Latest stories

 • Huddersfield annað kvöld

  Annað kvöld hefst þriðja síðasta umferðin í deildinni og er það Liverpool og Huddersfield sem ríða á vaðið þegar þeir síðarnefndu heimsækja Anfield.

  Ég vonaði svo sannarlega að þegar ég myndi rita þessa upphitun að þá gæti ég opnað hana á því að greina frá því að Liverpool væri í bílstjórasætinu eftir að Man City hefði tapað stigum gegn Man Utd en því miður er það ekki staðan. Liverpool er stigi á eftir Man City þegar liðin hafa leikið jafn marga leiki en Liverpool á tvo af þremur leikjum á undan Man City sem vonandi getur þá sett pressu á þá svo þeir misstígi sig eitthvað.

  Byrjum á leiknum annað kvöld. Liverpool tekur á móti arfaslöku liði Huddersfield sem er löngu fallið úr deildinni og eru svo neðarlega á töflunni að þeir eru ættu eflaust að vera um miðja Championship deild. Frá því að leiktíðin var flautuð á þá má eiginlega segja að Huddersfield hafi bara fallið, þeir hafa verið afleitir í allan vetur og eru með 14 stig eftir 35 leiki sem er ansi, ansi, ansi, ansi lélegt. Þeir hafa skorað fæst mörk og fengið á sig næst flest.

  Með fullri virðingu fyrir Huddersfield þá hef ég varla nennt að leggja einhverja leikmenn þarna á minnið. Lössl markvörður þeirra, Billing, Zanka, Mounie, Mooy, Kongolo, Durm. Þetta er rosalega dauft lið sem rétt bjargaði sér frá falli í fyrra, gerði lítið í sumar og skítfalla í ár. Það verða eflaust ekki margir leikmenn þarna eftir í Úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

  Held að það séu engin stór og áberandi meiðsli í hópnum hjá Huddersfield svo ég reikna með að þeir verði með flesta af sínum bestu mönnum þarna.

  Það sem máli skiptir er Liverpool í þessum leik og ég held að það eina sem gæti hugsanlega truflað Liverpool í þessum leik væri það sjálft. Liverpool kemur inn í þessa viðureign sem algjöra yfirburði á öllum sviðum knattspyrnunnar og með alvöru hungur til að fá eitthvað úr þessum leik.

  Mér finnst ég alltaf hljóma eins og vel kokhraustur litaður rugludallur, sem ég eflaust er, þegar ég er að skrifa um leiki gegn liðum eins og þessu. Með fullri virðingu fyrir þeim þá eru þeir bara nokkrum númerum of litlir í deildina og Liverpool ætti að klára þá ansi, ansi auðveldlega.

  Liverpool þarf þó eflaust að sýna þeim virðingu og þolinmæði þegar haldið verður inn í leikinn og auðvitað ekki taka þessu sem gefnu en það á að reikna með þremur stigum í pottinn annað kvöld, allt annað yrði bara algjör vonbrigði og í raun skandall.

  Af Liverpool er bara allt ágætt að frétta. Óvíst er hvort að Fabinho verði með á morgun eftir höfuðhöggið sem hann fékk þegar hann var nýkominn inn gegn Fulham, það hljómaði á honum og Klopp að þetta væri ekkert alvarlegt en reglur í kringum höfuðmeiðsli eru sem betur fer strangar og gott ef Liverpool tekur enga áhættu með slíkt. Liverpool ætti vel að geta verið án Fabinho í þennan eina leik og fá hann þá sterkan inn gegn Barcelona á miðvikudaginn næsta.

  Lovren er líklegur til að koma aftur inn í hópinn og Lallana held ég líka, samkvæmt blöðunum úti þá gæti verið að Oxlade-Chamberlain væri í myndinni þegar valið verður þessa átján sem verða í hópnum en við sjáum til með það. Væri frábært að sjá hann aftur í hóp og ef hann gæti þá fengið nokkrar mínútur á vellinum, yrði góð verðlaun fyrir erfiðis vinnu hans undanfarið ár og gæfi honum þá vonandi smá blóð á tennurnar fyrir undirbúningstímabilið. Lallana er held ég eitthvað tæpur enn, hann vantaði amk á einhverja opna æfingu um daginn.

  Ég held að Klopp muni rótera aðeins liðinu og verði svolítið með Barcelona í huga hvað ákveðna leikmenn varðar og þá eflaust bakverðina sem þurfa örugglega að hlaupa töluvert meira gegn Barcelona en Huddersfield. Kannski hvílir hann einn af framherjunum og hrærir aðeins í hópnum á miðjunni.

  Alisson

  Gomez – Matip – Virgil – Robertson

  Henderson – Wijnaldum – Keita

  Salah – Firmino – Mane

  Ég held að Klopp gæti eflaust róterað meira en þetta. Komið Origi inn fyrir einn af framherjunum, óvænt start fyrir Shaqiri, Milner á miðju eða í bakverði, Lovren að byrja eða guð má vita hvað. Liðið verður engu að síður mjög sterkt og ætti að sigla í gegnum þennan leik nokkuð auðveldlega.

  Algjör skyldusigur og við verðum að hoppa aftur upp fyrir Man City og vonast til að þeir misstígi sig gegn orma étandi Liverpool stuðningsmanninum Sean Dyche og lærisveinum hans í Burnley seinna um helgina. Eftir það er útileikurinn gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar og svo leikur gegn Newcastle laugardagskvöldið í næstu viku sem er líka á undan leik Man City sem mæta Brendan Rodgers og lærisveinum hans í Leicester City. Það er því nóg að gera framundan!

  Sjáum hvað setur annað kvöld. Stórsigur þar sem við getum vonandi saxað á forskot Man City í markamismun og hoppum aftur í toppsætið væri afar vel þegið og verður vonandi raunin.

  Þess má svo til gamans geta að u18 ára lið Liverpool sem er svo smekkfullt af spennandi leikmönnum varð í kvöld bikarmeistari eftir að þeir unnu Man City í vítaspyrnukeppni eftir að Bobby Duncan skoraði gott mark seint leiks sem jafnaði metin fyrir Liverpool. Strákarnir skoruðu úr öllum fimm spyrnum sínum en það var fyrirliðinn Paul Glatzel sem tryggði sigurinn í síðustu spyrnunni.

  Þetta er fyrsta skiptið sem liðið vinnur bikarinn síðan 2007 og þeir eru einnig í dauðafæri á að vinna deildina sína líka. Vonandi sjáum við bæði u18 og aðalliðið landa tvennum í vor!

  [...]
 • Gullkastið – Búið að loka gamla skólanum

  Stórundarleg vika þar sem flestir stuðningsmenn Liverpool halda meira með Man Utd en flestir stuðningsmenn djöflanna. Cardiff var afgreitt um helgina, Huddersfied bíður á föstudaginn og Barcelona í næstu viku. Það er allt galopið ennþá. .

  00:00 – Þolinmæðisverk í Cardiff
  24:10 – Gamla skólanum lokað?
  27:00 – King Ed Woodward´s Manchester United gerir ekkert gegn City.
  46:00 – Förum út með kassann inn í Barcelona einvígið – Upphitun
  54:50 – Mesti must win leikur aldarinnar

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Maggi Þórarins (Beardsley)

  MP3: Þáttur 235

  [...]
 • Salah sala?

  Fyrir rúmlega viku síðan kom birti AS fréttamiðillinn í Madríd frétt þess efnis að Salah væri ósáttur hjá Liverpool og myndi fara fram á sölu í sumar til Real Madríd. Umboðsmaður Salah var fljótur að svara þessum orðrómi.

  Þetta svar Abbas hefur ekki dugað því núna er aftur kominn orðrómur á kreik um meint ósætti Klopp og Salah. Franskur blaðamaður Telefoot eða hvað sem blessaður miðillinn heitir bara kominn með skúbbið um Egypta sem spilar á Englandi varðandi brottför hans til Spánar, einmitt.

  Það tekur því auðvitað ekki að fjalla um þetta en þessi “frétt” fer auðvitað á flug í öllum “Powerade” slúðurpökkum veðmiðlanna sem hafa ekkert nýtt að fjalla um og birta gjörsamlega allt.

  Skemmtilegast við fyrri orðróminn var samt hvað stuðninsmönnum annarra liða var umhugað að hann bara yrði að fara til Real Madríd, eða a.m.k. frá Liverpool. Liverpool borg er jafnan töluð niður af fólki sem hefur ekki farið þangað sem skítugri borg þar sem er alltaf vont veður og rigning á meðan Suður-Evrópa er án allra vandamála eða neikvæðra hliða. Þvílíka ruglið. Það er ekki langt síðan það var London sem var svona svakalega heillandi, fyrir fólk líklega sem hefur ekki farið bæði til Liverpool og London.

  Real Madríd og Barcelona eru ekki svona stór út af því að það er svo æðislegt að búa þar, vissulega er það eflaust ágætt en svo var líka á Ítalíu sem dæmi þegar Seria A var aðalmálið. Ef veður væri svona mikið stórmál væru Portúgal, Grikkland og “Júgóslavía” með stærri deildir en England og El Classico væri milli CD Tenerife og Las Palmas.

  Aðalatriði hjá leikmönnum er (samhliða peningum) það að vinna til verðlauna eða a.m.k. vera í samkeppnishæfu liði. Peningar og nánast örugg áskrift af verðlaunum er það sem fær stórar stjörnur til að fara til Real og Barcelona. Þegar Coutinho fór fram á sölu fyrir ári síðan skildi maður ekki hvað hann var að spá með að heimta sölu í janúar, Liverpool var loksins í bullandi séns í Meistaradeildinni á meðan hann fengi ekkert að spila í þeirri keppni fyrir Barcelona. Ég skil ekki ennþá þessa ákvörðun hans. Án hans hefur Liverpool núna fleiri stig í Ensku úrvalsdeildinni heldur en Barcelona er með á Spáni, deild sem jafnan vinnst á um 100 stigum.

  Þetta mun áfram gerast hjá flestum liðum, stór nöfn fá tilboð sem ekki er hægt að hafna og yfirgefa stórlið fyrir annað stórlið. Liverpool “missti” Coutinho til Barcelona í kjölfar þess að Barcelona “missti” Neymar. Bæði félög voru líklega mikið meira en sátt við kaupverðið sem fékkst fyrir þá og báðir sakna væntanlega sinna gömlu félaga meira en þau sakna þeirra. Þetta er auðvitað ekki alltaf svona, United seldi Ronaldo t.a.m. ódýrt þó það hafi verið heimsmet á sínum tíma.

  Eins munum við áfram sjá leikmenn eins og Emre Can láta samninginn sinn renna út til að fá miklu hærri laun annarsstaðar. Koma Ronaldo hefur pottþétt verið sölupunktur einnig enda ætluðu þeir sko að vinna Meistaradeildina núna. Samt fór hann í úrslit með Liverpool á síðasta tímabili og féll úr leik gegn Ajax í vetur á meðan Liverpool er aftur komið í undanúrslit. Það sem er kannski verra fyrir Can er að það hefur enginn minnst á hann það sem af er þessu tímabili, hans hefur svo gott sem ekkert verið saknað og verður gleymdur mjög fljótlega. Spurning hvort hann sakni Liverpool eitthvað?

  Auðvitað skiptir það miklu máli að leikmönnum líði vel, Spánn hefur ekki bara forskot á t.d. England hvað verðurfar varðar þegar kemur að Suður-Amerískum leikmönnum heldur er menningin svipuð og það sem er líklega mikilvægast, þeir tala sama tungumálið. Barcelona og Real Madríd eru aðalliðin í latino heiminum og hafa verið í 50-60 ár.

  Þetta á hinsvegar alls ekkert við um t.d. Afríku, þar er Equatorial Guinea eina spænskumælandi landið (að hluta) á meðan England, Frakkland, Þýskaland og Holland áttu öll nýlendur í Afríku um tíma. Áhrifa þess gætir m.a. í fótboltanum og afrískum leikmönnum gengur almennt ekki illa að aðlagast í þessum löndum. Án þess að kanna það sérstaklega myndi maður ætla að það eru miklu fleiri leikmenn frá Afríku eða ættaðir frá Afríku að spila í Hollandi, Þýskalandi, Englandi og alveg klárlega Frakklandi en spila á Spáni. Landslið Hollendinga og Frakka hefðu ekki verið þau stórveldi sem þau hafa verið án þessara leikmanna. Fyrir þeim myndi maður ætla að Liverpool og Man Utd séu engu minni félög en t.d. Barcelona og Real Madríd. Sama á við um leikmenn frá löndunum norðar í Evrópu. Ísland er ekkert eina landið sem er með allt á hreinu þegar kemur að enska boltanum en fylgist með þeim spænska í mýflugumynd.

  (more…)

  [...]
 • Cardiff City 0-2 Liverpool

  Mörkin

  0-1 Gini Wijnaldum 57.mín
  0-2 James Milner (víti) 81.mín

  Leikurinn

  Sól skein í heiði í Cardiff-borg og velski vallarvörðurinn virðist hafa verið í páskafríi þar sem að það „gleymdist“ að vökva völlinn sem hægði á hraða boltans frá upphafi leiks. Eins og búast mátti við þá voru Liverpool mikið með boltann frá fyrstu mínútu en þó án þess að ná að ógna marki heimamanna að nokkru leyti. Cardiff stunduðu góðan skammt af anti-football með töfum við hvert tækifæri og lágu lengi við minnstu snertingu.

  Vængmenn Cardiff voru þó hættulegir og voru að valda bakvörðum okkar vandræðum. Á 14. mínútu þá fór Mendez-Laing auðveldlega framhjá TAA og krossaði fyrir markið þar sem vængsamherji hans Junior Hoilett fékk boltann í skotstöðu á fjærstöng en Robertson blokkaði skotið á síðustu stundu. Viðvörun fyrir vörn gestanna.

  Lítið var að gerast hjá okkar mönnum framan af þó að við værum mikið með boltann og illa gekk að opna vörn Cardiff. En upp úr þurru á 21.mínútu þá sundurspiluðu Salah og Mané vörn heimaliðsins og Firmino fékk dauðafæri einn gegn markverði en skaut yfir með vinstri fæti. Illa farið með úrvals tækifæri og hefði verið kærkomið að komast yfir á þeim tímapunkti.

  Stuttu síðar sprengdi Mendez-Laing enn og aftur framhjá TAA á sprettinum en okkar uppaldi hægri bakvörður var greinilega skotmark Cardiff sem veikasti hlekkur Liverpool. Því miður var það að virka ágætlega þar sem mesta hættan kom upp og í gegnum TAA. Rauðliðar voru þó að vaxa inn í leikinn og tempóið að aukast með meiri sóknarþunga en enn hélt vörn Cardiff. Velskir áhangendur voru með háværasta móti og studdu vel við bakið á sínum mönnum og nýttu hvert tækifæri til púa á Púlara.

  Til að undirstrika heiðríkjuna og 25 stiga hitann á vellinum að þá var tekin vatnspása eftir hálftíma leik til að brynna klárunum. Eitthvað virtist vatnið á tankinn gefa okkar mönnum aukakraft því beint á eftir á 33.mínútu átti Salah frábæran snúning eftir sendingu Henderson og kom sér í gott færi í teignum en Neil Etheridge varði vel af stuttu færi í markinu.

  Rauðliðar héldu áfram að hækka hitann í sókninni en enn vantaði lokagæðin í lykilsendingar, slútt á færum eða skyndiupphlaup. Um 80% ball possession dugði ekki til að koma bolta í markið en á undir lok hálfleiksins fengu heimamenn hornspyrnu og í kjölfarið af miklum skallatennis þá féll boltinn fyrir Niasse sem hitti boltann illa í góðu færi en Allison gerði þó vel að verja skotið yfir.

  0-0 í hálfleik

  Seinni hálfleikurinn hófst með hálffæri heimamanna hjá hafsentinum Morrison sem skallaði yfir markið frá fjærstöng. Í endursýningum sást að Robertson tók lúmskt tog í treyjuna á Morrison og rauðliðar líklega heppnir með að sleppa með skrekkinn þar. Video-dómgæsla hefði fangað þetta og myndi gera það næsta vetur en Liverpool hefur frekar orðið fyrir barðinu á slíkri dómgæslu í vetur en grætt á henni.

  En Liverpool voru þó með tögl og hagldir á vellinum og augljóst að þeim var að takast að þreyta þorskinn. Það kom því engan veginn á óvart þegar að fyrsta markið kom á 57.mínútu. Alexander-Arnold tók hornspyrnu frá hægri sem var í lágum gæðaflokki en hitti fyrir Gini Wijnaldum sem átti heimsklassa hamarshögg upp í hægra hornið á markinu. Deila má um hvort að uppsetningin hafi verið beint af æfingasvæðinu eða lukkulegt lán í lélegheitum en markið var glæsilegt hjá Gini og ísinn loks brotinn.

  Liverpool héldu áfram að auka sóknarþungann til að dauðrota leikinn og draga drýsilinn að landi. Fjórum mínútum eftir markið átti Mané góðan undirbúning og sendingu á fyrirliðann Henderson í teignum en í dauðafæri skaut Jordan himinhátt yfir markið með skoti sem Charlie Adam hefði verið stoltur af. Örstuttu síðar fengu heimamenn sitt besta færi leiksins eftir að Alisson náði ekki að hreinsa nægilega vel frá teignum og boltinn barst á títtnefndan Morrison sem skallaði tuðruna með herðablöðunum frekar en kollvikunum og færið fór forgörðum. Hollenskar heimildir herma að dómarinn hefði dæmt brot í teignum ef Morrison hefði skorað en það er hið besta mál að ekki reyndi á þann orðróm.

  Að þessum líflegheitum loknum datt leikurinn algerlega niður í hraða og í kjölfarið fylgdu fjöldamargar innáskiptingar. Fabinho kom inná fyrir Keita en entist ekki lengi þar sem brasilíska miðjuakkerið fékk höfuðhögg skömmu síðar sem krafðist þess að hann þurfti að víkja fyrir innkomu Milner. Innkoma hins óleiðinlega James átti eftir að koma í góðar þarfir því að á 80.mínútu var dæmt víti þegar að Mo Salah var ólöglega knúsaður í korter af mússímúss Morrison. Dómarinn dæmdi réttilega víti þó að Gary Neville hafi haft ranga skoðun á því og Milner lét ekki slíkt happ úr hendi sleppa og kláraði vítið örugglega með elliglapafagni í þokkabót.

  Örugg forusta komin og sigurinn í höfn þó að Salah hefði getað bætt við markatöluna á lokamínútunum en Etheridge varð vel frá Egyptanum

  0-2 sigur fyrir Liverpool

  Bestu leikmenn Liverpool

  Framan af þá voru fáir Rauðliðar að komast upp úr öðrum gír og flestar frammistöður mjög svo miðlungs. Eftir því sem leið á leikinn þá batnaði frammistaðan og stjórn okkar á spilinu jókst. Hafsentarnir Matip og VVD voru traustir í dag og Alisson leysti allt það sem á þurfti að halda. Henderson og Keita voru ágætir á miðjunni en vantaði broddinn til að setja mark sitt almennilega á leikinn. Mané var einnig líflegur að vanda og setti mikinn kraft í sína frammistöðu og sama má segja um Salah sem hefði getað skorað úr sínum færum en var með vanstilltan vinstri fót í dag.

  Maður leiksins var hins vegar Hollendingurinn Gini Wijnaldum sem kom aftur í byrjunarliðið í djúpri stöðu á miðjunni og átti flottan leik. Öguð frammistaða með 96% sendingarhlutfall og hið mikilvæga opnunarmark leiksins sem var glæsilegt hamarshögg úr teignum.

  Vondur dagur

  Í fyrri hálfleik var herjað á Trent Alexander-Arnold og hægri bakvörðurinn réð illa við álagið með þeim afleiðingum að helstu sóknarfæri Cardiff komu í tengslum við greiða leið í gegnum hans stöðu. Hin hörmulega/þrælæfða hornspyrna gaf honum þó stoðsendingu í kladdann sem hýfði einkunnina hressilega upp.

  Uppfært: Í viðtölum eftir leik við Klopp og Wijnaldum kom fram að hornspyrnan var hvorki hörmuleg né þrælæfð en hins vegar var hún hugmynd leikmanna í búningsklefanum í hálfleik. Þeir höfðu tekið eftir því að varnarvinna Cardiff í hornum bauð upp á pláss fyrir framan markteig og lág sending á Gini gæti skapað gott skotfæri. Sem það heldur betur gerði með fyrnaföstum afleiðingum! Þá vitum við það.

  Eftir stendur að Firmino var í engu takti við leikinn í dag og fór skelfilega illa með frábært dauðafæri í fyrri hálfleik. Sem betur fer skiptu slæmu frammistöðurnar engu máli í lok dagsins þar sem lokatölurnar voru Liverpool í vil.

  Aron Einar Gunnarsson fær einnig mínus fyrir að hafa verið svo ógáfulega agressívur að fá gult spjald fyrir mótmæli vegna hinnar augljósu vítaspyrnu sem að Liverpool fengu dæmda vegna brotsins á Salah. Það er ALDREI jákvætt að vera jafn “skynsamur” í skoðannamyndun og bæði Gary Neville eða Neil Warnock. Skamm skamm Aron Einar.

  Tölfræðin

  • Cardiff hafa ekki unnið Liverpool frá 1959 en sá tapleikur var fyrsti leikur LFC undir stjórn Bill Shankly. Fall var fararheill í þeim málum og síðan eru liðin 60 ár þó að reyndar séu leikir milli liðanna ekkert sérlega margir á þeim tíma.
  • Warnock var kokhraustur fyrir viku síðan og fullyrti að honum gengi ALLTAF vel gegn Liverpool. Uppfærð tölfræði liða undir stjórn Warnock gegn Liverpool eftir þennan leik eru 2 sigrar, 1 jafntefli og 7 töp. Miðað við feril og getu Warnock þá er 20% vinningshlutfall og 70% taphlutfall líklega nokkuð gott mót hjá gamla steingervingnum.
  • James Milner hefur skorað úr 15 vítaspyrnum af þeim 17 sem hann hefur tekið fyrir Liverpool FC.

  Umræðan

  Andleg heilsa Púlara mun snöggskána við þessi úrslit þó að það hafi verið vonbrigði að Tottenham tókst ekki að ná stigi af Man City deginum áður. Þessi leikur í Wales var óþægileg viðureign á dagatalinu og það er léttir að hafa landað öruggum 3 stigum og sanngjörnum sigri gegn varmenninu Warnock. Sem fyrr þá sýndu Rauðliðar mikla yfirvegun í sinni nálgun þó að áhangendur hafi nagað neglur sínar upp að öxlum í stressi meðan á leik stóð. Vel gert hjá Klopp & co. að standast pressuna og höndla leikjaálagið eftir Evrópuleik á útivelli í vikunni.

  Allra augu munu nú beinast fram í miðja viku að grannaslag Manchester-liðanna en úrslit rauðu djöflanna gegn blárri helming Liverpool-borgar gæti hafti mikil áhrif á þann leik. Gary Neville og undarlega margir man utd menn hafa verið meira en tilbúnir til að farga velgengni eigin liðs til þess eins að geta minnkað líkurnar á að Liverpool verði meistarar. Líklega hafa þeir sem slíkt hugsa gleymt því hver meining orðsins stuðningsmaður er en þeir um það. Í húfi fyrir heimamenn í þeim grannaslag verður barátta um CL-sæti og framtíð stjóra, leikmanna og yfirmanna einnig. Aumingjaskapur eins og sást í dag á Góðravonargarði verður vart í boði nema að fyrrum ægivaldur ensks fótbolta sé með öllu skyni skroppinn og gerilsneyddur af öllu stolti, getu og manndóm.

  YNWA

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Cardiff City á Stadiwm Dinas Caerdydd

  Bláfuglarnir frá Cardiff taka í dag á móti hinum eldrauða Liverfugli og Rauða hernum hans! Botnbaráttan mætir toppslagnum í einvígi dagsins þar sem að stigin í boði eru mæld í tugmilljónum punda, silfurbikurum og gullmedalíum. Meira gæti varla verið undir fyrir bæði lið og bardaginn verður vafalítið í takt við það.

  Höfuðborg Wales hefur hýst margar gylltar minningar fyrir Púlara þegar að Millennium Stadium hljóp undir bagga sem vara-Wembley árin 2001-2007. FA Cup gegn Arsenal 2-1 árið 2001, League Cup vs. Man Utd 2-0 árið 2003 og The Gerrard Final árið 2006 eru helstu hápunktarnir frá þeim ágætu árum. Vonandi verður leikurinn í dag á velskri grundu grundvöllur að gylltu glæsitímabili Liverpool en fyrsta formsatriði er að spila leikinn.

  Klopp hafði að vanda margt gamansamt og gáfulegt að segja á sínum blaðamannafundi í fyrradag. Hægt er að hlusta á meistarann hér í þúvarpinu að neðan:

  Liðsskýrsla dagsins er í takt við orð Klopp og smá rótering í gangi frá leiknum gegn Porto. Firmino kemur inn í fremstu víglínu í stað Origi, Wijnaldum kemur inn fyrir Fabinho og Keita fær sénsinn í stað Milner. Svona lítur liðsuppstilling dagsins út hjá Rauða hernum:

  Bekkurinn: Mignolet, Fabinho, Milner, Gomez, Sturridge, Shaqiri, Origi.

  Warnock var nokk kankvís varðandi liðsuppstillingu en hér er hans lokaniðurstaða með fyrirliða íslenska landsliðsins á sínum stað á miðjunni:

  Upphitunarlag dagsins er ekki af verri endanum og heldur betur af velskari endanum. Óskabarn Walesverja er Tom Jones og hér flytur hann óskalag okkar Púlara af sinni alkunnu snilld. Hækkum í græjunum að vanda og syngjum með! YNWA!

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


   

  [...]
 • Kvennaliðið fær Bristol í heimsókn

  Það er stór dagur fyrir Liverpool aðdáendur í dag, fókusinn verður vissulega á leikinn við Cardiff enda mikið undir í baráttunni um titilinn. Maggi Beardsley ætlar að gera þeim leik skil af sinni alkunnu snilld. Áður en sá leikur brestur á ætlar kvennaliðið að taka á móti Bristol í WSL. Staðan þar er skv. www.fawsl.com eftirfarandi:

  Reyndar verður það að koma fram að sú heimasíða er alls ekki uppfærð nógu reglulega, því er ekki loku fyrir það skotið að það hafi einhverjir leikir farið fram eftir að þessi uppfærsla var sett inn.

  Eins og sést eru Bristol konur tveim sætum fyrir ofan okkar konur, og hafa leikið einum leik meira. Það eru því ágætar líkur á að það verði jafnræði með þessum liðum. Rétt eins og hjá körlunum fer að koma að lokum þessa tímabils hjá stelpunum, þetta ætti að vera þriðji síðasti leikurinn, og sjálfsagt vill liðið enda á jákvæðu nótunum fyrir næsta tímabil. Þess má geta að konurnar í United eru búnar að tryggja sig upp um deild, svo við munum mæta þeim á næstu leiktíð og hitta þar fyrir ýmsa góðkunningja eins og Alex Greenwood, Sioban Chamberlain og fleiri sem voru innan raða Liverpool á síðustu leiktíð.

  Liðið sem mætir Bristol á eftir verður sett upp svona:

  Bekkur: Kitching, Little, Hodson, Charles

  Bekkurinn er fámennur, það eru greinilega ennþá leikmenn á sjúkrabekknum eins og Jess Clarke, Jasmine Matthews og fleiri, þær tvær myndu alltaf gera tilkall til sætis í byrjunarliðinu. Upp á síðkastið hafa stelpur úr akademíunni fengið tækifæri, en slíku er ekki til að dreifa í dag þar sem akademían er að spila til úrslita í bikarnum í dag.

  Við uppfærum svo færsluna með úrslitum, bæði í þessum leik og í bikarleik akademíunnar, síðar í dag.


  Leik lokið með virkilega góðum sigri hjá okkar konum, 5-2. Staðan var 3-1 í hálfleik, þar sem Babajide setti tvö og Yana Daniels eitt stykki. Í síðari hálfleik skoraði svo Babajide þriðja mark sitt og fullkomnaði þar með þrennuna, og að lokum skoraði Ashley Hodson eitt, en hún kom inná fyrir Christie Murray þegar rúmar 10 mínútur voru eftir af leiknum.

  Afar ánægjulegt að sjá að Babajide er farin að raða inn mörkum fyrir félagið. Sweetman-Kirk hefur verið sú sem hefur tekið það að sér að mestu leyti, en það hefur alltaf verið ljóst að það er mikið efni í Babajide, stór og sterk og með talsverðan hraða, svolítið óslípaður demantur. Hún er enda í 21 árs landsliði Englendinga, og ekki að ástæðulausu. Ein af mörgum ungum og efnilegum leikmönnum Liverpool, og full ástæða til að vera bjartsýn(n) fyrir hönd liðsins.

  Það hafa ekki borist fréttir af leik akademíuliðsins, við setjum uppfærslu á því í athugasemdir.

  [...]
 • Páskaleikur í Cardiff – Upphitun

  Á Páskadag fara stuðnings-og leikmenn Liverpool suður til Cardiff og freista þess að endurheimta toppsætið í ensku deildinni. Andstæðingarnir eru stolt Wales í fótbolta, Cardiff City. Ekki segja neinum Swansea manni að ég hafi skrifað þetta.

  Cardiff er borg sem svipar að ýmsu leiti til Liverpool. Hjarta borgarinnar er Cardiff kastali, sem var reistur árið 1081. Þangað til á átjándu öld var ekki mikill munur á Cardiff og öðrum velskum borgum en 1793 hófust framkvæmdir á hafnarsvæðinu sem stóðu fram á miðja næstu öld. Á hálfri öld eftir að framkvæmdir hófust umbreyttist Cardidd úr venjulegum velskum bæ í eina af mestu hafnarborgum heims. Aðal útflutningsvaran var kol úr risavöxnum námum Wales. Þetta náði hámarki árin fyrir fyrri heimstyrjöld, þegar 10 milljón tonna af kolum fóru úr höfn. Árlega.

  Eftir fyrra stríð hófst löng, hæg, hnignun borgarinnar. Allt fram á níunda áratug síðustu aldar fór íbúum borgarinnar fækkandi, en það snerist við upp úr 1990, á síðasta áratugnum var borgin ein af örfáum borgum utan London sem óx. Samhliða fór fram mikil nútímavæðing borgarinnar og í dag er hún evrópsk menningarborg. Fyrir áhugamenn um breskt sjónvar er hún líklega ansi kunnuleg en BBC hefur meðal annars tekið upp Sherlock Holmes, Doctor Who og Torchwood í Cardiff. Hún er einn af vinsælli túristastöðum Bretlands, heimili landsliðs Wales í rúgbý og svo Cardiff City sem er okkur kunnugt.

  Andstæðingurinn – Cardiff City.
  (more…)

  [...]
 • Er Barcelona sterkara en Liverpool?

  Þegar Steven Gerrard lyfti bikarnum á loft í Istanbul árið 2005 hafði Liverpool unnið æðstu Evrópukeppni félagsliða fimm sinnum á móti aðeins einum titli Barcelona. Raunar var Liverpool búið að vera í banni frá þáttöku í Evrópukeppnum í sex ár þegar Barcelona vann sinn fyrsta titil tímabilið 1991-92. Sex ár þar sem Liverpool var með besta liði heimi flest árin og hafði fram að því verið í úrslitum tvö ár í röð og fimm sinnum á einum áratug. Sögulega er Barcelona ekki stærra en Liverpool og allt þar til fyrir áratug voru þessi lið alveg að keppa á jafnréttisgrundvelli í Evrópu. Bæði fóru t.a.m. tvisvar í úrslit á síðasta áratug.

  Satt að segja er með ólíkindum að Barcelona hafi ekki unnið Evrópukeppni Meistaraliða fyrr en 1992 þar sem félagið hefur haft svo gott sem óheftan aðgang að keppinni frá upphafi. Barcelona hefur unnið deildina heimafyrir 25 sinnum og verið í öðru sæti jafnt oft. Fimmtán sinnum hafa þeir svo verið í þriðja sæti þannig að Barcelona hefur verið í topp þremur í 65 skipti af 90. Það hafa raunar bara 9 lið unnið deildina á Spáni í sögunni, þrjú af þeim eiga einn titil hvert og eitt þeirra er með tvo titla. Bilbao sem er með átta titla vann síðast árið 1984.

  Eftir að sjónvarpstekjur urðu mikilvægari pössuðu risarnir tveir að þeir fengju bróðurpartinn af þeim tekjum líka öfugt við t.d. fyrirkomulagið á Englandi sem hefur alltaf (þrátt fyrir allt) verið miklu jafnari deild. Það er enginn Roman á Spáni, Katar á ekkert lið þar heldur, ekki heldur Abu Dhabi. Nema auðvitað fyrir utan að þetta eru helstu styrktaraðilar Barcelona og Real Madríd. Fly Emirates er frá Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum þar sem eigendur Man City ráða ríkjum og Qatar Airways er í eigu sömu fjölskyldu og á PSG. Spænska deildin er sterk en bilið milli þessara tveggja og hinna er jafnvel ennþá meira galið en við þekkjum frá Englandi og hefur verið þannig miklu lengur.

  Undanfarin áratug hefur landslagið heldur betur breyst til hins verra fyrir Liverpool. Barcelona hefur vaxið og vaxið með besta leikmann sögunnar í fararbroddi á meðan Liverpool hefur farið niður til Roy Hodgson og aftur til baka.

  En Liverpool er líka svo sannarlega komið aftur. Stærri, sterkari, fljótari og miklu miklu hungraðari. Barcelona er ennþá með besta leikmann sögunnar í fararbroddi, þeir eru með besta leikmann sem ég hef séð í Liverpool búningi með honum og þeir eru með dýrasta leikmann sem Liverpool hefur selt. Að auki eiga þeir einn dýrasta og efnilegasta ungling í heimi. Liverpool þarf þrátt fyrir það ekki að vera með nokkra einustu minnimáttarkend þegar liðin mætast 1.maí n.k.

  Liverpool 2018/19 vs Barcelona 2018/19

  Byrjum ballið á því að bera þessi lið saman ca. út frá mínútum spiluðum í vetur og líklegum byrjunarliðum

  (more…)

  [...]
 • Barcelona, miðar og nýr búningur

  Þá er það staðfest.

  Undanúrslit gegn Barcelona. Talandi um að vera spilltur af þessu liði okkar, þvílíkir tímar næstu vikurnar. Fyrri leikurinn verður á Nou Camp miðvikudaginn 1.maí og seinni leikurinn síðan þriðjudaginn 7.maí á vel skoppandi Anfield.

  Margir hafa sent okkur miðafyrirspurnir en þar er langlíklegasti kosturinn að ná að fylgjast með norsku síðunni sem við erum að vísa í. Þeir hafa þegar gefið út verð fyrir ferð sem verður farin með leiguflugi frá Osló og upplýsingar þar um. Til að grípa þann pakka þarf auðvitað að bæta við flugi til Osló. Ef þið eruð að kaupa af þeim í fyrsta sinn þá skuluði renna yfir leiðbeiningarnar sem er að finna hér efst á síðunni.

  Þeir eru að vinna í því að setja upp pakka sem inniheldur miða, ferð á völlinn og 2 nætur í Liverpool þar sem hver og einn finnur sér leið til Liverpool og vonast til að ná því inn fyrr en síðar. Fylgist með síðunni þeirra en við uppfærum þennan þráð ef þeim tekst verkefnið. Það er ekki einfalt að finna miða á þennan leik og verðið á óopinbera markaðnum verður svakalegt.

  Liverpool FC ákvað svo í dag að henda inn myndum af búningi næsta vetrar. Ekki veit ég hvort það var vegna þess að töluvert var farið að leka af myndum af honum eða bara til að nýta ótrúlegan meðbyr síðustu vikna til að selja hann.

  Frekari myndir er að finna á opinberu síðunni.

  Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta frábær útgáfa með geggjaða vísun í liðið okkar sem vann þrefalt 1983 – 1984 og ég er nokkuð viss um að þessi fer í mitt safn allavega.

  Svo mun Allison Becker ekki fá á sig mark í svörtu, það er klárt!!!

  [...]
 • Porto – Liverpool 1 – 4

  Liverpool heimsóttu Porto í kvöld og unnu góðan 1-4 útisigur, og tryggðu þar með einvígi við Barcelona um það að fá að mæta til Madrid í vor í úrslitaleik meistaradeildarinnar.

  Mörkin

  0-1 Mané (25.mín)
  0-2 Salah (65. mín)
  1-2 Militao (69. mín)
  1-3 Firmino (77. mín)
  1-4 Virgil (84. mín)

  Gangur leiksins

  Það var ansi varfærið rauðklætt lið sem hóf þennan leik, og satt að segja áttu Porto menn leikinn að mestu leyti, án þess reyndar að skapa sér einhver dauðafæri, en voru klárlega mun líklegri til að skora. Fremstu menn okkar voru lítið í boltanum, Mané byrjaði fremstur en eftir u.þ.b. korter skipti hann við Origi. Það var síðan á 25. mínútu að okkar menn fengu sitt fyrsta færi. Eftir svolítið kraðak í teignum fékk Salah boltann vinstra megin við vítapunkt, gaf sendingu inn á markteig (sem hefði sjálfsagt getað verið skot sömuleiðis), þar var Mané mættur á undan Casillas og setti boltann í netið. Hann fagnaði þó ekki enda lyfti línuvörðurinn flagginu, en dómarinn setti VAR hópinn í að skoða málið. Eftir vandlega skoðun kom í ljós að Mané hafði alls ekkert verið rangstæður þegar Salah lék boltanum, og markið fékk því að standa. VAR að koma sterkt inn, bæði í þessum leik og víðar í kvöld.

  Hálfleikurinn kláraðist án þess að mikið meira markvert gerðist, síðasta spyrna hálfleiksins var reyndar skot frá okkar mönnum sem fór naumlega framhjá, en staðan 0-1 í hálfleik. Þetta eina mark þýddi auðvitað að staðan var 0-3 samtals, og þar sem Liverpool var komið með útivallamark hefði Porto þurft að skora 4 mörk til að komast áfram. Svoleiðis gerist ekki oft nú um stundir, undirritaður man síðast eftir því að vörnin og Alisson hafi fengið á sig 3 mörk í Palace leiknum í janúar, en fjögur mörk komu líklega síðast í seinni Roma leiknum í vor (leiðréttið mig ef mig misminnir).

  Þrátt fyrir að staðan hafi verið góð ákvað Klopp að þétta miðjuna, enda veitti kannski ekki af. Hann setti því Firmino inn á í staðinn fyrir Origi, og skipti í 4-2-3-1 með Salah uppi á topp, Firmino fyrir aftan hann, Mané hægra megin og Milner vinstra megin, en þó skipt yfir í 4-3-3 þegar það hentaði. Holningin á liðinu varð allt önnur og betri, og á 65. mínútu átti Trent magnaða sendingu þvert í gegnum vörn Porto beint í lappirnar á Salah, og hann bókstaflega gat ekki annað en skorað. Þetta reyndist vera síðasta framlag Trent í leiknum því honum var skipt út af fyrir Gomez strax eftir markið. Afar jákvætt að fá Gomez aftur inn í hópinn.

  Hafi einvígið verið búið þegar Porto þurfti að skora 4 mörk, þá var það alveg steindautt þegar Porto þurftu að skora 5 mörk. Þeir skoruðu reyndar eitt nokkrum mínútum eftir mark Salah, þegar Militao skoraði með skalla eftir hornspyrnu, en nokkuð ljóst að 4 mörk á 20 mínútum var ekki að fara að gerast. Þá var Robertson kallaður á bekkinn og Henderson kom inn á, og hann var síðan ekki lengi að setja mark sitt á leikinn því á 77. mínútu átti hann frábæra sendingu inn á teig þar sem Firmino kom aðvífandi og skallaði í netið. Staðan 1-3, Porto aftur komið í þá stöðu að þurfa að skora 5 mörk, og því lítil spenna þannig séð í leiknum. Skömmu áður hafði Mané fengið gullið tækifæri til að skora þegar hann komst einn inn fyrir og komst fram hjá Casillas, en þrátt fyrir að vera fyrir opnu marki náði hann ekki að setja boltann á rammann enda kominn úr jafnvægi.

  Leiknum var svo lokað endanlega á 84. mínútu þegar Milner tók hornspyrnu, boltinn rataði á kollinn á Mané sem nikkaði honum inn á markteig, þar var Virgil van Dijk einn og óvaldaður og þurfti ekki einu sinni að hoppa heldur stangaði bara boltann í netið.

  Síðustu mínúturnar fóru svo bara í það að sigla leiknum örugglega í höfn, og passa að enginn færi að meiðast eða neitt slíkt. Það fór vissulega um menn þegar Fabinho lenti í samstuði um miðjan seinni hálfleik og hélt um fótinn eftir það, en hann náði a.m.k. að klára leikinn og er vonandi í lagi fyrir helgina.

  Hópurinn fagnaði vel þegar dómarinn flautaði til leiksloka, enda liðið komið í undanúrslit meistaradeildarinnar annað árið í röð.

  Góður dagur

  Þessi úrslit eru auðvitað bara akkúrat það sem við vildum. Liðið virkaði vissulega full varnarsinnað og varkárt í fyrri hálfleik, en Klopp fær prik í kladdann fyrir að laga það strax í hálfleik, og eftir að Firmino kom inn á var eiginlega aldrei spurning um að liðið myndi sigla þessu í höfn. Persónulega fannst mér enginn leikmaður standa virkilega upp úr, þetta var mjög mikill liðssigur. Einna helst að gefa Klopp nafnbótina maður leiksins, en eins og venjulega mætti líka alveg nefna Virgil, Salah, Mané og fleiri.

  Slæmur dagur

  Var eitthvað neikvætt við kvöldið? Jú það náðist ekki að halda hreinu, en það skiptir litlu í stóra samhenginu. Mögulega voru úrslitin í hinum leik kvöldsins neikvæð, getur verið að Spurs mæti “saddari” í leikinn við City á laugardaginn? Líklegast ekki, kannski mun sú staðreynd að City er úr leik í meistardeildinni verða þungbær fyrir liðsandann í hóp City manna. Það væri afar æskilegt ef Tottenham nái að hirða a.m.k. einhver stig af hinum bláklæddu um helgina, en það verður allt að koma í ljós.

  Origi var tekinn af velli í hálfleik, og almennt þykir kannski ekki gott fyrir leikmann að vera tekinn snemma af velli, ekki það að hann hafi verið að spila eitthvað illa sem slíkt. Holningin á liðinu var bara þannig, og það kom kannski best í ljós þarna hvað vinnuframlagið hjá Firmino er mikilvægt. Einna helst getum við sagt að þetta hafi verið slæmur dagur fyrir andstæðinga VAR.

  Hvað er framundan?

  Nú verður fókusinn aftur settur á deildina, því framundan er gríðarlega mikilvægur leikur gegn Cardiff á útivelli næsta sunnudag. Liðið verður einfaldlega að halda fókus, og verður að klára þann leik, en það verður allt annað en auðvelt enda Warnock að berjast fyrir lífi Cardiff í deildinni. Það vill til að Klopp kann alveg að mótívera sína menn og því treystum við honum fullkomlega til að afgreiða þann leik. Í millitíðinni leika svo City og Spurs þriðja leik sinn á 10 dögum, og eftir viku verður svo borgarslagurinn í Manchester. Vonandi sjáum við einhver stig renna City úr greipum í þessum leikjum.

  Hvað meistaradeildina varðar, þá eru það núna undanúrslitin sem bíða. Liverpool – Barcelona. Verður það safaríkara? Alveg ljóst að Suarez og Coutinho munu fá “hlýjar” móttökur á Anfield, en okkar menn verða að finna leið til að stöðva þríeykið sem þeir tveir mynda ásamt líklega besta leikmanni jarðar um þessar mundir. Og ef Klopp og félagar finna lausn á þeirri þraut bíður svo úrslitaleikur í Madríd í vor þar sem andstæðingarnir verða annaðhvort Ajax eða Tottenham. Semsagt, allt gríðarlega spennandi leikir, en klárlega leikir sem Liverpool á að geta klárað.

  Munum svo bara að njóta stöðunnar. Liverpool er aftur mætt í fremstu röð, því það er ekkert óvart að þetta lið okkar skuli vera að berjast um tvo stærstu bikarana á sama tíma. Ég vil því biðla til okkar áhangenda að minnast þess að vera þakklát fyrir þetta lið okkar, að vera þakklát fyrir Klopp og alla leikmennina sem eru að gera þetta mögulegt, vera þakklát fyrir stöðuna sem liðið er í á þessum tveim vígstöðvum, nú og svo skulum við endilega loka augunum í smá stund og sjá fyrir okkur Jordan Henderson lyfta a.m.k. einum bikar núna í vor, ef ekki tveim. Hver veit nema slík sýn muni svo rætast þegar allt kemur til alls.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close