Grannaslagur 27.september
Ég held að það sé óhætt að segja að hin hefðbundna hádegisstund á laugardegi með ristuðu brauði og tebolla verði ekki á þeim nótunum í Liverpoolborg þessa helgina.
Klukkan 12:45 á breskum tíma (sem er 11:45 á íslenskum tíma) er nefnilega grannaslagur númer 223 milli knattspyrnuliða borgarinnar, Liverpool FC og ……já, hins liðsins. Svo að ég hef töluverða trú á því að í stað te-sins albragðlausa hafi einhverjir drifið sig af stað snemma að heiman til að stemma sig upp í það mikla fjör sem að líklegt er að ríki inni á Anfield vellinum.
Við hugsum með hlýjum hug til síðustu viðureignar á okkar yndislega. Þá töldu ansi margir Evertonmenn vera kominn tíma á að vinna þennan erfiða útileik en svakalegur fyrri hálfleikur einfaldlega slátraði þeim.
Það er alltaf grimmd í þessum leikjum, en þó finnst mér þeir oft hafa aðra “áferð” þegar þeir eru svo snemma móts eins og nú. Ég held að það verði ennþá frekar núna þegar bæði lið hafa hafið mótið undir væntingum.
Við höfum vissulega byrjað verr en við vonuðum en Blánefjarnir sitja enn neðar en við, með einu stigi minna og aðeins einn sigur í fimm deildarleikjum. Í síðustu viku skoruðum við 16 mörk gegn neðrideildarliði þegar við komumst áfram í Capital One bikarnum. Á meðan kjöldrógu Swansea granna okkar 3-0 í þessari keppni og þau úrslit ollu titringi á meðal aðdáenda þeirra, þó vissulega hafi liðsskipan þeirra verið á svipuðu reiki og hjá okkar drengjum.
Þeir hvíldu ásana sína, þá Lukaku og Mirallas, en þeir hafa ekki náð að heilla í upphafi móts…frekar en annað nýtt nafn þeirra bláu, hinn síungi Samuel Eto’o. Þessir tveir verða komnir í byrjunarliðið á laugardaginn og eru þeir sem verða líklegastir til að valda okkur hættu auk Christian Atsu sem er í láni frá Chelsea og hefur verið einna sprækastur. Leikstíll Martinez gekk vel upp í fyrra en þeir virðast eiga í erfiðleikum varnarlega, þar sem vörn sem hingað til hefur verið kölluð “reynsluboltavörnin” er bara orðin frekar hæg…jafnvel gömul með Distin og Hibbert enn á ferðinn. Seamus Coleman hægri bakvörður er meiddur og það er óvíst um hans þátttöku. Það væri fínt að vera án hans.
En það er auðvitað Liverpoolborgarliðið Liverpool FC sem skiptir öllu máli.
Það er okkur öllum ljóst að liðið á sko enn eftir að fara upp úr startblokkunum þetta tímabil samanborið í fyrra. Leikur liðsins verið frekar hægur og hugmyndasnauður á köflum og margir leikmenn enn að aðlagast liðinu, hugmyndafræðinni og kannski ekki síst ensku deildinni.
Það verður örugglega töluverð eldskírn fyrir marga okkar leikmanna að taka þátt í Merseyside derbyinu. Hins vegar er alveg ljóst að við vorum að kaupa leikmenn í sumar sem var ætlað að ráða við svona leiki. Lovren, Moreno og Balotelli hafa verið að kljást við býsna öfluga leiki og ættu ekki að frjósa undir pressu svona leikja. Á meðan að Mario spilaði í ljósbláum búningi má alveg færa rök fyrir því að hans bestu leikir hafi verið í grannaslögum þeirrar borgar.
Mikið væri nú bara fínt að honum tækist eins vel upp í okkar grannaslögum!
Þegar kemur að því að velta fyrir sér liðsskipan okkar alrauða yndislega liðs er töluvert mikil óvissa varðandi liðsskipanina okkar. Blaðamannafundur dagsins hjá Brendan gaf okkur ekki mörg svör til að byggja á. Coutinho og Hendo eru tæpir, Sturridge líka. Eftir 120 mínútur plús vító í miðri viku er líka alveg ójóst um hversu tilbúnir Lallana, Sterling og Manquillo eru í þennan slag. En þeir bara verða að vera það.
Og þá er það leikkerfið. Verðum við með einn framherja…og þá hugsanlega með þríhyrning með tveimur miðjumönnum eða með einn djúpan? Er bara ekki viss um það, því mér hefur fundist Rodgers flakka töluvert með liðið. Ég held að mjög mikið ráðist af því hverjir miðjumannanna verða heilir til að spila og ætla að leyfa mér að stilla upp tveimur hugmyndum af byrjunarliði…
Mignolet
Manquillo – Lovren – Skrtel – Moreno
Gerrard – Lucas – Henderson
Markovic – Balotelli – Sterling
Þetta held ég að verði liðið ef Coutinho og Sturridge verða ekki tilbúnir til að spila og Lallana verður ekki treyst til að byrja leikinn. Balotelli uppi á topp og haldið áfram að reyna að koma Markovic í gang.
Hin hugmyndin:
Mignolet
Manquillo – Lovren – Skrtel – Moreno
Henderson – Gerrard – Coutinho – Sterling
Balotelli – Sturridge
Svona held ég að hann stilli upp ef að Sturridge og Coutinho hafa náð sér, þarna væri verið að tala um tígul með Gerrard djúpan, Coutinho og Hendo og svo Sterling efst í tíglinum. Svo það sé á hreinu er þetta það lið sem ég vill sjá byrja leikinn.
Hvað svo?
Vitiði, ég bara veit ekki. Ég hef fulla trú á liðinu okkar og er viss um að það mun hrökkva í gír. En hvort að laugardagurinn er málið, frekar en að við kop.is ferðalangar spörkum því í gang í þeim næsta gegn WBA bara veit ég ekki.
Liðin eru bæði vængbrotin, ekki full af sjálfstrausti og töluvert sem þau þurfa að laga í leik sínum. Það er hins vegar að mínu mati eilítil sálfræði með okkar mönnum, við vitum að við eigum að vera með sterkara lið og höfum átt góð úrslit í þessari viðureign á Anfield.
Það og góð tilfinning um að botninum hafi verið náð í London um síðustu helgi verður til þess að ég ætla að tippa á að við sækjum þrjú stig í þessum leik. Segjum 2-1 sigur og Balo skorar a.m.k. annað markið. Þrjú stig í hús og það markar upphaf góðs tímabils hjá liðinu okkar allra.
KOMA SVO!!!!!!!!!!!!