Latest stories

  • Liverpool – Everton derby á Anfield

    Jú þið lásuð það rétt. Þrátt fyrir landsleikjahlé þá munu lið Liverpool og Everton mætast á Anfield núna kl. 15:00. Glöggir hlustendur hafa löngu áttað sig á að meðlimir karlaliðsins eru fjarri góðu gamni, enda eru það stelpurnar okkar sem ætla að skemmta okkur í staðinn.

    Kvennaliðið leikur almennt ekki á Anfield, heldur á Prenton Park, heimavelli Tranmere. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að aðsóknin að leikjum liðsins er einfaldlega ekki nægilega góð til að réttlæta það að setja Anfield vélarnar í gang. Anfield tekur jú 54.074 manns í sæti, en að jafnaði er aðsóknin á leiki kvennaliðsins mæld í hundruðum, ekki þúsundum. En í haust hafa allnokkrir leikir í kvennadeildinni verið leiknir á aðalleikvöngum liðanna, bæði í Manchester, London og víðar. Og nú er komið að stelpunum okkar að fá að láta ljós sitt skína á Anfield.

    Sumir hafa haldið því fram að þetta sé í fyrsta skiptið sem kvennaliðið spilar á Anfield. Það er þó ekki alveg rétt, því árið 1997 léku þessi sömu lið á Anfield. Sá leikur fór 2-0 fyrir þeim bláklæddu, en það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan það var. En það er ekki þar með sagt að við getum bókað betri úrslit í dag. Gengi liðsins á þessari leiktíð hefur því miður ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir. Liðið er í neðsta sæti deildarinnar, hefur aðeins skorað eitt mark og það var úr vítaspyrnu. Vissulega hafa margir þessara leikja verið að enda 1-0 eða 2-0 fyrir andstæðingunum, og gleymum líka ekki að nokkurnveginn nákvæmlega sama lið vann Everton í vor. Og betra tækifæri til að snúa við blaðinu gefst varla heldur en að mæta á Anfield og spila gegn Everton.

    Liðið sem labbar út á völlinn mun líta svona út:

    Preuss

    Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Robe

    Bailey – Roberts

    Lawley – Linnett – Charles
    Sweetman-Kirk

    Bekkur: Kitching, Hodson, Kearns, Murray, Rodgers, Babajide

    Ég ætla a.m.k. að giska á að uppleggið sé 4-2-3-1, með Kirsty Linnett í holunni en það er staða sem hún hefur verið að prófa sig áfram með. Skemmst að minnast þess að hún skoraði þrennu í bikarnum fyrr í haust gegn Coventry, og því vonandi að hún sé enn á skotskónum. Síðan væri aldeildis gaman ef Courtney Sweetman-Kirk kæmist aftur í gang í leiknum í dag, hún var jú markahæst leikmanna liðsins á síðustu leiktíð en hefur ekki fundið taktinn í vetur. Hún kom einmitt frá Everton, og því væri afar sætt að sjá hana setja eins og eitt mark við Kop stúkuna.

    Það var frá upphafi ákveðið að selja ekki í allar stúkur vallarins, en að fylla fyrirfram ákveðin stæði. Þannig ættu flest svæði í Kenny Dalglish stúkunni að vera í notkun, sem og megnið af The Kop, og að lokum fá Everton aðdáendur að vera í Anfield Road stúkunni. Í gær var svo tilkynnt að það væri uppselt á leikinn í þessar stúkur sem verða í notkun, svo það er vonandi að stemmingin verði góð.

    Það er ekki alveg ljóst hvort leikurinn verður sýndur á FA Player síðunni, en hann verður a.m.k. sýndur á Facebook síðu Liverpool Women, sem og frítt á heimasíðu Liverpool.

    Við uppfærum svo færsluna síðar í dag með úrslitum leiksins.


    Leik lokið með enn einum 0-1 ósigrinum. Í þetta skiptið skoruðu Everton konur með síðustu snertingu fyrri hálfleiks, með skoti sem Preuss hefði varið auðveldlega í svona 99.99% tilfella, en tókst á einhvern óskiljanlegan máta að missa framhjá sér í þetta skiptið. Og þrátt fyrir að okkar konur hafi verið heilt yfir betri aðilinn í leiknum, þá vantaði gæði á síðasta þriðjunginum. Allnokkur færi sem liðið fékk, það besta kom um miðjan fyrri hálfleik þegar Kirsty Linnett átti skalla sem markvörður Everton varði mjög vel. Annars fullt af hálffærum, en ekki nóg til að brjóta ísinn.

    Það er því ljóst að liðið er komið í virkileg vandræði. Staðan virðist vera þannig að önnur lið hafa styrkt sig og eru einfaldlega komin upp á næsta þrep, en hæstráðendur hjá Liverpool hafa ætlað að stóla á að ungu stelpurnar gætu tekið við keflinu. Það hefur einfaldlega ekki gengið eftir. Vissulega margar efnilegar í hópnum, en það vantar meiri reynslu og einfaldlega meiri gæði. Hver veit nema það verði sér pistill um stöðuna hjá stelpunum okkar fljótlega, ég veit að Maggarnir báðir hafa sterkar skoðanir þar.

  • Gullkastið – Innkastið

    Fórum á skrifstofu .net til að taka upp Innkastið sem fjallaði um veislu helgarinnar. Það er því ekki hefðbundið Gullkast í þessari viku en umræðuefnið er auðvitað það sama. Frábær sex stiga helgi. 

    Stjórnandi: Magnús Már Einarsson (Fótbolti.net)
    Viðmælendur:Einar Matthías, SSteinn og Maggi

    MP3: Þáttur 262

    Kop.is á Facebook og Twitter – Endilega fylgið okkur þar líka.

  • Liverpool 3 – 1 City

    Liverpool tók á móti Manchester City á Anfield í dag, vann öruggan 3-1 sigur og tryggði þar með stöðu sína enn frekar á toppnum.

    Mörkin

    1-0 Fabinho (6. mín)
    2-0 Salah (13. mín)
    3-0 Mané (51. mín)
    3-1 B. Silva (78. mín)

    Gangur leiksins

    Það var ákveðið City lið sem mætti á Anfield, andstæðingar okkar voru meira með boltann, fengu fyrstu hornspyrnurnar og litu bara almennt mjög ógnandi út. Sem er svosem engin nýlunda.

    Í kringum 5. mínútu fóru þeir upp hægri kantinn, og eftir smá barning í vítateigshorninu kom sending inn að vítapunkti þar sem boltinn fór í höndina á Trent. Michael Oliver – sem n.b. dæmdi þennan leik mjög vel – var í fullkominni aðstöðu til að sjá atvikið, og veifaði strax að leikurinn ætti að halda áfram. Það voru ekkert allir leikmenn City sem tóku mark á því, t.d. var eins og Aguero slökkti alveg á sér og fór strax í vælgírinn. Í staðinn barst boltinn í átt að Anfield Road stúkunni, sending frá Mané inn á teiginn var hreinsuð út en beint í lappirnar á Fabinho. Nú er Fabinho ekki sá leikmaður Liverpool sem er þekktastur fyrir markaskorun, en hann valdi sér aldeilis leikinn til að stimpla sig inn með nákvæmu en jafnframt föstu skoti úti við stöng, óverjandi fyrir Claudio Bravo.

    Það er ljóst að aðdragandi marksins mun verða eitthvað sem City menn munu væla mikið yfir, en vert að minnast á að ca. sekúndu áður en boltinn fór í höndina á Trent fór hann líka í höndina á Bernardo Silva. VAR skoðaði þetta atvik vissulega, og ef það hefði verið metið svo að um viljaverk hjá Trent hefði verið að ræða, þá hefði í versta falli verið dæmt á hendina hjá Silva áður en það hefði nokkurntímann verið dæmt víti. Í staðinn leyfði Oliver leiknum að flæða, eins og hann gerði almennt allan leikinn og var bara ansi samkvæmur sjálfum sér með það. Það væri óskandi að FA myndi einfaldlega nota þennan leik sem sýnidæmi um það hvernig eigi að dæma leiki.

    City hélt pressunni áfram, án þess þó að skapa sér nein færi að marki. Það var svo eftir 12 mínútur að Trent fékk boltann á hægri kantinum, átti eina af sínum stórkostlegu sendingu þvert yfir völlinn á Robertson sem var þar á auðum sjó, og Robbo átti þar aðra af sínum glæsilegu fyrirgjöfum, þar sem boltinn sleikti nefbroddana á varnarmönnum áður en hann rataði á kollinn á Salah. Nú finnst kannski mörgum Salah ekki hafa verið jafn ógnandi á leiktíðinni og kannski áður, en hann lætur svona færi ekki renna úr greipum sér og setti boltann snyrtilega fram hjá Bravo. 2-0 eftir 13 mínútur, sannkölluð óskabyrjun.

    Það sem eftir lifði hálfleiks var einfaldlega eins og að fylgjast með skák, nema að hraðinn var allnokkuð meiri. Stöðubarátta á milli tveggja stórmeistara, Klopp og Guardiola. Bæði lið með sitt upplegg alveg á hreinu. Mikið um það að boltanum væri spilað til baka, varnarmenn og markmenn tóku góðan tíma í að spila sín á milli, og reyndu að fiska fremstu menn andstæðinganna framar á völlinn, í von um að opna glufur á miðjunni til að spila inn í.

    Í seinni hálfleik hélt svo þessi stöðubarátta áfram. Og á 51. mínútu dró aftur til tíðina. Þar spilaði stóra rullu fyrirliðinn okkar, Jordan Henderson. Hans staða í leiknum var nær því að vera kantmaður en við höfum átt að venjast. Greinilegt að uppleggið var að loka á City upp vinstri kantinn, og því voru Lovren, Trent, Henderson og Salah að vinna mjög mikið saman, bæði varnarlega og sóknarlega. Og það skilaði sér þarna þegar Hendo náði boltanum nálægt kantinum, hljóp upp að endalínu og skildi Gundogan eftir, gaf svo frábæra sendingu inn á fjærstöng þar sem Sadio Mané kom aðvífandi og dýfði sér glæsilega til að skalla boltann í netið, með smá viðkomu í Bravo. Staðan 3-0, og erfitt að sjá hvernig City ætti að geta komið til baka úr þessu. En það var samt allt of snemmt að bóka stigin þrjú, því City er jú með lið sem er stútfullt af gæðum. Og á 60. mínútu var Henderson tekinn af velli, og Milner kom inná í hans stað. Þessi skipting var e.t.v. ekki að meika sens út frá spilamennsku, því Henderson hafði verið einn alöflugasti leikmaður liðsins og var þó varla nokkurn veikan blett að finna. Gleymum samt ekki að Henderson var veikur í vikunni, og því alls ekkert víst að hann hefði haft orku í allar 90 mínúturnar. Uppleggið breyttist aðeins við þessa skiptingu, Milner fór yfir á vinstri kant, Mané fór yfir til hægri, og mögulega færðu menn sig eitthvað aðeins meira til. Við þetta minnkaði pressan á hægri vængnum, og þar með opnaðist fyrir Sterling. Það tók reyndar svolítinn tíma fyrir City að ná alvöru pressu, en síðustu 20 mínúturnar fórum við að sjá City lið eins og við höfum svo oft séð. Nokkur færi fóru forgörðum, t.d. munaði sentímetrum að Aguero næði að pota boltanum í netið eftir sendingu frá vinstri kanti. Hann var svo tekinn af velli fyrir Gabriel Jesus, ekki var þetta leikurinn þar sem Aguero nær að skora á Anfield. En á 78. mínútu kom enn ein sóknin hjá City upp vinstri kantinn, og eftir talsverðan barning barst boltinn yfir markteiginn til Bernardo Silva sem var óvaldaður og sendi boltann örugglega í hornið framhjá Alisson.

    Við tóku taugaspenntar síðustu mínútur, enda ljóst að ef City næðu að pota inn eins og einu marki í viðbót þá gæti allt gerst. Það kom upp annað atvik þar sem Trent fékk boltann í hendina inni í teig, í þetta sinn frá Sterling, en aftur var Oliver vel staðsettur og veifaði að leikurinn skyldi halda áfram. Pep var algjörlega rasandi á hliðarlínunni, og veifaði tveim puttum framan í aðstoðardómarann sér við hlið og líklega bara í hvern þann sem var þarna nálægt.

    Ox fékk að koma inn fyrir Firmino, og þegar örstutt var til leiksloka kom Gomez inn fyrir Salah. Hann fór í hægri bak og Trent á miðjuna, svipað og í lok leiks á móti Tottenham fyrr í haust. Þannig skipað tókst liðinu að koma í veg fyrir að City skoraði fleiri mörk, og stigin 3 því í höfn þegar Michael Oliver flautaði til leiksloka eftir 4 mínútur í uppbótartíma, við mikinn fögnuð viðstaddra.

    Bestu menn

    Það er mjög erfitt að ætla að taka einhvern leikmann út úr sem besta mann liðsins, og ómögulegt að ætla að tilnefna einhvern sem versta mann. Þetta var einfaldlega vel mótíverað lið, þar sem allir vissu sitt hlutverk, og spiluðu eins og tilefnið leyfði. Í raun er helst að gefa Jürgen Klopp nafnbótina, enda má segja að hann hafi unnið stöðubaráttuna gegn Pep Guardiola, svosem ekki í fyrsta sinn sem það gerist og vonandi alls ekki það síðasta.

    Umræðan eftir leik

    Þetta lið okkar heldur áfram að sýna hversu gott það er. Í raun fengum við svona “bland í poka” frammistöðu í dag: fyrirgjafir frá bakvörðunum, mörk frá Salah og Mané, skot utan af velli frá miðjumönnum, þversendingar yfir völlinn frá Trent o.s.frv. o.s.frv.

    Sjálfsagt munu einhverjir segja að nú hljóti Liverpool að vinna titilinn. Við því er einfalt svar: það eru 26 leikir eftir í deildinni, margt getur ennþá gerst, og mörg stig í pottinum. Það er þó ljóst að við viljum frekar vera í þessari stöðu í dag í töflunni frekar en nokkurri annarri.

    Í ljósi þess að City er ekki lengur í 2. sæti má spyrja sig hvort þeir séu e.t.v. ekki lengur helsti andstæðingurinn? Það er fullsnemmt að svara því, en bæði Leicester og Chelsea eru sannarlega á sínum stöðum í töflunni á eigin verðleikum. Hóparnir hjá þeim eru vissulega þynnri heldur en hjá City, og því margt sem gæti gerst hjá þeim á næstu mánuðum þegar leikjaálagið fer fyrst að banka á dyrnar. Þá má segja að Leicester hafi ákveðið forskot, því ekki eru þeir með Evrópuleiki til að þvælast fyrir sér.

    Næstu verkefni

    Nú tekur við síðasta landsleikjahlé ársins, en þegar við komum svo til baka er fyrsta verkefni okkar manna að mæta Crystal Palace á útivelli. Það er svolítið kómískt að næsti andstæðingur skuli vera stýrt af Roy Hodgson, og að það lið sem er nú í 2. sæti í töflunni skuli vera stýrt af Brendan Rodgers. Vantar bara Rafa þarna einhversstaðar. Á sama tíma mætast bláklæddu liðin City og Chelsea, og ljóst að leikjaprógrammið hjá City er alls ekkert auðvelt framundan.

    Við skulum því njóta þess að vera með 8 stiga forystu næstu tvær vikurnar, og vonum að hún aukist frekar en hitt þegar deildin mætir aftur eftir tvær vikur.

  • Liðið gegn City

    Klukkutími í leik og hafi taugarnar ekki verið þandar fyrri hluta dags, þá er óhætt að segja að það sé að breytast.

    Búið að tilkynna lið okkar manna, og það lítur svona út:

    Bekkur: Adrian, Gomez, Milner, Origi, Keita, Lallana, Oxlade-Chamberlain

    Semsagt, Klopp stillir upp “iðnaðarmiðjunni”, eða a.m.k. þeirri útgáfu sem hann hefur verið hvað hrifnastur af á síðustu mánuðum. Ox og/eða Keita hafa örugglega verið valkostir, en Ox er jú búinn að spila mikið síðustu daga og gæti vel verið sterkari inn af bekknum í kringum 60. mínútu. Annars er þetta einfaldlega sterkasta liðið sem Klopp getur stillt upp, og í raun vantar bara Matip. En það styttist í hann.

    Lið City lítur svona út:

    Bravo

    Walker – Stones – Fernandinho – Angelino

    De Bruyne – Rodri – Gundogan

    B Silva – Aguero – Sterling

    Rodri byrjar þrátt fyrir að hafa átt að vera meiddur í miðri viku, og David Silva er á bekk. Eina sem mögulega kemur á óvart er að Ederson er hvergi sjáanlegur, en spurning hvort það breyti miklu.

    Minnum á umræðuna hér fyrir neðan, sem og á Twitter undir #kopis myllumerkinu.

    Leikurinn hefst klukkan 16:30 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð. 

    KOMA SVO!!!

  • Upphitun: Titilslagur á Anfield

    Það verður gríðarlega mikið undir á sunnudaginn þegar hinir himinnbláu Manchester City-liðar mæta til leiks á Anfield. Líkt og allir sem þessa síðu lesa vita unnu þeir einvígi liðanna um Englandsmeistaratitilinn í fyrra með eins stigs mun og réðst sú rimma í innbyrgðis einvígum liðanna þar sem Man City unnu á heimavelli og gerðu jafntefli á Anfield. Það er ekkert annað í kortunum en að deildin í ár verði aftur kapphlaup milli þessara tveggja liða og því gríðarlega mikilvægt að ná úrslitum á sunnudaginn.

    Flestir muna eftir atvikinu á Etihad í fyrra þegar Sadio Mané var 11 millimetrum frá því að koma boltanum yfir línuna og ef það hefði verið eina breytingin á síðasta tímabili hefði það dugað til að koma boltanum á Anfield. Auðvitað aldrei hægt að segja svona þar sem það er aldrei að vita hvernig liðin hefðu brugðist við markinu og mikið eftir af tímabilinu á þessari stundu en þetta sýnir kannski hversu mikið er undir í þessum vaxandi ríg milli liðanna eins og stendur.

    City lennti í smá skakkaföllum í miðri viku í Meistaradeildinni þegar þeir gerðu jafntefli við Atalanta þegar markmaður liðsins Ederson fór meiddur af velli í hálfleik og hefur Guardiola þegar lýst því yfir að hann muni ekki ná leiknum gegn Liverpool, þó við trúum því ekki alveg fyrr en liðsuppstillingin verður gerð opinber. Það er ekki langt síðan við spiluðum leik gegn grönnum þeirra Man United þar sem David De Gea átti ekki að vera í markinu en spilaði svo leikinn. Fyrir utan Ederson er ljóst að hvorki Zinchenko né Laporte spila leikinn og eru David Silva og Rodri báðir ólíklegir til að vera með.

    Þjálfarar liðanna gerðu tilraun til að fara í hugarstríð fyrir leik helgarinnar þegar Guardiola sakaði Mané um að vera að reyna blekkja dómarana með að dýfa sér en Klopp svaraði því með að benda á að dómarar væru búnir að vera frekar linir á tæknileg brot City manna en í miðri viku baðst Guardiola afsökunar á ummælum sínum og eftir það fóru þeir aftur í að tala hvorn annan upp, sem er eitthvað sem við þekkjum vel milli þessara kappa.

    Þó það hafi lítið að segja um helgina þá hefur City gengið frekar illa á Anfield. Liðið hefur ekki unnið þar síðan í maí 2003 þegar Anelka skoraði bæði mörkin í 2-1 sigri en síðan þá hafa þeir tapað ellefu og gert fimm jafntefli. Auk þess hefur Liverpool ekki tapað á heimavelli gegn ríkjandi Englandsmeisturum á heimavelli síðan 2007.

    Bæði lið hafa verið veikari varnarlega í ár en í fyrra og eru fjarverur í vörn beggja liða. Það er líklegt að leikurinn muni ráðast á vængjunum. Trent og Robertson hafa verið mjög mikilvægir í sóknarleik okkar manna en þeir þurfa þó að eiga við Sterling og líklega Mahrez því verður áhugavert að sjá hvernig okkur gengur að losa þá til að koma með í sóknarleikinn og því líklegt að við sjáum vinnuhestana okkar á miðjunni. Ég ætla að skjóta á að þetta verði liðið sem þeir himinnbláu ferðist með niður M62 til Liverpool.

    Hjá okkur er lítið nýtt að frétta á meiðlalistanum. Þar eru Shaqiri, Clyne og Matip en Jordan Henderson var einnig eitthvað fjarverandi í vikunni vegna veikinda en geri ráð fyrir að hann byrji leikinn ef hann er orðinn nægilega góður og geta þá átt sóknarsinnaðari miðjumennina okkar á bekknum ef það þarf að breyta leiknum í seinni hálfleik.

    Það verður áhugavert að sjá hvernig við mætum í leikinn því það gæti orðið erfitt fyrir sjálfstraustið að missa forustuna gegn City niður í þrjú stig, þó mótlæti virðist bara hafa styrkt þetta lið undanfarin ár. Það er ekki ólíklegt að við sjáum varfærnislegan leik líkt og á Anfield í fyrra þar til fyrsta markið kemur og það mun breyta leiknum, sama hvort liðið skorar. Ég ætla því að skjóta á að Klopp haldi sig við þá ellefu sem við höfum séð hvað mest af, allavega til að byrja með.

    Það verður svo áhugavert að sjá hvernig hann bregst við eftir því hvernig leikurinn spilast. Chamberlain hefur verið gríðarlega öflugur í markaskorun þegar hann hefur fengið sín tækifæri og Origi hefur átt góðar innkomur inn af bekknum og gefur það okkur ýmsa kosti.

    Ég spá því að við fáum hörkuleik þar sem við komumst snemma yfir en City jafnar og við stelum svo sigrinum á lokamínútunum þar sem Mané og Firmino skora okkar mörk en De Bruyne þeirra.

    KOMA SVO!!!

    YNWA

    Leikurinn hefst klukkan 16:30 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð. 

  • Gullkastið – Peaky Bastards

    Það er nokkuð ljóst að Man City leikirnir eru stærstu leikir tímabilsins ef eitthvað er að marka þá spennu sem hefur verið að byggjast upp alla þessa viku. Fókus að sjálfsögðu töluverður á þeim leik en einnig þremur síðustu leikjum, endurkomunni í Birmingham, bullinu gegn Arsenal og þessum Genk leik sem enginn nennti að spá enda hugurinn á helginni.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur:SSteinn og Maggi

    MP3: Þáttur 261

    Kop.is á Facebook og Twitter – Endilega fylgið okkur þar líka.

  • Liverpool 2 – Genk 1(Uppfært)

    Í kvöld komu Genk í heimsókn á Anfield og gerðu heiðarlega tilraun til að sigra Evrópumeistaranna. Þessi leikur var ekki beint flugeldasýning, bara fagmannlegur sigur betra liðsins án þess að fara uppúr öðrum gír. 78% með boltann, 28 skot gegn 6 og 9 horn gegn 1 segja sína sögu.

    Fyrri hálfleikur.

    Okkar menn voru sprækir í byrjun, hrifsuðu til sín boltann og leyfðu Genk lítið að leika með hann. Þau fáu skipti sem Genk náði að skapa hættu var það vegna misheppnaðra sendinga Liverpool, frekar en pressu gestanna.

    Á fjórtándu mínútu gaf Origi boltann á James Milner sem sótti inn að teignum og gaf inn í markteig. Varnarmaður Genk reyndi að hreinsa en fékk boltann í mjöðmina og boltinn skopaði um inn í markteignum. Þar var Gini Wijnaldum mættur, sem kom tá í boltann og þaðan fór tuðran upp í þaknet! Liverpool 1-0 yfir!

    Næsti hálftími einkenndist af algjörum yfirburðum Liverpool. Genk komust hvergi nálægt boltanum, Liverpool sótti, kom sér í færi, skaut, skoruðu ekki, náðu boltanum. Aftur og aftur og aftur.

    Þegar yfirburðirnir eru svona algjörir er alltaf hætta á að menn sofni á verðinum, sem er einmitt það sem gerðist. Þrátt fyrir aragrúa færa drápu strákarnir ekki leikinn og þá getur hitt liðið hleypt spennu á. Þegar skammt var eftir af hálfleiknum fengu Genk horn og afrgreiddu það af stöku prýði. Hornið var tekið fast í átt að nærstönginni þar sem Mbwana Samatta var alveg frír og hann stangaði boltann í markið. 1-1. Fyrsta mark Genk í þeirra fyrsta skoti, fari það í grábölvaðan.

    Seinni hálfleikur. 

    Seinni hálfleikur byrjaði svipaði og fyrri, en nú voru okkar menn komnir í takt. Sendingar voru nákvæmari, færin sem þeir sköpuðu betri og bara tímaspursmál hvenær markið kæmi. Það kom á 52. mínútu. Hreinsun Genk misheppnaðist, Fabinho náði boltanum og potaði á Salah sem reyndi að finna glufu en gafað lokum á Alex Oxlade-Chamberlain. Uxinn okkar tók snúning og skoraði sitt fjórða glæsimark í jafn mörgum leikjum!

    Image
    Milner: Gaur áttu ekki pottþétt eina svona eldflaug eftir fyrir City?

    Það segir ágæta hluti um styrk hópsins þegar Sadio Mane og Andy Robertson koma inn á sem varamenn um miðjan síðari hálfleik. Þeir leyfðu Keita og Oxlade að fá sér sæti á bekknum og slaka á fyrir átökin gegn City um helgina.

    Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum kom áhlaup frá Genk og þeir náðu að hleypa smá spennu í leikinn í lokin. Alisson fékk aðeins að vinna fyrir kaupinu sínu með góðum vörslum. Að lokum gall flautan á Anfield og 3 stig komin í hús!

    Maður leiksins.

    Það var engin að eiga leik upp á 9 af 10, flestir unnu sína vinnu nokkuð vel. Fremstu menn á miðjunni stóðu sig áberandi vel, Gini Wijnaldum fær nafnbótina fram yfir Keita og Oxlade-Chamberlain víst að hann kláraði leikinn.

    Vondur dagur. 

    Fabinho var virkilega góður á löngum köflum en átti nokkrar heldur klúðurslegar sendingar sem sköpuðu hættu eða í það minnsta vesen fyrir samherja.

    Pælingar eftir leik.

    • Lallana, Hendo, Wijnaldum og Alex Oxlade-Chamberlain. Allt miðjumenn, allir búnir að skora síðustu vikur fyrir Liverpool. Þvílíkur munur að vera komin með alvöru ógn af miðjunni.
    • Hrein lök, ég sakna þeirra. Í 19 leikjum hafa okkar menn aðeins náð að halda hreinu þrisvar. Ég veit ekki alveg hverju á að kenna um þetta, sérstaklega fúllt að sjá Liverpool fá á sig mark úr föstu leikatriði annað leikinn í röð.
    • Napoli og Salzburg gerðu jafntefli, þannig að Liverpool eru á toppi riðilsins! Jafntefli eða sigur í næsta leik og sæti í 16-liða úrslitum er tryggt.
    • Þó að Salah hafi ekki náð að skora þá var ógnin af honum gífurleg. Hann var oft með 3 menn á sér og samt náði hann að koma boltanum yfir á samherja. Kröfurnar á hann eru svo miklar að allt minna en mark og stoðsetning er vonbrigði, sem er auðvitað fáranlegt.

    Fínt dagsverk hjá drengjunum. Nú er að hreinsa hausinn og hefja æfingar á ný, stærsti leikur tímabilsins (hingað til) er á sunnudaginn! Við munum hita duglega upp fyrir hann hér næstu daga.

     

    Þangað til

    YNWA.

  • Byrjunarliðið gegn Genk!

    Það er komið á hreint hverjir af Evrópumeisturum Liverpool hefja leik gegn Genk í kvöld. Firmino fær að slappa af á bekknum, fá sér eina Capirinhu og fylgjast með Origi, Salah og Alex Oxlade í framlínunni. Gini, Keita og Fabinho verða á miðjunni.

    Við fáum að sjá hafsentaparið Gomez og Van Dijk í fyrsta sinn í langan tíma og Milner leysir Andy Robertson af. Curtis Jones fær að taka sér sæti á bekknum eftir frábæra frammistöðu í deildarbikarnum. hver veit nema hann fái sínar fyrstu meistaradeildarmínútur í kvöld!

    Image

    Stærstu fréttir dagsins snúast einmitt um deildarbikarinn, mig langar að benda á pistil Magga frá því fyrr í dag um hvernig FA hefur ákveðið að leysa úr klemmunni þar.

    Leikurinn hefst klukkan 20:00, spá þægilegur 2-0 sigri!

  • LFC spilar leiki með dags millibili í desember!

    Eftir heilmiklar viðræður milli Liverpool og Ensku deildarinnar hefur verið tekin ákvörðun um leikdaginn við Aston Villa í 8 liða úrslitum Carabao-bikarsins.

    Fyrst var hugað að því að færa Merseyside-slaginn við Everton þann 4.desember til en það var auðvitað ómögulegt með svo stuttum fyrirvara og síðan var skoðað að færa leikinn til 8.janúar þegar fyrri leikur undanúrslita keppninnar átti að fara fram. Það hefði þá þýtt það að sigurlið þess leiks hefði leikið alla miðvikudaga janúarmánuðar (undanúrslitin semsagt enn 2 leikir í vetur).

    Hvorugt hugnaðist Liverpool og því er lausnin sú að þriðjudaginn 17.desember leika Aston Villa og Liverpool á Villa park í 8 liða úrslitum Carabao keppninnar og miðvikudaginn 18.desember leikur Liverpool undanúrslitaleik í heimsmeistarakeppni félagsliða í Qatar.

    Sannarlega forvitnileg staða og morgunljóst að margir ungliðar fá risaleik á Villa park og spurning verður hvort einhverjir reynslumenn verða geymdir heima til að aðstoða þá og fljúga þá til Qatar og mögulega vera með í úrslitum…sjáum til.

    Þetta auðvitað sýnir mjög skýrt þá stöðu sem Liverpool FC er í sem besta félag Evrópu og með leikmannahóp sem vill vinna allar keppnir. Svo sannarlega ekki alveg skilgreiningin á lúxusvandamáli en málið allavega klárt, verður t.d. í fyrsta sinn í sögu okkar á kop.is þar sem upphitun, leikþráður og skýrsla verður í loftinu sama daginn.

    Mikið væri gaman ef ungliðarnir tækju svo þennan leik bara!

  • Genk í kvöld

    Af tæknilegum orsökum fórst aðeins fyrir að koma með upphitun fyrir þennan seinni leik okkar manna gegn Genk, en leikurinn fer fram í kvöld kl. 20:00 að íslenskum tíma.

    Það vill sem betur fer þannig til að Einar Matthías var búinn að tiltaka allt það sem yfirhöfuð var vert að minnast á varðandi borgina og liðið í fyrri upphituninni. Við erum því ekki að missa af miklu!

    Klopp er aðeins búinn að vera í fjölmiðlum síðustu daga, reyndar minnst til að tala um Genk leikinn heldur meira til að svara um eitthvað City rugl. Það var mjög við hæfi að hann segðist “ekki vilja hella olíu á eldinn” og lofaði jafnframt að minnast ekki á “tactical fouls”. Og ekki orð um það meir.

    Hvað varðar liðsuppstillinguna, þá er sterkasta liðið jú nýbúið að mæta Aston Villa á útivelli, og því er ekki útilokað að það verði eitthvað aðeins róterað, sérstaklega á miðjunni enda mesta svigrúmið til breytinga þar. Origi gæti svosem alveg komið inn í framlínuna, t.d. kæmi ekki á óvart að Salah þyrfti e.t.v. að jafna sig betur á ökklameiðslunum. Þá spyr maður sig hvort Gomez komi inn í öftustu línuna til að létta aðeins álaginu þar.

    Kjúklingarnir okkar eru að spila við Genk í dag, þar eru strákar eins og Neco Williams, Sepp van der Berg, Harvey Elliott og Rhian Brewster í eldlínunni, en Curtis Jones er hvergi sjáanlegur og því ekki loku fyrir það skotið að hann verði á bekk í kvöld.

    Prófum að stilla þessu upp svona:

    Alisson

    Trent – Lovren – VVD – Robertson

    Milner – Fabinho – Oxlade-Chamberlain

    Mané – Firmino – Origi

    Við gætum svo vel séð eitthvað annað lið, Keita gæti t.d. vel gert tilkall til sætis í byrjunarliðinu. Set Fabinho þarna fyrst hann spilaði ekki um helgina, og Milner spilaði heldur ekkert, finnst líklegt að hann sé allt að því fyrsta nafn á blað. Mögulega þarf Mané að pústa smávegis. Kemur allt í ljós kl. 18:45 í kvöld.

    Spáum öruggum 3-0 sigri, það væri óskandi að klára sæti í 16 liða úrslitum CL áður en kemur að síðasta leiknum í riðlakeppninni, og geta þá mögulega róterað meira þá. En til að það gangi eftir verður einfaldlega að vinna í kvöld!

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close