Leverkusen á morgun!

ballack_schneider.jpg

Þetta er Bernd Schneider (og Michael Ballack) að fagna … í Liverpool treyju. Það kemur aðeins einn leikur til greina, ekki satt? Júbb, leikurinn þegar þeir unnu okkur 4-2 á Bay Arena-vellinum í seinni leik 8-liða úrslita Meistaradeildarinnar, vorið 2002. Viljum við að þetta endurtaki sig? Nei, örugglega, algjörlega, gjörsamlega ekki!

Á morgun mætum við þessu blessaða Leverkusen-liði á Anfield í fyrri leiknum í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Við eigum augljóslega harma að hefna og þurfum að þurrka út erfiðar minningar frá því að við tókum síðast þátt í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. Það eru virkilega þrjú ár síðan! Allavega, helstu liðsfréttir eru þær að Jens Nowotny er meiddur, fyrirliði þeirra og hjarta varnarinnar. Þannig að Baros hlýtur að hugsa sér gott til glóðarinnar fyrir annað kvöld. 😉

Hjá okkur verða Stevie G, Pelle og Fernando fjarri góðu gamni, sá fyrsti í leikbanni, Pelle og Moro að sjálfsögðu þegar búnir að spila í þessari keppni í vetur. Sóknarlega held ég að við getum alveg spjarað okkur, Luis García kemur aftur inn í liðið eftir leikbann og Baros hefur – að mínu mati – sannað algjörlega að hann er mikið meira en hæfur til að leiða sóknarlínuna okkar.

Sem sagt, við eigum alveg að stefna á fleiri en eitt mark á morgun. Það verður samt ekki í okkar sókn/þeirra vörn sem að leikurinn á morgun ræðst. Vörnin okkar mun hafa fullt í fangi með framherjana þeirra, eins og ég hef áður sagt, og þeir verða í vandræðum með Baros, García og Riise (og Kewell? Vonandi… ) – nei, á morgun munu úrslitin ráðast á miðjunni, og þar mun fjarvera þeirra Steve Gerrard og Xabi Alonso koma virkilega við kauninn á okkur.

Líklegt byrjunarlið okkar á morgun er svona:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

Núnez – Hamann – Biscan – Riise

García – Baros

S.s. García í “holunni” fyrir aftan Baros og Núnez á hægri kanti. Ef Kewell hins vegar er heill á morgun gæti hann komið í “holuna” og García farið á hægri kantinn á kostnað Núnez. En að öðru leyti finnst mér þetta langlíklegasta uppstilling okkar á morgun.

Hjá þeim gætum við verið að sjá þetta byrjunarlið, ef mið er tekið af uppstillingu þeirra gegn Nürnberg um helgina:

Jörg Butt

Bracker – [varnarmaður] – Kryznowek – Placente

Ponte – Ramelov – Freier – Schneider

Berbatov – Voronin

Er ekki viss með hver er í hvaða stöðum, en held að þetta sé nokkuð rétt. Ef við gerum ráð fyrir að varnarmaður komi þarna inn fyrir Nowotny (væntanlega Roque Júnior) þá getum við ímyndað okkur að þetta sé nokkuð sterkt lið. Ég þekki aðeins tvo af fjórum varnarmönnum (Nowotny og Placente) en ég veit að þetta eru fjórir gæðamiðjumenn og tveir frábærir framherjar. Þannig að ljóst er að okkar menn eiga mikla vinnu fyrir höndum á miðjum vellinum.

Geta Biscan og Hamann stöðvað Ramelov, Schneider, Freier og félaga? Mun Ponte taka Traoré og/eða Finnan í bakaríið (getur spilað báða kantana) ??? Þetta eru spurningar sem verður áhugavert að fá svör við á morgun, það er ljóst! Fyrir mér þá veltur þetta allt á því hvaða Biscan og Hamann mæta til leiks á morgun. Báðir þessir leikmenn hafa átt ótrúlega stórleiki í vetur – dæmi: Biscan gegn Deportivo og Hamann gegn Arsenal – en þeir hafa líka verið alveg fáránlega ömurlegir inn á milli. Á morgun er ekki nóg að aðeins annar þeirra mæti til leiks með rétt hugarfar, við þurfum að hafa þá báða spilandi uppá sitt besta ef þetta á að takast.

Fyrir þremur árum mættu Leverkusen-menn til Anfield og pökkuðu í vörn. Ég man lítið eftir þessum leik, gæti ekki sagt hver skoraði markið okkar en minnir að það hafi verið Gary Mac, en ég man að Leverkusen-menn gerðu allt sem þeir gátu til að halda spilahraðanum niðri og drepa niður sóknir okkar. Ég býst því hálfveginn við að þeir geri það sama á morgun, pakki í vörn og reyni að miða út frá því að halda hreinu … og reyni síðan að nýta sér skyndisóknir með Berbatov, Ponte, Voronin og Schneider vel færa um að sækja hratt með boltann.

Ef við hefðum Gerrard og Alonso í þessum leik myndi ég hiklaust þora að spá lágmark 2-3 mörkum fyrir okkur á morgun, sérstaklega í fjarveru Nowotny. En þar sem þeir eru ekki til taks hvílir þung byrði á herðum þeirra Riise og García á morgun, sem og Kewell. Við þetta bætist að við höfum sárasjaldan haldið hreinu undanfarið og þá er ljóst að við eigum erfitt kvöld fyrir höndum.

MÍN SPÁ: Eins og ég sagði áðan, þá mun þróun mála á morgun algjörlega velta á því hvaða Hamann og Biscan mæta til leiks. Ef þeir eiga báðir góðan leik á morgun og ná að vinna miðjubaráttuna þá sé ég okkur alveg fyrir mér vinna góðan sigur á morgun. Ég myndi frekar kjósa að vinna 1-0 heldur en 2-1, þótt það hafi ekki dugað gegn þeim síðast, en þar sem það er frekar ólíklegt að við höldum hreinu á morgun þá vona ég bara að við náum að vinna, í fyrsta lagi, og að við náum helst að vinna tveggja marka sigur í öðru lagi.

Annars er þetta algjörlega óskrifað blað, sem er það sem gerir Meistaradeildina svo óútreiknanlega. Eins og með flest ef ekki öll einvígin í 16-liða úrslitunum þá er gjörsamlega ómögulegt að segja til um hvort liðið hefur betur … ég veit bara að ég er orðinn gríííðarlega spenntur fyrir þessu einvígi á morgun! Þetta er sú keppni sem við viljum vera í, sú staða sem við viljum vera í – útsláttarkeppni gegn toppliði á evrópskum mælikvarða á Anfield!!!

Leikurinn er víst sýndur óbeint um 10-leytið annað kvöld á Sýn, þannig að ég hvet sem flesta til að mæta á Players á morgun og taka þátt í stemningunni sem verður örugglega rosalega góð! Áfram Liverpool, víva Benítez! 😀

4 Comments

  1. Mig minnir reyndar að Hyypia hafi skorað, ekki að það skipti máli. 🙂 Nú er bara að bíða og vona það besta, Hamann gæti hrokkið í góðan gír því hann er auðvitað Þjóðverji og vill væntanlega sanna sig.

  2. Ég held að þessi leikur ráðist algerlega á því hvort Garcia er í stuði, sérstaklega ef Kewell vantar. Ekki það að sennilega er Kewell of ryðgaður til að koma að gagni fyrsta hálftíman en ég veðja á 2-1. Garcia setur eitt og á stoðsendingu á Baros fyrir hitt.

    En varðandi liðsuppstillinguna þá hefur Leverkusen verið að spila 4-4-2 eða 3-4-2-1 kerfi í evrópu í vetur og gegn stórliðinum í Þýskalandi inn á milli.

    Roque Junior er búinn að vera meiddur og ekki spilað síðustu leiki og núna Jens. Juan var í banni í síðasta leik og því líklegt að Jan-Ingwer Callsen-Bracker, hinn 20 ára landsliðsmaður komi inn í vörnina eins og í síðasta leik.

    Ef Roque getur spilað myndi ég halda að þeir færu í seinna kerfið með Scneider og Placente á köntunum, Bracker, Roque og Juan í vörninn. Babic er meiddur svo afgangurinn af liðinu ætti að vera sjálfvalinn og vera eins og þú nefndir myndi ég halda (Kryznowek er sóknar-miðjumaður, skorað að ég held 3 mörk í meistaradeild í vetur).

    Núna er bara að klára þessa skýrslu svo ég geti horft á þessa leiki samvikulaust á morgun.

  3. Kannski taka það fram að leikurinn byrjar kl 19.45.

    Ég ætla að mæta á Players á morgun og verð að segja einsog er að ég er orðinn alveg fáránlega spenntur. Einhvern veginn finnst mér einsog við eigum að vinna þetta Leverkusen lið, þar sem að enska deildin er talsvert sterkari en sú þýska og staða liðanna svipuð í viðkomandi deildum.

    En auðvitað er liðið okkar hálf vængbrotið án bæði Stevie G og Xabi Alonso auk þess sem að við erum bara með einn alvöru framherja.

    Það verður vissulega spennandi að sjá hvort að Kewell verður settur beint inní liðið. Ég myndi frekar kjósa uppstillingu þar sem hann væri frammi með Baros og svo Garcia og Riise á köntunum.

    Og Daði, takk fyrir info-ið um Leverkusen. Ágætt að fá komment frá fólki, sem veit e-ð um þýska boltann, því ég hef býsna lítið vit á honum sjálfur.

    En fokk, við verðum að vinna á morgun! 🙂

Vignal mun fara frá okkur

Liverpool 3 – Leverkusen 1!