CISSÉ FÓTBROTINN AFTUR (uppfært)!

**Uppfært (Kristján Atli):** Það hefur núna komið í ljós að Cissé braut bein í hægri fæti í kvöld gegn Kína. Hann gekkst strax undir aðgerð á fætinum og þar var þetta staðfest. Raymond Domenech, landsliðsþjálfari Frakka, staðfesti að Cissé væri fótbrotinn og úr leik á HM. Skv. fréttum mun hann eyða næstu mánuðum í að jafna sig og reyna svo að snúa aftur einhvern tímann á næsta tímabili, en við verðum að bíða aðeins lengur eftir nákvæmari spá varðandi það *hvenær* hann snýr til baka.

Fréttin sem ég skrifaði áðan er hér fyrir neðan.**Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu!**


cisse_stretcher_china.jpg Skv. fréttum FÓTBROTNAÐI DJIBRIL CISSÉ í kvöld í æfingaleik Frakka og Kínverja. Samkvæmt frétt BBC brotnaði hann rétt fyrir ofan ökkla á hægri fætinum og var borinn af velli á 10. mínútunni. Eins og allir muna fótbrotnaði Cissé illa á VINSTRI fæti í október 2004, eða fyrir tæpum 20 mánuðum síðan.

Samkvæmt lýsingunum var hann á spretti eftir boltanum niður hægri kantinn á 10. mínútu, og lenti í léttu samstuði við andstæðing. Við það missti hann jafnvægið og datt, og hægri löppin varð undir honum með þeim afleiðingum að ökklinn beyglaðist undir fótinn og hann leggbrotnaði.

Þið getið séð myndband af þessu hjá Fótbolta.net. Eins og sést á endursýningunni í lok myndbandsins er þetta mjög slæmt brot, en fóturinn bognar á ekki ósvipaðan hátt og sá vinstri gerði gegn Blackurn fyrir 20 mánuðum!

Þetta eru náttúrulega skelfilegar fréttir fyrir alla aðila. Þetta þýðir beisiklí eftirfarandi:

1. Cissé greyið, sem virtist loksins vera búinn að vinna sér inn sæti í aðalliði Frakka, missir af HM sem hefst eftir innan við viku. Innan við viku! Og öll þessi vinna hans síðan hann hóf að leika aftur eftir fyrra fótbrotið er til einskis. Þar að auki munið þið að hann missti af EM 2004 vegna leikbanns sem hann fékk í U21-landsleik Frakka, þannig að þetta er annað stórmótið í röð sem hann missir af með sínu landsliði. Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu fáránlega illa Djib hlýtur að líða núna.

2. Cissé er ekki að fara frá Liverpool í sumar. Það kaupir hann enginn á meðan hann er frá í einhverja mánuði vegna fótbrots. Þetta hefur skelfilegar afleiðingar, bæði fyrir hann sjálfan og fyrir klúbbinn. Hann sjálfur á erfiðar stundir framundan, þar sem hann þarf að komast til heilsu fyrst og verða leikfær, og jafnvel þá er ekki líklegt að Rafa vilji nota hann mikið hjá Liverpool. Og fyrir Rafa eru þetta líka slæmar fréttir, af því að hann er hvorki með leikmanninn Cissé sem hann getur notað í haust, né peninginn fyrir söluna á leikmanninum Cissé. Með öðrum orðum, skyndilega er líklegt að við kaupum aðeins einn framherja í sumar, nema að Rafa lumi á meiri peningum en við höldum.

3. Marseille-menn *flugu til Liverpool í dag* til að semja um kaupin á Cissé. Þeir eru að setja miklar vonir undir að fá hann til sín, en það er ljóst að það er orðið að engu og þeir þurfa að endurskipuleggja sumarkaup sín.

En það er eiginlega sama hversu slæmar fréttir þetta er fyrir Marseille og Liverpool, þá verður það að segjast að þetta er algjörlega skítt fyrir Djib sjálfan. Í stað þess að vera að fara að spila sem byrjunarmaður með Frökkum í sumar, við hlið Thierry Henry, í baráttunni um Heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu, og fara svo annað hvort til Frakklandsmeistara Lyon og hefja þar langþráð samstarf við Gérard Houllier, eða fara til uppáhalds klúbbsins síns, Marseille, þarf hann nú aftur að bíða þolinmóður eftir að ná heilsu og svo reyna að vinna sig inn í plön Rafa enn á nýjan leik.

Ég get ekki annað en vorkennt honum núna, umfram allt. Hvað þetta þýðir fyrir Liverpool kemur í ljós, býst við að við fáum einhverjar tilvitnanir frá Rafa um málið strax í kvöld eða á morgun, en akkúrrat núna er minn hugur hjá Djibril Cissé. Hvað sem verður er hann ennþá Liverpool-leikmaður og verður það um einhverja nánustu framtíð. **Djib, gangi þér vel á bataveginum! Við munum klappa fyrir þér þegar þú spilar næst fyrir Liverpool!**

13 Comments

 1. Það er eitt jákvætt við þetta og það er að það eru meiri líkur á að hann verði áfram hjá Liverpool, jibbí;)

 2. Bros, ég sé ekkert jákvætt við þetta. Ekki einu sinni fyrir okkur Púllara. Rafa vill selja hann og því er þetta slæmt fyrir hann, auk þess sem hann gagnast okkur ekkert fótbrotinn. Þá hefði verið betra að leyfa honum að fara til Marseille, draumaliðsins síns, og hirða góðan pening fyrir sem hefðu farið í framherja sem hefði nýst okkur frá byrjun í haust.

  Ég sé bara nákvæmlega ekkert jákvætt við þetta, þú verður að fyrirgefa.

 3. Andskotans djöfulsins helvítis djöfulsins djöfull!! 😡 😡 😡 😡 😡 Þarna fór mín von um að við fengjum Fernando Torres eða einhvern “Grenivíkurglæsir” í framlínuna okkar! 😡 😡 😡 😡 😡

  Vonandi nær Cissé sér samt aftur burt séð frá öllum öðrum vangaveltum.

 4. hvað var hann lengi að ná sér af síðustu meiðslum?
  þetta lítur fyrir að vera einhvað svipað. og ætti að taka svipaðan tíma.. eru einhverjir möguleikar að hann verði komin af stað í Janúar þegar leikmannagluggin opnar aftur?

 5. Hólmar, hann brotnaði í október og var kominn aftur inná völlinn í maíbyrjun, eða tæpum sjö mánuðum síðar að mig minnir. Í það skiptið jafnaði hann sig miklu fyrr en fyrst hafði verið óttast. Spurningin er hins vegar hvort hann hafi sama hungur í að jafna sig núna.

  Menn á spjallborðunum virðast vera að óttast um feril hans í heild sinni. Hvernig rífur hann sig upp andlega eftir þetta áfall? Jafna menn sig eftir að hafa brotnað svona tvisvar, andlega séð?

  Hvað sem því líður held ég að við getum gleymt því að selja hann í janúar. Ef hann verður frá í einhverja 6-7 mánuði eins og síðast verður hann rétt að byrja að spila með varaliðinu um jólin, hvað þá að komast í liðið fyrir janúargluggann. Ef eitthvað þá gæti lið eins og Marseille kannski tekið hann að láni í janúar og út tímabilið, en ég efa það að við getum selt hann á því verði sem Rafa myndi vilja sjá fyrir hann svo stuttu eftir að hann byrjar að spila aftur.

  EF hann byrjar að spila aftur fyrir janúar, sem er alls óvíst ennþá.

  Annað sem menn verða að hafa í huga er að þetta brot lækkar verðmiðann á Cissé talsvert. Við keyptum hann á 14 milljónir og nú, tveimur árum síðar, vorum við að vonast eftir að fá kannski 8-10 milljónir fyrir hann. Hann hefur því lækkað um 4-6 milljónir í verði vegna tveggja hluta: fótbrotsins og óstöðugrar frammistöðu fyrir Liverpool.

  Eitt fótbrot enn hlýtur því að minnka verðið á honum um allavega 2-3 milljónir í viðbót. Þannig að ef við kannski seljum hann eftir ár gæti ég ímyndað mér að 4-6 milljónir séu sanngjarnt verð, allavega erfitt að ímynda sér klúbb borga meira fyrir mann sem hefur verið frá í rúmt ár af síðustu tveimur vegna fótbrots.

  Þannig að fjárhagslega séð eru þetta slæm tíðindi fyrir Liverpool, hvernig sem á það er litið.

 6. Þetta er hræðilegt.

  Skítt með allt tal um peninga fyrir Liverpool, ég bara vorkenni Cisse alveg gríðarlega. Óheppnari framherja er varla hægt að finna. EM, fyrra fótbrotið og nú þetta.

 7. Hugur minn er náttúrlega fyrst og fremst hjá Cissé. Er hægt að vera óheppnari? Ég gæti ekki einu sinni verið svo grófur að óska óvini mínum þetta, hvað þá liðsmanni Liverpool.

  Ég er einn af mörgum sem hefði viljað sjá framherja – toppframherja – koma í raðir okkar. Þessi óhjákvæmilegi tekjumissir (maður hálfskammast sín fyrir að segja þetta…) er erfiður já, en come on: Við erum að tala um Liverpool – við hljótum að geta keypt fyrir meiri pening núna heldur en í fyrra. Vona að Kætinn komi.

  Óska Djib alls hins besta!! Úff!

 8. vona að Cissé batni, greyið kallinn… munum bara að hann Warnock okkar er ekki búinn að brotna nema 3x og hann kemur alltaf aftur…

  áfram LFC alltaf allstaðar

 9. Og var það ekki Warnock líka sem fékk byssuskot í afturendann ? :laugh:

  Minnir endilega að hafa lesið frétt um að hann hefði verið á bar með félögum sínum í Liverpool borg og seinna meir verið skotinn í rassgatið.

  En þetta er alveg hræðilegt með Cisse. Bara það að sjá þessa mynd af honum í börunum fékk mig næstum til að fella tár, bókstaflega. Honum hlítur að líða ömurlega…… Allur minn hugur er hjá honum þessa daganna og ég vona að honum batni hið fyrsta og eigi góðan feril hjá Liverpool eða öðru liði í framtíðinni !

 10. Hrikalegt !
  En eins og sést greinilega á myndbandinu þá brotnar hann ekki við að detta heldur fær hann högg aftan á fótinn sem veldur brotinu svipað og á móti Blackburn.
  Svo er Kínverski gaurinn búinn að biðjast fyrirgefningar og sagði þetta hafa verið óviljaverk sem er örugglaga satt.
  En ég get ekki annað en hugsað er Cisse brothættari en gengur og gerist í boltanum ?

 11. Þetta eru hræðilegar fréttir fyrir Cisse og Liverpool. Vonandi kemur hann sterkur til baka. Varðandi andlega þáttinn veit ég ekki, tvö alvarleg fótbrot á tveimur árum er full mikið.

  Það sem gerir þetta meira svekkjandi (fyrir hann) er að Cisse var búinn að vinna sig inn í liðið hjá frökkum. Það er ekki hægt annað en að vorkenna kauða.

  Varðandi missi Liverpool þá er hann tvíþættur eins og nafni kemur inná.

  Fyrir það fyrsta þá erum við að missa leikmann sem var næst markahæstur Liverpoolmanna á tímabilinu í 7-9 mánaða meiðsli. Hann mun því ekkert spila fyrr en í fyrsta lagi í febrúar/mars jafnvel apríl.

  Svo er það hitt, Liverpool var við það að selja hann á 8-10 millj punda. Sá peningur hefði komið sér vel í sumar. Fyrir vikið er minni peningur til að kaupa leikmann/menn fyrir næsta tímabil. Ekki gleyma að Cisse er óánægður hjá félaginu og vill ólmur fara.

  Hvernig áhrif hefur þetta á móralinn á næsta tímili?

  Ég spyr eins og Hafliði er Cisse brothættari en aðrir leikmenn? Við erum ekki að tala um tveggja fóta tæklingar þegar hann brotnar. Hvað veldur því að hann brotnar svona ílla tvisvar?? Ekki segja mér að þetta sé bara óheppni.

  Krizzi

 12. Hræðilegar fréttir.

  Mér finnst einhvernveginn eins og dökkt ský sveimi yfir Liverpool í augnablikinu. Vonandi nær Cisse sér aftur á strik en hann verður aldrei stórstjarna hjá Liverpool það eitt er víst.

  Mér fannst einhvern veginn eins og hlutirnir væru farnir að brosa fyrir Cisse aftur – á leið til Marseille – byrjunarmaður í franska landsliðinu og kominn með sjálfstraust á ný.

  Þessu ótengt verð ég að segja að eitthvað finnst mér skrítið með þessi leikmannakaup. Bæði Gerrard og Rafa hljóta að hafa sett það sem skilyrði fyrir veru sinni áfram hjá félaginu að það yrðu keyptir heimsklassa leikmenn. Rafa gekk í gegnum tvo félagaskiptaglugga án þess að það gerðist og nú í vor vildi hann klára þessi mál fyrir HM.

  Ég sem fótboltasjúklingur og slúðuaðdáandi hefðu nú viljað að meira væri í gangi. Það er enginn alvöru maður linkaður við okkur og fullt af mönnum að detta inn í liðin sem við þykjumst ætla að keppa við á næsta tímabili.

  Vonandi koma jákvæðar fréttir frá Liverpool fljótlega.

  Áfram Liverpool!

Robbie um Carra

Rafa um Cissé (uppfært: nóvember)!