Eitt ár frá því að tilboð í félagið var samþykkt

Að bera saman þessa viku og sömu viku fyrir ári síðan er eins og að bera saman Braga Brynjars og Ögmund Jónasson sem almenna gleðigjafa.

Fótbolti er ein flóknasta einfalda íþrótt sem til er og fyrir ári síðan var þetta orðið hreint ansi snúið því umræða um liðið, einstaka leikmenn og leikkerfi hreinlega vék fyrir umræðu um eitthvað sem var að gerast innan herbúða félagsins. Raunar hafði þetta verið svona lengi og náði hápunkti fyrir einu ári síðan. Sjóndeildarhringur venjulegs knattspyrnuáhugamanns víkkaði heldur betur og við fórum að lesa okkur til um grautleiðinlega hluti eins og fjármál félagsins og lögfræði.

Stuðningsmenn Liverpool eiga helst ekki að vita nafnið á stjórnarmönnum félagsins í þeim skilningi að þeir skili sínu og þurfi ekki að vera í fréttum og það er enginn sem setur þeirra nafn aftan á búninga eða kaupir varning tengdan félaginu með þeirra nafni. Þetta er partur af hinu svokallaða “The Liverpool Way” og má svo sannarlega komast aftur inn í kerfið hjá félaginu.

Persónulega var ég farinn að lesa allt of mikið af fréttum um eitthvað annað en leiki eða leikmenn félagsins og fékk meira að segja áhuga á hinu frábæra bloggi Arsenal-mannsins Swiss Ramble (og fleiri í hans dúr) sem tekur fjármál félaga gríðarlega ítarlega og vel í gegn. Þ.e.a.s. ég var farinn að lesa mig til um fjárhag hinna ýmsu liða í Evrópu.

Bara með því að velja 0kt 2010 hérna til hliðar og fletta fram í byrjun mánaðar sést vel hvað við vorum að tala um þá:

3. okt 2010 kom síðasta fréttin þá vikuna sem fjallaði eitthvað um liðið þó hún hafi aðallega einblínt á þjálfarann og liðið sem afrekaði það þrekvirki að tapa á Anfield fyrir Blackpool í deildarleik, stuttu eftir tap gegn Northampton Town á sama velli. Sama dag kom könnun hér inn þar sem spurt var hvort reka ætti Hodgson strax (4 mánuðum eftir að hann tók við) og rúmlega 1.300 manns sögðu já.

5. okt var stutt í gjalddaga á lánum RBS til þeirra Gillett og Hicks og stuðningsmenn liðsins sendu frá sér kveðju á YouTube og báðu þá félaga óvinsamlegast að hypja sig.

Um kvöldið 5. okt kom síðan ein magnaðasta frétt sögunnar inn á opinberu heimasíðuna sem var þó á sama tíma fullkomlega eðlileg og viðeigandi sem endir á þeim 44 mánuðum sem Hicks og Gillett „áttu“ félagið. Stjórn félagsins hafði samþykkt sölu eftir margra mánaða leit en tekið var fram í sömu frétt að „eigendurnir“ hefðu gert allt sem þeir gætu til að koma í veg fyrir söluna. Eins og ég segi ótrúlegt … en samt einhvern veginn ekki.

Strax þá vissum við að þetta var ljóstýran sem við höfðum svo lengi beðið eftir að sjá glitta í eftir langa göngu í myrkrinu með hinum ýmsu hyllingum sem m.a. birtust okkur í hetjum eins og Pizzakóngnum Yaya Kirdi og eins greifunum sem eiga Dubai-þrælabúðirnar paradísina.

Allir tóku mjög vel í söluna þrátt fyrir óvissu og ummæli frá 6. okt lýsa mjög vel þeim mánuðum sem á undan höfðu gengið:

105. Ragnar says:
06.10.2010 at 14:15
Guð minn almáttugur hvað ég var búinn að sakna þess að sjá jákvæð komment og broskalla á þessari síðu !

Eins og fréttatilkynningin gaf til kynna var salan á félaginu ekki alveg frágengin þrátt fyrir að meirihluti réttkjörinnar stjórnar hafi samþykkt hana. Á meðan við biðum eftir því að Lord Grabiner, besti leikmaður Liverpool árið 2010 (og einn af mínum uppáhaldsleikmönnum í sögu félagsins) útskýrði fyrir Texas-kúrekanum hvað fælist í því að meirihluti stjórnar ritar firmað gátum við dundað okkur við að lesa stuðningsyfirlýsingar til handa Könunum frá álíka snjöllum viðskiptamanni, Harry “wheeling and dealing” Redknapp:

The outspoken Redknapp summarized, “It’s not often you’ll hear a manager stick up for a chairman or chairmen but I’d love to know what the two Americans have done that is so wrong.”
I have utmost sympathy for the Reds’ owners, George Gillett and Tom Hicks.

(Dave Norrish hjá The Telegraph svaraði honum reyndar afar vel: “Perhaps we should give Harry the benefit of the doubt though. After all, if anyone’s the expert on football clubs and administration…”)

8. nokt fórum við að stressa okkur á gjalddaga lánana hjá RBS og veltum fyrir okkur hvort við þyrftum að taka á okkur -9 stig til að losna við H&G (sem var samþykkt einróma að gera ef til þess kæmi).

Næsta vika fór öll í að lesa allar fréttir tengdar dómsmálinu ásamt því að margir reyndu að lesa sér til um (líklega) nýja eigendur félagsins sem biðu í London eftir að fá lyklana. Lánin voru á gjalddaga 15. okt og þá var kveðinn upp sá dómur að salan á félaginu hefði verið lögleg.

Eftirleikinn þekkjum við og munum vel eftir og á tíma voru stuðningsmenn svo sáttir að Christian Purslow heyrði meira að segja nafnið sitt sungið.

Næsta frétt um eitthvað tengt fótbolta hér á Kop.is, þ.e. leikmönnum liðsins og tuðrusparkinu inni á vellinum kom ekki fyrr en 16.okt … daginn fyrir einn af stærstu leikjum ársins, úti gegn Everton.

17. okt var okkur síðan aftur skellt illa niður á jörðina er nýjir eigendur Liverpool sáu liðið sitt spila sinn besta leik að mati þáverandi stjóra félagsins … í einungis 2-0 tapi í ömurlegum leik gegn Everton. Til að setja hlutina í samhengi er ekki úr vegi að benda á að núna á sama tíma og sama velli vorum við að vinna Everton 0-2 og það ekki í næstum því okkar besta leik á árinu.

Þannig að það liðu 13 dagar milli fótboltatengdra frétta á þessari síðu sem þó var uppfærð nánast á hverjum klukkutíma þrátt fyrir það (með ummælum). Til að toppa þetta voru fótboltatengdu fréttirnar annars vegar um tap gegn Blackpool og svo … eftir laaaanga bið … tap gegn Everton.


Er ekki ágætt að setja hlutina í dag aðeins í samhengi við þetta?

Það er vel hægt að skilja pirring og óþolinmæði margra sem gera mjög miklar kröfur á liðið. Eitt ár kann að virðast langur tími og er það ef maður fylgist eins náið og ítarlega með Liverpool eins og við gerum flest sem hingað sækjum. Mörg okkar skoða fréttir sem eru á einhvern hátt tengdar liðinu á innan við klukkutíma fresti … allt árið um kring.

Nýjir eigendur tóku það engu að síður gríðarlega skýrt fram strax í upphafi að þeir ætluðu að byggja upp samkeppnishæft lið og vörumerki á nokkrum árum, ekki fara all in á fyrsta tímabili. Það eitt að við séum að velta fyrir okkur hvort einhver af þeim 7 (SJÖ) nýju leikmönnum sem við keyptum (flesta á mjög góðan pening) frá því í janúar sé góður eða ekki er ótrúlega mikil og jákvæð þróun frá því sem við vorum að velta fyrir okkur á sama tíma í fyrra og mjög augljóst merki þess að þeir eru þegar komnir af stað með uppbygginguna á félaginu og rétt rúmlega það.

Langflestar breytingar sem orðið hafa á félaginu innan sem utan vallar eru gríðarlega jákvæðar og ef vel er að gáð má sjá það þarf ekki meira til en sigur í næsta leik til þess að við förum að blanda okkur í baráttuna um efsta sætið í deildinni á meðan við vorum á sama tíma í fyrra nær því að vera aðeins tapi í næsta leik frá því að blanda okkur fyrir alvöru í „baráttuna“ um neðsta sætið.

Þetta er engin tölfræði, engir útursnúningar eða neitt í þá áttina, þetta kalla ég að horfa aðeins á heildarmyndina og ímynda mér að glasið sé frekar hálffult heldur en hálf tómt. Á sama tíma í fyrra var ég reyndar búinn að hella niður svo við klárum þessar myndlíkingar með glasið.

Varðandi þessa sjö leikmenn sem við höfum fengið síðan í janúar þá er um að ræða:

  • Efnilegasta sóknarmann deildarinnar á síðasta tímabili (Carroll)
  • Einn efnilegasta miðjumann Englendinga (Henderson)
  • Einn besta leikmann deildarinnar í fyrra (Adam)
  • Einn besta vinstri bakvörð deildarinnar og það í stað Konchesky (Enrique)
  • Einn besta og áreiðanlegasta kantmann deildarinnar (Downing)
  • Eldfljótan, baráttuglaðan og reyndan sóknarmann í stað Ngog (Bellamy)
  • Eitt mesta efni S-Ameríku og landsliðsmann meistara Úrúgvæ sem 4. kost í stað Kyrgiakos (Coates)
  • og einn besta og skemmtilegasta leikmann í fótboltanum í dag (Suarez).

Á móti höfum við selt 2-3 mjög góða leikmenn og aragrúa af ekki mjög góðum leikmönnum og eigum í dag bara leikmenn sem virkilega vilja spila fyrir Liverpool FC.

Það er álíka heilsusamlegt að afskrifa einhvern af þessum nýju leikmönnum eftir 6-7 leiki eins og það er að bísnast yfir leikmönnum sem við höfðum ekki tök á að fá. Einhverja hefur maður séð gráta leikmenn sem við þó reyndum að fá en vildu greinilega ekki nógu mikið spila með Liverpool. Það hefst ekkert upp úr því að væla yfir þessu núna enda verður þessu ekki breytt.

Eðlilega eru ekki allir sammála um leikmannakaup liðsins, menn hafa mismunandi skoðanir og flestir ef ekki allir mun minna vit á því sem er best fyrir félagið heldur en þeir sem vinna hjá því daglega bara við það að bæta það. Síða sem þessi er þó auðvitað gott svið til að útvarpa sínum skoðunum og rökræða hlutina enda væri ekkert gaman af þessu ef allir væru alltaf sammála. Þó finnst mér stundum að menn fari aðeins fram úr sér og gleymi fulllengi að fylla á „glasið“. Sérstaklega á þeim tímum þegar gengið er bara hreint ekki sem verst og andinn í kringum félagið ekki sem verstur. Ef um væri að ræða börn væri líklega talað um dekraða og freka krakkaandskota.

Menn sem t.d. ekki fagna mörkum í leik gegn Everton eiga að láta leggja sig inn á Heilsubælinu í Gervahverfi sem allra fyrst og panta tíma hjá einhverjum af karakterum Júlíusar Brjánssonar. Ég vil ekki vita af svona vitleysingum að horfa á og „styðja“ liðið eins og staðan er í dag. Hvað þá fólk sem gerir sér þó ferð á veitingahús eða bari til að horfa á leikinn til þess eins að kvarta yfir Everton-sigri.

Ég hvet menn, ef þeir hafa náð sér nógu vel andlega eftir síðasta ár, til að nota #$%# landsleikjahléð aðeins til að kíkja á hvað var að gerast fyrir nákvæmlega ári síðan og setja það í samhengi við stöðuna í dag. Félagið hefur tekið engu minna skref en Neil Armstrong tók á honum Mána gamla árið 1969 og það sem er mest gaman er að maður skynjar það að við séum bara rétt að byrja okkar ferðalag. Hugsanlega má segja að þetta tímabil verði endirinn á upphafi þeirrar enduruppbyggingar sem nýjir eigendur hófu fyrir ári síðan. Við erum allavega í það minnsta farin að blóta landsleikjahelgunum aftur, öfugt við árið í fyrra er maður leit á þetta sem helgi þar sem við a.m.k. töpuðum ekki.

Með því að líta aðeins til baka og bera saman stöðuna á félaginu núna og þá finnst mér við vera komin mun lengra en liðinu og eigendum þess er gefið kredit fyrir. Ég vona það allavega og hvað sem öllu líður þá höfum við lítið talað um annað en fótbolta (leiki, leikmenn og leikkerfi) undanfarna mánuði á meðan pennar eins og Swiss Ramble mæta afgangi.

Það eitt er frábært.

36 Comments

  1. Mjög góð lesning og skemmtilegur pistill.
     
    Maður á varla til orð yfir því hvernig staða liðsins er búin að snúast á þessu eina ári. Þegar maður hugsar aðeins betur út í þetta, með tilliti til þess hvar við vorum staddir á sama tíma í fyrra, þá getur maður ekki annað en brosað hringinn.
     
    Mér fannst alveg einstaklega gaman að sjá traustið sem eigendurnir báru til Kenny, Commolli og félagsins í heild sinni í sumar þegar það átti að fara kaupa leikmenn. Margir eigendur hefðu hugsað til þess að losa sig fyrst við allt draslið okkar, til þess að fjármagna kaupin okkar. Það var ekki vandamálið að kaupa leikmennina sem okkur vantaði fyrst, þeir settu þetta bara í hendurnar á Comolli – hreinlega vegna þess að þeir treystu því að við myndum alltaf ná að losa okkur við flesta á endanum. Þeir virðast vera tilbúnir til að gera það sem þarf fyrir félagið til að koma því aftur á þann stall sem við eigum að vera á. Það er fyrir öllu að eigendurnir bæði styðji þig og treysti þér í því sem þú ert að gera. Ég held og vona að þetta sé einungis byrjunin á endurkomu okkar.
     
    Maður getur vart beðið eftir næsta leik þessa dagana. Ég var enganveginn spenntur fyrir því að fylgjast með liðinu okkar í fyrra á svipuðum tímapunkti og ég var alveg pottþétt ekki einn um það. Það var oftast fínt að fá landsleikjahlé, hvíla sig bara á þessari vitleysu aðeins hugsaði maður. Við sjáum bara hvað þetta hefur breyst hjá okkur á þessum stutta tíma og lengi má það halda áfram.
     
     

  2. Á þessum tíma í fyrra var ég á leið með að fá hressilegt magasár og gekk með skíðahúfu með veggjum, en hélt að sjálfsögðu með mínu liði, í dag er sagan önnur, mig hlakkar til að sjá hvað næsti leikur hefur uppá að bjóða, og sjá hvað hálslausi walesverjinn ásamt hinum nýju liðsfélugum liverpools tekst að gera.

    YNWA 

  3. Flott lesning! Gargandi snild.

    Í þessu landsleikjahléi getur maður lesið þennan póst nokkrum sinnum og alltaf verður jafn gott að lesa hann!

    Maður þarf ekki að fara í neina leit á netinu að því sem skeði fyrir ári því þetta segir allt sem segja þarf 🙂

    YNWA – King Kenny we trust!

  4. Þetta er frábær grein.

    Það er bæði ljúft og sárt að rifja upp stöðuna í fyrra.

    Ljúft vegna þessa ótrúlega viðsnúnings. Hann er ekkert annað en ótrúlegur.

    Sárt vegna þess að það rifjar upp skelfilegar minningar. Liverpool varð næstum því gjaldþrota og gengi liðsins var súrrealískt.

    Ég tek síðan undir að við eigum ekki að vera að afskrifa þessa nýju leikmenn. Það er ekkert sem réttlætir það. Bæði Carroll og Henderson hafa sýnt að þeir eru góðir knattspyrnumenn. Þeir eru kornungir og gætu orðið lykilmenn hjá félaginu á næstu árum.

    YNWA

  5. Mjög góður pistill

    Ég er ótrúlega sáttur við stöðu liðsins í dag, leikmannahópinn og stjórann. Liðið hefur farið vel af stað á tímabilinu og við erum skammt frá 4 sætinu þar sem við ætlum að enda í vor þrátt fyrir að hafa spilað á mörgun erfiðum útivöllum. Liðið styrktist gríðarlega mikið í sumar og við erum með miklu sterkari og breiðari hóp enn í fyrra. 

    Umræðan um Liverpool á þessu tímabili hefur hinsvegar komið mér mjög á óvart. Mér finnst hún hafa verið mjög neikvæð, og ég skil það bara ekki. Ég er búinn að hitta ótrúlega marga stuðningsmenn Liverpool undanfarið sem byrja á því að rífa niður einstaka leikmenn liðsins og minnast lélegan leik liðsins í nokkrum leikjum, og ég verð alltaf jafn hissa. Verð líka mikið var við þetta inni á þessari síðu. Finnast virkilega Liverpool stuðningsmenn sem fögnuðu ekki sigri Liverpool á Everton? Er ekki allt í lagi? Hvernig ætli þessum stuðningsmönnum hafi liðið fyrir ári síðan þegar við vorum við með algjörlega hauslausann stjóra, Konchesky í bakverði, Poulsen á miðjunni, Jovanovic á kantinum, liðið í botnbaráttu og allsherjargjaldþrot handan vð hornið?

    Það er búið að vinna kraftaverk á stuttum tíma með þetta lið og allt í kringum það. Menn ættu að rifja upp ástandið fyrir ári síðan áður enn menn byrja að kvarta yfir stöðunni í dag.

  6. Man þennan dag einsog hann hafi gerst fyrir ári. Þvílík gleði! 🙂

  7. Já fyrst menn eru svona að bera saman áhuga sinn á fótbolta fyrir ári og í dag.

    Í fyrra var ég í fyrstaskipti á æfinni að fylgjast með pre-season NBA með fullum áhuga. . ástæðuna má rekja til gengis Liverpool á sama tíma 🙂

    Í dag má ekki spila körfubolta í bandaríkjunum og ég tek varla eftir því nema vegna þess að það er vibba landsleikjahlé, (aumingja Arsenal aðdáendur) ;);)

    Annars bara frábær pistill að venju frá babu 😀

  8. Frábær pistill og rétt að rifja það upp líka hversu frábærlega þið hérna á kop.is stóðuð vaktina á þessum erfiða tíma. Pistill eftir pistil sem fjallaði um stöðuna á félaginu og mikið af inside-info í gangi. Man eftir update-inu daginn sem NESV keypti liðið og Chelsea-maðurinn Purslow Broughton var þarna tekinn í guðatölu. Sem hann er enn í. Held það verði okkur hollt kannski eftir eitt ár að taka stöðuna aftur, spá í spilin og sjá hvar við erum í deildinni og hvernig hefur tekist til með leikmennina sem Dalglish og Comolli hafa keypt. Eftir eitt ár vonast ég allavega til að vera nær toppliðunum. Við erum hvað, 6 stigum frá þeim núna. Væri fínt að vera innan við þremur stigum frá þeim að ári og helst auðvitað á toppnum.

    Innsk – örlítið leiðrétt

  9. Glæsilegur pistill. Ég sá að það var smá skot þarna varðandi tölfræði þar sem ég var aðeins að grínast með það hér í síðasta pistli að við Liverpool aðdáendur værum snillingar í að finna tölfræði sem sýndi hvað Liverpool væri gott. Þetta var nú meira sagt bara í gríni. En þessi pistill er algjör snilld.
    Ég væri samt mest til í að heyra í þessum Liverpool aðdáendum á Selfossi þar sem það væri gaman að heyra afhverju þeir voru svona óánægðir með sigurinn á Everton.

  10. Nr. 13 Auðunn G

    Ég var reyndar búinn að svara því skoti frá þér óbeint í sama þræði líka. En varðandi mennina sem ekki fögnuðu mörkunum gegn Everton hér á Selfossi þá er þetta rétt eins og þegar löggunni hérna vantar athygli og sendir eitthvað í blöðin…þetta voru pottþétt aðkomumenn 🙂

  11. Góður pistill Babu og þarft umræðuefni. Kannski eru margir Liverpoolmenn það vanir að vera neikvæðir frá síðustu 2 árum að þeir geta ekki hætt? Go to rehab 🙂
     
    Starf Dalglish, Comolli, NESV og allra í kringum klúbbinn á eftir að styrkjast enn frekar að mínu mati. Meistari Sami Hyypia á örugglega eftir að koma sem varnarþjálfari og GUÐ kemur eftir að ferlinum lýkur að taka sóknarmennina í gegn. How awesome yrði það! 🙂 Bara góðir tímar framundan strákar 🙂

  12. Afsakið að ég sé að fara út fyrir þráðin enda mjög góður pistill! En ég var að sjá að Kelly var sendur heim meiddur eftir leikinn á móti íslandi. Það er mjög slæmt ef hann er missir af United leiknum! veit einhver statusin á johnson?? er hann klár pottþétt skárri í bakvörðin en Skrtl, sem þarf reyndar líklega að spila miðvörð ef agger er ekki klár eða nær Agger leiknum ?? 
    Annars góður pistill og djöfull sakna ég hinna eigandana ekki neitt !! 

  13. Ég mæli líka með ævisögu Carra til þess að fá innsýn inní þetta allt saman. Þar vandar hann ekki könunum (hicks og Gillett) kveðjurnar og það er áður en þeir selja félagið. Hann fer yfir helling af þessari vitleysu frá sjónarhóli leikmanns og margt áhugavert sem kemur þar fram. Annars er þetta besta sjálfsævisaga knattspyrnumanns sem ég hef lesið og mæli með henni. Segir sína skoðun á mörgum fyrrum leikmönnum Liverpool. Eitt skiptið reyndi hann meira að segja að sannfæra Salif Diao um að fara til Everton. Algert Legend og var auk kop.is kletturinn í umróti klúbbsins á síðustu árum.

  14. Þetta er svo góður pistill að ég er að spá í að láta húðflúra hann á mig um helgina.

  15. HEYR HEYR! Babu for president!

    Algjör snildar pistill og ég er ekki frá því að það komu nokkur tár við lesninguna. En og aftur komið þið með hluti sem bara þurfti að segja, sammála hverju orði.

  16. Síðasti þráður virðist vera dauður, ég set því þessar hugleiðingar mínar hér líka þó svo að þær eigi meira við síðustu tvo leiki okkar manna…

    Ég missti af tveimur síðustu leikjum Liverpool og tók mér því góða kvöldstund í gær og horfði á þá báða ásamt fundunum með Kenny fyrir leikina og þ.h. Er sem sagt með áskrift að LFCTV og get því séð alla leikina í mislöngum útgáfum. Hef alltaf horft á þetta bara í tölvu en henti þessu upp á flatskjáinn í gær og VÁ…. Sjónvarpið var alveg að vinna sína vinnu, þ.e. við að rendera og fylla upp í eins og alvöru sjónvarp á að gera…nánast eins og að horfa í HD, og ég var þarna kominn inn á völlinn með Gerrard og félögum. En hvað um það.
    Að leikjunum. Ég sá sem sagt hvorugan leikinn beint en fylgdist með stöðunni úr símanum mínum af þessari síðu og fékk þá tilfinningu að liðið hefði ekki verið að spila vel en marið sigur nánast ósanngjarnt. Mig langaði því til að henda hér inn minni upplifun af því að horfa á þessa leiki og nota bene, vita þegar úrslitin og því nokkuð rólegri en ella.
    Lucas = Steig varla feilspor í þessum leikjum, gríðarlega mikilvægur vörninni í að brjóta niður sóknir áður en þær ná lengra. Reyndar fannst mér hann stundum nánast spila í vörninni og er það nokkuð áhyggjuefni þar sem það þíðir að menn eru ekki að treysta núverandi mannskap alveg fyrir hlutunum. Hann var allavega að standa sig rosalega vel og oftast í bara pjúra varnarhlutverki inni í miðri vörninni.
    Adam = Hér virðist vera á ferðinni mjög umdeildur leikmaður. Sem ég ekki alveg skil því ég er mjög hrifinn af honum og finnst ég skilja alveg hvernig hann hugsar. Hann er jú stundum klaufi í brotum en það sem mér finnst lýsa honum best er að hann hefur áræðni, þor og dug til að stíga upp og reyna eitthvað sem hinir eru ekki að gera. Það tekst alls ekki alltaf en þegar það tekst þá er hann hetjan, annars skúrkur. En hann þorir og gerir og virðist vera mikil leiðtogatýpa. það sá maður strax í viðtölum þar sem hann soldið tók orðið og svo hvernig hann hagar sér inni á vellinum. Held að hann eigi eftir að vinna okkur öll á sitt band þegar liðið er búið að læra að spila saman.
    Henderson = Hann er alls ekki búinn að vera svona svakalega lélegur eins og menn fullyrða hér. Soldið mistækur stundum en….hey hann er ungur og spilar samt stundum alveg frábærlega. Í raun kom mér á óvart hversu góður hann í raun var miðað við niðurrifið sem ég las um hann á meðan á leikjunum stóð. Ég hef trú á honum, held að hann komi til með að sanna það, þó svo að hann springi ekki út að fullu þetta tímabilið þá nokkuð örugglega þau næstu.
    Gerrard = Vá….ó guð fyrirgefðu mér að hafa efast um að þessi drengur ætti afturkvæmt í liðið. Þegar hann tók sín hlaup með boltann og t.d. stuttu eftir að hann kom inn á gegn Wolves og endaði með skoti sem fór aðeins yfir þá fór um mig sæluhrollur. Þegar þessi maður verður kominn í gang aftur þá verður það þvílík vítamínsprauta fyrir liðið að allt í einu er ég orðinn sæmilega bjartsýnn á það fjórða, þrátt fyrir Tottenham grýluna. Þeir hafa engan Gerrard og þegar Steve G. er í stuði þá mega menn fara að passa sig. Þvílíkur klassi sem hann kemur með í leikinn og ég er viss um að hinir fara að spila betur þegar fyrirliðinn er kominn í sitt besta form
    Suarez = Hef engu við að bæta hér um hann, enda erum við allir sammála um hann. Frábær í alla staði og hefur eitthvað alveg nýtt við sinn leik sem ég hef ekki séð áður, nema kannski hjá Messi eða einhverjum slíkum. Hvernig hann getur breytt um stefnu eins og þyngdaraflið eigi bara ekki við hann er mér algjör ráðgáta.
    Aðrir leikmenn voru svo bara eins og við mátti búast, sumir góðir, aðrir verri en allir leikmenn Liverpool og eiga því stuðning minn vísan þar til þeir ljúka sínum ferli hjá Liverpool og víkja fyrir vonandi betri mönnnum. Held að Comolli sé að scout-a einhverja fyrir janúar gluggan sem verða keyptir inn snögglega ef það fjórða virðist vera að renna okkur úr greipum með núverandi mannskap og því verður þetta mjög spennandi vetur framundan.
    Rock on
    Islogi

  17. Hver steig númer 2 á tunglið einhver?Það man enginn eftir þeim sem lendir í öðru sæti og neðar,auðvitað er þetta eins og haga sér eins og ofdekraður krakki en tek undir þau orð að það er ekki hægt að ætlast eftir dollunni á fyrsta ári hjá nýjum eigendum.Það er bjart framundan og ef við vinnum næsta leik er það svo mikið innlegg móralskt séð að allt getur gerst.P.s það eru oft arsenal menn að horfa á LIVERPOOL leiki á Hvíta húsinu á Selfossi og þeir fagna nú bara ekki neitt yfirhöfuð!

  18. Ég held að Liverpool muni aldrei vinna enska titilinn aftur.  Liðið er ekki nógu gott og man.utd, cvity og chelsea hafa peninga sem við virðumst ekki hafa.  Utd kaupir alla besdtu englendingana og skilur okkur eftir með ruslið.  Hin liðin kaupa alla bestu útlendingana.  Suarez kæmist ekki á bekkinn hjá city eða utd, það er staðreynd sem menm þurfa að horfa á.  Og Gerrard?  Jú hann kæmist á bekkinn og sæti hliðina á giggs og fengi að spila bikarleiki með unglingunum.  Þegar menn vakna og sjá þetta þá sjá þeir kannski hvað Liverpool er á dapri niðurleið.  Og Kenny?  Hummm hann vann bikar um samaleiti og Henderson var að fæðast.  Flott á fá hann.  Næst fáum við Sven Göran.

  19. Svo sammála.

    Skrifa ekki oft hérna inni en les síðuna daglega, thrátt fyrir að ég búi í Danm?rku, meira að segja einasta íslenska síðan sem að ég les reglulega vegna thess að thað er enginn sambærileg heimasíða hérna úti.

    Verð samt að segja að ég hef ekki haft gamann að thví að lesa comment eftir síðustu leiki liðsins. Pirrar mig venjulega ekki thegar að fólk er með neikvæðni thegar ástæða er fyrir, en við erum að sjá liðið okkar stíga uppúr drullunni sem að G&H skildu eftir sig, svo ótharfa neikvæðni flokka ég einfaldlega sem fáfræð frá fólki sem að greinilega hefur ekki gengið í gegnum s?mu tilfinningar ég á síðustu árum. Og í sambandi við thað að einhverjir liverpool stuðningsmenn hafi ekki fagnað m?rkunum í Everton leiknum, thá trúi ég thví einfaldlega ekki :-/.

    Thetta er frábær tími til að vera stuðningsmaður okkar ástkæra félags, svo verum glaðir og styðjum liðið okkar eins og engir stuðningsmenn annarra liða geta, the liverpool way!

    YNWA 🙂

  20. hari #23, fáðu þér “skíðahúfu með veggjum”  eins og biggi #2 á. Og ekki taka hana af :p

  21. buzz aldrin alveg rétt var ekki alveg með þetta en ég heyri að þú ert alveg með þetta .Ekki misskilja mig ég er fullur bjartsýni og trúi því og treysti að dollan verði okkar á næsta ári með King Kenny við stjórnvölin.

  22. skíðahúfu með veggjum…..er ég vitlaus að skilja þetta ekki?? 😀

  23. Thessi skÿrsla er mesta bull sem ég hef lesid:carrol=rug verd fyrir ágætis leikmann(hefur ekkert getad sídan hann kom);henderson=Hefdi verid gód hefdum vid keypt hann á £10 milljónir;Charlie Adam=líklega einu gódu kaup thessarar stjórnar;Downing=aldrei £20 milljónir fyrir svona leikmann(samanber Juan mata til Chelsea fyrir svipadan pening);Bellamy=útbrunninn leikmadur;coates=efnilegur leikmadur;Suarez =gódur leikmadur en er ekki einn af 25 bestu leikmönnum heims;thannig ad mínu mati hafa thessir eigendur ekki gert neat end sínir árangurinn Thad í fyrra(standa í stad)

  24. @ suarez 31 

    æji nenniru ekki að lesa bara eitthverja aðra síðu eða allvega sleppa bara að comennta fyrst þú ætlar bara að vera með leiðindi 

Opin umræða – Framför pt. 2

Opin umræða – United-vika