Fulham á laugardag!

Biscan getur skorað á móti Fulham!Ókei, þannig að okkar menn í Liverpool mæta til leiks á Anfield á laugardag og mæta þar liði Fulham. Síðast þegar við mættum þeim þann 16. október sl. unnum við 4-2 á útivelli eftir að hafa verið 2-0 undir í hálfleik. Í þeim leik var það innáskipting í hálfleik sem reið baggamuninn: Xabi Alonso gjörbreytti leik liðsins í seinni hálfleik og var hetja dagsins.

Á laugardag verður Xabi Alonso því miður ekki með, þar sem hann er einn af fjórum leikmönnum Liverpool sem verða ekki meira með á leiktíðinni (hinir: Kirkland (tæplega), Cissé, Pongolle) en góðu fréttirnar eru þær að við fáum þrjá miðjumenn inn í liðið fyrir þennan leik, þeir Antonio Núnez og Didi Hamann snúa aftur úr banni og Harry Kewell verður væntanlega leikfær. Við þetta bætist svo að við endurheimtum nýlega þá Vladimir Smicer og Anthony Le Tallec, og skyndilega erum við komnir aftur með breidd á miðjuna! 🙂

Annars geri ég ráð fyrir að byrjunarliðið okkar haldist óbreytt frá því á þriðjudaginn, enda góð regla að breyta aldrei liði sem er að leika vel og sigra leiki. Liðið á þriðjudag, og því líklega á laugardaginn, er svona skipað:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Gerrard – Biscan – Riise

Baros – Morientes

Á bekknum verða þá væntanlega Carson, Pellegrino, Hamann, Smicer og svo fimmti maður sem gæti orðið einn af Núnez, Kewell, Le Tallec eða Warnock.

Reyndar gæti Rafa sett Hamann inn í liðið á ný fyrir Biscan þar sem sá þýski er óneitanlega fyrsti kostur við hlið Gerrards þessa dagana, en þrátt fyrir örlitla gagnrýni mína á þriðjudagskvöld hef ég endurskoðað hug minn og mér fannst Biscan hreint ekki svo slæmur gegn Charlton. Ég pældi í raun bara ekkert í því að hann var settur í stöðuna hans Hamann, varnarhlutverkið á miðjunni fyrir aftan þá Gerrard, García og Riise sem sóttu mjög stíft. Þar stóð hann sig vel og vann fullt af boltum og þótt mér hafi fundist hann eiga að gera meira fram á við í þeim leik er hann tvímælalaust betri sóknarmiðjumaður en Hamann. Þannig að ég væri til í að sjá (með eigin augum) Igor Biscan á miðjunni á laugardag.

Hamann eða Biscan – að öðru leyti er ég 100% viss um að liðið verður óbreytt frá því á þriðjudag, eins lengi og menn fara ekki að meiðast á æfingu á morgun eða í upphituninni á laugardag.

MÍN SPÁ: Ég held að þetta verði öruggur sigur okkar manna, ég þarf ekkert að orðlengja það neitt. Fulham hafa verið hræðilegir á útivelli í vetur og við höfum verið svo til óstöðvandi í deildinni á Anfield. Aðeins þrjú lið hafa unnið okkur þar, og eitt lið náð jafntefli … að öðrum kosti höfum við unnið alla okkar heimaleiki. Þannig að ég spái öruggum sigri á laugardag, þótt ég viti ekkert hverjir skora mörkin og slíkt.

Ég veit það bara að það verður yndislegt að standa við grasið á Anfield í þokunni á laugardag (skv. spám) og gjörsamlega brjálast af kæti þegar liðin ganga inná völlinn. Ég stefni á að verða orðinn gjörsamlega raddlaus áður en flautað er til hálfleiks í þessum leik! 😀 Eins og áður minni ég áhugasama á MYNDABLOGGIÐ MITT, sem hefur verið lítið notað undanfarnar tvær vikur en ég mun setja inn eins margar myndir þar og ég get um helgina. Þannig að mínir nánustu – og þið hin – geta fylgst með því hvað ég er að gera og hvað ég er að sjá í Bítlaborginni stórkostlegu, auk þess sem ég mun senda nokkrar myndir þangað af leiknum sjálfum og skoðunarferðinni á sunnudag!

Annars segi ég bara góða helgi og megi leikurinn á laugardag fara vel, geðheilsu minnar vegna sem og ferðarinnar! Það verður erfitt að djamma á laugardaginn ef við töpum þessum leik… ég kem síðan hérna inn aftur á mánudag með ítarlega ferðasögu, mína skýrslu af leiknum og góðar myndir (lesist: stafræn myndavél, ekki myndavélasími) af Anfield og svona!

Góðar stundir!

3 Comments

  1. Er nokkuð öruggur um sigur :biggrin:
    Giska á það sama og síðast, Gerrard og Morientes í 3-0 sigri.
    Annars segi ég bara góða ferð og vona þín vegna að Liverpool vinni…

  2. Ég held að þetta verði baráttusigur hjá Liverpool. Mín spá er 2-1 fyrir Púlara.

Húmor…

Carra leikjahæstur og ætlar aldrei að fara