Latest stories

  • Góð grein um félagaskipti

    Það er föstudagur, leikur á morgun og Liverpool hætt að kaupa í bili. Lítið að frétta, sem sagt. Það er því um að gera að gefa sér tíma til að lesa eins og eina frábæra grein: “Miguel Delaney: 500 days of summer“.

    Greinin útskýrir mjög vel hvers vegna leikmannakaup og -sölur taka jafn langan tíma og raun ber vitni. Manni finnst alltaf að það ætti varla að taka nema 1-2 daga að semja um verð við seljanda eða kaupanda og samning við leikmanninn en þetta getur oft tekið vikur, jafnvel mánuði. Greinin útskýrir vel af hverju.

    Gott dæmi:

    “In the case of Wesley Sneijder, for example, it is understood that he does not want to actively push for a move to Old Trafford because he would relinquish up to €7m in loyalty payments.

    Inter, meanwhile, want to sell. But, because of the facts that he is a supporter hero, an asset that could command a huge fee and that they want sufficient money to reinvest elsewhere, their official line is that they don’t want to sell.

    As for Ferguson’s denial of any deal? A few months before allowing Ronaldo to leave he said he wouldn’t sell “that mob a virus”.”

    Sem sagt: Sneijder vill fara en vill ekki fara fram á sölu því þá missir hann af peningum. Inter vilja selja fyrir toppverð en vilja ekki láta sjást að þeir vilji selja þar sem Sneijder er vinsæll í Mílanó og segjast því ekki vilja selja. United vilja kaupa en vilja ekki sýnast örvæntingarfullir og segjast því ekki vera á leiðinni að kaupa hann. Og þess vegna mun þessi díll taka allan gluggann, og jafnvel þá er ekki öruggt að Sneijder fari til United eftir allt saman.

    Góð grein, mæli með henni. Það er t.d. engin tilviljun að Alex McLeish, stjóri Aston Villa, sagði að Stewart Downing væri ekki til sölu, viku áður en þeir seldu hann til Liverpool. Þeir vissu vel að hann væri á förum til Liverpool en urðu að bjarga andlitinu eftir söluna á Ashley Young og létu því eins og þeir ætluðu ekki að selja. Downing beið og beið og varð á endanum að fara fram á sölu til að fá skiptin í gegn. Liverpool urðu að hækka tilboðið sitt en biðu með það þangað til Downing steig fyrsta skrefið og þá loks tóku Villa tilboðinu.

    Með öðrum orðum, allir sigra: Villa gátu sagt að þeir hafi ekki viljað selja en þeir hafi neyðst til þess þar sem Downing heimtaði að fara og Liverpool gerði þeim tilboð sem þeir gátu ekki hafnað. Liverpool gátu sagt að þeir hafi fengið sinn mann og borgað nákvæmlega það sem þeir vildu fyrir hann. Downing fékk að fara til Liverpool. En í stað þess að klára þessi kaup á nokkrum dögum tók þetta tvo mánuði, allt til að hægt væri að spila pólitíkina og láta líta út eins og allir væru sigurvegarar.

    Þess vegna taka félagaskipti svona langan tíma. Mæli með þessari grein.

  • Samkeppnin – staðan á hinum stóru liðunum?

    Blessunarlega er staðan hjá okkur stuðningsmönnum Liverpool í dag þannig að við erum aðallega að velta okkur uppúr okkar eigin liði og hvað sé að gerast í leikmannakaupum og sölum hjá okkar mönnum. Loksins virðumst við vera að fá leikmenn til liðsins án þess að þurfa að selja góða leikmenn í staðinn og raunar höfum við eins og staðan er núna aðallega keypt leikmenn og ekkert selt að ráði. Liverpool-liðið er klárlega að styrkjast og óhætt að fullyrða að flest erum við ágætlega bjartsýn fyrir næsta tímabil, töluvert meira en fyrir síðasta tímabil þó fæstir búist við einhverri flugeldasýningu þar sem við rúllum deildinni upp, ekki nema þú hlustir á suma stuðningsmenn annarra liða alhæfa um stuðningsmenn Liverpool. Ekki taka það samt sem svo að ég sé að útiloka neitt, Liverpool er fullfært um nákvæmlega hvað sem er.

    En það er líka gaman svona þegar ekkert er að gerast í enska að skoða helstu keppinauta Liverpool og hvað þau lið eru að gera. Við enduðum erfiðasta tímabil í sögu Liverpool í 6. sæti og stefnum hærra næst og því einblíni ég auðvitað aðallega á þau lið sem voru fyrir ofan okkur í ár og í fyrra. Eins og staðan er núna trúi ég því meira en áður að baráttan geti orðið ansi jöfn á toppnum og ljóst að þrátt fyrir að okkar menn séu að styrkjast er ekki þar með sagt að liðin sem enduðu fyrir ofan okkur hafi ekki verið að því líka.

    Arsenal

    (more…)

  • Kop.is Podcast #3

    Hér er þáttur númer þrjú af podcasti Liverpool Bloggsins!

    KOP.is podcast – 3.þáttur

    Þið getið hlustað á þáttinn beint með því að nota spilarann hér fyrir ofan en þið getið líka smellt á DOWNLOAD-takkann og sótt mp3-skrána ykkur til hæginda. Einnig er hægt að gerast áskrifandi að þættinum á iTunes með því að setja þennan link, í RSS-áskrift undir podcast-lið iTunes.

    Ég (Kristján Atli) stýrði þættinum sem fyrr og með mér að þessu sinni voru SSteinn, Babú, Maggi og Einar Örn sem kom inná í hálfleik.

    Í þessum þætti ræðum við meðal annars kaupin á Charlie Adam og Stewart Downing, söluna á Paul Konchesky og endurkomu Alberto Aquilani og Emiliano Insúa, horfurnar á fleiri leikmannakaupum og -sölum í sumar, fyrstu tvo æfingaleikina í Asíu, endurnýjun/endurbyggingu Anfield og tímamótasamning Manchester City við Etihad-flugfélagið um nafngift heimavallar þeirra.

    Næsti þáttur verður svo í vikunni fyrir fyrsta deildarleik.

  • Staða leikmannahópsins

    Hér er skemmtileg tala: Annar leikmannaglugginn frá kaupum FSG á Liverpool FC er hálfnaður og nýju eigendurnir hafa þegar eytt meira en 100m punda í alls sex leikmenn. Eftir að hafa árin 2008-2010 séð liðið veikjast og meira selt en keypt verður þetta að teljast ansi jákvæð og skemmtileg tilbreyting.

    LEIKMANNAKAUP

    Það er enginn að segja að FSG eigi að eyða 100m+ á hverju ári, né að þeir þurfi þess, en þegar þeir keyptu liðið var augljóst að það þurfti að fjárfesta verulega í leikmannahópnum til að koma honum aftur í það stand að geta keppt um titla. Það hefur nú verið gert og þótt sumarið sé rétt hálfnað og vel líklegt að fleiri leikmenn muni bætast í hópinn er við hæfi að skoða aðeins hvaða breytingar hafa átt sér stað hingað til.

    Fyrst, þá er vert að minna á það að þótt þeir hafi eytt 100m+ í leikmenn hingað til hafa þeir einnig fengið til baka um 60m punda með því að selja leikmenn. Út hafa farið fjórir leikmenn hingað til: Torres, Babel, Jovanovic og Konchesky, og inn eru komnir þeir Carroll, Suarez, Henderson, Adam, Downing og Doni. Með því að leggja út um 40m punda nettó er því búið að breyta fjórum leikmönnum (einum frábærum meiðslapésa, einum vonbrigðapjakki og tveimur sem áttu ekkert erindi í liðið) í sex leikmenn (fimm sem bæta byrjunarliðið og/eða leikmannahópinn og besta varamarkvörð deildarinnar). Það kalla ég sniðug viðskipti.

    Lykilatriði í þessu er samt það að það er búið að breyta fjórum misjöfnum leikmönnum í sex sterka. Við vissum að það þurfti að láta ákveðna leikmenn fara í sumar en við vissum einnig að það þurfti nauðsynlega að auka breiddina í hópnum. Það er, að auka gæðasamkeppni um stöður í liðinu og bæta valkostina á varamannabekknum.

    LEIKMANNAHÓPUR

    Við skulum kíkja nánar á leikmannahópinn eins og hann lítur út í dag.

    Markverðir: Pepe Reina, Alexander Doni, Brad Jones, Peter Gulacsi, Martin Hansen.

    Bakverðir: Glen Johnson, Fabio Aurelio, Martin Kelly, John Flanagan, Jack Robinson, Emiliano Insúa.

    Miðverðir: Jamie Carragher, Daniel Agger, Martin Skrtel, Sotirios Kyrgiakos, Danny Wilson, Daniel Ayala.

    Miðjumenn: Steven Gerrard, Lucas Leiva, Charlie Adam, Raul Meireles, Alberto Aquilani, Jordan Henderson, Jay Spearing, Jonjo Shelvey, Christian Poulsen, Maxi Rodriguez.

    Sóknarmenn: Andy Carroll, Luis Suarez, Dirk Kuyt, Stewart Downing, Joe Cole, David Ngog, Daniel Pacheco.

    Þetta eru 34 leikmenn. Þar af eru 6 leikmenn (Wilson, Ayala, Flanagan, Robinson, Shelvey, Pacheco) undir 21s árs aldri sem þarf ekki að skrá í 25-manna leikmannahópinn. Eftir standa því 28 leikmenn og aðeins 25 þeirra munu fá skráningu fyrir Úrvalsdeildina næsta vetur. Það er hægt að giska endalaust á hverjir þeirra missa af og hverjir ekki en þetta þýðir klárlega að a.m.k. þrír af þessum leikmönnum (fleiri ef við kaupum fleiri leikmenn í þessum glugga) verða annað hvort seldir eða lánaðir í sumar því það er ekki pláss fyrir þá í hópnum.

    BREIDD

    Án þess að fara út í það að giska á hverjir fara skulum við aðeins skoða breiddina í þessum leikmannahópi eins og hann lítur út í dag. Ég tek hópinn sem ég taldi upp hér að ofan auk þeirra Conor Coady, Andre Wisdom og Raheem Sterling sem virðast vera þeir þrír unglingar sem eru næst því að komast að í liðinu. Við getum skipt þessum leikmannahópi upp í þrjú heil byrjunarlið:

    LIÐ 1:

    Reina

    Kelly – Carragher – Agger – Johnson

    Gerrard – Lucas – Adam

    Kuyt – Carroll – Suarez

    LIÐ 2:

    Doni

    Flanagan – Kyrgiakos – Skrtel – Aurelio

    Henderson – Meireles – Aquilani

    Cole – Ngog – Downing

    LIÐ 3:

    Jones

    Robinson – Ayala – Wilson – Insúa

    Shelvey – Spearing – Poulsen

    Maxi – Pacheco – Sterling

    AÐRIR: Gulacsi, Hansen, Wisdom, Coady.

    Þetta er einfaldlega hörkugóð breidd og mikil aukning frá síðasta tímabili. Skoðið aðeins Lið 3; þar eru leikmenn eins og Wilson, Shelvey, Spearing og Poulsen sem voru allir að spila talsvert á síðustu leiktíð, sem og Insúa sem var fastamaður í liðinu fyrir rúmu ári. Það að það séu tvö heil ellefu-manna-lið á undan þeim í goggunarröðinni (held við getum öll verið sammála um það að Lið 1 og Lið 2 séu á undan öllum í Liði 3 í röðinni) þýðir að leikmennirnir í Liði 3 geta varla búist við að spila of mikið í vetur, og jafnvel komast frekar sjaldan í leikmannahópinn.

    Við getum líka sett þetta upp á annan hátt: Jonjo Shelvey kom alloft inná og fékk marga sénsa hjá Dalglish eftir áramót. Var í öllu falli fastamaður í leikmannahópi. Prófum að stilla upp 18-manna leikmannahópi úr fyrstu tveimur Liðunum hér fyrir ofan og þá eru Spearing, Poulsen og a.m.k. einn af þremur miðjumönnum úr Liði 2 á undan honum í goggunarröðinni. Það er því mjög erfitt að sjá Shelvey komast oft á bekkinn hjá okkur á næsta tímabili.

    Með öðrum orðum, breiddin hefur stóraukist.

    Það eru ákveðnar spurningar við þennan stóra leikmannahóp: höfum við efni á að hafa alla þessa miðjumenn inni, eða munu Poulsen og annað hvort Meireles eða Aquilani víkja? Ætlar Dalglish að spila Johnson í vinstri bakverði í vetur, gefa Insúa séns eða kaupa vinstri bakvörð? Hverjir af ungu strákunum fara á láni í vetur?

    ÚTLENDINGAREGLAN

    Eins og ég kom inná hér að ofan eru í dag 28 leikmenn sem hafa náð 21s árs aldri í dag á skrá hjá félaginu. Aðeins 25 þeirra geta verið skráðir í leikmannahópinn fyrir tímabilið. Þar af verða þrír að vera uppaldir hjá félaginu og fimm aðrir að vera uppaldir í Englandi. Það er því pláss fyrir alls sautján „útlendinga“ í 25-manna leikmannahópi vetrarins.

    Þessi 28 manna hópur skiptist svona:

    Liverpool-uppaldir: Kelly, Carragher, Gerrard, Spearing, Insúa, Gulacsi, Hansen = 7 leikmenn.

    Englands-uppaldir: Jones, Johnson, Henderson, Carroll, Downing, Cole = 6 leikmenn.

    Erlendir leikmenn: Reina, Doni, Agger, Skrtel, Kyrgiakos, Aurelio, Adam, Lucas, Meireles, Aquilani, Poulsen, Suarez, Kuyt, Maxi, Ngog = 15 leikmenn.

    Þetta er nefnilega undirliggjandi tónninn í innkaupastefnu Comolli, Dalglish og FSG hingað til: enskir leikmenn. Út hafa farið fjórir leikmenn og aðeins einn þeirra var uppalinn í Englandi, hinir þrír eru erlendir. Inn hafa í staðinn komið sex leikmenn, þrír erlendir og þrír enskir. Carroll, Henderson og Downing eru hágæðaleikmenn sem taka ekki útlendingapláss í kvótanum. Suarez, Doni og Adam hafa komið inn og taka útlendingapláss í stað Torres, Babel og Jovanovic. Gæði leikmannahópsins hafa því verið stóraukin og breiddin aukin án þess að útlendingum í hópnum hafi fjölgað.

    Dalglish getur skráð allt að 17 erlenda leikmenn í 25-manna hópinn fyrir komandi tímabil. Hjá Liverpool í dag eru 15 erlendir leikmenn. Það er hvergi nærri hættumörkunum og því allt eins líklegt að næstu leikmannakaup komi erlendis frá, verði fleiri leikmenn keyptir í sumar.

    NIÐURSTAÐA

    Það er of snemmt að dæma þennan leikmannaglugga. Enn er eftir einn og hálfur mánuður til að selja og kaupa leikmenn og eins og talningin hér að ofan sýnir munu að minnsta kosti þrír leikmenn fara annað á láni eða sölu í þessum glugga. Þá vitum við ekki nákvæmlega hvað Dalglish ætlar sér með þennan hóp – er t.d. verið að reyna að selja Insúa eða á hann að leika lykilhlutverk? Við vitum þessa hluti ekki og því erfitt að meta sumarið fyrr en glugginn lokar og þessum spurningum hefur öllum verið svarað í lok ágúst.

    Hins vegar er þegar hægt að gleðjast yfir því að nýju eigendurnir, Fenway Sports Group, hafa staðið við stóru orðin og sett 100m+ brúttó (40m+ nettó) í nýja leikmenn. Þessir nýju leikmenn hafa aukið breidd leikmannahópsins, bætt gæði byrjunarliðsins (Suarez, Carroll, Downing og Adam verða væntanlega fastamenn í liðinu, það eru 4 stöður af 11 sem eru Dalglish-keyptir leikmenn) og leyst ýmis vandamál eins og móral (Torres, Babel) og fjölbreytni (vinstrifótarmennirnir Adam og Downing, skallamaðurinn Carroll, töframaðurinn Suarez, fjölhæfni Henderson, eins góður varamarkvarður og hægt er að búast við í Doni).

    Og þetta hefur allt áorkast án þess að fjölga útlendingum í leikmannahópnum.

    Við dæmum sumarið þegar það er á enda en eftir janúar og fyrri helming sumarsins held ég að við getum verið ánægð með frábær leikmannaviðskipti hingað til.

    MÍN SPÁ

    Ég stenst ekki mátið. Hvernig lýkur sumrinu? Hvernig koma Dalglish og Comolli þessum 28-manna hópi niður í 25? Ég held að það verði bið á næstu leikmannakaupum á meðan unnið er í að búa til pláss fyrir fleiri leikmenn. Svona spái ég að næstu 45 dagar fari:

    Gulacsi og Hansen verða lánaðir, það minnkar hópinn úr 28 niður í 26. Ungir strákar eins og Wilson, Pacheco, jafnvel Shelvey verða lánaðir líka.

    Jones, Poulsen og Ngog verða seldir. Annað hvort Aquilani eða Meireles verður líka seldur, annars lánaður ef það tekst ekki að selj’ann. Það minnkar hópinn úr 26 niður í 22.

    Svo kaupa Comolli/Dalglish Englands-alinn miðvörð (Scott Dann) og vinstri bakvörð (erlendan). Það setur leikmannahópinn aftur upp í 24.

    Svo, til að setja rjómann á tertuna, versla þeir eitt stórt nafn áður en sumarið er úti. 25. leikmaður hópsins. Aguero, Benzema, Hazard, Higuain, sú týpan. Frægur og virtur leikmaður sem kostar sitt en fyrst og fremst réttur maður fyrir Liverpool FC. Hver sem það verður.

    Þannig verður 25-manna-hópurinn okkar 1. september 2011. Heyrðuð það hér fyrst!

    Ath.: Ég tók Philipp Degen og Nabil El-Zhar ekkert með í reikninginn í þessum pælingum af því að það er ekki séns í helvíti að þeir verði skráðir í þennan 25-manna-hóp, hvort sem þeir verða seldir/lánaðir eða ekki. Þeim var ekki einu sinni boðið með til Asíu. Þannig að það er tilgangslaust að flækja málin með því að ræða þá eitthvað.

  • Ngog, Aquilani og City

    Til að koma þessari Roy Hodgson færslu aðeins neðar á síðuna þá vildi ég setja inn nýja færslu. Roy Hodgson lofræðan var semsagt samin af vinum mínum í steggjapartýi í gær og þeir voru með aðgangsupplýsingar mínar að síðunni og settu hana inn. Ég vona að engum hafi verið meint af þeim lestri.

    En það eru tvær athyglisverðar fréttir á The Guardian í dag um Liverpool. Annars vegar þá tjáir John Henry sig um tvo leikmenn Liverpool, Ngog og Aquilani og hrósar þeim fyrir frammistöðuna í gær. Um Ngog sagði hann meðal annars:

    >Put the ball near Ngog and the goal, and it’s going in. Too much talk of them [going] somewhere else.

    Sem er athyglisvert. Ég treysti því og trúi að Comolli og Dalglish séu að taka ákvarðanir um framtíð Ngog, en það verður að teljast ólíklegt að hann fari nema fyrir hann fáist einhver peningur. Ef engin lið vilja borga uppsett verð, þá er ábyggilega fínt að hafa Ngog áfram sem fjórða striker.

    Svo tjáir Ian Ayre sig um styrktarsamning Etihad við Manchester City. Sá samningur er auðvitað fáránlegur. Að ætla að taka gamlan völl, sem hefur haft nafn í mörg ár og fá 40 milljónir punda á ári til að setja á hann nýtt nafn, er algjörlega fáránlegt. Það er ekki nokkur leið að Etihad geti réttlætt þessi fjárútlát þar sem að félagið hefur t.d. aldrei skilað hagnaði. Ayre vill að Uefa rannsaki þennan samning, enda séu eigendur City og Etihad tengdir aðilar. Gott mál.

  • Roy Hodgson. Ekki svo slæmur? (uppfært)

    Uppfært (EÖE): Einsog menn smám saman áttuðu sig á í kommentaþræðinum við þessa færslu þá var verið að steggja mig og hluti af því var þetta djók, sem var skrifað og sett inn af vinum mínum í gær.

    Twitterheimar loguðu í morgun. Umræðuefnið var ævisaga Kenny Dalglish sem kemur út þann 21. þessa mánaðar. Bókin fer ítarlega yfir aðstæðurnar í kringum klúbbinn yfir valdatíð G&H. Kenny var náttúrulega viðstaddur mikið af baktjaldamakkinu, deilunum og svikunum í embætti sínu sem sendiherra Liverpool áður en hann tók við stjórnartaumunum. Mikið af áhugaverðum staðreyndum litu dagsins ljós í morgun en mig langar að ræða eina þeirra sérstaklega hér. Ég vona að Babú fyrirgefi mér að koma með þennan pistil svo stuttu eftir leikskýrsluna hans – en ég er búinn að velta þessu fyrir mér lengi.

    Samkvæmt nokkuð áreiðanlegum heimildum mun ævisaga Kenny innihalda kafla um hvernig G&H ásamt öðrum öflum (Broughton?) innan Anfield hafi grafið markvisst undan stjóra liðsins. Það sem er áhugavert við þetta er að stjórinn sem um ræðir er ekki Rafa Benitez heldur Roy Hodgson. Þetta er eitthvað sem mig hefur grunað í nokkurn tíma og ég er þeirrar skoðunar að hefði Roy fengið almennilegan stuðning frá klúbbnum eða í versta falli ekki verið fórnarlamb niðurrifsstefnu G&H, þá hefðum við ekki horft upp á andlaust Liverpoollið um miðbik deildarinnar.

    Ekki misskilja mig. Roy skoraði sinn skerf af sjálfsmörkum. Nægir að horfa til skelfilegrar uppstillingar á móti Manchester City í byrjun tímabilsins. Hins vegar vil ég meina að Roy hafi aldrei fengið sanngjarnan sjéns með Liverpoolliðið.

    Förum yfir staðreyndir.

    Roy hefur náð ótrúlegum árangri með fjöldann allan af liðum. Nægir þar að nefna Halmstad og Malmö í Svíþjóð. Menn benda gjarnan á það að þetta séu smáklúbbar og að Liverpool hafi verið nokkrum númerum of stór fyrir Roy. Það er rétt að þessir klúbbar eru langt frá Liverpool í stærð, sögu og getu. En eftir að hafa búið í Svíþjóð í rúm 2 ár og hlustað á margan fótboltaspekinginn og heimamenn almennt fara fögrum orðum um þennan fyrrverandi stjóra okkar ástkæra klúbbs verð ég að segja að árangurinn sem Roy náði í Svíþjóð var engin tilviljun.

    Hann kippti náttúrulega sænskri knattspyrnu inn í nútímann með því að innleiða 4-4-2 kerfið með fljóta kantmenn og stóran framherja. Þetta kerfi, ásamt öguðum varnarleik (nokkru sem við margbölvuðum í fyrra) skilaði honum verðskulduðum árangri. Svo góðum reyndar að Malmö bauð honum æviráðningu og margur Svíinn eignar Roy góðan árangur Svíþjóðar á HM ’94, þ.á.m. Tomas Brolin sem minntist á hann í ævisögu sinni og telur hann einn af þremur mestu áhrifavöldum á sænska knattspyrnu.

    Ef menn horfa yfir feril Roy þá er einn hlutur sem einkennir liðin sem hann náði árangri með. Tími. Roy er ekki þekktur fyrir að snúa gengi liða á punktinum. Þvert á móti kemur hann inn með langtímaáætlun og aga og yfir nokkrar leiktíðir má sjá umtalsverðar breytingar á liðinu. Sjáið hvernig hann leggur upp æfingarnar með því að fara í gegnum situation play, aftur og aftur og þann árangur sem það skilar! Sjáið árangur hans með Sviss. Sjáið árangur hans með Finnland. Svo ekki sé minnst á Inter!

    Ég kvartaði náttúrulega manna mest yfir leikstíl liðsins undir stjórn Roy, en þegar ég horfi til baka þá var ég ekki endilega alveg sanngjarn.

    Ímyndið ykkur t.a.m. að Roy hefði fengið Downing og Carroll, eða með öðrum orðum ef Roy hefði fengið þennan hraða kantara og stóra framherja sem hann vildi alltaf fá og margbað um. Ímyndið ykkur að Roy hefði fengið 1-2 tímabil með þannig liði.

    Enginn er gallalaus. Vandamál Roy voru að mínu þrenn:

    Í fyrsta lagi fékk hann ekki þann stuðning sem hann átti skilið. Hann fékk ekki að kaupa kantmann og framherja. Hann gerði það besta sem hann gat úr lélegum aðstæðum. Já, hann keypti Konchesky. Já hann keypti Brad Jones. En hann keypti líka Joe Cole og Christian Poulsen, menn sem ég er sannfærður um að munu sína sitt rétta andlit fyrr en síðar og bera æfingaleikirnir í Malasíu og Kína þess greinilega merki.

    Í öðru lagi fékk hann ekki tíma. Það tekur tíma fyrir lið að breyta um leikstíl. Það er ekki þannig að 4-4-2 hafi bara allt í einu hætt að virka. Hefði Liverpool náð tökum á leikkerfinu og hefðu þeir verið með réttan mannskap til að spila kerfið hefði árangurinn komið fljótt.

    Þriðja og síðasta vandamál Roy var persónuleiki hans. Hann er góður karl. Hann er eins og afi manns. Hann er þessi friðsæla sál sem er ekki að æsa sig. Hann spilaði ekki á pressuna. Hann hraunaði ekki yfir Ferguson. Það er alveg ljóst að hann glataði trausti aðdáenda og ensku pressunnar löngu áður en hann glataði trausti leikmannanna. Ef Roy hefði ekki verið að stjórna Liverpool á jafnmiklum umbrots- og baktjaldamakkstímum held ég að árangurinn hefði verið annar og betri.

    ***

    Roy Hodgson gaf sig allan í starf stjóra Liverpool. Hann gerði margt gott og ef ekki hefði verið grafið markvisst undan honum hefði hann mögulega náð góðum árangri með liðið. Auðvitað urðu leikmenn hægt og bítandi þreyttir á ástandinu. Roy var það örugglega líka þó hann hafi borið harm sinn í hljóði.

    Liverpoolmenn fögnuðu rækilega þegar Roy var rekinn frá klúbbnum. Ég var þar engin undantekning og ef eitthvað er fagnaði ég hæst og mest. Síðan þá hafa mörg vötn runnið til sjávar og sé ég nú að Roy var ekki alslæmur. Hann var minna rangur maður heldur en á röngum tíma.

    Eitt er að minnsta kosti morgunljóst að mínum dómi: Roy vann starf sitt af heilindum og ást hans á Liverpoolklúbbnum er sterk. Ævisaga King Kenny tekur undir þetta. Svoleiðis fólk ættum við ekki að tala niður heldur tala um af virðingu – jafnvel þótt árangurinn hafi látið á sér standa.

    Var Roy svo slæmur? Ég vil fá hann í embætti hjá klúbbnum. Hann myndi sóma sér vel sem sendiherra Liverpool með Thompson. Hann myndi sóma sér enn betur sem þjálfari á Melwood. Þar erum við að byggja upp mikið og gott ungliðastarf – með enskum leikmönnum – og því er mjög mikilvægt að hafa sterkan mann eins og Roy til þess að móta ungliðana okkar og beisla þessa ensku harðneskju sem við höfum séð hjá heimamönnum eins og Carragher og Gerrard og er nauðsynleg í Premier League.

    Roy, You‘ll Never Walk Alone.

  • Malaysia XI – Liverpool 3-6

    Uppfært: Leikskýrsla
    Þú veist að þetta jaðrar við að vera vandamál þegar þú ert farinn að rífa þig upp til að horfa á æfingaleik í júlí sem fer fram í Malasíu að morgni til að íslenskum tíma. Flestir hér inni eiga auðvitað við þetta “vandamál” að stríða og það er ekki hægt annað en vera sáttur við æfingaleik sem inniheldur níu mörk.

    Dalglish fór heim til að ganga frá kaupunum á Downing og Doni og því var það Steve Clarke sem stillti liðinu svona upp í þessum leik:

    Byrjunarliðið:

    Jones

    Flanagan – Carragher – Agger – Robinson

    Coady – Spearing – Adam – Cole
    Meireles
    Carroll

    Bekkur: Gulacsi, Hansen, Maxi, Pacheco, Kyrgiakos, Kuyt, Wilson, Ngog, Poulsen, Shelvey, Kelly, Wisdom, Aquilani, Insua.

    Tempóið í fyrri hálfleik var ekkert gríðarlegt og líklega var nokkuð heitt í Malasíu í dag. Charlie Adam var að spila sinn fyrsta leik í byrjunarliði Liverpool og var líklega besti leikmaður okkar í fyrri hálfleik og átti nokkrar álitlegar sendingar sem lofa góðu upp á tímabilið. Hann skoraði líka fysta mark leiksins er hann endurtók vítaspyrnu sem Andy Carroll fékk gefins frá dómara leiksins er hann var að reyna að ná fyrirgjöf frá Adam. Adam tók spyrnuna reyndar tvisvar þar sem dómarinn var eitthvað ósáttur við fyrri spyrnuna en skotinn afgreiddi báðar af miklu öryggi.

    Mohd Safiq Rahim leikmaður Malasíu jafnaði síðan metin rétt fyrir leikhlé með þræl keppnis marki úr aukaspyrnu. Brad Jones átti reyndar að öllum líkindum að eiga þennan bolta, annaðhvort það eða þá að hann stillti veggnum fáránlega upp því leiðin að marki virtist ansi greið úr spyrnunni.

    Í leikhléi skipti Clarke öllum okkar varamönnum nema Pacheco, Wisdom og Hansen inná og byrjunarliðið í seinni hálfleik var því svona:

    Gulacsi

    Kelly – Kyrgiakos – Wilson – Insúa

    Poulsen – Shelvey
    Kuyt – Aquilani – Maxi
    N´Gog

    Þar með var besti leikmaður vallarins, Alberto Aquilani kominn inná og hann tók við stjórninni á miðjunni og gerði það svo vel að meira að segja eigandi félagsins, hinn nýji Ryan Babel, twittaði þessu í seinni hálfleiknum:

    John W. Henry
    One missing link last year: Acquilani. Put the ball near Ngog and the goal and it’s going in.

    Mjög hressandi að sjá þetta og vonandi merkir þetta að ítalinn fái annan séns á Anfield. Annar leikmaður sem gaman var að sjá aftur Emiliano Insúa spilaði líka vel og skilaði meiru til sóknarleiks okkar manna í þessum seinni hálfleik heldur en Konchesky allt árið í fyrra.

    Liverpool var svosem ekki með neina flugeldasýningu í þessum leik og úrslitin bara nokkuð fáránleg en líklega segir þetta eitthvað smá um mótherjann. Eftir rúmlega klukkutímaleik náði David N´Gog loksins að koma okkar mönnum aftur yfir í leiknum og það með ekki litlu heppnismarki. Insúa sem var að spila eins og kantmaður sendi bolta fyrir markið sem fór í bakvörðinn, þaðan í miðvörðinn sem sparkaði boltanum í hinn miðvörðinn þaðan sem hann rúllaði óvænt fyrir fætur N´Gog sem gat ekki annað en skorað. Stórglæsilegt mark auðvitað.

    N´Gog var ekki lengi að bæta öðru marki við eftir góða sendingu frá Aquilani. Maxi bætti fjórða markinu við eftir góða fyrirgjöf frá Insúa sem fékk auða flugbraut upp kantinn eftir að Aquilani fann hann með góðri sendingu. Staðan því orðin 1-4 og leikurinn loksins í höfn.

    Eitthvað gleymdist að láta Malasíu menn vita af því og þeir komu sér heldur betur aftur inn í leikinn, fyrst með hjálp frá Martin Hansen sem kominn var í markið og síðan frá dómara leiksins. Fyrra markið kom í kjölfar afar mikils klaufagangs Hansen í markinu sem missti að því er virtist saklausa fyrirgjöf beint fyrir fætur sókarmanns Malasíu sem þakkaði pent fyrir sig og minnkaði muninn. Örstuttu seinna fékk sami sóknarmaður, Sali, annað dauðafæri sem hann nýtti glæsilega. Hann virtist reyndar vera svona 3-4 metra fyrir innan vörn Liverpool þegar hann fékk sendinguna innfyrir en auðvitað var það fullkominn óþarfi að taka markið af kallgreyinu!

    Maxi Rodriguez klárði leikinn svo með góðu skallamarki eftir fyrirgjöf frá Kuyt og Hollendingurinn fljúgandi geirnelgdi þetta síðan sjálfur er hann hammraði inn sjötta marki Liverpool í leiknum.

    Þetta var æfingaleikur og tempóið ekkert gríðarlegt. Að vanda er nákvæmlega ekkert hægt að lesa í æfingaleik og því ætla ég ekki einu sinni að reyna það. Það er bara alltaf gaman að sjá Liverpool spila og auðvitað sjá nýja leikmenn. Adam og Aquilani lofa góðu, Insúa og Cole gætu einnig orðið eins og ný leikmannakaup á þessu tímabili og N´Gog heldur áfram að vera flottur í júlí.

    Næst held ég að það sé Valerenga og persónulega fagna ég því að þessi auglýsingatúr sér búinn.


    Annars talandi um eiganda Liverpool og burtséð frá leiknum þá má ég til með að setja hér inn FACE dagsins í gær sem hann Höddij, meðlimur hérna í Kop.is samfélaginu ef ég man rétt fékk verðskuldað í gærkvöldi á twitter.

    Höddi, hress eins og sunnudagsmorgun póstaði þessari speki á John W Henry sem líklega hefði ekki haft það út daginn án þess að heyra hans álit:

    @hoddij – Hörður Jónsson
    @John_W_Henry we won´t make the Champions League , and won´t be able to sign the best players yet again, willing to bet my house on that …

    John W Henry, öllu ríkari en Höddi geri ég ráð fyrir svaraði þessu eflaust með það í huga að taka þessu helvítis veðmáli:

    John_W_Henry
    @hoddij How high are the property taxes in Iceland?

    …og síðan hefur lítið heyrst til Hödda.

    Uppfært: Leik lokið.
    Kærar þakkir Liverpool og Malasía, ég ætlaði að komast upp með örstutta og ómerkilega skýrslu eftir þennan næturæfingaleik. Lokatölur 3-6 sem gera níu mörk og við gerðum 12 skiptingar! FRÁBÆRT.

    Lítil og nett skýrsla á leiðinni.

    Uppfært (hálfleikur):
    Steve Clarke hefur verið hoppandi brjálaður með fyrri hálfleikinn og skiptir bara öllum útaf:

    Byrjunarlið Liverpool í seinni hálfleik:

    Gulacsi

    Kelly – Kyrgiakos – Wilson – Insúa

    Poulsen – Shelvey
    Kuyt – Aquilani – Maxi
    N´Gog


    Liverpool er núna í Kuala Lumpur að spila sinn annan æfingaleik á þessu ári, núna gegn úrvalsliði Malasíu. Leikurinn er í gangi og við uppfærum leikskýrslu hingað inn að honum loknum og getum haldið umræðu um leikinn í ummælum hérna.

    Byrjunarliðið er svona:

    Jones

    Flanagan – Carragher – Agger – Robinson

    Coady – Spearing – Adam – Cole
    Meireles
    Carroll

    Bekkur: Gulacsi, Hansen, Maxi, Pacheco, Kyrgiakos, Kuyt, Wilson, Ngog, Poulsen, Shelvey, Kelly, Wisdom, Aquilani, Insua.

    Reina, Gerrard, Johnson eru allir á Melwood. Sama held ég að megi segja um Aurelio ásamt auðvitað Downing og Doni sem eru nýkomnir. Henerson fékk lengra frí og Lucas og Suarez gengur ekkert að láta slá sig út í Copa America. Dalglish er síðan ekki á bekknum þar sem hann fór heim til að taka í spaðann á Downing og Doni þannig að Steve Clarke er að stýra liðinu í dag.

  • Stewart Downing mættur!

    Eftir töluverðan eltingaleik frá lokum leiktímabilsins var það staðfest núna í kvöld að Stewart Downing mun leika með Liverpool FC á næsta leiktímabili, eftir að við keyptum hann frá Aston Villa fyrir eitthvað á bilinu 16 – 20 milljónir punda.

    Kenny Dalglish yfirgaf æfingabúðir LFC í Asíu á fimmtudag til að ganga frá málinu, og strax þá heyrðist í ánægðum varafyrirliðanum, Jamie Carragher um kaupin.


    Stewart Downing er fæddur 22.júlí 1984 og verður því 27 ára á allra næstu dögum. Hann er 180 sentímetrar á hæð og passlega þungur í samræmi við hæð!

    Knattspyrnuferilinn hóf hann á heimaslóðum sínum í Norð-austrinu, nánar tiltekið í Middlesbrough, sem hafa í gegnum tíðina selt okkur ágætis leikmenn, Graeme Souness fremstan þar í flokki, en auðvitað gleymum við ekki Ziege-málinu. Fyrsta leik sinn fyrir félagið lék hann vorið 2002, þá 17 ára gamall, gegn Ipswich Town í Úrvalsdeildinni.

    Það var þó ekki fyrr en tímabilið 2003 – 2004 sem hann varð fastur maður í liði Boro’, eftir reyndar að hafa hafið leiktíðina sem lánsmaður hjá Sunderland. Á þessum tíma var Steve McLaren stjóri félagsins, með það í evrópukeppnum og í efri hluta deildarinnar og á þessu tímabili vann liðið enska deildarbikarinn, League Cup, með Downing innanborðs. Næsta leiktímabil lék hann landsleik nr. 1 af 27 hingað til þegar hann kom inná í leik gegn Hollandi í febrúar 2005. Slæm meiðsli haustið 2005 styttu það tímabil töluvert en hann var þó í lykilhlutverki í lokahnykk Boro’ í UEFA keppninni það ár, sem endaði með tapi í úrslitaleik vorið 2006. Eftir það fór að halla undan fæti hjá liðinu, sem svo féll úr deildinni vorið 2009.

    Downing var lykilmaður og alltaf ljóst að hann færi ekki niður um deild með því en það kom þó mörgum á óvart þegar Aston Villa greiddi 10 milljónir punda fyrir hann þá um vorið, enda Downing meiddur og á hækjum þegar skrifað var undir, eftir slæm meiðsli sem hann hlaut í lokaumferðunum, einmitt í leik gegn Villa. Auk þessara 10 hljóðaði kaupverðið upp á aðrar 2 milljónir eftir ákveðið magn leikja, og þá upphæð fékk Middlesbrough í vetur, þannig að kaupverðið telst 12 milljónir í heild.

    Síðustu 2 leiktímabil hefur Downing svo verið fastamaður á Villa Park, bæði á hægri og vinstri kanti. Eftir fínt tímabil 2009 – 2010 má þó segja að síðastliðið tímabil hafi frægðarsól hans virkilega risið, hann var valinn leikmaður ársins hjá öllum sem tengjast Aston Villa – bæði leikmönnum, aðdáendum og fjölmiðlum. Enda var ljóst frá vori að liðið hugðist gera mun meira til að halda honum en Ashley Young, nýji stjórinn McLeish meira að segja sagði hann ekki til sölu lengi vel, allt þar til miðvikudaginn 13.júlí að Downing fór formlega fram á sölu frá Villa, gaf þar eftir stóra upphæð sem hann hefði átt rétt á (talað um 1.5 milljón punda) og gerði öllum ljóst að hann vildi fara í rauða treyju.

    Svo, eftir 223 leiki og 25 mörk í ensku úrvalsdeildinni er Stewart Downing nú orðinn leikmaður Liverpool Football Club. Töluverð umræða verður alltaf um kaupupphæðir en mér finnst óþarfi að minnast á slíkt. Við höfum í gegnum tíðina alltof oft misst af leikmönnum vegna þess að við guggnuðum á að borga uppsett verð (Pato, Dani Alves, Malouda og Jovetic anyone?) en þarna var farið eftir leikmanni sem Kenny Dalglish lagði mikla áherslu á að fá.

    Á undanförnum vikum hefur mikil umræða farið fram um ágæti Downing og hann borinn saman við marga, helst Juan Mata. Samanburður er alltaf frekar erfitt vopn þegar gripið er til mannvera sem ekki hafa rauntölur eins og í FM eða FIFA en þó hefur í tölfræði sem birtist á Twitter og eru raktar til Opta mátt finna ástæður þess að FSG, Dalglish og Comolli gengu svo hart eftir því að láta strák skrifa undir.

    Í samanburði Downing við alla kantmenn deildarinnar er hann á pari í flestum þáttum. Hvort sem það er heppnað sendingahlutfall, áframhlaup (forward-runs), skot að marki og hlutfall á markið, eða lykilsendingar. Í einum þætti ber hann höfuð og herðar yfir alla leikmenn deildarinnar. Það er allt sem við kemur krossum inn í teig. Fjöldi þeirra í heild, fjöldi á samherja og hlutfall því tengt. Að auki er þarna þriðji leikmaðurinn sem við kaupum í sumar sem er mjög góður spyrnumaður í föstum leikatriðum!

    Í samanburðartölfræðinni er á ferðinni lykilatriðið í kaupum okkar á Stewart Downing. Þar er á ferðinni fyrsti hreinræktaði vængmaðurinn sem getur krossað inn í teiginn, með góðan hraða til að komast framhjá bakvörðum og með þann góða kost að geta spilað með hægri og vinstri.

    Töluvert er spáð í leikkerfum hér á Kop-inu og þá um leið hvar Downing mun spila. Ég sjálfur tel kaupin á Henderson, Adam og Downing vera merki um að við munum mest spila 4-4-2 (eða 4-4-1-1) með aggressívum vængmanni á öðrum kanti og overlapping bakverði á hinum og síðan 3-5-2 með vængbökum (wing-backs). Í báðum kerfum verður ætlunin að hann muni verða sá sem flýgur framhjá bakverði andstæðinganna. En leikkerfi geta færst til og hann er ýmsu vanur varðandi leikstöður og taktík gegnum tíðina og á að geta aðlagað sig flestu.

    Eitt er allavega ljóst. Með kaupum á Stewart er verið að reyna að fjölga vopnum í búrinu okkar fyrir næsta vetur, á þann hátt sem FSG hafa lagt áherslu á. Þarna er á ferðinni dæmigerður solid, tölfræðileikmaður með mikla reynslu, tilbúinn að ná hátindi ferils síns á Anfield.

    Við skulum öll vona að sú verði raunin!

    Aftur, velkominn Stewart Downing!!!

  • Doni semur við Liverpool (staðfest)

    Á LFC.tv núna: Alexander Doni semur við Liverpool.

    Þetta eru góðar fréttir, að mínu mati. Doni verður #2 á eftir Pepe Reina að sjálfsögðu og er ekki aaalveg af sama klassa og Pepe en hann er talsvert betri en hinir markverðirnir okkar. Eins og Comolli útskýrir er pælingin sú að hafa reyndan og traustan valkost á bekknum og leyfa ungu markvörðunum að fara annað á meðan og öðlast reynslu. Þannig að við getum gert ráð fyrir að Gulacsi og jafnvel Hansen líka verði lánaðir í sumar og að Brad Jones sé sennilega til sölu.

    Mér líst vel á þetta. Hópurinn er að taka á sig skýra mynd og breiddin er að aukast á öllum vígstöðvum. Nú erum við vel settir með háklassa landsliðsmarkvörð (10 landsleikir fyrir Brasilíu) ef Pepe skyldi meiðast eða missa úr einhverja leiki.

    Hér er nýi varmarkvörðurinn okkar í aksjón:

    http://www.youtube.com/watch?v=IRK3f8XhgCg

  • Aston Villa tekur tilboði Liverpool í Stewart Downing (STAÐFEST)

    \"\"

    Liverpool hafa tilkynnt það á opinberu síðunni að Aston Villa hafa tekið tilboði Liverpool í Stewart Downing. Ekkert er sagt til um upphæð tilboðsins. Við munum uppfæra þessa færslu þegar að meiri upplýsingar berast.

    Mér líst ótrúlega vel á þessi kaup!

    Uppfært (EÖE) Sky halda því fram að tilboð Liverpool hafi verið um 20 milljónir punda. Arsenal buðu víst líka í Downing, en leikmaðurinn hafði gefið það skýrt í skyn að hann vildi fara til Liverpool.

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close