Bournemouth á sunnudaginn

Síðdegis á sunnudaginn verður flautað til leiks á Dean Court í Bournemouth, þar sem heimamenn munu taka á móti Rauða hernum. Völlurinn hefur reyndar verið kallaður Vitality Stadium upp á síðkastið.

Við viljum kannski ekki mikið vera að rifja upp leik þessara liða frá því í fyrra á þessum sama velli. Skulum bara orða það svo að Klopp og félagar eigi harma að hefna.

Andstæðingarnir

Bournemouth eru sem stendur í 14. sæti deildarinnar með 16 stig, hafa skorað 15 mörk og fengið á sig 20. Leikformið í síðustu 5 leikjum gæti verið betra. Tveir leikir hjá þeim hafa tapast: á móti toppliðunum United og Burnley, en þrír hafa endað með jafntefli. Þar á undan komu svo nokkur ágæt úrslit, eins og 4-0 á móti Huddersfield og 1-0 á móti Newcastle. Þetta er því lið sem er alveg fært um að ná úrslitum, eins og við höfum orðið svo óþyrmilega vör við. Eddie Howe er einn þessara ungu stjóra sem eru að ná aldeilis frábærum árangri, þó vissulega standi hans árangur svolítið í skugganum af því hvar Sean Dyche er staddur með sitt lið. Meira um það í seinni pistlum.

Okkar menn

Liverpool kemur inn í þennan leik eftir tvö drullusvekkjandi jafntefli. Gleymum því samt ekki að liðið hefur núna leikið 11 leiki í öllum keppnum án þess að tapa. Jafnframt er vert að minnast þess að deildarkeppnin snýst um að ná sem bestum árangri yfir 38 leiki, og það að vinna 15 leiki í röð eins og City hafa gert er einsdæmi. Breytir því að sjálfsögðu ekki að það er alltaf jafn grautfúlt að tapa stigum. Og þó svo að liðið hafi aðeins tapað tveim leikjum á leiktíðinni, þá eru jafnteflin orðin 7 bara í deildinni. Slíkt gengur auðvitað ekki til lengdar, sérstaklega þar sem í fjórum tilfellum af þessum 7 komst Liverpool yfir (á móti Everton, Chelsea, Newcastle og Watford). Tvö jafnteflin enduðu 0-0 (á móti rútufélögunum WBA og United), og á móti Burnley náðu okkar menn að jafna. Það má lengi leika sér með “ef og hefði”, hvað ef liðið hefði náð að halda fengnum hlut í einhverjum af þessum jafnteflisleikjum? En það þýðir lítið að eyða tíma í það, þessir leikir eru búnir og koma ekki aftur.

Hvaða leikmenn standa Klopp svo til boða? Tja förum fyrst yfir það hvaða leikmenn koma ekki til greina: Clyne, Matip og Moreno. Semsagt: 3/4 af varnarlínunni. Svo eru aðrir tæpir, ekki ljóst hvort Sturridge er leikfær, Mignolet virðist vera búinn að ná sér. Helsta fréttin er kannski sú að Lallana er kominn á ról og verður að öllum líkindum í hópnum. Verður hann í byrjunarliðinu? Kemur í ljós, en ég hugsa að ég sé ekki einn um að vera farinn að hlakka til að sjá Adam okkar taka nokkra Cruyff-snúninga. Manni hefur fundist vanta svolitla sköpun á miðjuna, og þar kemur Lallana sterkur inn. Klopp mun annars sjálfsagt rótera eitthvað eins og í síðustu leikjum, og við skulum bara vona að læknateymið sé með það á hreinu hver geti spilað 90 mínútur með góðu móti og hver ekki. Svo tekur við 5 daga pása þangað til liðið heimsækir Emirates, svo það mun gefast örlítið ráðrúm til að pústa þangað til.

En ég ætla allavega að spá eftirfarandi byrjunarliði:

Mignolet

Gomez – Lovren – Klavan – Robertson

Henderson – Lallana – Winjaldum

Coutinho – Firmino – Mané

Bekkur: Karius, Alexander-Arnold, Milner, Can, Salah, Oxlade-Chamberlain, Ings

Eins og áður er þetta svolítið skot í myrkri. Ef eitthvað er að marka fréttir af samningsmálum Can við Juventus þá er hann kominn með annan fótinn til Juventus. Ef ég væri í sporum Klopp myndi ég gefa mönnum eins og Grujic frekar tækifæri frekar en að láta Can taka pláss í byrjunarliðinu eða á bekknum. Þá er vissulega áhyggjuefni hve fáir varnarmenn eru á bekknum, og það er hluti ástæðunnar af hverju Milner og Can eru þar í minni spá. Síðan set ég Ings þarna bara af því að mig langar svo svakalega til að hann nái sér á strik. Líklega er Klopp samt með Solanke framar í röðinni, svo ég yrði ekkert hissa þó hann yrði þarna í staðinn. Ég set svo að lokum Salah á bekkinn þar sem hann var að glíma við eitthvað smá hnjask fyrir stuttu síðan, en ég myndi svo innilega vilja sjá hann koma inn á og setja eins og eitt-tvö.

Mín spá? Held þetta verði erfiður leikur. Ég vona svo innilega að við fáum eitt stykki aðventusigur í skóinn, segjum 1-2 þar sem Firmino og Henderson skora. Með góðum úrslitum í þessum leik og svo á móti Arsenal næsta föstudag þá verða jólin rauð. Það gerist ekki fallegra.

20 Comments

 1. takk fyrir frábæra upphitun ætla að spá þessu 3-0 fyrir okkur vonandi verður ekki salah hvíldur.
  hef aldrei þolað þetta lið þeir virðast alltaf eiga topp leik gegn okkur og eru grimmir að refsa..
  ps emre can er í banni þannig hann kemur ekki nálægt þessum leik

 2. Takk fyrir það Svefnormur. Þá má taka Can af bekknum. Ætli Solanke eða Grujic fái sér ekki sæti í staðinn. Áhugavert (eða kannski frekar ógnvænlegt) að Lovren vantar bara eitt spjald í að fara í bann sömuleiðis.

 3. Emre Can er ekki í banni í þessum leik held ég, hann er í banni í fyrri leik í 16 liða í meistaradeildinni.
  Þetta er algjör skyldusigur því við einfaldlega megum alls ekki missa united lengra frá okkur.

 4. Sælir félagar

  Ég er orðinn hræddur við að spá þessu liði sigri. Jafnteflisdraugurinn er að fara með þessa leiktíð til helvítis því miður. Tveir síðustu leikir áttu að vera skyldusigrar en enduðu í einhverjum mest svekkjandi jafnteflum sem ég man eftir. Ástæðan fyrir þessu svekkelsi var jafnteflið á móti Everton en jafnteflið á móti WBA var eitthvað sem alltaf getur skeð þegar lið pakka í 11 manna vörn. En vegna þessa skítajafnteflis við Everton var það mjög slæmt.

  En hvað um það við verðum bara að vinna þennan leik. Það er möguleiki því Bournemouth
  reynir alltaf að spila fótbolta og er því ekki í sama pakka og MU, WBA og Everton. Ég vona það að minnsta kosti. Svo er möguleiki að Lallana komi með einhverja sköpun inn á miðjuna sem vantaði svo gjörsamlega í síðasta leik. Verum bjartsýn og segjum 4 – 1 fyrir okkar liði.

  Það er nú þannig

  YNWA

 5. Ég myndi byrja þennan leik svona. Verðum að vinna til að halda í við hin liðinn. Höfum ekki efni á neinum sparnað hér

  Mignolet
  Gomez – Lovren – Klavan – Robertson

  Chamberlain –Henderson – Coutinho

  Salah – Firmino – Mané

 6. Við verðum að eiga góðan leik til að fá stig. Áfram Liverpool.

 7. 1-1 því miður. Firminio með flott mark á 26. mín. en Bou jafnar eftir vítaspyrnugjöf á 4. mín. í uppbótartíma í seinni háldleik.

 8. Sæl og blessuð.

  Alfreð okkar Finnbogason með þrennu í dag, þ.a. tvö í uppbótartíma. Er það ekki svona sigurvegari sem vantar í okkar hóp? Væri kærkomin tilbreyting að eiga gott lokarönn í leikjum í stað þess að missa þetta niður eins og hefur nú fremur verið reglan.

  Í fyrra glötuðum við niður 1-3 forystu og töpuðum leiknum 4-3 eftir óásættanleg mistök í vörninni. Það var upphafið að endalokum þeirra drauma að eitthvað yrði úr tímabilinu. Hrikaleg vonbrigði.

  Jæja, sjáum hvað setur. Spái þriðja jafnteflinu í röð. Tapleysið heldur áfram sem er ekki alslæmt en dugir þó hvergi nærri eins og allir vita!

 9. Já, ég gleymdi að nefna að við verðum með 80% posession. 14 skot á markið og Bou eitt.

 10. Skiptir ekki máli að við séum taplausir í x mörgum leikjum þegar mörg þeirra eru jafntefli. Klopp hefur ekki efni á því að rótera eitthvað. Núna þarf að fara vinna fokking leik! Og hvað þá að hvíla Salah eitthvað! Ertu eitthvað ruglaður!? Vill sjá Gini, AOC, Coutinho á miðjunni. Salah, Mane og Firmino frammi. Keyra þetta í gang! Ég er brjálaður!

 11. Sælir félagar

  Nú er staðan þannig að við náum aftur 4. sætinu ef við vinnum á morgun.. Það er því ekkert annað í boði en sigur.

  Það er nú þannig

  YNWA

 12. Erum að fata að tapa því þetta er uti völlur hjá liði sem þráir sigur og hann kemur a morgun.
  Því miður fyrir okkur:

  YNWA

 13. Eins og staðan er núna erum við að keppa við Arsenal og Tottenham um 4 sætið, enn einu sinni. Peningarnir tala hérna, 3 ríkustu liðin sem borga hæstu launin raða sér í efstu þrjú sætin, á eftir koma þau þrjú lið sem eru efnuð, en eru með hálgert launaþak. Þarna kristallast munurinn. Gæði kosta peninga, og til að halda sínum bestu mönnum verður að borga þeim 200 plús á viku eins og topp þrjú liðin gera.

  Ef við breytum þessu ekki missum við alltaf okkar bestu menn, líkt og við höfum gert síðastliðin ár ( fyrir utan Gerrard ) Ef td Salah heldur uppteknum hætti er hann farinn innan tveggja ára.

 14. Ekkert annað en sigur kemur til greina í dag, eftir skitu í síðustu tveimur leikjum. Kútur þarf að taka til í hausnum á sér og can á bara að frysta, þurfum að koma Grujic í gang í staðin, en hvar er Sturridge, ? er hann meiddur eða ?

Liverpool 0-0 West Brom

Liðið gegn Bournemouth