Latest stories

  • Blackburn: allir meiddir

    Mótherjar okkar um næstu helgi, Blackburn Rovers, eru eitt heitasta lið landsins um þessar mundir. Mér skilst að þeir séu búnir að vinna fimm deildarleiki í röð og eru fyrir vikið komnir einu stigi upp fyrir okkar menn, með jafnmarga leiki, og í gær slógu þeir Portsmouth örugglega út úr Deildarbikarnum með 1-2 sigri á útivelli. Munar þar mestu um framherjaparið þeirra, en Benni McCarthy og Roque Santa Cruz – sem kom til liðsins frá Bayern München í sumar – hafa skorað 9 mörk samtals í deildinni og einhver 11 stykki í öllum keppnum.

    Þó er einn bjartur punktur í þessu fyrir okkar menn. Ég veit að við eigum í meiðslum sjálfir en Robbie Savage, miðjumaðurinn harðskeytti, er víst frá í einhvern langan tíma og í gærkvöldi fótbrotnaði Aaron Mokoena, auk þess sem David Bentley hlaut fótameiðsl. Talið er nær öruggt að þeir missi báðir af leiknum gegn okkur.

    Ég verð að viðurkenna að ég er skíthræddur við þennan leik. Ég held að við töpum okkar fyrsta deildarleik á Ewood Park. Það er allavega nokkuð líklegur staður fyrir slíkt, og þetta leggst bara þannig í mig. Við töpuðum þar í fyrra og þetta mikla baráttulið er á rosalegri siglingu þessa dagana, þannig að ég hef áhyggjur. Viðurkenni það alveg. Því léttir mér aðeins við að heyra að (a) Savage verður ekki á staðnum til að senda fleiri af okkar leikmönnum á sjúkralistann og (b) Bentley mun ekki geta gert Johnny Riise að fífli í þetta skiptið. Ef við gætum nú bara sent tvo menn að næturlagi heim til Santa Cruz og McCarthy … 🙂

  • Liverpool 2 – Cardiff 1

    Það var stór stund á Anfield í kvöld þegar Robbie Fowler mætti til leiks með félögum sínum í Cardiff. Sannkallaður skyldusigur hjá okkar mönnum og eðlileg krafa gerð um áframhaldandi þátttöku í deildarbikarnum.

    Svona var byrjunarliðið:

    Itandje

    Arbeloa – Hobbs – Carragher – Aurelio

    El Zhar – Gerrard – Lucas – Leto

    Babel – Crouch

    Bekkurinn: Martin, Riise, Benayoun (´63 fyrir Leto), Kewell (´71 fyrir El Zhar), Mascherano (´87 fyrir Lucas).

    Leikurinn byrjaði fjörlega í kvöld og bæði lið mjög frísk. Brotið var á Fowler snemma í leiknum rétt fyrir utan teig. Fowler tók góða aukaspyrnu en Itandje varði vel. Cardiff pressaði stíft, Fowler og Hasselbaink spiluðu vel saman og gömlu brýnin ollu smá usla í byrjun. Liverpool átti góða sókn þar sem El Zhar átti góða fyrirgjöf en Lucas náði ekki að klára í fínu færi. Aftur góð sókn hjá Liverpool, Crouch með fallegan snúning en skotið hans fór rétt framhjá.
    Aurelio var nálægt því að skora með mjög óvæntu skoti af löngu færi, frábært skot á nærstöng en góð varsla og gaman að sjá að Aurelio hefur sjálfstraust í að hamra á markið því hann er virkilega góður skotmaður. Babel fékk færi en skalli hans rataði ekki í möskvana. Liverpool voru mun meira með boltann og stjórnuðu leiknum í fyrri hálfleik. Cardiff áttu nokkrar sóknir og Paul Parry átti frábæran skalla en Itandje varði í utanverða stöngina. Liverpool með frábæra sókn, en Leto endaði hana með slöku skoti framhjá. Fyrirliðinn tók málin í sínar hendur með góðum spretti, en það var brotið á honum. Aukaspyrnan fór að sjálfsögðu á kollinn á Crouch sem skallaði á Leto en Leto þrumaði yfir, það virtist vanta mikið upp á sjálfstraust Leto í leiknum en vonandi að það komi fljótlega með fleiri leikjum.

    Cardiff hljóta að hafa farið sáttir inn í hálfleik, staðan 0-0, en Liverpool gátu varla verið sáttir því þeir höfðu klúðrað nokkrum góðum færum. Jack Hobbs átti fínan fyrri hálfleik og virkaði öruggur með Carragher við hlið sér, maður beið og beið eftir markinu því það lá sannarlega í markinu, en 0-0 í hálfleik.

    Eitthvað hefur Rafa sagt við sína leikmenn í hálfleik því Liverpool byrjaði seinni hálfleik með látum. Gerrard lék boltanum út á kantinn til El Zhar sem gerði sér lítið og þrumaði boltanum í netið, frábært skot hjá honum og stórkostlegt mark fyrir framan The Kop, 1-0. Cardiff áttu varla séns í upphafi síðari hálfleiks og stuttu eftir mark El Zhar fékk Steven Gerrard algjört dauðafæri en inn fór boltinn ekki. Cardiff sótti í sig veðrið og vann sig aftur inn í leikinn, fengu dauðafæri en Itandje varði glæsiglega.

    Á 65. mínútu dró til tíðinda þegar að fyrirliði Cardiff Darren Purse átti góðan skalla og jafnaði metin 1-1, ágætis mark hjá buddunni. En nokkrum andartökum síðar átti Benayoun frábæran sprett og sendi magnaða sendingu á Steven Gerrard og Steingerði brást ekki bogalistann í þetta skiptið og skoraði frábært mark, 2-1. Frábært svar við jöfnunarmarkinu og frábært hjá Yossi Benayoun að koma inná og breyta leiknum. Stuttu síðar fékk Babel gott færi en Hollendingurinn náði ekki að skora, virðist erfitt hjá honum að klára færin sín. Á 71. mínútu var markaskoraranum El Zhar skipt útaf og inná kom Ástralinn skemmtilegi Harry Kewell, hann kom inn í framlínuna við hlið Crouch og Babel datt niður á kantinn. Kewell kom mjög frískur inn í spilið og virkaði mjög ferskur og graður, átti skot á markið stuttu eftir að hann kom inná. Peter Crouch lét verja frá sér í góðu færi og stuttu síðar snéri Guð sjálfur Carragher af sér, en Itandje varði skot hans.
    Cardiff pressuðu vel í lok leiks en vörnin hélt vel og góð barátta kom í veg fyrir jöfnunarmark. Liverpool áttu góða skyndisókn undir blálokin þegar Mascherano sendi boltann á Benayoun en hann klikkaði. 2-1 Lokatölur í fjörugum leik sem var vel sóttur á Anfield í kvöld. Eftir leikinn fór Robbie Fowler og þakkaði fyrir sig fyrir framan The Kop og allt ætlaði um koll að keyra þegar Guðinn var hylltur í sennilega sínum síðasta leik á Anfield.

    Ég er virkilega sáttur við mína menn eftir leikinn í kvöld þrátt fyrir harðlifi í markaskorun í fyrri hálfleik. En leikmenn mættu í seinni hálfleik miklu kraftmeiri og gerðu leikinn skemmtilegann.

    Itandje stóð sig mjög vel í markinu og átti nokkrar gríðarlega mikilvægar og góðar vörslur. Hann gat því miður lítið gert þegar gamla brýnið Darren Purse þandi möskvana, en heilt yfir átti Itandje góðan leik.

    Arbeloa átti svosem engan stórleik í bakverðinum hægra megin og spurning hvort hann sé sterkari vinstra megin á vellinum. Hann er að upplagi hægri bakvörður en virðist spila betur í þeim vinstri, sem er frekar skrýtið.

    Carragher átti venjulegan leik, klassískur og solid leikur hjá honum.

    Hobbs kom frábærlega inn í vörnina og átti stórleik. Hann bjargaði okkur nokkrum sinnum og tók hárréttar ákvarðanir. Virkaði öruggur á boltanum og er framtíðarmiðvörður hjá okkur. Ég vona svo sannarlega að hann fái tækifæri í deildinni fljótlega.

    Aurelio átti ágætisleik. Hann þrumaði einu sinni á markið langt fyrir utan teig og sýndi okkur enn og aftur að hann ef með magnaðann vinstri fót.

    El Zhar kom sér hægt og rólega inn í leikinn og tókst að nýta hraða sinn vel á kantinum, hann náði líka nokkrum fyrirgjöfum og var frískur. Hann skoraði fyrra mark Liverpool með bylmingsskoti og það var hans fyrsta mark fyrir aðalliðið. Frábært hjá honum og spurning hvort hann fari á bekkinn í næstu leikjum.

    Gerrard átti mjög góðann leik og hann virkar núna betri og betri með hverjum leiknum sem líður, skorar mikið og berst vel. Hann skoraði seinna mark okkar og þótti það afar glæsilegt. Gerrard dró vagninn í kvöld og átti nokkur góð skot að marki, hann heldur vonandi áfram að skora fyrir okkur og sýna að hann er með betri miðjumönnum í heiminum.

    Lucas spilaði sæmilega, lenti í vandræðum í seinni hálfleik og braut oft klaufalega af sér. Hann uppskar spjald og var í kjölfarið skipt útaf.

    Leto olli nokkrum vonbrigðum með spilamennsku sinni. Hann virkaði óöruggur í dauðafæri sem hann fékk og tapaði boltanum nokkrum sinnum klaufalega á kantinum, hann haltraði af velli í síðari hálfleik en vonandi er það ekkert alvarlegt.

    Crouch spilaði fínan leik, kom sér í nokkur færi og nýtti hæð sína í að leggja upp færi með kollinum. Hann reyndar tapaði tveimur skallaeinvígjum gegn Darren Purse en hvað um það.

    Babel átti góða spretti og nokkrar marktilraunir. Hann fékk góð færi en kláraði þau ekki, en nýtti hraðann og leiknina vel í að skapa hættu.

    Benayoun kom frábær inn í leikinn og sýndi okkur að hann getur breytt leiknum, mjög góður leikmaður sem spilaði vel í kvöld.

    Kewell er að stíga upp úr meiðslum en spilaði að venju vel í kvöld, átti skot á mark og virkaði hress í framlínunni.

    Mascherano kom inná í nokkrar mínútur og komst eðlilega lítið inn í leikinn.

    Maður leiksins: Steven Gerrard…

    hér má nálgast tölfræði úr leiknum.

    Ég mun reyna að nálgast video af mörkunum eins fljótt og ég mögulega get og set þau þá inn.

    Þrumufleygur El Zhar

    Sigurmarkið hjá Gerrard

    YNWA.

  • Liðið gegn Cardiff

    Jæja, liðið gegn Cardiff er komið. Hobbs byrjar inná með Carra og svo á miðjunni eru El Zhar, Lucas og Leto með Stevie G. Frammi fær svo Ryan Babel að spila með Peter Crouch. Ferlegt að fá ekki að sjá þennan leik.

    Itjande

    Arbeloa – Carragher – Hobbs – Aurelio

    El Zhar – Gerrard – Lucas – Leto

    Babel – Crouch

    Á bekknum: Martin, Riise, Kewell, Benayoun, Mascherano.

  • Launin hans Riise

    Okkar ástkæri og rauðhærði vinstri bakvörður, John Arne Riise er óumdeildur snillingur og uppáhaldsleikmaður flestra á þessu bloggi.

    Af einhverjum ástæðum hefur það lekið út hversu mikið Riise fær greitt fyrir það að skemmta okkur í viku hverri.

    Launin í lok mánaðar: 139.634 pund. Það er **17.361.289 íslenskar krónur**. Semsagt, 17 milljónir á mánuði. Það gerir 208 milljónir í árslaun.

    Nú ætla Liverpool menn að rannsaka hvernig launa upplýsingarnar urðu opinberar. Ég er hins vegar með afar einfalda skýringu á þessu. Riise lak þessu ábyggilega sjálfur til blaðanna. Einsog margir kannast við þá hefur Riise verið óvenju frakkur við það að eltast við kvenfólk. Það hefur greinilega ekki dugað nógu vel að segjast vera vinstri bakvörður Liverpool, þannig að það að leka laununum sínum í blöðin er næsta skref í því að gera sig meira heillandi fyrir kvenþjóðina. 🙂

  • Fowler returns! – Cardiff á morgun!

    Á morgun, miðvikudaginn 31. október, snýr ‘Guð’ aftur á Anfield. En hann kemur ekki einn, hann kemur í fylgd Cardiff sem keppir annað kvöld við Liverpool í fjórðu umferð deildarbikarkeppninnar ensku. Robbie Fowler er hetja í augum svo margra aðdáenda Liverpool og það verður því fróðlegt að sjá hann koma til baka, eftir að hafa fengið sannarlega “kveðju-stund” þegar hann kvaddi Liverpool í annað skiptið. Það er ekki skrítið að sjá að Fowler er markahæsti leikmaður Cardiff – 6 mörk í 12 leikjum. Rafa hefur verið að lofa Fowler mikið í viðtölum fyrir leikinn, og meira að segja sagði Rafa að honum þætti vænt um kannski að Robbie skoraði mark … en þá þyrftu Liverpool að hafa skorað þrjú áður:

    “I would like to see him very happy before the game but when it is over I hope he is a little bit disappointed”

    “After this match, I hope to see him scoring 20 goals and being the top scorer in the Championship”

    “Maybe we can leave him to score a fantastic goal in front of the Kop but at the end of the game we will need to have scored three!”

    En eins vænt og okkur þykir um Fowler, þá er það okkar lið sem er til umfjöllunar hér og ég skal segja ykkur það, að ég er bara bjartsýnn. Sýnd veiði en ekki gefin … þetta eru orð að sönnu. En ég er bjartsýnn. Rafa hefur sagt að Lucas Leiva þurfi að spila, sem og Sebastian Leto og Fabio Aurelio … og meira að segja Harry Kewell. En hann endar sínar pælingar á þessum frægu orðum: “We will see.”

    Þessi leikur kemur líka í kjölfar leiksins þar sem Arsenal náði jafntefli á móti okkur, og spilamennskan er á uppleið hjá okkur. Munu hins vegar meiðsli Alonso, Torres, Pennant og Mascherano draga úr öðrum þróttinn … eða blása baráttuanda í þá? Notabene, meiðsli Mascherano eru ekki það alvarleg og einhverjar vonir eru um að hann verði klár fyrir Blackburn leikinn. En fyrir þremur dögum sáust flott batamerki í baráttuandanum og spilinu. Hvernig verður þetta núna? Ég svona eins og jólin: vandi er um slíkt að spá, en eitt er víst að það verður ákaflega gaman þá.

    Á maður að gera ráð fyrir að Itjande byrji? Liverpool er jú með það breiðan hóp að við getum stillt upp frábæru liði tvisvar. En hversu miklar breytingar munum við sjá? Hversu mikla áherslu vilja menn leggja á þennan bikar? Ég er ekki heimsins besti spámaður í liðsuppstillingum … þannig að ég mun fagna því ef ég hef 6 eða fleiri rétta í liðinu. Eigum við ekki að segja þetta bara:

    Itjande

    Arbeloa – Carragher – Hyypia – Aurelio

    Benayoun – Leiva – Sissoko – Kewell

    Crouch – Kuyt

    Nema Gerrard byrji inná í stað Leiva?

    Cardiff er í 17. sæti í Coca Cola deildinni með 1 mark í mínus eftir 13 umferðir. Og þeim virðist hafa gengið betur á útivöllum heldur en heima. Kasper Schmeichel fær ekki leyfi hjá Manchester City til að spila … og ég gæti komið með aðra punkta um Cardiff, en ég ætla að sleppa því. Þegar allt kemur til alls, þá eru svona “aukakeppnir”/bikarkeppnir allt annar handleggur og við sjáum bara t.d. íslenska úrslitaleikinn í bikarnum þar sem Fjölnismenn náðu framlengingu á móti FH. Vissulega spila bæði þau lið í úrvalsdeild að ári, en punkturinn minn er einfaldur:

    Við eigum að “rústa” þessu Cardiff liði, en ég gæti sosum alveg trúað því að þetta verði erfitt – ef við myndum sálgreina liðið í kjölfar slæmrar spilamennsku, gengis í meistaradeildinni, meiðslasögu lykilmanna o.s.frv. En Liverpool er stórveldi og ég trúi ekki öðru en að mennirnir sem fá tækifæri í þessum leik sýni Rafa og okkur það, að við þurfum ekki að engjast í áhyggjum yfir hópnum.

    Dave Jones, þjálfari Cardiff, segir að þetta verði frábær heimsókn fyrir Fowler, en hann ítrekar það að Fowler sé professional spilari sem muni beita sér fyrir sitt lið:

    “He’ll be totally focussed on playing and you can grasp that by him not wanting to do interviews … To go back is special, but all he wants to do is get his head down and put on a performance for Cardiff.”

    Ég ætla að fara í bjartsýniskast og spái Liverpool 4 – Cardiff 1, þar sem vissulega Fowlerinn skorar og allir brosa … en fyrir okkar menn verða það Leiva, Sissoko, Benayoun og Babel kemur af bekknum og þrumar glæsilega innundir hægri vinkilinn.

  • Torres frá í þrjár vikur

    Jæja, það er þá komið í ljós að Fernando Torres verður frá [í þrjár vikur](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N157487071029-1303.htm). Það þýðir að hann missir af tveimur deildarleikjum (Blackburn og Fulham) og gegn Besiktas í Meistaradeildinni. Það hefði getað verið verra.

    Enn er óljóst með Xabi og Masche:

    >”As for Xabi Alonso, an x-ray showed a fracture to the fourth metatarsal in his left foot. Xabi will be seen by a consultant tomorrow after which we will have a much better idea of the timescales involved.

    >”With regards to Javier Mascherano, he had an x-ray which has showed no bone injury, but he will receive intensive treatment on extensive bruising in his foot.”

    Vonandi reynist þetta ekki alvarlegt hjá þeim félögum.

  • Liverpool 1 – Arsenal 1

    Í dag mættust þau tvö lið í Úrvalsdeildinni sem höfðu ekki tapað leik fyrir umferðina á Anfield og í leikslok varð ljóst að svo yrði það um sinn, er Liverpool og Arsenal **gerðu 1-1 jafntefli** í toppslag umferðarinnar. Fyrir leikinn hafði mikið verið ritað um sigurhrinu Arsenal-liðsins, sem kom á Anfield með tólf sigra í röð í öllum keppnum í farteskinu, og lægð Liverpool-liðsins, sem hafði aðeins unnið þrjá sigra í síðustu níu leikjum í öllum keppnum.

    Rafa Benítez stillti upp sókndjörfu liði í dag:

    Reina

    Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

    Gerrard – Mascherano – Alonso

    Kuyt – Torres – Voronin

    Arsene Wenger stillti upp nær óbreyttu liði frá því í síðasta leik:

    Almunia

    Sagna – Touré – Gallas – Clichy

    Eboue – Rosicky – Fabregas – Flamini – Hleb

    Adebayor

    Leikurinn fór fjörlega af stað og okkar menn byrjuðu betur. Rafa Benítez hafði greinilega unnið heimavinnuna sína og lét sitt lið mæta Arsenal-liðinu mjög ofarlega á vellinum, sem bæði klippti Fabregas og Flamini út úr spili Arsenal-manna og stuðlaði að óöryggi í vörn þeirra, auk þess sem Liverpool-liðið spilaði hnitmiðuðum, háum boltum úr eigin vörn í átt að Touré og Gallas, þar sem Torres var duglegur að pressa og miðjumenn Liverpool unnu hvern boltann á fætur öðrum eftir skallaeinvígi.

    Þetta skóp fyrstu hálffæri leiksins og varð til þess að Liverpool fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan teig Arsenal á áttundu mínútu. Johnny Riise renndi boltanum til hliðar og þar kom fyrirliðinn **Steven Gerrard** aðvífandi og negldi í gegnum glufu á varnarvegg Arsenal og í tómt netið, óverjandi fyrir Almunia í markinu og staðan orðin 1-0 fyrir Liverpool!

    Eftir þetta kom Arsenal-liðið framar á völlinn og náði smám saman að byrja að spila sinn bolta. Fljótlega eftir mark Gerrard slapp Adebayor í gegnum vörn Liverpool en Reina kom vel á móti og varði skot hans, einn gegn einum. Þrátt fyrir góða spilamennsku og þunga sókn Arsenal í fyrri hálfleik átti það eftir að vera eina markskotið sem Pepe Reina þurfti að verja, þar sem það skorti helst hjá Arsenal-liðinu að ná að klára sóknir sínar með markskotum.

    Þar réði mestu um að vörn Liverpool, sem hefur verið mjög óörugg í síðustu leikjum, var frábær í þessum leik í kvöld og þótt liðin hafi verið með svipað margar marktilraunir í þessum leik var munurinn sá að flest skot Liverpool rötuðu að marki þar sem Almunia þurfti nokkrum sinnum að taka á sínum stóra til að halda sínu liði aðeins einu marki undir þá enduðu flest skot Arsenal-manna í fótum þeirra Sami Hyypiä og Jamie Carragher sem virtust glaðir henda sér fyrir öll skot gestanna.

    Sóknarlega dró Liverpool-liðið sig aðeins of aftarlega fyrir minn smekk í fyrri hálfleik en beitti þó sterkum skyndisóknum inn á milli, og þá sérstaklega upp vinstra megin þar sem Torres og Voronin voru iðulega með boltann í góðu svæði til að sækja. Voronin fann sig þó aldrei í þessum leik, þrátt fyrir þrotlausa vinnu, auk þess sem það var ljóst frá fyrstu mínútu að Torres gekk ekki heill til skógar eftir meiðsli sín undanfarið og því voru sóknir okkar frekar bitlausar eins og sóknir gestanna.

    Það fór svo að Torres fór útaf í hálfleik, í stöðunni 1-0 fyrir Liverpool, og inná fyrir hann kom Peter nokkur Crouch sem vildi ólmur sanna sig í þessum toppleik, enda skoraði hann þrennu síðast þegar Arsenal komu á Anfield. Hann lék mjög vel í síðari hálfleik og hefði með smá heppni getað skorað a.m.k. eitt mark, var síógnandi upp við mark Arsenal og strax í upphafi síðari hálfleiks átti hann frábært langskot sem minnti á sigurmark Neil Mellor fyrir þremur árum síðan (vá, hvað tíminn er fljótur að líða) en Almunia náði að slæma hendi í boltann og bægja honum í horn.

    Annars gekk síðari hálfleikurinn svipað og sá fyrri nema hvað mér fannst bæði lið spila enn betur; Arsenal-menn fóru að sýna meira bit í sóknum sínum en þó án þess að ná að skjóta mikið á mark Liverpool á meðan okkar menn komu framar á völlinn, náðu betri tökum á miðjunni og voru nokkrum sinnum nálægt því að bæta við marki. Maður hafði á tilfinningunni þegar leið á leikinn að bæði lið gætu skorað án nokkurs fyrirvara og þetta var eiginlega bara spurning hvar næsta mark lenti.

    Þegar tíu mínútur eða svo voru eftir af leiknum kom svo seinna markið, en því miður fyrir okkur féll það Arsenal-megin. Aleksandr Hleb, sem hafði dottið aðeins út úr spili Arsenal þegar leið á leikinn, fékk boltann á vinstri vængnum fyrir framan vörn Liverpool og vippaði sannkallaðri snilldarsendingu innfyrir, þar sem **Francesc Fabregas** kom aðvífandi og skaut framhjá Pepe Reina og í markið. 1-1 og tíunda mark þessa unga miðjumanns sem virðist vera að springa út á fyrstu mánuðum þessa tímabils.

    Það var súrt að sjá á eftir jöfnunarmarkinu til Arsenal-liðsins svona stuttu fyrir leikslok en í sannleika sagt var bara sanngjarnt að sjá þá jafna og eftir leik gat maður lítið annað en tekið undir með mönnum að jafntefli var sanngjarnasta niðurstaðan. Við höfum rætt mikið um svokallaðan andfótbolta á þessari síðu (og víðar) síðustu daga og því var það mjög ánægjulegt að sjá tvö lið í dag sækja hart til sigurs í toppslag í ensku Úrvalsdeildinni. Bæði lið voru að spila mjög vel – Arsenal-liðið á pari við það sem þeir hafa verið að sýna í undanförnum leikjum, Liverpool-liðið talsvert betur en síðasta mánuðinn – og þetta hefði getað dottið hvorum megin sem er (sérstaklega í tveimur stangarskotum Arsenal (og í kjölfarið þegar Fabregas skaut yfir fyrir opnu marki eftir fyrra stangarskotið) og í tveimur rosaskotum Gerrard og Crouch í sitt hvorum hálfleiknum) en eftir svona opinn, skemmtilegan og hraðan sóknarleik beggja liða held ég að allir geti unað sáttir við jafnteflið.

    Hvað Arsenal-liðið varðar, svo ég tjái mig stuttlega um þá, verð ég að segja að þeir stóðust væntingarnar í dag. Það hefur mikið verið rætt um lið Arsene Wenger undanfarið og talað um að þeir þyrftu að sýna að þeir gætu spilað eins gegn stóru liðunum og þeir hafa gert gegn minni spámönnum undanfarið og í dag komu þeir á Anfield og spiluðu frábærlega. Þetta lið verður vissulega erfitt viðureignar í vetur og það er ljóst að lið eins og Liverpool, Man Utd og Chelsea þurfa að vera í toppformi til að fjarlægja Nallarana af toppnum.

    Hvað okkar menn varðar var þessi leikur mjög hughreystandi fyrir mig. Við munum sennilega bara spila einu sinni enn í vetur gegn jafn góðu sóknarliði og Arsenal er, og það verður í útileiknum gegn Wenger & Co., þannig að sú staðreynd hversu vel okkar menn léku var mjög hughreystandi fyrir okkur Púllarana að sjá okkar menn rífa sig af krafti upp úr lægð undanfarinna leikja.

    Ljúkum þessu á leikmannamati:

    **Pepe Reina:** Varði vel frá Adebayor í fyrri hálfleik og virkaði öruggur í fyrirgjöfum. Gat lítið gert við markinu.
    **Steve Finnan:** Allt annað að sjá til hans í kvöld eftir hörmungina gegn Besiktas. Varðist vel og sótti mjög vel fram, en vantaði aðeins upp á fyrirgjafirnar hans.
    **Johnny Riise:** Góður varnarlega og hélt aftur af Eboue allan leikinn utan eitt skipti í síðari hálfleik þegar Eboue komst óvaldaður framhjá honum og skaut í stöng. Var hins vegar skelfilega lélegur í sendingum fram á við og eyðilagði þó nokkrar sóknir liðsins í síðari hálfleik. Betur má ef duga skal.
    **Sami Hyypiä:** Sá gamli var að spila gegn liði þar sem hver einasti leikmaður er helmingi fljótari en hann, en samt fann maður ekkert fyrir því í þessum leik. Þessi leikur var gott dæmi um það hvernig Sami getur bætt sér upp hraðaskortinn með góðum lestri á leiknum og oftar en ekki steig hann menn eða sendingar út í stað þess að láta teyma sig út í eltingarleik. Flottur leikur hjá þeim gamla.
    **Jamie Carragher:** Hvað get ég sagt? Goðsögnin er mætt aftur. Hann var frábær í þessum leik, henti sér fyrir hvert skot og hélt alveg aftur af Adebayor. Þarna þekkjum við hann!
    **Javier Mascherano:** Masche var frábær í þessum leik, braut hverja sóknina á fætur öðrum á bak aftur og var oftar en ekki byrjunarmaðurinn að hröðum sóknum Liverpool. Frábær leikur og hefði verið maður leiksins ef ekki hefði verið fyrir næsta mann.
    **Steven Gerrard:** Frábært mark, frábær leikur. Gerrard hefur eins og aðrir verið frekar misjafn undanfarnar vikur en í dag var hann aðaldrifkrafturinn í sóknarleik Liverpool og algjör yfirburðamaður á miðsvæði beggja liða. Eins góðir og Mascherano og Alonso voru hjá okkur, og Fabregas hjá Arsenal, þá bar fyrirliðinn einfaldlega höfuð og herðar yfir aðra í dag og fær því að mínu mati titilinn **MAÐUR LEIKSINS**.
    **Xabi Alonso:** Er það tilviljun að Gerrard hrekkur í gang um leið og Xabi kemur aftur inná miðjuna? Er það tilviljun að boltinn byrjar loksins aftur að flæða hjá liðinu? Mitt svar: nei! Xabi, við söknuðum þín! Ég vona bara að meiðslin sem neyddu hann til að fara útaf í seinni hálfleik séu ekki alvarleg.
    **Andriy Voronin:** Vann eins og skepna út um allan völl en tókst aldrei að koma sér inn í spil liðsins. Hefur verið betri.
    **Dirk Kuyt:** Eins og Voronin vann hann ótrúlega vel í þessum leik en hann spilaði talsvert betur og var miklu hættulegri en sá úkraínski. Það er kannski af því að Kuyt er vanari að spila sem svona útherji fyrir hollenska landsliðið. Hefði með smá heppni getað skorað mark undir lokin en allt kom fyrir ekki.
    **Fernando Torres:** Var augljóslega ekki tilbúinn í þennan leik og fór útaf meiddur í hálfleik.
    **Peter Crouch:** Mjög góður í síðari hálfleik, hélt bolta vel og var síógnandi. Hann hefði haft gott af því að skora en fyrst það tókst ekki verður hann að hugga sig við að hafa enn og aftur strítt þeim Gallas og Touré í vörn Arsenal.
    **Yossi Benayoun:** Kom vel inn í þennan leik en náði ekki að skapa þessa “killer”-sendingu sem hann var augljóslega að leita að. Hefur verið betri, hefur líka verið verri.
    **Alvaro Arbeloa:** Kom inn á miðjuna fyrir Alonso og var greinilega óvanur þeirri stöðu því hann komst aldrei inn í leikinn.

    Þannig er það nú. Ég gæti skrifað miklu meira um þennan leik en lokaniðurstaðan er sanngjarnt jafntefli í opnum og skemmtilegum leik þar sem Arsenal sýndu að þeir ætla að vera á toppnum áfram og okkar menn minntu á sig eftir slæmt gengi undanfarið.

    Jafntefli. Það gæti verið betra, það gæti verið verra.

  • Uppfært: Arsenal-leikurinn

    Sælt veri fólkið.

    Upp kom óvænt ferð leikskýrsluritara til Reykjavíkur og til baka. Því vill ég að þessi linkur verði nýttur af þeim sem vilja tjá sig um leikinn áður en leikskýrslan dettur inn. Reikna með að vera búinn að setja hana inn ekki seinna en 20:30, fyrr ef ég kemst í tölvu í borginni. Þannig að ekki nýta þennan link fyrr en eftir leik og ég verð snöggur til…… Maggi.

    **Uppfært (Kristján Atli):** Endilega spjallið um leikinn hér á meðan hann fer fram. Ég leysi Magga af í dag og set inn leikskýrslu um leið og leik lýkur. Vonandi verður það jákvæð skýrsla. 🙂

    **Uppfært #2 (Kristján Atli):** Byrjunarliðin eru komin.

    **Liverpool:**

    Reina

    Finnan – Hyypiä – Carragher – Riise

    Gerrard – Alonso – Mascherano – Voronin

    Torres – Kuyt

    **Bekkur:** Itandje, Arbeloa, Benayoun, Babel, Crouch.

    Mér líst vel á þetta lið. Þetta er sókndjarft, svo ekki sé meira sagt; þrír framherjar inni og einn annar á bekknum auk Babel og Benayoun. Mér sýnist Voronin byrja á kanti og Gerrard úti á hinum kantinum. Að mínu mati er lykilatriðið fyrir okkar menn það hversu ferskir Alonso og Torres verða eftir meiðslahlé. Ef þeir koma sterkir inn eigum við séns í dag, ef þeir eru ekki í leikæfingu og komast ekki í takt við leikinn mun þetta sennilega tapast.

    **Arsenal:**

    Almunia

    Sagna – Touré – Gallas – Clichy

    Eboue – Fabregas – Flamini – Hleb – Rosicky

    Adebayor

    **Bekkur:** Frekur Þjóðverji, Sissoko-wannabe, litli-Henry, brasilíski Fabregas, gamli fyrirliðinn og eflaust einhverjir fleiri.

    Það kemur mér á óvart að Wenger skuli taka Walcott út úr byrjunarliðinu gegn Slavia Prague og setja miðjumanninn Rosicky inn í staðinn. Menn tala og tala um hið stórkostlega sóknarlið Arsenal og kannski ætla þeir að sækja í þessum leik, þrátt fyrir að þétta miðjuna og fórna framherja, en ég get ekki túlkað þetta öðruvísi en svo að Wenger vilji fyrst og fremst þétta miðjuna og reyna að missa ekki stjórn á leiknum þar. Þetta lið þeirra er vel megnugt að sigra okkar menn en þetta er allavega ekki þessi blússandi sóknaruppstilling sem ég held að flestir hafi búist við.

    Sjáum hvað setur. Ég er orðinn spenntur og réttur hálftími í leik. **ÁFRAM LIVERPOOL – COME ON YOU REDS – YNWA!!!!**

  • Arsenal á hvíldardaginn!

    Á sunnudaginn kl. 16:00 fer fram stórleikur helgarinnar á Anfield! Arsenal menn kíkja í heimsókn og eins og fyrr býst maður við heimasigri, alveg sama hvaða lið það er sem kemur í heimsókn. Um síðustu helgi unnum við Everton eins og flestir vita en svo í miðri viku komu bremsuför í brækurnar þegar við töpuðum 2-1 gegn Besiktas. Maður fer að hugsa hvað þurfi til að rífa þetta upp, þá meina ég almenninlega upp, ekki bara fyrir einn leik! Ef menn ná ekki að búa til stemningu og koma inn í leikinn gegn Arsenal snælduvitlausir og baráttuglaðir, þá gera menn það aldrei. Sigur í þessum leik myndi auka sjálfstraust liðsins gífurlega og því er þetta mjög mikilvægur leikur, gæti orðið vendipunkturinn hjá okkur.

    Rafael Benítez er hinn rólegasti og segist ekki finna fyrir neinni pressu þrátt fyrir brösótt gengi Liverpool síðustu vikur. Ég vona að hann stappi stálinu í Steven Gerrard og að kapteinninn mæti ferskur til leiks og rífi sína menn áfram. Það er orðið mjög langt síðan að hann hefur átt frábæran leik í rauðu treyjunni, þá meina ég performance þar sem hann er út um allan völl, á nokkur þrumuskot að marki, kemur með úrslitasendingar og hvetur menn áfram og býr til stemningu í liðinu! Ég sakna þessa Steven Gerrard mjög mikið.

    Lið Arsenal er eins og við vitum öll að spila frábæran bolta, skemmtilegasta boltann að margra mati, í deildinni eins og er. Þeir eru mjög hreyfanlegir og byggja upp á stuttum boltum, fáar snertingar og hátt tempó. Oft er erfitt að stöðva svona spilamennsku en það er alveg hægt, t.d. með að spila fast á móti þeim. Við stoppum ekki sóknir Arsenal nema menn séu alltaf nálægt mönnunum og spili physical! Hvað varðar sóknaraðgerðir okkar þá var sóknarleikurinn ekki upp á marga fiska gegn Besiktas, en nú er allt annar leikur á borðinu, leikur sem ég tel að gæti orðið vendipunktur fyrir okkur í deildinni eins og áður sagði.

    Ég býst við miklu meiri krafti, alvöru baráttu og að leikmenn gjörsamlega klári sig, annað er óásættanlegt í svona stórleikjum. Væntingarnar eru vissulega miklar en þær eiga fullan rétt á sér.

    Þegar kemur að því að skjóta á byrjunarlið Rafa þá vandast oft málið. Ég hef mikið hugsað um þetta í dag og ég tippa á eftirfarandi lið:

    Reina

    Finnan – Carragher – Hyypia – Riise

    Benayoun – Gerrard – Alonso – Babel

    Voronin – Kuyt

    Bekkur: Itandje, Hobbs, Lucas, Mascherano, Torres.

    Rökstuðningur: Reina er að sjálfsögðu á milli stanganna, hefur vaxið gríðarlega síðan hann kom til klúbbsins og að mínu mati er hann besti markmaður í boltanum í dag.

    Vörnin: Verður mjög sennilega hefðbundin og hana þarf ekkert að skýra fyrir mönnum.

    Miðjan: Alltaf athyglisvert umhugsunarefni. Ég held að Babel og Benayoun verði á köntunum, báðir frískir og tæknilega góðir leimenn sem geta búið til skemmtilega hluti og komið vörnum andstæðinganna í opna skjöldu. Rafa hugsar örugglega mikið um skyndisóknir í þessum leik og mun þá nota hraða Babel í þær. Gerrard að sjálfsögðu í byrjunarliðinu og reynsla Alonso mun koma sér vel. Við erum búnir að sakna Alonso mikið síðustu vikurnar og vonandi að hann byrji inná. Pennant er að fara í aðgerð og er því úr leik í nokkrar vikur, slæmt fyrir okkur því hann er mjög frískur!

    Sóknin: Þar sem framherji númer eitt Fernando Torres er tæpur fyrir leikinn tel ég nánast öruggt að Kuyt verði frammi, en spurningin er hvort verður Voronin eða Crouch með honum? Verður kannski Torres látinn byrja? Ég þori ekki að stilla honum hér upp því Rafa sagði að hann gæti hugsanlega verið með (sem þýðir örugglega ekki í byrjunarliði), hann hefur æft með liðinu og læknaliðið mun ákveða hvort hann verði með eða ekki. Ég tel því ólíklegt að hann byrji. Ég set Voronin við hliðina á Kuyt því Crouch hefur ekki átt fast sæti í liðinu. Crouch skoraði þrennu gegn Arsenal á Anfield í fyrra en ég efast um að hann byrji eða jafnvel komist í hóp. Voronin hefur komið á óvart og spilað vel og vonandi að hann haldi uppteknum hætti og geri varnarmönnum gestanna lífið leitt.

    Rafa mun samt örugglega koma okkur á óvart með vali sínu að venju, en við sjáum til.

    Mín spá: Ég get ómögulega gert mér grein fyrir hvernig þessi leikur fer, bæði lið eru taplaus í deildinni. Það hefur verið óöryggi og titringur í öftustu línu Liverpool að undanförnu en menn verða að laga það ef þeir ætla að sigra lið sem vann síðasta leik sinn 7-0 og er með sjálfstraustið í botni. Það er spurning hvernig Arsenal menn bregðast við ef Liverpool spilar fast á móti þeim, gefur þeim engar glufur og spila svo hratt á þá.

    Fyrirfram myndi maður skjóta á að Arsenal myndi taka stigin 3, miðað við síðustu leiki beggja liða, en fótbolti er íþrótt þar sem menn verða að vilja og berjast, hvort liðið vill þetta meira? Þar sem við erum á heimavelli ætla ég að spá að við verðum miklu graðari en gestirnir og sigrum leikinn 2-1. Sá sem mun sjá um að þenja netmöskvana á Anfield að þessu sinni verður Carragher en hann mun setja tvö, Hyypia mun skora fyrir Arsenal. Neinei, að öllu gamni slepptu þá verða það miðjumennirnir Alonso og Gerrard sem setjann og mér er alveg sama hver skorar fyrir Arsenal.

    Hér eru nokkrar hreyfimyndir úr fyrri viðureignum liðanna, svona rétt til að ylja mönnum um hjartarætur og rifja upp góðar stundir.

    Alonso með eitt gullfallegt

    Mellor með eitt eftirminnilegt

    Crouch fullkomnar þrennuna

    Ég vona að mitt lið mæti til leiks á sunnudaginn til að sigra og berjist eins og grenjandi ljón, ég finn það á mér, eitthvað stórkostlegt er í vændum!!

    YNWA.

  • Hicks: Rafa verður að vinna titilinn

    Ég vaknaði í morgun og sá strax að allir stóru miðlarnir á Englandi voru að segja sömu sögu. Svo virðist, ef eitthvað er að marka frásagnir ensku miðlanna, að Rafa Benítez verði að gera alvöru atlögu að ensku Úrvalsdeildinni í vetur, ellegar þola afleiðingarnar í vor. Ef maður les ummæli Hicks beint segir hann það kannski ekki svona blákalt, en hann gefur það þokkalega vel í skyn:

    “One of the reasons we made the signings we did in the summer was to create the depth we now have. Rafa explained to George and me that is how you win the Prem, because you have to play every team twice,” Hicks said. “We totally support Rafa, nobody wants to win more than Rafa. But I know when we committed the resources for signings in the summer the whole idea was to have a team that could compete for the Premier League. We’ve not had the depth previously to do that.

    This squad is good enough to win things. It should be winning things. If it doesn’t we’ll have to look at the circumstances and have a meeting at the end of the year to understand what happened. I don’t want to predict failure, I want to predict success.”

    Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur: allt tal um að láta Benítez fara í vetur er ótímabært og hreinlega óviðeigandi. Menn ættu að vita betur en svo að halda að Liverpool FC fari að steypa sér í óvissu með því að láta stjórann fara á mikilvægum tímapunkti tímabilsins. Eins finnst mér frekar djúpt í árinni tekið að gefa það í skyn að starf Rafa Benítez sé í hættu. Það er það ekki, eins og staðan er í dag er hann öruggur í starfi og getur einbeitt sér að því að rífa liðið upp úr núverandi lægð án þess að hafa áhyggjur af því hvort hann verður hérna enn eftir viku (eins og t.d. Martin Jol fékk að reyna í gær).

    Ég hef hins vegar einnig sagt að rétti tíminn til að dæma Rafa verður í vor. Miðað við ummæli Hicks er ljóst að hann er að segja nokkurn veginn það sama; á meðan Rafa er stjóri Liverpool eigum við að styðja hann og ekki sóa tímanum í að heimta José Mourinho eða einhver álíka fáránleg nöfn í þjálfarasætið. Svo í vor verður árangur hans á þessu tímabili veginn og metinn og eigendurnir munu ákveða hvort að hann sé enn rétti maðurinn fyrir liðið. Að öllum líkindum verður hann enn hjá Liverpool eftir ár, en kannski verður árangurinn í vetur það mikil vonbrigði að þeir sjá sér þann kostinn bestan að láta hann fara.

    Bottom line: hættum að tala um starfsöryggi Rafa og/eða hverja við viljum fá sem eftirmann hans. Allt slíkt tal er ótímabært og óviðeigandi eins og staðan er í dag. Ég skal ræða það við ykkur í vor ef þetta tímabil fer til fjandans, og ég lofa ykkur því að ef tilefni er til að þessu tímabili loknu mun Rafa ekki eiga sér marga stuðningsmenn á meðal penna þessarar síðu, en á meðan hann er í eldlínunni með liðið okkar og stendur í ströngu eigum við að styðja hann.

    Styðja núna, dæma í vor. Díll?

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close