Stoke á sunnudag

Að baki eru tveir frábærir mánuðir þar sem að Liverpool tapaði ekki leik! Sumarið er tíminn eins og Bubbi söng líka svona listavel. Stúlkan gæti alveg eins verið okkar ástkæri klúbbur þegar maður veltir textanum fyrir sér. Maður gat ekki hugsað sér að horfa á annan fótboltaleik í vor, þetta var orðið gott, hvíldin var kærkomin.

Það var skrifað í skýin að fyrsti leikur tímabilsins yrði á Britannia. Þetta snýst ekki um hefnd. Þetta snýst um stolt og stigin þrjú. At the end of the storm og allt það. Nú er komið að því og ÉG GET EKKI BEÐIÐ!

Stoke Liverpool logo

Óvissan

Ég man ekki eftir leiktíð þar sem að Liverpool liðið stóð frammi fyrir jafn mikilli óvissu og þeir gera nú. Spurningamerki við eigendur liðsins sem eru með Liverpool í fjarstjórnun. Spurningamerki við stjórann sem fór úr því að vera Shankly endurfæddur yfir í að vera Souness Jr.. Þrjú ár inn í valdatíð hans og við erum engu nær. Spurningamerki við eldri leikmenn liðsins. Leikmenn sem voru frábærir 2013/14 en hræðilegir 2014/15. Hvor leiktíðin gefur rétta mynd af þeirra getu? Spurningamerki við kaup sumarsins. Enn eitt tímabilið er Liverpool að kaupa hálft byrjunarlið. Benteke/Carroll umræðan. Annar Southampton leikmaður. Brassar í ensku deildinni og svo mætti áfram telja.

Ég held að Kristján Atli hafi hitt naglann á höfuðið. Maður er smeykur fyrir komandi tímabil. Þetta gæti allt farið á versta veg þar sem Rodgers verður rekinn fyrir áramót og við verðum enn eina ferðina farnir að hlakka til næsta tímabils áður en við tökum jólaskrautið niður. Það er líka hinn möguleikinn, öllu meira spennandi. Þetta gæti smollið. Benteke gæti orðið 25 marka maður, Firmino tekið deildina með stormi og Coutinho náð þeim stöðugleika sem heimsklassaleikmenn þurfa að búa yfir o.s.frv. Ef og gæti. Eitt er allavega ljóst, ef menn ætla að ná markmiðum sínum á þessu tímabili þá verður liðið að byrja vel.

Sagan

Okkur hefur gengið skelfilega á þessum velli. Liverpool hefur mætt Stoke á Britannia 7 sinnum síðan að EPL var sett á laggirnar. Árangurinn 1-2-4 (sigur-jafntefli-tap) og markatalan 8-16 Stoke í vil. Síðasti sigur okkar á þessum velli var auðvitað leiktíðina 2013/14 þegar SAS tryggðu okkur stigin þrjú í mögnuðum leik, 3-5.

Jon Walters hefur reynst okkur erfiður og er aðeins einu marki frá því að vera markahæsti leikmaður í einvígi þessara liða frá upphafi. Hann hefur skorað 5 mörk í 12 leikjum. Af þeim leikmönnum sem ennþá spila er Crouch vinur okkar næstur á lista með 3 mörk í 10 leikjum.

Markahæsti leikmaður Liverpool í þessu einvígi? Af þeim sem eru enn að spila þá er Sturridge eini núverandi leikmaður Liverpool sem hefur skorað gegn Stoke sem Liverpool leikmaður. Þá er átt jafnt við um leiki á Anfield sem og á Britannia. Suarez hefur séð um þetta að langmestu leyti síðustu ár, en það er önnur saga.

Ég er búinn að leggja mig mikið fram að nefna ekki 6-1 leikinn en það verður víst ekki hjá því komist lengur. Leikurinn á Britannia í maí var stærsta tap Liverpool síðan 1963. Við erum ekki að tala um leik fyrir einhverjum par árum síðan, þetta er síðasti alvöru leikur sem við spiluðum, fyrir rétt tæpum þremur mánuðum síðan. Ég kaupi það ekki sem afsökun að tímabil okkar hafi verið búið, það var alveg jafn mikið í húfi fyrir heimamenn eins og það var fyrir okkur. Jafnvel minna því þeir voru öryggir með 9 sæti. Liverpool þurfti aftur á móti sigur til að halda 5 sæti.

2908B93300000578-3095139-image-a-2_1432480471681

Stoke

Mark Hughes er búinn að byggja upp flott lið. Þeir eru búnir að versla mikið í sumar og fengið inn öfluga leikmenn eins og Glen Johnson (ég veit ,ég veit) Afellay, Van Ginkel (lán) og Joselu sem eiga vafalaust eftir að styrkja þá mikið. Helsta spurningamerkið er að mínu mati formið á Afellay (verið gríðarlega mikið meiddur síðustu ár, gæðin vissulega til staðar) og Butland, sem hefur ekki spilað nema 6 úrvalsdeildarleiki á ferlinum. Þetta var auðvitað (og er) einn efnilegasti markmaður Englands en hann hefur nánast eingöngu reynslu úr næst efstu deild og spilaði ekki nema einhverja 14 leiki allt síðasta tímabil (með Stoke & Derby). Þeirra styrkleiki er að mínu mati framar á vellinum. Sérstaklega á miðjunni og út á kanti. Sidwell, Ireland, Adam, Walters og Van Ginkel eru allt fínir leikmenn og skila sínu. Fremst eru þeir svo með fimm mjög ólíka framherja í þeim Diouf, Crouch, Bojan, Joselu og Odemwingie.

Það er svolítið erfitt að lesa í það hvernig Stoke kemur til með að stilla upp á sunnudag. Þeir hafa fengið heila tíu leikmenn inn í sumar en þeir hafa einnig selt mikilvæga leikmenn eins og Begovic og N´Zonzi. Rétt eins og Liverpool þá spiluðu þeir tvo æfingarleiki á tveimur dögum í lok undirbúningstímabilsins en skiptu stóru nöfnunum sínum nokkuð jafnt á milli leikja.

Helstu tíðindin úr þeirra herbúðum er að Shawcross er frá vegna meiðsla og mun ekki spila á sunnudaginn. Alveg ljóst að það er mikill missir fyrir þá. Aðrir eiga að vera nokkuð heilir.

Ég ætla að skjóta á þetta lið hjá þeim. Þetta gæti auðvitað breyst mikið, Hughes gæti vel breytt um kerfi og sett Odemwingie og Bojan inn í liðið:

Butland

Johnson – Teixeira – Muniesa – Pieters

Sidwell – Whelan – Adam
Affellay – Walters

Diouf

Liverpool

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að líklega munu eingöngu 5 leikmenn sem spiluðu fyrsta leik tímabilsins 2014/15 hefja leik á sunnudaginn. Að sama skapi verða líklega ekki heldur nema 5 leikmenn sem hófu leikinn í maí í byrjunarliðinu á sunnudag. Það verður ekki annað sagt en að Liverpool sé hrikalega stöðugt í óstöðugleikanum.

Ef við skoðum væntanlegt lið á sunnudaginn m.v. liðið sem hóf leik í maí þá hafa Moreno og Can (bakverðir okkar í síðasta leik) ekki verið að spila mikið á undirbúningstímabilinu. Can var með U21 landsliði Þjóðverja og Moreno var eitthvað smávægilega meiddur á undirbúningstímabilinu – missti svo sæti sitt til 18 ára miðvarðar sem er réttfættur í þokkabót. Segir mikið til um stöðu Moreno hjá félaginu. Lovren virðist svo vera annar kostur í miðvörðinn í stað Sakho. Ég er ekki að reyna að vera dramatískur hérna en þessi vörn okkar gæti kostað Rodgers starfið. Ég neita bara að trúa því að Lovren sé valinn í stað Sakho þegar báðir eru heilir.

Á miðjunni er Steven Gerrard auðvitað farinn til LA Galaxy, Allen er (enn og aftur) meiddur og það lítur út fyrir að Lucas verði ekki fastamaður í vetur.

Hvað sóknina verðar þá lítur út fyrir að Rodgers ætli jafnvel að spila með sóknarmann í þetta skiptið. Það er auðvitað rosalegt djarft en við gætum séð fram á leik á sunnudag þar sem að í liðinu verða “bara” þrír til fjórir miðjumenn í stað þeirra sjö sem hófu leik síðasta vor.

Þessir fimm leikmenn sem ég sé hefja leik á sunnudaginn eru því Mignolet, Skrtel, Henderson, Lallana og Coutinho

Mignolet

Clyne – Skrtel – Lovren – Gomez

Henderson – Milner
Ibe – Coutinho – Lallana

Benteke

Ég sé fyrirliðana okkar tvo vera saman á miðjunni með þá Ibe, Coutinho og Lallana fyrir framan sig og Benteke einn á toppnum. Firmino gæti auðvitað tekið stöðu Lallana ef hann er í standi en ég á þó síður von á því. Vörnin er svo sú vörn sem spilaði síðustu æfingaleiki okkar og Mignolet auðvitað þar fyrir aftan. Ings gæti auðvitað verið frammi í stað Benteke, en ég held að Rodgers spili níunni sinni alltaf í þessum leik, jafnvel þó hún sé ekki í 100% standi.

Spá og pælingar

Þetta verður erfiður leikur. Þeir eru það alltaf á Britannia. Það sem Liverpool FC, leikmenn þess og stjóri þurfa á að halda er góð byrjun. Það er gríðarleg pressa á liðinu og þá sérstaklega stjóranum. Öllum þessum spurningum sem eru í kringum klúbbinn verður bara svarað inn á vellinum og það hefst á sunnudaginn. Eftir síðasta tímabil og þá sérstaklega síðustu vikur tímabilsins þá skulda þeir stuðningsmönnum.

Sigur er það eina sem kemur til greina. Ég ætla ekki einu sinni að velta upp möguleikanum á tapi eða jafntefli. Ég held að þetta lið þurfi alltaf smá tíma til að spila sig saman en ef við skoðum þessi tvö lið, leikmann fyrir leikmann þá finnst mér við vera með betri leikmenn í öllum stöðum (nema hugsanlega vinstri bakverði, verð að sjá meira frá Gomez áður en ég get sagt til um gæði hans sem leikmanns). Það vinnur aftur á móti ekki einn einasta leik. Liðsheild og liðsandi gerir það aftur á móti. Við þurfum að endurvekja stemmninguna innan vallar sem utan.

2014celly3_2886124b

Ég ætla að halda mig við spá mína frá því í podcastinu í vikunni og segja að Liverpool sæki þrjú stig. Ætla að skjóta á að Benteke, Milner og Lallana skori mörk okkar manna og við byrjum tímabilið af krafti!

Hættum nú að spá í stjóranum í bili. Veislan er að hefjast. Njótum!

237dd3cc2661514cafac0448fa4eae24

Make us dream – YNWA

32 Comments

 1. FOOOOKKK hvað þetta myndband fær hárin alltaf til að rísa alla leið.

  Takk fyrir flotta upphitun, algerlega sammála því að það er mikil óvissa í okkar herbúðum og þarf helst að laga þá óvissu í fyrstu 5-6 umferðunum, koma strax stöðugleika á liðið og mynda byrjunarlið sem byrjar alla leiki ef menn eru heilir.

  Er einnig sammála því að 5. sætið er okkar líklegasti áfangastaður í maí, en djöfull vona ég að Rodgers og hans her finni skítugustu ullarsokkana og stingi þeim lengst niður í kok á mér.

  Verður erfiður leikur en Hendo og Benteke setja sitthvort markið í seinni hálfleik í 0-2 sigri.

 2. Vá hvað mig hlakkar til að horfa á þennan leik! Það er ekki fræðilegur möguleiki í helvíti að við séum að fara að horfa upp á aðra eins hörmung og í síðasta leik. Mætum Dýrvitlausir til leiks og vinnum þennan leik 3-0 þar sem Benteke skorar allavega eitt og Milner og Coutinho með hin tvö.

  Er að fara í Geggjað brúðkaup í kvöld og verð ekki komin heim fyrr en undir morgun og þetta verður einmitt það sem læknirinn mælir með í þynnkunni.

  Ég segi bara „Velkomin til baka Hr. Enski Bolti“ Við eigum eftir að eiga góðar stundir saman í vetur.

 3. Liverpool er búið að styrkja markmannstöðuna, báðar bakvarðastöðurnar, miðjuna hjá sér og sóknina. 1-6 eru líkleg úrslit, en tippa á 0-2 með Skrtel og Milner sem markaskorara.

 4. Ef liverpool tapar 0-4 þá er það samt sem áður bæting frá sidasta tímabili en væri miklu frekar till i 3 stig 😉

 5. Jæja Rúsibanaferðinn að byrja. Maður er með hnút í maganum en vill ekki sleppa þessari ferð. Maður veit að hún fer upp og niður og tilfiningarnar verða miklar en hvernig sem fer þá er þetta fótbolti og maður elskar að styðja sitt lið í blíðu og stríðu(þótt að blíðu sé ákjósanlegra).

  Ég er svo 100% samála spáni um liðið fyrir leikinn miða við hvernig hann hefur verið að stilla þessu upp.

  Þetta er fyrsti leikurinn á erfiðum útivelli og vona ég að liðið nái í stig 1 eða 3 úr þessum leik og myndi það hjálpa liðinu að komast í gang en tap væri skelfilegt fyrir sjálfstraustið.

 6. Ég hef alltaf verið Milner maður, sama hvar hann hefur verið að spila. En ég var bara að fatta það núna fyrir 5 mínútum síðan að kaupin á Milner gætu í alvöru verið kaup sumarsins í Enska.

 7. Sammála að á pappír er lfc með betri leikmenn í nánast öllum stöðum. En liðsandinn og spilamennskan á liðinu í heild sinni er það sem skiptir máli og m.v. það sem ég hef séð í undirbúningsleikjunum og undir lok síðasta tímabils þá vantar töluvert uppá að lfc fari á þann stall sem það ætti að vera með þennan hóp.

  Ég held þetta verði jafntefli eða lfc sigur.

  Núna reynir einfaldlega á þá leikmenn sem hafa verið hjá klúbbnum síðustu ár og eru hugsaðir til þess að byggja þetta lið upp. Menn eins og Hendo, Skrtel, sakho, coutinho, lallana verða bara að svara kallinu. Ég er sannfærður um að Milner og Benteke munu styrkja liðið gríðarlega og á móti minni spámönnum eins og stoke (með fullri virðingu fyrir stoke) þá geta þeir skipt meginmáli.

 8. Flott upphitun og eg er bara skíthræddur við þennan leik en segi það sama og Eyþór jafntefli eða tap koma ekki til greina.

  Vinnum þennan leik 1 -3. Benteke með 2 og milner eitt ur aukaspyrnu.

 9. Mikið er góð tilfinning að lesa aftur upphitun á Kop.is ! Takk fyrir góða upphitun og ánægjulegt að lesa um trúna á sigur. En skv. spám flestra um 5 sætið og rökin á bak við það sæti ályktar maður að það sé hinsvegar töluverð bjartsýni. Stoke er spáð góðu gengi af stjórum þessarar síðu og árangur okkar á þessum velli hroðalegur, að manni finnst alveg síðan Guðjón Þórðarson spígsporaði þarna á hliðarlínunni.

  Ég tek þó undir með Eyþóri og við tökum þetta! Ég hef reyndar trú á að við náum þessu blessaða CL sæti og það skiptir auðvitað miklu máli að byrja vel. Benteke og Firmino (kemur inná) með mörkin í 1-2 sigri okkar.

  Game on…

 10. Fantasyfréttir…

  Er að horfa á Leicester – Sunderland ( hafði enga trú á Ranieri og veðjaði á Sunderland – staðan 4-1 fyrir Leicester…WTF!

  Sunderland eru mjög lélegir – Defoe eini leikmaðurinn sem vert væri að skoða
  Leicester eru sprækir – Varny, Morgan, Albrighton og Mahrez eru spennandi leikmenn.

 11. jæja …..þá er hér minn spádómur.

  Núna er akkúrat rétti tíminn til að spá því að Liverpool vinni enska deildartitilinn þetta árið.
  Allt mun smella og stigin munu hrúgast inn eins og enginn sé morgundagurinn.

  Sumarið er tíminn okkar liverpool-manna svo þessi spá er lögð fram með þeim formerkjum að auðvitað munum við “vinnetta”….ef allt smellur og Rodgers verður hinn nýji Shankly 🙂

 12. Afsakið þráðránið en við Liverpool menn á Akureyri höldum áfram að horfa á okkar ástkæra lið á Bryggjunni þetta tímabilið. Bryggjan verður með boltatilboð fyrir okkur Poolara og eru skjávarpar í sal á 1. hæð að austan og á 2. hæð. Sjáumst á morgun – COME ON YOU REDS!

 13. Við eigum að taka þetta Stoke lið. Spái 1-3 sigri og Benteke setur tvö stykki.

  Raunsætt held ég að við eigum ekki séns í fyrstu þrjú sætin.. Chelsea, Arsenal og City eiga þau. En ég horfði á líklegustu keppinauta okkar um 4. sætið keppa við hvort annað í dag – Manu vs Spurs. Hvorki fugl né fiskur. United virkilega ósannfærandi með Blind í hafsent , bitlausa sókn og til að kóróna vitleysuna settu þeir þeirra þriðja besta markmanna, taugasjúkling að nafni Romero sem Sampdoria vildi ekki lengur, í markið.

  Við erum með betri hóp en þessi lið sem ég sá spila í dag.

  BRING IT ON!

 14. Skemmtilegur dagur 1 i EPL…..En djøfull erud thid sumir bjartsynir…Stoke er med gott lid thetta arid….

 15. Ég hef upplifað ýmislegt. Fertugasta og þriðja tímabilið mitt að hefjast. Ég versna með árunum. Verð spenntari og spenntari. Legg meira og meira á mig að missa ekki af leik. Fullur bjartsýni í upphafi hvers tímabils. Veit að það styttist í titilinn. Óumflýjanlegt. Fyrir hvern leik er ég sannfærður um sigur. Oft gengur það eftir, stundum ekki. En mínir menn reyna ennþá að spila fallegasta fótboltann. Það er mikilvægt.
  Ég stend alltaf heill og ákafur á bak við liðið og stjórann við hvert upphafsflaut því þeirra er tækifærið að gefa mér ógleymanleg augnablik. Og þau eru óteljandi. Ef það klikkar þá er ég fljótur að gleyma. Veit að næsti leikur er handan við hornið.
  Fiðringurinn, spenningurinn, öll hin nýju augnablik.
  Njótið hvers leiks, gerum upp að leikslokum, vinnum Stoke.
  YNWA

 16. We are LIVERPOOL tralalalalaaaaaaaa
  We are LIVERPOOL traaaalalalalalaaaaaaaa
  We are LIVERPOOL tralalalalaaaaaaaa
  WE’R THE BEST FOOTBALL TEAM IN THE WORLD

  Y E S – W E – A R E

  Poetry in motion tralalalalaaaaaaaa
  Poetry in motion traaaalalalalalaaaaaaaa
  Poetry in motion tralalalalaaaaaaaa

  WE’R THE BEST FOOTBALL TEAM IN THE WORLD

  Y E S – W E – A R E

  Takið undir og látið þetta hljóma og óma eins lengi og þið mögulega getið ????????????

  AVANTI LIVERPOOL – Mr. Shankly – THE LEGEND – THE GENIUS – THE MAN

 17. Afsakið mig.
  Ég ætla að vera raunsær. 1-0 fyrir Stoke.
  Þrot Rodgers skín í gegn.

 18. Þetta verður eitthvað! Benteke setur eitt og ég hef góða tilfinningu fyrir Ibe vini okkar í dag.

  En ég asnast til að vera á þjóðveginum á þessum tíma, líklega í kringum Blönduós þegar leikurinn byrjar. Veit einhver hvar er hægt að horfa á enska þar?

 19. Sæl og blessuð.

  Jæja, þá er það allur pakkinn: tregablandin gleði, óttablandin eftirvænting, kvíðvænleg bjartsýni. Sætbeiskar kenndir læsa sig um taugakerfið og meltingarfærin, teygja sig út í armana og niður í tábergið.

  Hvernig skyldi Henderson og co. líða núna? Eða sjálfum mr. Rogers? Eru þeir ekki bara á dollunni?

  Er skíthræddur við þetta allt saman. Sé frekjuskarðið á Adams fyrir mér, handan skælbrosandi varanna.

  Usssss….

 20. Sælir félagar og gleðilega hátíð!

  Ég verð í nágrenni Hólmavíkur við kick off, vitiði um stað þar nærri (má vera stór radíus) þar sem ég get horft á leikinn?

 21. Gleðilegan leikdag félagar. Var að koma mér úr barnaafmæli en þá þarf að finna pöbb. Hvar horfir maður á leikinn í Mosó?

 22. Hvíti Riddarinn í mosó.
  Vonum svo að menn séu í standi fyrir 90mín

 23. Mikið sem að mann langar að liðið hefni fyrir ófarirnar frá síðasta tímabili og það myndi gleðja mann alveg afskaplega.
  Ég hallast því miður að sigri Stoke eða jafntefli, ef þetta endar með sigri Stoke þá fer þetta 3-1 en það kæmi ekki á óvart ef að þetta fer 2-2 í leik sem verður spennandi og erfiður fyrir okkur áhorfendur að horfa á. Vona að okkar menn troði sokk í mig…YNWA!

 24. Má ég koma með smá beiðni til pennana sem skrifa uphitun…

  það er að setja kl hvað leikurinn er…

  t.d í þessu tilfelli mætti það koma á eftir orðinu Sunnudagur strax í byrjun 🙂

 25. #26 Það er ofarlega hægrameiginn sem stendur hvaða leikur og hvenær hann er

Spá Kop.is – síðari hluti

Byrjunarliðið gegn Stoke