West Ham á morgun

Þá er best að hita aðeins upp. Ég sá ekki Havant slysið, og finnst því vera ár og dagar síðan ég horfði á okkar menn spila síðast. Þetta verður erfiður útileikur, sér í lagi þegar mið er tekið af því í hvernig stuði liðið hefur verið á þessu ári (ef hægt er að kalla það stuð). Ég hef oft sagt það að ég get fyrirgefið mönnum þegar þeir leika illa en reyna að framkvæma hluti og leggja sig alla fram. Það sem ég þoli ekki þegar kemur að fótbolta hjá liðinu mínu, það er að sjá leikmenn inni á vellinum hálf andlausa og áhugalausa. Það er hreint út sagt ófyrirgefanlegt í alla staði. Þetta er nú líklega ástæðan fyrir því að ég hef ekki verið jafn rosalega harður í gagnrýni minni á menn eins og Momo Sissoko og Dirk Kuyt í gegnum tíðina. Þeir reyna alltaf og leggja sig fram í leikjum, en því miður vantar stundum upp á að hlutirnir heppnist, og jafnvel hæfileika. Verst af öllu finnst mér þó þegar fyrirliðinn sjálfur hengir haus í leikjum. Það hefur oft verið talað um það að kannski fái hann meiri gagnrýni en hann ætti skilið, út af sínum standard, en ég er því ekki sammála. Hann á að vera síðasti maður til að hengja haus.

Leikurinn á morgun á eftir að verða erfiður eins og áður sagði. Lykillinn að sigri í honum er hugarfarið (ég veit að ég er ekki að koma fram með nein vísindi hérna, enda aldrei talist einhver vísindamaður). Það hefur lengi verið talað um meðalskussa í liðinu okkar, en þeir eru ekki meiri meðalskussar en svo að þeir myndu allir labba inn í flest liðin í Ensku Úrvalsdeildinni. Mér hefur fundist vanta upp á þessa samkennd hjá leikmönnum, hreinlega leikgleði. Menn fagna mörkum, en það vantar alla ákefð í mannskapinn fyrir utan nokkra aðila. Á morgun vil ég sjá hjartað, minna af hugsun, meira hjarta. Ef við vinnum ekki leikinn á morgun, en menn setja hjartað í þetta, þá get ég meira fyrirgefið leikmönnum. Það skiptir ekki máli í mínum huga hvaða kerfi Rafa leggur upp með. Ég meira að segja geng svo langt að segja að það skipti ekki höfuð máli hvaða leikmenn hann notar í leiknum (Torres, Gerrard, Reina og Carra teljast ekki þar með því þeir EIGA að spila alla alvöru leiki). Nú þýðir ekkert hangs, við erum komnir í bullandi baráttu um að halda okkar áskrift að CL sæti og þann raunveruleika verðum við að horfast í augu við. Jú, við erum ekkert langt frá Chelsea, en úr þessu þá verður allt umfram 4 sætið bara hreinn og klár bónus.

Þá að West Ham. Ég verð að viðurkenna það að ég hef alltaf haft mikið álit á því félagi. Þeir hafa í gegnum tíðina verið duglegir að koma upp með unga stráka úr unglingastarfinu og er það alltaf virðingarvert. Þeir hafa reyndar breyst aðeins núna í seinni tíð (eins og reyndar flest Úrvalsdeildarfélögin) og keypt mikið af mönnum til sín. Björgúlfur er flottur gaur og gerði vel þegar hann losaði sig við Kexið og þá gat ég aftur farið að renna “hýru” auga að þeirra úrslitum (þó svo að ég geti nú ekki sagt að ég styðji liðið eitthvað umfram aðra andstæðinga Liverpool). Ég hafði afskaplega lítið álit á fyrrverandi stjórnarformanni West Ham og sér í lagi ekki eftir samskiptin sem áttu sér stað eftir að við unnum Meistaradeildina árið 2005. En það er nú önnur Elín. Mér hefur reyndar fundist West Ham ekki vera að eyða peningunum sínum á góðan hátt. Þeir eru búnir að sanka að sér mönnum eins og Bowyer, Neill, Bellamy og Dyer. Ég vona félagsins vegna að það séu mjög low profile jólateiti hjá þeim, miðað við hvernig sumir hafa verið á vellinum og utan hans í gegnum tíðina. Svo hafa þeir líka verið að kaupa til sín leikmenn sem hafa verið mikið á meiðslalistum sinna liða. Ég man hreinlega ekki eftir leiktíð t.d. þegar Dyer var heill heilsu og í formi. Ljungberg hefur einnig verið mikið í þessu síðustu árin. En hvað um það, þetta er vel mannað lið og getur á góðum degi unnið flesta andstæðinga sína.

En hvað með okkar lið, hvernig verður því stillt upp? Við þurfum ekkert að ræða Reina neitt í þessu samhengi. Mér skilst að Itandje hafi tekið bikar-Dudek í Havant leiknum, en það skiptir ekki öllu málil hérna. Finnan hefur verið að valda mér miklum vonbrigðum á tímabilinu. Síðustu 2-3 tímabilin hefur hann verið Mr.Reliable og einn allra besti hægri bakvörðurinn í deildinni. Hann hefur hreinlega ekki verið svipur hjá sjón núna. Ég vona því heitt og innilega að Arbeloa sé orðinn heill heilsu. Í miðvörðunum halda þeir félagar áfram að spila saman þeir Carra og Sami, því ég hef ekki heyrt neitt um það að Agger sé að braggast. Þá kemur að hinni stórbrotnu vinstri bakvarðarstöðunni. Þetta er eiginlega svipað og ef þú fengir að velja um hvort þú vilt fótbrotna á skíðum eða á hjóli. Þar sem ég er akkúrat enginn skíðakappi þá vel ég hjólið og vona því að ég sjái Aurelio hefja leikinn. Ég hef þó mjög sterkan grun um það að Rafa sé mér ekki sammála, því mun ég setja Riise inn í uppstillinguna (þó svo að mér sé það þvert að skapi). Miðjan held ég að sé ráðin að 3/4 hluta. Benayoun, Gerrard og Javier munu verða þar og því bara spurning í mínum huga hver af þeim Kewell, Pennant og Babel verði með þeim. Ég ætla mér að giska á að Pennant fái tækifæri á að halda áfram þar sem frá var horfið í Havant leiknum. Frammi verða svo þeir Torres og Crouch. Svona ætla ég því að spá að Rafa stilli upp:

Reina

Arbeloa – Carra – Sami – Riise

Pennant – Gerrard – Mascherano – Benayoun

Torres – Crouch

Bekkurinn yrði því á þessa leið: Itandje, Finnan, Babel, Lucas/Alonso og Kuyt.

Nú er bara enn og aftur að duga eða drepast. Ég stórefast um að menn vilji velja seinni kostinn og því hef ég trú á því að menn krumpi sig saman í andlitinu, rífi sig upp á augnhárunum og mæti lifandi og hungraðir til leiks. Ég vil sjá menn trítilóða frá fyrsta hanagali og þar til 300 kílóa flykkið hefur upp raust sína og byrjar að kyrja Svissnesk Alpalög. Ok, ok, er kannski kominn vel yfir strikið, en það er ekkert nýtt. 1-0 forysta gerir okkur akkúrat ekkert gott, það verður að ná þessu öðru marki til að klára leikinn, eins og sýndi sig best gegn Villa um daginn. Ég býst við hörkuleik, við komumst í 0-2 og þeir minnka svo muninn fyrir leikslok og við vinnum góðan 1-2 útisigur. Ég held að Torres haldi áfram að setj’ann, enda ekki gert það mjög lengi á hans mælikvarða og ég ætla að giska á að Pennant komi öllum á óvörum og setji sitt annað mark fyrir félagið. Koma svo, back on track og klárum þetta tímabil með sæmd, og það skal byrja í London.

33 Comments

 1. Miðað við spilamennskuna að undanförnu þá verður þetta sennilega enn eitt jafnteflið en er ekki Arbeloa meiddur ?

 2. Annað hvort segðu meiningu þína eða þegðu ella en hlífðu okkur við hálfkveðnum vísum!*
  Við viljum fá söguna um Eggert og úrslitaleikinn…! 🙂

  *eins og skáldið sagði…

 3. Ég hringdi í Benitez og ég er búinn að fá staðfest lið.

                   Reina
    Finnan      Carragher    Hyypia  Riise
  
    Benayoun     Gerrard      Alonso   Kewell
  
              Torres    Kuyt
  

  Hann var reindar að pæla í að hafa Pennant á hægri en hann er enþá ekki 100% og á erfitt með að spila tvo leiki á stuttum tíma.
  Þess má gera að hann sagði líka að Liverpool sé að fara a ð kaupa nýjan leikmann í janúar og gerist það á fimmtudaginn og við verðum öll hrifinn.

 4. Ég gerði mer ekki grein fyrir því fyrr en þú sagðir það SSteinn að Pennant hefur aðeins skorað eitt mark með liverpool ! ? Á móti chelsea. Hrikalega er það slappt …..!

 5. Riise í bakverðinum samkvæmt Sigga, boðar ekki gott 🙁

  Annars flott upphitun hjá Steina. Verður krefjandi leikur gegn strákunum hans Curba. Slæmt ef að Arbeloa getur ekki spilað, besti bakvörðurinn okkar. Ég vil sjá Lucas koma við sögu, bæta í reynslubankann hjá honum þar sem hann hlýtur að fara að fá veigameira hlutverk núna síðari hlutann.

  Síðan þarf Xabi vinur minn að koma sér í sitt gamla góða form.

  YNWA

 6. þvílíkar upphitanir hjá þér Steini, unaðsleg lesning! og svo ertu klárlega krúttlegasti penninn á http://www.kop.is !!

  annars er mín tilfinning fyrir leiknum góð og ég held við tökum loksins öll stigin úr þessum leik og vinnum sannfærandi 2-0 sigur þar sem yossi heldur áfram að setjann og xabi kemur með eitt óvænt og rífur sig upp úr lægðinni sem hann hefur verið í 🙂

 7. Sammála með að Finnan hafi verið vonbrigði í ár en ég skil ekki þessa Arbeloa dýrkun. Finnst hann einstaklega ofemtinn leikmaður. Ágætis spilari en engan veginn þessi stjarna sem menn vilja meina. Samt betri en Kromkamp og Josemi enda ekki erfitt.
  Ég myndi taka Finnan fram yfir Arbeloa “every day of the week and twice on sundays”.

 8. Olli, ég er hérna að reyna að skapa mér ímynd sem harður nagli og þá kemur þú og kallar mig krútt!!!!

  Vissi ekki að Javier yrði í banni, ef svo er þá kemur Xabi inn (ef heill) eða þá Lucas.

  Varðandi Kex-arann, þá átti ég nokkur samtöl við hann um sumarið 2005 þar sem hann sat í framkvæmdanefnd (minnir að sú steypa hafi borið þetta nafn) UEFA. Sú vitneskja sem hraut af vörum hans þar var ekki til að skilja mig eftir gapandi af aðdáun á þessum “knattspyrnumógúl”, þvert á móti þá kom mér það á óvart að amatörinn (ég í þessu tilviki) var búinn að kynna mér reglurnar og málið margfalt meira en aðili sem átti að kjósa um það örstuttu seinna. En enn og aftur, ég ætla mér ekki að fara dýpra ofan í nákvæmlega það sem fór okkur á milli.

 9. Mikið vona ég að Lucas fái að byrja þennan leik en hef samt enga trú á því. Hann virkar allavega frábærlega með Gerrard svo fingers crossed og ætti þessa dagana að vera á undan bæði Javier og Xabi. Jafnvel 4-5-1 með Gerrard, Lucas og Masch (Alonso ef hann er í banni).

  Annars held ég að við fáum að sjá loksins frammistöðu og menn koma sér í gírinn loksins. Ég get alveg fyrir gefið tap eða jafntefli ef menn bara leggja sig fram og hafa gaman af þessu. Rafa biddu þá bara um að spila fótbolta ekki leggja upp með einhverjum endalausum bendingum sem enginn skilur.

 10. Mig langar koma inn á einn punkt, hann er kanski út fyrir efnið en það verður að hafa það. Þegar við liverpool áhangendur erum að ræða um liði okkar obinberlega þá meigum við ekki tala lið okkar niður. Eins og ” Ég sá ekki Havant slysið “. Er það slys að vinna 5-2, ég veit það leit ekki vel út á tímabili, en eigum við ekki að dæma liðið okkar á lokaniðurstöðum leiksins í stað hálfleiksstöðu. Þegar þú greinarhöfundur góður segir þessi orð í annars ágætri grein þá ertu búinn að ákveða að þessi leikur hafi verið slyss og ég sem lesandi greinarinnar, ég er ekki mikið að lesa aðrar greinar um liverpool en þær sem birtast hér, tek úrslitum þessa leiks sem neikvæðum hlut. En samt unnum við leikinn og erum áfram í bikarnum.
  Annað mál eru svo væntingar okkar til liðsins. Við hreinlega ætlumst til að liverpool vinni þetta lið (havant og einhvað) 10-0 eða álíka. Ég spyr til hvers á liðið að leggja svo mikið á sig til að vinna svona stórt? Hver er munurinn á að vinna 1-0, 5-2 eða 10-0? Þegar maður er atvinnumaður í íþróttum þá gerir maður nóg til að vinna. Það er ekki hægt að leggja sig 100% fram í öllum leikjum og þess vegna spara leikmenn sig gegn lakari andstæðingum, það heitir að vera atvinnumaður.
  Ég held að við áhangendur þessa fótbolta liðs verðum líka að taka einhverja ábyrgð á slæmu gengi liðsins. Neikvæt tal leiðir af sér neikvæðni. Ég held að það sé ekki gott fyrir liðið okkar að við skrifum einhvað hér inn í reiðiskasti (comment) eftir tapaðan leik og tölum liðið niður. Það er nóg að neikvæðri umræðu um þetta lið hjá fréttamönnum annara miðla. Fréttamaður sem heldur með Man utd getur verið að tala niður Liverpool en við gerum það ekki. Við eigum að tala liði okkar upp. 5-2 sigur var feiki nóg. Ef svo heppilega vildi til að við verðum enskir meistarar í vor eigum við þá að vera óánægðir vegan þess hversu illa við spiluðum í janúar. Hvernig við unnum þennan leik skiptir eingu máli þegar Gerrard liftir bikarnum upp í vor nema bara að við unnum hann.
  Að því sögðu þá tökum við næsta leik og vinnum hann allt annað er óheppni og maður má aldrei búast við því að vera óheppinn því þá verður maður það.

  biðst velvirðingar á skrifvillum ef einhverjar eru, er blindur á þetta.

  ps þakka góða síðu það verðu víst aldrei of oft sagt.

 11. Sammála með liðsuppstillingu og líka varðandi Aurelio og Riise!
  Eggert karlinn er sko ekki allra, það er alveg ljóst og ég efast ekkert um það að SSteinn hefur ríkar ástæður fyrir því að hafa ekki á honum álit.
  Hins vegar heyrist mér staðan hjá West Ham ekki góð á meðal leikmanna, sem ekki hafa allir mikið álit á Björgúlfi, en kunnu vel við Eggert. Eggert er ekki endilega mikill fótboltahugsuður og hefur ekki alveg keypt réttu mennina til félagsins. En hann er skemmtilegur og var vel liðinn. Vonandi verða bara allir hundfúlir í West Ham liðinu á morgun!
  En ég vildi nú líka nota tækifærið og óska Gary McAllister góðs gengis hjá Leeds. Lengi hefur verið talað um að Liverpool renni til hans hýru auga varðandi þjálfun, hafi m.a. boðið honum stöðu varaliðsþjálfara áður en Ablett tók við. Nú sjáum við hvað í karlinn er spunnið. Hef einu sinni hitt manninn og hann virkaði sérlega viðkunnalegur. Vona því að honum gangi vel, svo kannski verði möguleiki á skoskum framkvæmdastjóra á Anfield í framtíðinni.
  Allavega má maður láta sig dreyma!!!

 12. Já Dóri, gott innlegg. Vil kannski aðeins útskýra betur hvað ég var í rauninni að eiga við með þessum skrifum. Ég kalla þetta slys af því að menn vanmátu klárlega andstæðinginn og komu inn á völlinn svo langt því frá að vera mótiveraðir eða ætla að leggja sig fram. Það kalla ég slys að því leiti að ég trúi því og treysti að menn læri af slysunum og passi að þau komi ekki fyrir aftur. Ég hef nú í gegnum tíðina reyndar frekar verið talinn of mikil Pollýanna heldur en hitt.

  Ég rek það svo áfram í pistlinum að ég get alveg fyrirgefið mönnum það að tapa leikjum, návígum eða hverju sem er. Ég get samt ekki fyrirgefið það þegar ég sé leikmenn á vellinum sem eru klárlega ekki að leggja sig fram. Það voru alltof margir slíkir (skilst mér á leikskýrslum og hjá þeim sem horfðu á leikinn) í þessum Havant leik.

  Ég er alveg sammála punktinum hjá þér með að við eigum ekki að einblína á eintóma neikvæðni, það skilar ekki af sér neinu góðu. Ég tel mig einmitt frekar jákvæðan þegar kemur að Liverpool og ég ætla mér að halda því áfram. Ég aftur á móti mun halda áfram að gagnrýna þegar ég tel svo eiga við. En annars, verðum sammála um að halda jákvæðri hugsun á lofti og vonandi kemst hún áfram til skila til leikmanna liðsins og sigrar og bikarlyftingar fara að verða algengur viðburður.

 13. Sá pistil þinn of seint Dóri, vildi endilega gefa komment á hann. Fyrir það fyrsta er ég alveg sammála þér að við verðum stundum of neikvæðir. Ég líka. Þurfum að passa okkur á þeim síðustu og verstu.
  Svo vill ég leggja það inn í umræðuna að ég vona að enginn okkar þurfi að biðjast velvirðingar á stafsetningarvillum eða skrifvillum. Ég vona að allir þori að gefa sín álit á þessari síðu og treysti því að enginn fari að tína spörð hér vegna slíkra hluta.
  Ég vona t.d. að nýir Íslendingar lesi þessa síðu og geri enga kröfu á að þeir kunni stafsetningu upp á 9,5 eða hærra. Við búum við mismunandi aðstæður í þessum málum og ég treysti umburðarlyndi okkar allra hér.

 14. Flottur pistill hjá SSteini og liðsuppstillingin raunsæ.. En þar sem ég vil ekki fótbrotna, hvorki á skíðum né hjóli þá vil ég Finnan í hægri og Arbeloa í vinstri. Nota bene ef hann er heill. Annars vil ég frekar Riise en Aurelio eftir framistöðu hans gegn Villa.
  Að vera að afsaka ásláttar- og/eða stafsetningarvillur er ástæðulaust og er ég Magga hjartanlega sammála í því efni. Dóri! Þitt innlegg er gott og þú þarft ekkert að afsaka þar. Skrifaðu bara meira og sem oftast 🙂
  Aðalatriðið er að í hjarta manna slái Liverpool hjarta og menn séu málefnlegir og standi heilir á bakvið RB og liðið.
  Þetta verður drulluerfiður leikur og verða okkar menn að girða sig í brók ef þeir ætla að vinna. Á hinu er enginn vafi að geta í liðinu er næg og því er þetta eins og SSteinn segir; spurning um hugarfar.
  Það sjá allir menn

  YNWA

 15. Takk fyrir frábæra upphitun og fína umræðu hér í ummælum. Er stoltur að vera partur af “genginu” hérna á kop.is þegar ég sé menn taka á gagnrýni eins og fullorðnir og með æðruleysi…. 🙂

  Annars brosti ég bara að punkti SStein um Havant “slysið”. Ég sá hluta af leiknum og veit nákvæmlega hvað hann á við. En ég skil Dóra og ég er alveg einn af þeim sem get tekið sumt af því sem hann sagði til mín. Ég er nefnilega eins og SSteinn. Þoli fátt jafn illa eins og þegar baráttuandinn er skillinn eftir í búningsklefanum… týndur og tröllum gefinn. Fær mig til að urra.

  En að leiknum. Ég verð að viðurkenna að ég er skíthræddur við þennan leik. Heimavallarformið hjá West Ham hefur verið með ágætum að ég held! Svo er mér bara meinilla við að mæta Bellamy og Neil. Ég hugsa að Bellamy sé með Carra og Co límda á búningskápinn hjá sér og kýlir í hurðina við hvert tækifæri sem gefst. Hann er bara nógu andskoti létt geggjaður til þess að vera búinn að ákveða að jarða Liverpool þegar þeir koma í heimsókn.

  En vonandi er þessi skrekkur í mér ástæðulaus. Vonandi vinnum við leikinn. Ég held að Alonso byrji inn á og það kæmi mér ekki á óvart ef Gerrard yrði á kantinum. Ég held að okkar menn verði að vera tilbúnir í smá hörku ef þeir ætla að eiga möguleika á morgun. Við verðum bara að fara að byrja að mæta þessari taktík andstæðinganna að spila fast á okkur til að setja menn út af laginu. Og þá er ekki nóg að bara nagli eins og JM sé til í slaginn. Allir sem einn verða að mæta órakaðir og eins og mannýgir tuddar í þennan leik til að eiga möguleika. Ef það verður ekki upp á teningnum þá komum við til með horfa upp á enn eitt jafnteflið eða það sem er verra…… tap!!

  Koma svo Liverpool……. Ekkert helvítis væl og negla hamrana kalda og skila þrem stigum í hús og hana nú!!

  1-3 fyrir Liverpool og málið dautt. Torres, Gerrard og Kuyt með mörkin. Já ég held að það sé komið að því. Kuyt fær hárin til að rísa annað kvöld.

  YNWA

 16. Mér skilst að West Ham ætli að stilla upp áhugamönnum til að slæva Liverpool-menn. Þeir haldi þá fyrirfram að leikurinn sé unninn, gerist af sjálfu sér. Síðna í leikhléi þegar þeir eru 2 mörkum yfir þá verði 3 sterkir
  varnarmenn settir inná.

 17. SSteinn, Arbeloa er meiddur og verður frá í einhverjar 2-3 vikur eins og fram kom í fréttum í síðustu viku…

  Sama gildir um Agger & Voronin…

 18. Áhugaverð pæling. Kom eggið eða hænan fyrst? 🙂
  Spila leikmenn illa útaf neikvæðni í stuðningsmönnum?
  Undanfarið hef ég verið sammála Manchester United manninum sem sagði að stjórnendur og leikmenn Liverpool hefðu ekki gert margt til að eiga skilið aðdáendur eins og Liverpool á.
  Þeir eru vandfundnir dyggari og bjartsýnni menn sem styðji liðið sitt lengur eða meir sama hvað tautar og raular í jafn stórum hópum og Liverpool-aðdáendur.
  Vonandi fer það að hafa meiri áhrif á leikmenn á næstunni og byrjar á morgun 🙂

 19. Já takk, SSteinn. Þetta átti ekki að virka sem árás á þínar skoðanir eða skrif í gegnum tíðina, mér finnst nær alltaf vel skrifað um liðið á þessari síðu. Notaði bara þenna punkt til að koma inná þessa umræðu sem á sér stað í ummælunum. Mér finnst stundum ummælin hér of harkaleg af liverpool mönnum að vera, má vera að áhangendur annara liða skrifi líka.
  Hvernig ætli það sé fyrir Kuyt að lesa ummæli þar sem hans eigin stuðningsmenn eru að drulla yfir hann leik eftir leik, veit að hann les ekki íslenska bloggið en við hljótum allir að bera ábyrgð. Kuyt fær nógu harða gagnrýni frá pressunni, við eigum að standa með honum og stappa í hann stálið.
  Intenetið og spjallsíður þess eru öflugt vopn en það þarf að nota það rétt. Kanski væri kuyt að spila betur ef við stuðningsmenn liverpool um allan heim værum að sífelt að styðja hann t.d. okey þú spilaðir ekki vel í dag en við höfum trú á þér, þú kemur til baka. Síðan verðum við að treysta Rafa fyrir því að taka ákvörðun hvenar Kuyt hefur fengið næg tækifæri en við eigum ekki að ákveða það, okkar hlutverk er að styðja leikmennina og liðið.

 20. Dóri, ég ætla að leyfa mér að fullyrða að stuðningsmenn Liverpool hafi þolað aulaskapinn í Kuyt aaaaaansi lengi áður en þeir byrjuðu að gagnrýna hann. Menn héldu varla vatni yfir honum fyrstu mánuðina.

  Ég skil alveg punktinn hjá þér, en mér finnst menn alls ekki hafa dæmt Kuyt of snemma.

 21. Ég bið þig innilegrar og margfaldrar afsökunar Mummi að hafa misst af þessari frétt um þessar 2-3 vikur hjá Arbeloa sem birtist í síðustu viku.

  Flott Dóri, við erum greinilega sammála um þetta. Þyrftum að beina hugarorku okkar að Steinþóri sem virðist þjakaður af neikvæðni þessa dagana 🙂 Steinþór, hefur þú almennt gaman að því að fylgjast með okkar mönnum?

  Friðþjófur, þú fannst leið framhjá því að fótbrotna, en gangi þér vel með slitna lærvöðva 😉

 22. Dóri í #15:
  Ég er sammála þér að þetta var ekkert slys gegn utandeildarliðinu. Leikmenn mættu bara svona til leiks rétt eins og undanfarinn mánuðinn og þá er í raun ekki við neinu öðru að búast en rugli. Hinsvegar kláruðu menn leikinn eftir að hafa farið úr bakkgír og varla svitnað við að ryðja þessu utandeildarliði úr vegi.

  Dóri í #15:
  Ég hreinlega get ekki séð hvernig neikvæðni stuðningsmanna hafi neitt með liðsuppstillingu eða taktík þjálfarans. Hún getur vissulega haft áhrif á leikmenn ef verið er að púa á þá stanslaust (sem ekki er gert á Anfield) en þessi yfirtaka hefur klárlega farið í leikmenn af því að þjálfarinn hefur verið úti að skíta og misst sinn “professional manner” og um leið hefur það smitast út í liðið. Ég vona samt að þessi spjallþráður um leikinn í kvöld verði ekki til þess að liðið tapi í kvöld 😀

  Eins og ég skynja málið að þá finnst mér að Rafa ætti að ráða til sín aðstoðarmann sem kann að peppa upp liðið og hjálpa honum við að koma því á réttan kjöl. Hann hefur átt í vandræðum með að sigrast á deildinni heima fyrir og skiljanlega ætti hann að ráða til sín aðstoðarmann sem veit eitthvað um boltann í Englandi og deilt hugmyndum með honum. Það er ljóst að ef Rafa ætlar að lifa af þetta starf sitt sem hann elskar, þá þarf hann að taka upp einhverja aðra nálgun á ensku deildina.

  Ég spái jafntefli í kvöld.

 23. Jæja SSteinn 😉 Ein breyting í viðbót. Mascherano er í leikbanni í kvöld þar sem hann er búin að ná sér í of mörg gul spjöld.

 24. Neikvæð umfjöllun um leikmenn, þjálfarann og klúbbinn sjálfan meðal stuðningsmanna Liverpool á vefmiðlum víðsvegar um heim hefur áhrif á leikmenn liðsins og þeirra sjálfstraust. þó þetta séu atvinnumenn þá kíkja þeir á netið eins og aðrir og eru forvitnir um það hvað stuðningsmennirnir eru að segja. Sífelld neikvæð umræða hefur slæm áhrif á leikmenn, gerir þá örvæntingafulla og sviptir þá leikgleði meðan jákvæð umræða eflir leikgleði og bætir liðsandann. Ég er alls ekki að segja að svona hafi umræðan verið hérna, langt því frá. Heldur er ég bara að tala um hvernig mér finnst að umræðan ætti að vera yfir höfuð og þó svo að áhangendur Liverpool séu ekki að baula á leikmenn meðan þeir eru inn á vellinum þá er samt “baulað” á þá eftir leiki í skúmaskotum hér og þar og það neikvæða andrúmsloft skilar sér að einhverju leiti til þeirra. Spurning um að reyna að taka “secret” á þetta.
  Eikifr #29 talar um að Rafa þurfi að fá einhvern með sér sem kann að peppa liðið upp. Ég veit ekki nkl. hvað Rafa sagði við leikmenn í hálfleik gegn Milan 2005 og West Ham 2006 en held að það hafi verið helvíti gott pepp. Er samt sammála þér með það að hann þarf að finna einhverja aðra nálgun á ensku deildina

 25. já og eitt enn. Mig langar rosalega að sjá Lucas með Gerrard á miðjunni.

 26. Liðið er komið: Reina, Finnan, Aurelio, Carra, Hyypia, Kewell, Benayoun, Gerrard, Alonso, Torres, Kuyt.

Momo til Juve að klárast (STAÐFEST: Momo seldur)

Myndir af keppnistreyjum næsta tímabils komnar á netið: