Peter Crouch, leikmaður Liverpool

Orðin hér að ofan hljóma ennþá hálf skringilega, jafnvel eftir þrjú ár. Ekki satt?

Flestir fjölmiðlar í Englandi (Telegraph, Mail) fjalla um það að um helgina að Liverpool hafi komist að samkomulagi við Portsmouth um sölu á Crouchie til síns gamla félags í suðri og er nú fastlega búist við því að félagaskiptin verði skráð hjá enska knattspyrnusambandinu strax á mánudag og staðfest þann dag hjá báðum félögum.

Þar með mun ljúka þriggja ára ferli Peter Crouch hjá Liverpool, en ég held það sé óhætt að segja að hann er einhver skrautlegasti framherji sem nokkru sinni hefur leikið fyrir félagið. Það er því við hæfi, þessa síðustu helgi sem Peter Crouch er leikmaður Liverpool, að ég kveðji manninn ærlega. Ekki síst vegna þess að það var ég sem brást hvað verst við þegar möguleikinn á komu hans til Liverpool komst fyrst í fréttirnar:

„Ef Rafael Benítez kaupir Peter Crouch heimta ég að hann verði rekinn. Já, ég þori að segja þessi orð! Ég vill ekki sjá hann hjá Liverpool… leiðinlegasti, asnalegasti og gagnslausasti leikmaður Englands í dag! Oj bara!“

Þetta sagði ég þann 31. maí 2005 í pistli hér á blogginu. Fyrir utan það hversu heimskulegt það var af mér að krefjast afsagnar Benítez, sex dögum eftir sigurinn í Istanbúl, vegna kaup á einum leikmanni, þá er hálf merkilegt að hugsa til þess hversu mjög mér hefur snúist hugur síðan ég lét þessi orð falla. Í þá daga byggði ég skoðun mína á því að hafa í einhver 2-3 ár hlegið að Crouch í hvert sinn sem ég sá hann spila fyrir Aston Villa og svo Southampton. Reyndar runnu á mig tvær grímur þegar hann var maður leiksins í sigri Southampton á Liverpool veturinn 2004/5 en engu að síður var ég sannfærður um að þetta myndu reynast skelfileg kaup.

Crouch var ekki lengi að snúa áliti mínu. Hann lenti í markaþurrð fyrstu fjóra mánuði sína með Liverpool en á þeim tíma lék hann samt virkilega vel og maður sá það hvað hann færði liðinu í hverjum einasta leik með nærveru sinni. Þegar hann svo loks fór að skora hætti hann því í raun aldrei, alltént ekki á meðan hann var í byrjunarliðinu. Á ferli sínum með Liverpool lék Crouch alls 135 leiki og skoraði í þeim 42 mörk (frekari tölfræði á LFC History), en mér þætti gaman að sjá hver tölfræðin hjá honum var í þeim leikjum sem hann lék sem byrjunarmaður, því ég þykist viss um að næstum því þriðjungur þeirra leikja sem hann á skráða hjá Liverpool hafi verið sem varamaður, og oft fékk hann varla að spila nema 10-15 mínútur í þeim leikjum. Að því gefnu get ég með góðri samvisku sagt að þetta er alveg hreint fyrirmyndar tölfræði hjá honum.

Crouch kenndi mér margt á sínum tíma með Liverpool. Þetta var eins og að fá skyndinámskeið í fordómum, og þó hef ég aldrei litið á mig sem fordómafullan mann að neinu leyti. Hvað Crouch varðaði var ég það samt og viðurkenni það fúslega. Þegar El-Hadji Diouf kom til Liverpool vissum við ekkert um getu hans til að spila í Englandi, og höfðum í rauninni aðeins séð neitt til hans nema nokkra leiki á HM 2002. En Diouf var „eðlilega vaxinn“, ekki risavaxið fyrirbæri eins og Crouch, og því var maður mjög spenntur. Diouf kostaði 11m punda. Crouch kostaði 7m punda og eftir á að hyggja held ég að við getum öll verið sammála um það að þetta risavaxna fyrirbæri var margfalt meiri leikmaður fyrir Liverpool FC en Diouf nokkurn tíma. Eins efast ég ekki um að Crouch á eftir að upplifa mikið betri daga og glæstari feril en Diouf, eftir að þeir yfirgefa Liverpool.

Crouch er á leiðinni til Portsmouth. Hann lék áður fyrir félagið á árunum 2001-2002, þá 37 leiki í næstefstu deild Englands og skoraði 18 mörk. Ég held það sé nokkurn veginn raunhæft að ætlast til þess að hann skori svipað mikið fyrir Portsmouth nú þegar hann spilar með þeim í annað sinn, en þó með þeim stóra mun að í þetta sinn mun hann gera það í Evrópukeppni félagsliða og toppbaráttu Úrvalsdeildarinnar. Það er allavega ljóst að á meðan Portsmouth-menn spila í Evrópukeppnum munu þeir dýrka Crouchie þar syðra, því ef árin þrjú hjá Liverpool kenndu okkur eitthvað er það sú staðreynd að liðin frá meginlandi Evrópu kunna ekki með nokkrum hætti að verjast honum.

Þannig er nú það. Þann 19. júlí 2005 staðfestum við Einar Örn á þessari síðu að Crouchie væri orðinn Liverpool-leikmaður. Á næstu dögum geri ég ráð fyrir að því ástar- og haturssambandi sem hófst þar muni ljúka á þessari síðu með staðfestingu á brottför hans. Ég hefði hlegið að tilhugsuninni þá, en nú veit ég að ég mun sakna Crouchie. Hann er snilldarleikmaður, og ég vona að hann eigi inni eins og aðra fullkomna þrennu gegn Arsenal (eða fleiri skallamörk gegn United). Mig grunar að hann muni leggja sig extra mikið fram í leikjum gegn andstæðingum Liverpool í toppbaráttunni, til að geta mögulega beint titilbaráttunni í rétta átt.

Er ekki við hæfi að ljúka þessu á því sem mun verða ævarandi minning okkar Liverpool-manna um Peter Crouch? Ég held það bara …

Peter Crouch, leikmaður Liverpool FC. Það var ekki svo slæmt, var það? 🙂

Dossena skrifar undir

Kewell farinn til Galatasary (staðfest)