Sælt veri Liverpoolfólk!
Jæja, eftir 13 daga hlé frá félagsliðafótbolta fer enska deildin í gang á ný. Eins og vanalega eftir slík hlé fara Rauðliðarnir frá Anfield á útivöll. Að þessu sinni er hins vegar ferðalagið stutt, akstur í gegnum Stanley Park, og þá er komið á gamaldags breskan völl. Goodison Park, heimavöll “litla liðsins” í Liverpool, sem er svo víst að flytja þaðan fljótlega.
Ekki þarf að fjölyrða mikilvægi þessa leiks fyrir aðdáendur liðanna. Þessir leikir eru án vafa ásamt viðureignunum við United þeir leikir sem mestu máli skiptir að vinna í hugum aðdáenda LFC. Hef upplifað derbyleik á Goodison tvisvar og í bæði skiptin gaman. Í seinna skiptið skoraði Gary McAllister sigurmark okkar manna í uppbótartíma og ég hef aldrei upplifað aðrar eins tilfinningar í tengslum við fótboltaleik og þá. Þegar við félagarnir komum niður á hótelið okkar um kvöldið löbbuðum við framhjá karlanga sem augljóslega hafði tapað í lífinu, lá undir blaðahrúgu og reyndi að sofa. Hann varð var við okkur og sá útganginn, treflana, húfuna og búningana. Hann spurði okkur “hvernig fór leikurinn”. Við sögðum honum það, svarið kom “Við vinnum þá alltaf, guð er góður” og breyddi nýjasta blaðið af Echoinu yfir sig aftur. Burtséð frá stöðu liðanna í deildinni er keppt um svokallað “bragging rights”, eða “réttinn til að grobba sig” og sá réttur skiptir jú miklu máli í þeirri yndislegu borg sem Liverpool er.
En snúum okkur að því sem máli skiptir, fótboltanum. Ég hef trú á því að erfitt sé að spá um það hvernig leikur þetta verður. Áföll hafa dunið á mörgum leikmönnum liðanna í vikunni, auðvitað fleirum hjá Liverpool en ljóst að Skotar, Írar, Englendingar og Walesbúar horfa ekki glaðir um öxl að þessu sinni. Auðvitað gerir maður kröfu um það að atvinnumenn nái að hrista vonbrigðin með landsliðinu af sér, en um leið vill ég meina það að menn séu jú líka mannlegir, þó þeir séu atvinnumenn. Þess vegna finnst mér enn erfiðara en áður að spá í það hvernig liðið verður uppsett að þessu sinni. Kíkjum samt aðeins á það.
Eina sem er pottþétt er að Reina verður í markinu. Með virðingu fyrir Itandje og Martin spyr enginn að því. Reina hélt hreinu gegn Finnum á miðvikudaginn og eftir slakan leik á Goodison í fyrra er ég sannfærður um að við munum ekki þurfa að hafa áhyggjur af honum í leiknum. Enda feykilega góður markmaður þar á ferð.
Vörnin er þá sú sem kemur næst. Miðað við hugsanagang Rafa er líklegt að hann horfi til andstæðinganna í þessum leik og setji varnarmanninn Arbeloa á Arteta. Það þýðir að Finnan, sem lék báða leiki Íra í vikunni og skoraði, verði í hægri bakverðinum og Arbeloa í þeim vinstri. Á meðan Agger er meiddur þarf lítið að velta fyrir okkur hafsentaparinu, Hyypia og Carragher. Í þeim látum sem Everton bjóða löngum uppá held ég að Hyypia nái að standa sig, hann getur alveg bitið frá sér gegn Johnson og félögum. Auðvitað gæti Benitez komið mér á óvart og sett Aurelio eða Riise í bakvörðinn, t.d. til að hvíla Finnan, en ég spái Finnan – Carra – Hyypia – Arbeloa í vörninni.
Miðjan er eins og alltaf mesti hausverkurinn. Talað er um að Alonso sé nálægt því að vera leikfær, en ég er ekki viss um að Benitez treysti honum strax í brjálæðið á miðjunni gegn tæknitröllunum Lee Carsley og Phil Neville. Á sama hátt er erfitt að átta sig á kantstöðunum þar sem að Pennant og Benayoun báðir hafa verið með stjóranum þessa vikuna, annað en t.d. Riise sem lék á miðvikudaginn fyrir Noreg. Mascherano líka búinn að ferðast lengi, en lék reyndar fyrr og Gerrard karlinn að koma frá Rússlandi eftir enn eitt höggið á sjálfstraust hans. En mín spá er sú að við sjáum Pennant og Riise á köntunum, Gerrard og Mascherano á miðjunni. Slagurinn um miðjuna mun ráða miklu um úrslit leiksins, vonandi tekur Gerrard út rússnesku reiðina á leikmönnum Everton! Annar möguleiki væri að Benayoun kæmi vinstra megin á miðjuna ef Riise væri bakvörður, en ég held ekki.
Framherjar. Ef við hlustum á Benitez og heyrðum hann tala um að ekki væri hægt að láta bæði Alonso og Torres spila leikinn ætla ég hér með að spá því að Torres spili. Hver verður með honum? Bara veit það ekki. Til að skora gegn Everton þarftu kraftmikinn senter og við höfum þá bæði í Voronin og Kuyt. Crouch skoraði tvö á Goodison fyrir 2 tímabilum og er líka kostur, sér í lagi þar sem Kuyt er tæpur og ólíklegt að Torres og Kuyt verði settir saman. Svo má ekki gleyma Babel, sem er jú senter. Ég held að ekki sé heldur hægt að útiloka að Benayoun eða Babel spili í holunni undir senternum í þessum leik, leikkerfi sem ekki hefur verið notað hingað til í vetur en ég er sannfærður að Rafa hefur ekki gleymt. En ég held að við sjáum Voronin í senternum með Torres og við fáum að sjá nokkuð hefðbundið lið Liverpool. Semsagt:
Reina
Finnan – Carragher – Hyypia – Arbeloa
Pennant – Gerrard – Mascherano – Riise
Torres – Voronin
Eða mögulega
Reina
Finnan – Carragher – Hyypia – Arbeloa
Pennant – Gerrard – Mascherano – Riise
Babel/Benayoun
Torres
Ef við skoðum lið Everton hafa þeir spilað dæmigerðan breskan “harðkjarna” fótbolta, með leikkerfið 442 sem útgangspunkt. Hægir og líkamlega sterkir hafsentar, bakverðir sem koma upp, sér í lagi Baines. Slagsmálahundar inni á miðjunni stinga boltanum upp á sentera sem bestir eru að hlaupa, eða út á kantana þar sem “fótboltatýpurnar” eru. Lykillinn að öllum leik þeirra er Mikel Arteta sem er bara feykigóður fótboltamaður. Hinn góði fótboltamaðurinn er Tim Cahill sem kominn er í liðið á ný eftir meiðsli, þó ekki sé víst að hann spili frá byrjun. Liðið leggur mikið upp úr föstum leikatriðum og hafa verið hættulegir þar. Everton tapaði sínum síðasta leik, 2-3 í Newcastle. Eru í 10.sæti með 13 stig eftir 9 leiki. Búnir að spila 4 heimaleiki. Vinna 2, 1 jafntefli og 1 tap. Síðan Benitez kom á Anfield hefur hann unnið einn leik á Goodison og tapað tveimur. Síðast var hræðilegt 0-3 tap sem ennþá svíður.
Ég ætla alltaf að enda upphitanirnar á jákvæðri spá, því þannig verður maður jú alltaf að hugsa. Þetta verður fullkomið brjálæði fyrir hádegið á laugardag (það er búið að breyta bresku klukkunni og leikurinn fer af stað kl. 11:45 á íslenskum tíma) sem mun enda með 1-2 sigri okkar manna þar sem Gerrard laumar slummu í lokin! Bresku blöðin koma svo með þá fullyrðingu á sunnudaginn að Benitez sé að fara að taka við enska landsliðinu…….. Eða?