Reading á morgun!

Eftir frekar góða viku hjá okkar mönnum verður forvitnilegt að sjá hvaða úrslit helgin ber í skauti sér. Það hefur oft viljað loða við lið Rafa Benítez að geta lyft sér upp á hærra plan í Meistaradeildinni og í stærri leikjum en svo tapað óvænt fyrir “lakari” liðum. Eftir sigra á Arsenal og PSV mun liðið mæta nýliðum Reading á morgun, á útivelli, og nú ríður á að halda góða forminu áfram.

Reading eru eins og menn vita nýliðar í deildinni í ár en þeim hefur gengið framar vonum að festa sig í sæti í deildinni. Fyrir helgina eru þeir með 44 stig eftir þrjátíu og eina umferð, þrettán stigum minna en okkar menn, og sitja í áttunda sæti deildarinnar.

Við Íslendingar þekkjum Reading-liðið líka nokkuð vel af sérstakri ástæðu, en hjá liðinu leika þeir Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson. Eftir því sem ég best veit eru Reading-lið með allt að því heilt lið á morgun og því getum við búist við því að Ívar byrji sem fyrr inná en Brynjar Björn verði á bekknum. Þeirra hættulegustu menn eru eflaust sóknarmennirnir Leroy Lita, Kevin Doyle og Stephen Hunt sem hafa verið sprækir í vetur.

Okkar menn mættu Reading tvisvar í haust í kringum mánaðarmótin okt/nóv. Fyrst unnum við 4-3 sigur á þeim á Anfield í Deildarbikarnum, svo tveimur vikum síðar unnum við 2-0 sigur á Anfield í deildinni. Í það skiptið skoraði Dirk Kuyt bæði mörkin en miðað við spilamennsku hans nýlega verður að teljast ólíklegt að hann endurtaki leikinn.

Það verður forvitnilegt að sjá byrjunarlið Rafa á morgun. Að öllu eðlilegu myndi hann hvíla fyrir leikinn gegn PSV á miðvikudag en vegna stórsigursins á útivelli þarf hann ekki að hafa sömu áhyggjur af því og ella. Þá kemur Momo Sissoko aftur inn í hópinn eftir leikbann og verður spennandi að sjá hvort hann veltir Javier Mascherano eða Xabi Alonso úr sessi á morgun.

Ég ætla að spá því að Steven Gerrard verði á miðjunni á morgun og að við spilum svipaða taktík og gegn Arsenal. Rétt eins og síðasta laugardag erum við að fara að mæta liði sem vill pressa menn og hafa boltann í fætur og því gæti skyndisóknataktík gengið upp. Gonzalez og Pennant koma aftur inn á kantana, Bellamy spilar fyrir Crouch og Sissoko byrjar inni í stað Mascherano.

Ég held að liðið verði svona:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Riise

Pennant – Alonso – Sissoko – Gonzalez
Gerrard
Bellamy

MÍN SPÁ: Eins og venjulega á útivelli í deildinni hef ég ákveðnar áhyggjur af getu liðsins til að lyfta sér upp á hærra plan gegn “lakari” liðum. Vandamálið er að, ólíkt t.d. Aston Villa sem voru steingeldir á eigin heimavelli fyrir mánuði þá er þetta Reading-lið fjörugt og mun refsa okkur fái þeir séns.

Ég ætla samt að vera bjartsýnn og spá því að hin mikla stemning sem hlýtur að ríkja í liðinu eftir þessa síðustu viku muni fleyta þeim áfram og við munum vinna 3-1 sigur í stórskemmtilegum leik.

Áfram Liverpool!

9 Comments

 1. Ég held að Rafa sé bara svona. Hann vill halda mönnum á tánum og er því alltaf að benda þeim á það sem þeir geta bætt. Maður hefur á tilfinningunni að ef hann fengi nýjan leikmann í liðið sem segði, “hæ Rafa, ég er Guð almáttugur og ég get ALLT betur en ALLIR,” myndi Rafa sennilega svara, “gott, velkominn, en þú þarft nýja klippingu.” 🙂

 2. Bara að benda á að Nicky Hunt er hjá Bolton, en þú ert líklega að tala um Stephen Hunt sem er vissulega hjá Reading 😉

  Annars fín upphitun og ég vona að góða formið haldi áfram hjá okkar mönnum!

 3. Hey, ef ég segi að Nicky Hunt sé hjá Reading þá er hann það! :tongue:

  Búinn að leiðrétta þetta. Helvítis heilinn í mér, meingallaður andskoti … :blush:

 4. HAHA, ég hló í alvöru upphátt þegar ég las þennan guð/klipping brandara þinn Kristján :laugh:

  En ég er bjartsýnn og spái stórsigri, 0-4. Pennant, Gonzales, Fowler og Kuyt með mörkin :biggrin2:

 5. Svo er Hafnfirðingurinn og fyrrum FH-ingurinn hann Gylfi Þór Sigurðsson einnig í Reading.

 6. Fyrri leikur liðana var alveg hund leiðinlegur. Það var vissulega ánægulegt að Kuyt skoraði tvö mörk en spilamenskan var hræðileg hjá báðum liðum. Hef trú á mun skemmtilegri leik á morgun. Held allir muni standa sig betur en í fyrri leinum nema Kuyt. Þetta verður Liverpool sigur. Spá, 1-2.

 7. Leikurinn fer 2-3. Ívar og Brilli með sitthvort markið og Bellamy skorar þrennu og fær rautt.

 8. Rautt fyrir tvö gul spjöld þá? Eitt fyrir að fagna með því að fara úr treyjunni og annað fyrir að stökkva til áhorfendanna? 🙂

Dúdúrúmmmm

Liðið gegn Reading