Latest stories

  • Nýr markvörður og Carlsberg áfram

    Tvær stuttar fréttir: Fyrir það fyrsta þá er Liverpool að sögn BBC búið að kaupa markvörð búlgarska U-21 landsliðsins, sem heitir Nikolay Mihaylov frá Levski Sofia. Ég veit auðvitað nákvæmlega ekkert um þennan markvörð, en hann verður þá væntanlega markvörður númer 3 á næsta tímabili á eftir Reina og Carson.

    Það er þó athyglisvert að Mihaylov, sem er aðeins átján ára gamall hefur nú þegar spilað landsleik með aðalliði Búlgaríu (en hann fékk þá á sig 5 mörk í tapi gegn Skotlandi. Hann er 1,94 metrar á hæð.

    Svo hafa Liverpool og Carlsberg framlengt styrktarsamning sinn og verður Carlsberg því styrktaraðili Liverpool til 2010

  • Nýr yfirmaður akademíunnar

    Liverpool hefur staðfest ráðningu á nýjum yfirmanni yfir knattspyrnuakademíu LFC í stað Steve Heighway. Hann heitir Piet Hamberg og er frá Hollandi. Hann er 53 ára gamall og var núna síðast á mála hjá Grasshoppers. Piet er fyrrum atvinnumaður með m.a. Ajax, FC Groningen, NEC og Servette en hefur þjálfað hjá Ajax, FC Groningen, Grasshoppers, ungmennalandsliðs Sádi Arabíu, Al Ahli o.s.frv. Þannig að það er klárt mál að Piet er hokinn af reynslu úr Evrópuboltanum.

    Rick Parry segir m.a. þetta:

    “Following the departure of Steve we took the opportunity to review the academy structure and decided to separate the very distinct roles. Piet will come in with the specific brief to head up the coaching and development side, while Malcolm will be in charge of all recruitment.”

    Það er alveg ljóst að Liverpool er að verða meira og meira alþjóðlegt félag með erlenda þjálfara, stjórnendur og leikmenn.

  • Samningaviðræður við Atletico hefjast

    Jæja, loksins fær maður að heyra eitthvað áreiðanlegt um þetta Torres-mál. BBC skýra frá því í morgunsárið að Liverpool séu að ræða við Atletico Madrid um kaup á ‘El Nino’ en segja jafnframt að þessar viðræður séu á mjög viðkvæmu stigi enn sem komið er og ekkert sé öruggt með niðurstöðu málsins.

    Það er tvennt í þessu máli sem flækir stöðuna talsvert. Í fyrsta lagi virðist það alveg ljóst að Liverpool ætla ekki að borga þær 27m punda sem þarf til að virkja klausuna í samningi Torres sem gerir honum kleift að fara, og því þurfa Rick Parry og félagar að reima á sig dansskóna og stíga tangó við sessunauta sína frá Spáni. Það er sennilega mikið verið að prútta fram og til baka þessa dagana og maður getur lítið annað en vonað að sameiginleg niðurstaða náist á endanum. Það getur þó vel farið svo að samningar náist ekki – við munum t.d. að Parry prúttaði við Sevilla í tvo mánuði í fyrra um kaup á Daniel Alvés en þegar forseti Sevilla hækkaði kaupverðið á síðustu stundu, þrátt fyrir að hafa komist áður að samkomulagi við Liverpool, drógu okkar menn sig út.

    Hitt sem verður að hafa í huga er að á Spáni er talsvert mikil pólitík samofin knattspyrnunni. Það er alltaf viðkvæmt mál fyrir forseta stórliðs á Spáni að selja sinn besta leikmann því að forsetinn þarf að hafa áhyggjur af endurkjöri. Það getur vel verið að hann ætli að selja Torres, að Torres vilji fara, en það er ekki sama hvernig það er gert. Þið mynduð t.d. aldrei sjá spænskt lið gera það sem Arsenal gerðu; að selja Henry bara og segja að Wenger ráði þessu. Ef Peter Hill-Wood, stjórnarformaður Arsenal, þyrfti að hafa áhyggjur af kosningum hefði Barcelona ekki landað Henry svona auðveldlega. Að sama skapi er ekki sama hvernig staðið er að sölunni á Torres – til að mynda voru haldin mótmæli fyrir utan höfuðstöðvar Atletico í gær en aðeins 200 manns mættu á þau mótmæli sem þykja góðar fréttir fyrir forsetann, hyggist hann selja Torres.

    Svo virðist það ætla að setja babb í bátinn að öfugt við Henry virðist Torres ekki vilja koma fram og segjast vilja söluna til Liverpool, þótt það sé almenn vitneskja að það sé raunin. Menn segja að hann sé hræddur við að fórna þeirri dýrlingatölu sem hann er kominn í á meðal stuðningsmanna Atletico, og lái honum hver sem vill.

    En umræður eru alltént komnar af stað. Rick Parry veit hversu hátt hann má fara og hefur fyrirmæli frá Gillett & Hicks í þeim efnum, þannig að nú er það undir honum komið að dansa tangó við forseta Atletico Madrid, Enrique Cerezo. Takist honum að landa þessum samningi verður það rós í hnappagatið fyrir bæði hann og eigendurna, takist það ekki mun fólk auðvitað spyrja að hinu augljósa: af hverju borguðu menn ekki bara 27 milljónirnar og kláruðu málið, eftir öll loforðin um að Rafa myndi geta keypt hvern þann sem hann vildi?

    Sjáum til.

  • Ballið byrjað?

    Er þessi brjálaða og afar taugastrekkjandi bið senn á enda? Það munu væntanlega allar fréttasíður fyllast af því mjög fljótlega að Liverpool og Atletico Madrid séu búin að komast að samkomulagi um kaupverð á Fernando Torres. Næstu skref verða þau að semja við leikmanninn sjálfan, sem ekki er talið að verði flókið mál, því hann er afar áhugasamur um að koma til liðs við Liverpool. Kaupverðið? Erfitt að fá slíkt staðfest, en það ku vera í kringum 25 milljónir punda. Menn eru ekki klárir á því hvort Luis Garcia fari í hina áttina, en það er talið nokkuð ljóst að hann fari frá okkur og heim til Spánar að ný að eigin ósk.

    Yfirleitt er erfitt að ráða í svona lagað þegar ekkert hefur verið gert opinbert, en traustir menn fullyrða að málin séu komin svona langt. Ef satt reynist, þá er hægt að nota alla kraftana í að klára samninga við menn eins og Malouda og klára þetta bara á einu bretti.

    Ef Torres er á leiðinni til liðsins (eins og allt bendir til) þá verða þessi kaup ekki bara algjört met í verði sem Liverpool hefur greitt fyrir leikmann (yfir 10 milljónum punda hærra en síðasta met) heldur er þetta ein mestu “high profile” kaup sem félagið hefur gert og sendir svo sannarlega merki út á markaðinn um að menn ætla að láta taka sig alvarlega í keppni um titla á næstunni. Það er ekki laust við að maður farið að verða verulega spenntur. Ég ætla nú samt að bíða með að bjóða Torres velkominn þar til hann hefur sett nafnið sitt á blaðið.

  • Rafa hinn rólegasti

    Rafa Benítez er ekki stressaður þessa dagana vegna leikmannakaupa, eða allavega lætur hann það ekki uppi. Slúðrið er þessa dagana að ná algjöru hámarki og eru þeir ófáir leikmennirnir sem eru orðaðir við okkur. Það er alveg á hreinu að það er verið að vinna hörðum höndum á bakvið tjöldin við að ná í nýja leikmenn og er maður með það á tilfinningunni að þeir verði fleiri en einn þegar upp er staðið. Mín tilfinning er sú að þeir verði allavega 3 og jafnvel 4. En eins og flestir aðrir þá er erfitt um að segja. Þeir sem hafa verið mest í umræðunni eru líklega þessir: Torres, Malouda, Mancini og Benayoun. En að orðum Rafa frá því í dag:

    “We have a number of targets, and I am receiving interesting phone calls all the time,”

    “We are monitoring situations all the time and there is no urgency yet”.

    “If we bring in players from Spain, they only finished playing a week ago so they will need a longer break, but I would like somebody in before we start pre-season training.”

    Sem sagt allt á fullu og leikmenn hringjandi í hann daglega um að fá að koma 🙂 Engin ástæða til að fara á taugum ennþá, leikmannaglugginn opnast formlega eftir 7 daga.

  • Henry til Barca!!!

    Henry til BarcaJa hérna. Við fjöllum nú vanalega ekki um kaup annara liða, en ef að þessum kaupum verður, þá eru þau einfaldlega of stór til að tala ekki neitt um þau.

    En allavegana, Barcelona og Arsenal eru talin hafa komist að samkomulagi um að **Thierry Henry sé á leið til Barcelona fyrir 16 milljónir punda**. Þetta eru náttúrulega rosalegar fréttir fyrir Arsenal stuðningsmenn. Arsenal eru þarna að selja sinn besta leikmann og fyrirliða og fá fyrir það pening, sem eru ansi litlar líkur á að dugi til kaupa á manni, sem kemst nálægt Henry að gæðum (Darren Bent átti að kosta 17 milljónir punda!).

    Einhverjir Arsenal aðdáendur verða ábyggilega í Pollýönnu skapi og segja að Wenger hafi gert þetta áður og að hann muni á einhvern hátt nýta þetta til að bæta liðið, en einhvern veginn myndi ég efast stórlega um það ef ég væri Arsenal aðdáandi. Fyrir mér er þetta enn eitt dæmið um að Arsenal tekst ekki að halda sínum bestu leikmönnum ánægðum lengi. Þeir hafa misst Viera, Anelka, Overmars, Petit, Ashley Cole og núna Henry á hátindi ferilsins. Sama hvað við Liverpool menn kvörtumm þá er það allavegana ekki að gerast að okkar bestu menn vilji fara frá liðinu. Það hefur ekki gerst lengi.

    En þetta mun eflaust hafa mikil áhrif á leikmannamarkaðinn. Hvað gerist t.d. með Samuel Eto’o? Hann hefur sagst trúa því að forráðamenn Barca sjái þá Henry og Eto’o saman í framlínunni, þó erfitt sé að sjá hvernig hægt er að stilla upp 3 manna sóknarlínu þegar hægt er að velja úr Henry, Ronaldinho, Messi og Eto’o. Hvern í fjandanum ætla menn að hafa á bekknum? Einnig vaknar upp sú spurning hvern Arsenal reyna að fá í staðinn, ef ekki Eto’o? Munu þeir reyna að blanda sér í baráttuna um Torres til að mynda?

    Allavegana, þetta eru fyrstu virkilega stóru fréttir af leikmannakaupum sumarsins og það verður fróðlegt að sjá hvert framhaldið verður.

  • Rafa vill hafa Carson áfram!

    Scott Carson hefur að undanförnu verið orðaður við Arsenal, Wigan, Aston Villa og að ég held flestöll önnur lið í ensku úrvalsdeildinni. Rafa Benitez er hins vegar ekkert á því að láta hann fara, því hann vill að Carson berjist við Pepe Reina um byrjunarliðssætið hjá Liverpool. Rafa segir:

    >“I was speaking to Scott recently and I told him he will be part of our first team squad next season,” he declared. “He must fight with Pepe Reina now for a starting place.

    Þetta er auðvitað bara gott mál. Padelli og Dudek eru auðvitað farnir, þannig að það var alveg ljóst að annaðhvort þyrfti Rafa að kaupa eða þá að Carson myndi koma aftur og berjast um sætið. Það er ánægjulegt að seinni leiðin var farin.

  • Tilboði í Mancini hafnað

    Sky Sports segja frá því í dag að AS Roma á Ítalíu hafi hafnað tilboði frá Liverpool í brasilíska vængmanninn Mancini. Sky segja að samkvæmt fréttum frá Ítalíu hafi Liverpool boðið 19 milljónir evra (12.7m punda) í leikmanninn en Roma hafi hafnað því og séu að vinna í að bjóða Mancini bættan samning við félagið.

    Ef við bætum þessari frétt við nýlegar fréttir af Fernando Torres og Yossi Benayoun er ljóst að það er loksins eitthvað að gerast hjá Liverpool á markaðnum. Nú er spurning, ef þessi frétt af Mancini er sönn, hversu mikið í mun Rafa er að næla í hann. Munu okkar menn koma með nýtt og stærra tilboð í hann eða mun Rafa snúa sér að öðrum kantmönnum?

    Þá er vert að minnast á það að það er ansi mikið óstaðfest slúður í gangi sem segir að Liverpool séu við það að ganga frá samningum við Florent Malouda og eigi þá aðeins eftir að ná samningum við Lyon um kaupverðið. Ég sé ekki mögulega hvernig Mancini, Malouda og Benayoun geta allir verið á leiðinni til Liverpool þannig að spurningin er, hversu mikið er til í þessum fréttum?

    Næstu dagar verða fróðlegir.

  • Guthrie lánaður til Bolton

    Hinn efnilegi miðjumaður Danny Guthrie hefur verið lánaður út næsta tímabil til Bolton. Ég vil taka það fram að ég er alfarið á móti lánssamningum á milli liða í sömu deild. Mér finnst það einfaldlega ekki siðferðislega rétt að eitt lið geti haft áhrif á liðsuppstillingu annars liðs í sömu deild. Reglurnar segja nefninlega að lánsmennirnir megi ekki spila á móti liðunum sem eiga þá.

    Hinn póllinn í þessari hæð er aftur á móti sá að Danny fær þarna væntanlega gríðarlega mikla og góða reynslu. Hann er að spila gegn sterkari andstæðingum í hverri viku (komist hann í liðið) og mun því væntanlega eflast meira sem leikmaður. Hann var hjá Southampton síðustu tvo mánuði síðasta tímabils og stóð sig feykilega vel og flestir eru sammála um að þarna fari afar efnilegur miðjumaður.

    Sammy Lee er greinilega farinn að horfa talsvert til okkar varðandi leikmenn, því fyrir utan þennann samning, þá er hann talinn hafa mikinn áhuga á að krækja í Djibril Cisse. Vonandi tekst honum það, því ég vil helst ekki sjá hann lánaðann annað ár.

  • Misvísandi fréttir um Torres

    Maður sleppir netinu í einn dag og missir af stærstu slúðurfrétt mánaðarins. Mér finnst ég alltaf lenda í þessu og gærdagurinn var engin undantekning. Eins og Einar Örn fjallaði um hefur breska pressan stillt miðið tryggilega á Fernando Torres og segja hann vera næsta leikmann Liverpool.

    Blöðin sögðu það allavega í gær. Í dag? Ekki beint. The Guardian segir frá því að forseti Atletico Madrid hafi útilokað sölu á Torres og vitna í hann:

    “This happens every year. Everyone talks about rumours and throws figures about but Atletico are clear. Anyway, even if we put him up for sale, would he really want to leave?”

    Virðist einfalt: hann er ekki á förum. Ekki satt? Tja … næsta dagblað í Englandi, The Mirror, gerir málið bara enn flóknara því á sama tíma og The Guardian leiða með þann pól í hæðina að við fáum Torres ekki lýsa Mirror-menn því yfir að við séum við það að ganga frá kaupunum:

    “LIVERPOOL are poised to sign Spanish super striker Fernando Torres in a sensational £24million deal that will help make the peace with boss Rafa Benitez.

    The new American owners of Anfield have made the Atletico Madrid hitman a priority in an attempt to show their manager they mean business and hope to seal the deal by the end of the week.”

    Það eina sem við vitum um Torres, án nokkurs vafa, er að hann er með svokallaða ‘buy out’-klausu í samningnum sínum. Þannig að eini möguleikinn á því að báðar fréttirnar séu réttar er ef forseti Atletico hafi sagst ekki ætla sér að selja Torres, vitandi það þó að ef eitthvað lið bjóði það fé sem þarf til að virkja klausuna geti hann ekki hindrað Torres í að fara. Þá gæti Liverpool, skv. Mirror-fréttinni, verið að virkja klausuna með 24m punda boði (skv. fréttinni) og því sé þetta undir Torres sjálfum komið.

    Hinn möguleikinn er sá að enginn hinna ensku blaðamanna sem hafa verið duglegir að slúðra um Liverpool í sumar viti neitt um það hvað klúbburinn aðhefst á markaðnum um þessar mundir. Það gæti verið útskýring á misvísandi fréttum af Torres, allavega.

    Ég ætla samt að leyfa mér að vona að hið fyrra sé satt. Menn geta rökrætt um Torres gegn Eto’o gegn Bent gegn Villa o.sv.frv. endalaust en fyrir mér myndu kaup á manni eins og “El Nino” hafa einn stóran kost í för með sér: the feel-good factor. Eins og staðan er núna hangir dökkt ský yfir klúbbnum því menn eru að farast úr óvissu; getur Rafa styrkt leikmannahópinn eða ekki? Ef Torres kæmi fyrir meira en 20m punda gætu menn hrópað svarið: “JÁ!”

    Ég vona að af þessu verði. Ef Rafa missir af þremur eða fjórum fyrstu valkostum sínum í framherjastöðuna og þarf að lokum að “sætta sig við” að borga 14m fyrir Darren Bent verða einhverjir frekar þunglyndir í haust.

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close