Í gær má kannski segja að hið formlega undirbúningstímabil hafi stigið inn á næsta skref.
Fyrsti hluti tímabilsins er alltaf að taka á móti mönnum úr sumarfríi, þeir fara í alls konar mælingar á fyrstu dögunum tengda líkamsástandi þegar úr fríi er komið. Hér einu sinni var það bara að stíga á viktina en mér skilst að töluvert meira sé í lagt nú en áður og ólíklegustu mælingar á vöðvastærð, fituprósentum alls konar og mælingar á vítamín og fitusýruinnihaldi í blóði svo eitthvað sé nefnt.
Útfrá mælingunum fara svo þrekþjálfarnir í að setja upp næsta skref, þrekprógrammið sem keyrt er í gang þegar allt er klárt. Um 85% af því er miðað við hópinn en um 15% er svo einstaklingsmiðað…svona almennt séð, hef því miður aldrei verið á undirbúningsæfingum hjá Liverpool en þetta er víst ca. svona.
Þetta þrekprógramm er nú í gangi og verður út júlímánuð hið minnsta. Það er alltaf meira vesen á “sléttu tölunum” í ártölunum því að þá er stór hópur leikmanna oft í burtu í landsliðsverkefnum og eins var nú. Sjö með Englandi, einn með Belgíu, Spáni, Frakklandi, Fílabeinsströndinni og Úkraínu Úrúguay (jú víst…Coates). Mér skilst þó að nú sé tæknin orðin slík að þrekteymi félags- og landsliða séu í sambandi á meðan á svona mótum stendur og skiptist þá á alls konar tölum.
Sérlega gaman var að sjá að Rickie Lambert ákvað að mæta snemma til æfinga á Melwood, fór í örstutt sumarfrí eftir Brasilíu og hefur tekið þátt í æfingum síðustu daga, staðráðinn í að sanna sig á nýjum stað.
Í gær var svo fyrsti æfingarleikurinn, gegn fínu Bröndbyliði í Danmörku, liði sem leggur af stað í sinn fyrsta deildarleik nú um helgina og því á lokapunkti undirbúningstímabilsins. Ég sá ekki leikinn beint, en fékk SMS frá ágætum vini sem ekki heldur með okkar dásamlega liði.
“Niðurtúrinn er byrjaður vinur, one season wonders!” – svo dásamlegt orðið hvað aðrir aðdáendur en við velta sér uppúr hvernig okkur gengur. Ég semsagt reiknaði með stórum skelli og allt í volli. Tók mér svo tíma til að horfa á leikinn þegar heim var komið seint í gærkvöldi og ég var bara nokkuð glaður.
Því þrátt fyrir 1-2 tap fannst mér margt líta vel út. Það er auðvitað leiðinlegt að hafa tapað en það er í raun líka jákvætt á undirbúningstímabili að sjá hvar vantar. Í gær náttúrulega hrópaði á mann hve auðvelt var að skora á vörnina okkar og markmanninn. Það hefur Rodgers ritað í bókina sína, en var eitthvað sem við eigum alveg að vera farin að venjast. Við vorum ekki með okkar bestu hafsenta eða djúpa miðjumann og gapið var töluvert…og svo er Brad Jones ekki nógu góður markmaður. Fínn drengur án vafa, en ekki nógu góður í marki að mínu áliti.
En hvað var þá jákvætt? Í mínum huga var frábært að sjá Coutinho spila fótbolta. Með allri virðingu fyrir öllum hans löndum þá held ég að í fótum hans muni margt liggja varðandi framtíð Brassa. Þessi strákur er svo skapandi og flottur að hann bara á að fá að stilla strengina okkar í vetur. Það væri svo óskandi að hann og Lallana nái saman – þá verðum við heldur betur með skapandi miðju!
Næst kom jákvætt í röðinni að fylgjast með Jordan Ibe. Sá er árinu yngri en Sterling en er eiginlega bara kópía af Raheem þegar hann braust inn í liðið. Ótrúlegur sprengikraftur og hraði með mikilli tækni, en ennþá ekki nógu góður að klára færin sem hann skapar sér. Átti markið okkar skuldlaust og átti að koma okkur yfir stuttu síðar. Ef hann heldur svona áfram í sumar vill ég halda honum á Anfield næsta tímabil og lána hann ekki neitt.
Þessir tveir skinu skærast en ég var líka glaður með Wisdom og Suso (utan þess að Suso gaf fyrra mark Bröndby einn og sér) auk þess sem mér fannst reynslumennirnir hlaupa vel í gegnum leikinn. Auðvitað er erfitt að sanna sig og það fengu margir hinna ungu að reyna, Teixeira, Coady og Adorjan ollu mér vonbrigðum en þeir munu mögulega fá mínútur líka á laugardaginn gegn Preston til að sanna sig.
Eftir þann leik er svo næsta skref, ferðin til Ameríku. Þá mæta þeir sem fengu lengra frí til leiks og taka þá tólf sæti umfram þau sem voru tekin frá í vélinni til Danmerkur í fyrradag. Í dag var tilkynnt hverjir fara með í þann túr og þar bætast líka við þeir Can, Enrique og Markovic sem ekki fóru með í fyrsta leikinn heldur.
Það þýðir að fimm fara ekki með til Ameríku sem voru með í gær og reikna má þá með að séu búnir að fá þau skilaboð að þeir séu enn aðeins frá aðalhópnum. Það eru þeir Kristian Adorjan sem ég held að verði nú losaður frá félaginu, Brad Smith sem talinn er líklegur til að fara á lán nú á næstu dögum, markaskorarinn Kris Peterson, Kevin Stewart sem við fengum nýlega frá Tottenham og Jordan Rossiter en þessir þrír munu í staðinn fara á fullt að æfa með U-21s árs liðinu okkar og leika einhverja æfingaleiki á þeim vettvangi.
Það að fara nú til Ameríku með 33 leikmenn segir okkur það að hópurinn okkar er býsna stór. Í hópnum eru bara tveir sem hægt er að segja að séu algerlega óreyndir, fjórði markmaðurinn Darren Ward og miðjumaðurinn Adam Phillips sem er fæddur árið 1998 og er talið gríðarlegt efni.
Undirbúningstímabil skiptir því miklu máli þegar kemur að því að koma líkamanum í stand og hverjir eru nógu góðir líkamlega og andlega til að spila með liðinu. Tíu daga túr til Ameríku á að skera úr um það að einhverju leyti, því þegar kemur að ákveðnum degi mega aðeins 25 leikmenn fá skráningu í keppnir. Miðað við hópinn til Ameríku þá munu 8 leikmenn ekki fá skráningarpappíra. Miðað við umræður á netinu erum við enn líklegir til að bæa við okkur og þá þarf enn að fækka í hópnum.
Vissulega eru enn ungir menn, undir 21s árs aldrinum sem ekki þarf að skrá en það er alveg ljóst að í Ameríkuferðinni munu margir fá mínútur sem er verið að nýta til að sjá hvort að viðkomandi er til í slaginn. Það er lykilatriðið í undirbúningstímabili hvar sem er í heiminum en ennþá frekar á svo stuttu undirbúningstímabili og félagið fær, í raun bara um mánuður með alla leikmenn félagsin.
Svo að með þetta í huga skulum við horfa til þess hvað er að gerast í klúbbnum okkar, það er bara engin ástæða til að grafa sig í skurð eða hoppa upp í himinn þegar maður horfir á leikina. Að auki passa sig á að sýna virkilega yfirvegun í öllum lestri á alls konar aðstæðum í leikjum, kringum þá eða á netinu.
Þetta heitir jú “Silly season” út af einhverju!