Juventus á Anfield á morgun!

Annað kvöld, þriðjudaginn 5. apríl 2005, mætir Liverpool FC Juventus frá Ítalíu í Evrópukeppni í fyrsta sinn síðan 29. maí 1985, fyrir 20 árum síðan. Eins og Einar fjallaði um í frábærum pistli í gær, þá eru auðvitað mikil sárindi og miklar tilfinningar hjá stuðningsmönnum og aðstandendum beggja liða eftir harmleikinn í Belgíu. Hins vegar held ég að þrátt fyrir tilfinningaþrungið andrúmsloft annað kvöld þá muni hvorugt liðið missa sjónar á aðalatriðinu – þetta er fyrri leikurinn í einvígi þessara liða í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, og auðvitað þarf vart að taka það fram að bæði liðin vilja fyrir alla muni komast í undanúrslit.

Á blaðamannafundi Liverpool fyrr í dag sátu þeir Rafa Benítez og Milan Baros fyrir svörum, og margt áhugavert kom fram. Baros hefur greinilega lært svartæknina af Rafa því hann ítrekaði oft að hann væri eingöngu að einbeita sér að því að vinna leikinn á morgun og hjálpa Liverpool að skora mörk, hvað svo sem Heysel-leiknum og Everton-einvíginu í deildinni líður. Hann fór fögrum orðum um Pavel Nedved, einn besta miðjumann í heiminum í dag, en sagðist munu leggja harðar að sér á morgun til að geta strítt honum eftir að Liverpool hafa slegið þá út. 😉

Rafa kom inná öllu merkilegri punkt. Þrátt fyrir að hafa nánast fullkomnað þá tækni að segja margt en í raun ekki neitt bitastætt þegar fréttamenn eru annars vegar, þá lét hann einn safaríkan bita falla í dag: Xabi Alonso verður á bekknum á morgun! Hann sagði að ef allt gengi að óskum á morgun myndum við ekki þarfnast hans, en það er engu að síður hughreystandi að vita að við getum kallað á spænska arkitektinn ef ske kynni…

Nú, hvað liðið á morgun varðar þá er þegar ljóst að tvær breytingar munu eiga sér stað: Jerzy Dudek kemur á ný inn í markið í stað hins unga en óreynda Scott Carson og þar sem Mauricio Pellegrino er ekki gjaldgengur í Meistaradeildinni – eins og Fernando Morientes – þá kemur Sami Hyypiä á ný inn í vörnina. Milan Baros mun síðan taka sér stöðu í framlínunni, sennilega á kostnað John Welsh, og gæti liðið því litið svona út á morgun:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

Núnez – Gerrard – Biscan – Riise
García
Baros

BEKKUR: Carson, Welsh, ALONSO, Le Tallec, Smicer, ???, ???

Auðvitað gæti Welsh haldið stöðu sinni í liðinu eftir fína frammistöðu gegn Bolton og García spilað í stað Núnez á kantinum, en mér finnst líklegra að Rafa láti reynsluna ráða í þessum leik og taki því Welsh út úr liðinu. Enda held ég að strákurinn sé ekki enn tilbúinn til að takast á við menn á borð við Emerson, Nedved og Camoranesi. Betra að láta Big Igor um svoleiðis menn! 🙂

Nú, líklegt er talið að Juventus muni stilla upp eftirfarandi liði, hvort sem Trézeguet er heill eða ekki:

Buffon

Zebina – Thuram – Cannavaro – Zambrotta

Camoranesi – Blasi – Emerson – Nedved

Del Piero – Ibrahimovic

Það er auðvitað alls ekkert ljóst að Capello stilli þessu upp svona, en mér finnst það samt líklegt. Del Piero er vanur að detta aftur og hjálpa miðjunni og í raun er þetta meira líkara 4-4-1-1 með sókndjarfa miðjumenn og Ibrahimovic uppi á toppnum, Del Piero í holunni. Það þarf samt ekki að renna oftar en einu sinni yfir þetta lið til að sjá að hér er feykisterkur mótherji á ferð og að Juventus hljóta réttilega að teljast líklegri aðilinn til að fara áfram úr þessu einvígi.

MÍN SPÁ: Ég sagði það fyrir dráttinn að ég vildi helst af öllu forðast ítölsku liðin, og ég stend við það. Ég tel að við hefðum átt meiri séns gegn Bayern Munchen, Lyon, PSV og jafnvel Chelsea heldur en gegn ítölsku liðunum. Engu að síður verð ég að viðurkenna það að ég er ekkert sérlega smeykur fyrir þennan leik. Fyrst og fremst finn ég fyrir tilhlökkun, minnugur þess hversu leiðinlegt það var að horfa á okkar menn keppa við óþekkt lið frá Austur-Evrópu í Evrópukeppni Félagsliða í fyrra, þar sem maður lét sig dreyma einmitt um að sjá liðið etja kappi við toppliðin í Evrópu.

Annað kvöld rætist það, liðin verða einfaldlega ekki mikið stærri en “Gamla Konan” frá Tórínó. Mágur konu minnar er ítalskur, frá Napolí og ég spurði hann um helgina hvað honum þætti um þetta einvígi. Hann sagði mér að umfjöllunin í ítölsku blöðunum væri frekar lítil um þennan leik – nema þá helst vegna Heysel-atburðarins – og að Ítalir tækju þessu sem einvígi sem Juve ætti að vinna nokkuð auðveldlega. Hann sagði mér að áhugi Ítala beindist miklu meira að Mílanó-einvíginu á miðvikudaginn, sem er jú eðlilegt. En hann sagði að sem Ítali þá hefði hann áhyggjur af því að það væri nokkuð vanmat í gangi, sérstaklega þar sem þeir telji Liverpool bitlausa úr því að Morientes má ekki spila.

Ef Juventus vanmeta okkur þá förum við áfram.

En á móti kemur að við vitum ekkert hvort að okkar menn eru orðnir ‘saddir’ eða ekki. Fyrir tímabilið held ég að það hafi allir verið sammála um að við vildum bara komast upp úr riðlinum okkar, og ef mögulegt væri í gegnum 16-liða úrslitin upp á peningana að gera. Nú erum við komnir í 8-liða úrslit, í raun lengra en hlutlausir áhugamenn töldu að liðið væri fært um, og spurningin er hvort að Liverpool-leikmennirnir eru orðnir ‘saddir’ eða hvort að þá hungrar í að komast lengra í þessari keppni.

Ef okkar menn eru ‘saddir’ þá fara Juventus auðveldlega áfram.

Ég geri ráð fyrir ótrúlegri stemningu á Anfield annað kvöld og vonandi fáum við knattspyrnuveislu sem sæmir tilefninu. Þótt Ítalir séu þekktir fyrir að pakka í vörn á útivelli í svona einvígjum þá er eitthvað sem segir mér að þeir muni sækja til sigurs á morgun, með sókndjarfa uppstillingu. Síðast þegar Fabio Capello heimsótti Liverpool-borg reyndu Rómverjar að halda hreinu í 90 mínútur en það gekk ekki, við unnum og fórum áfram. Engu að síðar þá megum við ekki gleyma að Capello skapaði einhvern flottasta sóknarbolta sem hefur sést hjá Real Madríd seint á síðast áratug, og þar áður gerði hann lið AC Milan ósigrandi í nærri því tvö ár (bókstaflega) og er hann ábyrgur fyrir mesta yfirburðasigri í stórleik sem ég man eftir að hafa séð.

Allir sem sáu AC Milan rústa Barcelona fyrir rúmum áratug, í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, vita nákvæmlega um hvað ég er að tala.

Síðast þegar Rafa Benítez mætti ítölsku liði var í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar gegn Internazionale fyrir tveimur árum síðan. Valencia-liðið yfirspilaði Inter í báðum leikjunum en tókst samt ekki að komast áfram, þökk sé ótrúlegri varnarvinnu þeirra ítölsku. Ljóst er að Rafa hefur lært af því einvígi og gerir ekki sömu mistökin tvisvar. Valencia voru með betra liðið en þeir gátu ekki refsað eins vel og Ítalirnir.

Á morgun, ef vel á að fara, má varla eitt einasta færi fara til spillis. Ef menn ætla sér lengra í þessari keppni þá verða menn að nýta færin sem gefast gegn Juve.

Þannig að á morgun spái ég hörkuspennandi rimmu sem mun einkennast af mikilli refskák tveggja stórmeistara á hliðarlínunni. Ég er mjög bjarstýnn á mörk – held að við skorum pottþétt a.m.k. eitt eða tvö á heimavelli – spurningin verður bara hvort að Juventus skora líka, en eitt mark á útivelli færi ansi langt með að fleyta þeim áfram.

Fyrst og fremst hlakka ég samt til. Leikurinn á morgun verður tilfinningaþrunginn og æsispennandi en ég verð í happasætinu mínu, í happa-Liverpooltreyjunni minni og með happabangsann ofan á sjónvarpinu, reiðubúinn að hvetja mitt lið! 🙂

Áfram Liverpool! Það er kominn tími til að kynna Igor Biscan fyrir restinni af Evrópu! 😀


**Uppfært (Einar Örn)**: Úffffff, ég fæ verulegan fiðring í magann við að lesa þetta 🙂

Einsog ég hef nefnt áður, þá var ég í Bandaríkjunum þegar Liverpool spilaði á móti Leverkusen í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar og missti því af þeim leikjum. Því má segja að þetta sé í fyrsta skipti á ævinni, sem ég er að sjá Liverpool leika gegn einu af stærstu liðunum í Evrópukeppni Meistaraliða.

Það er nokkuð magnað, þar sem ég er nú orðinn 27 ára gamall. En það sýnir bara hversu erfið síðustu ár hafa verið fyrir okkur Púlara.

Ég get ekki beðið eftir morgundeginum. Ég er fullviss um að ég eigi eftir að naga allar neglurnar fyrir leik og að ég fái gæsahúð þegar ég heyri Meistaradeildarlagið og svo seinna þegar stuðningsmenn Liverpool munu minnast fórnarlambanna á Heysel.

Við getum orðað það svo að ég myndi gefa helvíti mikið fyrir það að vera á Anfield á morgun. Það verður án efa ógleymanlegt.

Ég veit ekki alveg hversu bjartsýnn ég á að þora að vera. Þegar maður sér þessa uppstillingu hjá Juventus, þá er það vissulega svakalegt. Ég held að við eigum eftir að sakna Hamann í þessum leik, en vonandi gerir fjarvera hans það þó að verkum að við verðum meira skapandi fram á við. Ég gæli þó enn við þá von að hann verði með í Tórínó. Já, Juventus unnu Real Madrid en við höfum nú þegar slegið út eitt lið, sem vann stórsigur á Madrid, þannig að það er allt hægt!!!

Það er alveg ljóst að Juve má ekki skora í þessum leik því vörnin þeirra er fáránlega sterk og Buffon hefur bara fengið á sig 2 mörk að mig minnir í allri keppninni, sem er náttúrulega fáránlegt.

En ég treysti á minn mann, Milan Baros og að hann muni neyða ykkur öll til að éta allt það slæma, sem þið hafið skrifað um hann að undanförnu. Milan, þú skuldar mér eitt mark fyrir að hafa varið þig svona mikið á þessari síðu :biggrin2:

En fyrst og fremst ætla ég að reyna að njóta þess að sjá uppáhaldsliðið mitt í fyrsta skipti í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Vonandi verður Gerrard í stuði og fleytir okkur áfram í undanúrslit.

**Áfram Liverpool!!! Þetta verður roooooosalegt!** 🙂

3 Comments

  1. Shit hvað ég er ógeðslega spenntur.
    Eins gott að Liverpool vinni því annars var ég að kaupa nýja mánaðaráskrift af SÝN til einskis :biggrin2:

  2. Þetta verður svakalegt!! Það eru svona leikir sem maður nærist á. Ég ætla að planta mér snemma á pöbbinn og tryggja mér sæti.

    Hef trú á okkar mönnum þótt Juventus sé með miklu sterkara lið á pappírunum. Einfaldlega vegna þess að Rafael er þjálfari sem leggur áherslu á liðsheildina!

    Mín spá 1-0! Riise með markið í fyrri hálfleik.

    p.s. í liði Juventus er leikmaður sem ég myndi fórna litla putta fyrir að fá í Liverpool en hann heitir Nedved.

  3. fokk hvað ég er spenntur!!! ÁFRAM LIVERPOOOOOLLLL!!!!!! :biggrin: :biggrin: :biggrin:
    Mín spá: Liverpool vinnur með 1 marki gegn engu, Riise skorar

Igor Biscan fær nýjan samning!

Byrjunarliðið gegn Juve (staðfest)!