Latest stories

  • Jota frá í 2 mánuði

    Svo virðist sem meiðslin hjá Jota séu að skýrast, og nýjustu fregnir herma að hann verði frá í 2 mánuði. Sem þýðir að hann kæmi til baka undir lok apríl í fyrsta lagi, og á þá eftir að ná upp leikformi. Semsagt: tímabilið er svo gott sem búið, en kannski kemur hann við sögu í einhverjum úrslitaleikjum… hver veit? Alltaf slæmt að missa leikmenn í þetta langan tíma, en þetta hefðu auðveldlega getað verið meiðsli upp á 9-12 mánuði þess vegna, svo að þetta er kannski bara frekar vel sloppið.

    Ekkert hefur frést um Curtis Jones, vonandi er hann ekki alveg jafn lengi frá. Hins vegar berast af því fréttir að Salah sé ekki klár í Luton leikinn, og mögulega ekki Nunez heldur. Erum við að fara að sjá Jayden Danns og Kaide Gordon á bekknum í næstu þrem leikjum? Allavega er nú tækifæri fyrir akademíuleikmenn að koma inn og setja mark sitt á aðalliðið, á síðustu árum erum við búin að sjá slíka leikmenn koma inn í marki (Kelleher), í vörn (Trent, Quansah, Bradley) og miðju (Jones, Bajcetic, Clark, McConnell) en framleiðslan á sóknarmönnum virðist hafa verið síðri. Kannski einfaldlega af því að gæðin uppi á topp í aðalliðinu hafa verið slík að tækifærin hafa verið með fæsta móti. Það var a.m.k. auðvitað eftir því að Doak þurfti endilega að meiðast undir lok síðasta árs, og er ekki væntanlegur aftur fyrr en í byrjun apríl.

    Meiðsli leikmanna eru auðvitað alltaf hábölvuð, vonandi munu aðrir leikmenn nýta tækifærin sem slík meiðsli gefa og sýna hvað í þeim býr. Nóg er af efniviðnum.

    [...]
  • Stelpurnar heimsækja Brighton

    Það hlýtur nú að hafa verið einhverskonar met, því ÖLL Liverpool liðin eiga hádegisleik þessa helgina. U18 þurftu að lúta í gras gegn City, en sigurinn á Brentford er okkur enn í fersku minni, og U23 liðið vann góðan útisigur á Newcastle þar sem Trey Nyoni og Kaide Gordon skoruðu mörk okkar manna í 1-2 sigri. Í hádeginu í dag mæta svo stelpurnar okkar suður með sjó og heimsækja þar Brighton. Liðin eru á ólíkum stöðum í deildinni:

    en þrátt fyrir að Liverpool sé í efri hlutanum og Brighton í næst neðsta sæti, þá er munurinn á þessum liðum líklega minni en þær tölur benda til. Þó er rétt að rifja upp að fyrri leikurinn á Prenton Park endaði með öruggum 4-0 sigri okkar kvenna. Síðasti útileikur hins vegar var í nóvember 2022, og sá leikur endaði 3-3.

    Svosem fátt sem kemur á óvart þegar kemur að liðsuppstillingunni, Taylor Hinds er enn frá vegna meiðsla, og af einhverjum ástæðum er Lucy Parry ekki í hóp, en þá er það hérumbil upptalið:

    Laws

    Bonner – Fahey – Fisk

    Koivisto – Nagano – Matthews

    Holland – Höbinger

    Lawley – Roman Haug

    Bekkur: Micah, Clark, Daniels, Lundgaard, Kearns, Kiernan, Enderby, van de Sanden

    Það verður hægt að sjá leikinn á The FA Player (með bresku VPN) eins og svo oft áður.

    Nú væri mjöööög vel þegið að hirða 3 stig, og minnka muninn í United.

    KOMASO!!!!

    [...]
  • Brentford – Liverpool 1-4

    Hádegisleikur var það heillin en eina ferðina og núna var það flottur sigur hjá okkar liði.  Miða við meiðslin fyrir leik og já í miðjum leik þá er alveg magnað hvað við náum að halda okkar striki. Eftir ömurlegan Arsenal leik þá hefði þessi leikur getað orðið algjört bananahýði en við vorum mjög fagmannlegir og kláruðum þetta verkefni með glæsibrag.
    Það sem gerir þetta líka extra fagmannlegt er að við pössuðum vel að þeir kæmust ekki í fyrirgjafar stöður en þeirra fyrsta hornspyrna var á 93 mín en þetta hefur verið þeirra aðalsmerki að ná í hornspyrnur og nýta sér þær.

    Mörkin 

    Nunez  0-1    35 mín
    Mac Allister 0-2  55 mín
    Salah  0-3   68 mín
    Toney 1-3   75 mín
    Gakpo 1-4  85 mín

    Hvað gerðist helst markvert í leiknum?

    Við vorum meira með boltann og heilt yfir hættulegri en heimamenn elska föst leikatriði og voru að reyna að fiska aukaspyrnur í 90 mín og tókst það ágætlega hjá þeim.

    Eftir að Nunez kom okkur yfir með frábæru marki eftir góðan undirbúning frá Jota þá tókum við öll völdin á vellinum en það sem gerir mann extra pirraðan er að við misstum Jones og Jota í meiðsli sem gerði það að verkum að Klopp notaði tækifæri og tók Nunez út af í hálfleik því að við áttum bara eftir einn skiptingar valmöguleika í síðari hálfleik.

    Þetta var svo svipað í síðari hálfleik. Við byrjuðum af krafti og Salah slapp í gegn en slúttaði illa svo fengum við 3 á 2 tækifæri þar sem Gakpo gerði ekki nógu vel en þá var komið að flottri sendingu frá Salah á Mac Allister sem tók vel við boltanum og kláraði vel.

    Þetta var kærkomið mark og lét mann aðeins andan léttar og ekki leið manni verr þegar Salah skoraði á 68 mín og þá hélt maður að þetta væri bara komið.  Því að við héldum áfram að vera hættulegri og þeir virtust vera búnir en fótbolti er bara ekki svoleiðis.

    Toney skoraði á 75 mín og þá var komin smá líf í þetta aftur og hjartað fór aðeins að slá hraðar hjá manni því að maður vildi ekki láta þá skora aftur og gera þetta æsispennandi en Gakpo kláraði þetta svo undir lokin eftir varnarmistök hjá heimamönnum

    Þetta var frábær sigur hjá okkur

    Hvað réði úrslitum?

    Við erum einfaldlega betri en þeir í fótbolta og það sást alveg en það sást líka að það getur verið ótrúlega erfitt að mæta svona liði sem treystir á stórkalla fótbolta með föstum leikatriðum í sérflokki.
    Vendipunkturinn finnst mér samt vera mark númer 1. Því að fram að því þá leið heimamönnum vel að pakka í vörn og við vorum ekki mikið að ógna þeim. Svo skorum við og leikurinn breyttist og okkar strákum fór að líða betur inn á vellinum.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Mér fannst þetta frekar solid frammistaða hjá okkar strákum í dag. Bradley heldur áfram að heilla en varnarlínan virkaði nokkuð örugg. Miðjan stjórnaði þessu nokkuð vel og Nunez, Diaz, Jota, Gakpo og Salah fannst mér allir ógnandi. Svo má ekki gleyma að Kelleher stóð sig vel í markinu. Ég veit að þetta er smá endurtekning en mér langar að velja hinn unga Bradley sem mann leiksins. Þessi strákur er að heilla mann upp úr skónum. Er duglegur að taka þátt í sóknarleiknum og átti tvö hættuleg skot en líka grjótharður í varnarleiknum.
    Við þurfum ekki að kaupa okkur nýjan hægri bakvörð hann er nú þegar mætur á svæðið.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Ef við sættum okkur við að missa nokkra leikmenn í meiðsli í hverjum leik þá kannski ekki margt en ef menn eru að pirra sig á því þá er hræðilegt að missa Jones og Jota í meiðsli en þeir hafa verið tveir af okkar betri leikmönnum undanfarið og svo er spurning um hvort að Nunez er meiddur líka eftir að hafa verið skipt út af í hálfleik.

    Svo langar mig að koma einu frá mér en þarf alls ekki að endurspegla skoðun annarra á kop.is. Ég er ekki kominn á Gakpo vagninn. Skrítið að segja þetta eftir að hann lagði upp og skoraði (bæði mörkin eftir stór varnarmistök) í dag en mér finnst hann ekki í sömu gæðum og Salah, Nunez, Diaz og Jota en það er kannski bara ég.

    Hvað er framundan?

    Það er Luton á miðvikudaginn á Anfield þar sem krafan eru 3 stig en þau voru það svo sem líka í fyrri leiknum gegn þeim en þar fórum við aðeins með 1 stig til baka.

    YNWA 
    Ég elska þegar við vinnum hádegisleik og getur maður horft sultu slakur á Man city og Arsenal spila. Það er ólíklegt að þau tapa stigum en það má láta sig dreyma 🙂

    [...]
  • Liðið gegn Brentford

    Eins og orðrómurinn sagði þá er Alisson frá, og liðið annars nánast það sama og var spáð í upphitun nema að Salah byrjar á bekk og Díaz er í framlínunni:

    Bekkur: Adrian, Gomez, Quansah, Tsimikas, Gravenberch, Elliott, McConnell, Gakpo, Salah

    Þetta er lið sem á alveg að geta unnið, AÐ ÞVÍ GEFNU að menn mæti með hausinn rétt skrúfaðan á.

    3 stig í dag takk.

    KOMASO!!!

    [...]
  • Enn einn hel*!$&**)!!is hádegisleikurinn: Brentford á laugardaginn

    Það verður að teljast afskaplega jákvætt, að eftir næstum því viku pásu er aftur komið að Liverpool leik! Það neikvæða hins vegar er að leikurinn er fyrsti leikur helgarinnar, byrjar á hádegi og er á útivelli.

    En á móti kemur að liðið er að fá leikmenn til baka úr meiðslum, veikindum og leikbanni. Það er nú alltaf jákvætt. Það sem er EKKI jafn jákvætt er að nú segir ólyginn að Alisson hafi meiðst aftan á læri, og sé því frá næstu vikurnar. Þetta kemur ofan í fréttir af því að Trent og Szoboszlai séu báðir frá í næstu leikjum, kannski einhver smá séns að Ungverjinn nái leiknum á Wembley.

    Andstæðingarnir

    Þessi leikur á morgun fer eins og áður sagði fram á útivelli, nánar tiltekið á heimavelli Brentford. Þetta er einn af örfáum völlum þar sem Liverpool hefur ekki unnið sigur í efstu deild, en vissulega eru þetta ekki margir vellir. Fjöldi leikja í þessu úrtaki er nú ekkert sérstaklega mikill heldur, enda stutt síðan Brentford kom upp í efstu deild, haustið 2021 nánar tiltekið.

    Það var hinn danski Thomas Frank sem kom þeim loks upp í efstu deild, og hefur stýrt þeim síðan. Þetta hefur hann gert við það góðan orðstír að hann er talinn vera á lista yfir mögulega kandídata í stjórasæti Liverpool þegar Klopp lætur af störfum (nei það er ekki enn farið að venjast að þurfa að skrifa þetta). Allar slíkar tengingar og möguleikar fjúka út um gluggann þegar dómarinn flautar til leiks, og jafnvel þó svo hann sé búinn að skrifa undir hjá FSG (sem er hæpið), þá mun hann gera allt sem í sínu valdi stendur til að hirða stigin 3 á morgun.

    Brentford eru jú búnir að fá Ivan Toney til baka eftir að hann freistaðist til að taka þátt í einhverjum smá veðmálum (ekkert má núorðið), en gengið í deildinni í síðustu leikjum er búið að vera upp og ofan. Þeir unnu vissulega Úlfana á útivelli í síðasta leik, en töpuðu fyrir City í leiknum þar á undan, og töpuðu fyrir Spurs nokkrum dögum áður. Höfðu þar á undan unnið Forest 3-2 heima, og eru þá upptaldir leikirnir þeirra í deildinni á þessu ári. Síðasta ár kvöddu þeir hins vegar með því að tapa fyrir Palace á útivelli.

    Semsagt, erfiður andstæðingur, og ekkert gefið, en vel hægt að vinna þetta lið. Spyrjið bara Roy Hodgson.

    Leikurinn á Anfield í haust fór 3-0 sællar minningar, þar sem Salah skoraði 2 mörk og Jota eitt.

    Okkar menn

    Eins og áður sagði er meiðsladraugurinn enn að hrella okkur. Það myndu hvaða lið sem er sakna markvarðar eins og Alisson Becker, og það að hann hafi meiðst aftan í læri eru bara alls ekki góðar fréttir. Jújú, væntanlega var planið að Kelleher myndi spila úrslitaleikinn á Wembley hvort eð er, en núna þarf hann að taka leikinn á morgun, Luton í miðri viku, og svo væntanlega Southampton í vikunni eftir deildarbikarúrslitin. Adrian verður þá væntanlega varamarkvörður, og í Burnley leiknum þegar Alisson var meiddur voru bæði Adrian og Mrozek á bekk. Munum að Mrozek hefur aldrei spilað aðalliðsleik fyrir Liverpool. Einhver kann að spyrja “en hvað með Pitaluga?”. Jú hann er leikmaður Liverpool, en hann fór til Írlands á láni núna í janúar.

    Okkur til huggunar, þá var Alisson síðast frá í einhvern tíma haustið 2019. Hvernig gekk Liverpool það tímabil? Jú mig rámar í einhvern bikar sem fór á loft í lok þess tímabils…

    Rifjum líka upp að Kelleher átti a.m.k. tvær virkilega fínar vörslur í síðasta leik, þá einn á móti sóknarmanni, og svei mér þá ef hann er ekki að vaxa aðeins inn í hlutverkið eftir ósannfærandi frammistöður í haust. Ef hann ætlar einhverntímann að sanna sig, þá er þetta tækifærið. Gjörðu svo vel Kelleher minn.

    Liðið mun líka sakna Trent og Szoboszlai á morgun. Það var nú kannski nokkuð ljóst í Burnley leiknum að Trent var ekkert orðinn alveg heill, en sem betur fer fór Jones nokkuð létt með að slotta inn í hægri bak fyrir hann í seinni hálfleiknum. Conor Bradley er mættur til æfinga, og allar líkur á því að hann byrji þá á morgun, nýkominn með titilinn leikmaður mánaðarins. Restin af vörninni ætti þá væntanlega að velja sig sjálf.

    Miðjan er líka svona hérumbil sjálfvalin. Endo, Jones og Macca. Ekki hefur Gravenberch verið að heilla, Elliott kemur betur út sem supersub, og líklega væri það þá næst Bobby Clark sem kæmi inná, mögulega McConnell.

    Svo er það framlínan. Salah er mættur til baka, Jota var kjörinn leikmaður mánaðarins í einhverju kjörinu (þau eru ansi mörg er það ekki?) og erfitt að ganga fram hjá honum. Þá er það spurningin: hver þeirra Nunez, Díaz eða Gakpo byrjar? Minnstu líkurnar á að Hollendingurinn hljóti þann heiður, hann hefur einfaldlega ekki verið að sýna það mikið í síðustu leikjum, en hvort Díaz eða Nunez fær sénsinn verður bara að koma í ljós. Persónulega myndi ég vilja sjá Nunez, enda er það þannig að liðið tapar ekki leik þar sem hann byrjar.

    Semsagt, spáum þessu svona:

    Eins og meiðslalistinn er, hádegisleikur, og Coote í VAR herberginu (en Michael Oliver sem betur fer á flautunni), þá er það mjög einfalt að hvaða sigur sem er verður nóg. Og þetta er ekkert flókið: það bara má ekki misstíga sig í nokkrum einasta leik sem eftir er.

    3 stig á morgun, og ég myndi reyndar alveg þiggja að meiðslalistinn lengist ekki meira en orðið er.

    KOMA SVO!!!!!

    [...]
  • Stelpurnar mæta London City Lionesses í bikarnum

    Það er ekkert spilað í deildinni hjá stelpunum um þessa helgi, í þess stað er umferð í bikarnum. Okkar konur eru mættar til London og spila gegn London City Lionesses.

    Þetta er lið úr næstefstu deild, þannig að stelpurnar okkar mættu þeim fyrir tveim árum. Síðan þá hefur aðeins hallað undan fæti hjá Lundúnarstúlkunum, sem svo endaði með því að þjálfarinn var látinn fara núna í vikunni. Mögulega þurfum við því að glíma við endurnært lið með nýjum stjóra, við vitum öll hvaða áhrif slíkt getur haft. Hefur ekkert lið prófað að skipta bara um stjóra fyrir hvern leik? Það væri nú reynandi.

    Hjá andstæðingunum hittum við fyrir Jade Bailey sem áður spilaði með Liverpool (hún byrjar á bekk), nú og svo er Megan Campbell nýgengin í raðir þeirra eftir stutta viðkomu hjá Everton, en hún er “bikarbundin” (e. cup tied) og mun því ekki koma við sögu í dag.

    Okkar konur rótera örlítið, en þó er nokkuð greinilegt að Matt Beard vill annars vegar að liðið haldi rythma og svo langar hann líka að komast í 8 liða úrslit.

    Liðið sem byrjar lítur svona út:

    Laws

    Fisk – Fahey – Clark

    Parry – Nagano – Matthews

    Holland – Höbinger

    Lawley – Roman Haug

    Bekkur: Spencer, Bonner, Koivisto, Lundgaard, Kiernan, Enderby, van de Sanden, Daniels

    Teagan Micah er enn eitthvað hnjöskuð svo aftur þarf að sækja varamarkvörðinn í unglingaliðið. Taylor Hinds er sömuleiðis enn frá eftir að hafa meiðst á æfingu, og ekki ljóst hvar Missy Bo er. En það er klárt mál að liðið er vel skipað þegar kemur að framlínunni, og væri hægt að skipta fjórum framliggjandi leikmönnum inn ef þess þarf.

    Leikinn má sjá á The FA Player. Nú væri gaman ef bæði strákarnir og stelpurnar komist í 8 liða úrslit í FA bikarnum.

    KOMA SVO!!!!!

    [...]
  • Liverpool 3-1 Burnley

    Fyrir leikinn komst Man City tímabundið á toppinn með öruggum 2-0 sigri á duglausum Evertonmönnum. Eins voru alls 10 leikmenn fjarverandi úr leikmannahópi Liverpool, þar á meðal voru Alisson og Gomez veikir. Sá ellefti bættist síðan við í hálfleik þegar Trent Alexander Arnold þurfti að fara út af vegna meiðsla.

    Mörkin

    1-0 31.mínúta. Diogo Jota, stoðsending: Trent Alexander Arnold.

    1-1 45.mínúta. Dara O´Shea, stoðsending: Josh Brownhill.

    2-1 52.mínúta. Luis Diaz, stoðsending: Harvey Elliot.

    3-1 79.mínúta. Darwin Nunez, stoðsending: Harvey Elliot.

    Hvað gerðist helst markvert í leiknum?

    Liverpool byrjaði mjög rólega í leiknum. Fyrstu 10 mínúturnar þurfti Kelleher að verja tvisvar, þar af var annað færið hjá Burnley mjög gott. Smátt og smátt unnu Liverpool sig inn í leikinn. Þeir náðu þó ekki upp neinum sérstökum takti í leikinn, tvö langskot, föst leikatriði og slíkt án þess að ógna marki Burnley. Fyrsta mark leiksins skoraði Diogo Jota eftir frábæra hornspyrnu Trent Alexander Arnold og skógarhlaup James Trafford, þar sem hann fór í úthlaup en lenti á samherja sínum. Jota að vanda réttur maður á réttum stað og skallaði í tómt markið. Jöfnunarmark Burnley kom síðan á 45. mínútu, líka eftir horn, skalli af löngu færi, verulegt klúður í dekkningunni.

    Í hálfleik þurfti Trent Alexander Arnold að fara út af og leikmannahópurinn er orðinn það þunnur að Curtis jones fór í bakvörðinn. Það gekk þó alls ekki illa því seinni hálfleikur hófst eins og maður hefði viljað að leikurinn hefði byrjað. Pressan var algjör og á 52. mínútu skoraði Luis Diaz eftir nokkuð þunga sókn og snyrtilega stoðsendingu frá Harvey Elliot sem tók auðvitað óratíma að skoða í VAR.

    Í hönd fór mjög fjörugur leikhluti, bæði lið fengu ágætis færi, mikill hraði og fjör sem endaði á 79. mínútu með fallegu marki frá Darwin Nunez eftir aðra stoðsendingu frá Harvey Elliot. Síðan dó leikurinn nokkurn veginn út, nokkur áhlaup frá Liverpool en allur vindur var úr Burnley.

    Hvað réði úrslitum?

    Heitir framherjar. Hávær og loksins stútfullur Anfield. Gott lið Liverpool og góðir þjálfarar sem lögðu leikinn vel upp.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Þeir sem þurftu að stíga upp. Jones í hægri bakvörðinn. Jota, Diaz og Nunez með mörkin. Robertson að koma inn eftir meiðsli. Endo með fyrsta leikinn í mánuð. Kelleher með mikilvæga vörslu í byrjun leiks og aðra í seinni hálfleik. Ellito með tvær stoðsendingar. Maður er orðinn svo vanur Quansah að hann gleymist í svona upptalningu, gerði reyndar slæm mistök sem kostuðu sem betur fer ekki neitt. Aðrir að mestu á pari, dómarinn meira að segja líka.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Halda hreinu. Byrja betur. Klára leikinn fyrr. Ekki missa Trent í meiðsli. Burnley eru ekki einhverjir stórmeistarar, við eigum bara að sigla örugglega í gegnum þá, ekki að halda okkur í spennitreyju í 80. mínútur.

    Hvað er framundan?

    Toppsætið er okkar. Vikupása, aðra vikuna í röð. Brentford á næstu helgi. Áframhaldandi toppbarátta þar sem hvert einasta misstig á eftir að skipta máli. Vonandi nokkrir af lykilmönnunum okkar að koma til baka. Þessi þrjú stig sem höfðust í pokann í dag verða jafnmikilvæg og öll önnur þegar upp verður staðið.

    [...]
  • Upphitun fyrir Burnley á Anfield – Metáhorfendafjöldi á morgun!

    Það er orðin smá stund síðan Liverpool fengu heila vinnuviku á milli leggja og líka ansi langt síðan liðið spilaði á „klassíska“ leiktímanum, það er að segja klukkan þrjú á laugardegi. Áratugum saman var þetta eini leiktíminn í ensku deildinni eins og víðar. Bretar ríghalda enn þá í að þessir leikir séu ekki sýndir svo Úrvalsdeidin keppi ekki við neðri deildirnar.

    Hvað um það, Liverpool eru að fá heimsókn frá Burnley. Liðið sem slátraði B-deildinni í fyrra hefur gengið brösulega í vetur og töfrar Vincent Kompany hafa tapað krafti sínum. Andlega virðist liðið vera svo gott sem fallið, sjö stigum frá öruggu sæti og sex stigum á eftir Everton… sem eru búnir að missa stig vegna fjárlagabrota. Hvernig sem á það er litið eru Burnley á vondum stað. En okkar menn voru ekki beint stórfenglegir í síðasta leik og særð dýr eru hættulegust.

    Andstæðingurinn –  Burnley.

    Eins og áður sagði þá eru Burnley með bakið upp við vegg í deildinni. Þeir söfnuðu yfir hundrað stigum í B-deildinni með því að spila flæðandi fótbolta. Gallinn er að þeir eru einfaldlega ekki með gæði í hópnum til að spila þannig bolta í deildinni. Þetta er kannski enn ein vísbænding að bilið milli þessara deilda stækkar með hverju árinu.

    Eftir því sem liðið hefur á hefur Kompany reynt ýmsar leiðir til að lífka upp á spilamennskuna en ekkert hefur gengið. Stærsta vandamál liðsins er varnarleikurinn. Það er ekki líklegt til árangurs í fótbolta að fá á sig að meðaltali tvö mörk í leik. Þeim mun verra þegar liðið er í botnbaráttu. Þeim mun verra þegar liðið er með næst lægsta fjölda marka skoraðra í deildinni.

    How Vincent Kompany turned Burnley from route one merchants to entertainers

    Það skrýtna við þetta er að Kompany hefur sloppið ótrúlega vel við gagnrýni. Á meðan endalaust er rætt um Poch og Ten Hag og Sheffield hefur þegar losað sig við stjórann. Stuðningsmenn Burnley eru hægt og rólega að missa þolinmæðina en fjölmiðlar hafa lítið fjallað um starf Vincents. Hverjum hefði dottið í hug að í byrjun febrúar myndi Burnley-liðar horfa öfundaraugum til Luton?

     

    Okkar menn.

    Tapið gegn Arsenal sveið alveg svakalega. Hægt er að telja upp margar ástæður fyrir tapinu, en líklega sú stærsta var að Arsenal voru ferskir og okkar menn eru búnir að spila of mikið á of stuttum tíma. Kannski hefðu Liverpool fundið sigur ef þeir hefðu verið að spila gegn verra liði. En svo var ekki.

    Það er frábært að liðið hafi fengið fimm daga á milli leikjana við Arsenal og Burnley. Enga síður bættist Thiago við meiðslalista vikurnar. Kannski voru þessar tíu mínútur gegn Arsenal hans síðustu í rauðu treyjunni, geggjaður leikmaður sem hefur einfaldlega ekki skrokkinn þessa deild eða þennan fótbolta leikur.

    Liverpool's Wataru Endo admits mixed feelings over Asian Cup departure | Liverpool | The Guardian
    Velkomin heim vinur!

    Hann bætist því á lista sem inniheldur Salah, Szoboszlai, Tsimikas, Doak, Matip, Bajcetic og kannski Nunez. Þar að auki er Konate í banni. Bilað dæmi. En hópurinn er þó nógu stór til að við getum teflt fram liði sem á að sigra Burnley. Bradely kemur ekki til greina, en hann fær þann tíma sem hann þarf til að jafna sig á fráfalli föður síns.

    Ég spái því að Trent og Robertson byrji báðir ásamt Van Dijk. Það verður afar áhugavert að sjá hver verður í hafsentinum með Van Dijk, Quansah er búin að vera geggjaður en Gomez hefur það líka og hafsent er hans nátturulega staða á vellinum. Held að Klopp freistist til að reyna að endurvekja samstarf Virgil og Gomez frá fyrri árum.

    Endo kom aftur á æfingasvæðið í byrjun vikurnar og er víst orðin hress eftir ferðalagið. Hann kemur beint aftur í byrjun liðið með MacAllister og Jones fyrir framan sig. Nunez kom inn á gegn Arsenal en var skugginn af sjálfum sér. Ég held að hann byrji ekki þennan leik en komi snemma inná. Gakpo verður frammi, Jota hægra megin og Diaz vinstra megin. Sem sagt svona:

    Þess þarf þó að geta að slúðrið segir að mikil veikindi séu í hóp Liverpool þannig að þetta gæti endað í einhverju furðulegu.

    Spá.

    Í vikunni var það tilkynnt að búið er að greiða fyrir opnun nánast allrar nýju stúkunar. Þetta verður því metleikur og leikmenn verða ferskir eftir lengstu sína  og Liverpool kemur til með að fagna með því að rústa þessu glataða Burnley liði. 5-0 fyrir Liverpool.

    Megi jinx guðirnir fyrirgefa mér þennan spádóm.

    [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close