Átök stóðu yfir í sjö mánuði og enduðu vorið 1913 er Tyrkir voru endanlega hraktir á brott.

Skipting landsvæða eftir átökin gekk illa og töldu Búlgarir sig hlunnfarna og ákváðu að herja á bandamenn sína frá því nokkrum mánuðum áður. Búlgarir höfðu átt í mun harðari átökum mánuðina á undan og voru ekki eins vel undirbúnir fyrir önnur átök strax. Eins sáu bæði Rúmenar og Tyrkirnir sér leik á borði í sínum landamæradeildum og voru Búlgarir því skyndilega komnir í stríð á þremur vígstöðum samtímis. Ottóman veldið vann aftur stóran hluta af því sem nú telst til Evrópu í Tyrklandi, Rúmenar náðu einnig landvinningum.

Uppreisn Búlgara er kölluð Seinna-Balkanstríðið og stóð í einn mánuð sumarið 1913. Serbar stækkuðu sín landssvæði um 80% og þjóðin stækkaði um 50% Fórnarkostnaðurinn var hinsvegar gríðarlegur en þarna misstu Serbar um 20.000 manns rétt fyrir fyrri heimsstyrjöldina.

Stjórnvöldum í Austurríki-Ungverjalandi leyst ekki vel á það veldi sem Serbía var að verða og óttuðust að þeir myndu reyna að sameina öll slavnesku þjóðarbrotin. Þjóðernishyggja hafði verið vaxandi í langan tíma á svæðinu og var draumur margra að sameina Balkanskagalöndin. Þetta endaði með aukinni spennu á svæðinu sem á endanum leiddu til heimsstyrjaldar. Það sem er talið hafa komið þeim blóðugu átökum af stað er morðið á Franz Ferdinand krúnuprins í Sarajevo árið 1914. Hann hafði viðrað hugmyndir þess efnis að gera Bosníu-Hersegóvínu að sjálfstæðu ríki innan keisaradæmisins, sem hefði þá svipaða stöðu og Austurríki annars vegar og Ungverjaland hins vegar. Ferdinand sá fyrir sér að hið nýja ríki yrði leitt af Króötum. Með því vildi hann berjast gegn uppgangi Serba, sem vildu þá sameinast Bosníu og stofna sjálfstætt ríki rétt eins og stóð til 1878. Ferdinand var varaður við slíkum hugmyndum heimafyrir m.a. á þeim forsendum að þá ættu þau stíðsyfirlýsingu vísa frá Rússum, gömlum vinum Serba. Morðtilræðið mistókst og slapp Ferdinand ómeiddur en var svo myrtur seinna sama dag er hann lenti í umferðarteppu á leið á sjúkrahús til að heimsækja fólkið sem slasaðist í fyrra morðtilræðinu.

Morðingi Ferdinandi var uppreisnarmaður frá Bosníu sem sá sér leik á borði er hann sat á kaffihúsi í Sarajevo og sá Ferdinandi stopp í umferð. Hann rauk út og skaut bæði Ferdinand og konuna hans. Það voru því átök um Serbíu sem komu fyrri heimsstyrjöldinni af stað því Austurríki-Ungverjaland lýsti umsvifalaust fyrir stríði. Rússar lýstu þ.a.l. strax yfir stríði gagnvart Austurríki-Ungverjalandi sem varð til þess að Þjóðverjar sáu sig knúna til að standa með sínum samherjum í Austurríki-Ungverjalandi. Þannig dróst Evrópa í lið mismunandi fylkinga. Allra undarlegast í þessu öllu er að konungsfjölskyldurnar í Evrópu voru allar meira og minna náskyldar. Til að kóróna ruglið sem fyrri heimsstyrjöldin var þá mynduðu Búlgarir og Ottóman veldið með Austurríki-Ungverjalandi og Þjóðverjum hernaðarbandalag. Þjóðir sem höfðu verið í átökum meira og minna fram að því.

Serbía vann fyrstu sigrana í stríðinu en var ákaflega illa staðsett m.v. þau veldi sem mynduðu bandalag gegn þeim. Serbía var sigruð árið 1915 og flúðu herir landsins í gegnum Albaníu til Grikklands. Það sem eftir var af her Serba sneri aftur þremur árum seinna og náði yfirráðum eftir hörð átök við Austurríki-Ungverjaland og Búlgaríu. Engin þjóð varð hlutfallslega fyrir eins miklu mannfalli og Serbar en talið er að 58% af hermönnum Serba hafi látist. Heildarmannfall í Serbíu var um 700.000 eða 16% af þjóðinni fyrir stríð, meirihlutinn af því ungir karlmenn.

Hinsvegar stækkaði landssvæði Serbíu töluvert eftir fall Austurríkis-Ungverjalands og var í nóvember 1918 komið á fót Konungsdæmi Serbíu, Króatíu og Slóveníu, sem seinna fékk nafnið Júgóslavía. Konungsfjölskyldan var serbnesk og ríkti aldrei friður um hana og var stjórnað með mjög harðri hendi. Tortryggni milli mismunandi slavneskra þjóðarbrota jókst samhliða aukinni þjóðernishyggju eftir því sem leið á öldina og ofan á það fóru stjórnmálaskoðanir eins og fasismi og komúnmismi að ná fótfestu. T.a.m. var konungurinn myrtur 1934 af sveitum þjóðernissinnaðra Króata sem seinna áttu eftir að láta meira af sér kveða.

Króatía féll fljótlega eftir að seinni heimsstyrjöldin braust út og varð strengjabrúða Öxulveldanna í stríðinu. Stormasöm ár fyrir stríð var góður jarðvegur fyrir þann fasisma sem náði fótfestu í Króatíu og voru hinar alræmdu Ustashe sveitir engir eftirbátar þýskra kollega sinna. Ustashe hófu gríðarleg þjóðarmorð á Serbum, Gyðingum og Roma fólki með tilheyrandi fólksflótta til Serbíu en Júgóslavía var hlutlaus framan af stríði. Öxulveldin náðu yfirráðum í Júgóslavíu árið 1941 og var það sem nú er nútíma Serbía skipt milli Ungverja, Búlgara, Króata, Ítala og Þjóðverja. Hversu oft í sögulegu samhengi það þarf að hrekja þessar þjóðir úr Serbíu er erfitt að segja en þær virðast alls ekki ætla að læra af reynslunni.

Andspyrnuhreyfingar risu upp í Júgóslavíu og þóttu þær öflugustu í stríðinu. Kommúnistahreyfingin sem lengst af öldinni hafði verið bönnuð náði mikilli fótfestu á þessum tíma og varð Josep Broz Tito leiðtogi hennar. Hann var Króati en hafði áratugina á undan starfað fyrir ólöglega hreyfingu Komúnistahreyfingar Júgóslavíu og hafði m.a. sterk tengsl við Moskvu sem og víðar í Evrópu.

Titó var þjóðhetja í Júgóslavíu eftir stríð og kosinn forsætisráðherra strax í kjölfarið, samhliða var stjórnarskránni var breytt í eins flokks stjórnun. Titó var upphaflega aðskilnaðarsinni en snerist hugur og vildi fyrir alla muni halda slavnesku þjóðarbrotunum saman sem einni sterkri heild. Júgóslavía var partur af austurblokkinni en Tito lét illa af stjórn. Tito var það klettharður að hann var sé eini sem komst upp með að segja sína þjóð úr austurblokkinni og innleiddi með tímanum sinn eigin sósíalisma, Titoisma. Hann hafði löngu fyrir stríð áttað sig á að Stalín væri alveg snar og var sá eini sem sagði Satlín að halda kjafti og komst upp með það. Kannski ekki orðrétt en Júgóslavía var eina kommúnistaríkið sem gaf skít í fyrirmæli Sovétríkjanna. Stalín var vægast sagt ekki sáttur og reyndi ítrekað að ráða Tito af dögum þar til sá gamli fékk leið á þessu og sendi Stalín bréf sem í stóð

Stop sending people to kill me. We’ve already captured five of them, one of them with a bomb and another with a rifle. […] If you don’t stop sending killers, I’ll send one to Moscow, and I won’t have to send a second.

Josip Broz Tito
Tito hélt Júgóslavíu saman meðan hann lifði, hann lagði mikið upp úr því að sameina þjóðarbrotin sem eina sterka heild og var fljótur að bæla niður allar þjóðernishreyfingar og andspyrnu almennt. Tito opnaði Júgóslavíu miklu fyrr en önnur austantjaldslönd og átti með tímanum í góðum samskiptum við bæði vestur og austurveldin. Júgóslavía varð vinsæll ferðamannastaður á 7. og 8. áratugnum og naut Tito það mikillar virðingar á heimsvísu að útför hans var sú stærsta í sögunni þegar hann dó hvað þjóðarleiðtoga varðar. Aðeins Jóhannes Páll Páfi og Nelseon Mandela hafa toppað útför Tito 1980.

Níundi áratugurinn var erfiðari efnahagslega í Júgóslavíu og eftir Titó tóku að rísa upp þjóðernissinnuð öfl sem endaði með enn einu stríðinu á Balkanskaga. Fjandinn varð endanlega laus eftir að fall Sovétríkjanna og kommúnisma.

Júgóslavía var svipað stór og Stóra-Bretland en íbúafjöldin var um þrefallt lægri fyrir stríð og núna 20 árum eftir stríðið búa ennþá mun færri í fyrrum ríkjum Júgóslavíu en gerðu fyrir stríð. Ef við miðum þetta út frá landsliðum í fótbolta þá eru í dag til átta landslið sem áður spiluðu sem Júgóslavía. Serbía, Svartfjallaland, Króatía, Slóvenía, Bosnía, Makedónína, Albanía og Kosovó. Hversu gott væri landslið Júgóslavíu eiginlega?

Rauða Stjarnan

Sigur Rauðu Stjörnunnar í Evrópukeppni Meistaraliða árið 1991 er ekkert eina ástæðan fyrir því að félagið skapaði sér nafn í Evrópu. Viðureign þeirra gegn Liverpool 1973 er talin hafa markað djúp spor í sögu Liverpool. Shankly og Paisley áttuðu sig á að Liverpool þyrfti að nútímavæða leikstíl félagsins til að ná árangri í Evrópu eftir að hafa tapað bæði heima og heiman gegn frábæru liði Rauðu Stjörnunnar. Breytingar sem urðu grunnurinn að gullaldarliði Liverpool.

Rauða Stjarnan hafði tvisvar komist í úrslit í Evrópukeppni (og tapað) áður en frábært lið þeirra 1991 fór loksins alla leið. Á leiðinni í úrslit mættu þeir Glasgow Rangers undir stjórn Souness sem sendi Walter Smith aðstoðarmann sinn til Júgóslavíu að njósa um þá. “We’re fucked” var niðurstaða Smith eftir þá ferð. Hann hafði rétt fyrr sér þar því Rauða Stjarnan vann 3-0 og Souness sagði eftir leik að Rangers hafði aldrei verið tekið eins illa á útivelli í Evrópu áður.

Gullaldarliðið var enda skipað súperstjörnum á borð við Miodrag Belodedici, Robert Prosinecki, Sinisa Mihajlovic, Darko Pancev og Dejan Savicevic sem flestir áttu eftir að láta að sér kveða í öðrum deildum næstu ár á eftir. Saga Belodedici er sérstaklega mögnuð því hann hafði unnið Meistaradeildina áður með Steaua Bucharest en flúði svo Rúmeníu sem þá var stjórnað af Nicolae Ceausescu  og mætti óboðaður til Rauðu Stjörnunar og spurði hvort hann mætti vera með.

Rauða Stjarnan er líkt og nokkur önnur Júgóslavnesk lið stofnað árið 1945 þó réttara væri að tala um stofnár félagsins árið 1913. Ástæðan fyrir þessu er að á meðan seinni heimsstyrjöldinni stóð reyndu Þjóðverjar að koma knattspyrnudeild aftur að stað í Júgóslavíu og áleit Tito og Kommúnistaflokkur hans alla þá sem tóku þátt í því samverkamenn nasista. Félögin voru leyst upp og ný stofnuð á þeirra grunni.

Tvö stærstu liðin í Belgrad voru SK Jugoslavija og BSK Belgrade. Rauða Stjarnan var gjörsamlega stofnuð á grunni SK Jugoslavija og fékk frá þeim heimavöllinn, skrifstofur, leikmenn, búninga og m.a.s. logo nema nú með rauðri stjörnu í því. Að auki bættust allir frá BSK Belgrad við ásamt nokkrum leikmönnum frá öðrum liðum í Serbíu.

Það er því ekki að undra að Rauða Stjarnan hafi umsvifalaust orðið stórlið heimafyrir og sankað að sér titlum. Það gaf þeim þáttökurétt í Evrópukeppnum og var Rauða Stjarnan oft eitt af betri liðum keppninnar. Sem dæmi var síðasti leikur The Busby Babes 3-3 jafntefli í Belgrad árið 1958 en flugvél Manchester liðsins hrapaði á heimleiðinni eins og frægt er.

Landslagið er gjörbreytt frá árinu 1991 og nánast útilokað að lið eins og Rauða Stjarnan nái aftur að mynda lið sem getur látið til sín taka í Evrópu þó endurkoma þeirra í Meistaradeildina sé mikilvægt skref í rétta átt. Samkeppnin heimafyrir er ekki heldur neitt í líkingu við það sem áður var enda deildin í Júgóslavíu sterk á sínum tíma með Zagreb liðin og Hadjuk Split einnig í deildinni. Sú deild leystist upp árið 1992 en sama ár var Júgóslavíu meinuð þáttaka á EM í Svíðþjóð. (Danir tóku sæti þeirra og unnu mótið).

Marakana

Heimavöllur Rauðu Stjörnunnar heitir Rajko Mitic völlur í höfuðið á helstu stjörnu félagsins, leikmanni sem var m.a. partur af liðinu sem vann Shankly og félaga á sínum tíma. Völlurinn er sá stærsti í Serbíu og raunar er þetta stærsti völlur af öllum í þeim löndum sem áður mynduðu Júgóslavíu. Upphaflega tók hann 110.000 manns og fékk hann af þeim sökum viðurnefnið Marakana sem hefur haldist alla tíð síðan. Nafnið er auðvitað vísun í hinn fræga Maracana í Brasilíu.

Eftir að allar nútíma reglugerðir voru uppfylltar tekur völlurinn í dag rúmlega 55.500 manns og nær ennþá af og til að standa undir orðspori sínu sem einn sá mest ógnvegkjandi í Evrópu.

Delije

Stuðningsmenn Rauðu Stjörnunar voru í útileikjabanni þegar liðin mættust á Anfield um daginn, guði sé lof. Það er eins og enginn hafi sagt Serbum að fótboltabullur hafa ekki verið í tísku síðan á níunda áratugnum. Harðasti kjarni Rauðu Stjörnunar heitir Delije og hefur verið alræmdur í áratugi. Fótboltabullur (hooligans) hafa verið risastórt vandamál í serbneskum fótbolta í áratugi og virðast vera erfitt vandamál að leysa og spurning hversu sterkur vilji er í raun og veru til að sporna við honum. Fréttir a rasisma og þessháttar fáránlegri hegðun berast ennþá frá Serbíu. Það er ekki að ástæðulausu að flestum leyst ekkert á útileikina þegar dregið var í Meistaradeildinni þó Serbarnir vilji meina að stuðningsmönnum Liverpool verði vel tekið.

Til að kynna sér betur andrúmsloftið sem var í kringum Delije mæli ég eindregið með að lesa Football, blood and war, ótrúlega grein frá 2004, Þarna er komið inn á Arkan og hvernig hann notaði Delije til að þjálfa upp hermenn, en margir af versu stríðsglæpamönnum Balkansskagastríðsins komu úr þeim hópi. Þarna er komið inná hvernig fótboltaleikir voru notaðir til að magna þjóðerniskennd og sýna andúð gegn kommúnisma.

‘You have to realise that the establishment may have been communist and pro-Yugoslav,’ explains Igor Todorovic, ‘but football fans in the main were not. Partizan fans might hate Red Star but, at the end of the day, they are still Serbs. One of our most famous sayings here is that “Serbs united will never be defeated”. We take that sentiment very seriously.’

‘Football was a base for people to rebel against communism in Yugoslavia,’ he told me. ‘Most Red Star supporters were already very nationalist. What we did at the end of the 1970s was to take the choreography from Italian football and the hooliganism from England and mix it together to create our own style of football anti-communism. Hooliganism became a way of showing that we were free; of resisting the communist regime.’

Eins og greinin frá 2004 sýnir fram á gerðu forráðamenn Rauðu Stjörnunnar heldur betur sitt til að hafa hemil á stuðningmönnum sínum …eða þannig.

That the Delije have their own official offices is, in relative British terms, a bit like Roman Abramovich opening an office at Stamford Bridge for the Chelsea Headhunters. But then Chelsea, unlike Red Star, do not pay a hard-core of fans to travel to games and arrange choreography. Nor do they provide the ‘boardroom’ table around which hooligans plot attacks on rivals at home and abroad – something to which the Red Star hooligans are happy to admit and discuss.

Það er því ekki tilviljun að Google stingur fyrst upp á þessu þegar maður slær inn Red Star fans í leitarvélina

Þeir fengu bann eftir að hafa ruðst inn á völlinn til að fagna sigri á Red Bull Salzburg er liðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en þeir náðu samt að vera með ólæti og slagsmál í París. Þeir áttu að spila fyrir tómum velli gegn Napoli en UEFA stóð ekki í lappirnar og aflétti því banni er Rauða Stjarnan áfrýjaði. Heimaleikjabann í Meistaradeildinni hefði líka verið gríðarlegt áfall fyrir Rauðu Stjörnuna, bæði þar sem stuðningsmenn liðsins hafa beðið svo lengi eftir Meistaradeildarleik og eins fjárhagslega en rekstur félagsins hefur verið mjög þungur undanfarið. Marko Grujic var t.a.m. seldur til Liverpool til að losa um skuldir.

Stuðningsmenn Rauðu Stjörnunar fengu einnig bann í janúar á þessu ári, annarsvegar fyrir að syngja stuðningssöngva til heiðurs Bosníu-Serbanum Ratko Mladic sem var dæmdur í lífstíðarfangelsi á síðasta ári fyrir þjóðarborð í Balkanskagastríðinu. Eins fyrir rasisma í leik gegn Bate Borisov. UEFA bakkaði einnig er því var áfrýjað og var sekt látin duga. Stuðningsmenn Rauðu Stjörnuna hata UEFA.

Með allt þetta í huga er ljóst að Shaqiri væri ekki að fara í neinn venjulegan útileik gegn Rauðu Stjörnunni. Eins segir það sitt um þennan litla brjálæðing okkar að hann hafi fagnað marki gegn Serbum á HM með Albönsku tákni til að svara fyrir allan óhróðurinn sem hann hafði mátt þola á meðan leik stóð. Vel gert að svara þeim á vellinum en spurning hvort þetta sé rétti hópurinn til að espa upp með þessum hætti. Rory Smith útskýrði málið ágætlega í sumar eftir leik Serbíu og Sviss.

Það var alveg ljóst á Anfield þrátt fyrir að stuðningsmenn Rauðu Stjörnunar væru bannaðir að hann myndi verða aðalfókus heimamanna í þessum leik. Framvkæmdastjóri félagsins tjáði sig m.a.s. um þetta eftir að dregið var í riðla

“I think that Shaqiri will be under unbelievable psychological pressure because he will know where he is coming; he knows that the Red Star is a symbol of Serbia and playing the Marakana, I don’t know whether he will play.

“Of course, as a soccer club, we treat our rivals equally, and we do not have to deal with the past and the history.

“Red Star must do everything to make Shaqiri feel that he came to play football and it is our duty to protect him in the case of unwanted situations. Let’s be good hosts.”

Eins djöfullega og ég var að vona að Shaqiri myndi spila og afgreiða þennan leik líkt og hann gerði með landsleikinn í Rússlandi þá hefur Klopp ákveðið að það sé ekki þess virði að hafa Shaqiri með í þessum leik og vill þannig halda fókus á leiknum.

Þessu hefur verið tekið misjafnlega

Það ætti samt að liggja nokkuð ljóst fyrir að það þarf ekkert “specific intelligence” til að komast að þessari niðurstöðu.

Últra þjóðernissinaðar fótboltabullur og rasistar frá Serbíu eru líklega versta landkynning sem möguleg er og minna mann ítrekað á stríðsárin í Serbíu. Sú ímynd sem við höfum úr fréttum og sérstaklega í tengslum við ólæti á knattspyrnuleikjum gefur alls ekki rétta mynd af Serbíu í dag. Þar hefur efnahagslífið verið að ná sér ágætlega á strik, þeir eru í aðlögunarferli hjá Evrópusambandinu og eru stór landbúnaðarþjóð í Evrópu, eitthvað sem maður hefði ekki skotið á fyrirfram. Eins er menntunarstig nokkuð hátt í Serbíu og hafa nokkur risafyrirtæki sett upp útibú fyrir starfsemi sína. Ferðamannabransinn hefur verið að ná sér í flestum löndum Júgóslavíu undanfarin ár enda gríðarlega falleg lönd heim að sækja og suðrænt veðurfar.

Þannig að líklega er ímynd margra töluvert brengluð, Serbar geta að mörgu leiti sjálfum sér um kennt, ef fótboltaaðdáandi ætlar að hita upp fyrir leik hjá Rauðu Stjörnunni og fer að kynna sér stuðningsmenn liðsins blasir ekkert jákvæð mynd við manni. Þetta er að sjálfsögðu ekki jafn slæmt og þegar Arkan var yfir Delije og vonandi skárra en lýst var í Football, blood and war greininni frá 2004 en svo virðist ekki vera m.v. ólætin sem virðast fylgja þeim.

Upplegg Liverpool

Liverpool var ekkert sérstaklega sannfærandi á löngum köflum gegn Rauðu Stjörnunni á Anfield þó það hafi klárað leikinn að komast í 2-0 rétt fyrir hálfleik. Leikurinn var aldrei i hættu og 4-0 sigur í Meistaradeildinni er ekkert daglegt brauð. Samt finnst manni getumunur þessara liða ennþá meiri en þetta. Líklega erum við þræl ofdekruð eftir síðasta tímabil. Ennþá erum við samt að bíða eftir því að þetta lið hrökkvi almennilega í gang og eru næstu tveir leikir alveg tilvaldir í einmitt það.

Eins og við höfum komið inná er heimavöllurinn gríðarlega sterkur og fullur völlur á Marakana er ekkert grín að eiga við. Napoli vann Liverpool og var óheppið að vinna ekki PSG en gerði bara jafntefli á Marakana. Þetta var fyrsti leikur Rauðu Stjörnunnar á heimavelli í riðlakeppni Meistaradeildarinnar síðan 1992 og stemmingin eftir því. Hún er ekki minni fyrir þennan leik og er t.a.m. gríðarlega erfitt að fá miða á þennan leik þrátt fyrir að völlurinn taki 55.500 manns. Rauða Stjarnan er langstærsta lið Serbíu með langflesta stuðningsmenn en Liverpool á víst nokkuð stóran aðdáendahóp þarna líka.

Klopp tók enga sénsa í fyrri leiknum, Mané var meiddur og Shaqiri kom inn fyrir hann og Fabinho kom loksins inn í byrjunarliðið. Leikjaprógrammið næstu 3-4 mánuði er nánast tveir leikir á viku samfellt og því ljóst að Klopp þarf að fara varlega með hópinn þegar hann getur. Þessi leikur ætti að vera lagður upp með slíkt í huga.

Engu að síður held ég að hann fari svipað inn í þennan leik og þann síðasta gegn Rauðu Stjörnunni og stilli upp mjög sterku liði.

Alisson

Trent – Matip – Virgil – Moreno

Fabinho – Wijnaldum

Salah – Lallana – Mané
Firmino

Robertson hefur aðeins fengið hvíld undanfarið og það kæmi ekki á óvart ef Moreno fái aftur mínútur í þessum leik. Matip gæti mögulega komið inn fyrir Gomez eða Trent. Fabinho náði aldrei almennilega takti gegn Arsenal en eina leiðin til að tengja hann við lið Liverpool er að spila honum. Reyndar var hann partur af þriggja manna miðju sem náði ekki neinum takti gegn Arsenal, þó hann fái bróðurpartinn af gagnrýninni.

Persónulega hefði ég sett Shaqiri á miðjuna í þessum leik en úr því hann er ekki tippa ég á að Lallana fái aftur mínútur. Mögulega er Keita nógu góður til að byrja leikinn. Miðjan var steingeld í síðasta leik og algjör óþarfi að fara svo varkárt inn í þennan leik.

Frammlínan held ég að verði óbreytt þó hérna sér klárlega tækifæri til að gefa Sturridge mínútur og halda í leikæfingu.

Spá:

0-2 Held að þetta verði viðbjóðslegur leikur en hefst vonandi. Liverpool hrekkur ekki almennilega í gang í þessum leik óttast ég, það gerist á Anfield um næstu helgi.

37 Comments

 1. Takk fyrir þessa skemmtilegu og fræðandi upphitun. Mikil og flókin saga en það verður aldrei tekið af Balkanþjóðunum að þær eru góðar í íþróttum. Hrikalega erfitt fyrir aðkomulið að spila þarna og held ég að það hafi verið rétt að skilja Shagiri eftir heima. Ekki bara hans vegna heldur liðsins. Svona leikir geta verið snúnir og reynir RS örugglega að hanga á jafnteflinu eins og hundur á roði og treysta á að ná skyndiupphlaupum. Ef Liverpool hefði ekki gert i brækurnar á Ítalíu þá væri jafntefli enginn heimsendir en mér sýnist á öllu að þessi leikur verði að vinnast og ekkert væl.

 2. BRA fkn VÓ!

  Takk Einar fyrir að toppa þig í upphitunum (aftur)

  Góður upphitunarpistill gerir mann mun spenntari fyrir leik en maður var áður, og þessi gerði nákvæmlega það.

  0-1 iðnaðarsigur fyrir Liverpool, Firmino með markið eftir að heimamenn sjá rautt.

 3. Takk Einar fyrir geggjaða upphitun og að mínu mati ein af þinum í topp 3 í gegnum tíðina, algjörlega geggjuð og ég naut þess mjög að lesa þetta og leið eins og ég væri komin í skóla bara . Þetta er ekkert nema ritgerð sem fólk skrifar í haskóla þvílíkur er metnaðurinn 🙂

  En bara fyrir forvitni, hvað ertu lengi að skrifa þetta og lesa þer til ?Þú hendir ekkert í þetta á einum klukkutíma, ertu ekki marga klukkutíma að græja þetta eða ?

 4. Svo mæli ég með því að strakarnir á þessari síðu fari að rukka okkur hina um smá klink á mánuði fyrir að lesa þessa síðu gegn því að við fáum þá enn fleiri pistla og efni á heimsmælikvarða í staðinn., 500 kall eða 1000 kall á mánuði myndi engan drepa en myndi í staðinn telja hratt og fá menn kannski eins og einar og kannski steina eða marga til að nenna að dæla meira af svona haklassa efni í okkur. Þessi síða er á heimsmækikvarða fyrir liverpool menn það er algerlega á hreinu og ég segi bara TAKK FYRIR MIG, þið eruð yndislegir 😉

 5. Þessi útiliðs-göng eru ekki beint að bjóða menn velkomna á völlinn!

  *hrollur*

 6. Sælir félagar

  Einar Matthías er ekkert nema snillingur og ég styð hugmynd V. Skjóldal að fólk kaupi sér aðgang að kop.is með t. d. 500 kalli á mán.

  Hvað leikinn varðar þá ber ég kvíðboga fyrir honum. Hætta er á að þetta verði ekki eins og fótboltaleikur heldur eins og orusta í stíði. Það er skelfileg tilhugsun en vonandi fær leikurinn/fótboltinn að ráða ríkjum á vellinum.

  Spái 0 – 2 í ömurlega erfiðum og leiðinlegum leik. Maður verður að vona að okkar menn komist óskemmdir frá leiknum og nái að spila þannig bolta að áhorfendur sætti sig við að Liverpool er betra lið en Rauða stjarnan.

  Það er nú þannig

  YNWA

 7. Þakka góð viðbrögð, forsenda þess að maður nennir þessu.

  Þetta tekur töluverðan tíma Viðar, mun tímafrekara að lesa/horfa sig til en að setja á “blað”. Þessi er ekkert sérstaklega löng þannig. Spoin Kop og Heysel og Hillsborough eru þær færslur sem langmest púður fór 🙂

  Já og nei við ætlum ekki að rukka lesendur.

  Annað: Vil benda á að leikurinn byrjar klukkan 17:55 í dag

 8. Takk.Einar fyrir allar þessar greinar.

  Spoin Kop er mín uppháhalds. Maður þykir ansi víðlesinn og mikill sögumaður þegar maður vitnar í hana. 🙂

 9. Takk fyrir stórkostlega upphitun, fyrir vikið er ég mun stressaðri og spenntari fyrir þessum leik en ég var.

  Varðandi þessa frábæru síðu þá væri ég alveg til í að leggja mitt að mörkum fyrir síðuna.
  Kannski er sniðugt að menn geti lagt til frjáls framlög inn á einhvern reikning í staðinn fyrir að vera rukkaðir.

  Það eru forréttindi að eiga ykkur síðuhaldara að.

  ÁFRAM LIVERPOOL

 10. Styð frjáls framlög og mun þakka yndislesturinn með framlagi í slíkan sjóð.

 11. Nú er ég ekki sá sem rekur þessa síðu heldur bara einn af skósveinum síðuhaldara. Fyrir mér er það fyrst og fremst heiður að fá að skrifa um okkar ástkæra klúbb hér á síðunni. Ég er að þessu af því að mér finnst þetta gaman. Peningar myndu engu breyta þar um.

 12. Gríðarlega vönduð upphitun. Serbarnir munu reyna að sjokkera okkar menn í upphafi, bæði með aggressívum leik og ógnvekjandi andrúmslofti með 50.000 tryllta áhangendur. Treysti því að Klopp sé búin að undirbúa menn vel og menn mæti óhræddir til leiks vitandi að LFC er miklu betra fótboltalið en Rauða stjarnan. Serbarnir verða mun sókndjarfari en á Anfield og ef okkar menn ná að hrista af sér skrekkinn strax eigum við að getað sett nokkur mörk á þá.
  0-4 eins og á Anfield.

 13. Sælir bræður og systur. Ein smá pæling, ég er staddur á sjó, og við erum með skybox, en í gegnum allan sport pakkan þá er ég ekki með BT sports, lfc og scum og eitthvað. En ég sé leikinn bara á BT sports, ekki neitt á öllum sky. Má það vera ?
  Og að sjálfsögðu Einar stattu upp og hneigðu þig félagi. Þvilikur eðal maður

 14. Þetta er kannski long shot – en veit einhver um stað í Midtown á Manhattan sem sýnir CL leiki?

 15. Liverpool er bara ekki að mæta í þenna leik, eins og á móti arsenal til að byrja með. Heimamenn miklu grimmari en við. Mér er farið að vera mein illa við þessa fjólubláu búninga :-/ Rauða stjarnan gerir að sama og nallarnir, sækja á TAA.

 16. þetta kick and run kjaftæði er ekkert að virka!!! guð hjálpi okkur

 17. Frábært að horfa á þá félaga Sturridge og Lallana þarna inná á jogginu…
  Liverpool saknar svo sárlega alvöru miðjumanna, gjörsamlega láta vaða yfir sig þarna…

 18. sorry með mig en mikið djöfull rosalega mikið sakna ég emre can og ox

 19. Það á að draga vikulaun af öllum þeim leikmönnum sem komu að þessum leik ! Klopp líka. Þessi frammistaða er félaginu til skammar. Aumingjalegt, eins og 11 hræddir smástrákar þarna inná.

 20. Nýja aðferðin til að vinna LFC sparka boltanum hátt í loft upp og taka síðan sénsinn á að boltinn falli með sér. Vel gert hjá Rauðu Stjörnunni en að sama skapi ekki gott hjá LFC. Sköpunargleðinn var 0 í þessum leik og LFC átti ekkert skilið úr þessum leik.

Kvennaliðið fær City í heimsókn

Liðið gegn Rauðu stjörnunni