TAW og ferð til Liverpool

Minnum á hópferð Kop.is á leik Liverpool og Fulham – sjá nánar hér


Líklega fór það ekki framhjá lesendum/hlustendum síðunnar að við félagarnir skelltum okkur til borgarinnar góðu um daginn og fórum á leik Liverpool og Brighton. Án þess að hlaða í eiginlega ferðasögu langar okkur aðeins að fara yfir það helsta úr þessari ferð og þá sérstaklega heimsókn okkar í höfuðstöðvar The Anfield Wrap.

Þetta er alls ekkert okkar fyrsta ferð til Liverpool og hefð er farin að skapast fyrir því að sofa í Keflavík daginn fyrir ferð með það fyrir augum að ná að sofa aðeins lengur enda flugtími jafnan aldrei i dagsbirtu og þreytandi að sofna jafnan í kvöldmatnum fyrsta daginn úti, enda jafnan borðað á veitingastöðum! Happy Hour á hótel barnum frá 13:00 – 00:30 fór alveg með þær áætlanir (aftur) og líklega sefur maður bara heima næst til að koma betur sofin í Leifsstöð.

Góða heiminn yfirgáfum við svo um leið og við settumst upp í flugvél enda mætti okkur þar sláandi fyrirsögn í Fréttablaðinu, tímamóta niðurstaða í þessari rannsókn!

Drykkja í fluginu var því eðlilega í sögulegu lágmarki, raunar svo rosalega að flugfreyjan hafði án gríns orð á því við strákana “að þetta væri engin frammistaða” er hún labbaði framhjá og sá mig meðvitundarlausan á öxlinni á Magga. Mæli btw mjög mikið með svona noise canceling heyrnatólum í flugvélum, það er hægt að slökkva alveg á flugdólgum (börnum), vélarhljóði flugvélarinnar og Steina. Það er reyndar ekki búið að þróa þessa tækni nógu vel til að slökkva alveg á hljóðinu í Magga.

Fyrsta verk í Liverpool var að fylla á öryggisbyrgðirnar í hótelherberginu og í kjölfarið skelltum við okkur á Tapas veitingastað í miðbænum. Þekking mín á slíkum stöðum einskorðast að mestu við Tapasbarinn hér á landi og þar panta ég bara allt sem inniheldur humar. Allir tókum við tilboð þar sem hver og einn mátti velja sér þrjá rétti og fljótlega fór hver rétturinn að berast á fætur öðrum. Þrátt fyrir að þetta væri líklega matur fyrir svona 10 manna hóp fór Steini að tuða yfir því að fá ekki öndina sem hann pantaði. Það leystist þó sem betur fer fljótt þegar þjónninn benti honum góðfúslega að hann hefði bara víst fengið andaréttinn sinn, benti svo á mig og sagði að ég væri að borða hann, en þarna var ég einmitt að klára síðasta bitann af þessum fína andarétti.

Fyrir ferð var Maggi búinn að vera í sambandi við The Anfield Wrap um að fá þá í podcast með okkur og vildu þeir fá okkur í sitt stúdíó frekar en að mæta í þetta fína ferðastúdíó sem ég hafði dröslað með til Liverpool. Frábært mál og mjög spennandi þar til Maggi tjáði okkur Steina að hann hefði mælt sér mót við þá klukkan 11:00 á sunndeginum. Nóttina eftir leikdag! HVAÐA HELVÍTIS?

Sunnudagurinn var þó allan tíman seinni tíma vandamál og ekkert annað í stöðunni en að keyra sig í gang. Rubber Soul hefur í gegnum ferðasögur Kop.is orðið skyldustopp hjá okkur og þar var að vanda allt við það að fara úr böndunum. Vera okkar þar inni náði ákveðnum hápunkti og sýnir aðeins hvert við vorum komnir í húmornum þegar ég sagði sakleysislega við Steina “Djöfull langar mig í þetta bláa der”. Á móti okkur sat ultra scouse stelpa í heilgalla sem best er lýst þannig að hún hefði ekki þurft að skipta um föt ef hún væri að fara á Þjóðhátíð.

Það er vonlaust að útskýra svipinn á stelpunni þegar Steini tók mig um leið á orðinu, vatt sér að henni og bauð 10 pund í derið.

Þetta kom stuttu seinna á twitter:

Leikdagur

Upplifunin á leikdag var fjandi góð en við ákváðum að prufa miða og hótel sem auglýst er á síðunni hjá okkur á vegum Norwegian Sports Travel. Þeir sjá um rútuferð á Anfield fyrir leik sem er jákvætt en einnig heim eftir leik sem er frábært enda alltaf vesen að komast frá Anfield eftir leik. Sætin koma svo með aðgang að Kenny Dalglish lounge fyrir leik, í hálfleik og eftir leik sem er töluvert þægilegra en troðningurinn sem vanalega er inni á Anfield. Nýttum okkur þetta allt til hins ítrasta á leiknum sem var nú reyndar ekkert sá besti sem við höfum orðið vitni að. Stemmingin á Anfield var samt góð enda liðið taplaust á toppi deildarinnar og laugardags kick off klukkan 17:30 bjóða alltaf upp á hressa stúku.

Kvöldmat tókum við með miklum meisturum frá Höfn i Hornafirði þar sem leikdagur var gerður upp en húmorinn batnaði ekkert hjá okkur þegar leið á kvöldið.


Engar áhyggjur þetta er hvíldarpúlsinn á Rubber Soul.

Vitaskuld var fókusinn aðeins á podcast þætti klukkan 11:00 daginn eftir og var því tekin sú meðvitaða ákvörðun að fara snemma að sofa. Verra var að við misskildum aðeins það hugtak og fórum að sofa snemma um morgunin. Gleymdi þó alveg að láta Steina kaupa eitthvað handa mér aftur.

Sunnudagur – The Anfield Wrap

Það að fá að taka upp Podcast Kop.is í höfuðstöðvum The Anfield Wrap (TAW) og fá tvo af þeirra lykilmönnum með okkur í þátt er töluverður heiður fyrir okkur en líklega (og eðlilega) gera sér ekkert allir grein fyrir afhverju.

Hér er hægt að finna þennan þátt fyrir þá sem misstu af honum í síðustu viku.


Afsaka stafsetningarvillur í twitterfærslunni en þarna á borðinu má sjá dósina sem Gareth Roberts færði mér. Þetta var afgangur af afgangsbjórbirgðum síðunnar sem ég þáði í glímu minni við óðaþynnku.

TAW er ekki bara langstærsta stuðningsmannasíða Liverpool heldur eru þeir með concept sem ekkert annað félag kemst nálægt því að bjóða uppá í knattspyrnuheiminum og hafa þeir undanfarin ár fengið viðurkenningar því til staðfestingar. Þeir tveir fulltrúar TAW sem við fengum í þáttinn okkar eru meðal þekktari stuðningsmenna Liverpool í dag, kannski ekki á heimsvísu en klárlega meðal okkar nördanna sem viljum meira en bara horfa á leikina. Báðir eru þeir stofnmeðlimir síðunnar.

Það eru til stórar stuðningsmannasíður og podcastþættir hjá öllum stórliðum. Liverpool eitt og sér bíður upp á óteljandi slíka möguleika og marga þeirra mjög vandaða og góða. TAW sker sig engu að síður afgerandi úr hópnum og er leiðandi í okkar bransa, ekki bara meðal stuðningsmanna Liverpool heldur er ekki til sú stuðningsmannasíða hjá neinu liði sem kemst nálægt því að bjóða upp á það sem þeir eru að gera. Hugmyndin þeirra frá upphafi var að láta rödda heimamanna heyrast skýrt og greinilega. Þetta hefur tekist það vel og undið þannig upp á sig að núna eru þeir með 10-11 starfsmenn í fullri vinnu og nokkra tugi í launuðu aukastarfi. Allt eru þetta heimamenn og höfuðstöðvar þeirra eru í hjarta borgarinnar sem bíður upp á mikla möguleika. Þættirnir eru flestir teknir upp þannig að allir viðmælendur eru saman í stúdíóinu. Það vita allir sem stjórnað hafa þætti í gegnum síma eða net hversu mikill kostur er að hafa alla viðmælendur á sama stað og tækjakosturinn þeirra er bara eins og á útvarpsstöðvum.

Neil Atkinson sem er annar viðmælenda okkar í þættinum er að öðrum ólöstuðum aðalástæðan fyrir skjótum uppgangi síðunnar. Hann er langbestur í okkar bransa og hefur verið aðalþáttastjórnandi TAW frá upphafi. Eðlilega hafa menn mismunandi skoðanir á svonalöguðu en fyrir mér persónulega var hálf skrítið að stjórna þætti þar sem hann var einn viðmælenda (ekki stjórnandi).

TAW er eins og þeir segja í þættinum að gefa út um 14 þætti á viku sem er auðvitað fullkomlega galið. Frábær þjónusta fyrir okkur sem viljum meira en bara horfa á leiki liðsins og skanna twitter enda boðið upp á mjög fjölbreytt efni. Það ná ekkert allir að hlusta á fjórtán þætti á viku en þá er líka auðvelt að sigta úr það sem maður vill. Það kostar fimm pund á mánuði að vera áskrifandi að síðunni og betur geta stuðningsmenn Liverpool ekki notað fimm pund, það að hlusta bara á fríu þættina þeirra er bara brot af því sem þeir bjóða uppá og ekkert endilega þeirra bestu þættir.

Neil kemur inná í okkar þætti að þeir horfi meira á sig sem samkeppnisaðila við t.d. BBC, Guardian og TalkSport frekar en bara aðrar stuðningsmannasíður og leggja upp með að bjóða upp á sambærileg gæði. Það þarf ekki að hlusta lengi á Pétur og Pál (Peter & Paul?) hringja snarbrjálaða inn á Talksport eftir leik og fá þar samband við Robbie Savage til að átta sig á að maður er mikið betur settur að heyra frekar beint frá hjarta Liverpool í heimamönnum. Það eru rosalega sjaldan Dave Hendricks spekingar á TAW og þeir endast þá ekki lengi, því síður svona Talksport phone-in sérfræðingar.

Alltaf þegar eitthvað gerist tengt félaginu eða borginni almennt eru þeir jafnan með puttann á púlsinum með einum eða öðrum hætti. Ef einhver skrifar blaðagrein sem mikið er í umræðunni er viðkomandi blaðamaður jafnan fljótlega kominn í þátt hjá þeim. Ef einhver er að skrifa bók tengda Liverpool, skrifa leikrit, gefa út tónlist o.s.frv.

Eitt af því sem ég persónulega hlusta mest eftir frá þeim eru tvær tegundir af þáttum þar sem talað er við stuðningsmenn andstæðinganna og tekið púlsinn á þeirra liðum. Þetta veitir góða innsýn í viðkomandi lið og gefur vinkil sem maður var ekkert endilega með fyrir. Annarsvegar er það þáttur sem heitir The Friday Show og við ræðum í okkar þætti. Þar er farið yfir næstu umferð og oft talað við stuðningsmenn þeirra liða sem eru að fara mætast. Hinsvegar er svo þáttur sem þeir kalla The Couch home þar sem tekið er meira random spjall við stuðningsmenn annarra liða. Oftar en ekki þegar þeirra lið eru mikið í umræðunni af einhverjum ástæðum.

Það að vera með 10-11 manns í fullri vinnu bíður upp á mikla möguleika og eru þeir alltaf að reyna þróa síðuna. Nýjasta verkefnið hjá þeim er að vera með videoinnslag á hverjum degi þar sem farið er yfir það sem er efast á baugi hverju sinni. Þetta eru 15-30 mínútna innslög sem sett eru á youtube. Gareth Roberts fyrrverandi leikmaður Liverpool er umsjónarmaður þessara þátta en hann fór m.a. á alla útivelli Liverpool í deildinni í sumar til að tala við stuðningsmenn andstæðinganna og kynna sér aðstæður fyrir stuðningsmenn Liverpool á leikdegi.

Engin spurning að gerast áskrifendur af þessu á youtube, hér er t.a.m. þátturinn frá því í gær:

Það skal tekið fram að Neil og Gareth vita ekkert af þessari færslu og við sömdum ekkert um að kynna þeirra síðu neitt frekar. Það er okkur algjörlega sársaukalaust að kynna þeirra efni aðeins fyrir okkar lesendum. Fyrir þá sem vilja prufa að gerast áskrifendur hjá þeim þá er hægt að gera það hér.

Næsta skref okkar hérna á klakanum er auðvitað að fá þá til landsins hvernig svosem farið verður að því. Þeir voru meira en til í að kíkja til Íslands í spjalli okkar eftir þáttinn.

Þessi heimsókn okkar var heldur betur skemmtilegt krydd í frábæra ferð til Liverpool.

Næst stefnum við á að mæta á Fulham leikinn í hópferð Úrval Útsýn og verðum vonandi með einhverjum ykkar þar.

2 Comments

  1. Sammála hverju orði um The anfield Wrap og það væri mjög gaman að fá þá hingað til lands og hitta þá .

Landsleikjahlé – opinn þráður

Podcast – Gullkastið!