íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

Latest stories

 • Man City 2 – 1 Liverpool

  Mörkin

  1-0   Aguero 40. mín
  1-1   Firmino 64. mín
  2-1   Sane 72. mín

  Leikurinn

  City stillti upp í afar sókndjarfa uppstillingu og það var afar eðlilegt miðað við mikilvægi leiksins fyrir þá. Sigur var þörf og jafntefli væri í raun sigur fyrir Liverpool. Að sama skapi var Klopp varkár og ekki mikið út á það að setja af sömu ástæðum. Í takt við taktíkina þá pressuðu City hátt og sýndi mikinn vilja í byrjun leiks. Liverpool héldu kúlinu og gerðu sitt besta til að spila sinn bolta á yfirvegaðan hátt en pressan var öflug og mikið af töpuðum boltum var niðurstaðan.

  Liverpool veðraði af sér þennan byrjunarstorm og fengu fyrsta alvöru færi leiksins. Glæsilegt samspil og færsla upp völlinn endaði með færi fyrir Mané í teignum. Skot hans endaði í stönginni innanverðri, skaust út í teiginn og endaði með undarlegri hreinsun Stone í Ederson. Boltinn skaust í átt að marki og fyrir öllum Púlurum var boltinn inni en marklínutæknin dæmdi boltann 1,12 cm á línunni. Ekkert mark en væri áhugavert að vita hvort að tæknin sé fullkomlega fullkomin eða hvort að einhver skekkjumörk séu til.

  Lovren henti í eina góða tæklingu og gult spjald meðan að Kompany gerði gott tilkall með tveggja fóta tæklingu á Salah í rautt en slapp með gult. Wijnaldum fékk einnig að sjá gult fyrir tittlingaskít þannig að dómgæslan var ekki alveg í samræmi. Þegar fór að líða að hálfleik sóttu City hart og eftir ágæta vörn til að byrja með fór boltinn á þeirra vinstri væng. Bernardo Silva tókst að koma boltanum á Aguero í teignum sem í litlu plássi tókst að smyrja boltanum upp í nær vinkilinn. Slæmt mál eftir að hafa haldið aftur af City í færum fram að þessu.

  1-0 í hálfleik

  Seinni hálfleikur byrjaði á sama máta með City að pressa og þeir voru að leggja líf og sál í þennan leik meðan að Liverpool var ekki að ná að spila sinn leik. Vonin var að með tíð og tíma myndi krafturinn þverra sem heimamenn lögðu í leikinn en í upphafi hálfleiks var það ekki að sjá. Liverpool fóru þó að ná að spila boltanum ögn betur á milli sín en slakar sendingar höfðu verið lenskan í fyrri hálfleiknum. Fabinho kom snemma inn fyrir Milner sem var augljóslega ekki í 100% standi og uppspilið skánaði þó að enn væru sendingarnar mistækar. Á 64.mín sendi Trent fallega sendingu á Robertson sem vippaði boltanum snyrtilega á silfurfati fyrir Firmino sem kláraði snyrtilega í netið. Jafn leikur og flott staða fyrir Liverpool miðað við leikstöðuna.

  Beint eftir markið skiptu City David Silva út fyrir Gundogan til að styrkja miðjuna. Liverpool áttu sinn besta sprett eftir þetta og virtust vera að stýra leiknum og ná tökum á spilinu. Adam var þó ekki lengi í paradís þar sem að á 70.mín keyrði City enn upp vinstri vænginn og tókst að losa Sané í teignum sem sendi fullkomið skot í gegnum Trent sem fór stöngin inn. Bölvaður bömmer og City fengu öfluga adrenalín-sprautu við þetta mark þegar þeir voru að byrja að missa trú á verkefninu.

  Liverpool henti í nokkrar skiptingar eftir þetta en komust ekki í almennileg opin færi þrátt fyrir stöku vandræðagang á Edilson og vörninni. City fengu hins vegar stórhættulegt færi þegar að Alisson varði glæsilega í úthlaupi gegn Aguero. Á endanum fjaraði leikurinn pirrandi út án þess að okkar menn gerðu nokkuð markvert til að ógna markinu í lokin.

  Bestu leikmenn Liverpool

  Að mínu mati var Robertson langbesti leikmaður liðsins í kvöld. Hafði í nógu að snúast en var samt út um allt og aldrei hræddur við að fá boltann eða að verjast hraustlega. Lagði upp markið og var almennt flottur í sínu framlagi. Van Dijk var flottur að vanda en það er varla hægt að segja að fleiri en þeir tveir hafi risið yfir meðalmennskuna í kvöld.

  Vondur dagur

  Allir púlarar, leikmenn sem áhangendur, áttu slæman dag í dag þar sem að þetta var gríðarlega mikið tækifæri til að leggja grundvöll að góðu forskoti á toppnum. Auðvitað er enginn titill búinn við þetta enda erum við á toppnum með 4 stig í forskot en jákvæð úrslit í kvöld hefðu gefið okkur öflugan grunn til að byggja á og sent skilaboð til meistaranna og annarra liða í deildinni.

  Það voru nokkrir leikmenn LFC sem ströggluðu í kvöld. Salah var ekki upp á sitt besta og var týndur á löngum köflum og í raun var framlínuþrennan ekkert spes þrátt fyrir að Firmino hafi sett sitt mark. Margir voru ósáttir við varnarsinnaða miðjuuppstillingu en á móti hefði mátt segja að við hefðum geta fengið á okkur mun fleiri mörk í fyrri hálfleik með sókndjarfari uppstillingu frá byrjun.

  En versta kvöldið átti Trent Alexander-Arnold sem hefur verið sérlegur dragbítur á liðinu á erfiðum útivöllum á þessu tímabili. Átti sitt framlag í markinu okkar en var oft á tíðum eins og nýliði sem gerði skelfileg mistök í sendingum, staðsetningum og ákvörðunum. Það var engin tilviljun að bæði mörk City komu hans megin og þetta er veikleiki sem er erfitt að réttlæta. Ef að Klopp hefði virkilega viljað mæta í leikinn varkár þá á hann ekki að spila TAA í bakverðinum því að honum er ekki treystandi þar.

  Umræðan

  Þetta er klárlega stigalegur og andlegur sigur fyrir City. Framhjá því verður ekkert horft og annað er afneitun. En ef okkur hefði í byrjun desember verið boðið 4 stiga forskot eftir þetta gríðarlega erfiða leikjaplan þá hefðum við étið þá hendi upp að öxlum. Þetta er frábær staða fyrir okkur þó að við höfum fengið högg á kjaftinn og draumurinn um taplaust tímabil jarðað. Við erum settir aftur á jörðina og það er ekkert það versta í heimi. Stóra spurningin er hvernig liðið og Klopp bregðast við þessu kjaftshöggi. Böns af sigrum í vinnanlegum deildarleikjum væri stórfínt en við vitum að þetta er brjáluð deild þar sem allt getur gerst í hvaða leik sem er. Eigum núna tvo útileiki til viðbótar, annan í bikar og hinn í deild, þannig að álagið heldur áfram. Það sem var þó sorglegt í kvöld var að City vildu vinna þennan leik meira en við og þeir unnu fyrir því á endanum. Þeir sýndu meira sigurvilja. Það má ekki gerast aftur en sem betur er City besta liðið sem við munum mæta á þessu tímabili þannig að illu er best af lokið. En ég hef ekkert meira að segja á kvöldi vonbrigða og held því kjafti.

  YNWA

 • Byrjunarliðið gegn Man City á Etihad

   

  Stóru leikdagarnir hafa verið margir hjá Liverpool síðustu mánuðina í hinum ýmsu keppnum nær og fjær. En í kvöld og í þessum einstaka RISAleik verður borið á borð fyrir okkur ein stærsta hátíðarmáltíð sem snædd hefur verið í langan tíma og þótt langt væri aftur leitað. Liverpool með hraustlegt forskot á toppnum mætir Englandsmeisturunum á þeirra velli í Manchester. Liðin sem háðu epíska rimmu í Meistaradeildinni síðasta vor sælla minninga mætast að nýju!

  Er hægt að éta deildartitilinn í fyrsta bita janúarmánaðar? Hvor vinnur í sjómann og störukeppni: Guardiola eða Klopp? Er Liverpool betri borg en Manchester (svarið við því er reyndar já)? Er Sterling svikari eða Júdas? Er ljósblátt ljótur litur? Hversu mikið verður forskot Liverpool á toppnum kl.22:00?

  Öllum þessum RISAstóru spurningum gæti verið svarað á næstu klukkustundum. Eða ekki?

  Í það minnsta er skjálftavirknin út af þessum RISAleik að skekja alla fótboltaáhugamenn þannig að hver einn og einasti er farinn að tvista í algleymi. Þetta verður epískt! Þetta verður magnþrungið! Gæti verið sætt, en gæti verið sóðalegt líka.

  En til þess að leikir geti verið spilaðir þurfa snillingarnir sem stýra liðunum að sýna sín spil. Í tvöföldu blöffi með áherslu á lauf og spaða leggur Klopp fram úrvals ása, gosa og kónga í sinni uppstillingu:

  Bekkurinn: Mignolet, Fabinho, Keita, Moreno, Sturridge, Lallana, Shaqiri.

  Sterk uppstilling eins og við mátti búast en mest var beðið eftir því hvernig Klopp myndi stilla upp miðjunni. Vinnslan er í fyrirrúmi og reynsla í stórleikjum. Fátt við þetta að athuga þannig séð en margir áhugaverðir valkostir til að breyta leiknum af bekknum.

  Guardiola er hættur að ofanda og ofhugsa um að mæta Liverpool og hefur stillt upp sínu Englandsmeistaraliði svona:

  Afar sóknarsinnuð uppstillingu hjá Guardiola þannig að það verður blásið í sóknarlúðra frá byrjun. Þetta verður áhugavert og allt á suðupunkti þegar að leikur hefst!

  Höldum nú niður í okkur andanum, teljum niður í leikinn á þýsku fyrir vin okkar Jürgen og Rammstein-rokkum þennan RISAleik í algert ógleymi!

  Eins, zwei, drei, vier, fünf, sechs, sieben, acht, neun, ZEHN!

  Come on you REDS! Forza Liverpool!

  Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


   

 • Gullkastið – Rock & Roll

  Það var boðið upp á rokk og ról gegn Arsenal en það var auðvitað bara upphitun fyrir aðra og stærri tónleika gegn Man City.

  Biðjumst velvirðingar á slæmu sambandi við Magga, hann var staddur í Stockport og þeir eru bara nýkomnir með internetið.

  00:00 – Intro – Maggi í Liverpool og jólagjöf frá Wolves
  06:35 – Liverpool vann desember
  10:35 – Arsenal
  29:45 – Janúarglugginn – Coutinho og Stjáni Pulicic
  38:15 – Guardiola og Klopp í bullandi sálfræði
  43:10 – Stærsti leikur í sögu Liverpool?
  47:30 – Samanburður á liðunum

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  MP3: Þáttur 221

  (meira…)

 • Upphitun: Stórleikur á Etihad á fimmtudaginn

  Á fimmtudagskvöldið munu núverandi og vonandi fráfarandi meistarar Manchester City bjóða áskorendurna í Liverpool í heimsókn í leik sem mun gefa mikla innsýn í toppbaráttunna þetta árið. Eins og stendur hefur Liverpool sjö stiga forskot á Man City og gæti því aukið það í tíu stig, eða misst það niður í fjögur. Eftir leikinn verða sautján umferðir eftir og því alveg ljóst að með tíu stiga forustu ertu ekki öruggur að sigra deildina en miðað við hversu fáa veikleika Liverpool liðið okkar hefur sýnt á þessu tímabili væri það orðið ansi líklegt að ég fengi að sjá liðið lyfta sínum fyrsta Englandsmeistaratitli frá því ég var tveggja mánaða gamall!

  Ég missti því miður af leiknum gegn Arsenal eftir að hafa keypt mér miða á Áramótaskop Ara Eldjárn án þess að skoða leikjaplan liðsins og blótaði sjálfum mér í hljóði þann daginn. Þegar stutt var búið af sýningunni leit ég á símann og las 1-0 fyrir Arsenal, í aðeins verra skapi en þó frekar glaðlyndur enda showið fínt setti ég símann í vasan og fann nokkra titringa á næstu mínútum hélt að það væru bara kop-verjar að kvarta undan því að hafa lennt undir þar til ég sá manninn í sætaröðinni fyrir framan mig horfa á Sadio Mané skora sitt mark. Þá reif ég upp eigin síma og hélt að þetta væri jöfnunarmark bara til að sjá að staðan var orðinn 3-1 Liverpool í vil. Þrátt fyrir að Ari hafi verið góður fyrir þá ég ég sagt ykkur það að hann var enn betri eftir að ég komst að því að Liverpool var að vinna.

  Með sigrinum gegn Arsenal varð Liverpool níunda liðið í sögu efstu deildar á Englandi að vera ósigrað eftir tuttugu leiki en sjö af þeim átta liðum sem hafa áður náð þeim áfánga enduðu á að sigra deildina. Aðeins Sheffield United mistókst það, tímabilið 1899-1900. Hinsvegar má ekki gleyma hversu stórkostlegt City-liðið það er sem við erum í samkeppni við og Tottenham skammt undan ef menn ætla eitthvað að fara mistíga sig harkalega.

  Fyrir leikinn í vikunni er lítið af frétta af meiðslalistanum hjá okkar mönnum, þó er þetta skrifað fyrir blaðamannafund Klopp svo það gætu orðið breytingar á því í fyrramálið. Alex Oxlade-Chamberlain situr þar sem fastast, en fengum hinsvegar góðar fréttir af honum á dögunum þar sem hann er mættur aftur til æfinga og gætum átt von á honum fyrr en áætlað var. Auk hans eru miðverðirnir Gomez og Matip enn meiddir en er von á báðum um miðjan eða í lok þessa mánaðar. Að lokum er James Milner enn eitthvað tæpur en ég er frekar viss um að hann muni vera í hóp á fimmtudag. Alberto Moreno er einnig búinn að jafna sig á bakmeiðslum en ég yrði hissa að sjá hann í hóp.

  Alisson

  Alexander-Arnold – Lovren – Virgil – Robertson

  Henderson -Fabinho – Wijnaldum

  Firmino
  Salah – Mané

  Svona myndi ég skjóta á okkar lið, aðeins ein breyting frá því í Arsenal leiknum þar sem Shaqiri myndi detta út úr liðinu fyrir Henderson. Gæti mögulega séð hann fórna Fabinho fyrir Henderson og halda Shaqiri til að sækja hart á City en gæti verið að hrifning mín á Shaqiri spili þar stóra rullu. Held að hann fari aftur í 4-3-3 leikkerfið þó með Firmino aðeins aftar, líkt og hann hefur spilað á þessu tímabili og mikill hreyfanleiki á fremstu þremur. Bæði Guardiola og Aguero hafa talað um það fyrir leikinn að þeir þurfi að spila sinn bolta og vonast til að hafa nóg til að vinna Liveprool þannig ég býst ekki við að við sjáum Guardiola reyna að loka jafn mikið á leik Liverpool og í útileiknum fyrr á tímabilinu þó þeir vilji væntanlega ekki heldur hafa leikina jafn opna og á síðasta tímabili því tel ég að leikurinn muni mikið til vinnast á baráttunni á miðsvæðinu og því held ég að hann fari í þrjár vélar á miðjuna til að reyna tryggja sigurinn þar.

  Liverpool hefur líka haft ágætis tak á City undanfarinn ár. Höfum aðeins einu sinni tapað gegn þeim í venjulegum leiktíma síðan Klopp tók við en það var einmitt í útileiknum á síðasta ári þar sem Mané fékk rautt og við töpuðum 5-0. Mo Salah hefur heldur ekkert leiðst að spila gegn þeim en hann hefur skorað þrjú mörk og lagt upp tvö í fimm leikjum gegn Man City og kemur funheitur inn í þennan leik með mark og stoðsendingu í síðustu þremur deildarleikjum. Það gæti því farið aðeins um himinnbláliða ef við byrjum vel og er Bernardo Silva þegar farinn að tala um leikinn sem algjöran must-win leik fyrir sína menn.

  City menn eiga í ákveðnum vandræðum fyrir leik. Vörninn þeirra hefur lekið gríðarlega undanfarnar vikur en þeir hafa ekki haldið hreinu í deildinni síðan 24. nóvember gegn West Ham og ofan á það eru tveir fyrstu menn á blað í vinstri bakvarða stöðuna ekki að fara spila í þessum leik. Benjamin Mendy er meiddur og Fabian Delph í leikbanni. Guardiola hefur þrjá valmöguleika úkraínumaðurinn Oleksandr Zinchenko spilaði þar í síðasta leik en hefur ekki fengið traustið í stærri leikjunum, Aymeric LaPorte hefur leyst af í bakverðinum í hallæri en hefur verið stoðinn í miðverðinum á þessu tímabili og yrði líklega sárt að læra hann yfir. Síðasti kosturinn væri að Danillo myndi fara yfir vinstra megin og Kyle Walker kæmi inn hægra meginn, sem mun líklegast gerast hvort sem Danillo spilar eða ekki.

  Auk þess er ólíklegt að De Bruyne eða Gundogan verði í byrjunarliðinu með vegna meiðsla en báðir mögulega með í hópnum, þá sérstaklega Gundogan sem var lítillega meiddur en De Bruyne að koma aftur eftir erfið meiðsli og ég sé þá ekki taka áhættuna nema þeir séu 100% á því að hann sé fit.

  Ederson

  Walker – Stones – Laporte – Danillo

  Fernandinho
  D. Silva – B.Silva

  Sterling – Agureo – Sane

  Vissulega mjög sterkt lið, en það er okkar líka. Á erfitt með að spá fyrir um þennan leik en ég held að hann verði mun skemmtilegri en fyrri leikur liðanna, sem ég einmitt hitaði líka upp fyrir og spáði Liveprool þar 3-2 sigri. Þegar ég byrjaði á þessari upphitun ætlaði ég að spá jafntefli en ég er að verða bjartsýnni með hverri mínútunni og ætla spá okkur 2-1 sigri í bráðskemmtilegum leik þar sem mikið mun mæða á miðjumönnum beggja liða en Mo Salah og Bobby Firmino klára leikinn fyrir okkar menn og setja formlega fyrsta fingurinn á titilinn.

 • Gleðilegt ár 2019

  Við félagarnir á Kop.is viljum óska lesendum og hlustendum síðunnar gleðilegs nýs árs og þakka fyrir árið sem er að líða. Síðan sjálf hefur átt öflugt ár en Liverpool spilaði 53 leiki árið 2018 með tilheyrandi vinnu í kringum hvern leik. Podcastið heldur áfram að vaxa og reynum við nú að miða við vikulega þætti. Þökkum sérstaklega fjölmörgum góðum gestum okkar í þeim þáttum árið 2018. Hópferðir hafa heppnast vel og verður vonandi áframhald á því á næsta ári. Kjölfestan er þó að sjálfsögðu þið sem nennið að lesa síðuna, hlusta á þættina og koma með okkur út til Liverpool.

  Liverpool hefur sjaldan eða aldrei spilað betur en liðið var að gera árið 2018 og verður þetta ár vonandi grunnurinn að frekari árangri þessa liðs sem Jurgen Klopp er að setja saman með Edwards og nördunum sem vinna með þeim. Okkar nördar voru betri en nördar annarra liða á þessu ári sem er að skila sér í líklega bestu leikmannakaupum Liverpool síðan 1987. Eini risastóri mínusinn var í Kiev en ferðalagið þangað staðfesti endurkomu Liverpool á stóra sviðið og það er góður áfangasigur í bili.

  Það er jafnan svo mikið álag á þessum árstíma að við náum ekki að gera árið upp almennilega enda tímatalið í fótboltanum frá ágúst – maí. Höldum þó í hefðir og gerum þetta aðeins upp.

  Þetta uppgjör endurspeglar aðeins mínar (EMK) skoðanir.

  Besti leikur ársins 2018:

  a) Liverpool – Man City 3-0 (2017/18)
  Þetta voru ofboðslega sterk skilaboð gegn liði sem hafði verið allt að því ósigrandi fram að þessum leik. Það var mikið gert grín af stuðningsmönnum Liverpool fyrir að tala upp Evrópukvöldin á Anfield og fóru stuðningsmenn Man City sérstaklega mikinn í þeirri umræðu, jafnvel leikmenn líka. Það var ekki nokkur maður að tala á þeim nótum eftir leik. Evrópukvöldin víðfrægu komu loksins aftur þetta kvöld.

  b) Liverpool – Roma 5-2 (2017/18)
  Að komast í 5-0 eftir rúmlega klukkutíma í undanúrslitum Meistaradeildarinnar er ekkert eðlilegt þó að Liverpool liðið hafi gert slíkar tölur nokkuð hversdagslegar á síðasta tímabili. Roma svaraði þessu vel en þetta var rosalegt kvöld á Anfield.

  c) Liverpool – Man City 4-3 (2017/18)
  Algjörlega sturlaður leikur hjá okkar mönnum og 4-3 fegra gang leiksins mjög fyrir Man City. Frábært svar við 5-0 skellnum nokkrum mánuðum áður og fyrsta tap Man City á síðasta tímabili. Væri rankaður hærra ef það hefði verið jafn mikið undir í þessum leik og í Meistaradeildinni en City var pretty much búið að vinna mótið þó þessi leikur hafi farið fram um miðjan janúar.

  Lélegasti leikur ársins 2018:

  a) Real Madríd – Liverpool 3-1 (2017/18)
  Því miður féll ekkert með okkur í þessari lokahindrun og lítil sem engin breidd kom illa í bakið á okkur. Hvort sem Karius fékk heilahristing eða ekki þá spilaði hann eins og hann væri vankaður en stóra atvikið var að missa Salah af velli vegna ótrúlegra fantabragða Ramos. Með hann inná allan leikinn held ég að Real hefði ekki dugað þessi þrjú mörk sem þeir skoruðu. Hrikalega sorglegur endir á frábæru ferðalagi í úrslitin.
  b) Roma – Liverpool 4-2
  Það var komin þreyta í Liverpool liðið í maí og með ólíkindum að þetta einvígi hafi ekki verið búið í stöðinni 5-0 seint í síðari hálfleik á Anfield. Frammistaðan gegn Roma var verri en gegn Real Madríd en dettur í annað sæti hjá mér af augljósum ástæðum.

  c) Swansea – Liverpool 1-0 (2017/18)
  Rosalega vont tap gegn liði sem féll um vorið strax í kjölfarið á 4-3 sigri á Man City. 2-3 tap gegn WBA í FA Cup í næsta leik á eftir kom líka til greina.

  Tap gegn Napoli og Red Star Belgrade eru einu leikirnir sem koma til greina á þessu ári.

  Bestu leikmannakaupin 2018:

  a) Van Dijk
  Besti miðvörður sem ég hef séð spila fyrir Liverpool. Haldi hann áfram að spila fyrir Liverpool eins og hann hefur gert á þessu ári er stutt í titla. Tala ekki um ef hann vær stöðugan partner í t.d. Joe Gomez. Ekki bara frábær leikmaður og leiðtogi heldur lyftir hann leik samherja sinna einnig.

  b) Alisson
  Líklega vantaði okkur markmann í þessum gæðaflokki meira en miðvörð. Þetta er ekkert flókið það hefur engin markmaður byrjað ferilinn svona vel hjá Liverpool og það er engin tilviljun. Innkoma hans virkar líka svipað áhrifamikil og þegar Jesús breytti vatni í vín í fyrsta skipti þegar við berum hann saman við fimm ár af Simon Mignolet og svo Karius en síðasti alvöru leikur hans fyrir félagið er versti leikur sem markmaður hefur átt hjá Liverpool.

  c) Fabinho
  Eins mikið og ég fíla Shaqiri í botn þá vantaði okkur miklu meira svona miðjumann og Fabinho er byrjaður að sína hvað hann kemur með inn í þetta Liverpool lið.

  Shaqiri hefur komið frábærlega inn og ég átta mig á að margir setja hann ofar en Fabinho, kaupverðið á honum er svipað galið og sú staðreynd að hann var í Stoke í þrjú ár. Þarna vantar svo alveg Naby Keita sem við biðum eftir í eitt ár. Ég held ennþá að hann geti orðið bestur af öllum miðjumönnunum okkar.

  Besti leikmaður Liverpool árið 2018:

  a) Van Dijk
  Hann er mikilvægasti leikmaður Liverpool og innkoma hans hefur verið með ólíkindum. Varnarleikur liðsins var búinn að vera í tómu tjórni í áratug áður en Van Dijk mætti og gerði vörn Liverpool að þeirri bestu í Evrópu.

  b) Mo Salah
  Erfitt að bera saman Van Dijk og Salah og það að skora mörk er vissulega það erfiðasta í fótbolta. Það er ekki tilviljun að Salah er tilnefndur til allra verðlauna sem í boði eru.

  c) Bobby Firmino
  Firmino var frábær í Meistaradeildinni á þessu ári sem og auðvitað deildinni. Held að hann sé ennþá vanmetin fyrir utan Liverpool.

  Mestu vonbrigðin 2018:

  a) Það er bara eitt sem kemur til greina hérna. Því miður og þvílík vonbrigði. Þetta lið átti skilið að vinna Meistaradeildina.

  b) Meiðsli Ox-Chamberlain
  Hann er ekkert besti miðjumaður í sögu Liverpool neitt en meiðsli hans höfðu gríðarleg áhrif og Klopp var ekki með leikmann til að fylla hans skarð fyrr en núna undanfarið að Shaq hefur verið að koma sterkur inn. Hann fyllti skarð Coutinho og var að spila sinn besta fótbolta á ferlinum er hann meiddist. Hans var klárlega saknað í útileiknum gegn Roma og sérstaklega í Kiev. Framan af þessu tímabili var ennþá verið að tala um fjarveru Ox en liðið er loksins farið að finna aðrar lausnir.

  c) Salan á Coutinho
  Ég vildi alls ekki selja hann og Liverpool ætlaði að kaupa Van Dijk sumarið áður þannig að kaupin á honum tengdust Coutinho ekkert. Liverpool saknaði hans klárlega í lokaleik tímabilsins. Eins var framkoma hans bara töluverð vonbrigði og manni fannst Liverpool eiga betra skilið frá honum, sérstaklega þegar liðið var loksins komið með frábært lið, engu síðra en lið Barca. Aðalástæðan fyrir því að hann kemst á þennan lista er samt sú að það var bara ekkert margt annað sem kom til greina, Þetta var frábært ár fyrir utan leikinn í Kiev.

  Hvað stendur upp úr árið 2018:

  a) Liverpool er komið aftur.
  Byrjun þessa tímabils stendur klárlega uppúr enda fagnar Liverpool nýju ári með sjö stiga forskot á toppnum og í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Liverpool er aftur komið í umræðuna um bestu liði í heimi og það eru ef eitthvað er allir aðrir en stuðningsmenn Liverpool sem leiða þá umræðu.

  b) Meistaradeildin
  Hápunktur í sömu færslu fyrir árið 2017 var Meistaradeildarsætið. Liverpool á auðvitað alltaf að vera í Meistaradeildinni og sýndi það í fyrra. Ferðalagið í úrslitaleikinn var klárlega einn af hápunktum síðasta árs. Persónulega voru ferðir til Porto og svo til Liverpool á Roma leikinn með þeim betri sem ég hef farið á fótboltaleiki.

  c) Leikmannakaup
  Jurgen Klopp og Michael Edwards er besta tvíeyki sem Liverpool hefur átt þegar kemur að leikmannakaupum síðan Bob Paisley var með Geoff Twentyman. Árið 2017 var frábært á leikmannamarkaðnum og í raun með ólíkindum að þeir hafi toppað það árið 2018. Guð minn góður ef 2019 verður ennþá betra!

  Stutt spá fyrir 2019:

  Næsta ár en jafnan okkar ár segir máltækið…

  Liverpool hefur undanfarin ár verið í öðru sæti í Deildarbikarnum, FA Cup, Evrópudeildinni, Meistaradeildinni og Úrvalsdeildinni. Hluti af þessu liði hefur verið partur af öllum þessum atlögum. Klopp er ennþá að byggja upp sitt lið og er núna með gríðarlega vel mannað lið á mjög góðum aldri og þekkir það að leiða lið undir þessum aðstæðum. Hungrið í þessum hópi, stuðningsmönnum og félaginu í heild er orðið gríðarlegt og loksins erum við með lið sem er gott á báðum endum vallarins.

  Keppinauturinn í deildinni er auðvitað dýrasta og besta lið í sögu Ensku Úrvalsdeildarinnar, gat ekki annað verið þegar Liverpool er loksins að „toppa“ en vonandi halda okkar menn áfram á þeirri braut sem liðið er á núna. Takist það stoppar okkur ekkert.

  Lokaorð um árið 2018:

  Flest lið sem vinna titla eru búin að gera atlögu árin á undan, það er sjaldan sem lið kemur eins og Leicester gerði. Liverpool hefur gert atlögu undanfarin ár og Meistaradeildin síðasta vetur var risa áfangi. Leikmannakaup Liverpool 2018 gera það að verkum að núna erum við með lið sem getur tekið næsta skref.

  Þetta er ekki eins 2002 þegar góðu tímabili var klúðrað með afleitum leikmannaglugga. Félagið var á barmi borgarastyrjaldar 2008/09 þegar sjálft liðið var nógu gott en vantaði breidd sem var klúðrað þá um sumarið. Liðið 2013/14 gerði semi Leicester atlögu að titlinum en var skipað einn verstu vörn Liverpool á þessari öld og féll á því.

  Jurgen Klopp er ennþá á uppleið með félagið og haldi það ferðalag áfram 2019 er næstra skref að fara lyfta bikurum.

  Gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir það sem er að líða.

Back to Top

Ad Blocker Detected!

Advertisements fund this website. Please disable your adblocking software or whitelist our website.
Thank You!