Exeter annað kvöld & ýmislegt

Okkar menn spila svokallað replay annað kvöld þegar Exeter koma á Anfield í 3. umferð enska bikarsins. Fyrri leikurinn endaði 2-2 á heimavelli Exeter. Þið getið séð upphitun og leikskýrslu fyrir þann leik hérna. Við komum svo betur að honum í lok upphitunar en fyrst langar mig að renna yfir nokkur atriði, enda margar pælingar sem liggja á mér eftir viðburðarríka helgi í Liverpool og ömurlegan tapleik gegn United sem afskrifaði okkar menn, raunsætt, úr baráttu fyrir 4. sætinu þetta tímabil.

Leikmannahópurinn og kaup

Ég var ánægður með sumargluggann 2015 og þegar Brendan Rodgers var rekinn var ég á þeirri skoðun að mér fyndist að hann ætti að hafa náð meiru út úr þeim hópi sem er til staðar. Nú er Jürgen Klopp kominn inn og eftir þrjá mánuði í starfi hefur gengið ekki batnað mikið. Þrátt fyrir það er ég í raun ekki búinn að breyta um skoðun á leikmannahópnum en ég er búinn að gera ákveðna viðbót við hana.

Mér finnst leikmannahópur Liverpool vera eins og fagurmótaður líkami sem í vantar beinagrind. Við erum með flott hár, stæðilega vöðva, fallega húð, heiðblá augu, tíu fingur og tær og svo framvegis en í stað beinagrindar er öllu klabbinu haldið uppi af ostagrind. Og ostur bráðnar við hita.

Ímyndum okkur aðeins. Þessi leikmannahópur, óbreyttur með öllu nema fyrir utan fjóra leikmenn. Setjum 25 ára Pepe Reina í markið. Setjum 25 ára Sami Hyypiä í vörnina. Setjum 25 ára Steven Gerrard á miðjuna. Setjum heilbrigðan Daniel Sturridge í framlínuna. Þetta eru engir smáleikmenn og auðvitað nánast ómögulegt að finna þá alla í einu, hvað þá í sömu 1-2 leikmannagluggunum, en liðið verður að reyna. Ég veit að fólk býst við hreinsun hjá Klopp í sumar og lætur sig dreyma um að einhverjir 8-10 leikmenn verði látnir fara. Ég vona að svo verði ekki. Ég vona að nokkrir augljósir fari (Enrique, Bogdan, Sinclair, kannski 1-2 af Allen/Lucas/Skrtel/Benteke etc.) og svo að það verði sett allt kapp á að kaupa 2-3 bein í beinagrindina. Alvöru markvörð, alvöru miðjumann, alvöru framherja.

Það eru annars mjög áhugaverðar pælingar á netinu í dag um stöðu leikmannahópsins. Barney Ronay hjá Guardian heldur því fram að leikmannahópurinn sé ótrúlega ósamstilltur, sem arfleifð slæmrar innkaupastefnu FSG, á meðan Paul Tomkins er með áhugaverðar pælingar um hæð leikmannahópsins. Ég tek undir báða pistla, þeir eru mjög góðir.

Ég er samt á því að enn eitt byltingarsumarið sé ekki lausnin. Það eru góðir leikmenn þarna. Bill Shankly sagði eitt sinn að gott fótboltalið væri eins og píanó; þú þarft átta sem geta borið þyngslin og þrjá sem geta spilað á það. Liverpool er í dag með um 20 píanóburðarmenn. Okkur vantar þrjá sem geta spilað á flygilinn. Það er verkefni félagsins sumarið 2016 (og sumarið 2015, og sumarið 2014…).

Simon Mignolet

mignolet_cityFimm ár. Þetta er fulllöng framlenging á samningi finnst mér. Hann átti tvö og hálft ár eftir af samningi og er markvörður nr. 1 hjá okkur í dag. Menn eru sennilega fyrst og fremst að vernda endursöluvirði hans hérna, frekar en að gefa út einhverja stefnuyfirlýsingu um það hvort hann sé óumdeildur aðalmarkvörður okkar næstu árin. Orðum það svona: ef Jürgen Klopp er ekki að leita logandi ljósi að betri markverði leyfi ég mér að efast um að hann sé rétti stjórinn fyrir okkur. Mignolet er fínn, en við einfaldlega þurfum og eigum að gera meiri kröfur en að eiga fínan markvörð.

Slúðrið segir að Mignolet fái greidd 50 þúsund pund á viku næstu fimm árin. Mig grunar að það sé svipuð upphæð og varamarkverðir Meistaradeildarklúbbanna hafi í laun. Þannig að ef við ætlum að hugsa eins og stórlið og haga okkur eins og stórlið verður farið út og sóttur markvörður sem þénar a.m.k. tvöfalda þá tölu og þá getur Mignolet setið á bekknum næsta vetur með sín 50 þúsund pund í laun. Markmiðið er ekki að skipta honum út fyrir annan og vera ennþá með Adam Bogdan á bekknum. Markmiðið er að varamarkvörðurinn okkar sé u.þ.b. á pari við Simon Mignolet og aðalmarkvörðurinn betri.

Þannig að, fínt bara. Gefið honum samning. Finnið svo nýjan aðalmarkvörð.

Rifrildi í United-klefanum

Ég hjó eftir áhugaverðri sögu eftir leikinn um helgina. Mamadou Sakho sagði að það hefðu heyrst öskur og rifrildi úr United-klefanum í hálfleik. Sakho sagði líklega frá þessu til að undirstrika hversu miklir yfirburðir Liverpool voru í fyrri hálfleik. Liverpool var vissulega meira með boltann og sótti meira en mér fannst nokkuð augljóst að það var hluti af plani United. Þeir lágu aftur, lokuðu svæðum og fyrir vikið sköpuðu okkar menn ekki mörg færi. Svo sóttu þeir hratt með löngum boltum í svæði á Rooney (sem Kolo Toure sá vel um allan leikinn) eða skallabolta á Fellaini (sem okkar menn réðu ekkert við).

Það sem ég hjó aðallega eftir í frásögn Sakho er þessi staðreynd: United voru að spila útileik gegn erkifjendunum og staðan var 0-0 í hálfleik. Samt hnakkrifust þeir í klefanum í leikhléi. Og þá spyr ég mig á móti: hefðu Liverpool-menn hnakkrifist í hálfleik á Old Trafford í sömu stöðu og eftir leik sem spilaðist eins, þar sem Liverpool lá aftur og lokaði svæðum og það hafði gengið bara ágætlega?

Ég efa það. Og þetta er munurinn á félögunum í hnotskurn. Fyrir Manchester United er það lágmarkskrafa að komast í Meistaradeildina að nýju í vor. Fyrir Liverpool er 4. sætið fyrirheitna landið. Fyrir Manchester United er ekki nóg að vera 0-0 og verri aðilinn á Anfield, fyrir Liverpool er það mjög ásættanlegt.

Og svo kemur maður heim til Íslands eftir helgina í Liverpool, rennir yfir ummælin við þennan leik og sér að fullt af fólki vill bara vera jákvætt og horfa á björtu hliðarnar. Eftir tap á Anfield gegn erkifjendunum, það fjórða í röð gegn þeim.

Er það að furða að Liverpool sé sofandi risi? Stór hluti okkar er háður vögguvísum og vill ekkert slæmt heyra.

Liðið gegn Exeter

Þá að leiknum annað kvöld. Þetta verður áhugaverður leikur að vissu leyti, ekki síst vegna þess að eftir tapið um helgina má í raun færa góð rök fyrir því að Klopp eigi að einbeita sér að bikarkeppnunum fram á vorið. Liðið er komið með annan fótinn á Wembley í Deildarbikarnum og Augsburg bíða okkar í 32-liða úrslitum spennandi Evrópudeildar. Vinnist sigur gegn Exeter á morgun koma kvalarar okkar í West Ham í heimsókn á Anfield í næstu umferð. Það er því alveg möguleiki á að fara lengra í öllum þremur bikarkeppnum og á meðan liðið er á lífi í þeim er þetta tímabil á lífi.

Ég efast þó um að Klopp noti sína sterkustu leikmenn annað kvöld, einfaldlega vegna þess að álagið á þeim hefur verið gríðarlegt undanfarið og hann bara verður einhvers staðar að gefa frí. Krakkarnir (og PlayStation-miðvörðurinn) áttu vel í þetta Exeter-lið á þúfnabarðinu þeirra fyrir fjórtán dögum þannig að svipað lið ætti að nægja okkar mönnum til að komast framhjá neðrideildarliðinu á alvöru grasi.

Ég spái því að Danny Ward og Steven Caulker komi inn í liðið fyrir Adam Bogdan og José Enrique, mögulega Joe Allen líka, og að þetta lið muni mæta Exeter annað kvöld. (Ég var minntur á í ummælum að hvorki Ward né Caulker eru gjaldgengir þar sem þeir voru ekki komnir til Liverpool fyrir fyrri leikinn gegn Exeter. Ég hef breytt spánni og sett Bogdan og Lucas inn í staðinn):

Bogdan

Randall – Ilori – Lucas – Smith

Kent – Allen – Brannagan – Teixeira

Benteke – Sinclair

Mín spá

Þetta er ekkert flókið, ef þeir sem spila vinna ekki annað kvöld geta þeir flestir kvatt þetta félag fljótlega. Ungir strákar fá ekkert mikið betri sénsa en þetta til að sanna sig hjá stórum klúbbi. Það var varla hægt að dæma menn af fyrri leiknum þar sem ekki var leikið á grasi í það skiptið en hér verður stóridómur úti.

Við vinnum þetta 4-0. Benteke og Sinclair skora báðir, jafnvel Caulker líka. Eða kannski töpum við og þurfum svo að hlusta á vögguvísur frá stuðningsmönnum sem vilja alltaf bara horfa á björtu hliðarnar? Nei ég segi bara svona. Fjögur núll og málið dautt, þá fáum við séns til að hefna okkar á West Ham í vetur.

YNWA

29 Comments

 1. Samkvæmt minni bestu vitund er Ward ekki leyfður í þessum leik… Hann var í láni og gat því ekki spilað fyrri leikinn og má því ekki vera í hóp fyrir seinni.

  FA reglurnar eru svona:
  (15. f) All players must have been eligible to play in the original tie in order to play in a replayed or postponed match; however a player who has been suspended according to the disciplinary procedures under the Rules of The Association may play in a postponed or replayed match after the term of his suspension has expired.

  http://www.thefa.com/~/media/776fdc2c663a48568fc3688fa667463a.ashx

 2. Eru ekki bæði Ward og Caulker ólöglegir í þessum leik þar sem voru ekki komnir til Liverpool þegar fyrri leikurinn átti sér stað. Þeir geta alveg spilað fyrir Liverpool í þessari keppni í framtíðinni, ef við komumst áfram, en ekki í þessum leik. Það sama gildir um Stoke leikinn.
  Getur verið að ég sé samt að ruglast.

 3. Shit! Það er rétt hjá ykkur, ég var búinn að sjá þetta en blankaði alveg þegar ég setti liðið inn. Ég uppfæri skrána strax.

 4. Svo má ekki gleyma að Flanagan verður á bekknum og fær örugglega einhverjar mínútur.

  Og já það kæmi mér ekkert á óvart að Mignolet spili leikinn. Sem og 1 – 2 senior spilarar til viðbótar.

 5. Vona bara að Sinclair fái ekki að spila þennan leik ef hann er svo gott sem farinn frá félaginu.

 6. Frábær 🙂
  Hjartanlega sammála – aldrei að sætta sig við stöðu mála eins og hún er núna. Hvað þá tapa gegn arfa arfa arfa slöku fótboltaliði Man Udt

  Vandinn í hópnum er sá að okkur vantar 15-25 marka mann á toppinn og leiðtoga á miðjunni. Match winner

 7. Viljum við að Sinclair sem er að fara frá liðinu fái tækifæri í þessum leik? Nei ég vona að hann spili ekki heldur notum við leikmenn sem eru með hugan við liverpool ferilinn sinn.

  Ég er ekki samála því að ef þessi leikur tapast að allir leikmenn geta bara sagt bless við liverpool ferilinn sinn einfaldlega af því að þetta er liðsíþrótt og þú getur verið góður leikmaður en liðið þitt ekki að standa þig.

  Ég vona að Ojo byrji þennan leik en mér fannst hann mjög sprækur í síðasta leik og vona að ég liðið nái að vinna þennan leik og að þetta verður bikarævintýri hjá okkur.

 8. Burt með sinclair , vill ekki sjá hann nálægt liðinu , eins finnst mér það mikil bjartsýni að ætlast til að benteke skori gegn D deildar liði. Hann er vita vonlaus

 9. er Sinclair a? yfirgefa lfc fyrir watford? me? fullri vir?ingu fyrir því li?i.
  hva? liggur drenginum à a? ver?a farstur a?al li?sma?ur? e?a er þetta umbafífl a? fokka î hausnum à honun? allavega ef sinclair vill spila fyrir watford þa ver?i honun a? gó?u…

 10. Kristjan Atli! Tu segir ad menn vilji ekkert illt heyra en bannar svo athugasemdir fra teim sem hafa vogad ser ad tala islensku her a kop.is stundum verdur ad tala hreint ut. Margir af tessum gaurum eru bara aumingjar. Eg segi tad her…td.sturridge. alger #%&??# aumingi. Lestu bokina hans gerrard. Hann turfti ad bidja hann um ad spila!!!!!! Burt m svona kerlingar.

  Svar (KAR): Ég læt þetta komment standa hjá þér frekar en að henda því. Það ætti að henda því af því að þú kallar leikmenn aumingja sem brýtur reglur Kop.is um skítkast, ekki af því að þú ert að „tala íslensku“. Vonandi mun fólk einhvern daginn hætta að saka okkur um að banna ummæli sem eru ósammála okkur pistlahöfundum því síðan er að verða tólf ára gömul og við höfum aldrei gert það. Þetta er orðin þreytt ásökun.

 11. ég efast um að sinclare verði spilaður vegna þess að hann vill ekki enurnýja samninginn, og varla berður Bogdan spilaður frekar en Ward.

 12. Held að símastaurinn (Benteke) eigi ekki eftir að skora í þessum leik en allir aðrir eru líklegri til þess.

 13. Hinir ungu munu fá annað tækifæri og það er bara gott mál. Klopp sagði í dag að liðið sem mætir Exeter hefði náð að æfa saman og verður athyglisvert að sjá samanburð við fyrri leikinn eftir handleiðslu Klopp og félaga.

  Mér finnst eðlilegt að Klopp fái þetta tímabil í friði. Var ekki á Rodgersout vagninum einmitt vegna þess að ég sá ekki kostina við það að skipta um hest rétt komin út í ánna. Hef síðan séð að ég hafði rangt fyrir mér. Þetta tímabil minnir um margt á árin fyrir 13-14. Það öskruðu margir þá með Gerrard Carra og Suarez í liðinu.

  Nú er aftur tímabil breytinga og leikurinn á morgun hefur aðra þýðingu en á öðru eða þriðja ári þjálfara. Fyrir suma þeirra sem hann spila getur hann orðið upphafið að einhverju merkilegu en hann getur líka orðið ömurlegur. Kemur bara í ljós en það verður nógur tími til að öskra, drulla yfir liðið og “gefast upp á að halda með Liverpool ” á næsta tímabili.

 14. Kristján Atli : munurinn á félögunum í hnotskurn. Fyrir Manchester United er það lágmarkskrafa að komast í Meistaradeildina að nýju í vor. Fyrir Liverpool er 4. sætið fyrirheitna landið. Fyrir Manchester United er ekki nóg að vera 0-0 og verri aðilinn á Anfield, fyrir Liverpool er það mjög ásættanlegt.

  Þú verður að fyrirgefa en var Liverpool ekki að ráða einn eftirsóknarverðasta þjálfara i heimi af þvi að staðan var hörmuleg?

  Erum við allt i einu bara þúsund kílómetrum frá United ? Það þarf enginn heilvita maður að segja mer að Liverpool séu sáttir með leikinn.

  Hvað ef að Deagea hefði ekki varið eitt af þessum skotum og við hefðum unnið leikinn ?

  Þá væri allt i blóma!! Þetta er Svo barnalegt að þetta er hlægilegt nánast.

  Ásættanlegt fyrir United var jafntefli enda spiluðu þeir ekki þannig fótbolta að það var verið að taka sénsa til að vinna leikinn.

  Markmaðurinn maður leiksins, Liverpool miklu betra liðið og var eina liðið a vellinum sem þorði.

  Í tíð Förgí hefði jafntefli a Anfield ekki verið ásættanlegt. Það er önnur tíð hjá þeim og þó að þeir hafi grísað inn marki úr eina skotinu a ramman þá gerir það þá ekki að meiri mönnum eða liði.

  Sanngjörn úrslit hefði verið Liverpool sigur. Einn maður stoppaði það. Þeir hafa alvöru markmann. Annað en við. Já það er hluti af liðinu að hafa góðan markmann og sú staða er okkar versta a vellinum.

  Liverpool sigur hefði jafnað United að stigum. En af þvi að Liverpool tapaði leiknum þa eru þeir Vonlausir og United alvöru klúbbur.

  Jesus minn

 15. Stjóri Liverpool var rekinn nú á haustdögum. Þegar stjórar eru reknir er það yfirleitt vegna þess að allt er í bulli. Held að það hafi algjörlega átt við Liverpool. Stóð ekki steinn yfir steini.

  Ráðinn var einn eftirsóttasti þjálfari heims sem er þekktur fyrir það að búa til frábæra stemningu og baráttu og ná því besta fram í leikmönnum. Einnig er hann og hans menn frægir fyrir frábær kaup.

  Menn kepptust við að tala þetta þó niður og stilla væntingum í hóf því þetta tæki tíma og voru nú flestir sammála um að það.

  Við sáum strax breytingar á liðinu í fyrstu leikjum og barátta og spilamennska stórbatnaði. Það var actualy plan í gangi!!! Og jafnvel plan B !!!

  Við töpuðum ekki leikjum en gerðum óþarflega mörg jafntefli. Svo fór aðeins að síga á ógæfu hliðina. Menn fóru að meiðast í umvörpum og það varð meira að segja til þess að enska pressan fór að fjalla um það og stjórar annarra liða sáu tilefni til að tjá sig um þetta.

  Í kjölfarið komu ósigrar sem kipptu okkur niður á jörðina aftur (munið samt að það voru engar væntingar strax).

  Nú er ákveðinn hópur mjög pirraður og reiður, gott og vel það er bara þannig. Vissulega margt til að pirra sig yfir. Klaufaleg mistök og geld sóknarlína.

  Svo er ákveðinn hópur sem hugsar að við séum komnir með rétta stjórann, nei draumastjórann, og hann veit nákvæmlega hvað þarf til svo hægt sé að byggja upp öflugt og samkeppnishæft lið sem vinnur tiltla. Þessi hópur gerir sér ENN grein fyrir því að það gerist þó ekki í vor. Jafnframt gerir þessi hópur sér grein fyrir því að í leikmannahópnum í dag eru leikmenn sem munu fá sparkið í fokking afturendann í sumar og þeim sagt að finna sér annað lið. Auk þess gerir þessi hópur sér grein fyrir því að það er ENGINN brjálaðri en Jurgen Klopp yfir þessum ósigrum.

  Í dag eru klárlega vandamál, stjórinn veit NÁKVÆMLEGA hver þau eru og hvernig á að laga þau, fyrir nokkrum mánuðum höfðu menn ekki hugmynd um að það væru í raun vandamál og hvað þá hvernig ætti að laga þau.

  Við þessir bjartsýnu eru á því að liðið þurfi í raun um 3 gæða leikmann, svona Hyypia, Reina og Gerrard týpur til þess það fari að blómstra. Nei bíddu ha…..

  Já það er alveg merkileg þessi bjartsýni stuðningsmanna…

  Kristján Atli þú hefur alls ekki rangt fyrir þér en eg er ósammála þér.

 16. Gaman að því að þessi Símastaur sem allir eru að bölva er markahæstur hjá okkur, og tryggði okkur 6 stig gegn Sunderland og leicester city. Menn mega gefa honum smá séns.

 17. Joe Allen með þrennu, leggur upp eitt og ver víti, kemst síðan bara á bekkinn fyrir næsta leik og fær ekkert að koma inná, Heard it first here.

 18. Hef aðeins verið að hugsa! Af hverju var Rodgers einn eftirsóttasti framkvæmdastjóri á Bretlandi áður en hann kom til Liverpool. Hann var jú búin að gera góða hluti hjá Swansea og rífa liðið upp. Síðan eftir nokkra mánuði hjá Liverpool úthrópaður og allt sagt vera í bulli. Svipað er nú farið að hrópa eftir nokkra mánuði hjá Klopp sem var einn eftirsóttasti framkvæmdastjóri í bransanum. Hvað er að? Ég held að það sé ekkert að framkvæmdastjórunum. Það er miklu frekar eitthvað að hjá félaginu ef það ætlar að vera einn af bestu klúbbum Evrópu. Uppeldismálin, kaup á topp leikmönnum, metnaður ofl verður að vera á svipuðu plani og hjá Barcelona ef Liverpool ætlar sér að vera í pakkanum með þeim stóru. Svo einfalt er það.
  Nú er tækifæri til að snúa aftur á rétta braut þ.e. sigurbrautina með öruggum sigri á Exeter. Áfram Liverpool, stefna á bikar í vor.

 19. #22

  Hvernig var Rodgers einn eftirsóttasti stjórinn? Veit ekki til þess að samkeppnin um hans undirskrift hafi verið mikil. Í raun var hún engin ef ég man rétt. Maðurinn hafði unnið championship playoffs og ekkert annað. Hans afrek í úrvalsdeild voru að falla ekki þrátt fyrir að spila ekki Pullis fótbolta. Ef það er CV sem Liverpool sættir sig við getum við bara farið að hætta þessu. Ráðning sem lýsir metnaðarleysi FSG meira en nokkuð annað enda var hann rekinn frá Reading 1.5 ári (minnir mig) áður en hann kom hingað.

  Annars er verið að tala um þetta lið:
  Mignolet, Randall, Ilori, Enrique, Smith, Brannagan, Stewart, R Kent, Teixeira, Ojo, Benteke

  Finnst fínt að krakkarnir fái fleiri sénsa í þessari keppni. Væri alveg til í eitthvað annað en Enrique, bara hvað sem er, einhvern úr u-15 liðinu þess vegna. Benteke mun halda áfram að vera Benteke, ekki að það sé honum að kenna en allt eins hægt að sleppa því að vera með framherja. Myndi segja að það væru góðar 100% líkur á að við lánum hann næsta sumar. Hversu auðvelt er að hafa fé af þessum klúbbi. Það sem hinir klúbbarnir hljóta að hlæja af okkur…

 20. Fín færsla hjá KAR. Tony Barrett frá Tíbet er með þetta byrjunarlið:
  Mignolet; Randall, Ilori, Enrique, Smith; Brannagan, Stewart; Kent, Teixeira, Ojo; Benteke

 21. Tony Barrett er frá Times en ekki Tíbet…þó síminn minn sé ósammála?

 22. Bók sem náði aldrei almennilegri hylli “Tony í Tíbet”. Líklega út af hinni bókinni…

 23. Fínar pælingar. Eina sem ég óttast er að við séum með 20 píanóspilara en enga til að bera það. Við erum með fullt af léttleikandi listamönnum en það mun ekki koma okkur langt ef það er ekki kraftur í hinum leikmönnunum. Við þurfum líkamlega sterkari, hraðari og stærri leikmenn að meðaltali til þess að leikmenn eins og t.d. Coutinho og Lallana geti blómstrað.

  Annars þá vinnum við þennan leik en ég efast um að það verði 4-0, mín spá er 2-1, jafnvel eftir framlengingu. Ég verð ekki einu sinni hissa ef þetta færi í vító.

  Ég spái því að Mignolet og Toure byrji í staðinn fyrir Lucas og Bogdan en annars verði byrjunarliðið eins og spáð er í upphituninni.

 24. Ég er ýmsu vanur eftir 43 ár og kippi mér ekkert of mikið upp við gengið núna, sérstaklega á milli leikja.
  Jú ég trúi alltaf á sigur fyrir hvern leik og ég verð pirraður yfir skítaleikjum og brjálaður yfir tapi fyrir scums.

  En ég er orðinn ansi sjóaður í því að horfa yfir lengra tímabil fram á við og sjá jákvæð merki. Já, það er alltaf næsta tímabil 🙂

  En ég er nokkuð rólegri núna en ég hef lengi verið. Ég bjóst reyndar við að Daglish myndi rífa þetta upp en það var meira óskhyggja og fortíðarþrá en framsýni.

  Ég er rólegri því við erum með frábæran stjóra. Stjóra sem á eftir að marka spor og byrjar af alvöru næsta sumar. Sporin munu svo dýpka og dýpka.

  Það er ekki margt spennandi í gangi í þessum janúar glugga og ég trúi því að menn vilji frekar vanda valið til lengri tíma þegar virkilega á að færa þetta lið framá við. Sá tími hefst strax næsta vor.

  Þangað til fá menn þann séns sem þeir eiga sumir skilið (ekki allir) til að reyna að vera með í þeim plönum. Þeir sem stíga ekki upp á næstu þremur mánuðum verða farnir áður en Gylfi nær að skora fyrsta markið sitt á EM.

  En að leik kvöldsins, hann verður skemmtilegur og við vinnum. Ojo setur hann. Enrique fer útaf meiddur eftir 15 mín. og Flanno kemur inn.

  YNWA

 25. Sælir félagar
  Það er verið að tala um að beinagrind vanti. Er ekki Henderson og Lovren í því hlutverki. Samþykki þó alveg sð markvörð vanti og framherja og allra mest alvöru kantmenn.

  Enginn þjálfari mun rakka markvörðinn sinn niður eða framherjann sem hann hefur. Markmiðið hlítur alltaf að vera að gefa mönnum sjálfstraust sem Klopp er örugglega að gera og þessi samningur hluti af því. Ef framherji á að fá sjálfstraust þá þarf hann að spila alla leiki þar til hann hrekkur í gang. Hvað ætli Rooney sé búin að spila marga leiki án þess að skora.

  En heimsklasss framherji og heimsklassa markmaður í sumar og kantarar og við erum með gott lið.

  Hvernig fannst ykkur annars Zlatan talið hjá Klopp 🙂

Opinn þráður – Blm. fundur Klopp

Liðið gegn Exeter – JOSE ENRIQUE (C)