Latest stories

  • Liðið gegn Everton

    Liðið gegn Everton er komið. Torres er ekki með í liðinu og ekki heldur Xabi Alonso.

    Þetta er athyglisvert lið. Vörnin kemur ekki á óvart, en miðjan gerir það. Annaðhvort er Rafa að spila með 5 manna miðju með Gerrard, Momo og Masche á miðjunni og Voronin og Benayoun á köntunum, eða þá að hann stillir þessu upp svona:

    Reina

    Finnan – Carragher – Hyypia – Riise

    Gerrard – Sissoko – Masche – Benayoun

    Kuyt – Voronin

    Á bekknum: Crouch, Pennant, Babel, Lucas og Itandje.

    Semsagt, Steven Gerrard er mættur aftur á hægri kantinn. Bekkurinn er hreint magnaður, því þar eru bara sókndjarfir menn. Þannig að ef það gengur erfiðlega að skora gegn Everton (Howard hefur aldrei fengið á sig mark gegn Liverpool) þá er nóg af mönnum, sem geta komið inn af bekknum og breytt leiknum.

    Þetta verður fróðlegt. Koma svo! Vona að okkar menn hætti þessari sjálfsvorkun og aumingjaskap og berji á þessum bláu aumingjum og sýni enn og aftur að það eru bara tvö góð lið í Liverpool borg: Liverpool FC og varalið Liverpool!

  • Upphitun – baráttan um borgina.

    Sælt veri Liverpoolfólk!

    Jæja, eftir 13 daga hlé frá félagsliðafótbolta fer enska deildin í gang á ný. Eins og vanalega eftir slík hlé fara Rauðliðarnir frá Anfield á útivöll. Að þessu sinni er hins vegar ferðalagið stutt, akstur í gegnum Stanley Park, og þá er komið á gamaldags breskan völl. Goodison Park, heimavöll “litla liðsins” í Liverpool, sem er svo víst að flytja þaðan fljótlega.

    Ekki þarf að fjölyrða mikilvægi þessa leiks fyrir aðdáendur liðanna. Þessir leikir eru án vafa ásamt viðureignunum við United þeir leikir sem mestu máli skiptir að vinna í hugum aðdáenda LFC. Hef upplifað derbyleik á Goodison tvisvar og í bæði skiptin gaman. Í seinna skiptið skoraði Gary McAllister sigurmark okkar manna í uppbótartíma og ég hef aldrei upplifað aðrar eins tilfinningar í tengslum við fótboltaleik og þá. Þegar við félagarnir komum niður á hótelið okkar um kvöldið löbbuðum við framhjá karlanga sem augljóslega hafði tapað í lífinu, lá undir blaðahrúgu og reyndi að sofa. Hann varð var við okkur og sá útganginn, treflana, húfuna og búningana. Hann spurði okkur “hvernig fór leikurinn”. Við sögðum honum það, svarið kom “Við vinnum þá alltaf, guð er góður” og breyddi nýjasta blaðið af Echoinu yfir sig aftur. Burtséð frá stöðu liðanna í deildinni er keppt um svokallað “bragging rights”, eða “réttinn til að grobba sig” og sá réttur skiptir jú miklu máli í þeirri yndislegu borg sem Liverpool er.

    En snúum okkur að því sem máli skiptir, fótboltanum. Ég hef trú á því að erfitt sé að spá um það hvernig leikur þetta verður. Áföll hafa dunið á mörgum leikmönnum liðanna í vikunni, auðvitað fleirum hjá Liverpool en ljóst að Skotar, Írar, Englendingar og Walesbúar horfa ekki glaðir um öxl að þessu sinni. Auðvitað gerir maður kröfu um það að atvinnumenn nái að hrista vonbrigðin með landsliðinu af sér, en um leið vill ég meina það að menn séu jú líka mannlegir, þó þeir séu atvinnumenn. Þess vegna finnst mér enn erfiðara en áður að spá í það hvernig liðið verður uppsett að þessu sinni. Kíkjum samt aðeins á það.

    Eina sem er pottþétt er að Reina verður í markinu. Með virðingu fyrir Itandje og Martin spyr enginn að því. Reina hélt hreinu gegn Finnum á miðvikudaginn og eftir slakan leik á Goodison í fyrra er ég sannfærður um að við munum ekki þurfa að hafa áhyggjur af honum í leiknum. Enda feykilega góður markmaður þar á ferð.

    Vörnin er þá sú sem kemur næst. Miðað við hugsanagang Rafa er líklegt að hann horfi til andstæðinganna í þessum leik og setji varnarmanninn Arbeloa á Arteta. Það þýðir að Finnan, sem lék báða leiki Íra í vikunni og skoraði, verði í hægri bakverðinum og Arbeloa í þeim vinstri. Á meðan Agger er meiddur þarf lítið að velta fyrir okkur hafsentaparinu, Hyypia og Carragher. Í þeim látum sem Everton bjóða löngum uppá held ég að Hyypia nái að standa sig, hann getur alveg bitið frá sér gegn Johnson og félögum. Auðvitað gæti Benitez komið mér á óvart og sett Aurelio eða Riise í bakvörðinn, t.d. til að hvíla Finnan, en ég spái Finnan – Carra – Hyypia – Arbeloa í vörninni.

    Miðjan er eins og alltaf mesti hausverkurinn. Talað er um að Alonso sé nálægt því að vera leikfær, en ég er ekki viss um að Benitez treysti honum strax í brjálæðið á miðjunni gegn tæknitröllunum Lee Carsley og Phil Neville. Á sama hátt er erfitt að átta sig á kantstöðunum þar sem að Pennant og Benayoun báðir hafa verið með stjóranum þessa vikuna, annað en t.d. Riise sem lék á miðvikudaginn fyrir Noreg. Mascherano líka búinn að ferðast lengi, en lék reyndar fyrr og Gerrard karlinn að koma frá Rússlandi eftir enn eitt höggið á sjálfstraust hans. En mín spá er sú að við sjáum Pennant og Riise á köntunum, Gerrard og Mascherano á miðjunni. Slagurinn um miðjuna mun ráða miklu um úrslit leiksins, vonandi tekur Gerrard út rússnesku reiðina á leikmönnum Everton! Annar möguleiki væri að Benayoun kæmi vinstra megin á miðjuna ef Riise væri bakvörður, en ég held ekki.

    Framherjar. Ef við hlustum á Benitez og heyrðum hann tala um að ekki væri hægt að láta bæði Alonso og Torres spila leikinn ætla ég hér með að spá því að Torres spili. Hver verður með honum? Bara veit það ekki. Til að skora gegn Everton þarftu kraftmikinn senter og við höfum þá bæði í Voronin og Kuyt. Crouch skoraði tvö á Goodison fyrir 2 tímabilum og er líka kostur, sér í lagi þar sem Kuyt er tæpur og ólíklegt að Torres og Kuyt verði settir saman. Svo má ekki gleyma Babel, sem er jú senter. Ég held að ekki sé heldur hægt að útiloka að Benayoun eða Babel spili í holunni undir senternum í þessum leik, leikkerfi sem ekki hefur verið notað hingað til í vetur en ég er sannfærður að Rafa hefur ekki gleymt. En ég held að við sjáum Voronin í senternum með Torres og við fáum að sjá nokkuð hefðbundið lið Liverpool. Semsagt:

    Reina

    Finnan – Carragher – Hyypia – Arbeloa

    Pennant – Gerrard – Mascherano – Riise

    Torres – Voronin

    Eða mögulega

    Reina

    Finnan – Carragher – Hyypia – Arbeloa

    Pennant – Gerrard – Mascherano – Riise
    Babel/Benayoun
    Torres

    Ef við skoðum lið Everton hafa þeir spilað dæmigerðan breskan “harðkjarna” fótbolta, með leikkerfið 442 sem útgangspunkt. Hægir og líkamlega sterkir hafsentar, bakverðir sem koma upp, sér í lagi Baines. Slagsmálahundar inni á miðjunni stinga boltanum upp á sentera sem bestir eru að hlaupa, eða út á kantana þar sem “fótboltatýpurnar” eru. Lykillinn að öllum leik þeirra er Mikel Arteta sem er bara feykigóður fótboltamaður. Hinn góði fótboltamaðurinn er Tim Cahill sem kominn er í liðið á ný eftir meiðsli, þó ekki sé víst að hann spili frá byrjun. Liðið leggur mikið upp úr föstum leikatriðum og hafa verið hættulegir þar. Everton tapaði sínum síðasta leik, 2-3 í Newcastle. Eru í 10.sæti með 13 stig eftir 9 leiki. Búnir að spila 4 heimaleiki. Vinna 2, 1 jafntefli og 1 tap. Síðan Benitez kom á Anfield hefur hann unnið einn leik á Goodison og tapað tveimur. Síðast var hræðilegt 0-3 tap sem ennþá svíður.

    Ég ætla alltaf að enda upphitanirnar á jákvæðri spá, því þannig verður maður jú alltaf að hugsa. Þetta verður fullkomið brjálæði fyrir hádegið á laugardag (það er búið að breyta bresku klukkunni og leikurinn fer af stað kl. 11:45 á íslenskum tíma) sem mun enda með 1-2 sigri okkar manna þar sem Gerrard laumar slummu í lokin! Bresku blöðin koma svo með þá fullyrðingu á sunnudaginn að Benitez sé að fara að taka við enska landsliðinu…….. Eða?

  • Breytingar á blogginu – nýjir Pennar

    Eins og lesendur síðunnar tóku eftir fórum við af stað með leit að nýjum bloggurum fyrir síðuna í síðustu viku. Viðbrögð fólks voru mjög góð, við fengum slatta af umsóknum og úr nægu úrvali var að velja. Nú er þessu ferli lokið öllu saman og það gleður mig að tilkynna að frá og með deginum í dag eru **þrír nýjir Liverpool-bloggarar** mættir á síðuna!

    Þetta eru þeir:
    Doddi Jónsson, bókasafnsfræðingur á Norðurlandinu.
    Siguróli Teitsson, ungur Hríseyingur sem stundar nám í Reykjavík.
    Magnús Þór Jónsson, skólastjóri og knattspyrnuþjálfari sem býr á Hellissandi.

    Þessir þrír einstaklingar, sem allir hafa lesið síðuna og tekið þátt í umræðum í lengri tíma, eru að okkar mati mjög góð viðbót við það sem fyrir var á þessari síðu og við viljum bjóða þá velkomna á síðuna!

    Þið getið farið á einstaklingssíður þeirra hér að ofan til að lesa frekar um hvern þeirra.

    Þá að aðeins öðru. Mér finnst rétt að við útskýrum aðeins nánar hvers vegna við fórum í þessa fjölgun á pennum á síðunni, nú þegar umsóknartíminn er búinn og búið er að bæta við. Eins og þið lesendurnir vitið stofnaði ég þessa síðu ásamt Einari Erni og við tveir höfum rekið hana frá byrjun, verið “kóngarnir” eins og SSteinn myndi orða það. Síðustu misseri höfum við hins vegar fylgst hálf máttlausir með ákveðinni þróun á síðunni sem við höfum vart getað stöðvað og er að okkar mati síðunni til vansa.

    Málið er það að okkur þykir vera farið að bera svolítið á því að fólk persónugeri þessa síðu í okkur tveimur, svo að oft vill fólk frekar ræða okkur sem persónur í stað þess að ræða málefni Liverpool, sem er einmitt ekki það sem við viljum að gerist. Þegar við stofnuðum þessa síðu hugsuðum við okkur hana sem vettvang fyrir hreinar, skoðanaglaðar og skemmtilegar Liverpool-umræður, þannig að fyrir stuttu fannst okkur við standa frammi fyrir ákveðnu vali; við eða síðan. Við völdum síðuna og því var eftirfarandi ákvörðun tekin:

    Við tveir ætlum að draga okkur eilítið í hlé frá síðunni, upp að vissu marki. Um leið og þrír kraftmiklir pennar koma inn og setja mark sitt á síðuna, ætlum við Einar Örn að stíga skref til baka og minnka bæði okkar pistlaskrif og þátttöku í umræðum á síðunni. Þetta teljum við okkur vera að gera síðunnar vegna, því það er ofar öllu í okkar huga að þetta verði áfram staður þar sem fólk getur rætt uppáhalds liðið sitt, Liverpool FC. Það er ekki þar með sagt að við séum að hætta, fjarri því. Við munum áfram blogga og kommenta þegar okkur sýnist, en við munum reyna að halda því innan ákveðinna marka, bæði til að gefa hinum bloggurunum rúm til að gera þessa síðu að sínum vettvangi og eins til að gefa lesendum frí frá “kóngunum”. Þetta teljum við að verði síðunni bara til tekna þegar fram líða stundir.

    Önnur breyting sem þið lesendurnir munið ekki finna eins mikið fyrir er sú að við Einar Örn höfum tekið að okkur þá stöðu að vera ritstjórar Liverpool Bloggsins. Þetta þýðir í raun að þótt við minnkum aðeins skrif okkar, þátttöku og sýnileika á síðunni munum við áfram stjórna henni af sama áhuga og krafti og við höfum gert í núna þrjú og hálft ár. Við munum lesa öll ummæli og ritskoða það sem okkur finnst ekki við hæfi, auk þess sem við munum hjálpa hinum bloggurunum með það sem þeir kynnu að þarfnast af stjórnendum síðunnar.

    Sem sagt, við Einar Örn erum hérna ennþá og munum skjóta upp kollinum með færslur af og til, en þetta er ekki okkar persónulega vefsíða heldur **ykkar** vefsíða og það er fyrir mestu. Aggi, SSteinn, Olli, Doddi og Maggi, let’s get ready to rumble …

    Fyrir hönd ritstjórnar Liverpool Bloggsins 🙂 ,
    Kristján Atli Ragnarsson.

  • Drogba og van Persie

    Tvær fréttir, sem gætu skipt miklu máli.

    Fyrir það fyrsta þá hefur [Didier Drogba óskað eftir þvi að verða seldur](http://www.skysports.com/story/0,19528,11095_2808244,00.html) frá Chelsea sem fyrst. Ef að Drogba ætlar að vera í fýlu fram að Afríkukeppninni, þá eru valmöguleikar Chelsea í framherjastöðum ansi fátæklegir.

    Og Robin van Persie [meiddist á hné](http://www.skysports.com/story/0,19528,11661_2808520,00.html) og verður frá í heilan mánuð. Það þýðir að hann missir af leikjunum gegn Liverpool og Man U. Ég sagði það við vin minn að Arsenal liðið myndi ekki þola það ef að annaðhvort Cesc eða van Persie myndu meiðast. Núna er að sjá hvort að ég hafi rétt fyrir mér eða hvort ég hafi bara verið að bulla.

  • Landslið eða landslýti?

    Það er svo innilega ekkert að gerast að við getum alveg eins rætt landsleiki dagsins, og þá sér í lagi þá tvo sem koma þessari síðu (augljóslega) mest við:

    **Íslenska landsliðið** tapaði 3-0 fyrir stórveldi Liechtenstein í kvöld. Eftir leik sagði Eyjólfur Sverrisson, landsliðsþjálfari, að hann sæi sér fært að halda áfram með landsliðið og taldi sig ekki vera kominn í gjaldþrot. Undanfarið hefur sú slúðursaga gengið fjöllum hærra að nýhættur þjálfari FH-inga, Ólafur Jóhannesson, muni taka við landsliðinu eftir Danaleikinn í næsta mánuði, og í kvöld útilokaði Willum Þór Þórsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, ekki að hann vildi taka við liðinu ef til þess kæmi.

    Hvað finnst mönnum? Er Eyjólfur kominn í gjaldþrot með þetta lið? Og ef svo er, hver ætti þá að taka við?

    **Enska landsliðið** tapaði 1-2 gegn Rússum í Moskvu fyrr í dag, en þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka voru Englendingar yfir. Dómari leiksins dæmdi glórulausa vítaspyrnu á Wayne Rooney (brotið átti sér stað talsvert utan teigs) og svo gaf Paul Robinson Rússum sigur þegar hann Dudek-aði frekar einföldu skoti beint út í teiginn þar sem Rússi náði að pota honum inn. Fyrir vikið þurfa Englendingar að sigra Króata í lokaleik sínum í riðlinum og treysta á að Ísraelar eða Andorramenn nái að taka stig af Rússum.

    Hvað finnst mönnum? Var tapið í dag Steve McClaren að kenna? Eiga Englendingar séns í helvíti á að komast á EM 2008, eða fá Stevie Gerrard og félagar óvænt sumarfrí að yfirstandandi tímabili loknu?

  • Sammy Lee hættur hjá Bolton.

    Eftir einungis um 6 mánaðar starf er Sammy Lee hættur sem stjóri hjá Bolton. Stjórnarformaður Bolton, Phil Gartside segir þetta:

    “This has been a difficult decision for all parties but we have agreed the time is right.”

    Mig grunar að Sammy Lee hafi verið gefnir úrslitakostir eftir bæði slæmt gengi undanfarið sem og atburði síðustu viku þegar Gary Speed hætti sem þjálfari aðalliðsins vegna þess að hann ætlaði að einbeita sér að því að spila með liðinu. Það þótti óljóst hvort Sammy eða Gary hafi tekið ákvörðunina og í framhaldinu þótti ljóst að starf Sammy væri afar ótryggt.

    Sammy Lee hóf störf hjá Bolton sumarið 2005 eftir að hafa verið áður hjá Liverpool bæði sem leikmaður og þjálfari í áraraðir. Hann tók síðan við starfi knattspyrnustjóra hjá Bolton eftir að Sam Allardyce tók við sem stjóri hjá Newcastle. Það var næstum öruggt að þetta yrði erfitt verkefni fyrir Sammy því oftar en ekki eftir að stjóri hættir sem hefur verið hjá liði langan tíma tekur tíma fyrir liðið að jafna sig (t.d. Charlton þegar Curbishley hætti). Skv. veðbönkum í Englandi er Paul Jewell, Chris Coleman og Phil Brown líklegastir arftakar Sammy.

    Núna er spurning hvað Sammy Lee gerir? Gæti hann verið næsti aðstoðarmaður Rafa hjá Liverpool? Það er alla vega ljóst að Sammy Lee er hátt metinn bæði meðal leikmanna félagsins sem og stjórnarmanna. Einnig þekkir Sammy innviði Liverpool líklega betur en Rafa sjálfur. Þetta er alla vega ekki skot út í bláinn… eða hvað?

  • Hrikalegt fjör bara

    Já, það er óhætt að segja að það sé mikið líf í tuskunum hérna á blogginu hjá okkur þessa dagana. Mikið um að tala og margt að gerast. Nei annars að það er hreinlega með ólíkindum hvað það leggst mikil fótboltadeyfð yfir mann á svona vikum. Það er mikilvægur derby slagur framundan og maður er í einhverri lognmollu þessa dagana þegar kemur að boltanum. Einu fréttirnar sem berast eru fréttir um það að nokkrir okkar manna eru að gera sér vonir um að ná sér af meiðslum fyrir leikinn.

    Agger, Alonso, Kuyt, Torres og Kewell (já, set hann hérna að gamni, hafði bara svo gaman að því að geta loksins sett nafn hans aftur á blað í tengslum við einhverja hreyfingu á líkamspörtum hans). Þetta er sæmileg súpa af mönnum sem munu aldrei allir ná því að verða klárir fyrir leikinn. Ég myndi telja það góðan árangur ef tveir þeirra ná að taka þátt í honum að einhverju leiti.

    Nú er það bara fingers crossed fyrir morgundaginn um að þessi blessaði meiðslalisti lengist ekki meira en nú er. Nóg er maður þunglyndur yfir þessu hléi, þó svo að það fari ekki að bæta á það með einhverju svoleiðis rugli. Allir heilir heim takk.

    Hins vegar hafa flottu fregnirnar verið þær að Javier Mascherano er að vonast eftir langtímasamningi við Liverpool og hyggst ekkert fara ef hann fái á annað borð kost á því að halda áfram hjá okkar mönnum. Virkilega gleðileg tíðindi, sem koma mönnum reyndar ekkert á óvart þannig lagað.

  • Torres: ég ætla að spila gegn Everton

    Ég er nú hálf efins um að Rafa muni leyfa Torres að spila um næstu helgi, en það er allavega hughreystandi að sjá hversu ákveðinn hann er:

    “I intend to be fit for Saturday. I don’t want to miss out on the derby against Everton. I’ve been told how special the game is and I need to be ready in time. I am very happy at Liverpool and I’ve learnt a lot – I love being at a big club like this. I have played in big derby matches before. I played for Atletico against Real Madrid and I’m looking forward to enjoying something similar in the Premier League.”

    Torres er einn fárra nýliða hjá Liverpool sem þekkir af eigin raun þá grimmd sem fylgir leik eins og Liverpool v Everton, enda lék hann í mörgum slíkum leikjum fyrir Atletico gegn Real í Madrídarborg. Ég vona að hann geti leikið á laugardag, en eins og ég sagði efast ég um að Rafa taki sénsinn á honum, jafnvel þótt hann fái sig heilan í tæka tíð. Það er þó gaman að sjá hann svona ákveðinn.

  • Umsóknarfrestur að renna út (Uppfært)

    Ég vildi bara minna menn á að við erum enn að leita að nýjum Liverpool-bloggurum.

    Eins og kom áður fram þá rennur frestur til umsókna út á miðnætti í kvöld. Við höfum fengið góð viðbrögð við leit okkar og þó nokkrar umsóknir borist inn, en ef einhver á eftir að senda inn umsókn fer hver að verða síðastur!


    Uppfært 23:59 (Kristján Atli): Nú hefur verið lokað fyrir umsóknir. Við þökkum þeim sem sóttu um. Haft verður samband við alla umsækjendur á næstu dögum og svo verða nýir bloggarar kynntir á síðunni fyrir næstu helgi.

  • Babel

    Ryan Babel var ekki í byrjunarliði Hollendinga í gær vegna þess að…

    Hann [svaf yfir sig](http://www.dailymail.co.uk/pages/live/articles/sport/football.html?in_article_id=487545&in_page_id=1779&ito=newsnow)!!!

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close