Úlfarnir gerðu okkur gríðarlegan greiða í gær þegar þeir unnu Manchester City og tryggðu það að Liverpool er með þrettán stiga forskot í deildinni með leik inni. Erum því þegar komnir með allavega nokkra putta á titilinn en nú er mikilvægt að halda einbeitingu og halda áfram að vinna leiki til að tryggja að þetta verði niðurstaðan í vor.
Wolves er með sigrinum í gær komið í fimmta sæti deildarinnar með þrjátíu stig og er að stimla sig inn í Meistaradeildarbaráttuna. Þeir eru hinsvegar í þeirri óaðdáunnarverðu stöðu að fá minnstu hvíldina í jólatörninni og mæta tveimur bestu liðum deildarinnar á innann við 48 klukkustundum og því líklegt að við sjáum mjög breytt lið frá leiknum í gær. Úlfarnir hafa hinsvegar staðið sig ágætlega í ár þegar þeir hafa verið að spila í Evrópudeildinni svo þeir eru klárlega sýnd veiði en ekki gefinn.
Willy Boly einn þeirra besti varnarmaður verður enn frá vegna meiðsla en það hefur ekki haft jafn mikil áhrif á liðið og maður bjóst við en Liverpool strákurinn Conor David Coady stýrir vörninni eins og herforingi þrátt fyrir að spila þar mikið með Saiss og Dendonker sem eru vanari því að spila á miðsvæðinu. Coady var fyrirliði unglingaliða Liverpool í mörg ár og náði meira að segja að spila úrvalsdeildarleik með liðinu gegn Fulham árið 2013 áður en hann fór, þá til Sheffield United. Honum verður líkelga vel tekið á morgun.
Okkar menn
Eftir að hafa unnið Heimsmeistaratitil félagsliða kom liðið tilbaka til Englands og gjörsamlega gekk frá Leicester sem er í öðru sæti deildarinnar. Við höfum lengi talað um að liðið líti út eins og það eigi eitthvað inni og það sýndi okkur það gegn Leicester. Við fáum degi lengri hvíld en Wolves fyrir þennan leik en býst nú samt við að Klopp reyni að nýta hópinn í þessum leik til að fá einhverjar ferskar fætur.
Það er lítið nýtt að frétta af meiðslum hjá Liverpool þar sem Matip, Lovren, Clyne, Chamberlain, Fabinho og Brewster eru allir en Henderson fór meiddur af velli gegn Leicester. Klopp sagði hinsvegar eftir leik að meiðslin hefðu ekki verið slæm og Hendo hefði jafnvel getað klárað leikinn en það hafi verið ákveðið að taka engar áhættur.
Er í raun mjög óviss um hvað hann muni gera í liðsvalinu á morgun, nema að ég tel að hann muni hvíla einn af fremstu þremur. Salah kom snemma útaf gegn Leicester svo ég tel líklegra að annar af Mané eða Firmino hvíli og skaut á Mane í þetta skiptið. Miðjan álíka spurningamerki Wijnaldum að snúa aftur úr meiðslum og tók 90 mínútur gegn Leicester og Henderson fékk högg og gæti verið hvíldur og þá er þetta eiginlega eini kosturinn sem eftir er og með meiðslin sem eru á Lovren og Matip þá velur vörnin sig sjálf.
Mín spá
Ég ætla að spá því að Wolves mæti flottir til leiks og verði mjög grimmir til að byrja með en dragi mjög af þeim þegar fer að líða á leikinn og Liverpool gangi burt með 3-0 sigur þar sem öll mörkin eru skoruð í seinni hálfleik. Salah setur tvö og fer að detta í gang og Firmino heldur áfram að setja mörk og setur þriðja.
Leikurinn hefst klukkan 16:30 á morgun og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.
Heimsmeistarar fyrir jól og titilbarátta Leicester afgreidd strax eftir jól. Þessi vika er búin að vera stanslaus veisla. Horfðum aðeins til baka á helstu atvikin á þessum áratug og eins var spáð í spilin fyrir áramótaleikjunum gegn Wolves og efsta United liði deildarinnar, Sheffield.
Stjórnandi: Einar Matthías Viðmælendur: SSteinn og Maggi
Liverpool mætti til leiks í ensku úrvalsdeildinni að nýju eftir tæplega tveggja vikna pásu vegna þáttöku sinnar í Heimsmeistarakeppni félagsliða í Qatar. Verkefnið var stórt, kvöldleikur á King Power á annan í jólum gegn liðinu í öðru sæti, Leicester. Klopp gerði eina breytingu á byrjunarliðinu frá því liði sem hóf leikinn í Qatar s.l. laugardag. Gini blessunarlega orðinn leikfær og kom inn á miðjuna í stað Ox, sem verður frá eitthvað inn í janúar hið minnsta vegna meiðsla.
Liverpool bauð til veislu, jólaveislu og átti sinn besta leik það sem af er tímabili með 0-4 sigri gegn Leicester í leik sem hefði líklega frekar átt að enda með 7 eða 8 marka sigri.
Leikurinn fór fjörlega af stað, Trent átti fínt skot á fyrstu mínútu leiksins sem að Kasper varði en í næstu sókn átti Salah góða sendingu fyrir sem Firmino missti af en Mané var aleinn (og ekki rangstæður) á markteig en skaut framhjá nánast inn í markinu, dauðafæri!
Eftir 4 mínútna leik átti Evans hræðilega sendingu úr vörninni, Mané komst inn í sendinguna og sendi á Firmino sem setti boltann í fyrsta á Salah sem átti slakt skot úr fínu færi – hefði líka getað sent aftur á Firmino sem var í fínni stöðu. Liverpool á þessum tímapunkti búið að fá 2-3 fín færi en ekki náð að nýta þau.
Eftir hornspyrnu Leicester á 10 mínútu náði Salah að hreina boltann á Keita sem vann návígi, sendi frábæra sendingu innfyrir á Salah, Kasper Schmeichel kom á móti, Salah komst framhjá honum en reyndi að skjóta í þröngu færi í stað þess að senda knöttinn á annað hvort Mané eða Henderson sem kom í seinni bylgjunni og slakt skot fór í hliðarnetið. Dauðafæri.
Á 31 minútu kom svo loksins fyrsta markið. Robertson gerði mjög vel í að vinna hornspyrnu með góðri pressu, boltinn barst út rétt fyrir utan vítateigshornið vinstra megin þar sem að TAA átti algjörlega frábæra sendingu á fjærstöng þar sem Salah og Firmino mættu báðir en sá síðarnefndi skallaði í nærhornið, 0-1!
Liverpool fékk tækifæri tveimur mínútum síðar í að tvöfalda forskotið þegar Mané vann boltann inn í teig hjá Leicester og var aleinn nánast á markteig en lét Schmeichel verja frá sér úr dauðafæri! Á þessum tímapunkti hefði ekki verið ósanngjarnt þó Liverpool hefði verið þremur eða fjórum mörkum yfir – spilamennskan frábær en færanýtingin ekki alveg eftir því. Ekkert marktækt gerðist síðustu 10 mínúturnar eða svo og staðan því 0-1 í hálfleik. 0-8 í skotum og Liverpool 59% með boltann.
Síðari hálfleikur
Síðari hálfleikur hófst nákvæmlega eins og þeim fyrri lauk, algjörir yfirburðir hjá Liverpool! Fyrstu 10 mínúturnar eða svo fengu gestirnir fullt af fínum færum og voru að gera sig ansi líklega til að tvöfalda forystuna – besta færið líklega á 54 mínútu þegar Robertson pressaði vel, vann boltann upp við hornfánann vinstra meginn, sendi fyrir á Firmino sem mætti á nærstöng en skaut framhjá fjærstönginni úr dauðafæri. Alveg ótrúlegt að þessi yfirburðir væru ekki að endurspeglast betur í stöðunni.
Heimamenn náði sínu fyrsta skoti á 61 mínútu eftir að Vardy fékk aukaspyrnu við vítateigshornið, vinstra meginn en skot Maddison fór framhjá.
Salah og Keita fóru útaf á 67 mínútu fyrir Milner og Origi. Keita verið jafngóður í þessum leik og Salah var slakur (sem sagt frábær) en var orðinn þreyttur. Í næstu sókn átti Liverpool hornspyrnu vinstra megin, spyrna TAA fór beint í útrétta hönd Soyuncu og réttilega dæmd vítaspyrna. Upp steig herra áreiðanlegur og skoraði örugglega, Milner 0-2!
Tveimur mínútum síðar átti Liverpool frábæra sókn! Henderson, Milner og Origi voru með flottann þríhyrning fyrir utan teig Leicester, boltinn barst út á TAA sem sendi fastan boltann út í vítateig á Firmino sem átti algjörlega frábæra móttöku sem setti upp öruggt skot innanfótar upp í samúel, 0-3 – frábær spilamennska og enn betri afgreiðsla!
Maður var varla hættur að fagna þegar Milner fékk boltann á 76 mínútu við hliðarlínuna vinstra megin við miðju vallarins, sendi flottan bolta undir pressu inn á miðju á Mané sem kom hlaupandi á vörnina með Origi sér á vinstri hönd, Firmino fyrir miðju og bakvörðinn TAA til hægri. Trent varð fyrir valinu sem tók líka þetta skot á vítateigslínunni í bláhornið vinstra meginn, 0-4!!
Henderson fékk takkana frá Ayrez í legginn á 82 mínútu og þurfti að fara af velli og Lallana kom inná – líklega ekkert alvarlegt þó þetta hafi verið vont.
Lítið gerðist síðustu 10 mínúturnar eða svo og virkilega öruggur sigur Liverpool staðreynd. Bestu 93 mínútur tímabilsins hjá gestunum gegn erfiðum andstæðingi þar sem liðið í öðru sæti var í raun látið líta virkilega illa út. Meira svona, takk!
Bestu menn Liverpool
Hvar á ég að byrja? Keita var algjörlega frábær í fyrri hálfleik, eins og liðið allt. Henderson var einnig virkilega öflugur á miðjunni, eins og hann er búinn að vera síðustu misseri – að það skuli í alvöru vera til menn þarna úti sem efast um hann finnst mér með ólíkindum!
Mér hefur fundist Roberson vera frekar slakur síðustu 4-5 leiki eða svo en í dag var hann aftur “back to his best”. Gomez og Virgil stigu ekki feilspor allan leikinn – Vardy var ósýnilegur fyrir utan þessa “soft” aukaspyrnu sem hann fékk um miðjan síðari hálfleik. Held ég hafi aldrei séð Vardy jafn lítið í Leicester leik og í kvöld.
Það eru í raun bara tveir sem koma til greina, annars vegar Firmino, sem skoraði tvö mjög góð mörk ásamt því að eiga mjög góðan alhliða leik í dag. Link-up spilið hjá honum mun betra en það hefur verið undanfarið og slúttið komið aftur þegar líða tók á desember mánuð! Minn maður leiksins er þó Trent Alexander-Arnold. Hann er 21 árs en orðinn einn af okkar allra bestu og mikilvægustu leikmönnum (í liði sem var með þrjá leikmenn í topp fimm í Ballondor!) Hann var með mark og tvær stoðsendingar í dag og var sífelld ógn í 93 mínútur. ÓTRÚLEGUR.
Umræðan
Firmino. Eftir gúrkutíð í október/nóvember erum við farnir að sjá Bobby okkar aftur. Tvö mörk í Qatar og tvö mörk í dag – virkilega, virkilega, virkilega jákvætt!
TAA. Hvað er hægt að segja um Trent Alexander-Arnold? Jú, hvert einasta lið lætur reyna á hann þar sem að Virgil er vinstra megin af okkar miðvörðum. Hann á það til að vera gripinn í bólinni varnarlega en menn verða samt að horfa til þess að í 38 leikjum er a.m.k. í 37 þeirra sem að lið leggja upp með að sækja á hann og Matip/Lovren/Gomez í stað Virgil/Robertson. Hvað sem því líður – sú vídd og ógnun sem hann kemur með í sóknarleik liðsins er slík að við gætum fyrirgefið það þó hann væri á pari við Cissokho í varnarleiknum. Hann er kominn með 8 stoðsendingar það sem af er leiktíðar og 16 stoðsendingar í deildinni í 32 leikjum á árinu 2019!!
Keita. Eftir virkilega erfiða byrjun (ef byrjun skal kalla, komnir 18 mánuðir síðar hann gekk til liðs við Liverpool) þá erum við loksins farnir að sjá Keita ná saman nokkrum leikjum í röð og þá spilamennsku sem menn bjuggust við frá honum. Var frábær í dag, sérstaklega fyrstu 55 mínúturnar og hefur verið frábær allan desember mánuð. Að fá þann Keita inn, sem við héldum að við værum að kaupa, núna í desember er hrikalega mikilvægt fyrir liðið! Hann er ekki líkur neinum af okkar miðjumönnum og kemur með allt annað krydd í þessa miðjublöndu okkar.
Salah. Líklega okkar slakasti leikmaður í dag, ekki að leikurinn í dag sé tilefni til að finna eitthvað neikvætt en þá finnst mér hann verða eigingjarnari með hverjum leiknum sem líður. Vondur dagur á skrifstofunni en samt skoraði Liverpool 4 mörk og hefði getað skorað a.m.k. 7 eða 8 – jákvætt!
500. Þriðja mark Liverpool í leiknum var fimm hundraðasta mark Liverpool undir stjórn Klopp (í 239 leikjum).
Liverpool. Ef það var einhver spurning um hvaða lið ætlaði að veita Liverpool keppni um titilinn þá var henni svarað í kvöld, það verður ekki Leicester (ef eitthvað lið endar ofan en Man City þá verður það lið meistari – sú staðreynd hefur ekki breyst frá því í ágúst). Liverpool sýndi í kvöld að það er í öðrum styrkleikaflokki en þetta Leicester lið. Heimamenn áttu ekki eitt skot á markið í 93 mínútur á King Power í kvöldleik á Boxing Day gegn liðinu sem þeir eru að elta. Ekki bara það, þeir sáu í raun ekki til sólar fyrr en í kringum 65 mínútu þar sem þeir áttu 5-10 mínútna kafla þar sem þeir tóku þátt í leiknum. Að leikurinn hafi endað 0-4 er í raun ótrúlegt. Ég ætla ekki að fagna neinu ennþá, hlutirnir geta breyst hratt í fótbolta, en mikið anskoti er gaman að styðja svona fáránlega gott fótboltalið!
Næsta verkefni
Næsti leikur er eftir þrjá daga (29/12), Wolves á Anfield áður en Sheffield United verður fyrsta liðið sem sækir Liverpool heim á árinu 2020 þann 2 janúar. Stutt á milli leikja, allt stórir stórir leikir!
Þá er komið aftur að ensku úrvalsdeildinni eftir rúmlega viku pásu hjá okkar mönnum. Eftir algjörlega frábæra viku þá mæta ríkjandi Evrópu- og Heimsmeistarar á King Power leikvöllinn og sækja þar Leicester heim og freista þess að auka forskot okkar á heimamenn í 13 stig og Man City í 14 stig (a.m.k þar til á morgun) – verkefnið verður þó ekki auðvelt!
Klopp stillir þessu svona upp í dag:
Ein breyting frá byrjunarliðinu í Qatar, Gini kemur inn í stað Ox sem er meiddur. Í fjarveru Fabinho og Matip þá er þetta okkar sterkasta lið.
Annað kvöld mætir Liverpool lærisveinum fyrrum stjóra síns Brendan Rodgers í einhverju sem gæti kallast toppslagur í ensku deildinni.
Heims- og Evrópumeistarar Liverpool sitja fyrir umferðina með tíu stiga forskot á Leicester sem tapaði fyrir Man City í síðustu umferð og á leik til góða á bæði liðin.
Liverpool hefur aðeins gert eitt jafntefli og unnið rest í deildinni hingað til og Leicester sem hafa verið mjög sterkir í vetur hafa aðeins fatast flugið og gerðu jafntefli við Norwich áður en þeir töpuðu gegn City á sama tíma og Liverpool vann Flamengo á Heimsmeistaramótinu um síðustu helgi.
Klopp keyrði á líklega því sterkasta sem hann hafði í höndunum í þeim leik en því miður fór Oxlade-Chamberlain út af meiddur og verður frá í einhverjar vikur vegna ökklameiðsla. Wijnaldum verður þó vonandi klár í slaginn á morgun en Fabinho, Lovren og Matip eru enn frá.
Leicester eru sterkir til baka, nokkuð skipulagðir og öflugir í skyndisóknum með leikmenn eins og Vardy og Maddison þar fremsta í flokki. Þeir eru sterkir heima og gæti því verið von á erfiðum leik fyrir Liverpool sem stendur þó að mínu mati vel að vígi og alls ekki ólíklegir til að sigra gott lið á erfiðum velli.
Ég held að Milner eða Wijnaldum taki stöðu Chamberlain á miðjunni en annað verður óbreytt frá leiknum gegn Flamengo. Róteringarnar munu svo vera meira áberandi í þeim leikjum sem fylgja yfir hátíðirnar.
Sigur annað kvöld gæti orðið svo stórt skref í að hrista samkeppnina, sem er þó ansi fjarri, enn frekar frá sér og styrkja stöðuna enn frekar á toppnum en staða liðsins það góð að úrslitin þó neikvæð yrðu þurfa þó ekki að vera endalok alls. Þurfum samt ekkert að spá í það og lærisveinar Klopp sækja enn einn sigurinn.
Helgileikur Liverpool manna verður að sjálfsögðu á öllum 32 tækjunum á Sport & Grill á annan í jólum. Láttu engan eyðileggja fyrir þér hápunkt jólanna – sjáumst á Sport & grill Smáralind.
Kop.is óskar lesendum og hlustendum síðunnar gleðilegra jóla, það er bókstaflega ekki hægt að fara inn í hátíðarnar í betri málum þannig að hafið það fullkomlega frábært og pössum uppá að vera sérstaklega óþolandi í jólaboðunum þegar talið berst að Liverpool.
Myndum þakka fyrir árið líka en Kop.is er langt frá því að vera búið að ljúka leik á þessu ári.
Jólakveðjur
Einar Matthías, Maggi, SSteinn, Eyþór, Óli Haukur, Daníel, Maggi Beardsley, Hannes, Ingmiar og Sigurður Einar
Okkar tíma Shankly
Einn af helstu styrkleikum Jurgen Klopp er hversu auðvelt hann á með að vinna með öðrum og treysta þeim. Liverpool er ekki síður með sterkt lið utanvallar en innanvallar. Þetta er einn af styrkleikum FSG einnig og hefur verið frá því áður en þeir keyptu Liverpool. FSG sagði frá upphafi að þeir myndu ekki keppa við olíufélögin fjárhagslega og að Liverpool þyrfti að vera snjallara en andstæðingarnir. Úrvinnsla tölfræðiupplýsinga var (og er) nokkuð óplægður akur í fótboltanum og þar sáu FSG klárlega töluverð tækifæri. Undanfarin ár hefur FSG byggt upp lið utanvallar með sömu trú á hjálpsemi þessara gagna. Það eru menn í vinnu hjá Liverpool með gríðarlega mikil áhrif og völd þegar kemur að mannaráðningum og leikmannakaupum sem horfa varla á fótbolta. Það eru njósnarar í vinnu hjá Liverpool sem vilja helst ekki sjá leikmenn með berum augum til að það hafi ekki áhrif á hvernig og hvað þeir eru að lesa úr tölunum sem hann er að sýna. Menn með háskólagráður og langt nám að baki í raungreinum sem hafa ekkert með fótbolta að gera. Þeir eru samt bara einn hlekkur í keðjunni, það kemur miklu meira til. Tölurnar tala engu að síður sínu máli (pun intended), Liverpool hefur varla gert mistök á leikmannamarkaðnum í fjögur ár.
Roy Hodgson var stjóri Liverpool þegar FSG keypti félagið og því er auðvelt að fullyrða að þeir þurftu að byrja sína vinnu og viðhorfsbreytingu alveg frá botninum. Kenny Dalglish var heldur ekki það sem við myndum í dag flokka sem FSG ráðningu.
Brendan Rodgers var 39 ára þegar hann tók við Liverpool, mögnuð ráðning hjá Liverpool og augljóst að hann heillaði FSG þegar hann fundaði með þeim og ávann sér traust þeirra. Hans mistök og fall hjá Liverpool var að vilja ekki treysta þeirri stefnu sem þeir vildu innleiða utanvallar. Væri Rodgers ennþá stjóri Liverpool hefði hann treyst Edwards jafnvel og Klopp gerir?
Hann vildi ekki vinna undir DoF og treysti ekki Edwards og njósnarateymi félagsins fyrir leikmannakaupum, hversu galið hljómar það núna? Áður en Rodgers kom var Liverpool búið að gera mestu Moneyball leikmannakaup áratugarins í Luis Suarez, vandræðagemsa sem var bókstaflega í banni og fáanlegur á góðu verði því hann beit andstæðinginn. Coutinho og Sturridge voru líka augljós FSG kaup, fáránlega ódýrir m.v. gæði og potential. Brendan Rodgers var grátlega nálægt því að landa titlinum með lið sem átti ekkert erindi í að vera í titilbaráttu, FSG var grátlega nálægt því að gera það sama í Liverpool og þeir gerðu í Boston.
Rodgers sannaði hjá Liverpool að ef hann fær nógu gott lið er hann nógu góður stjóri fyrir efsta level. Árangur hans hjá Swansea var vanmetið góður einnig og það sem hann er að gera núna sjö árum eldri og reyndari sýnir að hann var ekki svo galin ráðning hjá FSG árið 2012.
Hetjan utanvallar hjá Boston Red Sox eftir að þeir unnu World Series loksins árið 2004 var Theo Epstein, ekki þjálfari liðsins heldur ungur og óþekktur GM sem var þar í sambærilegu hlutverki og Michael Edwards er núna hjá Liverpool. Rodgers kom inn árið 2012 og tók með sér Joe Allen og Fabio Borini í fyrsta sumarglugganum, hvorugur er í Liverpool klassa og gáfu aðeins tóninn fyrir “snilli” Rodgers á leikmannamarkaðnum, það var alltaf togstreita milli hans og “tölvunördanna” sem FSG vildi treysta á og til marks um það er þessi frábæra grein Neil Ashton á Daily Fail. Hann hefur augljóslega talað við Rodgers sjálfan áður en þetta meistaraverk var sett á prent.
Af mörgum gullkornum var þetta það besta um mennina sem hafa skorað sigurmarkið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og Heimsmeistarakeppninnar á þessu ári. Rodgers var klárlega ekki sannfærður um þessi kaup.
The committee have yet to explain how they came up with the figure of £29million to sign Brazilian forward Roberto Firmino from Hoffenheim, who finished eighth in the Bundesliga last season.
Divock Origi, billed as ‘a world-class talent’ by Rodgers when he was signed from Lille, could not even come off the bench in the club’s last two league games. There are countless other errors.
After each Liverpool game Edwards emails analysis and data to the club’s owners in America, detailing where the match was won and lost. It has made for grim reading this season.
Það var hárrétt ákvörðun hjá FSG á sínum tíma að losa sig við Rodgers og eins og staðan er núna virðast þeir vera bestu eigendur knattspyrnufélags í heiminum. Michael Edwards er réttilega talinn einn besti DoF í bransanum og flestir leikmanna Liverpool ertu í dag taldir meðal þeirra bestu í sinni stöðu. Liverpool er með fimm af ellefu bestu leikmönnum í heimi og þar eru ekki með taldir Alexander-Arnold, Gomez, Matip, Henderson og Fabinho.
Allir þessir aðilar geta samt fyrst og fremst þakkað Jurgen Klopp fyrir þá ímynd sem þeir hafa í dag, Klopp er aðalatriði á bak við þetta allt saman og langmikilvægasti meðlimur Liverpool FC í dag.
Klopp er búinn að vera stjóri Liverpool í rétt rúmlega fjörgur ár og núna þegar hann var bókstaflega að staðfesta Liverpool sem besta félagslið í heimi er gaman að bera hópinn í dag saman við liðið sem Rodgers var með á sínu síðasta heila tímabili sem stjóri félagsins 2014/15.
(Tölur frá Transfermarket – EUR / Söluverð leikmanna 2014/15 vs kaupverð núverandi leikmanna)
Byrjunarliðin væru nokkurnvegin svona með alla heila. Kaupverð á byrjunarliðinu núna er tæplega 40% hærra en söluvirði liðsins 2014/15 en söluvirðið er nánast alfarið í tveimur leikmönnum, Sterling og Coutinho. Jordan Henderson er eini leikmaðurinn eftir frá tíma Rodgers sem flokkast sem byrjunarliðsmaður og hann kom til Liverpool áður en Rodgers tók við. Satt að segja ætlaði Rodgers að selja hann til Fulham fyrir Clint fucking Dempsey! Það er enginn leikmaður sem kom frá 2012-2014 ennþá lykilmaður hjá Liverpool í dag.
Alisson fyrir Mignolet er líklega mesta bætingin á liðinu í nokkurri stöðu. Robertson kemur þar á eftir og hefur leyst 30 ára gamalt vandamál. Alexander-Arnold fyrir Glen Johnson er litlu minni bæting hinumegin. Hvað væri söluvirði Alexander-Arnold og Robertson í dag?
Fabinho í samanburði við Gerrard á sínu síðasta ári er bæting sem mig langar ekki til að ræða, ósanngjarnt gagnvart Gerrard. Fabinho er fyrsti alvöru varnartengiliður Liverpool í áratug og viti menn félagið er farið að landa titlum aftur. Henderson er á hátindi ferilsins núna og Wijnaldum er miklu betri en Emre Can.
Hvernig fengum við Salah, Mané og Firmino fyrir andvirði Coutinho með helling í afgang? Svarið er að finna í tölvunni hjá Michael Edwards.
Firmino fékk dauðafæri á fyrstu mínútu leiksins og hefði í það minnst átt að setja skot á markið eftir flotta sendingu frá Henderson inn fyrir vörnina. Okkar menn áttu fyrstu mínútur leiksins og á 5.mín lagði Salah upp skotfæri fyrir Keita en Gíneubúinn sendi skotið hátt yfir markið. Örstuttu síðar lét TAA vaða í þrumufleyg af löngu færi en boltinn sigldi rétt framhjá stönginni.
Eldrauð byrjun en það átti ekki eftir að endast þar sem Flamengo náði betra valdi á boltanum og fóru að halda honum betur innan sinna raða. Að sama skapi voru rauðherjar að klúðra einföldum sendingum á hættulegum svæðum á eigin vallarhelmingi. Undarleg kaflaskil í hálfleik sem byrjaði vel en fjaraði hratt undan.
Á lokamínútum hálfleiksins var undarlegt atvik þar sem Liverpool var í hættulegri skyndisókn en Mané var hraustlega togaður aftur af Rafinha. Okkar maður var skiljanlega ósáttur við íhaldið og lét stubbinn lúta í gras, en handónýtur dómari leiksins spjaldaði eingöngu Senegalann síbrosandi sem var ekki skemmt. Sene-galinn dómur og bæði Rafinha & hinn handónýti heimadómari áttu eftir að koma aftur við sögu síðar í leiknum.
0-0 fyrir Liverpool í hálfleik
Hálfleiksræðan hjá Klopp gerði greinilega mikið gagn því að rauðliðar voru sérlega einbeittir eftir tesopann. Það var endurtekið efni á upphafsmínútum seinni hálfleiksins þegar að Henderson sendi gullsendingu á Firmino sem tók skemmtilega við boltanum, lék sínar listir og sendi síðan vinstrifótarskot í innanverða stöngina en því miður aftur út. Salah fylgdi því eftir með góðu skoti nokkrum mínútum síðar en Flamengo svaraði með skoti frá Barbosa sem Alisson varði vel.
Leikurinn var villtur og opinn á þessum tímapunkti og Robertson ógnaði á 57.mínútu með viðkomu í Firmino. Flamengo tókst þó að ná aftur ákveðinni ró á leikinn eftir sóknarlotur Liverpool og miðjumoð tók við um miðjan hálfleikinn. Óheppilega fyrir okkur og Oxlade-Chamberlain þá meiddist okkar maður illa og var algerlega miður sín þannig að púlarar allra átta óttuðustu mikið um hans fótafærð í framhaldinu. Eitthvað virtist hann þó braggast áður en hann fór meiddur af velli fyrir Lallana og síðustu fréttir eru að Klopp sé bjartsýnn á að meiðslin séu ekki of slæm. Hugheilar batakveðjur frá Kop.is til AOC.
Liverpool fóru að keyra upp hraðann í átt að leikslokum og Salah lagði boltann út á Henderson á 86.mín og sá enski hlóð í firnafasta spyrnu sem hinn öflugi Diego Alves varði glæsilega í markinu. Dramatíkin var að ná hámarki í uppbótartíma þegar að Mané slapp einn í gegn á móti markmanni en tækling að aftan frá títtnefndum Rafinha braut á Sadio þannig að skotið fór víðsfjarri. VÍTI dæmt skv. hörmulegum dómara leiksins en þá tók VAR yfir sem ku vera mikill meðvindur LFC en það er þó bara í ímyndaðri veðurfræði andstæðinga okkar.
Í það minnsta þá varð niðurstaða vídeó-dómaranna að þetta væri (réttilega) fyrir utan teiginn en dómarinn bætti um betur og dæmdi (ranglega) að ekki hefði verið um brot að ræða yfir höfuð. Rafinha sem hefði átt að fá skærgult spjald í fyrri hálfleik slapp á endanum við bæði gult og rautt í þeim seinni. Þvílíkt þvaður og blaður og dómarateymið sem fékk medalíu í lok leiks og viðhöfn sem vinningshafar væru voru alveg í ruglinu.
0-0 fyrir Liverpool í lok venjulegs leiktíma. Framlenging.
Liverpool byrjaði framlenginguna ferskir og við vorum klárlega það lið sem vildi vinna leikinn áður en kæmi til vítaspyrnukeppni. Enn og aftur átti Henderson frábæra sendingu inn fyrir vörnina og hleypti Mané á skeið en sá senegalski sendi góða sendingu á Firmino í teignum. Brassinn brosmildi tók nokkur brasilísk dansspor áður en hann plataði markvörð og miðverði og sendi boltann í netið. 1-0 fyrir Liverpool!
Rauði herinn gaf engin grið og hélt áfram að sækja í von um að fullklára leikinn. Örstuttu eftir markið hlóð Salah í flott skot sem Diego Alves varði enn og aftur vel í markinu. Milner var skipt inná til þess að vera með vesen og hann olli ekki vonbrigðum með gulu spjaldi eftir fimm mínútur á vellinum. Super-sub-superman Origi kom inná fyrir Firmino í hálfleik framlengingarinnar en þreytan var klárlega farin að segja til sín hjá báðum liðum og leikurinn farinn að stefna í sigur rauðherja. Flamengo fengu þó síðasta sénsinn til að bjarga leiknum á lokamínútunum þegar að Lincoln skaut yfir af stuttu færi. Flautað til leiksloka!
1-0 sigur Liverpool og heimsmeistaratitillinn í höfn!
Bestu menn Liverpool
Okkar menn voru að miklu leyti flottir yfir 120 mínútur leiksins og eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna. Það munaði gríðarlega mikið um að fá van Dijk aftur í verkstjórn í hjarta varnarinnar og Gomez var fínn við hlið hans. Bakverðirnir voru báðir sprækir og ógnandi allan leikinn og Alisson var öruggur og varði vel í markinu.
Framlínan var einnig á pari og Firmino sér í lagi með sínu marki þó hann hefði geta gert betur á upphafsmínútum beggja hálfleikja. En minn maður leiksins er fyrirliði heimsmeistara félagsliða, Jordan Henderson, sem var óþreytandi allan leikinn, átti gullsendingar inn fyrir vörnina og var almennt frábær á vellinum í rúma tvo klukkutíma. Svo kann hann líka að lyfta titlum með stæl!
Tölfræðin
Vondur dagur
Heimamaðurinn Ibrahim Al-Jassim Abdulrahman var því miður alger hörmung sem dómari leiksins og sem betur fer hafði hann ekki úrslitaáhrif á leikinn. Of mikið fyrir að vilja koma sjálfum sér í sjónvarpið með yfirlætisfullum ræðuhöldum við leikmenn og hreinlega með kolranga dóma trekk í trekk. En réttlætið sigraði að lokum og við urðum heimsmeistarar þrátt fyrir mótvindinn.
Umræðan
2019 er algert óskaár fyrir okkur Púlara. Þriðji stóri titillinn í höfn og með 10 stiga forskot á toppi deildarinnar með leik í hendi. Við hvetjum alla Púlara til að vera fullkomlega óþolandi í jólaboðum komandi með því að titla sjálfa sig með réttu ríkjandi Evrópu- og heimsmeistara alheimsins.
Það ku styttast í að Liverpool verði boðaðir í leik á hlutlausum velli á tunglinu til að spila úrslitaleik við Marsbúa um sólkerfismeistaratitilinn. Skörun leikjanna mun þó vera við enska bökunarkeppni og leiðarahöfundar enskir eru nú þegar farnir að húðstrýkja okkur fyrir móðgun við enska bakaramenningu.
En við erum margfaldir meistarar og ekki neita ykkur um að fagna kvöldinu og næstu dögum með gleði í hjarta og Liverpool-stolti. Til hamingju meistarar!
DOHA, QATAR – DECEMBER 21: Jurgen Klopp, Manager of Liverpool celebrates with the FIFA Club World Cup Qatar 2019 trophy during a lap of honor following their victory in the FIFA Club World Cup Qatar 2019 Final match between Liverpool FC and CR Flamengo at Khalifa International Stadium on December 21, 2019 in Doha, Qatar. (Photo by Mike Hewitt – FIFA/FIFA via Getty Images)
Það er komið kvöld í Doha og senn mætast Evrópumeistarar Liverpool hinum brasilísku S-Ameríkumeisturum Flamengo í úrslitaleik heimsbikars félagsliða. Bikarinn sá er einn af örfáum sem Liverpool hefur ekki tekist að vinna í sinni glæstu sögu og markmið Rauða hersins er að bæta úr því á Khalifa International Stadium í kvöld.
Khalifa International Stadium í Doha
Byrjunarliðin eru klár og Klopp hefur stillt upp eins sterku liði og hægt er miðað við meiðsli og annað:
Klopp var flottur að vanda á blaðamannafundi fyrir leik og lagði áherslu á löngun Liverpool til að vinna þennan bikar þrátt fyrir viðhorf ensku pressunnar um keppnina.
Upphitunarlag dagsins er heimsrokkslagarinn “Rockin’ in the free world” til heiðurs heimsbikarnum og sjá rokkhundarnir Neil Young & Pearl Jam um hávaðann:
Leikurinn hefst klukkan 17:30 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.
Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!
YNWA!
Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.
Á morgun klukkan hálf sex munu stuðningsmenn Liverpool taka sér pásu frá jólastressinu og horfa á rauðu hetjurnar reyna að verða heimsmeistara. Andstæðingurinn er brasilíski risinn Flamengo, stærsta lið Suður-Ameríku. Með sigri klára Liverpool bikarsafnið sitt, þetta er eini bikarinn sem við eigum eftir að vinna! Flamengo eru samt engin lömb að leika við, koma frá knattspyrnuóðustu þjóð heims og eru búnir að eiga frábært tímabil inn á vellinum.
Brasilía
Þann 22. apríl, á því herrans ári 1500, lenti portúgalskur floti undir stjórn Pedro Álveres Cabral á strönd í Suður-Ameríku, þar sem borgin Porto Seguro í Bahia fylki Brasilíu er staðsett í dag. Pedro skírði landið Eyju hins helga kross og stofnaði þar nýlendu portúgalska ríkisins í nafni Manúels fyrsta konungs. Nær öruggt er að Pedro hafi verið að fylgja í fótspor fyrri landkönnuða en sagnfræðingar hafa ekki getað staðfest það.
Með tíð og tíma kom í ljós að svæðið var ekki eyja heldur meginland og hið óþjála nafn Land hins heilaga kross breyttist í Brasilíu. Það nafn er dregið af Brasilíutrénu (Paubrasila). Tréð er rauðleitt, var mikið notað til að framleiða fatalit og var fyrstu öldina sem Portúgalar réðu helstu útflutningsvara nýlendunnar. Á þessum árum var ekki óalgengt að sjómenn kölluðu löndin sem þeir ferðuðust til eftir varningnum sem þeir sóttu þangað. Samanber Fílabeinsströndina og Kryddeyjarnar (sem eru í dag kallaðar fyrra heiti þeirra Mólúkkaeyjar.) Fundist yfirlýsingar frá þessum árum frá fína fólkið sem biður almúgann um að nota ekki hið „ókristna nafn“ Brasilía en á það var ekki hlustað.
Mjög lítið er vitað upp daglegt líf innfæddra fyrir nýlendutímann. Portúgölsku nýlenduherrunum fannst ættbálkarnir ekki nógu merkilegir til að skrá margar heimildir um þá og það sem var skráð einkennist af miklum fordómum og staðalímyndun. Næstu aldir áttu eftir að vera martröð fyrir þjóðirnar sem bjuggu þarna fyrir landnám Portúgala. Talið er að um þrjár milljónir innfæddra hafi búið á svæðinu sem í dag heitir Brasilía þegar Portúgalar stofnuðu fyrstu nýlenduna. Í dag eru um 200.000 sem getað kallast afkomendur þessara milljóna. Eins og víða í Ameríkunum tveimur stráfelldu farsóttir innfædda og auk þess stunduðu nýlenduþjóðirnar blóðuga þrælastefnu.
Portúgalar skiptu nýlendunni í 15 svæði og hinir ýmsu herforingjar og lávarðar skiptust á að stjórna þeim næstu aldir. Hægt og rólega stækkaði yfirráðasvæðið og hagkerfið breyttist. Frá skógarhöggi, í kaffi og sykurrækt og námuvinnslu þegar stórar demanta- og gullnámur fundust í Chapata Diamantia. Til að láta þetta ganga upp voru þrælar fluttir inn til landsins í stórum stíl, mestmegnis frá vesturströnd Afríku, einkum Angóla. Talið er að næstum sjö milljónir hafi verið fluttir sem þrælar á þennan hátt og Brasilía var síðasta ríkið í vesturheimi til að banna þrælahald, sem var ekki gert fyrr en 1888. Í eldri hlutum Brasilíu, til dæmis Bahia og Minas Gerais er menningin í dag hrærigrautur hefða frá nýlenduherrunum, þrælunum og innfæddum.
1808 flutti portúgalska konungsfjölskyldan til Brasilíu og var portúgalska heimsveldið þá eina evrópska veldið sem hafði höfuðborg sína utan Evrópu. 1821 neyddist konungurinn til að snúa aftur til heimalandsins til að stemma stigu við óánægju þar. Sonur hans, Pedro, var einn ötulasti talsmaður þess að pabbi gamli færi heim. Ári seinna lýsti Brasilía yfir sjálfstæði sínu og Pedro var krýndur Pedro fyrsti, Brasilíukeisari. Fyrstu árin voru stormasöm og Pedro og eftir átta ár afsalaði Pedro sér keisaratigninni og flutti heim til Evrópu en Brasilía hélt sjálfstæði sínu.
Á þeim tvö hundruð árum sem Brasilía hefur verið sjálfstætt ríki hefur margt gengið á, sum gott og margt slæmt. Árið 1889 var keisaradæmið lagt niður og landið varð lýðveldi. Fyrsta lýðveldinu var steypt af stóli í byltingu 1930. Einræðisherrann Vargas réð lögum og lofum næstu fimmtán ár sem í sögubókunum er skipt niður í annað og þriðja lýðveldið. Því fylgdi fjórða lýðveldið sem tók enda 1964 þegar grimmileg herstjórn tók völdin í 21 ár. Landið er í raun enn þá að jafna sig á þeim árum og það er engan veginn gefið að þeir Brassar sem muna þá tíma séu tilbúnir að ræða þá. Þessum ósköpum lauk 1990 þegar fyrsti kjörni forsetinn í áratugi tók við völdum.
Brasilía er land andstæðna. Menning innfæddra blandaðist menningu þrælanna og ný trúarbrögð urðu til. Evrópubúarnir sáu til þess að allir væru skírðir til kaþólskrar trúar en í Brasilíu er algengur brandari að Brasilía sé „stærsta og minnst kaþólska land í heimi.“ Náttúruperlurnar eru ólýsanlega fallegar, iðnaðurinn miklu meiri en þú heldur. Ef þú kaupir japanskt mótorhjól einhvers staðar í Evrópu eru miklar líkur á að það hafi verið framleidd í Manaus í Amazon skóginum. Fótbolti er trúarbrögð en langt því frá eina íþróttin sem er vinsæl samanber MMA, Capoeira, kraftlyftingar, meira segja hand- og körfubolti eru stundaðir af kappi. Það er líka langt því frá að bara Portúgalar hafi komið til landsins á undanförnum öldum. Þjóðverjar og Ítalir byggðu margar af borgunum í suðurhluta landsins (Ef einhver var að pæla í hversu óbrasilískt nafn Alison Becker er þá voru amma hans og afi þýsk). Í Sao Paulo má finna stærstu ,,Litlu Tókýó“ í heimi og meira að segja er vitað um nokkra Íslendinga sem settust að í Brasilíu á 19.öld.
Ein stjarna fyrir hvert fylki, plús höfuðborginaLandið skiptist í 26 fylki og er skipulagið mjög svipað og við könnumst við í Bandaríkjunum. Borgirnar og fylkin endurspegla fjölbreytni landsins. Salvador er drekkhlaðin sögulegum minjum og sál landsins á heima þar. Manaus er stórfurðuleg borg; iðnaðarklessa með gullfallegum miðbæ í hjarta Amazon skógarins. Höfuðborgin Brasilía var byggð árið 1960 í landfræðilegri miðju landsins til að vera sameiningartákn og draumur arkitekta, teiknuð til að líta út eins og flugvél úr lofti. Utan um þessa miðju er svo eitt stærsta fátækrahverfi landsins, mennirnir sem skipulögðu borgina voru ekki mikið að pæla í hvað ætti að gera við alla sem fluttir voru þangað til að byggja hana. En hjarta landsins er Rio De Janeiro, heimili Flamengo.
Rio De Janeiro
Það eru til margar þjóðsögur um stofnun Rio De Janeiro (oftast kölluð Ríó). Guanabara flói er frábær höfn af náttúrunnar hendi, þar sem á rennur til sjávar og flóinn er umkringdur risavöxnum granítfjöllum og þess utan eru meira en 100 eyjur á svæðinu. Til þessarar paradísar komu Portúgalar fyrsta janúar 1502 og skýrðu svæðið þess vegna Janúaránna. Einhverjar af sögunum um sjómennina sem komu til svæðisins til að byggja nýlendur eru ansi klúrar en það eru líklega bara sjóarasögur.
Fallegasta borgarstæði í heimi.
Borgin stækkaði hratt þökk, sé sykurrækt í nágrenninu. Á átjándu öld var Ríó gerð að höfuðborg Brasilíu á kostnað Salvador og var þá þegar orðin fjölþjóðaborg. Til dæmis hafði vaxið þar hverfi þar sem Hollendingar og Englendingar héldu sig. Hverfið var skýrt eftir portúgalska orðinu yfir Hollendinga: Flamengo.
Borgin tók stakkaskiptum 1808 þegar portúgalska hirðinn flúði þangað. Á örstuttum tíma þurfti að byggja villur og húsnæði fyrir þúsundir aðalsmanna og starfsfólk þeirra. Mörg glæsihýsi voru byggð en margir aðalsmenn hentu einfaldlega fólki úr húsnæði þeirra og tóku það yfir. Frá sjálfstæðinu og til 1960 var Ríó höfuðborg Brasilíu og mörg helstu kennileiti borgarinnar voru byggð á þeim tíma. 1912 var fyrsta lyftan upp í Sykurbrauðsfjallið byggð og þar má sjá eitt fallegasta útsýni heims. Styttan fræga af Krist var byggð 1940, Ipanema strönd varð heimsfræg 1962 þegar einn ástsælasti söngvari Brasilíu gaf út Stúlkan frá Ipanema.
En borgin er fræg fyrir fleira en fegurð sína og tónlistina. Meira en þúsund favelur eru í borginni. Favela þýðir fátækrahverfi og búa um 20% allra í Ríó í slíkum hverfum. Þökk sé kvikmyndum eins og Tropa de Elite og Cidade de Deus er mynd heimsins af þessum hverfum sú að þar ráði gengi lögum og lofum, skotbardagar séu daglegt brauð og allir selji eiturlyf. Í örfáum hverfum á það kannski við en flestíbúanna sem búa í þessum hverfum er bara venjulegt fólk sem vill vera látið í friði, fólk sem elskar tónlist og eins og allir Brassar, elskar fótbolta. Það er algeng sjón á götum Rio að sjá börn hlaupa um og gefa allt frá litlum tuðrum til uppvafinna sokka á milli sín. Sumir telja að þessi götufótboltamenning úr favelunum útskýri að hluta hversu margir teknískir leikmenn koma frá Brasilíu.
Fótboltinn og Brasilía
“Os ingleses o inventaram, os brasileiros o aperfeiçoaram“ Englendingar fundu upp fótbolta, Brasílumenn fullkomnuðu hann” – Algengur frasi í Brasilíu
Þegar skotinn Thomas Donohoe skipulagði tíu manna fótbolta leik á velli í Banguhverfinu í Ríó árið 1894 hefur honum varla órað fyrir hverju hann væri að koma af stað. Næstu ár hófu íþróttafélög að stofna fótboltadeildir en flestir elstu klúbbarnir voru ekki stofnaðir sem fótboltafélög. Flamengo var til dæmis stofnað sem róðrafélag.
Sökum gífurlegrar stærðar landsins (ef norðvesturhorn landsins væri hjá Færeyjum, næði vesturhluti landsins utan um Írland, Bahia væri í Ukraínu og Rio Grande de Sul væri í Lybíu) og frumstæðra samgangna var engin efsta deild fyrir allt landið fyrr en 1959. Þess vegna stofnaði hvert fylki sína deild og bikarkeppni og þessar keppnir eru allar í gangi í dag. Flestar þeirra eru ekki merkilegar og fótboltasamböndin eru sífellt að grúska í hvernig þær eru skipulagðar. Við kvörtum yfir leikjaálaginu á Liverpool þessa dagana en England á ekkert í Brasilíu þegar kemur að fjölda leikja.
Tímabilið í Brasilíu hefst í febrúar. Þá byrjar deildirnar í hverju fylki fyrir sig og stærstu liðin spila bæði í þeim keppnum og svo deildunum sem ná yfir allt landið, sem hefjast í maí. Minni bikarkeppnirnar hefjast þegar minni deildirnar klárast og þegar þeim er lokið er spilað um Copa de Brasil, bikarkeppni sem er opin sigurvegurum og efstu liðum úr öllum fylkjabikurunum. Þegar Flamengo hefur leik á laugardaginn í heimsbikarnum verður það leikur númer 74 á tímabilinu. Það mesta sem Liverpool gæti náð, ef þeir kæmust í úrslit í öllum keppnum er 68. Það eykur heldur ekki gæði brasilíska boltans að sumarglugginn í Evrópu sker tímabilið í tvennt og geta góð lent í því að vera rifin í sundur af evrópskum liðum á miðju tímabili.
Brasilíu hefur í gegnum árin verið eitt af stórveldum heimsknattspyrnunnar. Þeir eru eina þjóðin sem hefur tekið þátt í öllum HM landsliða og þeir hafa unnið keppnina fimm sinnum. Þegar upphaflegi bikarinn var smíðaður var sú regla sett að fyrsta liðið til að vinna keppnina þrisvar fengi að eiga bikarinn. 1970 afrekaði Brasilía það að eignast bikarinn og var hann geymdur í Ríó þangað til 1983, þegar honum var stolið og hann hefur ekki fundist síðan, líklega var hann bræddur niður.
Þrátt fyrir alla sigrana eru tveir ósigrar sem vega þungt á fótboltasál Brasilíu. Sá fyrri af þessum ósigrum var árið 1950 þegar Brasilía hélt HM í fótbolta í fyrra sinn. Eftir að hafa rústað álfukeppni Suður-Ameríku árið áður með glimrandi sóknarbolta var þjóðin sannfærð um að bikarinn færi á loft í brasilískum höndum á Maracana (heimavelli Flamengo). Aðeins Úrúgvæ stóð í vegi fyrir þeim, smáríki sem er staðsett milli Brasilíu og Argentínu. Árið áður höfðu Brasilía sigrað Úrúgvæ 5-1 í álfubikarnum.
Sögurnar af sigurvissu Brasilíu taka í sig þjóðsagnablæ. Búið var að semja sigurlag, búið var að útbúa sérstaka gullpeninga með nöfnum allra leikmanna, stjórnmálamenn og áhrifafólk kepptist um að hitta liðið dagana fyrir leikinn til að geta sagst hafa gert það. Á morgni leikdags var kvöldblaðið í Ríó prentað með fyrirsögninni: „Heimsmeistarar!!!“ Sagan segir að fyrirliði Úrúgvæ hafi keypt eins mörg eintök af blaðinu og hann gat og migið á þau fyrir leikinn.
Talið er að næstum 200.000 þúsund manns hafi verið á vellinum þennan dag. Þegar lokaflautan gall var dauðaþögn, fyrir utan fagnaðarlætin í nokkrum Úragvæum. Ásakanirnar byrjuðu strax eftir leikinn. Ein af afleiðingum leiksins var að einhver ákvað að búningur Brasilíu (sem þá var hvítur) væri ekki nógu þjóðlegur og honum var breytt í fræga gula búninginn sem við þekkjum í dag. Handan við hornið var gullöld með Pelé í broddi fylkingar en fæstir vissu það 1950.
Seinni ósigurinn sem hvílir þungt á brasilísku fótboltasálinni átti sér stað 2014. Þá fékk Brasilía hrottalegan skell á heimavelli. Þá töpuðu þeir 1 – 7 í undanúrslitum HM og leikurinn sá er einn sá eftirminnilegasti í seinni tíð.
En ást þjóðarinnar á íþróttinni hefur ekkert minnkað. Brasilía elskar fótbolta og horfir hann örlítið öðrum augum en Evrópubúar. Í Brasilía er ungum leikmönnum fyrst og fremst hrósað fyrir sköpunargleði, fyrir að gera það óvænta. Sumir vilja meina að ást landsins á futsal sé ástæða þess hversu tæknískir leikmenn koma þaðan. En það er engan veginn þannig að allir Brassar í hæsta klassa hafi spilað futsal mikið. En alls staðar í Brasilía elskar fólk að sjá unga leikmenn reyna brögð, fara fram hjá varnarmönnum óvænt og spila með bros á vör. Ef þú ert ekki brosandi á meðan leik stendur, hver er tilgangurinn? Fyrir mér er engin brasilískur leikmaður jafn brasilískur og Bobby okkar Firmino, einmitt út af þessari blöndu af leikgleði og hinu óvænta.
Flamengo
Róðraklúbburinn Flamengo spilaði sinn fyrsta fótboltaleik árið 1912 og vann sér fljótt sess sem einn af „stóru fjórum“ liðunum í Ríó. Hin eru Fluminense, Botofogo og Vasco de Gama. Flamengo hefur unnið fylkjadeild Ríó oftar en nokkuð annað lið, 35 sinnum. Þeir hafa líka unnið landsdeildina sex sinnum, síðast núna árið 2019.
En frægustu sigrar liðsins hafa verið á alþjóðavettvangi. Árið 1981 unnu þeir Suður-Ameríku bikarinn í fyrstu tilraun og tóku því þátt í heimsmeistaramóti félagsliða í fyrsta sinn. Þá samanstóð mótið af einum leik, milli Evrópu og Suður-Ameríku. Á Ólympíuvellinum í Tókýó mættu þeir með sína allra mestu goðsögn í broddi fylkingar, Zico. Þeir sigruðu ríkjandi Evrópumeistar, okkar heittelskuðu Liverpool með Sir King Kenny Dalglish í fremstu víglínu.
Áðurnefndur Zico er mesta goðsögn í sögu Flamengo. Hann spilaði sinn fyrsta leik með liðinu 1971 og þann síðasta 1989, tók reyndar fjögur ár í Evrópu. Í 731 leik fyrir liðið skoraði hann 508 mörk, vann fjóra landstitla og var oft kallaður Hvíti-Pele.
Árið 2019 hefur verið bæði eitt það versta og besta í langri sögu félagsins. Eins og mörg lið í Brasilíu skipti Flamengo um þjálfara á miðju tímabili og við tók portúgalinn Jorge Jesus sem var þjálfari Benfica lengi og ætti að vera einhverjum Kopverjum kunnugur. En árið hófst á mun stærra og sorglegra máli. Morguninn áttunda febrúar kviknaðir eldur í Ninho de Urubu (Hrægammahreiðrinu), æfingasvæði félagsins, og tíu ungir leikmenn létust. Þess að auki slösuðust margir og saksóknari Ríó er að undibúa málaferli gegn nokkrum starfsmönnum félagsins en drengirnir voru sofandi í gámum sem hafði verið breytt í heimavist. Lýst var yfir þriggja daga þjóðarsorg í Ríó og Flamengo spilaði með sorgarbönd út tímabilið.
Stíll liðsins er nokkuð líkur Liverpool. Þeir eru að spila mesta sóknarboltann sem sést hefur í Brasilíu síðan á tíunda áratug síðustu aldar og að klára besta tímabil í sögu félagsins. Þeir reyna að pressa hátt upp á vellinum, með bakverði sem fara mjög hátt upp á völlinn, eru með eldfljóta framlínu og skoruðu 86 mörk í 38 leikjum. Þeir unnu Serie A með 16 stiga mun og 49 mörk í plús, þrátt fyrir að tapa í síðasta leiknum 0-4 gegn liðinu í öðru sæti. Það má bæta við að líkt og Liverpool hafa þeir á sér orð fyrir að skora seint í leikjum þegar andstæðingurinn er farinn að þreytast. Þeir kláruðu líka Ríódeildina og auðvitað Suður-Ameríku bikarinn.
Veikleikar þeirra eru vörnin en þeir hafa sérstaklega átt í erfiðleikum með lið sem pressa þá hátt upp á vellinum. Hafsentarnir eru ekkert sérstaklega fljótir, hvað þá bakverðirnir sem eru með stórt hlutverk í sókninni. Markmaðurinn Diego Alves er virkilega fínn, spilaði lengi með Valencia þar sem hann hafði orð á sér sem einn besti vítabani Evrópu með 15 varin víti á sex ára ferli. Helsti styrkur liðsins er miðjan þar sem þeir eru með úrúgvæska landsliðsmanninn Giorgian De Arrascaeta, brasilíska landsliðsmanninn Everton og varnartengiliðinn Aroa sem var orðinn hálfgerður brandari áður en Jesús tók við liðinu og blæs nýju lífi í kappann. Frammi eru svo Bruno Henrique og Gabriel Barbosa sem hvorugur náðu að gera garðinn frægan í Evrópu, en hafa verið frábærir árinu.
Okkar menn
Desembermánuðurinn brjálaði heldur áfram og það er klárlega farið að sjá á hópnum. Engin veit hver staðan er á Wijnaldum, Van Dijk ætti að vera orðin heill af veikindum en maður er svo sem ekki viss. Mané og Firmino fengu að hvíla sig í undanúrslitunum og munu vonandi koma aftur inn í byrjunarliðið ásamt Trent. Að því gefnu að Van Dijk sé heill þá held ég að Hendo færi sig í stöðuna sem Lallana var að spila.
Ég held að fyrir þennan leik verði engar pælingar um að hvíla menn nema það þurfi bráðnauðsynlegt, það er dolla í boði!
Spá
Það er ekkert leyndarmál að þessi bikar er meira virtur í Brasilíu en á Englandi og fyrir Flamengo er sigurinn 1981 ein stærsta stund í sögu félagsins. Ef þeir ná að vinna okkur núna er 2019 orðið besta ár í sögu félagsins og þeir munu spila með það í huga. Ríó verður nánast lokuð á morgun og allir með hugann við leikinn. Synd að Liverpool mun skemma það partí með 4-2 sigri, þar sem Firmino skorar, Mané með tvö og eitt úr óvæntri átt, að ég held Henderson.
Liverpool spilar um gullið í Heimsmeistarakeppni félagsliða en er úr leik í Framrúðubikarnum á Englandi, jöfnum okkur alveg á því. Börnin gerðu eins vel og hægt var að búast við af þeim, jafnvel betur en aðalliðið gerði í Katar. Minamino var í læknisskoðun í dag, koma fleiri leikmenn? Ancelotti og Arteta staðfestir hjá Everton og Arsenal, hvor er betri? Þetta og meira í síðasta þætti fyrir jól.
Stjórnandi: Einar Matthías Viðmælendur: SSteinn og Maggi