Opinn þráður – Spennandi sóknarlína, vesen í vörninni.
Tökum að handahófi helstu punkta tengdum Liverpool, það var leikur í nótt og ennþá er töluvert að gera á leikmannamarkaðnum, mest þó hvað varðar leikmenn á útleið í tilviki okkar manna.
Divock Origi
Ég var bara hálfpartinn að grínast í nótt þegar ég sagði að byrjunarliðið fyrir mér væri Origi og 10 aðrir. Hann kom inná í hálfleik í gegn AC Milan og gjörbreytti leiknum. Jurgen Klopp bara getur varla verið að leggja tímabilið upp með Daniel Sturridge sem sinn mikilvægasta leikmann, þú byggir liðið upp í kringum þá sem skora mörkin og því miður er ekki hægt að leggja svo mikið undir á Sturridge. Auðvitað frábært að hafa Sturridge þegar hann er heill og gríðarlegur bónus fyrir liðið, hvað þá ef þeir geta spilað saman frammi, en ef Klopp hyggst leggja upp með bara einn sóknarmann held ég að Origi sé framtíðin, jafnvel núna strax á þessu tímabili. Origi hefur snerpuna og rúmlega það sem Sturridge hafði á sama aldri en hefur aðeins tapað núna í kjölfar meiðslavandræða sem hafa plagað hann alla tíð.
Jordan Henderson
Emre Can spilaði ekkert í gær og í hans stað spilaði Henderson í því hlutverki sem líklegt er að Can gegni í vetur, aftasti miðjumaður. Fyrirliðinn spilaði 75 mínútur og sagði eftir leik að hann væri meiðslalaus og í besta formi sem hann hefði verið í langan tíma. Hann var sprækur í leiknum og ef hann meiðist ekki aftur er þetta bókstaflega eins og nýr leikmaður fyrir Klopp. Lofaði góðu í gær og maður þakkaði bara Roy Hodgson fyrir að hafa frekar treyst á Jack Wilshere fyrr í sumar.
Adam Lallana
Wijnaldum og Mané hafa gert það að verkum að Lallana hefur nánast gleymst í sumar. Hann spilaði á miðjunni í gær og ef hann á framtíð hjá Klopp er líklegast hún verði þar, a.m.k. á þessu tímabili. Af þremeningunum Lallana, Coutinho og Firmino er líklegast að Lallana fái hlutverk aftar á vellinum, eðlilega þar sem þetta er leikmaður sem er mjög vinnusamur, góður á boltann en skorar ekki nóg. Hann gæti svínvirkað á miðjunni með marga hraða/góða leikmenn fyrir framan sig.
James Milner
Mest óspennandi fréttir vikunnar voru á þá leið að Liverpool myndi mögulega ekki kaupa nýjan bakvörð heldur treysta frekar á Milner í því hlutverki. Hann byrjaði strax í gær sem vinstri bakvörður og því kannski eitthvað á bakvið þetta. Fyrir mér er þetta metnaðarleysi og mjög léleg vinnubrögð hjá félaginu, það getur ekki verið svona flókið að kaupa bakvörð sem veitir t.d. Moreno samkeppni. Fyrir utan að ef Milner á að vera back-up bakvörður ætti það mikið frekar að vera hægra megin enda er sú staða svipað þunnskipuð. Lýst í raun betur á það en að hafa hann sem byrjunarliðsmann á miðjunni.
Jon Flanagan samþykki núna um helgina að fara á láni til Burnley á þessu tímabili sem er gott mál. Fyrir var búið að selja Brad Smith (og losna við Enrique). Joe Gomez meiddist aftur, það er 19 ára miðvörður að upplagi sem hefur verið meiddur í eitt ár þegar hann kemur aftur. Það er því fáránlegt að kaupa engan í staðin og ætla frekar að nota einn miðjumanninn sem back up. Mun ekki kaupa þetta fyrr en 1.sept.
Sheyi Ojo
Sumarið 2013 var Raheem Sterling (´94 módel) langmesta efnið hjá Liverpool, fyrsta mögulega stórstjarnan úr unglingastarfingu í mörg ár. Þá var einnig fylgst grant með Jordon Ibe (´95 módel) sem var engu minna efni og enn neðar Sheyi Ojo (´97 módel). Þrír leikmenn sem strax var nokkuð ljóst að myndu allir verða Úrvalsdeildarleikmenn, allir efni í stjörnur.
(more…)