Stjórnandi: Einar Matthías Viðmælendur: Maggi og SSteinn
Ástandið á strákunum er þannig að þeir keyptu þetta af BESTA VINI SÍNUM á sérdíl aðeins fyrir þá rétt í þessu. Hvor eru flottari? pic.twitter.com/MY32oaPyBo
Á meðan aðalliðið okkar flýgur til Spánar þá verður nóg um að vera hjá kvennaliðinu okkar og hjá U23 liðinu. Stelpurnar spila í bikarnum gegn Chelsea, leikurinn átti upphaflega að fara fram í gær en það var ákveðið að færa hann vegna lægðarinnar.
Þá leikur U23 liðið gegn Úlfunum á sama tíma og stelpurnar spila. Sá leikur verður sýndur á LFCTV GO og fer fram á heimavelli Wolves. Liðið sem byrjar þann leik lítur svona út:
Jaros
Williams – VDB – Hoever – Gallacher
Cain – Chirivella – Clarkson
Elliott – Hardy – Jones
Liðið sem Vicky Jepson stillir upp gegn Chelsea lítur svona út:
Preuss
Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Purfield
Bailey – Furness
Charles – Linnett – Lawley
Hodgson
Bekkur: Foster, Robe, Murray, Rodgers, Clarke
Það vantar semsagt nokkrar í liðið: Babajide, Sweetman-Kirk, Rhihannon Roberts, og Fran Kitching er líklega enn af höfuðmeiðslunum sem hún fékk á æfingu um daginn. Hún á einmitt afmæli í dag og myndi örugglega þiggja sigur í afmælisgjöf.
Það er ekki að sjá að leikurinn sé sýndur á The FA Player, en ef það finnst linkur verður hann settur í athugasemdir.
Við uppfærum svo færsluna með úrslitum úr báðum leikjunum síðar í kvöld.
Uppskera kvöldsins er einn sigur og eitt tap. Konurnar héldu uppteknum hætti að tapa með einu marki, eða 1-0 gegn Chelsea. U23 liðið sigraði Wolves 1-2, það var Hardy sem skoraði fyrsta markið í seinni hálfleik, Úlfarnir jöfnuðu með marki úr vítaspyrnu sem Sepp van den Berg fékk dæmda á sig eftir klaufalegt brot í teignum, en okkar menn náðu að knýja fram sigur með marki frá Jake Cain í uppbótartíma. Gaman að sjá að ungu strákarnir halda áfram að tileinka sér sama baráttuandann og aðalliðið spilar eftir!
Fullyrðingin um að starf knattspyrnustjóra hafi aldrei verið eins ótryggt og það er í dag á ekki alveg við rök að styðjast þó sá markaður sé vissulega galin í dag. Það er enginn að stjórna liði í einhverjum af stóru deildunum í dag sem toppar hinn mjög svo skrautlega Jesus Gil hjá Atletico Madríd, hann var alveg snar.
Gil var verulega umdeildur stjórnmálamaður samhliða störfum sínum fyrir Atletico Madríd og var m.a. borgarstjóri Marbella frá 1991 til 2002. Hann byrjaði ferilinn sem byggingarverktaki á sjöunda áratugnum allt þar til hann var dæmdur í fimm ára fangelsi. Blokk sem hann byggði hrundi árið 1969 með þeim afleiðingum að 58 létust og í ljós kom að allt var í lamasessi hvað varðar reglugerðir og byggingu hússins. Hann var nógu heimskur til að reyna stytta sér leið við byggingu á fjölbýlishúsi.
Gil sat inni í 18 mánuði en var náðaður af einræðisherranum Francisco Franco! Gil var það hægri sinnaður að Franco náðaði hann. Það er til endalaust af umdeildum tilvitnunum í hann, t.d. þegar hann kallaði hið frábæra lið Ajax tímabilið 1996/97 FC Congo því það voru svo margir leikmenn frá Surinam í liðinu, frábær kynning á Atletico Madríd sem var þarna á sínu fyrsta tímabili í Meistaradeildinni.
Hans ferill í bæði pólitík og fótbolta endaði með fangelsi og dómi fyrir spillingu, mútur og hvaðeina. Engum að óvörum.
Tíð hans hjá Atletico Madríd endurspeglar raunar vel hvernig Jesus Gil var því frá því hann tók við stjórnartaumunum í félaginu árið 1987 allt til ársins 2001 er honum var gert að hætta eru 35 manns skráðir sem stjórar liðsins á einhverjum tímapunkti. Best er að hann byrjaði og endaði á sama manninum, Luis Aragones sem hafði þjálfað liðið í fjörgur ár áður en Gil tók við og þjálfaði þá svo einu sinni til viðbótar í millitíðinni.
Eini þjálfarinn sem náði að tolla meira en að eitt tímabil var Júgóslavinn Radomir Antic sem stýrði liðinu þrjú tímabil í röð enda landaði hann titlinum mjög óvænt á sínu fyrsta tímabili. Hann tók svo við tímabundið aftur við liðinu tvisvar til viðbótar.
Hver hefði trúað því að óstöðugleiki hafi einkennt þetta Atletico lið?
Eftir að Jesus Gil steig til hliðar 2002 (og dó 2004) tók Miguel Angel Gil Marin sonur hans við og er núna skráður fyrir 51% eignarhlut í félaginu og Enrique Cerezo viðskiptafélagi þeirra feðga og forseti félagsins frá 2002 er skráður fyrir 19% eignarhlut. Án þess að fara ofan í saumana á því er ennþá umdeilt hvernig þessi eignarhlutur kom til. Eina sem er alveg ljóst er að Jesus Gil kom því ekki í gegn með heiðarlegum hætti.
Allt annað Atletico?
Án þess að meina það sem hrós þá virðist strákurinn nú ekki vera jafn gufuruglaður og pabbi sinn og er í raun magnað að nú þegar öll önnur lið eru farin að nálgast stjórnunarstíl Jesus Gil hefur stjóri Atletico Madríd verið einn sá öruggasti í starfi í tæplega áratug. Þeir feðgar þurftu bara 44 tilraunir á 34 árum til að finna sinn mann!
Diego Simeone
Sem leikmaður spilaði Diego Simeone rúmlega 500 deildarleiki á ferlinum en var sjaldnast lengur en 2-3 tímabil hjá sama félagi og náði aldrei 100 deildarleikjum fyrir neitt félagslið áður en hann var farinn aftur. Eina liðið sem hann spilaði rúmlega 100 leiki fyrir var landsliðið.
Atletico Madríd var eitt af sjö liðum sem Simeone spilaði með en hann gekk raunar tvisvar til liðs við félagið og var samtals fimm ár á mála hjá félaginu. Hann hefur því vissulega sterka tengingu.
Þjálfaraferillinn byrjaði ekki merkilega og skipti Simeone svo oft um starf fyrstu árin að það var eins og Jesus Gil ætti öll liðin sem hann var að stjórna. Frá 2006 – 2011 stýrði hann sex liðum. Öllum nema einu á Ítalíu.
Það var því nákvæmlega ekkert sem benti til þess að Diego Simeone væri svarið við vandamálum Atletico Madríd í desember árið 2011. Liðið var í 10.sæti 21 stigi á eftir Real Madríd eftir aðeins 16 umferðir. Liðið byrjaði öldina í 2.deild og var búið að flakka frá 4. til 12. sæti áratuginn áður en Simeone tók við.
Hópurinn sem hann fékk var samt ekkert vonlaus en liðið vann Evrópudeildina t.a.m. árið áður, m.a. eftir að hafa lagt Liverpool í undanúrslitum keppninnar. Vel fór á með þessum félögum þegar þau mættust þarna fyrir áratug enda Fernando Torres ein aðalstjarnan hjá Liverpool og týndi sonurinn hjá Atletico. Salan á Fernando Torres til Liverpool árið 2007 hjálpaði mikið til við fjármögnun á því ágæta liði sem Simeone tók við fjórum árum seinna.
Helstu stjörnur Atletico
Hjá Atletico hefur verið hægt að ganga að því vísu að aftasti og fremsti maður sé í heimsklassa. Þegar Simeone tók við var Courtois í markinu, reyndar sem lánsmaður frá Chelsea í kjölfar þess að þeir seldu David De Gea til Manchester United. Undanfarin sex ár hafa þeir svo verið með Oblak í rammanum. Þeir eru allir á topp fimm yfir bestu markmenn síðasta áratugar eða þar um bil.
Frammi höfðu þeir svo Falcao í formi lífs síns. Hann kom í kjölfarið á Diego Forlan og Kun Aguero en þeir tók einmitt við keflinu af Fernando Torres. Diego Costa tók eitt tímabil með Flacao og tók svo við keflinu þegar Kólembíumaðurinn fór og hafði David Villa með sér. Þeir lönduðu titlinum og fóru í kjölfarið. Grizmann mætti í staðin og tók við af Costa, Mario Mandzukic kom einnig með.
Hryggsúlan hefur því alltaf verið góð hvað þetta varðar en á milli hafa einnig verið margir frábærir leikmenn og í raun magnað að skoða leikmannaveltu félagsins undanfarin ár.
Bara í tíð Simeone hefur Atletico keypt leikmenn fyrir €970m og selt í staðin fyrir €850m. Það gera leikmannakaup fyrir tæplega €107m að meðaltali í hverjum leikmannaglugga en sala á móti fyrir €94m. Netó er það €13m og eins og fjárhæðirnar gefa til kynna er oft um ansi stór nöfn að ræða.
Bara frá árinu 2016 (eða sama tíma og Klopp hefur verið stjóri Liverpool) hefur Simeone keypt leikmenn fyrir €640m en selt á móti fyrir €504m
Besta og líklega þekktasta lið Atletico undir stjórn Simeone er liðið sem vann deildina tímabilið 2013/14 og var hársbreidd frá því að vinna Meistaradeildina einnig en tapaði fyrir sama viðbjóðsliði og Liverpool fjórum árum seinna. Það sveið hjá okkur en líklega var það ekkert í líkingu við hvað það sveið fyrir stuðningsmenn Atletico. Viðbjóðurinn Sergio Ramos jafnaði á 93.mínútu uppbótartíma eftir að Atletico hafði komist yfir á 36.mínútu.
Svona var liðið sem Simeone var búinn að byggja upp þetta tímabil.
Vörnin var svo þétt að leikmaður eins og Toby Alderweireld komst ekki í liðið og var seldur árið eftir. Þetta var gríðarlega þéttur kjarni sem hefur verið að komast á tíma núna undanfarin ár og má segja að Simeone sé núna að reyna byggja upp nýtt lið. Síðustu tveir leikmannagluggar hjá Atletico Madríd hafa verið nokkurnvegin andstaðan við sumarið hjá Liverpool, sturluð leikmannavelta
Joao Felix kostaði €126m og sama sumar komu fimm aðrir leikmenn sem kostuðu €20m+ auk Hector Herrera sem kom á frjálsri sölu. Sumarið áður komu þrír leikmenn fyrir €20m+ og eignilega fjórir því Morata kom á láni en hefur nú verð keyptur fyrir €56m.
Af þeim sem hafa verið seldir eru áhugavert að sjá að tveir af þeim sem fóru í fyrra eru núna að gera það gott hjá Wolves. Þriðji leikmaðurinn Raul Jiminez sem einnig er hjá Wolves var líka hjá Atletico fyrir nokkrum árum.
En síðasta sumar var einnig blóðugt í leikmannasölum þó fjárhagslega hafi þetta verið frábærar sölur. Grizmann og Lucas Hernandez fóru fyrir litlar €200m. Man City keypti Rodri á €70m. Mesta blóðtakan er samt líklega í Godin, Junfran og Luis sem hafa allir verið lengi hjá félaginu og voru partur af geggjaðri varnarlínu.
Frá því Simeone tók við Atletico Madríd hefur félaginu tekist að koma sér í flokk með Real Madríd og Barcelona og staðið alveg jafnfætis þeim megnið af síðasta áratug. Atletico var áður fyrr töluvert með leikmenn í eigu þriðja aðila líkt og þekktist í Portúgal og hafa reyndar lengi verið í góðum viðskiptasamböndum við Portúgal en eftir að það var bannað hafa þeir unnið með öðruvísi tegund lánastofnana sem betur er útlistað hér.
Atletico tapaði fyrir Real Madríd í úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2014 eins og áður segir og þeir gerðu það aftur tveimur árum seinna er Real Madríd vann eftir vítaspyrnukeppni. Tveimur árum eftir það eða 2018 unnu þeir Evrópudeildina í þriðja skipti á níu árum. Vonum að þeir séu ekkert á leiðinni í úrslitaleik tveimur árum eftir það! England átti fyrsta áratuginn á nýrri öld og tekur nú vonandi aftur við af Spánverjum.
Liðið í dag
Atletico Madríd mætti Valencia á Mestalla á föstudaginn og skildu liðin jöfn 2-2 í þeim leik. Byrjunarlið Atletico Madríd var svona í þeim leik og ljóst að þó nokkrir leikmenn liðsins eru í kappi við tímann fyrir heimsókn Liverpool
Ungstirnið Joao Felix hefur verið meiddur frá því í lok janúar en ætti að koma inn í þennan leik aftur. Diego Costa hefur verið meiddur frá því í nóvember en vill víst ólmur ná þessum leik. Morata kom svo af bekknum um helgina. Trippier sem var mjög góður fyrir áramót verður hinsvegar pottþétt ekki með.
Sama hvaða liði þeir stilla upp er ljóst að Atletico Madríd úti með þetta aggresíva 4-4-2 leikkerfi Simeone verður einn erfiðasti leikur Liverpool undir stjórn Jurgen Klopp. Ef að Real Madríd og Barcelona eru dirty og mikið fyrir leikaraskap þá toppar Atletico þau bæði.
Hinsvegar held ég að Liverpool sé á sama tíma eitt erfiðasta verkefni sem Atletico hefur fengið í tíð Simeone og klárlega allt annað dýr en Liverpool liðið sem mætti án Fernando Torres á Vincente Calderon fyrir áratug.
Wanda Metropolitano
Heimavöllur Atletico Madríd verður um ókomna tíð gleðilegur partur af sögu Liverpool og vonandi hjálpar það okkar mönnum þegar þeir mæta til leiks að allir sem koma til með að spila í Madríd fögnuðu stærstu stund ferilsins þarna fyrir tæplega 9 mánuðum síðan. Wanda Metropolitano skipar líklega stærri sess í huga stuðningsmanna Liverpool en stuðningsmanna Atletico eins og staðan er núna enda er um að ræða þar til að gera glænýjan völl.
Árið 2007 var samþykkt að selja hinn sögufræga heimavöll Atletico, Vicente Calderon og byggja nýjan á allt öðrum stað í borginni. Það ferli tók áratug og var loksins flutt á nýjan heimavöll fyrir tímabilið 2017/18.
Völlurinn var raunar byggður árið 1997 sem frjálsíþróttavöllur og átti að vera partur af umsókn Spánverja um HM í frjálsum það ár sem aldrei varð af. Vellinum var lokað árið 2004 og átti aftur að vera partur af umsókn Spánverja, núna fyrir ÓL 2016 sem ekki varð heldur af. Þetta var 20.000 manna völlur sem Atletico fékk árið 2016 og tekur í dag eftir gríðarlegar endurbætur tæplega 68.þúsund áhrofendur.
Kínverski byggingarverktainn Wanda keypti nafnaréttinn af vellinum en þeir eiga einnig 30% hlut í félaginu. Metropolitano er nafnið á gamla heimavelli Atletico, áður en þeir fóru að spila á Vicente Calderon. Nýji völlurinn er ekkert í næstu götu neitt, það eru 16km á milli þessara leikvanga.
Þegar þetta er skrifað er taskan komin á borðið og undirbúningur í fullum gangi fyrir ferðalag til einmitt Madríd þar sem Kop.is verður með sína fulltrúa á leiknum.
Liverpool
Síðast þegar Liverpool mætti Atletico Madríd var niðursveifla byrjuð sem erfitt hefði verið þá að ímynda sér hvert stefndi. Byrjunarliðið var svosem ágætt fyrir utan að Kyrgiakos var með bæði Carragher og Agger í vörninni og David N´Gog var frammi í fjarveru týnda sonarins, Fernando Torres.
Benitez gat lítið annað gert enda bekkurinn svona: Cavalieri, Degen, Ayala, Aquilani, Babel, Pacheco, El Zhar.
Að þessu sinni verður það ekki Liverpool sem leggst í vörn, Atletico Madríd á reyndar sterkum varnarleik fyrst og fremst að þakka gott gengi undanfarin ár svo að Simeone er ekki líklegur til að þurfa breyta leikstíl liðsins eitthvað sérstaklega fyrir Liverpool.
Klopp sagði fyrir helgina að hann hefði líklega úr öllum hópnum að velja í fysta skipti á þessu tímabili. Clyne, Shaqiri og Glatzel eru þeir einu sem eru á meiðslalistanum og enginn þeirra var að fara spila í Madríd.
Ef að allir eru heilir held ég að Klopp geri aðeins eina breytingu frá síðasta leik Liverpool á þessum velli. Joe Gomez er kominn í byrjunarliðið á kostnað Matip en ég myndi ætla að allir hinir spili aftur í þessum leik.
Reyndar held ég að þessi leikur eins og svo margir aðrir í vetur væri fullkominn fyrir Naby Keita í toppformi. Þeir myndu sannarlega hata hann og sama má reyndar segja um Ox sem hefur farið mjög vaxandi undanfarinar vikur. Báða er frábært að eiga á bekknum því að það er erfitt að rökstyðja miðju án Henderson og Wijnaldum eins og þeir hafa verið að spila undanfarið. Sérstaklega í svona leik. Klopp þarf einmitt aðeins meira af svona “vandamálum” þegar kemur að byrjunarliðinu.
Liðið fékk tveggja vikna frí fyrir Norwich leikinn og á ekki að spila aftur fyrr en á mánudaginn þökk sé fábjánunum sem raða niður leikjum á Englandi. Geðveikt alveg fyrir okkur sem vorum búin að plana ferð á báða leikina! Það verður því pit stop í Skotlandi á stórleik okkar manna í St. Mirren gegn Hearts í alvöru skotaslag á föstudaginn. Come on you saints!
Spá
Fyrst og fremst spái ég því að þetta verði djöfulli gaman, Atletico er reyndar auðveldlega leiðinlegasta elítuliðið og uber pirrandi en það verður ekki vandamál á Metropolitano skal ég segja ykkur.
Gengi liðanna það sem af er þessu tímabili setur þetta tímabil Liverpool svolítið í samhengi. Atletico Madríd sem vissulega er ekki að eiga sitt allra besta tímabil er með 40 stig eftir 24 leiki í La Liga. Þar af eru 10 jafntefli og fjögur töp. Liverpool var eftir sama leikjafjölda með 70 stig á Englandi og næstu leiki gegn Southampton, Norwich og West Ham. Atletico hefur sannarlega verið í vandræðum að fóta sig eftr miklar breytingar í sumar og þó nokkur meiðsli í vetur á meðan Liverpool hefur verið stöðugleikinn uppmálaður.
Atletico á fyrir höndum blóðuga baráttu á Spáni um Meistaradeildarsæti á næsta tímabili og mega illa við því að missa af því. Liverpool getur að sama skapi sett fókusinn mun meira á Meistaradeildina það sem eftir lifir móts en þeir gátu gert á síðasta tímabili, þegar liðið vann þá keppni.
Við sögðum í desember þegar það var dregið að líklega henti Atletico okkar mönnum hvað verst af þeim liðum sem voru í pottinum. Síðan þá hefur Liverpool sýnt að það skiptir engu hvaða leikstíl er reynt á móti liðinu.
16.liða útileikurinn fyrir tveimur árum var 0-5 í Porto sem var hressilegt sjokk fyrir heimamenn sem hittu á Liverpool í ógnvænlegu stuði það kvöld.
16.liða útileikurinn í fyrra var 1-3 sigur á FC Bayern sem var aldrei að fara tapa fyrir leik. Þjóðverjarnir voru flestir farnir áður en flautað var til leiksloka.
16.liða útileikurinn núna er á okkar velli, Wanda Metropolitano. Simeone og félagar hafa staðið sig vel gegn Messi, Suarez, Kristjönu og hvað þær heita allar stjörnurnar í La Liga. Þeir hafa ekki ennþá mætt Liverpool liðinu sem þurfti ekki einu sinni Firmino og Salah til að ganga frá Barcelona.
0-3 á Wanda og game over. Mané, Salah og Keita sjá um mörkin.
Liverpool heimsóttu kanarífuglana í Norwich á austurströnd Bretlandseyja og koma heim með 3 stig eftir afskaplega vindasaman 0-1 vinnusigur.
Mörkin
0-1 Mané (78. mín)
Gangur leiksins
Þetta var svona leikur sem maður hefði alveg getað sagt sjálfum sér að yrði erfiður. Liverpool ekki spilað síðan um þarsíðustu helgi, og ekki voru aðstæður að hjálpa. Liverpool er einfaldlega lið sem spilar bestan fótbolta þegar aðstæður eru til fyrirmyndar, ef völlurinn er lélegur eða ósléttur, eða ef veðuraðstæður eru óhagstæðar, þá er eins og það séu okkar menn sem tapa meira á því. Og sú var raunin í þessum leik. Vissulega átti liðið 8 marktilraunir í fyrri hálfleik, en engin þeirra var líkleg til að verða að marki. Og þó, Firmino fékk langa sendingu inn á markteig, náði að taka boltann niður með dæmigerðri Firmino snertingu, en varnarmaður Norwich var sekúndubroti á undan honum og náði að hreinsa í horn. Besta færið í fyrri hálfleik féll líklega hinum gulklæddu í vil, en sóknarmaður þeirra slapp í gegn og var einn á móti Alisson með Pukki til vinstri við sig. Hann reyndi að renna boltanum til hliðar á Finnann fljúgandi, en Alisson stökk á boltann eins og köttur og sló hann út úr teignum. Þar sýndi sá brasilíski af hverju hann er einn besti markvörðurinn í heiminum í dag, ef ekki sá besti. Það er svosem ómögulegt að segja hvort VAR hefði dæmt þetta mark ef Becker hefði ekki varið, bæði var sendingin inn fyrir rosalega tæp sem og sendingin á Pukki. En flott var varslan þrátt fyrir það.
Staðan 0-0 í hálfleik, og einhverntímann hefði maður verið orðinn stressaður á þeim tímapunkti, en nú til dags vitum við að liðið okkar er fært um að skora mörk á lokamínútunum, og þar að auki vissum við af Mané á bekknum.
Í síðari hálfleik jókst sóknarþunginn allnokkuð, Keita átti gott skot sem þó fór beint á Krul en hann þurfti að slá boltann yfir. Besta færið kom þó líklega þegar Salah átti skot úr teignum sem Krul varði, en Keita kom aðvífandi og hefði alltaf átt að skora en náði einhvernveginn að setja boltann þar sem Krul var með krumlurnar. Skulum skrifa þetta að hluta á góða markvörslu og að hluta á klúður hjá Keita.
Það var gerð tvöföld skipting rétt fyrir 60. mínútu, Mané kom inn fyrir Ox og Fabinho kom inná fyrir Gini. Eins og nærri má geta kom Mané með nýja vídd inn á vinstri kantinn, já og bara í framlínuna. Enda var það svo hann sem braut ísinn þegar hann fékk sendingu inn á teig frá Henderson, náði að snúa af sér varnarmann og setti boltann hárnákvæmt út við stöng. Okkar menn hafa sýnt að þeim er treystandi til að brjóta hvaða lið sem er á bak aftur, en vissulega var farin að færast örlítil spenna í okkur púlara fyrst ekkert mark hafði komið fram að þessu. Það er því óhætt að segja að léttirinn sem braust út hafi verið talsverður.
Firmino fékk svo algjört dauða-dauðafæri til að gera endanlega út um leikinn þegar hann fékk fyrirgjöf frá Trent en náði á einhvern ótrúlegan hátt að setja boltann yfir og framhjá nánast af markteig. Firmino hafði fram að því átt virkilega góðan leik, verið potturinn og pannan í mörgum þeim hættulegu færum sem liðið hafði skapað sér, svo við fyrirgefum honum þetta alveg.
Liðið sigldi þessu svo í höfn og Norwich náðu ekki að ógna að neinu marki í þrem mínútum í uppbótartíma.
Bestu/verstu menn
Enginn leikmanna átti eitthvað sérstaklega slæman leik. Salah hefur oft verið effektívari á vellinum, en gleymum ekki að hann er að vinna hellings vinnu fyrir liðið þó hann sé ekki að skora eða eiga stoðsendingar, t.d. bara með því að krefjast 100% athygli frá þeim varnarmönnum sem eru nálægt honum. Hvað varðar nafnbótina “Maður leiksins”, þá má segja að Alisson, Mané og Firmino geri tilkall, en ég kýs að veita Henderson heiðurinn í þetta skiptið. Hinir væru þó allir vel að þeim heiðri komnir sömuleiðis.
Umræðan eftir leik
Núna er liðið okkar komið með 25 stiga forskot í deildinni – tímabundið vissulega, þar sem City á leik til góða. Þetta er að sjálfsögðu nýtt met, þar sem fyrri forskot upp á 22 stig var líka met. Þá vantar aðeins 5 sigra til viðbótar til að tryggja titilinn í þeim 12 leikjum sem eftir eru. Alisson er nú einn efstur á lista yfir markmenn sem hafa haldið hreinu á tímabilinu (þið munið, markvörðurinn sem missti úr 8 leiki í byrjun tímabilsins?). Jú og núna er liðið búið að taka framúr Nottingham Forest varðandi lengsta taplausa tímabilið, aðeins Arsenal á lengra taplaust tímabil að baki. Þá er liðið búið að tryggja sig inn í Meistaradeildina á næsta ári. Ólíkt sumum öðrum breskum liðum (nefnum engin nöfn).
Næsti leikur
Núna fer aftur að reyna á breiddina í hópnum því næsti leikur er strax á þriðjudaginn, þegar okkar menn skreppa til Spánar og spila þar við Atletico Madrid í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Einhvern tímann hefði maður sagt að liðið væri e.t.v. með annað augað á þeim leik áður en leikurinn við Norwich fór fram, en ég held að Klopp sé löngu búinn að læra að passa að einbeiting leikmanna sé öll á næsta leik.
Við bíðum spennt eftir upphituninni frá Einari Matthíasi fyrir þeim leik, en njótum þess auðvitað að skoða stöðuna í deildinni fram að því!
Þrátt fyrir leiðindaveður á Bretlandseyjum – sem hefur haft í för með sér að talsvert af leikjum í neðri deildum hefur verið frestað – þá verður blásið (pun intended) til leiks á Carrow Road núna kl. 17:30 á eftir. Við vonum að sjálfsögðu að okkar menn mæti alveg fjúkandi í leikinn, og láti mótspyrnu andstæðinganna sem vind um eyru þjóta.
Bæði Mané og Milner mættir aftur til leiks, en hvorugur fær þó að byrja. Eins er Fabinho á bekknum. Keita og Ox fá kallið í byrjunarliðinu.
Matip og Minamino verða að gera sér að góðu að vera utan hóps. Sýnir að breiddin er fín þegar allir eru heilir. Jones og Williams eru að sjálfsögðu utan hóps sömuleiðis, sem og Shaqiri sem virðist nú vera á útleið miðað við hve lítið hann hefur spilað síðustu mánuði.
Verkefnið er einfalt á pappír, að sækja 3 stig. Verður sjálfsagt ekki alveg eins einfalt í framkvæmd, en okkar menn eiga að klára þetta.
Leikurinn hefst klukkan 17:30 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.
Óveðursský á ströndum eylanda við Atlantshafið valda verulegum vandræðum víða og stóra spurningin er hvort að fuglastríðið milli Kanarífuglanna og Liverfuglsins fari fram á morgun. Þytur í laufi mun valda fjaðrafoki sem fýkur yfir hæðir og þörf verður á bjargvætti í grasinu.
Gul viðvörun er innan vallar sem utan í Norwich City
Engu að síður mun uppstreymi yfir Mexíkóflóa valda fiðrildablaki á Færeyjum sem stillir upp stórstreymi í Stórhöfða og skilar sér í flæðandi og funheitu eldgosi af upphitun á Kop.is.
Veðurviðtalið
Þegar veður eru válynd þá þarf að vitja viturra vísindamanna og af því tilefni bjóðum við grjótharðan Norwich áhanganda og langvarandi Púlara til leiks í stuttu spjalli. Dr. Össur Skarphéðinsson er Kanarífugl dagsins og það eru fáir betri en fyrrum utanríkisráðherrar til að spá í spilin í erlendu fótboltasparki:
Mótherjinn
Norwich City komu græneygðir og ljósfiðraðir upp úr Championship sem meistarar næstefstu deildar Englands. Leiftrandi sóknarlið sem skoraði 93 mörk það tímabil en með virkilegan veikleika varnarlega. Stjórinn Daniel Farke sem þjálfaði varalið Dortmund á sama tíma og Jurgen Klopp stýrði aðalliðinu hafði byggt upp léttleikandi, leiftursnöggt og líflegt lið sem gat skorað mörg mörk en líka hleypt þeim inn í miklu magni. Hans háfleyga hugmyndfræði og enginn afsláttur gefinn með sóknarteningum kastað.
Evrópumeistararnir nýttu sér vægðarlaust veikleikana í brynjunni í fyrsta leik tímabilsins með því að setja 4 mörk í net kanarífuglanna sem gaf slæman fyrirboða fyrir nýliðana frá Austur-Anglíu. Tveir góðir sigrar snemma tímabils, þar á meðal gylltur sigur yfir Englandsmeisturum Man City, voru fölsk von þar sem liðið hefur eingöngu unnið 2 deildarleiki af síðustu 20 spiluðum. Þetta hefur þýtt það að Norwich hefur sokkið til botns í deildinni og situr þar í dag heilum 7 stigum frá öruggu sæti í deild hinna bestu Breta.
Eftir tvö blindsker hefur Norwich lent á sjávarbotni deildarinnar
Þrátt fyrir þunglyndið í botnbaráttunni þá hefur Finninn fljúgandi Teemu Pukki verið glaðbeittur og haldið áfram sinni markaskorun frá tímabilinu áður. Eftir 29 mörk í 43 leikjum í Championship þá hefur púkinn Pukki haldið áfram að skora með 11 úrvalsdeildarmörk í 23 leikjum en það er jafn mikil markaskorun og hjá Sadio Mané, Harry Kane og Raheem Sterling. Ef illa fer fyrir Kanarífuglinum í búrinu þetta tímabilið þá er það klárt mál að sökin liggur ekki hjá Finnanum fótafima.
Fótvissi Finninn fetar í fótspor fagurskeggjaðra fótboltamanna
Fyrir forvitna fótboltafíkla má því við bæta að Teemu Pukki og Virgil van Dijk voru samherjar hjá skoska risunum Glasgow Celtic á árunum 2013-2015. Þeir félagarnir léku meðal annars báðir í gulu og grænu á Meistaravöllum gegn stórveldi Knattspyrnufélags Reykjavíkur sumarið 2014, en það var akkúrat 50 árum eftir að KR mætti Liverpool í fyrsta Evrópuleik beggja liðanna. Framtíðarspurning í pub quiz þar á ferð.
Meistari Virgil van Dijk lék á alls oddi gegn mág Suarez á Meistarvöllum árið 2014. VÍSIR/Daníel
Lið heimamanna snýst ekki eingöngu um aðalmanninn Teemu Eino Antero Pukki heldur eru einnig ungir og sprækir leikmenn í liðinu sem hafa vakið athygli í vetur þrátt fyrir ótal ósigra. Emiliano Buendía hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir flott uppspil en hann hefur hlaðið í heilar 7 stoðsendingar sem er með þeim þriðju hæstu í úrvalsdeildinni í þeim flokki. Þá hefur hinn ungi Englendingur Todd Cantwell slegið í gegn með 6 mörk úr kantstöðu og jafnvel vera vafasamt orðaður við okkar eigin Rauða Her. Að baki þeim hefur Tim Krul verið betri en Engin Ipekoglu í markinu og bjargað því litla sem bjargað verður þar á bæ.
Að því sögðu eru yfirgnæfandi líkur á að Herr Farke stilli upp eftirfarandi herjum gegn Rauða hernum:
Líklegt byrjunarlið Norwich City í leikskipulaginu 4-2-3-1
Liverpool
Hvað er hægt að segja um okkar fullkomna og frábæra Rauða her sem ekki hefur verið sagt á þessu stórkostlega tímabili? Jú, það má svo sem segja það að þrátt fyrir allar krýningar á okkar mönnum sem kóngum alheimsins að þá eigum við enn eftir að klára það pínulitla smáatriði að ljúka því að vinna úrvalsdeildina!
Hvað sem öllum bakskitum Man City líður þá vantar okkur ennþá 6 sigra í næstu 13 deildarleikjum mögulegum til að fullkomlega klóra okkar 30 ára kláða og fagna epískum Englandsmeistaratitli. Formsatriði þarf að fullnægja líkt og Magnús af Þórsgötunni lagði drög að.
Að því einstaka marki munum við stilla upp okkar sterkasta liði eftir vetrafríið verðmæta sem varnarmaðurinn Klopp háði heilagt vetrarstríð til að verja. Mín tilfinning er sú að Klopp vilji keyra sinn mannskap í gang fyrir einvígið gegn Atletico Madrid á Wanda Metropolitano að nokkrum dögum liðnum. Fátt betra en leikur gegn botnliði til að fíra upp mannskapnum og prufukeyra lærvöðva og leggi. Hvíld og rótering kæmi frekar þar beint á eftir gegn West Ham og Watford.
Stóra spurningin varðandi byrjunarliðið verður um stöðuna á Sadio Mané sem er að koma úr meiðslum og þar sem við höfum ekki aðgang að hávísindalegum heilbrigðisskýrslum þá verður happadrætti að ráða för varðandi hans aðkomu. Ef hans krafta nýtur ekki þá verður Oxlade-Chamberlain væntanleg í hans kojuplássi en fyrir fagurfræðina þá stillum við þessu ofursterka og ofurfallega liði upp:
Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3
Blaðamannafundur
Klopp var orðspakur að vanda og tæklaði nokkur mál á blaðamannafundi dagsins; t.d. hvort að Salah fari á Ólympíuleikana, vetrarfríið, meiðsli leikmanna, ógn Norwich o.fl.
Spakra manna spádómur
Liverpool hefur sjaldan gengið illa að skora gegn Norwich og í síðustu 8 leikjum gegn þeim höfum við skorað 31 mark. Það gerir tæp 4 mörk að meðaltali og í þessum 8 leikjum hefur LFC fjórum sinnum skorað 5 mörk. Mín tilfinning er þó að við verðum eitthvað ryðgaðir eftir vetrarfríið og leikurinn gegn Atletico Madrid verði ofarlega í huga. Það mun valda því að mörkunum muni fækka en snyrtimennskan verður enn í fyrirrúmi í því að skila tabula rasa réttu megin í leikskýrslunni.
Mín veðurblásna innspá er á þeim lengdarlínum og breiddarbaugum að rauðliðar muni skila öruggum sigri í höfn á Merseyside. Ég hallast að því að fyrirliðinn Henderson hendi í vinkilsnuddu til að bæta í sinn tveggja marka sarp gegn Norwich og til að toppa tvímarkið þá mun Mohamed Salah setja eitt egypskt af engu færi. Niðurstaðan verður 0-2 toppsigur sem ég tileinka tveimur Hröfnum.
Loading ...
YNWA
Leikurinn hefst klukkan 17:30 á morgun og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.
Dyggir lesendur síðunnar ættu að þekkja efstu línuna okkar þar sem við förum yfir ýmsa þætti hjá okkur.
Eitt atriðið í þeirri línu er Liverpool-borg en þar höfum við félagarnir sett í gegnum tíðina atriði sem við viljum kynna fyrir ykkur varðandi borgina dásamlegu við Merseyána.
Nú stendur fyrir dyrum kop-ferðin okkar og í tengslum við þær ferðir höfum við reglulega farið yfir listann. Við höfum verið að dunda okkur við það síðustu daga og viljum því minna á þennan matseðil um hótel, veitingastaði og viðburði borgarinnar fyrir þá sem eru að fara þangað, hvort sem er í kop.is-ferð eða á sínum eigin vegum.
Það hefur verið rólegt að gera hjá stelpunum okkar upp á síðkastið, en þrem leikjum hefur verið frestað núna eftir áramótin. Snemma í janúar var leik gegn United frestað, Birmingham leikurinn sem átti að fara fram á Prenton Park fyrir um hálfum mánuði var frestað vegna vallaraðstæðna, og leiknum gegn Everton sem átti að fara fram á Goodison Park um síðustu helgi og var næstum uppselt á var frestað vegna sömu lægðar og kom í veg fyrir leik Manchester City og West Ham hjá körlunum (enda ekki mjög langt á milli Etihad). Reyndar var öllum leikjunum í kvennadeildinni frestað, en það átti heil umferð að fara fram síðasta sunnudag. Vallaraðstæður á Prenton Park eru ennþá slæmar, og því var ákveðið að næsti leikur færi fram á heimavelli Chester.
Sá leikur er núna í kvöld og er gegn Arsenal, meisturum síðasta árs.
Hver veit, kannski verður þetta eina tækifærið sem við fáum til að sjá liðið okkar spila þessa helgina? Það er vissulega planaður leikur hjá strákunum á laugardaginn, en spáin er slæm og aldrei að vita nema það verði að grípa til frestunar, rétt eins og hjá City um síðustu helgi. Vonum að til þess komi ekki.
Við uppfærum svo færsluna með úrslitum að leik loknum.
Leik lokið með sigri Arsenal, 2-3. Okkar konur áttu þó í fullu tré við skytturnar, en munurinn á þessum tveim liðum í kvöld var Vivianne Miedema, markahæsti leikmaður deildarinnar í fyrra, en hún skoraði 2 mörk í kvöld. Liverpool konur hefðu þó vel getað náð jafntefli, og skoruðu 2 virkilega góð mörk.
Það er okkur á Kop.is bæði ljúft og skylt að leggja góðum málefnum lið og þetta flokkast klárlega sem slíkt. Hér að neðan er færsla sem félagi okkar hann Guðjón R. Sveinsson deildi inn á Facebook síðunni Liverpool Aðdáendur. Við látum hana óbreytta inn hérna að neðan ásamt link á síðu þar sem hægt er að leggja þessum mikla Liverpool stuðningsmanni lið:
Kæru Poolarar
Þetta er hann Dagbjartur en hann er mikill Liverpool maður og fer ósjaldan á leikina úti. Hann hefur, frá því ég man eftir, verið starfandi í Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði og nú í Björgunarsveit Hafnarfjarðar og er einn af þessum aðilum sem hafa verið í alþjóðlegu björgunarsveitinni. Hann er semsagt einn af þeim sem, í sjálfboðastarfinu, hefur komið öðrum til bjargar í hartnær 30 ár og gefið af sér af lífi og sál. En nú er svo komið að hann þarf sjálfur á aðstoð að halda en hann fékk hjartaáfall þar sem hann var vinnuferð (já með hjálparsamtökum) í Grikklandi og nú tekur við mikið álag við heimkomu og fjárhagsáhyggjur fjölskyldunnar eru talsverðar.
Því fannst mér rétt að deila þessu hér enda er einkennisorð okkar augljós YNWA 😉 því margt smátt gerir eitt risastórt.
Þú kemst beint inn á síðuna með því að smella hérna.