Eruð þið að trúa þessu? Það er komið að því kæru lesendur, nýtt tímabil að hefjast og eftir rað-gleðina síðasta tímabil, þá getur maður vart beðið eftir þessu. Maður hreinlega vildi ekkert hætta síðasta vor, svo skemmtilegt var þetta blessaða lið okkar. Maður fann það reyndar fyrst á eftir að það var kannski allt í lagi að taka sér smá pásu, bara til að slaka á brosvöðvunum og tilfinningarússíbananum, en afar fljótlega var maður farinn að bíða. Bíða eftir hverju? Jú, maður hreinlega beið eftir undirbúningstímabilinu. Jú jú, ég veit að það var eitt stykki HM þarna inni á milli og auðvitað telst það vera fótboltaveisla svona yfir sumartíman. Margur knattspyrnu unnandinn á líka sitt lið hérna á Íslandi sem heldur þessu öllu saman við. Ég verð þó að viðurkenna það fyrir mitt leiti að þetta HM dæmi var bara svona fín afþreying í bið minni eftir hinni einu sönnu alvöru keppni. Tilfinningarnar hjá manni eru bara svo miklu miklu minni með einhverjum landsliðum heldur en með þessu blessaða Liverpool liði okkar.
Meira að segja þegar maður horfir á þessa æfingaleiki, þá eru þeir bara svona pirrandi forréttur sem tekur of langan tíma að framreiða. Maður veit að maður er að fara að fá hroðalega góðan aðalrétt og þessi forréttur er hreinlega bara fyrir, maður nennir heldur ekki að vera að eyða tíma í að velja rauðvín eða drykki með þessu öllu saman, bara aðalréttinn á borðið og það strax. Á ég að segja ykkur eitt? Aðalrétturinn verður borinn fram klukkan 12:30 á morgun og ég get sagt ykkur það að ég er gjörsamlega banhungraður. Hvað með þig lesandi góður?
Það þýðir víst lítið að fara yfir gengi liðanna so far á þessu tímanbili, enda um að ræða fyrsta leikinn. Það er þó hægt að glugga aðeins í það hvað þessi lið hafa verið að bardúsa síðan síðasti leikur síðasta tímabils var flautaður af. Þá voru tveir bestu menn andstæðinga okkar á morgun þeir Adam Lallana og Dejan Lovren. Getið þið hvað, þeir eru báðir leikmenn Liverpool FC núna, þótt aðeins annar þeirra muni spila þennan fyrsta leik. Lallana er byrjaður að æfa eftir meiðslin, en það eru ennþá c.a. 2 vikur í að hann verði leikfær. Lovren verður aftur á móti í hjarta varnarinnar og mun þurfa að stíga hratt og vel inn í hlutverkið sitt, að stýra þessari óstýrlátu vörn Liverpool. En þessir tveir eru ekki þeir einu, Rickie Lambert er einnig kominn aftur heim í heiðardalinn. Hann fór ungur úr Akademíu Liverpool og bjóst líklegast aldrei við því að heimsækja Anfield aftur nema sem borgandi áhorfandi, eða mótherji Liverpool. Draumur hans er að rætast og ég efast um að hann eigi eftir að sofna fljótt í kvöld.
Ef farið er yfir lið Southampton, þá hafa risa stór skörð verið hoggin í leikmannahóp þeirra. Fyrir utan þessa þrjá sem við höfum nælt í, þá borguðu Man.Utd þeim rúmar 30 milljónir punda fyrir 18 ára vinstri bakvörð og svo nældu Arsenal sér í hægri bakvörðinn, sem er einnig ungur og efnilegur. Þar fyrir utan hafa Tottenham verið að míga utan í Jay Rodriguez og Morgan Schneiderlin, en Dýrðlingarnir virðast vera búnir að segja stopp á sölur. Sá síðarnefndi hefur ekki verið par sáttur við það og virðist ætla að þvinga fram sölu og maður hefur hreinlega vorkennt þeim svolítið í sumar með það hvað er verið að narta mikið í liðið þeirra. En það er nú ekki svo að þeir séu bara á mörkum þess að ná í lið. Þeir eru búnir að gera slatta af kaupum og mörg þeirra eiga eftir að koma mönnum á óvart spái ég, þeir verða langt frá því að verða eitthvað auðvelt fórnarlamb fyrir lið í vetur. Þeir eru búnir að næla sér í Fraser Forster, sem er flottur markvörður, Ryan Bertrand hefur komið að láni frá Chelsea, Gardos kom frá Steaua Bucharest, Tadic frá Twente, Pelle frá Feyenoord, Taider frá Inter Milano og svo voru þeir að versla Shane Long frá Hull City fyrir um 12,5 milljónir punda. Jú, þeir misstu marga lykilmenn sem hafa haldið spili þeirra uppi, en þeir hafa svo sannarlega fjárfest þeim peningum sem inn komu. Ekki má gleyma því að Ronald Koeman hefur svo komið inn sem nýr stjóri eftir að Tottenham rændu hinum.
En þá að okkar mönnum, og það hefur heldur betur verið nóg að gerast þar í sumar. Við höfum látið frá okkur menn eins og Luis Alberto (á láni), Iago Aspas (á láni), Andre Wisdom (á láni), Divock Origi (á láni), Pepe Reina og Martin Kelly. Þessar brottfarir hafa nákvæmlega ekkert veikt liðið frá síðasta tímabili, enda menn sem spiluðu annað hvort lítið eða alls ekki neitt með Liverpool. Stóra málið er auðvitað brotthvarf Luis Suárez til Barcelona. Það vita það allir sem eitthvað hafa fylgst með fótbolta, að þar fer einn allra besti knattspyrnumaður í heiminum í dag og svo sannarlega myndi hvaða lið sem er sakna slíks meistara. Við munum gera það, en stóra málið er að reyna að styrkja aðrar stoðir liðsins, og það er ég sannfærður um að við höfum gert. Við höfum verslað eftirtalda menn inn í liðið: Rickie Lambert, Adam Lallana, Emre Can, Lazar Markovic, Dejan Lovren, Divock Origi, Javier Manquillo og Alberto Moreno. Við erum í alvöru talað að tala um rosalegar viðbætur við liðið okkar og þar fyrir utan þá er Jose Enrique orðinn heill heilsu aftur og við erum allt í einu komin með 2 vinstri bakverði. Hvað er að frétta? Topp miðvörður, hægri bakvörður, vinstri bakvörður, miðjumaður, tveir framsæknir miðjumenn og framherji. Og Brendan segist ekki hættur, hann vill bæta við sig einum alvöru framherja í viðbót.
Ég hef í ansi mörg ár þusað um það í Podköstum okkar á Kop.is að það vantaði meiri hraða í Liverpool liðið. Ég hætti þessi röfli á síðasta tímabili því hraðinn sem kominn var í liðið var rosalegur. En ef við horfum á þessar viðbætur í sumar, þá eiga þær flestar það sammerkt að enn bætist við hraðann. Báðir bakverðirnir eru öskufljótir. Emre Can á miðjunni telst seint vera seinn og þeir Lallana og Markovic koma með skemmtilega vídd inn í þetta allt saman. Þá erum við ekkert byrjuð að ræða menn eins og Ibe og Suso sem gætu líka orðið hluti af hóp í vetur. En þó svo að maður sé spenntur fyrir nýjum mönnum, þá er ég þó spenntastur að sjá næstu skref í ferli nokkurra leikmanna sem stigu upp á síðasta tímabili og gæði leka hreinlega af þeim í hverju skrefi. Já ég er að tala um þá Henderson, Coutinho, Sturridge og Sterling. Þeir eru allir korn ungir og virðast eiga mikið inni engu að síður. Haldi þeir áfram á sömu braut, þá geta þeir tryggt þetta Liverpool lið í titilbaráttu næstu árin.
Maður brosti hringinn á síðasta tímabili, þrátt fyrir að hafa misst af titlinum á grátlegan hátt í restina. Eitt atriði fór þó talsvert í pirrurnar á manni og hefur verið komið nokkrum sinnum inná það áður hér á síðunni. Þegar búið var að loka á Suárez og jafnvel Sturridge líka, þá leit maður á skipanina á bekknum með það fyrir augum að henda inn trompi sem gæti breytt leiknum. Uhh, ohh, damn, þar sátu kannski 4 varnarmenn með Aspas greyinu og hinum gjörsamlega áhugalausa Victor Moses. Bara ekkert, bara tómt. Brendan fær allavega einhverja valkosti núna, því maður skildi það oft á síðasta tímabili af hverju hann gerði ekki fleiri skiptingar en raun bar vitni, hann hreinlega hafi ekki nægilega trú á að það sem hann hafði í hóp myndi gera eitthvað betur eða meira en þeir sem inná voru, þótt þreyttir væru. Núna verður breyting á.
Það er ekki létt verk að ráða í það svona í byrjun tímabils hverjir muni hefja leik, enda búið að prófa ævintýralega marga leikmenn í leikjum undanfarið og ansi mörgum skipt inná og útaf í hverjum leik. Það er þó ljóst hverjir munu pottþétt missa af leiknum vegna meiðsla. Lazar Markovic mun ekki verða klár í slaginn, og áður hefur verið fjallað um fjarveru Lallana. Markovic ætti þó að vera orðinn klár fyrir næsta leik, gegn Man.City. Jon Flanagan verður einnig fjarri góðu gamni, en hann ku vera nálægt endurkomu. Sömu sögu er að segja af Daniel Agger. Ekki þykir heldur líklegt að Fabio Borini verði í leikmannahópnum, enda ekki ólíklegt að salan á honum til Sunderland gangi í gegn næstu daga. Moreno verður svo ekki kominn með leikheimild og því heldur ekki með. Þá held ég að það sé orðið nokkuð upptalið, allavega það sem vitað er akkúrat núna.
Það er morgunljóst og liggur í sólgleraugum uppi hver byrjar í marki, en þar með er það upptalið þegar kemur að einhverju sem er alveg öruggt í uppstillingu þarna aftast á vellinum. Eins og staðan er í dag, þá erum við með 2 hægri bakverði og 2 vinstri bakverði (Robinson ennþá ekki farinn á lán). Ég var ansi hreint hrifinn af frammistöðu Manquillo gegn Dortmund og ég ætla hreinlega að giska á að honum verði hent beint út í djúpu laugina og að hann hefði leik og vinur ykkar allra, hann Glen Johnson verði aftur í vinstri bakk. Ég hreinlega held að Brendan treysti ekki Jose strax í deildarleik, enda leit hann hreint ekki vel út á undirbúningstímabilinu. Ég er á því að Sakho þurfi að vinna inn sætið sitt og að Skrtel og Lovren verði í miðvörðunum. Gerrard verður að sjálfsögðu fyrir framan vörnina og Henderson hægra megin við hann, en stærsta spurningin í mínum huga er hver byrjar með þeim þarna inni á miðjunni. Ég vona að Brendan hugsi Lucas fyrst og fremst sem backup fyrir Stevie, þar á hann heima og er afar sterkur sem slíkur. Hann er ekki þessi leikmaður sem á að spila þarna framar á vellinum. Ég held að þetta verði spurning um það hvort Emre Can byrji í sínum fyrsta Úrvalsdeildarleik, eða hvort Brendan byrji með Joe Allen. Ég ætla að giska á það síðara. Þrenningin fremst verður svo skipuð þeim Coutinho, Sterling og Sturridge. Svona ætla ég sem sagt að spá þessu:
Lið Liverpool er svona
Mignolet
Manquillo – Skrtel – Lovren – Johnson
Henderson – Gerrard – Can
Sterling – Sturridge – Coutinho
Sem sagt, sama lið og gegn Dortmund, en Allen kemur inn fyrir Can.
Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað að er hrikalega ánægjulegt að vera farinn að skrifa upphitanir aftur, það fer um mann svona sæluhrollur. Mér er eiginlega nokk sama hversu margir lesa þessa langloku, þetta er bara ferlega gaman að setja niður hugsanir sínar, það er hreinlega bara bónus ef það eru einhverjir þarna úti sem hafa gaman af því að lesa þessa vellu. Þetta stefnir í algjörlega frábært tímabil, þrátt fyrir að nágrannar okkar séu nánast búnir að tryggja sér Meistaradeildarsæti áður en tuðru er sparkað. Ég get allavega ekki beðið eftir að flautað verði til leiks. Ekki ætla ég að reyna að leikgreina andstæðinga okkar frekar, enda ekki séð eina einustu mínútu undir stjórn Koeman. Þetta verður allt að koma í ljós en eitt er víst, ég er bara ansi hreint bjartsýnn fyrir þennan leik, hell yeah, ég er bara assgoti bjartsýnn á tímabilið sem er framundan. Ég er eiginlega á því að við komum til með að halda okkur í baráttunni í vetur, líkt og síðast, en breytingin sem verður á núna er að fleiri lið verða um hitunina. Búið ykkur undir spennu, hreinlega mikla spennu.
BRING…IT…ON
We Go Again
Uppfært
Tímabilið er annars byrjað á Englandi, það byrjaði ca. svona