Latest stories

 • Heimsókn á Stamford Bridge í FA bikarnum

  Annað kvöld mun Jurgen Klopp og lærisveinar hans halda til London þar sem þeir munu heimsækja Chelsea lið Frank Lampard í sextán liða úrslitum FA bikarsins og freistar þess að komast í átta liða úrslit keppninnar í fyrsta skiptið síðan árið 2015 en þá datt liðið út í undanúrslitum gegn Aston Villa.

  Það ætti líklega ekki að hafa farið framhjá neinum en Liverpool tapaði deildarleik gegn Watford um síðastliðna helgi. Nei annars, Liverpool skíttapaði gegn Watford um helgina og hefur nú tapað tveimur leikjum á fremur skömmum tíma og því mikilvægt að liðið svari þessu með sigri annað kvöld. Liverpool á enn góðan séns á því að geta unnið þrjá bikara í viðbót á leiktíðinni og er Chelsea næsta hindrun sem komast þarf í gegnum til að geta vonandi unnið fyrsta FA bikarinn síðan 2006 og fyrsta úrslitaleikinn í þessari keppni síðan 2012.

  Embed from Getty Images

  Næsta vika eða svo er gífurlega mikilvæg fyrir Liverpool, þá mun það skýrast hvort Liverpool haldi áfram í bikarnum og í Meistaradeildinni og þar á milli er leikur sem gæti komið liðinu enn nær Englandsmeistaratitlinum. Ég ætla því að giska á að Klopp muni stilla upp frekar sterku liði gegn Chelsea en þó með smá breytingum.

  Klopp hefur sagt að Harvey Elliott verði ekki með annað kvöld þar sem hann ferðaðist með u19 ára liðinu til Portúgal þar sem þeir eru að fara að mæta Benfica í Meistaradeild yngri liða en þeir Neco Williams, Ki-Jana Hoever og Curtis Jones voru allir eftir í Liverpool og verða líklega í hópnum annað kvöld ásamt Pedro Chirivella býst ég við.

  Ég ætla að giska á að liðið verði eitthvað á þessa leið:

  Adrian

  Williams – Gomez – Matip – Milner

  Jones – Fabinho – Lallana

  Minamino – Origi – Mane

  Það gæti kannski verið enn sterkara en þetta og ég reikna með að það verði þá líka sterkur bekkur. Salah, Wijnaldum, Chamberlain, Firmino, Lovren, Chirivella/Robertson/TAA og Kelleher á bekknum eða eitthvað á þá leið. Keita verður ekki klár í leikinn en Gomez og Milner eru það og við fögnum því að fá þá aftur í hópinn. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig hann stillir upp liðinu því ég gæti vel trúað að leikmenn eins og Salah, Mane, Van Dijk, Trent og fleiri þarna séu mjög spenntir fyrir því að vinna þennan bikar og iða í skinninu fyrir því að snúa blaðinu við eftir dapurt tap síðustu helgi.

  Ég held að það sé að minnsta kosti bókað mál að Adrian byrji þennan leik og þá líklega Matip, Milner og örugglega Lallana. Þá er bara spurning hvort að Milner verði á miðjunni eða í bakverðinum fyrir Robertson, hvort að Matip byrji með Gomez eða Van Dijk og þar fram eftir götunum.

  Það er “úrslitaleikur” annað kvöld, svo eitthvað sem ætti að teljast fremur auðveldur og hálf partinn stikkfrí leikur gegn Bournemouth um næstu helgi og svo “úrslitaleikur” gegn Atletico Madrid í næstu viku. Það verður því kannski þannig að Bournemouth verði leikurinn þar sem meira verði róterað og Klopp stilli upp sínu sterkasta gegn Chelsea og Atletico. Ég myndi þó alls ekki útiloka það að það verði svo gott sem sama byrjunarlið í þessum þremur leikjum bara til að koma þessum hópi leikmanna í betri rhythma en þeir hafa verið í síðan þeir komu úr pásunni.

  Sjáum hvað setur með lið Liverpool, það er erfitt að spá fyrir um hvað Klopp hyggist gera þarna en held að það sé nokkuð líklegt að Chelsea muni stilla upp eins nálægt sínu sterkasta liði og hægt er en Chelsea eru svo gott sem dottnir út úr Meistaradeildinni eftir stórt tap gegn Bayern Munchen í fyrri leik liðana svo FA bikarinn er þeirra eini séns á titli í vetur. Þeir gerðu jafntefli gegn Bournemouth um síðastliðina helgi svo þeir eru alls ekki í nægilega góðri stöðu í baráttunni um 4.sætið og sluppu fyrir horn því Tottenham og Man Utd töpuðu bæði stigum í sömu umferð en þessi tvö lið ásamt Sheffield United og Wolves eru að anda niður hálsmálið á þeim, þeir kannski geta þá heldur ekki tekið mikla sénsa með deildina og þeir eiga Everton í næstu umferð.

  Ég vil sjá Liverpool komast áfram og sjá Klopp stilla upp nógu sterku liði til að vinna þennan leik. “Invincibles” er nú úr sögunni svo nú er ég frekur og vill sjá stigamet og þrennuna, til þess þarf að slá Chelsea út annað kvöld. Vonandi gerum við það!

  [...]
 • UNDUR OG STÓRMERKI! Liverpool mundi hvernig er að tapa (skýrsla)

  Í kvöld gerðust undur og stórmerki! Viðburður sem ekki hefur átt sér stað síðan þriðja Janúar, 2019. Til þess að þetta gæti gert þurfti samstillt átak allra liðsmanna Liverrpool um að spila langt undir getu, auk þess sem andstæðingurinn Watford spiluðu einfaldlega frábærlega. Já. Liverpool tapaði í deildinni. Stuðningsmenn annara liða geta tekið gleði sína á ný og við púllarar þurfum að rifja upp hvernig á að hegða sér eftir tapleik í deild. Er rétta viðbragðið reiði? Örvænting? Lélegt grín? Ég hreinlega man ekki hvernig þetta virkar.

  Fyrri hálfleikur

  Fyrri hálfleikur var ofboðslega slæmur að hálfu okkar manna. Watford voru með sitt plan og það gekk vel upp, vörðust með 10 mönnum og sóttu hratt þegar tækifæri gafst. Þeir gáfu ekkert pláss á vængjunum og það segir sína sögu að þó Liverpool hafi verið 65% með boltann áttu okkar menn eitt skot í hálfleiknum!

  Eftir korter voru Watford búnir að vera miklu hættulegri og lélegar sendingar í vörn Liverpool að skapa hættuleg færi fyrir Watford. Van Dijk gaf liðsfélögum sínum drápsaugnaráð. Þetta var ekki eina slæma sendingin og beið maður eftir að liðið myndi vakna.

  Eftir hálftíma fóru Deulofeu og Van Dijk í 50/50 bolta við teig Liverpool. Hollendingurinn fleygði Spánverjanum til hliðar en Watford maðurinn lenti hrikalega illa og meiddist mjög illa á hné. Fyrir Watford eru þetta hrikalegar fréttir, algjör lykilmaður og búin að vera einn sprækasti maður liðsins.

  Þegar fimm mínútur voru eftir hálfleiks hélt maður að Troy Deeney væri stálheppinn að dómarinn var ekki að fylgjast með þegar hann rennitæklaði Trent og skyldi eftir tommu djúp takkaför í hælnum á scousernum. Svo skyldi maður að þetta var engin heppni, þegar Hughes gerði svipað við Gini. Greinilega magn afsláttur af brotum hjá Watford.

  Síðasta mínútan var svo hasar í teig Liverpool. Lovren var heppinn að fá ekki á sig víti þegar hann tók um Troy Deeney á sama hátt og tekið er á Salah í hverjum leik. Svo gerðist ótrúlegur hlutur: Alisson gerði mistök! Hann missti frá sér lausan bolta sem hann átti að grípa. Hann Troy var tilbúin og reyndi að vippa yfir brasilíska undrið, ekki að fara að gerast! Brasilísk hönd reis eins og fuglinn Fönix og blakaði vippunni frá. Svo var flautað til hálfleiks eftir einar verstu 45 mínútur sem Liverpool hafa leikið lengi.

  Seinni Hálfleikur

  Alison byrjaði svo seinni hálfleik á Hollywood markvörslu. Svo hófst þung sókn Liverpool. Það var ögn betri taktur í sóknina og maður upplifði að Liverpool maskínan væri að komast í gang. Andy Robertson gat komið Liverpool yfir eftir sendingu frá Van Dijk. En þá gerðist slysið, Deeney leyfði löngu innkasti að skoppa til vinar síns Doucoure sem fíflaði Van Dijk og setti boltann á Sarr, hann renndi boltanum í netið og Watford 0-1 undir annan leikinn í röð.

  Í von um að kveikja eld undir liðinu sá var Klopp að gera Lallana tilbúin undir að koma inn á fyrir Gini. En áður en skiptingin gat skeð sendi Deeney frábæra sendingu á Sarr sem var komin einn á móti Alisson og kom Watford í 2-0. Hrein skelfing. Klopp sendi Origi inn á í fögrum lopavettlingum til að reyna að snúa þessu við.

  Það virtist verja að hefjast alveg pressa frá okkar mönnum í svona mínútu en svo gerði Trent skelfileg mistök og sendi boltann þvert yfir teig Liverpool á Ishmael Sarr. Maður leiksins hjá Watford þakkaði pent fyrir sig með því að gefa á Troy sem skoraði fram hjá Alisson og staðan 3-0 fyrir Watford. Verðskuldað.

  Okkar menn bitu frá sér í lokin og var greinilega ekki sama. En þetta var aldrei í hættu hjá andstæðingnum, hörmungar frammistaða Liverpool staðreynd og Klopp verður að sætta sig við að vera áfram með ekki nema 22 stiga forystu á toppi deildarinnar.

  Umræðupunktur

  • Ég býð öllum sem efast um mikilvægi Henderson að horfa á þennan leik og þann síðasta.
  • Flott er, verðum að láta okkur duga næst lengstu runu án þess að tapa í sögu enskra knattspyrnu.
  • Ég er ekki að kenna dómaranum um, langar bara að benda á að einhvern veginn fór ekki eitt spjald á loft á leiknum. Hvernig má það vera miðað við hörkuna sem var í gangi.
  • Ég ætla ekki að kenna neinum stökum leikmanni um þetta. Það var engin góður í liðinu og Watford eiga stórt hrós skilið fyrir það hvernig þeir spiluðu leikinn.
  • Núna vita hin liðin hvernig á að skemma fyrir Liverpool: Tækla í drasl, 10 menn til baka og passa að gefa bakvörðunum engan tíma á bolta. Núna er mál að Klopp finni lausn.

  Þannig fór nú sjóferð þá. Glataður leikur, þurfum að vinna fjóra til að klára deildina. Menn verða öskurreiðir í klefanum eftir leik, skulum muna að við erum alltaf að fara að vinna þessa deild áður en við förum í eitthvað þunglyndi. Það hlaut að koma að þessu, verður mjög forvitnilegt að sjá hvernig viðbragðið frá liðinu verður á móti Bournemouth eftir tæpa viku.

  [...]
 • Byrjunarlið gegn Watford klárt! Lovren inn!

  Jæja, klukkutími í að hetjurnar okkar reyni að færa sig þremur leikjum frá titlinum góða. Maður fann það í síðustu viku að manni er langt frá því að vera sama um stakan leik og treystum við á þessir kappar klári málið og við getum skálað brosandi í kvöld:

  Oxlade kemur inn fyrir Keita en stóra fréttin er að Lovren kemur inn í staðinn fyrir Gomez. Ungi maðurinn er víst með minni háttar meiðsli og hvíld hans fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að þau ágerist. Ungur bekkur, ætla að vera svo bjartsýnn að halda að við göngum frá þessum leik snemma og Jones og Minamino fái að spreyta sig!

  Koma svo!

  Ingimar

  [...]
 • Hornets heimsóttir

  Það er búið að vera óvenju rólegt hjá okkar mönnum núna í febrúar: fyrst kom vetrarfríið í deildinni, og eftir það hefur að jafnaði bara verið einn leikur í viku. En nú fer að detta í ansi annasamt tímabil því næstu 3 vikurnar verður aldrei meira en 5 dagar á milli leikja. Þessari lotu lýkur semsagt með leik gegn Palace þann 21. mars, en þá tekur við landsleikjahlé. Það hvort Palace leikurinn fer fram þann 21. mars er svo ekki 100% öruggt þar sem við gætum vel fengið eitt stykki bikarleik þá helgina, þ.e. ef liðinu tekst að leggja Chelsea að velli í næstu viku.

  En nóg um það, gerum eins og Klopp og Lijnders og einbeitum okkur bara að næsta leik. Sá leikur fer fram núna á laugardaginn þegar okkar menn leggja land undir fót, og heimsækja býflugurnar á Vicarage Road í Watford, rétt norðan við Lundúnir.

  Örstutt um andstæðingana

  Stemmingin í kringum Watford í byrjun tímabils var bara nokkuð góð. Þeir enduðu síðasta tímabil í 11. sæti og komust í úrslit bikarsins (án þess að Watford menn vilji endilega rifja upp hvernig sá leikur fór). Sem dæmi um væntingar til liðsins þá spáðum við kop.is pennar liðinu áfram 11. sæti í deildinni, enginn spáði þeim hærra sæti en því níunda, en enginn neðar en því þrettánda. En eitthvað breyttist í stemmingunni innan hópsins, og liðið er í framhaldinu búið að skipta tvisvar um knattspyrnustjóra á tímabilinu. Nigel Pearson tók við í byrjun desember, og eftir mánuð hafði liðið náð í nokkur ágæt úrslit: jafntefli gegn Palace og Sheffield, sigur gegn Man Utd, Villa og Wolves. Reyndar var fyrsti leikur Pearson við stjórnvölinn gegn okkar mönnum á Anfield, og það eru engin stig í boði fyrir að geta upp á hvernig sá leikur fór (hint: Watford tapaði). Eftir þetta mánaðar jómfrúartímabil hefur liðið aðeins unnið einn leik: gegn Bournemouth þann 12. janúar. Liðið hefur náð jafntefli gegn Spurs og Brighton, en tapað fjórum af síðustu fimm leikjum og eru í næst neðsta sæti deildarinnar í augnablikinu. Þeir eru að vísu með jafn mörg stig og West Ham í þriðja neðsta sæti, en lélegra markahlutfall.

  Semsagt, Liverpool er að fara að mæta særðu dýri sem gæti vel bitið frá sér. Klopp talaði sjálfur um það á blaðamannafundinum að þó svo að úrslitin hafi ekki fallið með þeim gulröndóttu, þá hafi spilamennskan verið ágæt. Kannski var það bara hefðbundið bragð hjá Klopp að bera lof á Pearson svona fyrir leik, manni hefur sýnst hann reyna að hrósa andstæðingunum sé þess nokkur kostur.

  Pearson hefur úr nánast fullmönnuðum hóp að velja, Femenia og Janmaat eru víst báðir að stíga upp úr meiðslum en tæpast leikfærir alveg strax. Það má því reikna með svipuðu liði hjá þeim eins og gegn United í síðasta leik.

  Okkar menn

  Við sáum nú reyndar mjög vel í leiknum á mánudagskvöldið hvernig er að spila gegn liðunum sem eru að berjast fyrir veru sinni í deildinni, og það er því ekkert á vísan að róa með úrslit þessa leiks. Í raun má færa rök fyrir því að liðin sem enn eiga séns á að bjarga sér frá falli séu e.t.v. erfiðustu andstæðingarnir, því restin af liðunum í deildinni hafa rosalega lítið að spila um. Jújú, það skiptir auðvitað einhverju máli hvor lið lendir í 8. eða 11. sæti upp á verðlaunafé að gera, og vissulega er í gangi barátta um sæti 4 og 5 til að komast í meistaradeildina (ef við gerum ráð fyrir að brottvísun City úr meistaradeildinni haldi sér), en þar fyrir utan má segja að fallbaráttan sé sú barátta sem sé einna mest “mótíverandi” fyrir leikmenn og lið almennt. Þetta veit Klopp mætavel, og er örugglega að undirbúa leikmenn sína fyrir baráttuleik.

  Það eru ekki margir á meiðslalista: Clyne og Shaqiri (samkvæmt venju), Milner er farinn að hlaupa en er líklega ekki leikfær fyrr en í bikarleiknum gegn Chelsea. Og svo er það Henderson. Hann er líka á batavegi, en klárlega ekki leikfær og það munar um minna. Orðrómurinn um að Henderson ætti skilið að vera valinn leikmaður tímabilsins hefur ekkert verið að hljóðna upp á síðkastið, og í síðasta leik sást kannski einna best hvað hann er mikilvægur. Mér er til efs um að liðið hefði hleypt West Ham svona inn í leikinn eins og gerðist í síðasta leik ef Hendo hefði verið inná, öskrandi á sína menn að missa ekki einbeitinguna eins og manni fannst gerast, sérstaklega á fyrsta korterinu í seinni hálfleik. Keita er hæfileikaríkur knattspyrnumaður, en hann hefur ekki leiðtogahæfileikana sem Hendo hefur (hann hefur ekki einusinni enskukunnáttuna hans!). Það breyttist ýmislegt þegar Chamberlain kom inn á, og því er ekkert ólíklegt að Klopp stilli upp svipuðu liði og síðast, nema með Ox í stað Keita:

  Alisson

  TAA – Gomez – VVD – Robertson

  AOC – Fabinho – Wijnaldum

  Salah – Firmino – Mané

  Auðvitað eru ýmsir aðrir möguleikar í stöðunni. Lallana er ennþá leikmaður Liverpool, og er ennþá í uppáhaldi hjá Klopp. Minamino er alveg örugglega í langtímaplönum Klopp, og einhverntímann fer hann að banka á dyrnar í byrjunarliðinu (þó það gerist tæpast í þessum Watford leik).

  Við spáum að sjálfsögðu að liðið haldi áfram sigurgöngu sinni. Hins vegar hefur liðið ekki verið með neinar flugeldasýningar, heldur bara gert það sem þarf til að landa sigrum. Spáum að það mynstur haldi áfram og að leikurinn endi 0-2 með mörkum frá Virgil (eftir horn frá Trent) og Mané.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Liverpool 3-2 West Ham

  Héldu einhverjir að Liverpool væri að fara að tapa? Pff…

  Liverpool vann rétt í þessu sinn átjánda sigurleik í röð í deildinni þegar liðið kom til baka og vann góðan 3-2 sigur á West Ham í ansi óvænt fjörugum leik. Með sigrinum jafnaði liðið met Man City yfir fjölda leikja í sigurhrynu og gerði það að verkum að liðið þarf nú aðeins fjóra sigurleiki eða tólf stig til að gulltryggja Englandsmeistaratitilinn!

  Erum við farin að átta okkur almennilega á þessari stöðu? Það eru ellefu leikir eftir og liðið þarf aðeins fjóra sigra (tólf stig) til að tryggja sér þetta alveg óhátt því hvað Man City gerir. Tapi þeir einhverjum stigum þarf Liverpool bara enn þá minna. Þetta er svo ergilega nálægt!

  Liverpool var án Jordan Henderson í leiknum og byrjaði Naby Keita leikinn en Klopp hafði greint frá því fyrir leik að hann hafi ætlað að byrja með Milner þarna en hann fann fyrir einhverju fyrir leik og var ekki teknir neinir sénsar með hann. Smá hart kannski í garð Chamberlain sem hafði byrjað síðustu fjóra eða fimm deildarleiki og gert ágætlega í þeim.

  Leikurinn byrjaði eins vel og maður hefði getað óskað eftir. Trent Alexander Arnold átti fyrirgjöf frá hægri – surprise, surprise – og Wijnaldum mætti boltanum í teignum og skallaði hann í netið. Óska byrjun á leiknum og sá maður fram á að Liverpool myndi bara valta yfir West Ham en sú varð ekki alveg raunin.

  Þremur mínútum eftir að Liverpool skoraði fékk West Ham hornspyrnu, boltinn barst til Diop sem skallaði boltann á nærstöng og Alisson var ekki alveg á tánum og náði ekki að hindra að boltinn færi í netið. Smá skellur fyrir Liverpool en gaf West Ham smá vonarglætu. Yfirburðir Liverpool voru miklir í leiknum en það vantaði voða mikið bara þetta loka touch og liðin héldu jöfn inn í hálfleikinn.

  Skömmu eftir að seinni hálfleikur hófst komst West Ham frekar óvænt yfir með marki Pablo Fornals sem var nýkominn inn á sem varamaður. Klopp brást við með að skipta Chamberlain inn á fyrir Keita og kom mikill auka kraftur með Chamberlain.

  Liverpool þjarmaði að West Ham og herti tökin sín á leiknum, það var svo Mo Salah sem jafnaði metin á 68.mínútu. Robertson lagði boltann inn í teig á Salah sem átti fast skot beint á Fabianski sem náði ekki valdi á boltanum og missti hann í gegnum klofið á sér. Ekki fallegasta mark Salah á ferlinum en svo sannarlega kærkomið!

  Það var svo í raun aldrei spurning eftir það fannst mér hvort heldur hvenær sigurmark Liverpool kæmi og það var Sadio Mane sem átti það. Trent skaust á eftir bolta inn í teiginn, tók hann á lofti og kom honum fyrir markið þar sem Mane mætti boltanum og kom honum í netið af stuttu færi. Gott mark og verðskuldað að Liverpool væri komið yfir.

  Mane skoraði svo aftur skömmu síðar en hann var svo tæplega fyrir innan varnarlínu West Ham þegar hann mætti fyrirgjöf Trent. Í alvöru, hvað er að frétta með Trent og þessar fyrirgjafir hans?!?

  Kom smá óþægindi í skrokkinn á manni þegar West Ham fengu álitlega aukaspyrnu rétt fyrir utan teig Liverpool en það var höndlað þokkalega og ekkert varð úr því og enn einn sigurleikurinn leit dagsins ljós.

  Við höfum marg oft séð Liverpool betri og þetta langt frá því að vera besti leikur liðsins og leikmanna þeirra en yfirburðirnir voru gífurlegir og margir leikmenn áttu svo sem ágætis leiki heilt yfir. Salah og Mane voru hættulegir frammi og skoruðu báðir fín mörk. Miðverðirnir voru ágætir en áttu einstaka augnablik sem flestir myndu vilja gleyma bara. Miðjan var ágæt. Fabinho var flottur sem djúpi miðjumaðurinn, Wijnaldum var mjög líflegur og gerði gott mark, Keita átti sínar rispur og Chamberlain breytti ansi miklu fyrir liðið þegar hann kom inn á.

  Maður leiksins er þó án nokkurs vafa Trent Alexander Arnold. Fannst nær allt það jákvæðasta úr sóknarleik liðsins í dag koma í gegnum hann.

  Liverpool á Watford um helgina, Chelsea í bikarnum um miðja næstu viku, Bournemouth helgina þar eftir og svo kemur ansi mikilvægur leikur gegn Atletico Madrid. Næstu tvær vikur hjá Liverpool eru gífurlega stórar og mikilvægar og munu segja mikið til um hvað liðinu tekst að gera á leiktíðinni. Englandsmeistaratitillinn er ansi nálægt og ætti að vera enn nær eftir þessa tvo deildarleiki sem framundan eru. Bikarleikurinn gegn Chelsea og Meistaradeildarleikurinn gegn Atletico Madrid gætu ráðið því hvort fáranlega mögnuð leiktíð yrði bara fáranlega mögnuð eða eitthvað enn stærra og flottara en það!

  Þetta er allt svo spennandi! Áfram Liverpool!

  [...]
 • Liðið gegn West Ham

  Klopp hefur valið byrjunarliðið sem mætir West Ham á Anfield í kvöld.

  Það er enginn Jordan Henderson næstu vikurnar en fyrirliðinn er meiddur, það er Naby Keita sem tekur sæti hans í liðinu en að öðru leiti er allt óbreytt frá síðasta leik.

  Alisson

  TAA – Gomez – VVD – Robertson

  Wijnaldum – Fabinho – Keita

  Salah – Firmino – Mane

  Bekkur: Adrian, Matip, Lallana, Chamberlain, Origi, Minamino, Lovren

  Mögulega sterkasta byrjunarliðið sem Liverpool býður upp á í dag á meðan Henderson er frá, Chamberlain gæti verið þarna í stað Keita hvað það varðar en hann byrjaði einhverja fjóra eða fimm deildarleiki í röð.

  Sterkt lið, sterkur bekkur, titillinn í nánd og hópur sem mun vilja hrista af sér pirrandi leik og úrslit gegn Atletico Madrid. Vonandi fáum við stóran og góðan sigur í kvöld!

  [...]
 • Gullkastið – Upphitun frá Liverpool borg

  Liverpool borg er full af íslenskum stuðningsmönnum félagsins og verulega góður andi fyrir leik kvöldsins. Tókum aðeins stöðuna á leikjum helgarinnar, slúðri og spáðum í spilin fyrir West Ham.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  Haukur Heiðar neglir Gærdaginn á Cavern Club.

  MP3: Þáttur 280

  [...]
 • Liverpool – West Ham (Upphitun)

  Eftir sjaldséð tap í síðustu  viku, tilfinning sem maður hefur upplifað afskaplega sjaldan síðustu misserin, þá er nú komið að næsta verkefni. Það er “undir ljósunum” á mánudagskvöldi, Monday Night Football og allt það, þegar David Moyes og félagar sækja Liverpool heim og hefjast leikar kl. 20:00.

  (more…)

  [...]
 • Gullkastið – Ekkert stress eftir tap gegn Spænska Stoke

  Það tók alls ekki langan tíma að jafna sig á þessum misskilningi í gærkvöldi gegn afkvæmi Allardyce og Pulis og hans mönnum í Atletioco. Klárum þá á Anfield, næst á dagskrá er St. Mirren, viljum fá alla í Torfasons Black& White Army stuðningsmannaklúbb St. Mirren á Íslandi. 

  Hér er Torfason´s á Facebook og viljum við fá alla í lið með okkur.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  MP3: Þáttur 279

  [...]
 • Atletico Madrid 1-0 Liverpool

  Mörkin

  1-0   Saul Niguez 4.mín

  Leikurinn

  Okkar menn hefðu varla geta byrjað verr. Atletico pressaði hraustlega frá fyrsta flauti og við vorum í vandræðum. Eftir rétt rúmar þrjár mínútur fengu heimamenn hornspyrnu og upp úr henni hrökk boltinn af Fabinho fyrir fætur Saul Niguez sem skoraði framhjá Alisson af stuttu færi.

  Vandræðagangurinn hélt áfram næstu mínútur en smátt og smátt náðum við að hemja boltann og halda honum í okkar röðum. Uppspilið var þó ekki beisið og fátt markvert að gerast. Ef eitthvað var þá voru Atletico hættulegri þrátt fyrir að vera minna með boltann og á 25.mínútu þá átti Morata skot í teignum sem Alisson varði vel. Stuttu síðar þá fékk Salah boltann við misheppnaða hreinsun en móttakan olli því að þrátt fyrir að boltanum var að lokum komið í netið að þá var réttilega dæmd rangstaða.

  Madridar-menn voru grimmir í pressu og návígum sem olli Liverpool talsverðum vandræðum með samspil. Þó kom færi á 35.mínútu með laglegu spili en skot Salah í teignum fór í varnarmann og í horn. Pirringurinn var augljós og síðla hálfleiks fékk Mané gult spjald fyrir að slæma hönd í Vrsaljko. Stuttu síðar gerðist svipað en léttvægara atvik milli sömu manna og hugsanlega hafði það þau áhrif að Klopp tók á endanum Mané útaf í hálfleik til að taka ekki séns á rauðu spjaldi.

  1-0 í hálfleik

  Síðari hálfleikur byrjaði með sama móti, LFC meira með boltann en gekk illa að brjóta á bak aftur þéttan og vel skipulagðan varnarleik Atletico. Á 53.mínútu fékk Salah gott skallafæri eftir fína sendingu Gomez en setti boltann framhjá. Það var því miður þema leiksins enda setti Liverpool ekkert skot á rammann og Oblak þurfti engan bolta að verja allt kvöldið.

  Ef eitthvað er þá fengu heimamenn hættulegri færin og á 68.mínútu fékk Morata upplagt tækifæri í teignum en rann á rassinn við skottilraunina. Besta færi Liverpool í leiknum var líklega fimm mínútum síðar er Henderson náði ágætu skoti við erfiðar aðstæður en stýrði boltanum framhjá. Innáskiptingar, vond dómgæsla, japl og jaml og fuður fór í hönd en ekkert breyttist fram að leikslokum.

  1-0 fyrir Atletico Madrid í fyrri leik liðanna

  Bestu menn Liverpool

  Flestir okkar manna spiluðu undir pari í kvöld og fátt um fína drætti ef draga á fram fínar frammistöður. Joe Gomez þótti mér standast raunina að mörgu leiti ágætlega, var kjarkaður við erfiðar aðstæður og líklega skástur okkar manna í kvöld. Firmino átti nokkra spretti en átti erfitt með að skapa sér eða samherjum opin færi. Fabinho var einnig reffilegur á köflum og stóð í hárinu á heimamönnum en enginn okkar manna á skilið neina merkilega sæmdatign fyrir leikinn í kvöld.

  Vondur dagur

  Sem fyrr segir var frammistaða okkar manna ekki upp á marga fiska og mætti draga nokkra marhnúta til ábyrgðar í þeim efnum. Ég læt það þó vera en fannst einna versta kvöldið eiga pólski heimadómarinn Szymon Marciniak. Hann spilaði alveg eftir skrifuðu leikriti Simeone þar sem hvert tilefni var nýtt til fullnustu í að tefja eða dæma á tittlingaskít. Vissulega gaf hann enga vonda vítaspyrnu eða þvíumlíkt en dómgæslan var fyrir neðan allar hellur í leiknum. Szymon segir slæm frammistaða.

  Umræðan

  Niðurstaðan er högg eftir velgengni síðustu mánaða þar sem allt hefur gengið upp. En það þarf meira en eins marks tap á útivelli til að slá Klopp & co. útaf laginu. Við eigum Evrópukvöld á Anfield inni og þar verður allt annar leikur spilaður. Atletico eru sannarlega eitt besta varnarlið í heimi og það sást vel í kvöld en erfiðleikarnir eru til þess að yfirvinna þá og eftir tæpan mánuð verður hlaðið í fallbyssurnar. Klopp lætur ekki að sér hæða og mun liggja yfir taktíkinni nótt sem dag þar til lausnin er fundin.

  Púlarar þurfa almennt að reisa upp höku og ekki vera niðurlútir, hlífa hetjum sínum við neikvæði og bölmóð og vera tilbúnir í að styðja sína menn í næsta verkefni. Upp, upp, mín Saul en ekki seljum sál okkar dýrt í seinni hálfleiks þessa einstaka einvígis.

  YNWA

   

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close