Breytingar á blogginu – nýjir Pennar

Eins og lesendur síðunnar tóku eftir fórum við af stað með leit að nýjum bloggurum fyrir síðuna í síðustu viku. Viðbrögð fólks voru mjög góð, við fengum slatta af umsóknum og úr nægu úrvali var að velja. Nú er þessu ferli lokið öllu saman og það gleður mig að tilkynna að frá og með deginum í dag eru **þrír nýjir Liverpool-bloggarar** mættir á síðuna!

Þetta eru þeir:
Doddi Jónsson, bókasafnsfræðingur á Norðurlandinu.
Siguróli Teitsson, ungur Hríseyingur sem stundar nám í Reykjavík.
Magnús Þór Jónsson, skólastjóri og knattspyrnuþjálfari sem býr á Hellissandi.

Þessir þrír einstaklingar, sem allir hafa lesið síðuna og tekið þátt í umræðum í lengri tíma, eru að okkar mati mjög góð viðbót við það sem fyrir var á þessari síðu og við viljum bjóða þá velkomna á síðuna!

Þið getið farið á einstaklingssíður þeirra hér að ofan til að lesa frekar um hvern þeirra.

Þá að aðeins öðru. Mér finnst rétt að við útskýrum aðeins nánar hvers vegna við fórum í þessa fjölgun á pennum á síðunni, nú þegar umsóknartíminn er búinn og búið er að bæta við. Eins og þið lesendurnir vitið stofnaði ég þessa síðu ásamt Einari Erni og við tveir höfum rekið hana frá byrjun, verið “kóngarnir” eins og SSteinn myndi orða það. Síðustu misseri höfum við hins vegar fylgst hálf máttlausir með ákveðinni þróun á síðunni sem við höfum vart getað stöðvað og er að okkar mati síðunni til vansa.

Málið er það að okkur þykir vera farið að bera svolítið á því að fólk persónugeri þessa síðu í okkur tveimur, svo að oft vill fólk frekar ræða okkur sem persónur í stað þess að ræða málefni Liverpool, sem er einmitt ekki það sem við viljum að gerist. Þegar við stofnuðum þessa síðu hugsuðum við okkur hana sem vettvang fyrir hreinar, skoðanaglaðar og skemmtilegar Liverpool-umræður, þannig að fyrir stuttu fannst okkur við standa frammi fyrir ákveðnu vali; við eða síðan. Við völdum síðuna og því var eftirfarandi ákvörðun tekin:

Við tveir ætlum að draga okkur eilítið í hlé frá síðunni, upp að vissu marki. Um leið og þrír kraftmiklir pennar koma inn og setja mark sitt á síðuna, ætlum við Einar Örn að stíga skref til baka og minnka bæði okkar pistlaskrif og þátttöku í umræðum á síðunni. Þetta teljum við okkur vera að gera síðunnar vegna, því það er ofar öllu í okkar huga að þetta verði áfram staður þar sem fólk getur rætt uppáhalds liðið sitt, Liverpool FC. Það er ekki þar með sagt að við séum að hætta, fjarri því. Við munum áfram blogga og kommenta þegar okkur sýnist, en við munum reyna að halda því innan ákveðinna marka, bæði til að gefa hinum bloggurunum rúm til að gera þessa síðu að sínum vettvangi og eins til að gefa lesendum frí frá “kóngunum”. Þetta teljum við að verði síðunni bara til tekna þegar fram líða stundir.

Önnur breyting sem þið lesendurnir munið ekki finna eins mikið fyrir er sú að við Einar Örn höfum tekið að okkur þá stöðu að vera ritstjórar Liverpool Bloggsins. Þetta þýðir í raun að þótt við minnkum aðeins skrif okkar, þátttöku og sýnileika á síðunni munum við áfram stjórna henni af sama áhuga og krafti og við höfum gert í núna þrjú og hálft ár. Við munum lesa öll ummæli og ritskoða það sem okkur finnst ekki við hæfi, auk þess sem við munum hjálpa hinum bloggurunum með það sem þeir kynnu að þarfnast af stjórnendum síðunnar.

Sem sagt, við Einar Örn erum hérna ennþá og munum skjóta upp kollinum með færslur af og til, en þetta er ekki okkar persónulega vefsíða heldur **ykkar** vefsíða og það er fyrir mestu. Aggi, SSteinn, Olli, Doddi og Maggi, let’s get ready to rumble …

Fyrir hönd ritstjórnar Liverpool Bloggsins 🙂 ,
Kristján Atli Ragnarsson.

35 Comments

 1. Hélt að ykkur væri illa við alla moggabloggara m.v. ummæli sem ég hef séð bæði hér og á eoe.is

 2. Ef það skiptir einhverju þá er ég það líka…:)
  (sko meinilla við bróðurpart svokallaðara moggabloggara)

  En ég bíð allavega hið nýja tríó velkomið til leiks.

  p.s. KAR smá drama í þessu hjá þér?, hvet ykkur til að halda bara áfram að reka við og rífa kjaft hérna inni. Það er ekki hægt að fá svona stóran hóp til að ræða Liverpool án þess að það verði togstreita. Skoðanaskipti um Liverpool á Liverpool blogginu er ekki einhvað sem maður þarf að taka inn á sig persónulega.

  YNWA

 3. Það er alveg rétt að sumir verða alltaf voðalega móðgaðir ef stjórnendur síðunnar gagnrýna eitthvað sem þeir segja en finnst það samt engin ástæða fyrir þá að minnka við sig í skrifum á þessa síðu. Það verða alltaf einhverjir sauðir í opnum kommentakerfum sem vilja fara í einhvern persónulegan sandkassaleik en það er engin ástæða til að taka svoleiðis eitthvað inn á sig. Ef það færi fram skoðunarkönnun þá myndi ég giska á að 99% væru ákaflega ánægð með störf síðustjórnenda.

 4. Velkomnir nýir bloggarar, verið málefnalegir eins og þeir sem fyrir eru.

 5. Tek undir með Babu, smá drama í gangi? Þetta hefur orðið persónulegt á köflum, ég og Einar “vinur minn” þar ofarlega, en ég vil nú meina að þið eigið ykkar sök þar líka….ekki eingöngu, alls ekki, heldur eruð þið ekki alveg stikk frí af þeirri ábyrgð. Ég tek þó undir með öðrum hérna að ég vil alls ekki að þið dragið ykkur of mikið til hlés. Það er ástæða fyrir því að fólk kemur hingað inn og þar eigið þið stæstan þátt og mikin heiður og þakkir skyldar fyrir vikið.

  En nýja bloggara vil ég bjóða velkomna og óska velfarnaðar í skrifum. Án þess þó að ég vilji segja þeim hvernig þeir eigi að skrifa eða ég sé að reyna stýra skrifum þeirra á einhvern hátt, þá vil ég samt benda þeim á að þetta er bloggsíða og þar á maður að segja sínar skoðanir. Ef maður er ósáttur eða ósamála einhverju, þá segir maður það. Allt í lagi að vera bjartsýnn og jákvæður, en of mikil pólýanna er mjög leiðinleg að mér finnst.
  …þarna var ég bara að segja mína skoðun, after all, þá er þetta bloggsíða 😛

 6. Býð þá velkomna og þá sérstaklega Magga:) Ávalt gaman að fá KS-ing til að skrifa;)

  Velkomnir:)

 7. Mér finnst að fólk eigi ekki að segja sína skoðun – heldur segja mína skoðun. Annars tek ég því persónulega og verð brjálaður. Og hafiði það! 🙂 Annars velkomnir nýju bloggarar – og endilega ekki draga ykkur of mikið út, Kristján Atli og Einar…

 8. Skoðanaskipti um Liverpool á Liverpool blogginu er ekki einhvað sem maður þarf að taka inn á sig persónulega.

  Nei, en þegar ég er kallaður hrokafullur hálfviti þá tek ég það persónulega.

  Annars munum við Kristján ræða betur þessa stefnu sem sumir umræðuþræðir hafa tekið að undanförnu eftir 2-3 vikur. Við erum með ákveðnar hugmyndir um það hvernig við munum taka á því.

  En þessi færsla snýst um að bjóða nýja bloggara velkomna. Þeir munu sjá um upphitun og leikskýrslu fyrir Everton leikinn. Vonandi færa þeir liðinu aðeins meiri heppni en ég hef gert með undanförnum leikskýrslum.

 9. Þetta snýst ekki um drama eða að taka hlutunum persónulega. Ég get alveg tekið því sem um mig er sagt hérna á síðunni og líður ekkert sérstaklega illa fyrir. Málið er hins vegar að þegar verið er að persónugera síðuna í okkur er verið að beina umræðunni frá Liverpool FC, og það viljum við ekki.

  Allavega, þá erum við ekki að hætta, bara minnka örlítið við okkur. Þannig að heitir aðdáendur okkar (eins og Benni Jón, til dæmis) þurfa ekki að fá nein fráhvarfseinkenni. 🙂

  En já, tek undir með Einari. Ég vona að Maggi reynist í upphitun sinni á morgun sannspárri en ég hef verið í mínum upphitunum í gegnum tíðina, og ég vona að Olli sé meira leikskýrslulukkudýr en jafntefliströllið Einar. 🙂

 10. Velkomnir drengir á síðuna “okkar”. Það hefur verið fínn klassi á síðunni og vonandi standiði undir því.

 11. Ég segi bara … velkomnir nýir pennar!

  Verð að viðurkenna að mér finnst það afar leiðinleg tíðindi Kristján Atli ef þú ætlar að fara draga saman seglin í þínum skrifum. Þú og SSteinn eru mínir uppáhalds Liverpool pennar…… (Ásamt Paul Tomkins ..:-))

  Ég er þeirrar skoðunar að ef þið ætlið strákar (Einar og Kristján) að fara að setja mikið af reglum og koma “meiri böndum” á bloggið. Þá getur það leitt til að heimsóknum fækkar á Liverpool-bloggið. Og ég er viss um að það er ekki ykkar markmið. En þetta er bara mín skoðun.

  En best að vera ekkert að gráta!! Og sjá hvað býr í nýjum skrifurum. 🙂

  YNWA

 12. Velkomnir 9 bloggarar.Gaman verður að sjá ykkar uppstillingu á morgun.Eins og Einar benti á þá er leiðinlegt að taka við því ef einhver kallar hann eða aðra hálfvita.’Eg reyni að forðast það að nota þannig orð og fleiri ættu að gera það líka.Látum ekki skapið hlaupa með okkur í gönur, þótt liðið okkar spili ekki vel.Þeir rauðu vinna á morgun:Bíð spennnnnnnnnnntur.Áfram LIVERPOOOOOOOOOOOOOOOL

 13. Fjúkk Kristján, fráhvarfseinkennin voru nefnilega farin að láta á sér kræla 😀

 14. Velkomnir drengir… loksins erum við Magnúsarnir komnir í meirihluta. Heimsyfirráð eru í nánd…. og mæli með þessari mynd: Magnús.

 15. Það er hægt að finna ansi skrautlegar samsæriskenningar á netinu en ég vil segja ykkur að alheimssamsæri Magnúsa þessa heims ku allt vera satt. “Be very afraid!”

 16. Reikna ég ekki rétt? Er elstur og þar af leiðandi manna gleymnastur? 🙂

  Tekst glaður á við þetta verkefni og hlakka til samstarfs við heimsyfirráðagauranna, og allra hinna auðvitað. Stend vonandi undir pressunni, sem er mikil, og tek glaður á móti allri krítík.

  Áfram Liverpool – ég er ekki hræddur, ég er bara spenntur.

 17. Alltaf gaman að fá nýja Liverpool bloggara, ekkert að því að fá smá ferskt blóð! 😉 Ég býð bara strákana velkomna og ég hlakka til að lesa pistlana þeirra.
  Annars þá er ég samt líka voða glöð að þið Stjáni og Einar séu ekki að hætta heldur bara að draga ykkur pínu í hlé. Það væri skelfilegt ef þið mynduð hætta alveg! 🙂

 18. Velkomnir til leiks félagar. Alltaf gaman að fá nýjar víddir inn í svona blogg og er ég sannfærður um að þessi síða muni halda áfram að rísa mjög hratt með ykkur innanborðs.

 19. Ég held að ykkar persónur hafi blandast í málið af því að efst á síðunni eruð þið með tengla á ykkar persónulegu síður, og slóðin á þetta liverpool blogg er eoe.is – hugsanlega ætti að kaupa nýja slóð? Þið persónugerið þannig síðuna á vissan hátt.

  Einnig hefur mér fundist þið býsna sammála um málefni og ekki alltaf (þó þið gerið það yfirleitt) taka umræðu frá þeim sem eru ósammála vel eða málefnalega, þá er ég sérstaklega með umræðuna um Rafa og hans ákvarðanir í huga. Þið hafið uppnefnt marga sem ekki eru sammála ykkur og Rafa, stundum er betra að anda með nefinu ef maður ritstýrir síðu og taka skoðunum annarra með jafnaðargeði.

 20. “Þið hafið uppnefnt marga sem ekki eru sammála ykkur og Rafa…”

  Fyrirgefðu, en þetta er einfaldlega rangt. Við höfum svarað fólki sem við erum ósammála, enda er það kjarni góðrar umræðu, en ég skora á þig að finna svo mikið sem EITT dæmi um það hvar ég eða Einar uppnefnum fólk fyrir að voga sér að vera okkur ósammála.

 21. Kæri Kristján,
  flettu upp j-reglunum. Bókmenntafræðingur sem skrifar nýjir nær ekki miklu flugi á ritvellinum.

 22. Og nota bene, til hamingju, þetta er í FYRSTA SKIPTI sem ég svara einhverjum á þessari bloggsíðu með ónotum og/eða dónaskap. En þú átt það fyllilega skilið.

 23. Þarna Kristján er hægt að benda á eitt dæmi þar sem þú uppnefnir mann:P
  …en öllu gríni slepptu þá finnst mér þú nú bregðast full harkalega við annars mjög saklausum ummælum Atla, en ekki það að mér sé svo sem ekki nokk sama:)

  En ég er samt mjög sammála Birni hér að ofan. Hvernig þið standið alltaf saman og bakkið hvern annan upp, og nb aðeins tekur maður eftir þessu þegar þið eruð að reyna verja gagnrýni á Rafa eða liðið.

  En hey, ykkar síða og ykkar reglur.

 24. mjög saklausum ummælum Atla

  Er það mjög saklaust þegar að maður, sem aldrei hefur kommentað áður, notar fyrsta tækifæri sitt til að gera lítið úr námi Kristjáns og framavonum hans tengdu því námi?

  Mér fannst þetta svo dónalegt að ég vissi vart hvernig átti að svara þessu. Það er í lagi að benda á stafsetningarvillur, en þegar eina framlag manna á þessari síðu eru svona meinfýsnisleg komment sem gera um leið lítið úr þeim sem skrifar, þá er nóg komið.

  (Og já, Kristján Atli og ég erum oft sammála um Liverpool, til hamingju með að hafa uppgötvað það.)

 25. Enn eitt dæmið þegar þið hoppið til að verja hvorn annan…til lukku með að sýna það svart á hvítu það sem verið að er tala um hér.

  Fyrsta komment eða ekki, það var ekkert að þessu. Ekkert dónalegt og í versta falli létt skot á rithöfundinn. Þið báðir(og margir aðrir auðvitað) hafið gert ykkur seka um mun verri hluti en þetta saklausa komment.

  Ég meina þetta á eins góðan hátt og mögulega hægt er, en þetta lítur svolítið út eins og þið getið leyft ykkur að segja og gera hvað sem er en ef það er skotið á ykkur, þó ekki sé nema fisléttum skotum eins og þessum, þá er allt vitlaust, enda eiga “kóngarnir” tveir að vera ósnertanlegir. ….shit hvað ég fæ örugglega mikið stick frá ykkur tveimur núna en hey, bara mín skoðun og mín tilfinning.

 26. djísús kræst hvað þú ert kominn í ruglið núna, Benni Jón. Það hefur verið einn aðall þessa bloggs að umræðurnar fara sjaldnast niður á hefðbundið, ömurlegt spjallborðaplan. Eitt dæmi um slíkar fávitaumræður er þegar menn reyna að slá sig til riddara á því að benda á stafsetningarvillur. Þetta var ekki einungis dæmi um það, heldur verið að fara enn neðar í ömurlegheitunum með því að gera stafsetningarvillukommentið persónulegt. Og þú heldur ruglinu gangandi með því að nýta tækifærið til að koma enn fleiri leiðindamálum í umræðuna.
  Vinsældir þessarar síðu eru eingöngu vegna þess frábæra starfs sem Kristján og Einar (ásamt hjálparkokkum) hafa unnið í gegnum tíðina. Því miður virðast vinsældirnar vera að verða til þess að sífellt fleiri nöldrarar, leiðindaseggir og rugludallar vaða hérna uppi.
  Og já – nú er ég líka kominn í röflið, ruglið og leiðindin, en ég gat bara ekki orða bundist í þetta sinn.

 27. Hvað meinarðu? Fannst þér þetta í alvöru svona rosalegt það sem Atli sagði? Hann sagði í raun ekkert, bara létt skot á Kristján Atla sem allir(í það minnsta vel felstir) fullorðnir menn kippa sér lítið upp við, enda leit þetta klárlega út sem meira grín en alvara.

  Ég varð hálf móðgaður um daginn þegar Kristján Atli sagði að hann skildi ekki hvað mínir líkir nenntu að fylgjast með Liverpool sökum þunglyndis eftir leiki…þarna sakaði hann mig um þunglyndi(sem ég er svo langt frá því að þjást af) og ýjaði að því að ég ætti ekki að fylgjast með Liverpool sökum þess…vitandi hvaða áhuga ég hef á þessu og hvaða tíma og vinnu ég legg í þetta. Þarna var hrein og bein móðgun sem tók mig ca 5min að komast yfir og ég erfi ekki í dag, enda hálf kjánalegt. Þar var þó smá ástæða, en hér er EKKERT.

  En útskýrðu fyrir mér hvernig þetta er rugl, þú gerir það ekki áðan og ég vil endilega fá góða greiningu á því….því fyrir mér er þetta deginum ljósara. Kommentið hjá Atla var lítið skot og þeir félagar bakka hvorn anna upp hægri vinstri…þetta er það sem ég var að segja(og einar játaði því seinna enda annað erfitt)…hvar er ruglið minn kæri kiddi?

 28. Ruglið er þetta: Hér er Liverpool-blogg, þar sem verið er fjalla um sameiginlegt áhugamál okkar, Liverpool-liðið. Menn spjalla um það hægri vinstri, mismunandi skoðanir, mjög gaman. En hvað er verið að ræða hér? Stafsetningarvillur, hversu sorglegt það er að benda á þær, hversu skrýtið það sé að einhverjum finnist það sorglegt að verið sé að benda á stafsetningarvillur og það svo notað til að draga upp eitthvert gamalt tuð um stjórnendur síðunnar.
  Er þetta Liverpool-bloggið eins og þú vilt hafa það?

 29. Benni Jón
  Af hverju snýrðu þér bara ekki að bloggsíðum sem snúast um nöldur og rifrildi? Hér eru menn að skiptast á skoðunum um Liverpool og flestir á góðu nótunum en þín skrif hér eru bara leiðinleg og gerð til þess að ergja venjulega lesendur. Tjáðu þig um Liverpool og það mun enginn amast út í það í stað þess að nöldra yfir skoðunum annarra. Og hvað er að því að bakka hvern annan upp þegar menn eru með svona barnaleg komment eins og Atli?

  koma svo Áfram Liverpool

 30. Benni Jón, hættu að ljúga upp á mig setningar. Ég ávarpaði þig aldrei persónulega heldur sagði ég almennt:

  “Síst af öllu daginn eftir útisigur gegn Everton. Þið sem sjáið svart í dag (og í gær) eftir slíkan leik verðið að spyrja ykkur til hvers í ósköpunum þið séuð að fylgjast með Liverpool FC, eða fótbolta yfirleitt, fyrst það færir ykkur svona litla gleði að sjá liðið ykkar vinna?”

  Orðrétt. Hvergi minnst á þig persónulega, hvergi minnst á þunglyndi, hvergi farið í nein nafnaköll. Bara borin fram einföld spurning sem enginn hefur enn tekið að sér að svara.

  Viltu ekki bara fara að hætta þessu þrasi. Þú svaraðir Einari og mér hér að ofan fullum hálsi og svo var engu líkara en að það hlakkaði í þér þegar þú sagðir, “shit hvað ég fæ örugglega mikið stick frá ykkur tveimur núna en hey, bara mín skoðun og mín tilfinning”. Þess í stað mætti þér þögnin frá okkur Einari, sem erum hættir að bíta á agnið og farnir að sjá í gegnum þessa athyglissýki hjá þér (hey, þarna sakaði ég þig um eitthvað sem þú getur móðgast yfir) en í staðinn virtust óháðir lesendur síðunnar hafa fengið nóg. Þar með fór “kóngarnir standa saman”-kenningin þín líka, fyrst “þegnarnir” eru farnir að verja “kóngana”.

  Ég er hættur að ræða þetta. Þú mátt svara þessu eins og þér sýnist, færð engin frekari svör frá mér í þessum þræði, né heldur menn eins og Atli sem hafa bara skrifað þessi einu ummæli á síðuna og gátu ekki hugsað sér að nota sín einu ummæli í neitt betra en að gera lítið úr minni menntun. Þér þykir það kannski léttvægt en ekki mér. Það má alveg gera grín að mér, ég tek sjálfan mig ekki það hátíðlega, en það er munur á léttu gríni og dónaskap.

  Læt hér staðar numið í þessari umræðu.

 31. Við erum nú góðir félagar Benni, en ég er alveg hættur að skilja í hvaða herför þú ert gagnvart þeim Einari Erni og Kristjáni Atla. Þú notar hvert eitt og einasta tækifæri sem gefst til að koma á þá höggi. Er alveg hættur að skilja hvað þér gengur til með þessu öllu saman.

 32. Eru menn almennt sammála um að þessi ummæli Atla séu svona svakalega slæm? Í alvöru???

  En Árni minn ég get alveg tekið undir það með þér að auðvitað á að ræða fótbolta hérna, og það geri ég og held að ég sé nú alltaf frekar málefnanlegur þó “kóngarnir” séu ekki alltaf sammála skrifum mínum. Ég er mjög jákvæður um liðið og fyrir alla leiki þó það sé erfitt að lesa það útúr skrifum mínum hér…enda notar maður þennan vettvang til að skrifa um það sem maður er óhress með og er allt of latur við að skrifa um það sem maður er ánægður með, sjálfsagt útaf því að það liggur ekkert á manni þannig.

  Ég get tekið það fram nú, og hef gert marg oft áður, þessi síða er mjög góð og eiga þeir kóngar bestu þakkir skyldar fyrir þessa síðu. Kristján er frábær penni sem setur sitt mál lang oftast mjög vel og málefnanlega fram…þó ég sé oft ósammála honum, enda ekkert að því. Einar er sömuleiðis ágætis penni þó hann sé ekki í sama klassa og Kristján(andskotinn hafi það, Kristján er rithöfundur og því eðlilegt að menn séu ekki í sama klassa og hann:)) Ég hef alls ekkert á móti þeim persónulega, þekki Kristján lítillega en Einar ekki neitt. Þó þeir viti af mér og hver ég er, þá þekkja þeir mig auðvitað lítið sem ekkert heldur persónulega.

  Mér finnst þeir oft taka gagnrýni illa og heimfæra “bullið” yfir á okkur sem reynum að gagnrýna liðið málefnanlega. Þetta er eitthvað sem mér finnst að þeir verði að breyta. Ég veit nefnilega að ég hef í kjölfarið tekið þetta stiginu lengra og er það miður. Þetta er ákveðin pirringur sem hefur aukist jafnt og þétt undanfarið, sjálfsagt hjá báðum aðilum. Ég skal taka mig á, en mér þætti líka þá vænt um að við sem reynum að gagnrýna málefnanlega séum ekki stimplaðir sem þunglyndissjúklingar eða ýjað að því að við ættum ekki að eyða tíma okkar í þetta. Það fer mjög í mig.

  PS: þetta kóngatal mitt er bara sett fram í gríni og ekekrt illa meint á ykkur KÓNGANA 😉

 33. Kristján, þessi ummæli þín komu í kjölfarið á umræðum okkar á milli…auðvitað passaðirðu þig á að segja þetta ekki beint við mig, en maður þarf nú ekkert að vera eldflaugasérfræðingur til að sjá að þetta var ætlað mér og Kjartani(og sjálfsagt öðrum líka). En eins og ég sagði, ég móðgaðist aðeins, í ca 5 min, en ekkert alvarlegra en það. Hitt með kommentið hans Atla finnst mér allt of mikill tittlingaskítur til að búa til svona drama. Þetta athyglissýkisskot þitt var álíka “slæmt” og skotið hans Atla, tittlingaskítur sem maður spáir nú lítið í.

  En mér finnst ótrúlegt að ég sé kominn í þá stöðu að verja skrif einhvers annars hérna sem ég þekki ekki neitt. Mér fannst þetta ekki vera neitt neitt, en ykkur fannst þetta argasti dónaskapur…eigum við ekki bara að láta þar við sitja?

  Steini: Eins og ég sagði áðan, ég held að þetta sé einhver pirringur sem hefur undið uppá sig undanfarið og náð hámarki núna. Sjálfsagt útaf því hve neikvæður og þunglyndur maður er talinn fyrir að finnast liðið spila lélegan sóknarbolta. Þú ert nú einn af þeim sem getur vitnað fyrir að ég hef mjög gaman af Liverpool leikjum og er langt frá því að vera haldin einhverju þunglyndi…en sóknartilburðir okkar finnst mér samt sem áður grátlega máttlausir oft á tíðum…og það meira að segja leiðinlega oft!

  Held samt að menn ættu að snúa sér meira að fótboltanum og taka upp þá reglu að virða náungan…þetta er ekki síður beint til mín en Kristjáns, Einars eða einhvers annars “þegns” 😉

Drogba og van Persie

Upphitun – baráttan um borgina.