Chelsea – Liverpool / Hvað er ómögulegt?

Ég horfði á íþróttakappleik um síðustu helgi. Fyrir hinn árlega ‘Superbowl’-leik, sem jafnan er stærsti viðburður bandarískra íþrótta ár hvert, var nær eingöngu talað um hið ósigraða – og að því er virtist óstöðvandi – lið New England Patriots. Hvernig í ósköpunum átti lið sem var með 18-0 árangur á tímabilinu og hafði sett ótal met yfir veturinn, að geta tapað fyrir liði sem var með 13-6 árangur? Svarið var einfalt: það kom ekki til greina. Menn voru svo vissir að blöðin í Boston-borg, heimabæ Patriots-liðsins, voru þegar byrjuð að selja forpantanir á væntanlega bók um hið ósigrandi og fullkomna meistaralið Patriots. Sú bók átti að heita, einfaldlega, 19-0.

Svo fór þó aldeilis ekki og þegar New York Giants skoruðu sigursnertimarkið 35 sekúndum fyrir leikslok urðu margir hissa, en enn fleiri glöddust yfir því sem úrslit leiksins þýddu. Tap Patriots í úrslitaleiknum minnti fólk á það að í kappleik er ekkert öruggt fyrirfram. Fyrri leikir liða, innbyrðis og gegn öðrum andstæðingum, hvort sem um er að ræða síðustu leiki í náinni fortíð eða mörg ár aftur í tímann, allt þetta hefur ekkert að segja þegar tvö lið mætast á kappvelli. Staðan er alltaf 0-0 þegar flautað er til leiks og bæði lið eiga jafna möguleika. Spyrjið bara leikmenn Havant & Waterlooville.

En ef það er eitthvað sem er sannarlega ómögulegt, þá hlýtur það að vera fyrir Úrvalsdeildarlið að mæta til deildarleiks á Stamford Bridge og fara með sigur af hólmi gegn Chelsea FC. Ekki satt? Þeir hafa jú leikið 75 leiki á heimavelli án taps, sem samsvarar heilum fjórum árum af stöðugum deildarleikjum án þess að misstíga sig svo mikið sem einu sinni. Þeir hafa afrekað þetta með þremur mismunandi þjálfurum og gegn öllum mögulegum tegundum enskra knattspyrnuliða. Frá Huddersfield til Manchester United hafa allir enskir áskorendur mátt lúta í lægra grasi, eða alltént ganga af velli án þess að fagna sigri. Chelsea-liðið er svo sterkt á heimavelli að jafnvel í leikjum þar sem þeir hafa leikið hörmulega, verið leikmanni færri og nokkrum mínútum frá tapi (svo sem gegn Aston Villa í desember) hafa þeir samt náð að bjarga sér frá ósigri á ögurstundu.

Þetta lið, á þessum velli, verður einfaldlega ekki sigrað. Þetta er sannarlega hin ómögulega áskorun fyrir hvaða enska knattspyrnulið sem er. Ekki satt?

Ef þið hafið lesið eða hlustað á fjölmiðla hér heima eða erlendis síðustu vikuna hafið þið ekki heyrt neitt annað en það sem kemur fram hér að ofan. Hlutlausir miðlar hafa keppst við að minna á sigurgöngu Chelsea á heimavelli og spá nær undantekningarlaust sigri heimamanna í leiknum á sunnudaginn. Á sama tíma ber nú svo við hjá Chelsea-miðlum netsins að þeir eru orðnir svo öruggir með sig að í stað þess að reyna að fjalla um leikinn sem kappleik tveggja af fjórum bestu liðum Englands nota menn tækifærið til að gera miskunnarlaust, linnulaust og óvægið grín að Liverpool-klúbbnum eins og hann leggur sig (dæmi: 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9).

Ef hroki Chelsea-manna er undarlegur þá má segja að þögn Liverpool-tengdra miðla um leikinn sé nánast kæfandi. Reyndar hafa menn um nóg annað að hugsa á þeim bænum, þar sem fréttir af eigendum, þjálfurum og meiðslamálum Liverpool hafa verið svo tíðar síðustu vikurnar að menn hafa varla undan við að uppfæra hörmungarsögu klúbbsins í vetur.

Staðan fyrir leikinn er þessi, í stuttu máli:

Hjá Chelsea eru menn bjartsýnir og horfa uppávið. John Terry og Frank Lampard nálgast leikfært form, auk þess sem þeir hafa þegar endurheimt John Obi Mikel úr Afríkukeppninni og fá væntanlega Michael Essien, Didier Drogba og Salomon Kalou aftur eftir helgina. Andryi Schevchenko nálgast einnig fulla heilsu þannig að innan örfárra vikna gæti Chelsea-liðið skartað fullum leikmannahópi í fyrsta sinn í einhverja mánuði.

Í ofanálag við þetta hafa þeir ekki tapað leik í deildinni – né neinni annarri keppni – síðan Avram Grant beið lægri hlut gegn Man Utd á Old Trafford í deildinni í fyrsta leik sínum, þann 23. september síðastliðinn. Það er einfaldlega frábær árangur, og eins og liðið hafi ekki verið nógu sterkt fyrir gerðu þeir sér lítið fyrir og eyddu meira, nettó, í janúarglugganum í nýja leikmenn en Liverpool eyddu, nettó, í leikmenn allt síðasta sumar. Þannig að í stað þess að sofna á verðinum gagnvart nýjustu erkifjendunum úr norðvestrinu hafa þeir einfaldlega aukið gæðamuninn á leikmannahópum liðanna í janúar, ef eitthvað er.

Hjá Chelsea er fastlega búist við að Avram Grant muni stilla upp eftirfarandi liði:

Cech

Belletti – Carvalho – Alex – A. Cole
Makelele
Mikel – Ballack
Wright-Phillips – J. Cole
Anelka

**Bekkur:** Cudicini, Ferreira, Lampard, Malouda, Pizarro.

Eina breytingin á þessum hópi sem maður sér í hendi er ef Terry er nógu heill til að koma inn á bekkinn. Lampard byrjar væntanlega á bekknum, sennilega ekki reiðubúinn í heilar 90 mínútur strax.

Hjá Liverpool er staðan hins vegar sú að vont hefur versnað undanfarna daga. Auk þess að hafa verið án Daniel Agger, Andryi Voronin, Fabio Aurelio og Alvaro Arbeloa að undanförnu hefur Fernando Torres nú bæst á meiðslalistann, auk þess sem Xabi Alonso er í leikbanni í þessum leik og Javier Mascherano gæti, eftir fáránlegt ferðalag til Los Angeles til að leika landsleik á fimmtudag, verið of þreyttur til að byrja þennan leik.

Fyrir vikið er megnið af byrjunarliði Liverpool, aldrei þessu vant, sjálfvalið. Einu stóru spurningarmerkin eru þessi hér:

 • Getur Mascherano byrjað? Annars verður Lucas inni.
 • Mun Rafa spila 4-5-1 með Kuyt einan frammi eða verður Crouch með honum á kostnað miðjumanns?
 • Hvaða kantmenn verða fyrir valinu?

Persónulega held ég að Rafa ákveði að vera varkár í þessum leik, miðað við að hann hefur ekki beint mannskapinn til að ráðast á þetta Chelsea-lið og reyna að yfirspila þá á þeirra heimavelli. Ég sé hann fyrir mér spila 4-5-1 með vinnuhestinn frammi og stöðuga menn á miðjunni:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise
Mascherano
Gerrard – Benayoun
Pennant – Kewell
Kuyt

**Bekkur:** Itandje, Skrtel, Lucas, Babel, Crouch.

Eina óvissan við þetta lið að mínu mati er ef að Mascherano er ekki klár í að byrja þennan leik. Þá kemur Lucas væntanlega inn í hans stað, en þó gæti Rafa einnig valið að byrja með Mascherano og Lucas báða fyrir aftan Gerrard á þriggja manna miðju. Eins myndi ég persónulega frekar vilja sjá Crouch vera einan frammi en Kuyt en ég giska á að Rafa velji Kuyt fram yfir þann stóra.

**MÍN SPÁ:** Hvað getur maður eiginlega sagt? Í raun getum við valið tvær nálganir á þennan leik. Ég ætla að birta þær báðar hér og þið getið svo valið hvora þeirra þið leggið meiri trú á:

**1:** Blaðamannaumfjöllunin, hroki Chelsea-manna og þögn Liverpool-manna minnir óneitanlega á ‘Superbowl’-leikinn vestan hafs um síðustu helgi. Liverpool-liðið er eins og sært dýr sem hefur þagað þögninni löngu og látið sér nægja að hugsa illa til Chelsea-manna, vitandi það að aldrei þessu vant mega þeir skjóta öllum mögulegum skotum á okkar menn án þess að hægt sé að svara því. Liðið okkar, klúbburinn okkar, er einfaldlega í mýrinni þessa dagana og við vitum það.

Hins vegar er til nokkuð sem heitir karma og eins lengi og lifandi, dauðlegar mannverur fylla þetta Chelsea-lið eru þeir ekki undanskildir áhrifum karma neitt frekar en aðrar lífsins verur. Hroki Chelsea-manna undanfarna daga gæti bent til þess að þeir séu, aldrei þessu vant, of öruggir með sig þegar kemur að heimaleik gegn Liverpool í deildinni og að hið ómögulega geti gerst – þeir geti mætt særðu rándýri án þess að vera viðbúnir árásinni og eigi sér fyrir vikið aldrei von. Jafnvel Súpermann getur fatast flugið ef hann flýgur með lokuð augun. Kannski, bara *kannski*, er þetta Chelsea-lið að vanmeta Liverpool-menn í þetta skiptið.

Leikurinn fer 2-1 fyrir Liverpool. Okkar menn komast snemma í 2-0 gegn sjokkeruðum heimamönnum, en eftir að þeir ná á endanum að jafna sig, minnka muninn og reyna af öllum mætti að bjarga sér enn og aftur frá tapi undir lokin ná okkar menn einhvern veginn að hanga á forystunni og afreka hið ómögulega.

Já, og við skuldum þeim víst eins og eitt rán um hábjartan dag. Ef það er til karma, þá bara hlýtur það að vera Liverpool-megin á sunnudaginn kemur:

**2:** Horfumst í augu við staðreyndirnar. Okkar menn eiga í stökustu vandræðum með utandeildarlið og fallista eins og Sunderland og Derby þessar vikurnar. Okkar menn virðast hrynja ef þeir mæta svo mikið sem minnstu mótspyrnu innan vallar, sem er jú bein afleiðing þess að okkar menn virðast vera að brjóta niður eigin veggi utan vallar án þess að nokkur af okkar mönnum hafi rænu á að stöðva þróunina sem við hin horfum á úr fjarska og reynum af veikum mætti að hindra.

Þetta lið okkar, sem er í molum innan vallar jafnt og utan, er að fara að heimsækja lið sem hefur leikið 75 leiki í röð á heimavelli án þess að tapa. Fjögur ár eru langur tími í knattspyrnu.

Þessi leikur endar 2-0 fyrir Chelsea sem fara nógu létt með hið bitlausa lið Liverpool að Grant og félagar geta hvílt lykilmenn í seinni hálfleik, leyft Lampard að spila sig í form í svona hálftíma og sungið níðsöngva um Benítez og stelsjúka Scousera í níutíu mínútur.

Það er alveg ljóst hvor þessara mögulegu niðurstaðna er líklegri, og það er ykkar að velja hvort þið trúið að hið ómögulega geti gerst. Ég, persónulega, ætla að búa mig undir það versta, en ég vona líka að Lundúnarblöðin séu þegar byrjuð að skrifa dánargreinar tímabilsins hjá Liverpool. Verður þetta erfiður leikur? Já. Munu okkar menn tapa honum? Líklega. Er með öllu ómögulegt að sigra Chelsea á heimavelli? Spyrjið Eli Manning

**YNWA**

41 Comments

 1. að lesa þessa grein er í besta falli móðgandi. Hvernig þú lýsir jafntefli Chelsea gegn Aston Villa sem jákvæðum hlut eru svik gagnvart liverpool. Hversu oft hefur Liverpool náð jafntefli á heimavelli og spilað illa en fengið hundskamir fyrir. Að þú skulir sýna Chelsea meiri skilning en Liverpool eftir allt sem er búið að ganga á hjá liverpool er algjörlega óskiljanlegt.
  auðvita vinnur liverpool á morgun

 2. GÓÐANN DAGINN eins og sagt er á góðri íslensku

  Ma mamamam ma bara áttara sig ekki á þessu, þessir Chelskí menn eru bara alltof góðir sko, setja’nn, étann, rúlllonum og ég veit ekki hvað og hvað, maður verður bara að átta sig á því að þetta eru menn með mönnum sko, hvað í helv…. fær menn yfirleitt til að láta sjá sig á svona leikjum, ma mammamamam ma bara sko rúllar yfir menn og aðra, ég verð bara að segja það ha ætla menn bara að fara leggja allar áranar í bátinn og reina að sigla honum með höndunum einum saman ég bara er ekki að fatta þetta, hvurslags bull og endemis vitleysa mönnum dettur í hug að hafa þá hugsun á lofti að menn eins og Chelskí geti yfir leitt blautann sk… ma ma mammmamammam verður bara að stja beltið uppá mitt brjóst og anda að sér fersku fjalla loftii eins og menn gerðu hér í gamla daga og notast við orðatiltæki eins og sjaldan verður ein báran stök nema heim sé komið,,,,já en að örðurm málum eins og ég hef alltaf sagt … Kristján heiti ég Ólafsson

  Varð bara að taka á þessu á minn hátt, jú þeir hafa unnið og allt það og allt er ómögulegt en NEI NEI NEINEININEINEINEINEINEINEIENEINEIN

  Við skulum bara átta okkur á því að þetta er svona og við vinnum leikinn hvernig sem hann fer, þá verður sigur í dag. Liverpool borg mun brosa á ný og það sem meira verður að LIVERPOOL við ÖLL munum brosa, ég held að við séum komin á þann tímapunkt í þessu öllu saman “hafaríinu” að menn geti farið að sjá sólina á ný.

  Ég vel þá leiða að við vinnum

  AVANTI LIVERPOOL – RAFA – http://WWW.KOP.IS

 3. Af hverju segirðu að við eigum í stökustu vandræðum með fallista Sunderland eftir að hafa unnið þá 3-0? Já ok, fyrri hálfleikur var ekki sá besti en come on, 3-0 er bara nokkuð solid sigur. Spurning um að sprauta smá skammti af jákvæðnamíni beint í æð og hætta þessu rugli. Við erum “the underdog” í þessum leik og mér finnst það frábært, því núna loksins erum við að fara að vinna á Stanford Bridge!

 4. Við töpum þessum leik af því að 1) okkar menn hafa verið í bölvuðum vandræðum í vetur og 2) heimavöllur chelsea segir dómaranum allt. Þegar þetta tvennt leggst saman er niðurstaðan augljós. Búumst við hinu versta.

 5. Dóri það sem Kristján átti eflaust við er að Chelsea var að skíta á sig gegn Villa en náði samt að setja 4. Voru manni færri nánast allan leikinn en jöfnuðu á 90. Það er eitt að gera jafntefli og annað að gera jafntefli. Liverpool hefðu aldrei sýnt þennan karakter, a.m.k ekki eins og þeir hafa verið að spila undanfarið heldur brotnað niður og tapað.

  Annars held ég að núna rífi menn sig upp og nýti sér vanmatið. Þetta er eiginlega of ævintýralegt allt saman, aðalgæjinn okkar meiðist (ekki eins og Riise eða eitthvað hafi meiðst, við erum að tala um Torres) og fleira í þessum dúr. 1-2 útisigur og leiðin liggur bara upp á við.

 6. Tími er kominn á að pappakassaverksmiðjan við Anfield Road taki upp flegnu búningana og láti sjást í bringuhárin. Þörf er á continental andrúmslofti með tilheyrandi smjördeigsbakstri og vínsmökkun að hætti Mervíkingsins frá Avignon. Best er að fella brýr með að berja niður undirstöðurnar og frábiðja nokkra miskunn. góðar stundir

 7. Auðvitað hefur maður alltaf von í brjósti gagnvart svona leik, við mætum sem litla vængbrotna liðið og þannig hefur okkur oft gengið best.
  En staðreyndirnar tala sínu máli þótt þær vinni ekki leiki.
  Chelsea eru á heimavelli, hafa ekki tapað þar í 4. ár og hafa eins og Man Utd haft einstaka heppni með sér, þó svo að ég vilji varla kalla það heppni sem fylgir Man Utd þeir hafa einfaldlega Ferguson sem er búinn að innstympla svo rækilega í hópinn sinn að gefast aldrei upp.
  Rökhyggjan er yfirsterkari trúnni í þessu eins og öllu hjá mér og ég held að við séum dæmdir til að tapa þessum leik.
  Kæmi mér ekki á óvart að Joe Cole setji ein og eitt.

  Mig langar að bæta því við að ég er orðinn það gamall að ég man vel eftir síðustu Englandstitlum Liverpool og fyrst ég minntist á baráttu Man Utd til loka leiks eins og núna síðast á móti Tottenham þá verð ég að segja að það var eitt sinn aðalsmerki Liverpool.
  Við spiluðum af öryggi alltaf en þegar svo óheppilega vildi til að andstæðingarnir komust yfir þá þjöppuðu menn sér enn meira saman og börðust sem sært ljón. Þessir dagar eru löööngu liðnir, ef frá er talið Istanbul kraftaverkið : )
  Í núll núll stöðu eða jafnvel marki undir eru okkar menn að hengja haus og spila aftur á markmann í staðinn fyrir að sækja, algerlega óþolandi.

  En ég á samt von fyrir leikinn á sunnudag, ekki stóra en á samt von : )

 8. Frábær upphitun, Kristján!

  Ég skrifaði það fyrr í vikunni að við myndum vinna þennan leik. Og ég hef enn trú á því. Öll lógík segir að þetta sé vitleysa hjá mér, en það væri bara samt svo yndislega sætt ef að okkar menn næðu að enda þessa taplausu hrinu hjá Chelsea.

  1-0 Crouchy skorar!

 9. Þetta verður ansi snúið. 2-0 og Anelka með bæði. En ég hlakka til að fylgjast með Kuyt og Riise 😉

 10. Syndin er sú að maður er hættur að því að hafa gaman af því að horfa á leiki með Liverpool. Aldrei gerst áður, segir manni að hann er ekki á réttri braut með þetta lið. Kominn svona fílingur í mann að það væri nánast skárra að tapa 3 leikjum í röð til að losna við þennan jask. Töpum þessum leik á morgun með 2-3 mörkum, bara munurinn á liðunum, Dirk Diggler verður þarna frammi að gera nkv ekki neitt eins og vanalega.

 11. Skil ekki hvernig þið getið spáð Liverpool sigri, vona bara að okkur verði ekki slátrað. Chelsea hefur ákkurat núna yfir svo miklu meiri gæðum að ráða en við, hér eru nokkur dæmi;

  Riise vs Cashley Cole
  Kuyt vs Anelka
  Kewell vs Malouda
  Finnan vs Belletti
  Pennant vs Joe Cole

  Spái 3-0, kannski 3-1 og við verðum sáttir. Því miður. Með Gerrard eins ömurlegan og hann hefur verið og Torres, Agger, Mascherano og Alonso fjarverandi þá eigum við ekki möguleika. Jafnvel þótt að Chelsea vantar fleiri leikmenn en við en þeir hafa bara stærri og overrall betri hóp en við.

  En hið ómögulega getur alltaf gerst. Það eru bara svo litlar líkur á því. Ég myndi segja 1 á móti 100 að við sigrum leikinn, 4 á móti 100 að við gerum jafntefli og 95 á móti 100 að við töpum. Það er samt von 😉

 12. Það er allt hægt í fótbolta. Ef leikmenn og þjálfari Liverpool hafa ekki trú á því að geta unnið á Stamford Bridge þá eru þeir ekki í réttum klúbb.
  Taka þetta á morgun takk fyrir.

 13. 95% líkur á að Chelsea vinni ? Meira ruglið í þér…

  Við unnum síðasta deildarleik 3-0 sem ætti að gefa mönnum gott búst fyrir komandi verkefni. Gerrard stóð sig líka einkarvel núna á miðvikudaginn. Við erum að fara spila við lið sem er betra en við á blaði sem þýðir að það eru meiri líkur á jafntefli en tapi (Liverpool 1 Chelsea 1, Liverpool 1 Arsenal 1).. Við höfum alltaf haft góð tök á Chelsea þannig ég sé ekkert við það að spá okkur sigri.

  Skiptir í raun engu hvort okkar vinstri bakvörður eða þeirra sé betri, þeir eru varla að fara kljást við hvorn anna í leiknum. Frekar að setja þetta svona.

  Anelka vs. Carragher
  Ben Haim vs. Kuyt
  Malouda vs. Finnan
  Kewell/Babel vs. Belletti.

  Við verðum betra liðið á morgun.

 14. Sindri, please sendu mér þetta prozac sem þú augljóslega liggur á.

 15. Það er nú ekki alveg svona langt síðan Chelsea tapaði leik, þeir töpuðu 1-0 fyrir Arsenal 16. desember síðasta í deildinni.

 16. Konan er ekki heima þannig að óheilbrigði er í fyrirrúmi á þessum bæ. Fyrsti bjórinn var “kvissaður” kl. 1337 að staðartíma. Af einhverjum ástæðum er ég bara mjög bjartsýnn fyrir leikinn á morgun. Okkar menn munu að sjálfsögðu drulla yfir Chelsea.

 17. Auðvitað vil ég að Liverpool vinni leikinn 0-3 og Kuyt fái fyrstu þrennuna sína fyrir klúbbinn, en líkurnar á því að þær gerist eru jafn litlar og að ég fái bleika fíla í mat annaðkvöld.
  Raunsæjispúkinn í mér segir að Chelsea taki þetta létt 2-0 eða 2-1.
  Því miður. Bæði eins og Kristján bendir réttilega á er heimavöllurinn ógeðslega sterkur hjá Chelsea og ég man bara ekki hvenær við unnum síðast á Stanford. Mig minnir að undrabarnið Bruno Cherou hafi verð sá síðasti í herbúðum Liverpool sem skoraði þarna og því miður 🙂 nýtur hans krafta ekki lengur við. Rafa hefur heldur engum árangri náð á móti stóru liðunum, liðið er almennt að spila illa, lykilleikmenn meiddir. Við hverju á maður svosem öðru að búast? Kraftaverki ? Það væri þá aldrei …..

 18. ég vona nú að Crouch verði einn frammi, þ.a.l. Kuyt á bekknum, og það verði þriggja manna miðja sem standi saman af Xabi, Stevie og Lucas (eða Masch ef hann er leikfær)…. að öðru leiti er ég nokkuð sammála þessari uppstillingu, held það skipti litlu máli hverjir verða á vængjunum enda virðast allir vængmennirnir vera í lægð nema þá kannski Benayoun sem á það til að skora annað slagið… segjum þá Benayoun hægra megin og Kewell vinstra megin

 19. Jæja nú er komin tíminn sem við förum að gera eitthvað af viti, þrátt fyrir bakslög í vikunni að missa Torres í meiðsli og nokkrir sem geta ekki spilað leikinn. þá ætla ég að vona að það muni aðrir koma fram og spila til sigur. Því eftir leiki dagsins er Everton komið með 4 stiga forystu á okkur þó við eigum 2 leiki til góða, þá er oft erfitt að sigra þessi leiki sem eru inni, ég hef alltaf haft slæma tilfinningu fyrir leikjum sem við eigum inni. :S

  ég hreinlega vona það ekki eftir þessa helgi að eltingaleikur um 4 sætið sé hafið, en ég hef trú á að liðið muni sýna karekter á morgun og reyna vera fyrsta liðið til að vinna þarna í nokkur ár. hversu mikið BOOST væri það fyrir sjálfstraustið í liðinnu? og svo yrði það hrikalegt vegarneisti fyrir komandi átök í mánuðinum;) þannig að ég spái að leikurinn verði eins og síðustu leikir mikil barátta en lítið skorað mesta lagi 3 mörk en hallast á 1-0 sigri okkar manna ;)..

  ég held að við séum búnir að skrappa botninn nóg í vetur. núna er komin vel á seinni hlutan tímabilsins þar sem Rafa á yfirleitt að vera með besta árangurinn, og ég hef trú á að Sunderland hafi verið byrjunin og leikurinn á morgun muni staðfesta mína trú 😉 og já ég er jákvæður búinn að fá upp í kok af neikvæðninnu og vona að Karma muni hafa áhrif á mitt lið 😀

 20. Kristján Atli – spurning hvort leikmenn Liverpool viti af NFL og hinu ótrúlega: að geta unnið sigurstranglegu liðin (Ars, Man, Chel). Allt er hægt ef menn hafa trú á því en síðustu leikir gefa mér ekki trú á að Liverpool vinni Chelsea á Brúnni. Myndin af vítinu ofarlega á síðunni segir okkur hvernig morgundagurinn verður. Við höfum enga sókn svo orð sé á gerandi (og Torres meiddur). Miðjan er hikandi og fyrirliðinn fyrsti maðurinn til að hrista hausinn þegar illa gengur (man einhver eftir West Ham tapinu um daginn). Vörnin fær nóg að gera því leikurinn mun fara fram á vallarhelmingi Liverpool. Hvenær ætlar Agger að koma til baka? Og heppnin hefur ekki verið með Liverpool í liði í vetur. Þannig að … sorry guys.

 21. Þetta er sú allra besta upphitun sem að ég hef lesið hingað til. Þú er frábær penni Kristján.

 22. Flott upphitun hjá þér og auðvitað er ekkert vonlaust í fótbolta og í upphafi leiks eru þetta bara 11 strákar á móti öðrum 11 strákum. Svo getur heppni (og óheppni) spilað sína rullu ásamt ótal öðrum faktorum. Við erum ekkert búnir að tapa þessum leik áður en flautað er til leiks, ekkert frekar en NY Giants um daginn.
  En, við erum samt ekkert að fara að vinna þennan leik. Sorry en ég spái þessu 2-0 fyrir þeim bláu. Ef aftur á móti lfc vinnur þennan leik og verðskuldað í þokkabót þá mun ég éta húfuna mína (þar sem ég á ekki hatt).

 23. Þetta verður mjög erfiður leikur á morgun, ekki spurning og eins og Rafa hefur stillt þessu upp í vetur þá fer hann örugglega mjög varlega inn í leikinn. Spurning að halda út fyrstu 25 mín því leikurinn verður örugglega spilaður á vallarhelmingi LFC að megninu til.
  Ég vona að sjálfsögðu að við tökum loksins leik á móti þeim bláu í deildinni en síðustu vikur vekja ekki með manni beint mikla bjartsýni.
  Þó held ég að það verði meiri barátta í okkar mönnum heldur en verið hefur.
  Það hefur margt verið skrifað hérna í vetur um hina og þessa leikmenn.
  Hversu lélegir þeir séu, þeir eigi ekki heima hjá svona stórum og sögufrægum klúbbi o.s.frv. Ég get verið sammála mörgu en það sem mér finnst standa upp úr það er andleysið í liðinu og það fer mest í taugarnar á mér. Það er hreinlega ÓÞOLANDI að sjá menn vera ekki að leggja sig 100% í þetta.
  Þetta er fyrst og fremst það sem Rafa verður að laga. Við sjáum t.d. ManU aldrei gefast upp ALDREI. Það er alveg hægt að sætta sig við tap ef liðið hefur lagt sig allt í leikinn en einfaldlega mætt ofjörlum sínum.
  Við höfum oft séð lið með ekkert betri hóp leikmanna en við höfum en verið að gera góða hluti vegna þess að þeir spila sem ein heild og leggja sig 100% í leikinn.
  Meiri leikgleði og hungur, allt sem þarf.
  YNWA

 24. Ég er ánægður með þig, Alli. Allt satt sem þú segir. Stundum óska ég þess að þessi strákar í liðinu gætu lesið bloggið okkar. Þeir hefðu gott af því. Og Rafa. Ekki síst hann. Eins og ég hafði trú á honum í byrjun – núna er hann búinn með traustið og er bara skrítinn. En jæja – en vil ekki vera bara neikvæður nöldurseggur, ég er hins vegar raunsær – en ég skal vera fyrsti maðurinn til að fagna ef við fáum stig á morgum. Djöfull verð ég ánægður ef við vinnum þessa þýsku bláklæddu vél á morgun. Ég þoli ekkert þýskt.

 25. Þetta verður hnoð, Hef aldrei skilið af hverju það er verið að spila mönnum sem eru ekki að leggja sig fram. Við eigum fullt af strákum sem væru tilbúnir að deyja fyrir málstaðinn. Karluglan sorry hr Benitez ætti að fara að nota þá. Annars alltaf bjartsýnn. : )

 26. Þýskur bjór bragðast meira að segja ekki eins vel og til dæmis danskur bjór. Ég er berdreyminn. Segi ykkur á morgun hvernig leikurinn fer.
  -Skipti kannski um nafn. Allt of fáir tjá sig hér á síðunni. Vil fleiri nöfn, mira fjör. Skrifa meira, strákar. Við kunnum fleira og meira en að stara á skjáinn. Ekki satt? Kommon!

 27. Hvaða væl er þetta? Liverpool er klúbbur sem á ekki hræðast neina mótherja.Þó að liðið hiksti örlítið þá er það enginn fokking heimsendir.Liverpool mun RÍSA og það fyrr enn seinna og hættið svo þessu væli og minnimáttarkend. Bestu kveðjur Kiddi

 28. Frábært upphitun Kristján.
  Ég ætla að vera mjög bjartsýnn og spá 0-1. Riise með neglu af 30 metra færi á 87. mín. 😉

 29. Allir hlutir eiga sér upphaf og endi, þar er sigurganga Chelsea engin undantekning.
  Við unnum þá í 2 fyrra án Torres og þeir með Drogba þá en ekki nú og Ekki reyna að segja mér að Anelka sé jafn góður og Drogba. Við vorum óheppnir að vinna þá ekki fyrr í vetur þar sem við vorum talsvert betri.
  Rétt að árangur okkar gegn topp 4 undir stjórn Rafa er ekki flottur en hvernig er hann gegn Chelsea? ég veit það ekki nkl en er samt alltaf óvenju bjartsýnn þegar kemur að því að spila gegn chelsea

 30. Ég held að leikmenn chelski séu ekkert öruggir með sig. En þeir eru á heimavelli og það ætti að gefa þeim forskot. Við gætum alveg dottið í það
  að vinna leikinn en fyrirfram er maður ekkert að farast úr bjartsýni

 31. Þetta mun hljóma á brúnni í sigri liverpool 0-2.
  Stamford Bridge is falling down, falling down, falling down, Stamford Bridge is falling down, on fat Frak Lampard

 32. Sælir félagar
  Ég held að það sé jafn langt í að Chelsea tapi og að Kuyt skori 🙂
  YNWA

 33. Chelsea: Cech, Cudicini, Hilario, Ferreira, Belletti, Carvalho, Ben-Haim, Alex, A Cole, Bridge, Ivanovic, Lampard, Makelele, Obi, J Cole, Wright-Phillips, Anelka, Pizarro, Malouda, Ballack, Sidwell.

  Liverpool : Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Skrtel, Riise, Pennant, Mascherano, Gerrard, Babel, Benayoun, Kewell, Lucas, Crouch, Kuyt, Itandje.

Æj Momo

Liðið gegn Chelsea