Liverpool 2010 vs 2017

“Okkar menn taka á móti nýliðum Blackpool í sjöundu umferð Úrvalsdeildarinnar á sunnudag. Eftir sex umferðir eru okkar menn í sextánda sæti með sex stig en nýliðarnir eru einu sæti ofar með stigi meira.”

Þetta skrifaði Kristján Atli í upphitun fyrir leik gegn nýliðum Blackpool í október 2010. Þremur dögum seinna var tilkynnt um kaup NESV (nú FSG) á Liverpool. Frábærir pistilar Eyþórs fyrir helgi tóku mjög vel saman ársreikninga Liverpool undir stjórn FSG og er undir hverjum og einum komið að meta hvort þær tölur séu nægjanlega góðar. Það er engu að síður mikilvægt að skoða hvað þeir keyptu í október 2010 og meta út frá því hvar félagið er statt núna.

Höldum aðeins áfram í aðdraganda þess að FSG keypti liðið. Byrjunarliðs færsla mín fyrir umræddan Blackpool leik náði ágætlega utan um stemminguna.

“Það má vel vera að Cole, Kuyt, Gerrard eða Meireles séu hugsaðir í öðrum stöðum á miðjunni, en ég held að þeir hafi bara ekki hugmynd um það sjálfir. Poulsen verður engu að síður á sínum stað til að brjóta upp spilið hjá báðum liðum. Varnarlínan hefur síðan ekki verið svona spennandi í mörg ár.”

Það kom óþægilega fáum stuðningsmönnum Liverpool á óvart að liðið tapaði þessum heimaleik gegn Blackpool og staðan í deildinni var svona í kjölfarið.

Staðan á pöllunum var svona

Svona var staðan þegar FSG keypti klúbbinn þann 6.október. Við tóku brjálaðir 9 dagar af málaferlum fyrri eigenda sem neituðu heldur betur að fara þegjandi og hljóðalaust. Það var mikilvægt að klára málin á níu dögum, Kristján Atli útskýrði vel afhverju:

“Menn höfðu lengi rætt daginn í dag, föstudaginn 15. október, sem vendipunkt í eigendasögu Liverpool FC. Sú dagsetning reyndist vendipunktur en ekki á þann hátt sem menn óttuðust, því í stað þess að Royal Bank of Scotland settu félagið í greiðsluþrot vegna vangoldinna skulda og kölluðu yfir knattspyrnuliðið níu stiga víti í Úrvalsdeildinni lánaðist okkur það að sjá endanlega á bak Tom Hicks og George Gillett Jnr. sem eigendur félagsins.”

Fyrsti leikur Liverpool í eigu FSG var gegn Everton og voru eigendurnir á staðnum. Sá tapaðist þrátt fyrir bestu frammistöðu Liverpool í sögunni að mati stjórans og staðan í deildinni eftir fyrstu heimsókn FSG var svona
Liverpool hafði áratuginn á undan verið með gríðarlega sterkt lið sem hafði byggst jafnt og þétt upp nánast allan áratuginn og toppaði líklega árið 2009. Það ár var Liverpool með frábært lið og marga heimsklassa leikmenn sem því miður var búið að selja að hluta til þegar FSG keypti félagið. Þeir úr 2009 liðinu sem voru enn hjá félaginu árið 2011 voru flestir að komast á aldur og endursöluvirði þeirra lítið. Fyrir Alonso og Mascherano kom ekki svo mikið sem sýnishorn af sömu gæðum í staðin. Arbeloa varð lykilmaður í Real Madríd á meðan við fengum í staðin fjórfalt dýrari Glen Johnson. Gerrard, Carragher og Kuyt voru allir um og yfir þrítugt. Eftir 2009 hrakaði Liverpool mjög hratt innanvallar og ennþá hraðar utan vallar.

Svona var hópurinn þegar FSG keypti liðið undir lok árs 2010.

Fljótt á litið eru þarna 12 leikmenn sem ég myndi ekki flokka sem deadwood eða unglinga og er ég ansi rausnarlegur við nokkra leikmenn í þeirri flokkun. Sá hópur er yfirstrikaður með bláu en meðalaldur þeirra var 27,6 ár.

Strax og skipt var um stjóra í janúar 2012 var ljóst að a.m.k. ellefu í hópnum voru leikmenn sem félagið vildi losna strax við (deadwood). Meðalaldur þeirra var um 28,1 ár.

Meðalaldur byrjunarliðs Liverpool í umræddum Blackpool leik áður en FSG tók við var 29 ára sem er ekki langt frá þeim meðalaldri sem Hodgson vill vinna með.

Flestir af lykilmönnum Liverpool voru nýbúnir að gera langtímasamninga við félagið sem gerði það mikið erfiðara að losna við þá næstu árin á eftir. Nýju leikmennirnir voru einnig eðlilega með langa samninga. Samningar nánast allra okkar leikmanna var í engu samræmi við framlegið innan vallar og áhugi annarra liða því afskaplega takmarkaður.

Alls eru þetta 33 leikmenn, lykilmenn, deadwood og ungir leikmenn sem voru í hópnum þegar FSG keypti félagið. Söluvirði þessara manna skv. tölum LFCHistory var um  £106,8m. Rúmlega helmingurinn af þeirri fjárhæð kom í fyrsta leikmannaglugga FSG þegar Torres var seldur á £50m og Babel á tæplega £6m. Torres var eini söluvænlegi leikmaður Liverpool þegar þeir keyptu félagið. Þ.e.a.s. heimsklassa leikmaður á góðum aldri með gott endursöluvirði.

Það hefur tekið um sex ár að losna við rest af þessum hóp og söluvirði alls er um £50m sem segir líklega allt sem þarf um hópinn sem FSG fékk í hendurnar. Rándýrir leikmenn hafa þurft að fara á láni í 1-3 tímabil áður en hægt var að losna endanlega við þá af launaskrá með lítið sem ekkert endursöluvirði.

FSG var að sama skapi ekkert fullkomið heldur og hefur gert sinn skerf að stórum mistökum á leikmannamarkaðnum einnig en þeir passa sig þó á að kaupa jafnan yngri leikmenn sem hægt er að selja aftur.

Af þessum 33 leikmönnum sem voru á mála hjá Liverpool þegar FSG keypti félagið eru aðeins tveir ennþá leikmenn Liverpool og þeir eru báðir að fara. Lucas Leiva og Jon Flanagan.

FSG keypti gjalþrota félag, hópurinn var of gamall, með of langa samninga og ekki nógu góður. Endursöluvirði hópsins eftir fyrsta gluggan var um £50m. Það er því hægt að fyrirgefa þeim aðeins hvað þetta hefur tekið langan tíma. Aðalatriði núna er að horfa til framtíðar því kröfurnar fyrir næstu sjö ár eru töluvert meiri en við höfum fengið undanfarin sjö ár.

Ársreikningar Liverpool gefa til kynna að félagið á töluvert í land í ört harðnandi samkeppni. Á móti er hópurinn í dag miklu heilsusamlegri en hann var 2010. Núvernadi hópur er fyrir það fyrsta miklu verðmætari, flestir okkar leikmanna eiga sín bestu ár framundan og unglingastarfið er eitt það besta á Englandi.

Liverpool 2017 

Núverandi hópur

Meðalaldur núverandi hóps er um 24 ára með unglingunum meðtöldum. Byrjunarlið Liverpool er í kringum 26 ára sem er tæplega þremur árum yngra en liðið var þegar FSG tók við. Okkar bestu menn eru allir á fínum aldri.

Uppbygging Liverpool undir stjórn FSG hefur ekkert verið gleðiganga undanfarin sjö ár en við erum í dag klárlega með miklu verðmætara lið en það sem var til staðar 2010. Klopp er á sínu fyrsta tímabili og síðasta sumar var hreinsað mjög mikið af þeim leikmönnum sem félagið vildi losna við af launaskrá. Hafa ber í huga að megnið af þeim leikmönnum voru einnig keyptir undir stjórn FSG.

Leikmannasölur síðasta sumar laga vonandi eitthvað næsta ársreikning, félagið fékk gott verð fyrir flesta af þeim leikmönnum sem fóru. Af núverandi hópi fyrir utan þá sem eru á láni eru líklega aðeins þrír sem fara væntanlega í sumar og skapa með því töluvert pláss á launaskrá félagsins. Eins eru vonandi nokkrir þarna sem verða ennþá á mála hjá Liverpool eftir sjö ár öfugt við 2010 árganginn.

Liverpool hefur sjaldan átt eins marga góða unga leikmenn og þar eru verðmæti sem erfitt er að meta. Hvort sem það verður sem leikmenn Liverpool eða vegna sölu.

Ef að Jordon Ibe kostar £15m hvað fáum við þá fyrir Woodburn, Wilson eða Ojo? Trent Alexander-Arnold er að springa það hressilega út um þessar mundir að líklega verður hann kominn í hóp strax á næsta tímabili (hann reyndar er það eiginlega nú þegar). Joe Gomez og Grujic er báðum spáð gríðarlega bjartri framtíð og enginn hefur bætt sig jafn mikið undanfarin 2 ár og Ovie Ejaria. Það verða gríðarleg vonbrigði ef enginn af þessum verður leikmaður Liverpool árið 2024.

Það eru svo töluverð verðmæti í þeim sem eru á láni, töluvert meiri en voru 2010.

Söluvirði þeirra sem voru á láni árið 2010 var á endanum um £14,3m. Núverandi hópur er vonandi tvöfalt ef ekki þrefalt verðmætari. Vætanlega eru samt ekkert allir af þessum til sölu.

Eins og áður segir var hreinsað töluvert mikið til í sumar en eins og alltaf eru nokkrir til sölu eftir hvert tímabil. Þessa held ég að félagið sé vel til í að selja í sumar.

Auðvitað fer einhver sem við sjáum ekki fyrir og einhverjir af þessum fara ekki strax. En það ætti að vera nokkuð auðveldlega að vera hægt að losa um £50-70m í sumar vegna sölu á leikmönnum án þess að það komi niður á liðinu. Nokkrir þarna myndu líka skapa pláss á launaskrá sem félagið þarf augljóslega að passa betur uppá eins og pistill Eyþórs sýndi vel fram á.

Þarna eru t.a.m. ekki menn eins og Moreno, Klavan, Mignolet og Lovren sem gætu alveg eins farið. Enginn af þeim er ómissandi, svo mikið er víst. Framtíð Ings er t.a.m. mjög óljós einnig, hann gæti vel farið á láni.

Virðisrýrnun leikmanna ætti ekki að koma illa út í tilviki Sturridge, Markovic og Sakho enda allir búnir að vera lengi og áhrif kaupverðs farin að telja minna. Það er enginn Balotelli í þessum hóp þó Sturridge sé farinn að verða stórt skarð í hópnum enda framlag hans undanfarin þrjú ár í engu samræmi við status og laun.

Stjórinn

Jurgen Klopp er fyrsti stjóri Liverpool á þessum áratug sem er á kaliberi við þá sem voru stjórar Liverpool á síðasta áratug. Tel Dalglish ekki með hérna enda var hann hættur fyrir aldamótin og hélt ekki áfram eftir að hann hætti sem stjóri Liverpool.

Stjórinn er í heimsklassa og er einn eftirsóttasti stjóri í heiminum. Það að bera saman stjóra Liverpool núna við það sem FSG erfði er svipað og að bera saman Luis Suarez  og Sean Dundee í núverandi formi, munurinn er án gríns það mikill á Klopp og Hodgson.

Unglingastarfið

Benitez var sannarlega byrjaður að móta akademíu Liverpool upp á nýtt og var á ágætri leið með það eftir hroðalegan áratug í þeirri deild. Hicks og Gillett skrúfuðu hinsvegar fyrir allt fjármagn síðstu ár Benitez. Hann borgaði þó allt unglingastarf Liverpool upp með kaupum á Raheem Sterling fyrir £500.þús sem var seldur á £49m. Jonjo Shelvey er líklega sá næstbesti sem komið hefur upp úr unglingastarfi Liverpool á síðasta áratugi.

Unglingastarfið er litlu mikilvægara í huga FSG en aðalliðið. Ef unglingastarfið er í heimsklassa skilar það af sér leikmönnum upp í aðalliðið sem á móti sparar gríðarlegar fjárhæðir í leikmannakaupum. Þeir eru óhræddir við að borga það sem þarf fyrir unga leikmenn, eitthvað sem Benitez átti jafnan í miklum erfiðleikum með að fá samþykkt.

Stefna FSG nánast fulllkomin andstaða við hugsunarhátt Roy Hodgson sem þeir líka losuðu sig blessunarlega við í fyrsta leikmannaglugganum, hann fékk ekki að kaupa einn leikmann hjá nýjum eigendum.

FSG eru langt í frá einu eigendur enskra/evrópskra liða sem leggja gríðarlega áherslu á gott unglingastarf en FSG hefur klárlega gert Liverpool samkeppnisfært á ný í þessari deild og hafa ráðið stjóra sem vilja vinna með ungum leikmönnum. FSG voru svosem ekkert að finna upp hjólið neitt, hjá Liverpool keypti Bob Paisley jafnan ekki leikmenn eldri en 22-24 ára. Hann er besti stjóri í sögu félagsins.

Þeir leikmenn sem virka ekki er jafnan hægt að selja fljótlega og fyrir ágætan pening. Þeir sem komast í byrjunarliðið nýtast þá liðinu eða fara eins og Sterling með gríðarlegum gróða.

Næsta skref í uppbyggingu akademíunnar er að sameina æfingasvæðið við æfingasvæði aðalliðsins og stytta þannig leiðina í hóp hjá aðalliðinu. Það er framkvæmd sem kostar svipað mikið og Raheem Sterling kostaði Man City.

Áhersla á öflugt unglingastarf er samt ekkert bara fjárhagslega hagkvæm í huga Klopp eða FSG. Þetta er líklegasta leiðin til að svindla á lögmálinu um að ríkustu liðin vinni alltaf. Tottenham er á undan Liverpool með innleiðingu á svipuðu módeli og FSG virðist vilja hjá Liverpool og eru annað árið í röð í titilbaráttu þrátt fyrir að hafa mikið minna milli handanna en hin toppliðin eins og pistlar Eyþórs sýna.

Tekjumöguleikar

Anfield – Það að stækka völlinn var nánast eina ástæðan fyrir því að David Moores seldi Liverpool á sínum tíma. Tíminn leiðir í ljós hvort það sé rétt skref að stækka aldraðan Anfield frekar en að byggja nýjan völl á hentugri stað eins og Everton ætlar að gera.

FSG hafa í það allra minnsta staðið við fyrsta áfanga hvað þetta varðar og stækkað Anfield um 8.000 sæti og breyta Main Stand þannig að hún skapar miklu miklu meiri tekjur en áður. Maður þarf eiginlega að fara þarna inn til að skilja hversu mikil breytingin er. Þeir geta ekki beðið lengi með að breyta Annie Road End stúkunni því völlurinn er ennþá of lítill og skapar ennþá of litlar tekjur samanborið þau lið sem við viljum keppa við.

Arsenal er á nýjum velli, Old Trafford er stærsti völlur Englands og mikið endurbættur, Man City er á nýjum velli, West Ham er á nýjum velli sem er stærri en Anfield, Tottenham er að byggja nýjan völl, Chelsea er líka að byggja nýjan völl og Everton var að tilkynna plön um nýjan völl.

Það að FSG sé að stækka Anfield er gott mál en ekkert mikið meira en það. Þeir eru að fara ódýrari leiðina á einhverju sem var kominn tími á árið 1992.

Sjónvarpstekjur

Enska deildin er að stinga aðrar deildir af hvað þetta varðar og það er ekki langt í að öll ensku liðin verði komin á topp 30 í Deloitte Money League. Liverpool þarf að komast aftur í a.m.k. hóp fjögurra ríkustu félaga í Englandi og þaðan komast reglulega á ný í Meistaradeild Evrópu. Öðruvísi nær félagið engum framförum innan vallar.

Meistaradeild

Liverpool var Meistaradeildarlið níu ár í röð árin áður en FSG keypti félagið. Árið 2010 var hinsvegar sannarlega annus horribilis og á einu ári fór Liverpool úr því að vera stöðugt Meistaradeildarlið og ekki bara það heldur lið sem fór jafnan langt í þeirri keppni í það að vera miðlunglið í ensku deildinni sem hefur síðan átt í basli með að komast í Evrópukeppnir yfirhöfuð.

FSG hefur fengið tæplega sjö ár til að koma Liverpool aftur a.m.k. í Meistaradeildina og árangurinn er langt í frá ásættanlegur. Liðið hefur einu sinni komist í keppnina og varð sér til skammar.

Núna er hinsvegar komið lið sem maður hefur alvöru trú á að geti komið sér í toppbaráttuna á ný. Það að komast í úrslit Evrópudeildarinnar gefur til kynna að liðið er á réttri leið og aldur lykilmanna gefur til kynna að þetta lið á töluvert inni. Stjórinn er klárlega í Meistaradeildarklassa.

Meistaradeildin verður að vera næsta skref Liverpool, framar öllu öðru (nema kannski deildinni eigi Liverpool möguleika þar). Aðalástæða þess að Liverpool hefur dregist aftur úr síðan 2009 er að liðið er ekki í Meistaradeildinni, það munar gríðarlega hvað tekjur varðar, það skiptir öllu máli þegar kemur að því að halda sínum bestu leikmönnum og það hjálpar ekkert meira þegar kemur að því að fá nýja leikmenn til liðsins. Leikmenn í Meistaradeildarklassa sem mörg lið eru að berjast um nenna ekki að bíða og taka séns hjá klúbbi sem er ekki í Meistaradeildinni þegar þeir geta valið klúbb sem er i henni nú þegar. Alexis Sanhecz er eitt af svona 1.900 dæmum um það síðan 2010.

Liverpool 2005-09 þurfti ekki að selja sína bestu leikmenn, þeir vildu ekki fara enda liðið að berjast á öllum vígstöðum. Síðan þá hefur Liverpool misst alla sína bestu leikmenn fyrir utan Gerrard sem var líka kominn yfir þrítugt. Gerrard 25 ára myndi ekki velja að vera áfram hjá Liverpool núna eins og hann gerði 2005.

Mögulega skiptir það ekki öllu í sumar en annaðhvort núna í vetur eða á næsta tímabili verður Liverpool að ná Meistaradeildarsæti. Öðruvísi höldum við ekki Mané, Firmino, Coutinho og öðrum leikmönnum sem við viljum ekki missa. Bilið milli Liverpool og þeirra liða sem eru jafnan í Meistaradeildinn heldur líka bara áfram að verða stærra á meðan.

Liverpool er núna með bæði hóp og stjóra sem vonandi mætir tilbúnara til leiks í Meistaradeildinni heldur en liðið gerði 2014. Evrópudeildin í fyrra gefur vonandi til kynna hvað býr í þessum hóp.

Að Lucas frátöldum er FSG búið að skipta alveg um hóp og í einhverjum tilvikum er búið að endurnýja sömu stöðuna nokkrum sinnum, það eru engar afsakanir lengur.

Tímabilið áður en FSG keypti liðið var Liverpool Meistaradeildarlið sem endaði í 7.sæti í deildinni með 63.stig. Hroðalegt tímabil . Síðan þá hefur gengið í deildinni hreinlega versnað.

2010-11 endaði Liverpool í 6.sæti með 58 stig.

2011-12 endaði Liverpool í 8.sæti með 52 stig.

2012-13 endaði Liverpool í 7.sæti með 61.stig.

2013-14 endaði Liverpool í 2.sæti með 84.stig (og seldi sinn besta mann þá um sumarið).

2014-15 endaði Liverpool í 6.sæti með 62.stig.

2015-16 endaði Liverpool í 8.sæti með 60.stig.

M.ö.o. þá hefur Liverpool fengið færri stig öll árin undir stjórn FSG fyrir utan tímabilið 2013-14. Þeir keyptu sér klárlega tíma á því tímabili. Ráðning Jurgen Klopp og gott gengi í Evrópudeildinni gaf þeim enn meira svigrúm en núna er klárlega komin hávær krafa um alvöru framfarir hjá liðinu.

Góðu fréttirnar eru að liðið er sem stendur með 59.stig eftir 30 umferðir og bætir því vonandi stigasöfnun liðsins Liverpool tímabilið áður en FSG keypti félagið. Mögulega dugar það aðeins í 6.sætið sem er alls ekki nógu gott, sérstaklega á tímabili þar sem liðið er ekki í Evrópukeppni. Sagan er þó með okkur, Liverpool hefur aldrei endað fyrir utan topp fjóra þau 9 tímabil sem liðið var með 56+ stig eftir 30 umferðir.

Þetta hafa verið ansi löng sjö ár en því er ekki að neita að félagið er miklu heilsusamlegra núna en það var undir lok árs 2010. Meistaradeildin verður að vera næsta skref í uppbyggingu liðsins, það eiga að vera grunnbúðir fyrir áhlaup á ferkari árangur.

12 Comments

  1. Við verðum að enda í topp fjórum á þessu tímabili til að halda okkar bestu mönnum og eiga meiri möguleika á að fá til okkar þá leikmenn sem Klopp vill, við stuðningsmenn getum bara ekki beðið lengur.

  2. Heldur þú virkilega að 25 ára Gerrard hefði ekki áhuga að spila undir stjórn Klopp.
    Liverpool eins og það er mannað í dag með 25 ára Gerrard á miðjunni væri á toppnum.

  3. Já nokkuð pottþétt.

    25 ára Gerrard var svo nálægt því að fera nokkrum vikum eftir að Liverpool vann Meistaradeildina að heimasíða félagsins var búin að tilkynna um brottför hans. Hann myndi klárlega ekki halda áfram hjá Liverpool utan Meistaradeildar sex af síðustu sjö tímabilum.

    Klopp einn og sér er ekkert nóg eins og við höfum séð ítrekað í tilraunum Liverpool til að kaupa þá leikmenn sem félagið setur efst á óskalistann.

  4. #5 Óli….

    Bob Paisley vann 19 titla á 9 árum sem manager geri aðrir betur… 😉

  5. Áhugaverð og skemmtileg lesning.

    Ég get ekki beðið eftir að sjá Liverpool aftur í CL og nú með gott lið sem spilar ALLTAF vel á móti stórum liðum. Ég held að við séum að fara upplifa eitthvað sérstakt í evrópu á næstu árum!

  6. Æ oh, hugmyndin var nú alls ekki að gera þetta af einhverri þrætu um það hvor væri betri stjóri Shankly eða Paisley. Þeir eiga hvor öðrum mikið að þakka í sinni velgengni.

  7. Frábær samantekt Einar og ég er algjörlega sammála.

    Vægi sögu félagsins í samningaviðræðum við leikmenn fær alltaf minna og minna vægi því lengur sem við erum í baráttunni um 6-8 sæti og er CL þáttaka orðin algjörlega crucial í því sem við viljum gera. Ekki bara til að geta keypt þá leikmenn sem við viljum heldur, eins og þú bendir réttilega á, einnig til þess að halda í þá leikmenn sem eru nú þegar í liðinu.

    Peningurinn sem að klúbbur fær er a.m.k. 20 milljónir punda, bara fyrir að komast í riðlakeppnina og þeir sem fara alla leið fá yfir 50 milljónir punda! Þá er ég bara að tala um sjónvarpspeninginn sem fylgir því, ekki þær tekjur sem koma á leikdegi, sölu varnings, búninga og síðast en alls ekki síst, þær klásúlur sem eru oftar en ekki í samningum við sponsora.

    Til að setja þetta aðeins í samhengi. Að vera klúbbur sem er stanslaust í CL gefur þér svigrúm fyrir rúmlega 400k auknum launakostnaði per viku eða fjórum 100k leikmönnum. Aukið álag, vissulega, en að sama skapi myndi ég ætla að CL leikmannahópur sé betur í stakk búinn til þess að takast á við leikjaálag í deildinni (eins og í des/jan). Meiri gæði inn af bekknum o.s.frv.

  8. Sælir félagar

    Takk fyrir góðan pistil Einar Matthías. Ég hefi bent á það sem Eyþór minnist á að þáttaka í meistaradeild gefur ekki aðeins aukna möguleika á að fá menn til liðsins heldur borgar einn til 4 leikmenn (eftir verði og launum) sem svo aftur styrkja liðið í öllum keppnum sem svo eykur líkur á að fá leikmenn til liðsins sem s . . . o.s.frv. Þetta er svo einföld rökleiðsla “að það hálfa væri hellingur” eins og félagi SSteinn segir stundum.

    Það er nú þannig

    YNWA

  9. Takk fyrir mjög áhugaverða samantekt. Maður er fljótur að gleyma, mundi ekki að Liverpool hefði verið svona neðarlega í deildinni árið 2010. Liverpool var eins og fárveikur sjúklingur á þessum tíma, lækningin kom 2011 og hét Suarez.

Liverpool – Everton 3-1 (leikskýrsla)

Bournemouth á miðvikudag