Upphitun: Rómverjar eru klikk

Nánast öll mín þekking á Rómverjum er fengin úr Ástríkssögunum sem gefa auðvitað mjög nákvæma og rétta mynd af öllu Rómarveldi.

Róm var svo sannarlega ekki byggð á einum degi, borgin er ein sú sögufrægasta í heimi. Talið er að Rómarveldi hafi orðið til 753 f.kr. og stóð með einum eða öðrum hætti allt til 476 e.kr er síðasta rómverska keisaranum var steypt af stóli. Reyndar má segja að Rómarveldi hafi staðið lengur því að 395 e.kr. var ríkinu skipt í tvö hluta. Vesturhlutanum var stjóranð frá Róm og féll eins og áður segir 476 e.kr. Austurhlutanum var stjórnað frá Konstantínópel og hélt allt til 1453 er Súltán Tyrkja náði þar völdum og batt endalok á Rómarveldi. Konstantínópel er í dag auðvitað þekkt sem Istanbúl þannig að hvort sem rætt er um vestur eða austurhlutann má færa rök fyrir því að Liverpool hafi lagt bæði ríkin að velli í sinni sögu.

Þegar Rómarveldi var sem stærst náði það ca. yfir þetta landssvæði og því ljóst að áhrif Rómverja eru gríðarlega á siði og venjur á vesturlöndum og víðar.

Það er hægt að taka þúsund vinkla á Rómarborg og rómverja en að þessu sinni látum við það eiga sig. Notumst áfram við þá ímynd sem Ástríksbækurnar gefa enda alveg jafn gott að trúa því sem þar stendur eins og öðrum skáldsögum.

Liverpool og Roma eru alls engir vinaklúbbar

Rómverjar eru klikk sagði Steinríkur jafnan og líklega geta fjölmargir stuðningsmenn Liverpool kvittað upp á þá alhæfingu. Liverpool og Roma eiga sér sögu og þessi félög eru langt frá því að vera einhverjir vinaklúbbar. Þegar við vorum að velta fyrir okkur mögulegum næstu mótherjum fyrr í vetur vildum við helst sleppa við ferðalag til Ítalíu.

Rómverjar hafa tvisvar áður komist langt í Evrópu, fyrst auðvitað þegar Júlíus Sesar og félagar fóru sigurför sína og svo aftur árið 1984. UEFA var með allt á hreinu eins og vanalega og setti úrslitaleik keppninnar á heimavöll ítölsku meistaranna. Undanúrslitaviðureignin gegn Dundee United var vægast umdeild og er það raunar ennþá. Skotarnir unnu heimaleikinn 2-0 en Roma sneru dæminu við með vægast sagt umdeildri dómgæslu í heimaleiknum og unnu 3-0.

Árið 2011 kom í ljós að dómaranum var mútað £50,000 fyrir leik og verður að horfa á árangur Roma í því ljósi. Reyndar verður að horfa á árangur allra ítalskra liða í því ljósi. Þeir voru undir pressu að komast í úrslit enda leikið á þeirra heimavelli en hver veit hvað ítölsk lið hafa mútað mörgum dómurum í gegnum tíðina? Hvort sem dómaranum var mútað líka fyrir úrslitaleikinn er ekki vitað en það dugði þá ekki til, Bruce Grobbelaar og félagar eyðilögðu partýið all eftirminnilega og fengu stuðningsmenn Liverpool heldur betur að kenna á því eftir leik og voru móttökur heimamanna fyrir leik ekkert frábærar frekar en á meðan leik stóð.

Miðborg Róm er sögð vera meira á bandi Roma en nágranna þeirra í Lazio sem eru í úthverfunum og þegar stuðningsmenn Liverpool mættu eftir langt ferðalag til Rómar virtist sem allir gluggar borgarinnar væru þaktir rómverskum fánum og treflum. Völlurinn sem Liverpool fékk úthlutað til æfinga var svo lélegur og beinlínis hættulegur að þeir hættu æfingu. Hlutfall stuðningsmanna á vellinum var bara eins og um heimaleik Roma væri að ræða.

Rómverjar voru meira en tilbúnir inni á pöllunum þegar Liverpool kom til að hita upp, Alan Hansen segist aldrei hafa upplifað annað eins andrúmsloft “It frightened me how much those fans wanted Roma to win the match.”

Fyrirliði Liverpool var hinsvegar Graeme Souness, maður sem seinna fagnaði bikartitli með því að flagga fána Galatarsaray á miðjupunktinum á heimavelli Fenerbahçe. Hann hafði kjálkabrotið fyrirliða Steua Bucharest í undanúrslitunum og var alls ekkert hræddur á Stadio Olympico, hann nærðist á svona móttökum. Souness gekk viljandi beint að Curva Sud þar sem harðasti kjarni stuðningsmanna Roma heldur sig og sýndi engan ótta heldur starði beint á þá og hefði komið til þess hefði hann mjög líklega tekið þá eins og Steinríkur tók rómverja forðum.

Rétt fyrir leik ætluðu Rómverjar að taka leikmenn Liverpool á taugum með gamla bragðinu að koma seinna út úr búningsklefanum eftir að dómarinn gaf til kynna að liðin ættu að gera sig klár. Leikmenn Liverpool höfðu í gegnum keppnina tekið ástfóstri við lagið “I Don’t Know What It Is But I Love It” og í stað þess að stressast upp byrjuðu þeir að syngja það hástöfum í göngunum með Grobbelaar berjandi taktinn við lagið á hurðinni á búningsherbergi Rómverja. Taktík rómverjanna hafði þveröfug áhrif.

Mynd af liðunum ganga inn á völlinn fyrir leik sýnir ágætlega hversu “stressaður” Grobbelaar var og Souness hefði getað drepið kött með því að stara á hann, öll níu lífin á einu bretti.

Grobbelaar varð svo hetja Liverpool í vítaspyrnukeppni eins og frægt er og Liverpool vann Evrópukeppni Meistaraliða í fjórða sinn og í annað skipti í Róm.

Rómverjar tóku tapinu mjög illa og hentu öllu lauslegu í stuðningsmenn Liverpool og auðvitað úr öllum áttum enda miklu fleiri á vellinum. Fyrir utan völlinn var sannarlega setið fyrir gestunum er þeir yfirgáfu leikvanginn. Brian Reade kom inn á þessa atburði í bók sinni 43 Years With The Same Bird, hann minntist stórra gengja vopnuðum hnífum og bareflum sem réðust á stuðningsmenn Liverpool, jafnvel rólegheita fjölskyldufólk á leiðinni heim á hótel. Fjölmargir hlutu stungusár og einhverjir þurftu að leita skjóls í breska sendiráðinu í Róm. Lögreglan lét þetta að miklu leiti afskiptalaust og raunar voru sögur til af hjálp þennan dag úr óvæntri átt eða frá stuðningsmönnum (Ultras) Lazio.

Ítalir voru vægast sagt ekki vinsælir í Liverpool borg eftir Róm 1984 og er það einn af fjölmörgum þáttum sem skapaði harmleikinn árið eftir, stuðningsmenn Liverpool ætluðu ekki til Belgíu til að láta ítali berja sig aftur. UEFA átti reyndar aftur stórleik þar því í stað þess að velja heimavöll liðs sem var sigurstranglegt í keppninni líkt og árið áður völdu þeir gamlan og fullkomlega óhæfan völl, svo lélegan að hægt var að týna múrsteina úr stúkunni. Eins höfðu þeir fáránlega lélega gæslu og skipting stuðningsmanna var lítil sem engin. Sérstaklega með atburðina í Róm árið áður í huga. Þessa atburði fórum við ítarlegar yfir fyrir nokkrum árum.

Leikurinn 1984 var upphafið að fjölmörgum átökum stuðningsmanna Roma við enska stuðningsmenn. Annar harmleikur tengdur þessum sögufræga leik 1984 er sjálfsmorð fyrirliða Roma liðsins nákvæmlega 10 árum seinna, upp á dag. Di Bartolomei var uppalinn Rómverji og grjótharður jafnt innan sem utan vallar og gríðarlega vinsæll í Róm. Hann hafði glímt við vandamál andlega en að hann hafi valið þennan tíma tengir það úrslitaleiknum.

Liverpool fékk Roma í sitthvorri Evrópukeppninni árið 2001. Liðin mættust í frægu einvígi í UEFA Cup 2001 sem Owen afgreiddi með tveimur mörkum í Róm. Ítalirnir höfðu engu gleymt frá 1984 og voru mikil ólæti fyrir utan völlinn og a.m.k. fjórir stungnir fyrir leik. Auk þess var kastað flöskum, kveikjurum og öðru lauslegu.

Seinna sama ár fór Liverpool aftur til Rómar nú í Meistaradeildinni og var ástandið engu skárra í það skiptið og hnífurinn ennþá á lofti hjá stuðningmönnum Roma. Hnífurinn er jafnan á lofti hjá þeim blessuðum.

Það er því ekki að ástæðulausu að mjög margir stuðningsmenn Liverpool vildu ekki Roma í undanúrslitum. Frá 1984 til 2001 liðu 17 ár sem er það sama og liðið hefur nú frá síðustu opinberu viðureign liðanna.

Það er heldur ekki eins og Rómverjar hafi setið aðgerðarlausir í þessi 17 ár, sérstaklega ekki þegar ensk lið mæta á svæðið, þau hafa heldur betur fengið staðfestingu á kenningu Steinríks. Stuðningsmenn Middlesbrough voru stungnir er Boro mætti Roma árið 2006 og hér er brot af því sem gekk á inná vellinum er Manchester United mætti til Rómar árið eftir.

Margir stuðningsmanna United fóru að ráðum UEFA og ferðuðust ekki til Róm tveimur árum seinna (2009) þegar liðin mættust á ný. Arsenal fór einnig til Róm árið 2009 og réðust stuðningsmenn Roma (Ultras) þá á litla rútu með stuðningsmönnum Arsenal, brutu í henni gluggana og einn réðst inn í bílinn, kveikti á blysi og stakk stuðningsmann Arsenal í hnéð.

Á þessu tímabili lentu stuðningsmenn Chelsea svo í ryskingum á bar í Róm og voru tveir stuðningsmenn Roma handteknir.

Þetta eru bara dæmi sem tekin eru af handahófi af ferðum enskra liða til Róm. Auðvitað er ástandið ekki eins hrikalegt og það var árið 1984 og vonandi eru þetta afmörkuð dæmi en það er ALLTAF eitthvað um átök fyrir leiki enskra liða í Róm og oftar en ekki hnífaárásir.


Bardaginn um borgina – Roma vs Lazio

Ef að stuðningsmenn Roma eru klikkaðir þá eru stuðningsmenn Lazio klárlega engu skárri, þessir hópar sannarlega hata hvorn annan og eru evrópukvöldin bara sýnishorn af þeim látum sem verða er þessi lið mætast.

Roma var stofnað árið 1927 er þrjú lið voru sameinuð. Þetta var gert að ósk Benito Mussolini sem vildi hafa eitt öflugt lið frá Róm til að keppa við risana frá N-Ítalíu. Lazio, elsta lið borgarinnar neitaði hinsvegar að vera með og hélt sjálfstæði sínu áfram þökk sé herforingjans (og fasistans) Giorgio Vaccaro. Róm er partur af Lazio héraðinu sem útskýrir nöfn liðanna.

Bæði lið hafa nánast alla tíð verið í skugga risanna úr norðri og er saga beggja liða satt að segja ekkert svo merkileg miðað við það sem maður myndi ætla frá höfuðborgarliðunum á Ítalíu. Bæði lið hafa unnið tvo titla síðan eftir seinni heimsstyrjöld en þó staðið sig mun betur í bikarnum. Aðalatriðið ár hvert er því að enda fyrir ofan Lazio og númer eitt, tvö og þrjú að vinna bardagann um borgina þegar liðin mætast, líklega á það jafn mikið við innan vallar sem utan vallar því þetta er talin vera einn heitasti rígurinn í Evrópu.

Lazio og Roma deila ennþá sama heimavelli þó uppi séu áform hjá eigendum Roma að byggja nýjan heimavöll. Rígurinn snýst ekki um trúarbrögð eins og t.d. í Glasgow heldur meira stjórnmálaskoðanir. Stuðningsmenn Roma eru almennt taldir vera meira vinstri sinnaður á meðan stuðningsmenn Lazio eru alræmdir fyrir stuðning sinn við fasista. Þó eru einhverjir ultras hópar Roma sagðir vera hægri sinnaðir og því ekki alveg hægt að alhæfa á svo einfaldan hátt um stuðningsmenn þessara liða.

En með því að kynna sér málið aðeins er ljóst að Steinríkur var ekkert að bulla, Rómverjar eru klikk.


Francesco Totti og herslumunurinn

Roma er tölfræðilega fjórða besta lið í sögu ítalska boltans og eru taldir vera fimmta vinsælasta lið landsins á eftir AC Milan, Inter, Juventus og Napoli. Félagið vann sinn fyrsta titil á stríðsárunum en vann svo ekki aftur fyrr en 1982-83 tímabilið sem tryggði þeim þáttökuréttinn í Evrópukeppni Meistaraliða. Bikarinn hefur Roma hinsvegar unnið níu sinnum, síðast 2008.

Það er engu að síður margt sem bendir til þess að hægt og örugglega sé þetta Roma lið á uppleið eins og árangur þeirra í Meistaradeildinni nú gefur til kynna. Roma hefur verið mesta næstum því lið deildarinnar á þessari öld með gulldrenginn Francesco Totti í broddi fylkingar.

Totti spilaði sinn fyrsta leik fyrir Roma 16 ára gamall árið 1992. Hann er fæddur og uppalinn í borginni, besti leikmaður í sögu félagsins og varð snemma fyrirliðið liðsins og leiðtogi félagsins í heild. Til að útskýra hverstu stór Totti er í Róm er ágætt að skoða hvernig stuðningsmenn beggja liða í Róm sýndu honum virðingu þegar hann hætti eftir síðasta tímabil.

Totti hóf ferilinn á hátindi ítalska boltans hér á landi árið 1992. Roma liðið var ekki að gera merkilega hluti þessi fyrstu ár ferilsins en Totti var gríðarlega eftirsóttur og hefði léttilega getað farið í stærri lið. Hann kaus ávallt að vera frekar áfram í Róm og leiddi liðið sem fyrirliði til sigurs í deildinni tímabilið 2000-2001.

Eftir þennan titil Roma eru liðin sextán tímabil og Roma hefur verið í öðru sæti í deildinni í átta skipti. Þá vantaði alltaf herslumuninn og jafnvel eftir mútuhneykslið sem tók AC Milan og Juventus úr leik 2007 og 2008 dugði ekki til, þá vann Inter Milan deildina.

Totti var einn af bestu leikmönnum í heimi og var m.a. einn af bestu mönnum heimsmeistara Ítalíu árið 2006 og var í liðinu sem komst í úrslit á EM árið 2000. Hann var algjörlega í heimsklassa og allt að því trúarbrögð hjá stuðningsmönnum Roma.

Síðustu ár ferilsins var Roma þrisvar í öðru sæti og einu sinni í þriðja sæti. Juventus vann öll árin. Totti spilaði 766 leiki og kom í þeim síðasta inná sem varamaður fyrir Mo Salah. Roma vann leikinn og tryggði sér þar með sæti í Meistaradeildinni.

Eigendur frá Boston

Árið 2011 keyptu bandarískir viðskiptamenn með ítölsk ættarnöfn félagið, aðalmaðurinn í þeim hópi heitir Jim Pelotta er einn af eigendum Boston Celtics. Pelotta og viðskiptafélagar hans eru miklir vinir eigenda Liverpool og hafa þekkt þá í áratugi. Hugmyndafræði og uppbygging Roma er enda ekki ósvipuð því sem FSG er að gera á Englandi. Liverpool og enska deildin er bara miklu stærri markaðslega en Seria A og Roma.

Undanfarin ár hefur Roma ráðið stjóra eins og Luis Enrique, Rudi Garcia og Spaletti, menn sem vilja spila fótbolta sem hægt er að selja stuðningsmönnum liðsins (og jafnvel búa til nýja stuðningsmenn). Á leikmannamarkaðnum hafa þeir verið að kaupa leikmenn sem eiga eftir að taka næsta skref á ferlinum, besta nýlega dæmið er auðvitað Mo Salah.

Síðasta sumar landaði Pelotta líklega mikilvægasta púslinu er hann réði hinn magnaða Monchi frá Sevilla sem yfirmanns knattspyrnumála. Monchi hafði náð ótrúlegum árangri hjá Sevilla og byggði upp lið þar sem m.a. vann Evrópudeildina þrisvar.

Pelotta leggur mikla áherslu á að bæta ímynd félagsins og sér mikla tekjumöguleika þar. Það eru enda fá lið í heiminum betri á samfélagsmiðlum en Roma sem eru þar mjög virkir og með marga fylgjendur. Það stækkar markhópinn og styrkir stöðu Roma við samningsborðið. Pelotta hefur hótað að selja félagið samþykki borgaryfirvöld ekki byggingu nýs heimavallar Stadio Della Roma. Pelotta telur nýjan heimavöll aðalgrundvöll þess að hægt sé að snarauka tekjumöguleika Roma.

Pelotta komst svo auðvitað í fréttirnar eftir að Roma sló Barcelona úr leik er hann henti sér í gosbrunn í miðborg Roma.

Leið Roma í undanúrslit og möguleikar Liverpool

Áður en dregið var í 8-liða úrslitum vildu 40% lesenda Kop.is fá Roma upp úr skálinni, 1% vildi frá Man City. Ef ég fengi sama val myndi ég líklega aftur velja Roma. Það þýðir ekki að þetta sé ekki öflugt lið. Roma er ekki bara búið að slá Barcelona úr leik í vetur heldur toppaði liðið dauðariðilinn fyrir áramót og sendi Atletico Madrid í Evrópudeildina.

Roma er verðskuldað í undanúrslitum en eins og hjá öllum liðum sem ná góðum árangri hafa hlutirnir aðeins fallið með þeim líka. Roma toppaði vissulega sinn riðil en það var mikið til rosalegu klúðri Atletico að þakka. Spánverjarnir sem hafa verið frábærir í Meistaradeildinni undanfarin ár unnu hvorugan leikinn gegn Quarabak FK og enduðu fyrir vikið fjórum stigum á eftir Roma og Chelsea sem voru jöfn að stigum með 11 stig. Atletico Madríd vann hinsvegar Roma í Madríd og leikurinn í Róm fór 0-0.

Chelsea hefur blessunarlega verið langt undir pari í vetur og þeir voru það svo sannarlega í riðlakeppninni einnig. Chelsea missti niður 2-0 forystu á Brúnni gegn Roma og lentu 2-3 undir áður en Hazard jafnaði 3-3. Seinni leikurinn tveimur vikum seinna er hinsvegar alvöru viðvörunarbjalla fyrir Liverpool rétt eins og Barcelona leikurinn um daginn. Roma slátraði Chelsea 3-0. Á móti unnu þeir Quarabak FK bara með einu marki í báðum leikjunum.

Shaktar Donetsk beið Roma í 16-liða úrslitum. Fyrri leikurinn var í Úkraínu og endaði 2-1. Ég horfði á þennan leik og get vottað að Roma voru heppnir að sleppa með 2-1 tap eftir seinni háfleikinn. Staðan var 0-1 í hálfleik en það kom allt annað Shaktar lið í seinni hálfleikinn. Alisson markmaður Roma var valinn maður leiksins og sagður hafa haldið Roma inni í einvíginu. Ekki fyrsti leikurinn í vetur þar sem hann er í David De Gea mode. Alisson var aftur í stuði í seinni leiknum er Roma vann 1-0 og komst áfram á útivallarmarki. Shaktar sótti mikið í leiknum á meðan Roma lá aftur en orustan var nánast búinn er Shaktar misstu mann af velli með rautt á 79.mínútu.

Barcelona kom upp úr hattinum í átta liða úrslitum og fyrri leikurinn í Katalóníu. Barcelona var langt frá sínu besta í leiknum skv. Sky Sports en vann engu að síður 4-1. Roma skoraði tvö sjálfsmörk sem komu Barca 2-0 yfir og voru almennt mjög óheppnir í þessum leik. Það var hinsvegar engin heppni að Roma sneri einvíginu við á heimavelli. Fyrsta markið komið á 6.mínútu sem kveikti vel í vellinum og líklega hefur blanda af vanmati fyrir leik og stemming á vellinum skilað sér í frábærri endurkomu Roma.

BRING ON YOUR ROMA BY THE SCORE

Frábær endurkoma Roma og rosaleg stemming á Stadio Olimpico hafa aðeins blásið upp hversu mikið vígi þessi völlur er. Áður en dregið var vildu margir forðast Roma þar sem þeir eru svo sterkir á heimavelli sem er að vissulega rétt. Stadio Olimpico er öflugur heimavöllur, stemmingin þar getur verið gríðarlega góð og þeir hafa átt tvö stórkostleg Evrópukvöld nú þegar á þessu tímabili þar sem Chelsea og Barcelona voru tekin 3-0. Minna er reyndar talað um tæpa sigra á Quarabak FK og Shaktar eða jafnteflið gegn A. Madríd. Þeir hafa á þessu tímabili náð upp stemmingu á Evrópukvöldum sem er í ætt við Anfield og í Meistaradeildinni hefur Roma ekki ennþá fengið á sig mark á heimavelli og ekki tapað leik, unnið alla nema einn sem fór jafntefli. Þeir eru mjög erfiðir heima að sækja.

Það er því ekkert mál að tala Stadio Olimpico upp en þá verður líka að taka inn í myndina hvar hin þrjú liðin spila sína heimaleiki, Allianz Arena, Bernabeu og Anfield Road. Vissulega eru minni líkur á að verða stunginn með hnífi á hinum völlunum en innan vallar eru heimaliðin ill viðráðanleg, jafnvel betri en Roma á sínum heimavelli.

Svona er ágangur Roma á heimavelli í deildinni á þessu tímabili

Auðvitað er Seria A allt annað mál en Meistaradeildin en það er áhugavert að sjá að Roma hefur ekki unnið neinn leik gegn toppliðunum á heimavelli í vetur nema gegn Lazio sem spilar líka á Stadio Olimpico. Napoli, Inter, AC Milan, Fiorentina, Atalanta og Sampdoria hafa öll unnið á Stadio Olimpico og Juventus á ennþá eftir að koma í heimsókn. Roma gerði svo jafntefli við Lazio í sínum útileik á Stadio Olimpico. Þeir eru því mjög langt í frá ósigrandi þarna.

Til samanburðar tapaði Liverpool síðast á Anfield í bikarleik gegn WBA rétt fyrir jól, þar áður tapaði Liverpool á Anfield gegn Crystal Palace í apríl 2017. Ef að Liverpool getur komist 0-3 yfir á Ramón Sánchez Pizjuán gegn Sevilla og unnið Porto 0-5 þá er óþarfi að mikla Stadio Olimpico of mikið fyrir sér. Áhorfendur eru háværir og öflugir en langt frá vellinum enda hlaupabraut hringin í kringum völlinn.

Lið Roma

Roma hefur í vetur verið gríðarlega sveigjanlegt með leikkerfi og aðlaga þau eftir því hver andstæðingurinn er. Oftast spilar liðið 4-3-3 en þeir hafa einnig notast við 4-2-3-1, 4-5-1, 4-4-2, 5-3-2 eða 3-5-2 líkt og þeir gerðu gegn Barcelona í seinni leiknum.

Þetta er fyrsta tímabil Roma án Francesco Totti en auk hans hurfu á braut lykilmenn á borð við Mo Salah, Emerson og Rudiger sem fóru úr vörninni til Chelsea og djúpi miðjumaðurinn Leandro Paredes sem fór til Zenit. Roma þurfti að selja til að standast FFP og gætu þurft að gera það aftur í sumar. Roma missti einnig Spaletti sem tók við Inter Milan. Monchi er ekkert að byrja í faginu og fékk helling af leikmönnum í staðin fyrir lágmarks upphæðir.

Besti leikmaður Roma eftir að Salah var seldur er Alisson Becker aðalmarkvörður Braselíu. Hann hefur auðvitað verið orðaður mikið við Liverpool í vetur. Þarna er á ferðinni markmaður sem líklega telst nú þegar meðal þeirra bestu í heimi og er ein helsta ástæða þess að Roma fær ekki á sig mörg mörk.

Bæði gegn Lazio og Barcelona heima var spilað með þriggja miðvarða vörn sem samanstóð af Federico Fazio, Kostas Manolas og Juan Jesus. Fazio er Monchi vel kunnur frá því hann spilaði með Sevilla í sjó ár en kom endanlega frá Tottenham fyrir tímabilið eftir að hafa verið síðasta tímabil á láni. Kostas Manolas sem skoraði lokamarkið mikilvæga gegn Barcelona kom árið 2014 frá Olympiakos og hefur fest sig í sessi í vörn Roma. Braselíumaðurinn Juan Jesus kom frá Inter Milan árið 2016, hann er líklega sá sem dettur út spili Roma með fjögurra manna línu.

Hvernig sem Roma stillir upp er nokkuð ljóst að Aleksandar Kolarov verður vinstra megin. Hann kom frá Man City í fyrra og hefur verið stór partur af liðinu í vetur. Hann þekkir vel til í Róm því áður en hann fór til Man City spilaði hann með Lazio. Kolarov er engin raketta og það gæti orðið fróðlegt að sjá hann glíma við sóknarleikmenn Liverpool en móti má hann ekki komast í tæri við markið með þennan bölvaða vinstri fót sinn, sérstaklega ekki til að senda fyrir á Edin Dzeko frammi.

Á hinum vængnum gegn Barcelona var hinn Rómverjinn í liðinu og varafyrirliðinn Alessandro Florenzi. Hann er mjög fjölhæfur leikmaður og spilar bæði á miðjunni sem og í bakverði. Ætli honum sé ekki best lýst sem þeirra James Milner.

Á miðjunni eru þrjú þekkt nöfn, aðalmaðurinn er auðvitað Daniele Di Rossi sem tók við keflinu af Totti í fyrra. Hann er 34 djúpur miðjumaður og leikstjórnandi Roma. Hann er eins og Totti uppalinn hja félaginu og hefur spilað með sínu heimaliði alla tíð. Di Rossi eins og Totti hefði vel getað farið til sigursælli liða og er ein af goðsögnum ítalska landsliðsins með 117 landsleiki.

Kevin Strootman og Radja Nainggolan verða líklega með Di Rossi á miðjunni. Strootman er hávaxinn miðjumaður sem kom til Roma árið 2013 en hefur eiginlega bara spilað þrjú tímabil. Hann missti nánast af tveimur heilum tímabilum vegna meiðsla 2014-16. Þetta er hörkuleikmaður. Radja Nainggolan er belgi sem hefur spilað allan sinn feril á Ítalíu. Hann var hjá Calgiari áður en Roma keypti hann 2014 en hann hefur verið einn af lykilmönnum liðsins allar götur síðan.

Frammi er Edin Dzeko langhættulegasti leikmaður Roma. Hann og Salah náðu mjög vel saman á síðasta tímabili og Dzeko hefur haldið uppteknum hætti í vetur og er kominn með 20 mörk. Hann skoraði 39 í öllum keppnum í fyrra og mjög mörg þeirra voru Salah að þakka. Dzeko er frábær í loftinu enda 1,93m á hæð og veit vel hvar markið er. Van Dijk þarf að sjá um hann í þessu einvígi.

Frammi með Dzeko í leiknum gegn bæði Barcelona og Lazio var Patrik Schick eitt mesta efni Tékka. Hann er þar að halda Cengiz Ünder fyrir utan byrjunarliðið en tyrkinn var einn dýrasti leikmaður Roma í síðasta sumar. Líklegast er samt að fyrrum ungstirnið Stephan El Shaarawy komi inn gegn Liverpool en hann hefur spilað meira í vetur en hinir tveir samanlagt. Under og Shaarawy komu báðir inná í leikjunum gegn Barcelona og Lazio.

Stjórinn er svo Eusebio Di Francesco fyrrum leikmaður Roma og ítalska landsliðsins. Hann hafði frá 2012 stýrt Sassulo með góðum árangri. Hann var reyndar rekinn frá Sassulo í janúar 2014 en ráðinn aftur í mars sama ár sem kannski sýnir okkur að það tekur því ekki að reyna muna hver er þjálfari hverju sinni hjá ítölskum liðum.

Styrkleikar Roma felast í öflugum og sveigjanlegum varnarleik. Þeir geta bæði lagst aftur á völlinn með tvær þéttar fimm manna línur líkt og t.d. gegn Chelsea en eins mætt framar líkt og þeir gerðu gegn Barcelona. Frammi er mikið traust lagt á Dzeko og direct sóknir með löngum boltum eða skyndisóknum. Dzeko er frábær í að halda boltanum ofarlega á vellinum og skila svo til fljótra kantmanna (líkt og Salah í fyrra). Roma er samt ekkert sóknarlið í líkingu við Liverpool. Roma hefur skorað 50 mörk í deildinni og fengið á sig aðeins 26 mörk sem er það fjórða besta í deildinni. Til samanburðar hefur Liverpool skorað 78 mörk en fengið á sig 35 mörk. Það er reyndar skorað meira á Englandi því Man City hefur fengið á sig 25 mörk og United 26 mörk í vetur sem er það besta varnarlega á Englandi (reyndar í tveimur fleiri leikjum).

Staðan heimafyrir

Öfugt við t.d. Bayern eða Real Madríd er Roma ennþá að spila á tveimur vígstöðvum og deildin er jafnvel ennþá mikilvægari en Meistaradeildin. Juventus og Napoli eru stungin af en Roma, Lazio og Inter eru í blóðugri baráttu um tvö Meistaradeildarsæti sem Roma má (fjárhagslega) alls ekki við að missa af. Jafntefli gegn Lazio um síðustu helgi hjálpaði Roma mjög lítið í undirbúningi fyrir einvígið gegn Liverpool.

Roma er að spila tvo leiki á viku í gegnum einvígið við Liverpool og má illa við að hvíla lykilmenn, þeir spiluðu við Lazio um síðustu helgi, á miðvikudag var leikið gegn Genoa á heimavelli og á laugardaginn spilaði Roma úti gegn SPAL.


Liverpool

Þetta er ástæðan fyrir því að við fengum Jurgen Klopp til Liverpool, þetta er ástæan fyrir þvi að við fylgdumst með fluginu þegar hann flaug frá Þýskalandi til Liverpool. Jurgen Klopp gerir okkur kleyft að dreyma á nýjan leik og mikið óskaplega er gaman að Liverpool sé snúið aftur.

Þetta Roma lið er gott, Liverpool er betra. Berum liðin aðeins saman út frá byrjunarliðunum undanfarið. Roma er til alls líklegt en líklegast finnst mér að þeir taki Sam Jose Mourinho Allardyce Pulis á þetta og bakki verulega á Anfield. Byrjunarlið Liverpool liggur nánast fyrir.

Karius hefur verið frábær eftir að hann tryggði sér markmannsstöðuna hjá Liverpool. Frá áramótum hefur Liverpool fengið á sig 13 mörk í 14 leikjum á meðan Roma hefur fengið á sig 14 í 14 leikjum. Allt miðað við deildarleiki. Karius er samt að spila í miklu sókndjarfara liði. Alisson er miklu meira spennandi enda sjáum við klippur af frábærum markvörslum hans af og til en það sem Karius hefur sýnt okkur 2018 er ekkert verra en það sem Alisson hefur verið að gera. Hvernig væri hann með varnarleik Liverpool fyrir framan sig? Líklega hefur Roma yfirhöndina í þessari stöðu en ekki eins afgerandi og af er látið.

Ég tæki engan af varnarmönnum Roma fyrir neinn af Van Dijk, Lovren eða Matip, glætan í tilviki Van Dijk. Það hjálpar vissulega varnarleik Roma að hafa þrjá aggresíva og sterka miðjumenn fyrir framan sig sem allir eru meira varnarþenkjandi. Varnarlínu Roma skortir hraða og ef einhver ætti að þekkja það er það Mo Salah.

Kolorov er 32 ára og líklega hefði maður valið hann fram yfir bakverði Liverpool frá 2007-2017 en í dag myndi ég hvorki láta Robertson eða Moreno. Kolorov hefur verið flottur hjá Roma í vetur en skortir hraða eins og félagar sínir í vörninni. Hinumegin þekki ég lítið til og er nokk sama hverjum þeir stilla upp á móti Trent Alexander-Arnold.

Roma eru sterkari en við á miðjunni m.v. meiðslalista Liverpool og bjóða upp á allt öðruvísi verkefni en Man City. Di Rossi er 34 ára og Henderson fær gullið tækifæri í þessu einvígi að taka sinn feril upp á næsta level gegn lifandi goðsögn eins og Di Rossi. Fyrirliðar Liverpool skapa sér nafn í svona leikjum og Henderson á sviðið.

Sama má segja um Alex Oxlade-Chamberlain, hann steig upp gegn Man City í tvígang á þessu ári og hefur verið að vaxa mikið í vetur. Þetta eru leikir sem geta komið manni upp á næsta level. Roma er ekki með neinn aumingja í sama hlutverki sín megin í Nainggolan. Ef að Wijnaldum byrjar á kostnað á Ox á það nákvæmlega sama við.

Kevin Strootman og James Milner eru kannski ekki sambærilegir leikmenn en spilamennska Milner undanfarið gerir hann líklega ómissandi í þessum leik, sérstaklega með Can meiddan. Strootman er spennandi nafn sem oft hefur verið orðaður við Liverpool en James Milner er miklu stærra nafn í Evrópufótboltanum.

Liverpool liðið vann á Etihad þrátt fyrir að það hafi vantað Henderson, Can og Lallana að ógleymdum Coutinho sem er búinn að spila helming Meistaradeildarleikja Liverpool í vetur.

Frammi er þetta svo ekki einu sinni sanngjarnt. Á meðan Edin Dzeko hefur skorað 20 mörk hefur stórvinur hans skorað 40 mörk. Ünder hefur skorað 6 mörk í vetur, El Shaarawy hefur skorað 8 mörk og Schick eitt mark. Firmino og Mané hafa báðir skorað meira samanlagt. Milner hefur lagt meira upp bara í Evrópuleikjum.

Roma hefur betri breidd en Liverpool enda nokkrir lykilmenn meiddir og það má ekkert útaf bregða í okkar hópi.

Höfum samt hugfast að Barcelona gat lagt þetta eins upp mann fyrir mann.

Síðast þegar Liverpool komst í gegnum undanúrslitaeinvígi var árið 2007, Þá spiluðu Peter Crouch og Dirk Kuyt frammi með Zenden og Pennant á köntunum.

Þegar Liverpool vann Chelsea í leiknum fræga 2005 var Baros einn frammi með Garcia og Riise á vængjunum, Biscan, Hamann og Gerrard á miðjunni og Traore fyrir aftan Riise í bakverðinum.

Besta lið Liverpool sem komst hefur í undanúrslit á þessari öld tapaði gegn Chelsea 2008 eftir framlengdan leik á Stamford Bridge.

Það er svipuð stemming að myndast í kringum Liverpool liðið núna og þessi lið. Byrjunarliðið núna stæðist liðunum fyrir 10 árum vel snúning og er miklu betra sóknarlega. Þetta verður líka ótrúlegt en satt í fyrsta skipti síðan 1985 sem Liverpool spilar undanúrslitaleik í æðstu Evrópukeppninni sem er ekki gegn Chelsea.

Byrjunarliðið er allt að því sjálfvalið

Karius

Trent – Lovren – Van Dijk – Robertson

Milner – Henderson – Chamberlain

Salah – Firmino – Mané

Spá

Ef einhverntíma Blitzkrieg þá er það núna. Þetta Roma lið ræður að ég held ekkert við alvöru Klopp gengenpressing fótbolta frá fyrstu mínútu og ef Liverpool nær upp sömu stemmingu og gegn Man City og Porto geri ég mér vonir um svipaða niðurstöðu. Segi 4-0 í frábærum leik. Salah setur tvö en Firmino og Mané sitthvort.

Anfield Road verður klár i slaginn líkt og gegn City, að þessu sinni verð ég sjálfur í Kop stúkinni til að sjá til að svo verði.

Up the fucking Reds!

Einar Matthías

26 Comments

  1. það sem maður er dekraður hérna, frábær upphitun takk fyrir mig

    spái okkur 3-0 sigri og öll mörkin í fyrri hálfleik

  2. Takk kærlega fyrir þessa frábæru upphitun. Að sjálfsögðu erfiður leikur en núna reynir á liðið eins og í 8 liða. Treysti á mína menn, jafnvel að Henderson skorið. Áfram Liverpool.

  3. Sæl og blessuð.

    Snilldar upphitun og maður iðar í skrifstofustólnum.

    Þetta er einmitt lóðið – urrandi og leiftrandi Bewegungskrieg, Gegenpressning og Blitzzzzz alla leið. Gefum þeim ekki tóm til að setjast niður með landakortið og skipuleggja úrræði.

    Látum mörkunum rigna inn. Þurfum að vinna stórt og skilja þá eftir með sviðinn skalla og sárt enni, helst eiga þeir að vera með kvíðapelastikk í kviðnum fyrir næstu umferð.

    Kommmmmmasssssssoooooo!!!

  4. Við erum í Liverpool borg og getum ekki beðið eftir þessu. Hrikaleg spenna í gangi.

  5. Ég er dauðhræddur um að Roma geri ekki sömu mistök og City gerðu í fyrri leiknum. Það kæmi mér a.m.k. á óvart ef þetta yrði svipuð markaveisla. En auðvitað vonar maður að það verði engin útivallarmörk á morgun, og að okkar menn nái að setja sem flest.

  6. Nú er gaman að halda með Liverpool,
    Það er reyndar alltaf gaman bara mis gaman.
    Takk fyrir góða upphitun fyrir leikinn

  7. Evrópu-Einar veldur manni aldrei vonbrigðum með þessar upphitanir. Þvílík negla!

    Ég bjó um árabil á Ítalíu, m.a. við nám, en aðallega í Milanó. Síðan þá hef ég alla tíð fylgst með ítalska boltanum – sjálfspíningarhvöt segja sumir, og það er stundum eitthvað til í því.

    Roma er lið sem hefur alltaf heillað mig. Ég man þá tíma þegar Cafu átti hægri hlið vallarins hjá þeim og Aldair stóð vaktina í vörninni. Emerson var þá líka erfiður við að eiga á miðjunni. Já, brasilíumenn hafa löngum þótt vinsælir hjá Roma!

    Það verður þó aldrei tekið af Francesco nokkrum Totti að hann á þessa borg, hann á þetta lið, skuldlaust. Hann er það fyrir Roma sem Kenny er fyrir Liverpool FC. Hann er besti leikmaðurinn í sögu Rómar, hann er holdgervingur alls þess sem liðið stendur fyrir (og mögulega stendur ekki fyrir). Hann var og er keisarinn í Róm, og af frátöldum Paolo Maldini þá er hann minn uppáhalds leikmaður sögunnar (fyrir utan alla sem spila eða hafa spilað fyrir LFC, að sjálfsögðu).

    Okkar maður, Francesco Totti, var eitt sinn spurður að því í viðtali af hverju hann væri um kyrrt hjá Roma, en þetta var á þeim tíma þar sem liðið þurfti ávallt að lúffa fyrir stóru liðunum á Ítalíu. Hans svar var svo fallegt og snerti þá römmu taug sem allir stuðningsmenn, sama hvaða liði þeir fylgja, geta samsamað sig með. Á ensku hljómar tilvitnunin svona:

    “In school, they teach us that family is most important thing. Did you ever hear of someone leaving his poor parents to live with rich strangers?”

    Ég hef alltaf lúmskt gaman af Roma, þetta er skemmtilegur klúbbur sem hefur iðulega farið sínar eigin leiðir. Frammistaða þeirra gegn Barcelona var hreint mögnuð, og jafnast alveg á við það sem gerðist hjá okkar mönnum gegn ManCity. Ég býst við stórskemmtilegum leik, en er sammála sérfræðingum kop.is um að okkar lið er allan tímann betur mannað en Roma. En eins og við vitum öll, þá skiptir það bara engu máli.

    Spái okkar mönnum sigri, Roma nær útivallarmarki (De Rossi, minn maður) og seinni leikurinn verður rosalegur.

    Fyrst ég er byrjaður á að kvóta í keisarann, þá læt ég hér fylgja eitt skemmtilegt sem hann sagði um okkar eigin Steven Gerrard um árið:

    “Steven Gerrard would be the captain of my World XI dream team”

    Keisarinn hefur talað!

    Homer

  8. Takk fyrir frábæra upphitun Einar ! Ég er drullu stressaður fyrir þennan leik því ég held að Roma liðið henti okkur mjög illa. Sterk vörn , þindarlausir miðjumenn og svo háar sendingar á Dzeko sem mun verða Lovren erfiður í loftinu. Stjóri Roma hefur örugglega horft á hvernig móri lagði upp leikinn gegn okkur og svo líka W.B.A ! Ég vona samt að við náum að sprengja þá upp og setja nokkur mörk á þá, án þess að fá á okkur útivallar mark !

  9. Þú færð ekki auðveldan leik í undanúrslitum í meistaradeild og það verður ekkert gefið á morgun. Klopp hefur gefið manni trú og von um árangur og er maður viss um að strákanir verða tilbúnir í átökin.
    Roma munu pakka í vörn og nota skyndisóknir og föst leikatrið til að gera okkur lífið leit. Þeir munu reyna að draga úr hraðanum og munum við sjá þá taka tíma í allt og fullt af ítölskum leikaraskap.
    Ég sé ekki markaveislu en ég hef trú að við náum að skora og þetta fer 1-0 fyrir Liverpool.

    Þetta verður síðasti Evrópuleikurinn á Anfield á þessu tímabili og held ég að stemmninginn verður gjörsamlega geðveikt og mun maður bara spenna beltinn og njóta kvöldsins(með hjartað í buxunum)

    YNWA

  10. Frábær upphitun, megi Einar drekka góðan mjöð og njóta fallegra marka fyrir vikið..

  11. Takk kærlega fyrir mig og afram Liverpool. Finn hjartafløktin koma thegar eg hugsa um thessa leiki!

  12. Úff, ég var alveg slakur yfir þessum leika í gær en núna er spennan farin að segja til sín. Ég held að þetta verði mjög erfiður leikur og erfitt einvígi í heild. Spái Liverpool samt að sjálfsögðu sigri en ég ætla að spá því að einvígið ráðist á síðasta marki.

    Spái leiknum í kvöld 2-1 fyrir Liverpool og að ég verði óviðræðuhæfur með hjartatruflanir á miðvikudaginn í næstu viku.

  13. Ligg í Ástrík til að undirbúa mig.
    Himnarnir hrynji yfir mig ef þetta fer illa.
    Ætli ég sæki mér ekki seyði frá Sjóðr?ki til að hífa mig upp á tærnar.
    2-0, minna má það ekki vera fyrir seinni leikinn.
    YNWA

  14. Ég er hæfilega bjartsýnn fyrir þennan leik. Tel okkur hafa sterkara lið en held það skipti nákvæmlega engu máli. Þetta snýst um hvort Liverpool nái að spila sinn leik en það er fjarri því auðvellt gegn liði sem var að slá Barcelona út í þessari úrsláttarkeppni. Ég held að stærsti munurinn á Liverpool og Barcelona sé þetta botnlausa hungur sem Liverpool býr yfir eða eins og Óli Þórðar, knattspyrnukappi sagði að það væri miklu erfiðara að verja titla en vinna þann fyrsta og þar sem Barcelona hefur unnið ansi marga titla á undanförnum árum, þá er það ekki eins banhungrað og Liverpool.

    Ég held að þetta hungur dragi fram það besta í okkar mönnum og trúi því að við getum unnið stóran sigur á Anfield en geri mér grein fyrir því að þessi spádómur getur svo sannarlega orðið eins og Bumerang sem ég kastaði út í loftið en fékk að endingu beint framan í andlitið á mér.

  15. Haha eftir þennan lestur er ég sammála. Ég vissi ekki að Rómverjar væru svona ruglaðir

  16. Takk fyrir stórkostlega upphitun.

    Spá mín er tvíþætt. 3-0 sigur ef þeir spila í 4-3-3 kerfinu en 2-1 sigur ef þeir spila í 3-5-2 kerfinu.
    YNWA

Leikmaður ársins

Byrjunarliðið vs. Roma á Anfield!