Latest stories

  • Grannaslagur 27.september

    Ég held að það sé óhætt að segja að hin hefðbundna hádegisstund á laugardegi með ristuðu brauði og tebolla verði ekki á þeim nótunum í Liverpoolborg þessa helgina.

    Klukkan 12:45 á breskum tíma (sem er 11:45 á íslenskum tíma) er nefnilega grannaslagur númer 223 milli knattspyrnuliða borgarinnar, Liverpool FC og ……já, hins liðsins. Svo að ég hef töluverða trú á því að í stað te-sins albragðlausa hafi einhverjir drifið sig af stað snemma að heiman til að stemma sig upp í það mikla fjör sem að líklegt er að ríki inni á Anfield vellinum.

    Við hugsum með hlýjum hug til síðustu viðureignar á okkar yndislega. Þá töldu ansi margir Evertonmenn vera kominn tíma á að vinna þennan erfiða útileik en svakalegur fyrri hálfleikur einfaldlega slátraði þeim.

    Það er alltaf grimmd í þessum leikjum, en þó finnst mér þeir oft hafa aðra “áferð” þegar þeir eru svo snemma móts eins og nú. Ég held að það verði ennþá frekar núna þegar bæði lið hafa hafið mótið undir væntingum.

    Við höfum vissulega byrjað verr en við vonuðum en Blánefjarnir sitja enn neðar en við, með einu stigi minna og aðeins einn sigur í fimm deildarleikjum. Í síðustu viku skoruðum við 16 mörk gegn neðrideildarliði þegar við komumst áfram í Capital One bikarnum. Á meðan kjöldrógu Swansea granna okkar 3-0 í þessari keppni og þau úrslit ollu titringi á meðal aðdáenda þeirra, þó vissulega hafi liðsskipan þeirra verið á svipuðu reiki og hjá okkar drengjum.

    RaheemÞeir hvíldu ásana sína, þá Lukaku og Mirallas, en þeir hafa ekki náð að heilla í upphafi móts…frekar en annað nýtt nafn þeirra bláu, hinn síungi Samuel Eto’o. Þessir tveir verða komnir í byrjunarliðið á laugardaginn og eru þeir sem verða líklegastir til að valda okkur hættu auk Christian Atsu sem er í láni frá Chelsea og hefur verið einna sprækastur. Leikstíll Martinez gekk vel upp í fyrra en þeir virðast eiga í erfiðleikum varnarlega, þar sem vörn sem hingað til hefur verið kölluð “reynsluboltavörnin” er bara orðin frekar hæg…jafnvel gömul með Distin og Hibbert enn á ferðinn. Seamus Coleman hægri bakvörður er meiddur og það er óvíst um hans þátttöku. Það væri fínt að vera án hans.

    En það er auðvitað Liverpoolborgarliðið Liverpool FC sem skiptir öllu máli.

    Það er okkur öllum ljóst að liðið á sko enn eftir að fara upp úr startblokkunum þetta tímabil samanborið í fyrra. Leikur liðsins verið frekar hægur og hugmyndasnauður á köflum og margir leikmenn enn að aðlagast liðinu, hugmyndafræðinni og kannski ekki síst ensku deildinni.

    Það verður örugglega töluverð eldskírn fyrir marga okkar leikmanna að taka þátt í Merseyside derbyinu. Hins vegar er alveg ljóst að við vorum að kaupa leikmenn í sumar sem var ætlað að ráða við svona leiki. Lovren, Moreno og Balotelli hafa verið að kljást við býsna öfluga leiki og ættu ekki að frjósa undir pressu svona leikja. Á meðan að Mario spilaði í ljósbláum búningi má alveg færa rök fyrir því að hans bestu leikir hafi verið í grannaslögum þeirrar borgar.

    Mikið væri nú bara fínt að honum tækist eins vel upp í okkar grannaslögum!

    Þegar kemur að því að velta fyrir sér liðsskipan okkar alrauða yndislega liðs er töluvert mikil óvissa varðandi liðsskipanina okkar. Blaðamannafundur dagsins hjá Brendan gaf okkur ekki mörg svör til að byggja á. Coutinho og Hendo eru tæpir, Sturridge líka. Eftir 120 mínútur plús vító í miðri viku er líka alveg ójóst um hversu tilbúnir Lallana, Sterling og Manquillo eru í þennan slag. En þeir bara verða að vera það.

    Og þá er það leikkerfið. Verðum við með einn framherja…og þá hugsanlega með þríhyrning með tveimur miðjumönnum eða með einn djúpan? Er bara ekki viss um það, því mér hefur fundist Rodgers flakka töluvert með liðið. Ég held að mjög mikið ráðist af því hverjir miðjumannanna verða heilir til að spila og ætla að leyfa mér að stilla upp tveimur hugmyndum af byrjunarliði…

    Mignolet

    Manquillo – Lovren – Skrtel – Moreno

    Gerrard – Lucas – Henderson

    Markovic – Balotelli – Sterling

    Þetta held ég að verði liðið ef Coutinho og Sturridge verða ekki tilbúnir til að spila og Lallana verður ekki treyst til að byrja leikinn. Balotelli uppi á topp og haldið áfram að reyna að koma Markovic í gang.

    Hin hugmyndin:

    Mignolet

    Manquillo – Lovren – Skrtel – Moreno

    Henderson – Gerrard – Coutinho – Sterling

    Balotelli – Sturridge

    Svona held ég að hann stilli upp ef að Sturridge og Coutinho hafa náð sér, þarna væri verið að tala um tígul með Gerrard djúpan, Coutinho og Hendo og svo Sterling efst í tíglinum. Svo það sé á hreinu er þetta það lið sem ég vill sjá byrja leikinn.

    Hvað svo?

    Gerrard_EvertonVitiði, ég bara veit ekki. Ég hef fulla trú á liðinu okkar og er viss um að það mun hrökkva í gír. En hvort að laugardagurinn er málið, frekar en að við kop.is ferðalangar spörkum því í gang í þeim næsta gegn WBA bara veit ég ekki.

    Liðin eru bæði vængbrotin, ekki full af sjálfstrausti og töluvert sem þau þurfa að laga í leik sínum. Það er hins vegar að mínu mati eilítil sálfræði með okkar mönnum, við vitum að við eigum að vera með sterkara lið og höfum átt góð úrslit í þessari viðureign á Anfield.

    Það og góð tilfinning um að botninum hafi verið náð í London um síðustu helgi verður til þess að ég ætla að tippa á að við sækjum þrjú stig í þessum leik. Segjum 2-1 sigur og Balo skorar a.m.k. annað markið. Þrjú stig í hús og það markar upphaf góðs tímabils hjá liðinu okkar allra.

    KOMA SVO!!!!!!!!!!!!

  • Swansea í Capital-bikarnum

    Búið að draga í 16 liða úrslitum Capital One bikarnum.

    Verðlaunin fyrir sigur í nærri þriggja tíma viðureign gegn Middlesboro’ er annar heimaleikur.

    Fyrrum lærisveinar Brendans í Swansea, með Gylfa Þór í broddi fylkingar, mæta á Anfield í síðustu viku október.

  • Liverpool 16 – Middlesbro’ 15

    Ég ætla bara að viðurkenna það að ég þurfti að anda inn og út áður en ég settist niður til að hripa þessi orð á blað.

    Þessi eina leikskýrsla sem ég fæ þennan mánuðinn átti meira skilið en það að hafa mig í rantstuði að fara yfir það sem sást. Ég skil fullkomlega að ekki allir lesi hana alla og set því bara “meira” núna strax fyrir þá sem vilja fara beint í athugasemdirnar.

    (more…)

  • Byrjunarliðið gegn Boro’

    Þá er komið í ljós hvernig Rodgers stillir upp í kvöld.

    Mignolet

    Manquillo – Toure – Sakho – Enrique

    Rossiter – Lucas – Lallana

    Markovic – Lambert – Sterling

    Bekkur: Jones, Skrtel, Moreno, Williams, Suso, Borini, Balotelli.

    Held allavega að við sjáum þetta svona, laga það þá til í leikskýrslunni.

    Fyrirliði kvöldsins er Rickie Lambert. Það er örugglega í fyrsta sinn í sögunni að leikmaður sem er í fyrsta sinn í byrjunarliði Liverpool er jafnframt fyrirliði. Til hamingju með það Rickie.

    Ljóst að þessi leikur er notaður í að gefa mínútur og koma mönnum í leikform sem minna hafa spilað. Á bekknum er 19 ára welskur strákur, Jordan Williams og Suso auk nafna sem töluvert hafa spilað.

    Sjáum hvað verður.

  • Middlesbrough í Capital One Cup á þriðjudag

    Liverpool tekur á móti Middlesbrough í þriðju umferð Capital One bikarsins á þriðjudagskvöld og hefjast leikar kl. 18:45. Þetta er fínt tækifæri til þess að koma West Ham leiknum úr kerfinu, ná í smá leikæfingu og gott tækifæri fyrir ákveðna leikmenn til þess að stimpla sig inn fyrir nágrannaslaginn um helgina.

    Capital banner

    Árangurinn rýr

    Liverpool liðið hefur ekki farið langt í bikarkeppnunum s.l. tvö ár, eða síðan Brendan Rodgers tók við. Við höfum fallið úr leik í þriðju umferð í bæði skiptin í deildarbikarnum. Töpuðum í fyrra 1-0 gegn United á Old Trafford þar sem að við fengum mark á okkur eftir hornspyrnu (SHOCKING!). Árið áður var tapið öllu verra, 1-3 á Anfield gegn Swansea þar sem að fyrsta markið kom eftir horn (það er ekki hægt að skálda svona) en hin tvö eftir skyndisóknir.

    Árangurinn í FA-bikarnum hefur verið litlu skárri, náðum í 16 liða úrslit á síðasta tímabili, töpuðum þá 2-1 á Emirates þar sem að fyrra mark Arsenal kom í kjölfarið á hornspyrnu og Podolski tvöfaldaði svo forystuna áður en Gerrard minnkaði muninn. En á fyrsta tímabili Rodgers þá féllum við úr leik í 32 liða úrslitum gegn stórliði Oldham, 3-2, eftir tvö skallamörk heimamanna.

    Ef sagan kennir okkur eitthvað þá er það líklega að fá ekki á okkur horn 🙂

    Sýnd veiði en ekki gefin

    Middlesbrough situr í fimmta sæti Championship deildarinnar eftir 8. leiki með 5 sigra og 3 töp. Þeir eru að spila í fyrsta sinn í sinni 138 ára sögu undir stjórn þjálfara sem ekki er enskur eða skoskur. Kauði heitir Aitor Karanka , er spænskur og er fyrrum aðstoðarstjóri Móra hjá Real Madrid.

    Middlesbrough eru að koma inn í þennan leik eftir góðan 4-0 sigur gegn Brentford og hafa þeir því unnið þrjá leiki í röð eftir erfiða byrjun.

    Fyrrum Sunderland maðurinn, Grant Leadbitter, er þeirra markahæsti leikmaður með sex mörk í tíu leikjum og er því búinn að jafna sitt besta tímabil í treyju Boro (sex mörk 2013/14 og fjögur 2012/13), en þar á eftir kemur fyrrum Real Madrid leikmaðurinn (sem aldrei lék þó leik með aðalliðinu) Kike með fjögur.

    Annars ætla ég ekki að þykjast vita mikið um Middlesbrough. Við höfum hvorki efni á að vera með eitthvað vanmat né getum við falið okkur á bakvið lítinn hóp þetta árið þannig að okkar áhersla og fókus á að vera á okkur sjálfa. Hvernig við ætlum að koma inn í þennan leik og vinna hann.

    Okkar menn

    Ég man ekki eftir því að Liverpool hafi getað stillt upp jafn sterku „varaliði“, ef varalið skal kalla. Við erum með þó nokkra leikmenn sem þurfa að fá mínútur og sjálfstraust og ættum við að geta stillt upp nokkuð sterku liði á þriðjudaginn þrátt fyrir að við séum í bölvuðum vandræðum á miðjusvæðinu með Henderson, Coutinho, Allen og Can alla frá vegna meiðsla (!).

    Það er nágrannaslagur um næstu helgi og sé ég ekki að Rodgers taki sénsinn á leikmönnum eins og Lovren, Skrtel, Gerrard, Balotelli og Sturridge. Það er auðvitað smá séns að hann láti Gerrard spila vegna manneklu. Ég vona samt að hann fari aðra leið, gefi Rossiter sénsinn á miðri miðjunni með Suso eða Lallana sér við hlið.

    Rodgers getur að mínu mati bæði farið í tígulmiðju með þá Borini og Lambert frammi eða skipt Borini út fyrir Sterling/Suso og farið í 4-2-3-1. Ég ætla þó að skjóta á fyrri kostinn, þ.e. að hann stilli upp nokkurskonar 4-1-2-1-2 með Lazar Markovic að styðja við þá Borini og Lambert.

    Liðið4

    Þarna set ég Sakho og Toure saman í vörnina einfaldlega vegna þess að ég tel að þeir spili ekki gegn Everton. Manquillo fær ekki frí þar sem að hinir hægri bakverðirnir okkar eru meiddir (spilaði auðvitað bara 20 min gegn West Ham). Enrique fær loksins einhverjar mínútur (sé þær samt ekki verða margar í vetur utan bikarkeppna). Lucas er á miðjunni með Rossiter og Lallana. Það er nú þegar búið að gefa út að Lambert spili og Lazar vantar mínútur – það er helst spurning um Sterling, Suso og Borini að mínu mati, ég spái því samt að Sterling verði hvíldur og Borini byrji annan leikinn í röð. Suso gæti auðvitað spilað í stað Lallana en ég efast samt um að Rodgers láti Suso og Rossiter báða byrja.

    Pælingar og spá

    Ég vil ekki bara fá sigur, ég er vil líka sjá góða spilamennsku. Auðvitað er Middlesbrough lið sem við ættum alltaf að vinna, jafnvel þó að við stillum ekki upp okkar sterkasta liði. Hópurinn hjá okkur er það stór að ef ofangreint lið verður raunin á þriðjudag þá erum við að tala um a.m.k. sex landsliðsmenn og góða blöndu af ungum og reynslumeiri leikmönnum.

    Bikarinn er aftur á móti skemmtilegur og form og staða í deild fer út um gluggann þegar flautað er til leiks. Leikmenn Boro hafa engu að tapa og ég neita að trúa því að leikmenn í okkar röðum, sérstaklega þeir sem eru að reyna að spila sig í liðið, leyfi einhverju vanmati að komast að í hausnum á sér. Það ætti nú bara að vera nóg að sýna þeim stöðuna í deildinni til þess að tryggja að svo sé ekki.

    Við verðum samt að rótera liðinu því eftir Everton leikinn um næstu helgi er mikilvægur útileikur í Sviss gegn Basel. Við förum því ekki aftur í þann pakka að láta Gerrard spila þrjá leiki á viku, bara plís ekki. Ef ég mætti velja einn sigur í þessum þremur leikjum þá væri það alltaf í deildinni gegn Everton, deildin er og á að vera forgangsatriði.

    Byrjunin hjá okkar mönnum hefur verið brösótt og vantar allt flæði í leik okkar. Það sem er verra er að jafnvel þó að sóknin sé döpur þá er vörnin enn verri og miðjan ekki til staðar, það er eitthvað sem verður að ráða bót á. Eins og Babu orðaði svo vel, það er ekki hægt að vinna titlana á haustinn en það er svo sannarlega hægt að tapa þeim. Það eru engar afsakanir lengur, hópurinn er það stór að við eigum að geta gert atlögu á öllum vígstöðum og að vissu leiti þá þarf klúbburinn, leikmennirnir og þjálfarinn á því að halda að við förum að vinna til verðlauna. Jafnvel þó það sé „bara“ Carling Cup.

    Ég ætla að spá okkur 3-1 sigri í skemmtilegum leik þar sem að Lambert skorar sitt fyrsta mark fyrir klúbbinn og Markovic og Borini skora sitt markið hvor.

    Koma svo!

    YNWA

  • Bak við tjöldin hjá Liverpool – Chris Davies

    Þegar Brendan Rodgers tilkynnir byrjunarliðið klukkutíma fyrir hvern leik er óhætt að fullyrða að á bak það val er miklu meiri og ítarlegri vinna en við sófasérfræðingarnir gerum okkur grein fyrir. Upplýsingarnar sem við höfum milli leikja eru bara toppurinn á ísjakanum og aðallega byggðar á því sem við sáum í leiknum á undan, huglægu mati hvers og eins ásamt óljósum fréttum vikuna fyrir leik af meiðslum. Engu að síður náum við að æsa okkur upp fyrir hvern leik yfir vali sem við erum ósammála, get tekið kvikindislegt (og fyndið) dæmi héðan.

    Það sem við sjáum ekki er frammistaða leikmanna berum augum sem er oft allt öðruvísi en sjónvarpsmyndavélarnar ná að sýna. Frammistaða á æfingum, líkamlegt ástand leikmanna og hugarfar fer einnig nánast alveg framhjá okkur og hefur mikið að segja um byrjunarliðið. Auk þess ræðst byrjunarliðið og leikskipulagið að miklum hluta af andstæðingnum hverju sinni. Vinnan sem fer í að greina andstæðingin er gríðarleg og sá sem er yfir þeirri deild hjá Liverpool er einn nánasti aðstoðarmaður Brendan Rodgers sem treystir gríðarlega mikið á þær upplýsingar sem hann veitir hverju sinni.

    Það að skoða andstæðinginn er ekkert nýtt í fótboltanum en með aukinni tækni og nýjum móttækilegri þjálfurum hefur þessi partur undirbúningsins verið tekinn upp á allt annað level undanfarin ár og á eftir að þróast mjög mikið næstu árin. Andre Villas-Boas vann í sjö ár undir stjórn Jose Mourinho við að greina andstæðinginn og var lykilmaður á bak við tjöldin. Brendan Rodgers hefur lært töluvert af þeim báðum er hann vann með þeim hjá Chelsea.
    Mæli með fræbærri grein um stirt samband Villas-Boas og Mourinho.

    Liverpool eru framarlega í þessari deild þökk sé Brendan Rodgers og starfsliði hans, líklega var þetta einn af mörgum þáttum sem heillaði FSG vorið 2012. Bandarískar íþróttir hafa verið langt á undan fótboltanum í að nota tölfræðilegar upplýsingar og leggja mikið upp úr þeim. FSG voru í fararbroddi að tileinka sér nýja hluti hjá Boston Red Sox og eru sagðir vera gríðarlega fylgjandi notkun á tölfræði og borga vel mönnum sem kunna að greina það sem skiptir máli.
    Til að gera sér aðeins í hugarlund hversu ítarlegt þetta er t.d. orðið í NBA mæli ég með að áhugasamir lesi sig til um DataBall.


    Hin frábæra vefsíða The Tomkins Times tók á dögunum besta viðtal ársins til þessa við Chris Davies sem er yfirmaður deildarinnar sem sér um að njósna um andstæðinginn og greina leik þeirra.

    Viðtalið er skyldulesning og kveikjan að þessari færslu. Mig langar að skoða það betur því þetta sýnir ágætlega hversu mikil vinna er á bak við hvern leik og opnar augu manns fyrir hlutum sem við leiðum hugan vanalega ekki að fyrir leik. Þetta er nokkuð lagt og í stað þess að líma það hingað í heild sinni þá endilega lesið þetta yfir áður en lengra er haldið.

    Þetta er tekið í samvinnu Bob Pearce penna á TTT og Mihail Vladimirov sem er taktískur sérfræðingur síðunnar, spurningar þeirra eru mjög góðar og svörin frábær en þeir hafa unnið að þessu í langan tíma. Hér á eftir ætla ég að taka nokkra punkta út sem mér fannst áhugaverðir og bæta mínum hugleiðingum við.
    (more…)

  • West Ham 3 Liverpool 1

    Okkar menn héldu til Lundúna í 5. umferð Úrvalsdeildarinnar og máttu þola 3-1 tap gegn West Ham með einni verstu frammistöðu liðsins undir stjórn Brendan Rodgers.

    Rodgers gerði þrjár breytingar frá því í Meistaradeildinni og stillti upp þessu liði:

    Mignolet

    Manquillo – Skrtel – Lovren – Moreno

    Sterling – Gerrard – Henderson – Lucas

    Borini – Balotelli

    Bekkur: Jones, Touré, Enrique, Sakho (inn f. Manquillo), Lallana (inn f. Lucas), Markovic, Lambert (inn f. Borini).

    Leikurinn hófst eins illa og hægt er að hugsa sér og voru Hamrarnir komnir í 2-0 eftir átta mínútna leik. Fyrst skoraði Lovren eða Winston Reid strax á 2. mínútu. Fyrirgjöfin kom frá hægri yfir á fjærstöngina þar sem Henderson lét éta sig. RidgewellTomkins skallaði þar til baka fyrir markið þar sem Mignolet, Skrtel og Lovren voru allir úr stöðu og Reid eða Lovren (að reyna að komast á undan Reid að boltanum) potaði honum inn. Skelfilegt mark í alla staði.

    Ekki tók betra við, West Ham voru með öll völd og bættu við marki strax á 8. mínútu. Þá fékk Sakho (þeirra maður) boltann óvaldaður við hægra horn vítateigs Liverpool, eftir að Lucas, Gerrard og Balotelli höfðu átt erfitt með að spila upp miðjuna og á endanum misst boltann. Á meðan Balotelli virtist rífast við Lucas um þetta ruku Hamrarnir fram, boltinn barst til hægri á Sakho sem var óvaldaður þar sem Moreno var langt út úr stöðu. Hann leit upp, sá að Mignolet var á leiðinni út og vippaði snyrtilega yfir hann og í fjærhornið. Ótrúlega auðvelt en sofandaháttur liðsins frá A til Ö og slæm staðsetning Mignolet bauð upp á þetta.

    Áfram hélt stórsókn West Ham og Mignolet varði í tvígang vel langskot þeirra. Það var svo gegn gangi leiksins að okkar menn minnkuðu muninn en á 26. mínútu tók Balotelli fyrirgjöf Henderson vel niður og skaut að marki. Varnarmaður varð fyrir, boltinn hrökk út á Sterling sem negldi honum óverjandi í fjærhornið. 2-1 var staðan og eftir þetta lentu Sakho (okkar), sem þá var kominn inn fyrir Manquillo, og Lovren í samstuði og Lovren steinlá á eftir. Þetta kostaði 6 mínútna töf sem kálaði rythma leiksins svo hann fjaraði út í hálfleikinn.

    Okkar menn gátu í raun prísað sig sæla að vera bara 2-1 undir eftir þennan hálfleik sem var einn sá lélegasti undir stjórn Rodgers. Hann gerði breytingu í hléi. Meiðsli Manquillo þýddu að Sterling þurfti að fara úr holunni og niður í hægri vængbakvörðinn og því setti hann Lallana inn fyrir Lucas til að hafa áfram mann í holunni.

    Seinni hálfleikurinn var ekki mikið skárri. Hamrarnir gerðu það sem Sam Allardyce er vanur að gera, duttu langt niður á völlinn og leyfðu Liverpool að hafa boltann. Það gekk þó ekkert, flæðið í sóknarleik liðsins var pínlega lélegt og færin voru fá og langt á milli. Undir lokin skallaði Sakho (okkar) svo hreinsun beint í lappirnar á Downing sem lagði hann inn fyrir á Amalfitano sem innsiglaði sanngjarnan 3-1 sigur heimamanna.

    Nokkrir punktar:

    Brendan Rodgers þarf að fara að finna sitt sterkasta lið og sína leikaðferð. Hann hrærði enn og aftur í bæði byrjunarliðinu og leikaðferðinni í dag og það sýndi sig í algjöru reiðileysi inná vellinum, sérstaklega í upphafi leiks. Ég átti einmitt von á að liðið myndi reyna að byrja leiktíðina eins óbreytt og það gæti frá því sem virkaði svo vel á síðustu leiktíð en Rodgers hefur – bæði tilneyddur og líka að eigin völ – verið að breyta byrjunarliðunum allt of mikið á milli leikja og leikaðferðum líka. Þetta skrifast algjörlega á hann og hann bara verður að gera betur.

    Að því sögðu þá eru þarna leikmenn að falla á stórum prófum í upphafi leiktíðar. Ég er ekki að tala um nýju leikmennina eða ungu strákana. Það segir sitt að Sterling og Moreno hafi verið okkar bestu menn það sem af er tímabili. Mignolet, Skrtel, Sakho, Gerrard, Lucas. Hvar eru þessir leikmenn? Eru þeir ekki nógu góðir til að spila þarna eða? Ég skil ekkert hvað er í gangi en enn og aftur eru ungu strákarnir ljósið í myrkrinu á meðan svokallaðir reynsluboltar og/eða leiðtogar í liðinu hiksta í kringum þá. Mér er skapi næst að panta Kolo Touré í næsta byrjunarlið, og Brad Jones í markið. Svo slæmt er þetta.

    Lokapunkturinn: það er 20. september og Liverpool er búið að tapa 3 deildarleikjum. Liðið tapaði 6 deildarleikjum allt síðasta tímabil. Það er ekki hægt að vinna titilinn á haustin en það er sko fullkomlega hægt að tapa honum og Liverpool er að fara langt með að stimpla sig út úr þeirri baráttu á mettíma. Auk þess er núna búið að gjörsamlega kasta frá sér allri þeirri virðingu og ótta sem liðið hafði unnið sér inn meðal mótherja sinna á síðustu leiktíð. Og sjálfstraustið innan raða liðsins virðist ekkert, hvorki nú né í síðustu leikjum.

    Hver er lausnin? Ég veit það ekki en það er ljóst að Liverpool er búið að koma sér aftur á stóran og feitan núllpunkt sem knattspyrnulið. Breytinga er þörf og nú kalla ég eftir því að knattspyrnustjórinn og leiðtogar þessa liðs stígi upp og sýni okkur að þeir geti fundið lausnirnar.

    Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef þeir geta það ekki.

  • Liðið gegn West Ham

    Fyrst, ég sat og spjallaði við Tómas og Elvar Geir hjá útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu í dag. Þið getið hlustað á upptöku af því hér.

    Þá að leiknum. Byrjunarliðið er komið og Rodgers gerir þrjár breytingar frá liðinu sem vann Ludogorets í vikunni:

    Mignolet

    Manquillo – Skrtel – Lovren – Moreno

    Henderson – Gerrard – Lucas
    Sterling

    Balotelli – Borini

    Bekkur: Jones, Touré, Sakho, Enrique, Lallana, Markovic, Lambert.

    Þetta er nokkuð sterkt lið. Tígulmiðjan með Sterling fremstan og Balotelli fær annan framherja með sér. Ég er ekki sannfærður um að Lucas og Borini séu nógu góðir fyrir byrjunarlið okkar í dag, og ég er ekki viss um að það sé rétt að setja Skrtel inn fyrir Sakho frekar en Lovren, en án Allen og Sturridge er þetta besta lausnin til að geta spilað tígulinn.

    Spes samt að Coutinho sé ekki einu sinni á bekk.

    Koma svo, áfram Liverpool!

  • West Ham um helgina

    Seinni part næstkomandi laugardags ferðast Liverpool til Lundúna þar sem þeir munu mæta Stóra Sam og félögum í West Ham.

    Síðastliðinn þriðjudag fengum við stuðningsmenn Liverpool loksins sopa af vatni eftir fjögur löng ár í eyðimörkini. Hvað er ég að bulla? Jú, að sjálfsögðu spiluðum við loksins aftur í Meistaradeildinni eftir að hafa verið úr keppninni í fjögur ár. FJÖGUR ÁR!

    Langþráð endurkoma Liverpool í Meistaradeildina byrjaði ekki á flugeldasýningu líkt og margir gætu hafa vonað eða reiknað með. Liðið vann seiglusigur á spræku liði Ludogoretz frá Búlgaríu með því að Captain Fantastic, Steven Gerrard, tryggði 2-1 sigur með svellkaldri og öruggri vítaspyrnu í uppbótartíma. Þetta var ekki fallegasti eða glæstasti sigur sem við Púllarar höfum séð frá okkar mönnum í keppninni en þetta hafðist. Það var tæpt en hafðist.

    Síðustu tvær frammistöður Liverpool hafa ekki verið sérlega sannfærandi. Leikmenn hafa átt einstaka rispur en heilt yfir var holningin á liðinu ekki alveg nægilega góð. Menn hafa ýmsar skoðanir á hvað það er sem hefur verið að haftra liðinu.
    (more…)

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close