20. mars, 2005
Í dag er ég stoltur Liverpool aðdáandi.
Liverpool vann í dag Everton 2-1 í leik, þar sem ALLT gekk gegn Liverpool liðinu. Fjórir leikmenn meiddust og Milan Baros fékk rautt spjald, en SAMT börðust okkar menn fram á síðustu mínútu og náðu að vinna leikinn. Þetta var frábært. Við vorum miklu betri og áttum þetta svo sannarlega skilið.
Ég sagði það fyrir leikinn að ég yrði brjálaður ef menn myndu ekki berjast fram á síðustu mínútu og sem betur fer, þá ullu okkar menn mér ekki vonbrigðum í dag. Í raun var Liverpool með ólíkindum óheppnir í þessum leik. Stephen Warnock, Didi Hamann og Fernando Morientes meiddust allir í fyrri hálfleik og í stað þeirra komu Smicer, Nunez og Biscan. Ekki nóg með það, heldur meiddist Luis Garcia líka í lok fyrri hálfleiks og hann var greinilega bara hálfur maður í seinni hálfleik. Til að bæta ofan á það, þá fékk Milan Baros rautt spjald fyrir að vera of seinn í tæklingu. Að mínu mati strangur dómur, sérstaklega þar sem Liverpool liðið hafði nánast ekki brotið af sér í leiknum, en Everton menn voru sífellt að toga okkar leikmenn niður. Þannig að síðasta hálftímann lék Liverpool nánast með 9 mönnum, þar sem Garcia gat augljóslega ekki beitt sér.
En allavegana, Benitez stillti liðinu svona upp í byrjun leiks.
Dudek
Finnan - Carragher - Pellegrino - Warnock
Garcia - Gerrard - Hamann - Riise
Baros - Morientes
Liverpool liðið lék frábærlega alveg frá fyrstu mínútu í fyrri hálfleik og uppskáru loksins eitthvað þegar brotið var á Luis Garcia fyrir utan teig. Didi Hamann gaf á Steven Gerrard, sem skoraði með föstu skoti. Stuttu seinna barst boltinn til Fernando Morientes, sem tók hann á lofti og skaut að marki af lööööngu færi. Martyn lenti í erfiðleikum með boltann og Luis Garcia skallaði í markið. Staðan 2-0 og Liverpool liðið stjórnaði öllu á vellinum.
En stuttu fyrir hálfleik meiddust Didi, Fernando og Luis Garcia. Þeir tveir fyrrnefndu fóru útaf, en Garcia varð að harka þetta af sér og hann spilaði allan tímann og á svo sannarlega hrós skilið fyrir það!
Í seinni hálfleik fóru Everton menn framar á völlinn en sköpuðu engar alvarlegar hættur. Milan Baros komst tvisvar inn fyrir í dauðafæri, en klúðraði í bæði skiptin. Í seinna skiptið gabbaði hann Martyn á frábæran hátt, þannig að hann lagðist niður, en á óskiljanlegan hátt tókst honum að klúðra. Til að bæta gráu ofan á svart var Baros svo rekinn af velli. Hann fór í tæklingu við Hibbert, sem náði að sparka boltanum frá og því lenti Milan á Hibbert. Þetta var að mínu mati strangur dómur, sérstaklega þar sem Everton menn hefðu örugglega átt að vera búnir að fá þrjú-fjögur gul spjöld í viðbót. Auk þess var brot Hibberts á Luis Garcia, sem mark Liverpool kom uppúr, að mínu mati alveg jafn alvarlegt. Hibbert fékk hins vegar ekki einu sinni gult fyrir það brot.
Þetta varð til þess að síðustu mínúturnar voru hriiiikalega spennandi. Tim Cahill minnkaði muninn, en Liverpool tókst að halda þessu. Ég var alltaf að búast við því að Duncan Ferguson myndi skora, en Carra og Pellegrino héldu honum niðri. Okkar menn börðust einsog ljón allan tímann, alveg fram á síðustu mínútu og það gerði útslagið í þessum leik.
Maður leiksins: Það er orðið alltof langt síðan, en maður leiksins var Steven Gerrard. Gerrard var algjörlega frábær í þessum leik. Hann barðist einsog ljón og var útum allan völl. Hann stöðvaði ófáar sóknir, var grimmur í tæklingum og hættulegur fram á við. Frábær leikur hjá Gerrard. Hann fagnaði markinum með því að kyssa Liverpool merkið (eða bíta það
) og það var frábært að sjá allt liðið fagna þessum sigri saman. Ef einhver hefur efast um heilindi Steven Gerrard, þá ættu þeir að þagna eftir þennan leik.
Aðrir, sem koma til greina eru til dæmis Pellegrino og Carra, sem voru frábærir í vörninni og svo á Luis Garcia hrós skilið fyrir að klára leikinn. Það er augljóst að sjálfstraustið hjá Milan Baros er ekki uppá það besta, en við þurfum svo sannarlega á honum að halda á næstunni og það er vonandi að hann nái sér uppúr þessu. Hann þarf stuðning okkar núna, því ALLIR FRAMHERJAR Í HEIMINUM fara í gegnum svona tímabil, þar sem þeir geta ekki fyrir sitt litla líf skorað mark. Við munum til dæmis eftir ófáum tímabilum hjá Michael Owen, þar sem hann gat ekki skorað. En Baros mun koma aftur, sanniði til!
Núna eru því 8 leikir eftir og við erum 4 stigum á eftir Everton og einu stigi á undan Bolton og með mun betri markatölu en bæði liðin. Næsti leikur er eftir tvær vikur, gegn einmitt Bolton á Anfield þann 2.apríl. Þannig að Fernando Morientes og Hamann verða vonandi búnir að ná sér. Hins vegar þá er Milan Baros kominn í þriggja leikja bann, það eru gríðarleg vonbrigði. Ef að Garcia og Morientes verða ekki með í næsta leik, þá erum við í verulegum vandræðum og í raun væri þá Tony Le Tallec besti kosturinn í skókninni. Milan missir af Bolton, Man City og Tottenham, þannig að Morientes má hreinlega ekki vera meiddur.
Það er alveg ljóst að það vinnur allt gegn þessu liði. Núna þarf Benitez einfaldlega að nýta sér allt þetta mótlæti og ná upp viðlíka baráttu í næstu leikjum. Ef liðið berst saman í næstu leikjum einsog þeir gerðu í þessum leik, þá hræðist ég ekki framhaldið, sama þótt að allt virðist vinna gegn þessu liði. Þetta verður erfitt, en við getum þetta. Áfram Liverpool!