Föstudagsmolar

Það er föstudagur og venjulega værum við að skrifa upphitun fyrir hádegisleik á morgun. Getur verið að við höfum, utan leiksins við Chelsea fyrir mánuði, spilað alla deildarleiki okkar til þessa í hádeginu á laugardegi? Getur verið að það sé rangt hjá mér, en mig minnir það allavega.

En við eigum sem sagt leik á sunnudaginn við erkifjendurna í Man U og það eru ýmsar fréttir því tengdar. Síðast þegar liðin mættust í febrúar unnum við þá á Anfield í bikarnum, en höfum þó tapað öllum leikjum fyrir þeim á Old Trafford síðan Rafa Benítez tók við stjórninni. Í þessum leik í febrúar hlaut Alan Smith, leikmaður United hræðileg meiðsli og hefur verið frá síðan. Hann tjáir sig um þessi meiðsli og segir starfslið Liverpool á Anfield hafa bjargað ferli sínum með skjótum viðbrögðum. Fróðlegt viðtal og gaman að sjá að hann er að komast á ról aftur – þeir eru erkifjendur okkar en það er sama hvort þeir heita Smith eða Petr Cech, maður óskar engum að lenda í jafn alvarlegum meiðslum og þessir tveir hafa lent í.

Talandi um meiðsli, þá eru Gerrard, Agger og ALLIR AÐRIR heilir heilsu hjá okkar mönnum fyrir leikinn á sunnudaginn og Rafa er skiljanlega fullur sjálfstrausts í kjölfarið.

Þó er einn sem er kannski ekki jafn fullur sjálfstrausts fyrir helgina. Peter Crouch getur nefnilega engan veginn verið viss um að sigurmark hans á miðvikudaginn tryggi honum sæti í næsta leik, þar sem Rafa hefur verið nokkuð miskunnarlaus í róteringu sinni á framherjunum sínum fjórum. En þótt ég sé fylgjandi þeirri stefnu Rafa að rótera mönnum og halda öllum ferskum út tímabilið þá er ég á þeirri skoðun að Peter Crouch eigi að vera fyrsta nafnið á leikskýrsluna hjá okkar mönnum á sunnudaginn. Skoðið bara ástæðurnar:

* Við unnum síðasta leik gegn United 1-0 á Anfield. Sigurmarkið skoraði … Peter Crouch.
* Síðast þegar við spiluðum útileik í deildinni töpuðum við fyrir Bolton, 0-2. Í leiknum þar á undan hafði Crouch farið á kostum og skorað tvö glæsimörk gegn Galatasaray í Meistaradeildinni, en var samt á bekknum gegn Bolton.
* Crouch skoraði sigurmarkið í síðasta leik okkar, gegn Bordeaux í Meistaradeildinni fyrir tveimur dögum.
* Þegar Crouch var keyptur sagði Rafa að hann væri keyptur sérstaklega með erfiða útileiki í huga. Er ég sá eini sem er þeirrar skoðunar að útileikur gegn Man U sé með þeim erfiðari sem liðið okkar lendir í?
* Liðið hefur tapað þremur útileikjum til þessa (Everton, Chelsea, Bolton) og rétt sloppið með jafntefli í þeim fjórða (Sheff Utd). Af þessum fjórum útileikjum í deildinni hefur Crouch aðeins byrjað inná í einum, gegn Everton, og var þar sjáanlega örþreyttur eftir að hafa spilað mikið með enska landsliðinu á dögunum áður.
* Hann hefur hins vegar byrjað inná í tveimur af þremur leikjum liðsins í Meistaradeildinni til þessa, gegn Maccabi Haifa og Bordeaux, og í þeim báðum skoraði hann eina mark liðsins. Hann var á bekknum gegn PSV á útivelli og sá leikur fór 0-0.
* Útileikir Liverpool: Maccabi Haifa, Sheffield United, Everton, PSV, Chelsea, Bolton, Bordeaux. Fyrir utan vítapsyrnu Robbie Fowler gegn Sheffield United ER PETER CROUCH EINI LEIKMAÐUR LIVERPOOL SEM HEFUR SKORAÐ Á ÚTIVELLI Á ÞESSU TÍMABILI!!!

Come on, Rafa, leyfðu risanum okkar að spila á sunnudaginn. Þú veist að hann á það skilið.

10 Comments

 1. Nákvæmlega, hann á það skilið sá stóri… auk þess hefur hann verið sjóðheitur með landsliðinu á Old Trafford – kann greinilega vel við sig þar !

 2. Ef við spilum 4-4-2 þá byrjar hann örugglega með Crouch og Kuyt saman frammi.
  Það þýðir alla vega ekki að hafa Crouch einan frammi… hann er hræðilegur sem einn framherji. Þá verður Kuyt ávallt á undan honum í byrjunarliðið.

  Annars held ég að Rafa spili 4-5-1:
  Reina
  Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise
  García – Sissoko – Alonso – Aurelio
  Gerrard
  Kuyt

  BEKKUR: Martin, Zenden, Pennant, Crouch og Agger.

  Persónulega myndi ég frekar vilja sjá Gonzalez í stað Zenden… já reyndar bara hvern sem er.

 3. Það væri ekkert annað en hrópleg ósanngirni gagnvart Crouch að leyfa honum ekki að byrja inn á. Allir leikir nema þessi Chelsea-leikur, svo var Blacburn um daginn á venjulegum tíma, var það ekki?

  Annars vil ég sjá þessu stillt svona upp á sunnudaginn:
  Reina
  Finnan-Carragher-Hyypia-Riise
  Gerrard-Alonso-Sissoko-Garcia
  Crouch-Bellamy

  Kuyt getur svo komið ferskur inn af bekknum í sinni hálfleik, kannski skorað eitt.

 4. Við mættum líka Newcastle á miðvudagskvöldi þegar Alonso skoraði frá eigin vallarhelmingi.

 5. Ég óska Alan Smith skjóts bata og vona að honum líði vel um helgina, líkamlega. Andlega hins vegar vona ég að hann og aðrir samstarfsaðilar hans upplifi mikla lægð u.þ.b. síðdegis á sunnudag. 😉

 6. Spiluðum við ekki við Blackburn á “eðlilegum” tíma síðasta laugardag í deildinni? :confused:

 7. Liv hefur ávalt staðið sig vel á móti(stóru)liðunum eins og chelsea (unnum góðgerðarsk,)en töpuðu fyrir þeim 1-o á þeirra velli og í gegnum tíðina haft tök á M U,en hafa átt í basli með(smærri)liðin ég held að liv vinni á sunnudaginn látum Rafa sjá um uppstillingu á liðinu ég held að hann viti betur en við það er alltaf talað um slæma uppstillingu ef við töpum en svo þegar við vinnum þá var allt frábært 🙂

Agger klár um helgina og Garcia vill framlengja dvölina hjá Liverpool.

Man U á morgun!