Latest stories

  • Komdu með Kop.is á Anfield!

    Kop.is og Úrval Útsýn kynna ferð á Liverpool – WBA helgina 2.-6. október n.k.!

    Það er komið að því! Eftir tvær (október, febrúar) frábærlega vel heppnaðar ferðir Kop.is og Úrval Útsýnar á leiki á síðustu leiktíð höfum við sett saman aðra ferð og nú vonumst við til að sjá sem flesta með í för.

    Þátttaka og stemning síðasta vetur fór fram úr björtustu vonum og menn skemmtu sér konunglega. Nú ætlum við að endurtaka leikinn og bjóðum upp á frábæra ferð á leik Liverpool og West Brom í byrjun október. Nú þegar er góður fjöldi kominn á lista í ferðina og því hvetjum við menn til að hika ekki heldur panta sér pláss með okkur í skemmtiferð ársins!

    Til að panta pláss í ferðina er hægt að hafa samband við Sigurð Gunnarsson hjá Úrval Útsýn á siggigunn@uu.is eða Luka Kostic hjá Úrval Útsýn á luka@uu.is. Endilega skellið ykkur með – það er stutt í ferðina og takmarkað sætaframboð. Síðast komust færri að en vildu og við mælum með að fólk bíði ekki of lengi með að tryggja sér miða!

    Boðið verður upp á Kop.is-dagskrá yfir helgina og í kringum leikinn en ferðalöngum verður frjálst að nýta sér það eftir eigin óskum. Fólk getur kastað mæðinni í glæsilegri miðborg Liverpool, verslað smá og farið sýningartúrinn á Anfield með Kop.is-genginu. Endilega lesið borgarvísi okkar um Liverpool-borg til að sjá hvað hægt er að gera í þessari skemmtilegu borg, annað en að sjá frábæra knattspyrnu og óstöðvandi heimalið á Anfield.

    Innifalið í ferðinni er meðal annars:

    • Íslensk fararstjórn.
    • Flug til London Gatwick fimmtudaginn 2. október kl. 15:25.
    • Gisting á Holiday Inn í Crawley eina nótt (lítill bær rétt við Gatwick-flugvöll).
    • Kráarkvöld í miðbæ Crawley á fimmtudagskvöldið.
    • Rúta til Liverpool (u.þ.b. 5 klst. löng) eftir morgunmat á föstudegi. Komið verður til Liverpool fljótlega upp úr hádegi.
    • Sérstakt Kop.is Pub-quiz í rútunni þar sem veglegir vinningar verða í boði!
    • Gæðagisting á nýuppgerðu lúxushóteli Titanic Hotel niðri á Stanley Dock, steinsnar frá miðborg Liverpool.
    • Aðgöngumiði á leikinn gegn West Bromwich Albion laugardaginn 4. október.
    • Rúta til London/Gatwick og flug heim þaðan mánudaginn 6. október kl. 20:40.

    Máltíðir aðrar en þær sem eru nefndar, drykkir með kvöldmat og annað almennt sem ekki er nefnt hér að ofan er ekki innifalið.

    Verðið er kr. 149.500 á mann í tvíbýli.

    Eins og áður sagði hafið þið samband við Luka Kostic hjá Úrval Útsýn í síma 585-4107 eða á luka@uu.is til þess að panta ykkar sæti í þessa ferð.

    Ferðaáætlun er í grófum dráttum sú að hópurinn flýgur saman til Gatwick-flugvallar í London. Þaðan verður farið beint á hótelið í Crawley town, og þaðan út að skoða bæinn og veitingarnar um kvöldið. Morguninn eftir er morgunverður á hótelinu. Að morgunverði loknum tekur við rútuferð til Liverpool-borgar. Allajafna eru rútuferðir ekki spennandi en í þetta skiptið verður boðið upp á Kop.is pub quiz í rútunni með verðlaunum og svo verður hlaðið í eitt live Kop.is Podcast í rútunni ef tæknin leyfir. Þess utan verður sungið og djammað og almennt brosað alla leiðina til Liverpool!

    Í borginni verður boðið upp á almenna fararstjórn og ráðgjöf með hvernig best er að nýta tímann í þessari skemmtilegu borg. Kop.is-strákarnir munu mæla með góðum veitingastöðum og þeir sem vilja geta slegist með þeim í hópinn út að borða öll kvöld á bestu veitingahúsum borgarinnar. Þá verður stemningin á The Park tekin góðum púlsi bæði fyrir og eftir leik auk þess sem hægt er að fara með fólk í skoðunarferðina á Anfield sé þess óskað, en þó ekki hægt að lofa því fyrr en nær dregur þar sem túrinn er ekki alltaf opinn. Svo er hægt að kíkja á Bítlasafnið, Cavern Club og ýmislegt annað skemmtilegt í borginni.

    Þess utan verður stemning í hópnum og stefnt að eins mikilli skemmtun og afslöppun og hægt er.

    Einnig: BIERKELLER á kvöldin! Við erum ekkert að grínast, sá staður einn og sér er ferðarinnar virði.

    Babú og Maggi voru hressir fararstjórar í síðustu ferð.
    Babú og Maggi voru hressir fararstjórar síðasta vetur.

    Endilega sláist í för með okkur Kop.is-genginu í frábæra ferð til fyrirheitna landsins!

  • Liverpool að kaupa Balotelli (uppfært)!

    Uppfært (KAR): BBC, Liverpool Echo og allir hinir stóru miðlarnir staðfesta að liðin hafi náð samkomulagi um kaupverð upp á 16m punda. Nú á Balotelli bara eftir að semja við Liverpool sem þykir formsatriði. Þetta er að gerast!

    Upphaflega færslan er hér fyrir neðan.


    Echo staðfesta að Liverpool sé í viðræðum við AC Milan um kaup á Mario Balotelli.

    mariobalotelli-why-always-me

    Negotiations are at an early stage with the Serie A outfit demanding £20million for the controversial Italy international.

    The interest in Balotelli, 24, represents a remarkable U-turn for the Reds after the club dismissed any interest in signing the former Manchester City frontman earlier this month.

    Talið er að AC Milan vilji fá um 20 milljónir punda, sem er auðvitað ótrúlega lágt verð fyrir svo hæfileikaríkan framherja. En einsog menn vita, þá fylgja Balotelli alls kyns möguleg vandræði.

    Ég ætla þó að ganga svo langt og segja að mér líst vel á þetta. Liverpool getur ekki leyft sér að taka dýrustu leikmennina, heldur verðum við að vera skynsamir. Og hluti af þeirri skynsemi getur falist í því að taka smá sjensa með leikmenn sem eru augljóslega hæfileikaríkir en hafa komið sér í vandræði. Luis Suarez er augljóst dæmi en hann var í banni þegar við keyptum hann og svipað er að segja um Daniel Sturridge, sem gríðarlega margir efuðust um.

    Sjáum hvað gerist, en það er allavegana ljóst að það verður ekki minna spennandi (og erfitt fyrir hjartað) að horfa á Liverpool í vetur ef að Balotelli verður á meðal leikmanna okkar.

  • VandræðaPési eða bara Pési?

    Nú má búast við því að Silly Season fari að detta í sitt árlega “overspan” og væntanlega verða okkar menn þar miðdepillinn þetta árið, ásamt kannski nágrönnum okkar í Man.Utd. Er það gott eða vont? Það er vont fyrir sálartetrið á meðan þessu stendur, en samt er þetta nú partur af þessu og í rauninni vill maður frekar vera þátttakandi í því fremur en að standa fyrir utan og horfa upp á liðið sitt utan umræðunnar og ekkert að gerast. Það er alveg morgunljóst að Brendan er að reyna að bæta við sig öflugum framherja, spurningin er bara hver það verður og hvort náist að klára það á þessum dögum sem eftir eru af ágústmánuði.

    Í dag er Twitter hreint út sagt logandi vegna meint boðs okkar manna í Mario Balotelli. Ja eitt er víst, sá strákur er umdeildur og það mjög. Margir hafa afar gaman af uppátækjum hans og aðrir hrista bara hausinn yfir allri vitleysunni. En ég held að flestir séu sammála um eitt þegar kemur að þeim strák, hann er stútfullur af hæfileikum. Ég hef lesið talsvert um það á Facebook og Twitter að Brendan hafi náð að hemja einn vitleysing vel, þ.e. Luis Suárez. Ég er ekki alveg að botna þann málflutning. Luis Suárez er draumur allra knattspyrnustjóra utan vallar. Hann er pollrólegur, aldrei úti á lífinu og mikill fjölskyldumaður. Í rauninni þá er hann algjör engill utan vallar. Á æfingum eru fáir jafn ákafir og leggja sig jafn mikið fram og hann, aldrei neitt vesen með hann þar. Meira að segja í leikjum, þá leggur hann sig allan fram og stundum aðeins of mikið. Hann er ekki að fá mikið af spjöldum, meiðist nánast aldrei og skorar mörk. Hann er reyndar með einn galla, hann bítur fólk annað slagið. En að bera hann saman við einhvern vandræðaPésa, það er svolítið út úr korti að mínu mati.

    Ég er þó alls ekki að segja að Brendan geti ekki höndlað mann eins og Mario, síður en svo, ég tel að hann geti það og að því að maður hefur heyrt, hefur sá drengur náð að þroskast örlítið síðan hann fór frá City (utan vallar allavega). Mario er algjört skólabókardæmi um kaup sem FSG standa fyrir. Talað um 17 milljónir punda, sem er ódýrt fyrir þetta hæfileikaríkan mann, gott endursöluverð á honum og ungur í þokkabót (ný orðinn 24 ára). Tikkar í nánast öll boxin. Í mínum huga er spurningin ekki um virðið á honum, hegðun utan vallar eða hæfileika. Nei, ég tel þetta snúist um hans leikstíl inni á vellinum. Hann virkar oft á tíðum algjörlega laus við allan áhuga á leiknum, latur og kærulaus. Það er það sem ég hef mestar áhyggjur af, sér í lagi þegar horft er til leikstíls Liverpool undir Brendan. Sjáið þið Balo fyrir ykkur í hápressunni? Ekki ég. En ef Brendan telur sig geta notað hann og breytt honum eftir sínu höfði, þá er engin spurning um að þessi drengur gæti sprungið endanlega út. Hef ég trú á því? Nei.

    Aðrir sem nefndir eru til sögunnar eru menn eins og Radamel Falcao. Það er ekki nokkur spurning um að hann er stútfullur af gæðum, en er hann raunhæfur möguleiki? Nei, ég held að því fari fjarri. Hann er að spila fyrir lið Monaco og er þar á ofur samningi og í þokkabót þá er það skattaparadís. Liverpool gætu alveg ráðið við kaupverðið eitt og sér, en launapakkinn? Í ofanálag þá er talið um að hugur hans sé löngu kominn til Real Madrid og öll skref fram að því eru jú einmitt það, milliskref og viljum við slíkt? Einnig hefur verið talað um hann á lánssamningi. Eitt slíkt tímabil myndi kosta okkur í kringum 22 milljónir punda alls. Ég held að bæði Rodgers og FSG séu með meiri framtíðarsýn en það að eyða svona háum fjárhæðum í skammtímaúrbót.

    Edison Cavani er svo annar, en hann spilar fyrir olíufélagið PSG í París. Hann var keyptur á um 65 milljónir Evra fyrir ári síðan og er með ansi hressileg laun. Þar fyrir utan er hann að verða 28 ára gamall og ekki beint týpa sem maður sér fitta inn í leikstílinn okkar, hann er reyndar duglegur á vellinum og fínn slúttari, en maður sér hann einhvern veginn ekki fyrir sér miðað við hvernig liðið hefur verið að spila. Allavega finnst mér hann vera ansi langt frá því að réttlæta verð og launapakka miðað við það hvernig það er allt í dag.

    Samuel Eto’o er svo einn sem hefur verið ansi oft orðaður við okkur undanfarið, sá er í aðeins öðrum flokki en hinir áður upptöldu, enda er hann samningslaus og í leit að liði. Sá kann að skora mörkin, um það er enginn vafi, en hann er líka orðinn 33 ára gamall og hann er ekkert að fara að spila frítt, þótt það væri bara þetta eina ár. Ég gæti trúað að menn væru með hann uppi í bakhöndinni ef allt annað bregst, þeir eru alveg til verri til að vera varaskeifa í framlínunni en Samuel kallinn. Persónulega hef ég aldrei verið neitt voðalega hrifinn af honum sem leikmanni, en ég gæti alveg skilið þetta “move” ef réttur maður fæst ekki inn og bíða þyrfti fram í janúar eða fram á næsta sumar. Þetta yrði allavega ódýrari tilraun en að kaupa einhvern gaur á 15-20 milljónir punda og á samningi til 4-5 ára.

    Vonandi fáum við bara eitthvað nice surprise í restina og inn komi spennandi leikmaður sem bætir einhverju við liðið. Helst af öllu vildi maður fá mann sem yrði lykilmaður næstu árin og síst vill maður sjá einhverja skammtímalausn fyrir næstu 6-12 mánuði. Markaðurinn í dag er þó ekki einfaldur og mikið vatn á eftir að renna til sjávar fram að 1. september nk. Ég vil Pésa og er eiginlega nokk sama hvort það sé Pétur Pan, Pétur Panodil eða Vandræða Pétur, ég vil bara góðan Pésa.

  • Barcelona tjá sig um kaupverð á leikmanni

    Breskir fjölmiðlar hafa í dag búið til allskonar fréttir um að Luis Suarez hafi farið til Barcelona með einhverjum afslætti frá kaupverðs-klásúlunni sem átti að vera í samningnum hans.

    Blaðamaður Guardian Sid Lowe skrifar frétt um blaðamannafund þar sem Suarez var kynntur sem Barcelona leikmaður í dag, þar sem haft er eftir varaforseta Jordi Mestre.

    during which the club’s vice-president, Jordi Mestre, claimed that the Catalans had paid £65m (about €81m) for the striker – £10m lower than his £75m buy-out clause. “The clause was £75m and in the end we paid £65m,” Mestre said. “That was fundamentally down to two factors: the skill of those negotiating and Suárez’s desire to come.”

    Áhersla mín.

    Semsagt, Barcelona segja að þeir hafi keypt Suarez með afslætti af því að samningamenn þeirra eru svo klárir.

    John-W-Henry-007

    Give me a fucking break!

    Fyrir þá sem vilja velta þessu fyrir sér og byrja að spá af hverju Suarez var seldur með afslætti, þá má benda á þá skemmtilegu staðreynd að Barcelona hafa verið ákærðir af spænska skattinum af því að þeir lugu því að Neymar hefði kostað þá minni peninga en hann gerði í raun. Sjá meðal annars hér. Barcelona pay £11.1m in evaded taxes from last summer’s signing of Neymar.

    Barcelona er í dag klúbbur styrktur af einræðisríki sem á í dag lítið skilt við það frábæra félag sem ég hreifst af fyrir mörgum árum. Ég myndi ekki trúa einu orði sem kemur útúr munni þeirra manna sem þessum klúbbi stýra.

  • Varabúningarnir í ReAct! [auglýsing]

    Vara- og Meistaradeildarbúningar Liverpool koma til landsins á morgun!

    Varabúningur Liverpool tímabilið 2014/15 er gulur með rauðum röndum og er auðvitað stórglæsilegur eins og sjá má:

    yellowkit

    Þriðji búningur Liverpool tímabilið 2014/15 er jafnframt Meistaradeildarbúningur félagsins í vetur og er hann svartur, grár og rauður og auðvitað líka stórglæsilegur, eins og sjá má:

    thirdkit.jpg

    Liverpool-búningarnir fást í helstu sportvöruverslunum landsins – Jóa Útherja og ReAct – en úrvalið má sjá í vefverslun ReAct á ReAct.is.

    Kíkið við og verið rétt klædd fyrir tímabilið!

  • Liverpool 2 Southampton 1

    Liverpool vann í dag nauman 2-1 sigur á Southampton í fyrstu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar. Leikið var á Anfield við smá vind en annars góðar aðstæður.

    Brendan Rodgers byrjaði með þetta lið í dag:

    Mignolet

    Manquillo – Skrtel – Lovren – Johnson

    Henderson – Gerrard – Lucas

    Sterling – Sturridge – Coutinho

    Bekkur: Jones, Touré, Sakho, Can, Allen (inn f. Lucas), Ibe, Lambert (inn f. Coutinho).

    Það var fátt um fína drætti í fyrri hálfleik. Southampton-liðið hefur eins og alþjóð veit orðið fyrir blóðtöku og þjálfaraskiptum í sumar en þeir eru samt ennþá með gott lið og í Ronald Koeman fengu þeir reyndan og flottan stjóra í stað Mauricio Pochettino. Þeir lágu aftarlega í fyrri hálfleik og spiluðu mjög stíft á okkar menn, brutu oft á sér til að trufla rythmann í leik Liverpool, og það virtist virka.

    Okkar mönnum gekk illa að finna taktinn í fyrri hálfleik en náðu þó að koma inn fyrsta markinu á 23. mínútu. Þá vann Jordan Henderson boltann af harðfylgi á miðjunni, sneri sér við og gaf frábæra stungusendingu inn fyrir á Raheem Sterling sem lagði boltann þægilega í markhornið. 1-0 í hálfleik og leikurinn í raun nokkuð jafn.

    Southampton-menn komu hins vegar mikið beittari til leiks í seinni hálfleik. Koemann virtist hafa lesið miðjuna okkar (ég kem betur að því á eftir) og skipaði Steven Davis og Dusan Tadic að sækja á bak við hana. Það, auk þess að þeir Victor Wanyama og Morgan Schneiderlin voru með yfirburði í miðjubaráttunni, gerði það að verkum að þeir keyrðu yfir okkar menn hvað eftir annað á miðjunni og fjölmenntu á þá Martin Skrtel og Dejan Lovren í miðri vörninni.

    Jöfnunarmark Southampton kom einmitt úr slíkri sókn á 56. mínútu. Bakvörðurinn Nathaniel Clyne rölti upp völlinn með boltann og gaf hann svo inná Tadic og tók svo á sprett inná teiginn. Lucas, Gerrard og Johnson horfðu á boltann hjá Tadic og enginn þeirra hirti upp hlaup Clyne þannig að þegar Tadic náði að gefa hælspyrnu innfyrir Lovren var Clyne allt í einu einn á teignum og skoraði auðveldlega. 1-1 og Southampton með flest öll völd á vellinum.

    Þetta var ein af mýmörgum svona sóknum Southampton og aftur og aftur sá maður Lovren og Skrtel lenda í því að fá a.m.k. tvo miðjumenn á sig auk sóknarmannanna sem þeir voru að dekka. Graziano Pelle var í framlínu Southampton og hann gerði lítið annað í seinni hálfleik en að halda boltanum með Skrtel/Lovren í bakinu og leggja hann svo á einn af miðjumönnunum svo komu á ferðinni, nær alltaf ódekkaðir.

    Liverpool-menn voru einfaldlega stálheppnir að vera ennþá inní þessum leik þegar sigurmarkið kom. Davis klúðraði dauða-dauðafæri til að koma Southampton yfir og bæði Pelle og Tadic ógnuðu með færum en Simon Mignolet varði oft frábærlega og hélt Liverpool á jöfnu.

    Á 63. mínútu kom svo langþráð skipting þegar Joe Allen kom inná fyrir Lucas. Við þetta jöfnuðust leikar aðeins á miðjunni og Liverpool komst inn í leikinn aftur. Svo bætti hann Rickie Lambert við í stað Coutinho á 76. mínútu og sú skipting skilaði nær strax marki.

    Á 79. mínútu var Liverpool í þungri sókn en Southampton náðu boltanum og ætluðu að brjótast upp vinstri kantinn. Lambert vann þó vel og hirti boltann af þeim aftur, gaf hann út á Javier Manquillo sem gaf fyrir frá hægri, Sterling skallaði boltann niður á markteiginn þar sem Daniel Sturridge var (eins og venjulega) réttur maður á réttum stað og potaði knettinum inn.

    Staðan orðin 2-1 og það urðu lokatölur leiksins, okkar menn héldu út og geta helst þakkað Mignolet fyrir það en hann varði stórkostlega á 87. mínútu frá Schneiderlin. Hann varði þar úr dauðafæri í slána og þaðan barst boltinn til Shane Long sem setti hann framhjá fyrir opnu marki.

    Það voru því fegnir Púllarar sem fögnuðu í leikslok. Stigin þrjú komin í hús og þótt það hafi verið langt því frá sannfærandi skiptir mestu að innbyrða stigin. Sumir keppinauta okkar á toppnum hafa þegar tapað stigum og þetta var nú ekki sannfærandi hjá hinum sem unnu í gær. Liverpool var einmitt svipað ósannfærandi í opnunarleiknum í fyrra (gegn Stoke, sem líkt og Southampton nú voru með nýjan stjóra).

    Eftir situr í mér að Brendan Rodgers tók mjög skrítna ákvörðun við uppstillingu byrjunarliðs og sú ákvörðun kostaði okkar menn næstum því þennan leik. Fyrir viku var Emre Can á miðjunni með Henderson og Gerrard og það lið yfirspilaði stórlið Borussia Dortmund. Það verður því að teljast skrýtin ákvörðun að hafa tekið Can út fyrir Lucas Leiva í dag.

    Það er margreynt að hafa Lucas og Gerrard saman á miðju Liverpool og það hefur hreinlega aldrei gefist vel. Gerrard er orðinn 34 ára og meiðsli hafa tekið mikið af hraða og yfirferð Lucas. Fyrir vikið ertu með miðju þar sem Jordan Henderson þarf að axla nær alla pressuábyrgðina og fyrir aftan hann ertu með tvo mjög hæga menn. Það virkaði bara alls ekki í dag, frekar en venjulega. Fyrir vikið voru Southampton með stjórn á miðjunni í 63 mínútur og náðu að klippa Philippe Coutinho alveg út úr leiknum.

    Þetta var bara mjög skrítin og hreinlega röng ákvörðun hjá Rodgers, sem á að þekkja miðjumennina sína betur en að reyna þetta. Enda gerði hann augljósa breytingu á 63. mínútu með augljósum afleiðingum; Allen hjálpaði Henderson við pressuna og Liverpool komust allt í einu í sókn eftir tuttugu mínútna leik í seinni hálfleik.

    Ég vona að Rodgers hafi endanlega lært þessa lexíu núna. Lucas á ekki að spila nema það sé í stað Gerrard. Þú getur ekki haft þá saman á miðjunni. Punktur. Greinarskil.

    Maður leiksins: Mignolet gerði það sem hann er góður í og varði frábærlega, en þess á milli var hann á tíðum í vandræðum með fyrirgjafir. Ég var hrifinn af Manquillo í bakverðinum og Skrtel/Lovren gerðu eins vel og hægt var miðað við hjálpina sem þeir fengu. Johnson fannst mér hrikalega slappur í fyrri hálfleik en hann varðist betur í þeim seinni, þarf þó að gera betur.

    Á miðjunni hef ég fjölyrt um Lucas og Gerrard. Mér finnst Lucas Leiva því miður ekki nógu góður til að vera í byrjunarliðinu okkar og treysti því að hann verði ekki þarna gegn Manchester City eftir 8 daga. Gerrard var svo átakanlega lélegur, verndaði vörnina alls ekki og var áhorfandi að flestu því sem Southampton gerði. Eftir að Allen kom inná og okkar menn komust yfir var ég farinn að öskra á hann að dekka Steven Davis betur en hann hirti hann aldrei upp, Davis hafði allt heimsins pláss fyrir framan miðverðina okkar. Fyrirliðinn þarf að gera miklu, miklu betur og hefði verið okkar slakasti maður í dag ef Lucas hefði ekki verið farþegi við hliðina á honum.

    Coutinho var einnig slakur í dag en ég skrifa það meira á taktíkina því hann sá boltann mjög sjaldan í þeim stöðum sem hann er bestur í. Frammi voru Sterling og Sturridge alltaf hættulegir, sérstaklega í hlaupum inn fyrir vörn Southampton. Sterling skoraði og lagði upp mark sem hefði dugað til að vera maður leiksins flesta daga, og í Sturridge höldum við áfram að njóta þess að vera með mann sem skorar nær alltaf þegar við þörfnumst hans. Matchwinner aftur í dag, eins og í opnunarleiknum í fyrra.

    Maður leiksins var samt klárlega Jordan Henderson. Hann bar þessa miðju uppi á löngum köflum, var beðinn um að gera allt of mikið sjálfur en tókst það samt frábærlega. Hann var út um allan völl, bjó fyrra mark okkar til með frábærri spilamennsku og sýndi enn og aftur hvað í honum býr.

    Vonandi fær hann smá hjálp á miðjunni næst. Ég þoli ekki þrjátíu og átta míní-hjartaáföll í vetur.

  • Liðið gegn Southampton

    Fyrsta byrjunarlið tímabilsins er komið:

    Mignolet

    Manquillo – Skrtel – Lovren – Johnson

    Henderson – Gerrard – Lucas

    Coutinho – Sturridge – Sterling

    Bekkur: Jones, Touré, Sakho, Can, Allen, Ibe, Lambert.

    Nýi bakvörðurinn Moreno var ekki skráður í tæka tíð fyrir þennan leik, á meðan þeir Lallana, Markovic, Flanagan, Agger og Borini eru frá vegna meiðsla. Enrique kemst ekki í hóp.

    Annars kemur helst á óvart að Lucas skuli byrja þennan leik umfram Allen eða Can.

    Koma svo, áfram Liverpool!

  • Southampton á morgun

    Eruð þið að trúa þessu? Það er komið að því kæru lesendur, nýtt tímabil að hefjast og eftir rað-gleðina síðasta tímabil, þá getur maður vart beðið eftir þessu. Maður hreinlega vildi ekkert hætta síðasta vor, svo skemmtilegt var þetta blessaða lið okkar. Maður fann það reyndar fyrst á eftir að það var kannski allt í lagi að taka sér smá pásu, bara til að slaka á brosvöðvunum og tilfinningarússíbananum, en afar fljótlega var maður farinn að bíða. Bíða eftir hverju? Jú, maður hreinlega beið eftir undirbúningstímabilinu. Jú jú, ég veit að það var eitt stykki HM þarna inni á milli og auðvitað telst það vera fótboltaveisla svona yfir sumartíman. Margur knattspyrnu unnandinn á líka sitt lið hérna á Íslandi sem heldur þessu öllu saman við. Ég verð þó að viðurkenna það fyrir mitt leiti að þetta HM dæmi var bara svona fín afþreying í bið minni eftir hinni einu sönnu alvöru keppni. Tilfinningarnar hjá manni eru bara svo miklu miklu minni með einhverjum landsliðum heldur en með þessu blessaða Liverpool liði okkar.

    Meira að segja þegar maður horfir á þessa æfingaleiki, þá eru þeir bara svona pirrandi forréttur sem tekur of langan tíma að framreiða. Maður veit að maður er að fara að fá hroðalega góðan aðalrétt og þessi forréttur er hreinlega bara fyrir, maður nennir heldur ekki að vera að eyða tíma í að velja rauðvín eða drykki með þessu öllu saman, bara aðalréttinn á borðið og það strax. Á ég að segja ykkur eitt? Aðalrétturinn verður borinn fram klukkan 12:30 á morgun og ég get sagt ykkur það að ég er gjörsamlega banhungraður. Hvað með þig lesandi góður?

    Það þýðir víst lítið að fara yfir gengi liðanna so far á þessu tímanbili, enda um að ræða fyrsta leikinn. Það er þó hægt að glugga aðeins í það hvað þessi lið hafa verið að bardúsa síðan síðasti leikur síðasta tímabils var flautaður af. Þá voru tveir bestu menn andstæðinga okkar á morgun þeir Adam Lallana og Dejan Lovren. Getið þið hvað, þeir eru báðir leikmenn Liverpool FC núna, þótt aðeins annar þeirra muni spila þennan fyrsta leik. Lallana er byrjaður að æfa eftir meiðslin, en það eru ennþá c.a. 2 vikur í að hann verði leikfær. Lovren verður aftur á móti í hjarta varnarinnar og mun þurfa að stíga hratt og vel inn í hlutverkið sitt, að stýra þessari óstýrlátu vörn Liverpool. En þessir tveir eru ekki þeir einu, Rickie Lambert er einnig kominn aftur heim í heiðardalinn. Hann fór ungur úr Akademíu Liverpool og bjóst líklegast aldrei við því að heimsækja Anfield aftur nema sem borgandi áhorfandi, eða mótherji Liverpool. Draumur hans er að rætast og ég efast um að hann eigi eftir að sofna fljótt í kvöld.

    Ef farið er yfir lið Southampton, þá hafa risa stór skörð verið hoggin í leikmannahóp þeirra. Fyrir utan þessa þrjá sem við höfum nælt í, þá borguðu Man.Utd þeim rúmar 30 milljónir punda fyrir 18 ára vinstri bakvörð og svo nældu Arsenal sér í hægri bakvörðinn, sem er einnig ungur og efnilegur. Þar fyrir utan hafa Tottenham verið að míga utan í Jay Rodriguez og Morgan Schneiderlin, en Dýrðlingarnir virðast vera búnir að segja stopp á sölur. Sá síðarnefndi hefur ekki verið par sáttur við það og virðist ætla að þvinga fram sölu og maður hefur hreinlega vorkennt þeim svolítið í sumar með það hvað er verið að narta mikið í liðið þeirra. En það er nú ekki svo að þeir séu bara á mörkum þess að ná í lið. Þeir eru búnir að gera slatta af kaupum og mörg þeirra eiga eftir að koma mönnum á óvart spái ég, þeir verða langt frá því að verða eitthvað auðvelt fórnarlamb fyrir lið í vetur. Þeir eru búnir að næla sér í Fraser Forster, sem er flottur markvörður, Ryan Bertrand hefur komið að láni frá Chelsea, Gardos kom frá Steaua Bucharest, Tadic frá Twente, Pelle frá Feyenoord, Taider frá Inter Milano og svo voru þeir að versla Shane Long frá Hull City fyrir um 12,5 milljónir punda. Jú, þeir misstu marga lykilmenn sem hafa haldið spili þeirra uppi, en þeir hafa svo sannarlega fjárfest þeim peningum sem inn komu. Ekki má gleyma því að Ronald Koeman hefur svo komið inn sem nýr stjóri eftir að Tottenham rændu hinum.

    En þá að okkar mönnum, og það hefur heldur betur verið nóg að gerast þar í sumar. Við höfum látið frá okkur menn eins og Luis Alberto (á láni), Iago Aspas (á láni), Andre Wisdom (á láni), Divock Origi (á láni), Pepe Reina og Martin Kelly. Þessar brottfarir hafa nákvæmlega ekkert veikt liðið frá síðasta tímabili, enda menn sem spiluðu annað hvort lítið eða alls ekki neitt með Liverpool. Stóra málið er auðvitað brotthvarf Luis Suárez til Barcelona. Það vita það allir sem eitthvað hafa fylgst með fótbolta, að þar fer einn allra besti knattspyrnumaður í heiminum í dag og svo sannarlega myndi hvaða lið sem er sakna slíks meistara. Við munum gera það, en stóra málið er að reyna að styrkja aðrar stoðir liðsins, og það er ég sannfærður um að við höfum gert. Við höfum verslað eftirtalda menn inn í liðið: Rickie Lambert, Adam Lallana, Emre Can, Lazar Markovic, Dejan Lovren, Divock Origi, Javier Manquillo og Alberto Moreno. Við erum í alvöru talað að tala um rosalegar viðbætur við liðið okkar og þar fyrir utan þá er Jose Enrique orðinn heill heilsu aftur og við erum allt í einu komin með 2 vinstri bakverði. Hvað er að frétta? Topp miðvörður, hægri bakvörður, vinstri bakvörður, miðjumaður, tveir framsæknir miðjumenn og framherji. Og Brendan segist ekki hættur, hann vill bæta við sig einum alvöru framherja í viðbót.

    Ég hef í ansi mörg ár þusað um það í Podköstum okkar á Kop.is að það vantaði meiri hraða í Liverpool liðið. Ég hætti þessi röfli á síðasta tímabili því hraðinn sem kominn var í liðið var rosalegur. En ef við horfum á þessar viðbætur í sumar, þá eiga þær flestar það sammerkt að enn bætist við hraðann. Báðir bakverðirnir eru öskufljótir. Emre Can á miðjunni telst seint vera seinn og þeir Lallana og Markovic koma með skemmtilega vídd inn í þetta allt saman. Þá erum við ekkert byrjuð að ræða menn eins og Ibe og Suso sem gætu líka orðið hluti af hóp í vetur. En þó svo að maður sé spenntur fyrir nýjum mönnum, þá er ég þó spenntastur að sjá næstu skref í ferli nokkurra leikmanna sem stigu upp á síðasta tímabili og gæði leka hreinlega af þeim í hverju skrefi. Já ég er að tala um þá Henderson, Coutinho, Sturridge og Sterling. Þeir eru allir korn ungir og virðast eiga mikið inni engu að síður. Haldi þeir áfram á sömu braut, þá geta þeir tryggt þetta Liverpool lið í titilbaráttu næstu árin.

    Maður brosti hringinn á síðasta tímabili, þrátt fyrir að hafa misst af titlinum á grátlegan hátt í restina. Eitt atriði fór þó talsvert í pirrurnar á manni og hefur verið komið nokkrum sinnum inná það áður hér á síðunni. Þegar búið var að loka á Suárez og jafnvel Sturridge líka, þá leit maður á skipanina á bekknum með það fyrir augum að henda inn trompi sem gæti breytt leiknum. Uhh, ohh, damn, þar sátu kannski 4 varnarmenn með Aspas greyinu og hinum gjörsamlega áhugalausa Victor Moses. Bara ekkert, bara tómt. Brendan fær allavega einhverja valkosti núna, því maður skildi það oft á síðasta tímabili af hverju hann gerði ekki fleiri skiptingar en raun bar vitni, hann hreinlega hafi ekki nægilega trú á að það sem hann hafði í hóp myndi gera eitthvað betur eða meira en þeir sem inná voru, þótt þreyttir væru. Núna verður breyting á.

    Það er ekki létt verk að ráða í það svona í byrjun tímabils hverjir muni hefja leik, enda búið að prófa ævintýralega marga leikmenn í leikjum undanfarið og ansi mörgum skipt inná og útaf í hverjum leik. Það er þó ljóst hverjir munu pottþétt missa af leiknum vegna meiðsla. Lazar Markovic mun ekki verða klár í slaginn, og áður hefur verið fjallað um fjarveru Lallana. Markovic ætti þó að vera orðinn klár fyrir næsta leik, gegn Man.City. Jon Flanagan verður einnig fjarri góðu gamni, en hann ku vera nálægt endurkomu. Sömu sögu er að segja af Daniel Agger. Ekki þykir heldur líklegt að Fabio Borini verði í leikmannahópnum, enda ekki ólíklegt að salan á honum til Sunderland gangi í gegn næstu daga. Moreno verður svo ekki kominn með leikheimild og því heldur ekki með. Þá held ég að það sé orðið nokkuð upptalið, allavega það sem vitað er akkúrat núna.

    Það er morgunljóst og liggur í sólgleraugum uppi hver byrjar í marki, en þar með er það upptalið þegar kemur að einhverju sem er alveg öruggt í uppstillingu þarna aftast á vellinum. Eins og staðan er í dag, þá erum við með 2 hægri bakverði og 2 vinstri bakverði (Robinson ennþá ekki farinn á lán). Ég var ansi hreint hrifinn af frammistöðu Manquillo gegn Dortmund og ég ætla hreinlega að giska á að honum verði hent beint út í djúpu laugina og að hann hefði leik og vinur ykkar allra, hann Glen Johnson verði aftur í vinstri bakk. Ég hreinlega held að Brendan treysti ekki Jose strax í deildarleik, enda leit hann hreint ekki vel út á undirbúningstímabilinu. Ég er á því að Sakho þurfi að vinna inn sætið sitt og að Skrtel og Lovren verði í miðvörðunum. Gerrard verður að sjálfsögðu fyrir framan vörnina og Henderson hægra megin við hann, en stærsta spurningin í mínum huga er hver byrjar með þeim þarna inni á miðjunni. Ég vona að Brendan hugsi Lucas fyrst og fremst sem backup fyrir Stevie, þar á hann heima og er afar sterkur sem slíkur. Hann er ekki þessi leikmaður sem á að spila þarna framar á vellinum. Ég held að þetta verði spurning um það hvort Emre Can byrji í sínum fyrsta Úrvalsdeildarleik, eða hvort Brendan byrji með Joe Allen. Ég ætla að giska á það síðara. Þrenningin fremst verður svo skipuð þeim Coutinho, Sterling og Sturridge. Svona ætla ég sem sagt að spá þessu:

    Lið Liverpool er svona

    Mignolet

    Manquillo – Skrtel – Lovren – Johnson

    Henderson – Gerrard – Can

    Sterling – Sturridge – Coutinho

    Sem sagt, sama lið og gegn Dortmund, en Allen kemur inn fyrir Can.

    Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað að er hrikalega ánægjulegt að vera farinn að skrifa upphitanir aftur, það fer um mann svona sæluhrollur. Mér er eiginlega nokk sama hversu margir lesa þessa langloku, þetta er bara ferlega gaman að setja niður hugsanir sínar, það er hreinlega bara bónus ef það eru einhverjir þarna úti sem hafa gaman af því að lesa þessa vellu. Þetta stefnir í algjörlega frábært tímabil, þrátt fyrir að nágrannar okkar séu nánast búnir að tryggja sér Meistaradeildarsæti áður en tuðru er sparkað. Ég get allavega ekki beðið eftir að flautað verði til leiks. Ekki ætla ég að reyna að leikgreina andstæðinga okkar frekar, enda ekki séð eina einustu mínútu undir stjórn Koeman. Þetta verður allt að koma í ljós en eitt er víst, ég er bara ansi hreint bjartsýnn fyrir þennan leik, hell yeah, ég er bara assgoti bjartsýnn á tímabilið sem er framundan. Ég er eiginlega á því að við komum til með að halda okkur í baráttunni í vetur, líkt og síðast, en breytingin sem verður á núna er að fleiri lið verða um hitunina. Búið ykkur undir spennu, hreinlega mikla spennu.

    BRING…IT…ON

    We Go Again


    Uppfært
    Tímabilið er annars byrjað á Englandi, það byrjaði ca. svona

  • Góða skemmtun!

    Þetta Liverpool-lið er stórskemmtilegt!

    Ég er núna búinn að pirra mig mest alla vikuna á hinum ýmsu spámönnum sem eru allir að dæma Liverpool úr leik í titilbaráttunni og flestir að spá liðinu utan Meistaradeildarsætanna næsta vor. Ég hef rifist yfir þessu hér á síðunni og á Twitter og almennt látið þetta fara allt of mikið í taugarnar á mér.

    Í dag tók ég ákvörðun. Það veit auðvitað enginn hver lokaniðurröðun liðanna verður næsta vor. Það er eitt að spá hinu og þessu í ágúst, áður en knetti hefur verið sparkað, en það verður bara að koma í ljós í vor hvar okkar menn enda.

    Þess í stað hef ég ákveðið að muna eitt: þetta Liverpool-lið er það skemmtilegasta sem ég man eftir á Anfield í mína tíð og ég ætla að njóta þess að horfa á þá spila knattspyrnu í vetur.

    Byrjum samt á byrjuninni, þessari mýtu um að lið sem selja besta leikmann sinn haldi sjaldnast sama styrk. Ég leitaði í vikunni (ásamt Babú sem gróf nokkur þessara dæma upp) og mér datt ekki eitt einasta dæmi í hug yfir lið sem hefur verið í titilbaráttu, selt svo sinn besta mann og hrunið á næstu leiktíð. Og höfum það á hreinu, Liverpool þarf að dala um meira en 3-5 stig til að detta úr titilbaráttu og út úr topp fjórum líka. Liðið þarf að hrynja.

    Hér eru dæmin sem ég fann úr nýliðinni tíð:

    • Arsenal seldu Thierry Henry sumarið 2007. Það vorið endaði liðið með 68 stig í deildinni. Árið á eftir steig Robin Van Persie upp og liðið náði 83 stigum. Bætti sig um 15 stig eftir að missa Henry.
    • Van Persie var svo seldur sumarið 2012. Það vorið hafði Arsenal náð 70 stigum en vorið á eftir náðu þeir 83 stigum. Bættu sig á milli ára eftir að RVP fór.
    • Man Utd seldu Ruud Van Nistelrooy sumarið 2006. Það vor náði liðið 83 stigum en þar voru ungir og hungraðir strákar eins og Rooney og Ronaldo sem stigu upp og liðið vann titilinn á 89 stigum árið á eftir.
    • Ronaldo var svo seldur 2009 og þeir fengu bara meiddan Michael Owen í staðinn. Liðið fór úr 90 stigum niður í 85 án Ronaldo en vann samt 2 titla á næstu 5 árum eftir að Ronaldo fór.
    • Talandi um Michael Owen. Hann yfirgaf Liverpool sumarið 2004 og í kjölfarið fótbrotnaði Djibril Cissé. Man einhver hvað Liverpool gerði þann veturinn án almennilegs framherja?
    • Og svo er það dæmið sem allir nefna: Gareth Bale. Tottenham seldu Bale og keyptu haug af leikmönnum í staðinn í fyrra. Og svo hrundu þeir, ekki satt? Nema hvað að þeir náðu 72 stigum með Bale í fyrra en 69 stigum án hans í vor. Þrjú stig, það var allt hrunið hjá Spurs.
    • En hvað með Evrópu? Besta dæmið kom 2009 þegar Internazionale seldi Zlatan. Árið á eftir unnu þeir Serie A, ítalska bikarinn og Meistaradeildina. Gjörsamlega dauðadæmdir án stjörnuframherjans.
    • Uppáhaldsdæmið mitt er samt Atletico Madrid. Þeir hafa stundað það í mörg ár að búa til stjörnuframherja, selja hann á miklum gróða og bæta liðið sitt á milli ára. Þegar Fernando Torres fór? Þá fengu þeir Diego Forlán og unnu Evrópudeildina. Þegar Forlán fór? Þá fengu þeir Falcao og unnu Evrópudeildina aftur. Þegar Falcao fór? Þá áttu þeir til arftakann í Diego Costa og unnu La Liga og fóru í úrslit Meistaradeildarinnar. Ætli þeir séu að panikka eftir að hafa selt Diego Costa í sumar? Ég stórefa það, sá klúbbur veit að það er ekki heimsendir að missa stjörnuna sína.

    Ég gæti tínt fleiri dæmi til. Inter komust í undanúrslit Meistaradeildar og náðu sama sæti (2. sæti) í Serie A eftir að þeir seldu Ronaldo. Barcelona blómstruðu með Messi og Guardiola eftir að Ronaldinho fór. Liverpool rétti úr kútnum án Torres, Tottenham seldu Keane og Berbatov og bættu sig á næstu árum, og svo mætti lengi telja.

    Eflaust eru einhver dæmi um lið sem hrundu eftir að missa stjörnuna sína en ég finn þau ekki. Endilega bendið á þau í ummælum ef þið munið eftir einhverjum. Þetta hér fyrir ofan eru samt fjórtán stór dæmi frá síðustu árum sem sýna svo ekki verður um villst að það er alls enginn heimsendir að missa stjörnuna sína.

    Í stað þess að einblína á brotthvarf Suarez ætla ég að horfa á þá sem eru á Anfield í dag.

    Liverpool er ennþá með besta markaskorarann í Úrvalsdeildinni. Hann heitir Daniel Sturridge og hann er með betri tölfræði á fyrstu 18 mánuðum sínum en Suarez, Torres og Owen voru með. Hver segir að við getum ekki tekið Atletico á þetta og verið sterkari með hann sem aðalmann, a la Falcao og Costa?

    Liverpool er ennþá með efnilegasta leikmann Evrópu. Hann heitir Raheem Sterling og honum hafa engin bönd haldið á árinu 2014. Hann er enn bara 19 ára en í honum erum við með tilbúinn X-factor í stað Suarez.

    Liverpool er með Philippe Coutinho, einn skemmtilegasta leikmann deildarinnar. Annan X-factor í stað Suarez, leikmann sem getur opnað hvaða vörn sem er. Hans helsti galli hefur verið stöðugleiki í frammistöðu milli leikja en það háði t.d. Cristiano Ronaldo líka á svona ungum aldri. Ef hann getur skilað sínu besta í fleiri leikjum en annað hvert skipti mun hann rústa þessari deild.

    Þá eru ótaldir sóknarmennirnir sem voru keyptir í sumar. Lambert er gamall refur sem mun ekki bregðast þegar hans er þörf og í þeim Lallana og Markovic erum við með tvo af mest spennandi sóknarmönnum sem hafa verið keyptir í þessari deild í sumar.

    Ég gæti setið hér og talið upp allt liðið en aðalatriðið er að ég er gríðarlega spenntur fyrir þessari leiktíð. Kannski vinnur Liverpool deildina, kannski lendir liðið í 7. sæti. Það er engin leið að spá með vissu í svona harðri samkeppni þannig að í stað þess að pirra mig á spádómum ætla ég að festa sætisbeltið og halda mér fast. Þessi vetur verður rússíbanareið!

    Ég horfi á Liverpool-liðið í dag og ég hugsa með mér, hvað sem verður í vetur þá mun þetta lið skemmta okkur. Við munum sjá mörk, sóknarbolta, ævintýralega spilamennsku og eflaust fullt af litríkum uppákomum.

    Ég segi bara, góða skemmtun!

  • Við erum “underdogs” – Takk

    Það gleður mig fátt meira þessa dagana en að lesa “spár” ýmissa “sérfræðinga” um enska boltann og næsta tímabil. Maður er búinn að brosa út í annað í sumar þegar maður hefur lesið um að næstu 12 mánuðir séu einmitt bara fyrst og fremst langt undirbúningstímabil fyrir tímabilið 2015-2016. Það fékk maður á tilfinninguna eftir stórbrotinn sigur Galna mannsins á stórliði LSD Galaxy. Ekki minnkaði allt rúnkið eftir að nágrannar okkar kláruðu undirbúningstímabilið með einn bikar og heila 6 sigurleiki (nei, jafntefli eru ekki jafntefli, bara sannfærandi sigrar). Þessi hátíð hefur verið stórbrotin á Twitter og ef einhver er að bíða eftir nýju Dumb and Dumber, þá eru komnir endalaust margir “treilerar” á Twitter í gegnum þjóðþekkta Man.Utd menn. Endilega kíkið og njótið. Monthy Python eru hættir, en þessir ekki, langur vegur frá því.

    Reyndar kom smá babb í bátinn á sunnudaginn. Arsenal unnu titilinn líka þetta tímabilið, þeir hljóta bara að deila titlinum með hinum. Man.City féll á sama tíma, sem er bara fínt fyrir alla nema Gulla landsliðsmarkvörð, en allavega einum keppinautnum færra fyrir þarnæsta tímabil. Reyndar lítur allt út fyrir fall okkar manna líka, þannig að það þýðir víst lítið að vera með einhverja Doddagleði. Ja eitt er víst, ég hef aldrei orðið vitni að jafn öflugri byrjun á tímabili hjá nokkrum liðum eins og þessum tveim, sér í lagi þar sem lið hafa aldrei náð að byrja áður en tímabilið byrjar. Ég þykist vita að einhverjir séu byrjaðir að skynja smá kaldhæðni hjá mér, en ég get fullvissað alla um það að ég er ekki að nota neina kaldhæðni þegar ég segi að ég gjörsamlega dýrka það að okkar drengir séu “underdogs” hjá flestum í dag og að nágrannar okkar séu hafnir upp til skýja og jafnvel hærra af ansi litlu tilefni, allavega eins og staðan er í dag. Skoðum málin aðeins og berum nú saman hvað þessi lið hafa verið að gera, hvar hafa þau verið að styrkja sig og hversu mikið betri eru þau núna miðað við hvernig þau enduðu í maí á þessu ári. Tökum fyrir þessi 7 efstu lið og byrjum neðst. Ég ætla ekkert að velta fyrir mér kaupverðum eða muni á láni eða kaupum, fyrst og fremst að sjá hvernig hóparnir hafa breyst. (more…)

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close