Bordeaux á Anfield

Það er komið að 5. umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar þetta haustið og að þessu sinni taka okkar menn á móti Girondins de Bordeaux á Anfield. Verkefni kvöldsins er einfalt: sigur tryggir okkur upp úr riðlinum og inn í 32-liða úrslitin eftir áramót.

Þetta er staðan í riðlinum fyrir þessa 5. umferð:

groupb

Þetta er ekki flókið. Rubin Kazan og Bordeaux hafa ekki enn unnið leiki í þessum riðli svo að jafntefli annað kvöld gæti dugað til að útiloka Rubin Kazan en þá er samt möguleiki á að Bordeaux laumist fram úr okkur á markatölu ef Liverpool tapar í Sion í lokaumferðinni og Bordeaux vinnur heimaleik gegn Rubin. Ég held einmitt að Jürgen Klopp muni leggja mikla áherslu á að forðast spennandi lokaumferð og freisti þess að klára riðilinn strax annað kvöld með sigri. Meira um það síðar.

Bordeaux

Mótherjar okkar annað kvöld eru ekki að eiga gott tímabil í Frakklandi. Þeir eru í 13. sæti í Ligue 1 með 18 stig í 14 leikjum. Í síðustu 5 leikjum hafa þeir unnið 2, gert 2 jafntefli og tapað einum, um síðustu helgi náðu þeir 2-2 jafntefli á útivelli gegn Rennes. Þetta er lið sem er ekki að skora sérstaklega mikið og ég átti erfitt með að finna einhverja leikmenn til að óttast sérstaklega þegar ég skoðaði leikmannahóp þeirra í vetur. Þeir hafa þó unnið sér það til frægðar að ná jafntefli á útivelli gegn PSG (aðeins annar af tveimur leikjum sem PSG hafa ekki unnið í deildinni til þessa) og svo unnu þeir góðan sigur á Mónakó í byrjun nóvember.

Þýðing = þetta er lið sem Liverpool á að vinna á Anfield en okkar menn mega þó alls ekki halda að þeir geti tekið þetta með annarri hendi.

Fyrri leikur liðanna endaði 1-1 á nýjum velli Bordeaux (sjá upphitun og leikskýrslu fyrir þann leik) en það var í raun leikur sem okkar menn hefðu átt að vinna. Brendan Rodgers stillti upp mjög ungu liði í þeim leik en Evrópu-Lallana kom okkar mönnum yfir áður en algengt varnarvesen gaf þeim frítt skot í teignum undir lok leiksins og þeir björguðu jafnteflinu á heimavelli.

Liverpool

Af okkar mönnum er það helst að frétta að Phil Coutinho er með hnjask eftir sigurinn á City um helgina. Hann ætti að ná sér fyrir Swansea um næstu helgi en verður fyrir vikið nær pottþétt hvíldur gegn Bordeaux. Þá eru Daniel Sturridge og Jordan Henderson byrjaðir að æfa en ég myndi ekki búast við þeim í hópi gegn Bordeaux, finnst líklegt að Divock Origi taki pláss Sturridge á bekknum frá því í síðasta leik. Þá er Lucas Leiva kominn með 5 gul spjöld í deildinni og verður því í banni gegn Swansea sem þýðir að hann spilar nær pottþétt gegn Bordeaux.

Ég ætla að tippa á þrjár breytingar á sigurliðinu gegn City: Christian Benteke kemur inn í stað Phil Coutinho, Joe Allen kemur inn í stað James Milner og Jordon Ibe kemur inn í stað Roberto Firmino. Vörnin verður óbreytt enda bara fjórir leikfærir úr að velja þar:

Mignolet

Clyne – Skrtel – Lovren – Moreno

Can – Lucas
Ibe – Allen – Lallana
Benteke

Þetta er nógu sterkt byrjunarlið til að klára Bordeaux á Anfield og svo verða Milner, Firmino, Origi, Kolo Touré og ungir strákar eins og Randall og Brannagan á bekknum.

Mín spá

Sko, það er kominn tími til að okkar menn rétti úr kútnum á heimavelli. 0 sigrar í 2 Evrópuleikjum hingað til, 1 sigur í 2 bikarleikjum og aðeins 2 sigrar í 6 deildarleikjum. 3 sigrar í 10 á Anfield í öllum keppnum er skammarleg tölfræði og þetta bara skal lagast, strax frá og með morgundeginum.

Okkar menn vinna 2-0. Benteke skorar annað og Evrópu-Lalli hitt og okkar menn eru komnir í 32-liða úrslitin. Þetta getur ekki verið flókið, á ekki að vera flókið. Koma svo!

YNWA

15 Comments

 1. Ég myndi vilja sjá Randall í byrjunarliðinu svo það sé hægt að hvíla Clyne eða Moreno.

 2. Einar Örn (#1) segir:

  Er ekki líkelgra að Lallana fái hvíld en Firmino – spilaði Lallana ekki landsleiki í hlénu?

  Jú það gæti verið. Lallana hefur bara verið fastur liður í Evrópudeildinni hingað til, þess vegna fannst mér líklegra að hann myndi spila. Sjáum til.

 3. Kolo Toure byrjar í kvöld samkvæmt twitter slúðri. Gæti trúað að þetta yrði liðið: Mignolet; Clyne, Toure, Lovren, Moreno; Milner, Lucas, Allen; Ibe, Firmino; Benteke.

 4. Ég held að Klopp verði samt að reyna að finna leiki til að hvíla Moreno og Clyne.
  Ég myndi vilja sjá Can í bakverðinum svo getur Milner spilað þarna líka.

 5. Vona að þú hafir rangt fyrir þér Can, Allen, Lucas hljómar ekki spennandi miðja á heimavelli vona að við fáum eitthvað aðeins sókndjarfara

 6. Sion að missa mann útaf, ætla Rubin menn að senda okkur í efsta sætið í riðlinum!

 7. Eg væri til i að Balotelli myndi fara i klaustur, andlega ihugun, kyrja jogann og skora svona 30 mörk eftir aramot en þar sem það er aldrei að fara gerast þa væri eg til i 2-0 sigur i kvöld.

 8. hvað hét aftur stímið sem var með password babsel eða eitthvað ? og hvað var passwordið ?
  🙂

Kop.is Podcast #103

Byrjunarliðið komið