Hér er skemmtileg tala: Annar leikmannaglugginn frá kaupum FSG á Liverpool FC er hálfnaður og nýju eigendurnir hafa þegar eytt meira en 100m punda í alls sex leikmenn. Eftir að hafa árin 2008-2010 séð liðið veikjast og meira selt en keypt verður þetta að teljast ansi jákvæð og skemmtileg tilbreyting.
LEIKMANNAKAUP
Það er enginn að segja að FSG eigi að eyða 100m+ á hverju ári, né að þeir þurfi þess, en þegar þeir keyptu liðið var augljóst að það þurfti að fjárfesta verulega í leikmannahópnum til að koma honum aftur í það stand að geta keppt um titla. Það hefur nú verið gert og þótt sumarið sé rétt hálfnað og vel líklegt að fleiri leikmenn muni bætast í hópinn er við hæfi að skoða aðeins hvaða breytingar hafa átt sér stað hingað til.
Fyrst, þá er vert að minna á það að þótt þeir hafi eytt 100m+ í leikmenn hingað til hafa þeir einnig fengið til baka um 60m punda með því að selja leikmenn. Út hafa farið fjórir leikmenn hingað til: Torres, Babel, Jovanovic og Konchesky, og inn eru komnir þeir Carroll, Suarez, Henderson, Adam, Downing og Doni. Með því að leggja út um 40m punda nettó er því búið að breyta fjórum leikmönnum (einum frábærum meiðslapésa, einum vonbrigðapjakki og tveimur sem áttu ekkert erindi í liðið) í sex leikmenn (fimm sem bæta byrjunarliðið og/eða leikmannahópinn og besta varamarkvörð deildarinnar). Það kalla ég sniðug viðskipti.
Lykilatriði í þessu er samt það að það er búið að breyta fjórum misjöfnum leikmönnum í sex sterka. Við vissum að það þurfti að láta ákveðna leikmenn fara í sumar en við vissum einnig að það þurfti nauðsynlega að auka breiddina í hópnum. Það er, að auka gæðasamkeppni um stöður í liðinu og bæta valkostina á varamannabekknum.
LEIKMANNAHÓPUR
Við skulum kíkja nánar á leikmannahópinn eins og hann lítur út í dag.
Markverðir: Pepe Reina, Alexander Doni, Brad Jones, Peter Gulacsi, Martin Hansen.
Bakverðir: Glen Johnson, Fabio Aurelio, Martin Kelly, John Flanagan, Jack Robinson, Emiliano Insúa.
Miðverðir: Jamie Carragher, Daniel Agger, Martin Skrtel, Sotirios Kyrgiakos, Danny Wilson, Daniel Ayala.
Miðjumenn: Steven Gerrard, Lucas Leiva, Charlie Adam, Raul Meireles, Alberto Aquilani, Jordan Henderson, Jay Spearing, Jonjo Shelvey, Christian Poulsen, Maxi Rodriguez.
Sóknarmenn: Andy Carroll, Luis Suarez, Dirk Kuyt, Stewart Downing, Joe Cole, David Ngog, Daniel Pacheco.
Þetta eru 34 leikmenn. Þar af eru 6 leikmenn (Wilson, Ayala, Flanagan, Robinson, Shelvey, Pacheco) undir 21s árs aldri sem þarf ekki að skrá í 25-manna leikmannahópinn. Eftir standa því 28 leikmenn og aðeins 25 þeirra munu fá skráningu fyrir Úrvalsdeildina næsta vetur. Það er hægt að giska endalaust á hverjir þeirra missa af og hverjir ekki en þetta þýðir klárlega að a.m.k. þrír af þessum leikmönnum (fleiri ef við kaupum fleiri leikmenn í þessum glugga) verða annað hvort seldir eða lánaðir í sumar því það er ekki pláss fyrir þá í hópnum.
BREIDD
Án þess að fara út í það að giska á hverjir fara skulum við aðeins skoða breiddina í þessum leikmannahópi eins og hann lítur út í dag. Ég tek hópinn sem ég taldi upp hér að ofan auk þeirra Conor Coady, Andre Wisdom og Raheem Sterling sem virðast vera þeir þrír unglingar sem eru næst því að komast að í liðinu. Við getum skipt þessum leikmannahópi upp í þrjú heil byrjunarlið:
LIÐ 1:
Reina
Kelly – Carragher – Agger – Johnson
Gerrard – Lucas – Adam
Kuyt – Carroll – Suarez
LIÐ 2:
Doni
Flanagan – Kyrgiakos – Skrtel – Aurelio
Henderson – Meireles – Aquilani
Cole – Ngog – Downing
LIÐ 3:
Jones
Robinson – Ayala – Wilson – Insúa
Shelvey – Spearing – Poulsen
Maxi – Pacheco – Sterling
AÐRIR: Gulacsi, Hansen, Wisdom, Coady.
Þetta er einfaldlega hörkugóð breidd og mikil aukning frá síðasta tímabili. Skoðið aðeins Lið 3; þar eru leikmenn eins og Wilson, Shelvey, Spearing og Poulsen sem voru allir að spila talsvert á síðustu leiktíð, sem og Insúa sem var fastamaður í liðinu fyrir rúmu ári. Það að það séu tvö heil ellefu-manna-lið á undan þeim í goggunarröðinni (held við getum öll verið sammála um það að Lið 1 og Lið 2 séu á undan öllum í Liði 3 í röðinni) þýðir að leikmennirnir í Liði 3 geta varla búist við að spila of mikið í vetur, og jafnvel komast frekar sjaldan í leikmannahópinn.
Við getum líka sett þetta upp á annan hátt: Jonjo Shelvey kom alloft inná og fékk marga sénsa hjá Dalglish eftir áramót. Var í öllu falli fastamaður í leikmannahópi. Prófum að stilla upp 18-manna leikmannahópi úr fyrstu tveimur Liðunum hér fyrir ofan og þá eru Spearing, Poulsen og a.m.k. einn af þremur miðjumönnum úr Liði 2 á undan honum í goggunarröðinni. Það er því mjög erfitt að sjá Shelvey komast oft á bekkinn hjá okkur á næsta tímabili.
Með öðrum orðum, breiddin hefur stóraukist.
Það eru ákveðnar spurningar við þennan stóra leikmannahóp: höfum við efni á að hafa alla þessa miðjumenn inni, eða munu Poulsen og annað hvort Meireles eða Aquilani víkja? Ætlar Dalglish að spila Johnson í vinstri bakverði í vetur, gefa Insúa séns eða kaupa vinstri bakvörð? Hverjir af ungu strákunum fara á láni í vetur?
ÚTLENDINGAREGLAN
Eins og ég kom inná hér að ofan eru í dag 28 leikmenn sem hafa náð 21s árs aldri í dag á skrá hjá félaginu. Aðeins 25 þeirra geta verið skráðir í leikmannahópinn fyrir tímabilið. Þar af verða þrír að vera uppaldir hjá félaginu og fimm aðrir að vera uppaldir í Englandi. Það er því pláss fyrir alls sautján „útlendinga“ í 25-manna leikmannahópi vetrarins.
Þessi 28 manna hópur skiptist svona:
Liverpool-uppaldir: Kelly, Carragher, Gerrard, Spearing, Insúa, Gulacsi, Hansen = 7 leikmenn.
Englands-uppaldir: Jones, Johnson, Henderson, Carroll, Downing, Cole = 6 leikmenn.
Erlendir leikmenn: Reina, Doni, Agger, Skrtel, Kyrgiakos, Aurelio, Adam, Lucas, Meireles, Aquilani, Poulsen, Suarez, Kuyt, Maxi, Ngog = 15 leikmenn.
Þetta er nefnilega undirliggjandi tónninn í innkaupastefnu Comolli, Dalglish og FSG hingað til: enskir leikmenn. Út hafa farið fjórir leikmenn og aðeins einn þeirra var uppalinn í Englandi, hinir þrír eru erlendir. Inn hafa í staðinn komið sex leikmenn, þrír erlendir og þrír enskir. Carroll, Henderson og Downing eru hágæðaleikmenn sem taka ekki útlendingapláss í kvótanum. Suarez, Doni og Adam hafa komið inn og taka útlendingapláss í stað Torres, Babel og Jovanovic. Gæði leikmannahópsins hafa því verið stóraukin og breiddin aukin án þess að útlendingum í hópnum hafi fjölgað.
Dalglish getur skráð allt að 17 erlenda leikmenn í 25-manna hópinn fyrir komandi tímabil. Hjá Liverpool í dag eru 15 erlendir leikmenn. Það er hvergi nærri hættumörkunum og því allt eins líklegt að næstu leikmannakaup komi erlendis frá, verði fleiri leikmenn keyptir í sumar.
NIÐURSTAÐA
Það er of snemmt að dæma þennan leikmannaglugga. Enn er eftir einn og hálfur mánuður til að selja og kaupa leikmenn og eins og talningin hér að ofan sýnir munu að minnsta kosti þrír leikmenn fara annað á láni eða sölu í þessum glugga. Þá vitum við ekki nákvæmlega hvað Dalglish ætlar sér með þennan hóp – er t.d. verið að reyna að selja Insúa eða á hann að leika lykilhlutverk? Við vitum þessa hluti ekki og því erfitt að meta sumarið fyrr en glugginn lokar og þessum spurningum hefur öllum verið svarað í lok ágúst.
Hins vegar er þegar hægt að gleðjast yfir því að nýju eigendurnir, Fenway Sports Group, hafa staðið við stóru orðin og sett 100m+ brúttó (40m+ nettó) í nýja leikmenn. Þessir nýju leikmenn hafa aukið breidd leikmannahópsins, bætt gæði byrjunarliðsins (Suarez, Carroll, Downing og Adam verða væntanlega fastamenn í liðinu, það eru 4 stöður af 11 sem eru Dalglish-keyptir leikmenn) og leyst ýmis vandamál eins og móral (Torres, Babel) og fjölbreytni (vinstrifótarmennirnir Adam og Downing, skallamaðurinn Carroll, töframaðurinn Suarez, fjölhæfni Henderson, eins góður varamarkvarður og hægt er að búast við í Doni).
Og þetta hefur allt áorkast án þess að fjölga útlendingum í leikmannahópnum.
Við dæmum sumarið þegar það er á enda en eftir janúar og fyrri helming sumarsins held ég að við getum verið ánægð með frábær leikmannaviðskipti hingað til.
MÍN SPÁ
Ég stenst ekki mátið. Hvernig lýkur sumrinu? Hvernig koma Dalglish og Comolli þessum 28-manna hópi niður í 25? Ég held að það verði bið á næstu leikmannakaupum á meðan unnið er í að búa til pláss fyrir fleiri leikmenn. Svona spái ég að næstu 45 dagar fari:
Gulacsi og Hansen verða lánaðir, það minnkar hópinn úr 28 niður í 26. Ungir strákar eins og Wilson, Pacheco, jafnvel Shelvey verða lánaðir líka.
Jones, Poulsen og Ngog verða seldir. Annað hvort Aquilani eða Meireles verður líka seldur, annars lánaður ef það tekst ekki að selj’ann. Það minnkar hópinn úr 26 niður í 22.
Svo kaupa Comolli/Dalglish Englands-alinn miðvörð (Scott Dann) og vinstri bakvörð (erlendan). Það setur leikmannahópinn aftur upp í 24.
Svo, til að setja rjómann á tertuna, versla þeir eitt stórt nafn áður en sumarið er úti. 25. leikmaður hópsins. Aguero, Benzema, Hazard, Higuain, sú týpan. Frægur og virtur leikmaður sem kostar sitt en fyrst og fremst réttur maður fyrir Liverpool FC. Hver sem það verður.
Þannig verður 25-manna-hópurinn okkar 1. september 2011. Heyrðuð það hér fyrst!
Ath.: Ég tók Philipp Degen og Nabil El-Zhar ekkert með í reikninginn í þessum pælingum af því að það er ekki séns í helvíti að þeir verði skráðir í þennan 25-manna-hóp, hvort sem þeir verða seldir/lánaðir eða ekki. Þeim var ekki einu sinni boðið með til Asíu. Þannig að það er tilgangslaust að flækja málin með því að ræða þá eitthvað.