Bolton á morgun!

Það eru 12 dagar síðan við horfðum á liðið okkar sigra Everton og þar með gera það að verkum að baráttan um 4. sætið er ennþá galopin. Á sunnudag eiga Everton lúmskt erfiðan útileik gegn W.B.A. (sem unnu góðan sigur í síðasta leik sínum) en fyrst taka okkar menn á móti Bolton Wanderers á morgun. Auk okkar og Everton eru Bolton-menn að mínu mati það lið sem er líklegast til að hirða 4. sætið í vor, þannig að ljóst er að leikurinn á morgun er alveg jafn mikill úrslitaleikur og Everton-leikurinn fyrir tæpum tveimur vikum var. Við einfaldlega verðum að vinna þennan leik!

Hvað meiðsli varðar, þá er þetta tímabil búið að vera hræðilegt … og síðan má segja að botninum hafi verið náð gegn Everton, þar sem fjórir leikmenn meiddust í sama hálfleiknum! Sem betur fer hefur verið lítið annað að fá en góðar fréttir síðan þá, þar sem García missti ekkert úr eftir meiðslin gegn Everton, Xabi Alonso og Djibril Cissé byrjuðu að æfa í dag (en verða ekki leikfærir strax) og svo á miðvikudag snéri Djimi Traoré aftur eftir að hafa misst úr nokkra leiki. Eins og Einar kom inná hér fyrr í dag, þá komu bestu fréttirnar fyrir helgina síðan í dag þegar ljóst varð að Fernando Morientes verður leikfær á morgun!

Í ljósi þess að Hamann og Warnock verða fjarverandi – af þeim leikmönnum sem hófu leik gegn Everton – og þeir Morientes og Traoré eru heilir, þá tel ég nokkuð öruggt að byrjunarliðið á morgun verði eftirfarandi:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä/Pelle – Traoré

Núnez – Gerrard – Biscan – Riise

García – Morientes

Núnez átti gegn Everton sinn besta leik fyrir Liverpool FC, var frábær í bæði sókn og vörn á hægri kantinum. Hann kemur inn fyrir Baros sem er í banni og Luis García færir sig fram í “holuna” á milli miðjunnar og Fernando. Þá kemur Igor inn fyrir Didi á miðjuna og Traoré tekur aftur stöðu sína í vinstri bakverði í stað Warnock, sem meiddist einnig gegn Everton.

Bolton-menn, eins og Everton og Blackburn sem við lékum við í síðustu tveimur deildarleikjum, spila með mjög skipulagt og massíft 4-5-1 kerfi, þar sem allt byggist á baráttu, skipulagi og að nýta sér þau færi sem bjóðast – sér í lagi föst leikatriði, þar sem Kevin Davies framherji er einn besti skallamaðurinn í deildinni og Jay Jay Okocha er snillingur í að setja dauðan bolta á rétta staði! Þeirra helsta blóðtaka fyrir þennan leik er sú að El-Hadji Diouf má ekki spila gegn okkur sem lánsmaður, en að öðru leyti geri ég ráð fyrir að Bolton stilli upp sínu sterkasta liði.

MÍN SPÁ: Sigur. Ég er sigurviss, þrátt fyrir tveggja vikna pásu held ég að sjálfstraustið sé mikið í herbúðum okkar manna og að við munum gera það sem til þarf gegn sterku liði Bolton á morgun. Það er bara eitthvað sem segir mér að við munum fá mikilvægan sigur á morgun!

Ekki misskilja mig, Bolton-liðið er eitt það erfiðasta að spila við í deildinni – þeir unnu okkur 1-0 í haust (þar sem reyndar löglegt mark var dæmt af Luis García) og náðu 0-0 jafntefli á Anfield í fyrra, þannig að þetta verður örugglega mikill baráttuleikur og hnífjafn. En ég hef það bara á tilfinningunni að vel muni ganga, ég er bjartsýnn!

Eigum við ekki bara að segja 1-0 baráttusigur okkar manna? Og ætli Luis García sé ekki bara líklegur til að vera hetjan okkar, enn einu sinni? 🙂

Áfram Liverpool!!!

3 Comments

  1. Liverpool stuðningsmaður = bjartsýnn, annars værum við allir löngu búnir að tapa geðheilsunni 😀

  2. jú jú, við erum góðir í mikilvægum leikjum og tel ég okkur því líklega á morgun!!!! Vitiði hvort Le Tallec sé í hópnum?

Fernando!

Byrjunarliðið komið!