Klukkutími í leik og öllum helstu fjölmiðlum, eins og til dæmis Kop.is, hefur borist tilkynning um hvaða 11 leikmenn hefja leik gegn Atalanta. Bobby okkar Firmino tekur sér sæti á bekknum en það gengur ekki að hafa bara Alisson portúgölskumælandi í liðinu, svo Jota tekur sætið.
Koma svo, sigur í þessum leik myndi gera svo ofboðslega mikið! Orðið er frjálst, hvernig lýst fólki á þetta?
Liverpool skellti sér á toppinn um helgina með góðum endurkomusigri á West Ham, annar sigurinn í Meistaradeildinni og næsti leikur er annaðkvöld í Bergamo. Fórum einnig yfir það helsta úr umferð vikunnar á Englandi.
Stjórnandi: Einar Matthías Viðmælendur: SSteinn og Maggi
Kop.is er í samstarfi við Sportveituna FM 102,5 en podcöst okkar eru nú flutt þar einnig, sem og á Spotify-reikningi veitunnar sem finna má með því að leita að SportFM á Spotify.
Fáir staðir hafa verið meira til umræðu á þessu ári heldur en Bergamo á Ítalíu. Hrikalegar fréttir og fréttamyndir frá Ítalíu við upphafi Covid-19 faraldursins í Evrópu voru langflestar frá Bergamo. Covid er samt ekki það eina sem er að frétta frá Bergamo, knattspyrnulið borgarinnar er eitt skemmtilegasta félagslið í heimi um þessar mundir. Velgengni þeirra er reyndar talið tengjast beint hraðri útbreiðslu Covid-19 í Bergamo.
Atalanta er oft kallað drottning héraðsklúbbana á Ítalíu (Regina delle provinciali), bestir/stöðugastir af þeim félögum sem koma ekki frá stórborgunum sem eru höfuðborgir sinna héraða. Atalanta er Seria A klúbbur og þegar þeir hafa fallið koma þeir jafnan strax upp aftur. Þrátt fyrir það hefur félagið lítið sem ekkert unnið til stóru verðlaunanna á Ítalíu og eru í raun núna að upplifa sitt gullaldarskeið.
Þó FC Bayern hafi unnið Meistaradeildina á síðasta tímabili er alveg hægt að færa rök fyrir því að Atalanta var lið tímabilsins í keppninni. Ekki ósvipað og Liverpool 2018 og Ajax 2019. Ítalirnir voru klárlega lið fólksins.
Ævintýrið byrjaði reyndar ekki gæfulega, 4-0 tap gegn Dinamo Zagreb, 1-2 tap á heimavelli gegn Shakhtar Donetsk og svo 5-1 tap gegn Man City. Núll stig og markatalan 1-11 eftir fyrri viðureignirnar!
Fyrsta stigið kom með í 1-1 jafntefli gegn Man City. Næst var Dinamo afgreitt á heimavelli 2-0 og að lokum Shakhtar 0-3 í Úkraínu. Sigurinn á Atalanta var eini sigur Shakhtar sem gerði þrjú jafntefli og endaði með aðeins sex stig, einu minna en Atalanta.
Ekkert lið skoraði meira á Ítalíu en þetta léttleikandi Atalanta lið og stemmingin fyrir 16-liða úrslitum gegn Valencia gríðarleg í Bergamo enda liðið aldrei komist svona langt áður. Það var talað um þennan leik sem þann stærsta í sögu félagsins. Rúmlega 44.000 manns fóru þennan stutta bíltúr til Milan að sjá leikinn sem er rúmlega 1/3 af íbúafjölda Bergamo. Rest var meira og minna að horfa saman á börum eða heima hjá sér.
Leikurinn var 18.febrúar, tveimur dögum eftir að fyrsta staðfesta Covid smitið á Ítalíu.
Game Zero
Leikurinn gat ekki farið mikið verr/betur fyrir stuðningsmenn Atalanta. Vissulega vann þetta stórskemmtilega Atalanta lið 4-1 sigur og eins og gefur að skilja varð allt vitlaust í Lombardi héraðinu og fagnað innilega að ítölskum sið langt fram eftir nóttu.
Þessi mikla gleði er því miður talin hafa haft mjög mikil áhrif á útbreiðslu Covid og afhverju Bergamo fór svona sérstaklega illa út úr þessu fyrstu vikurnar. Borgarstjóri Bergamo Giorgio Gori talaði um leikinn sem “biological bomb” og fjölmiðlar á svæðinu tala um hann sem “Game Zero”.
Luca Lorini, yfirmaður á sjúrahúsi í Bergamo orðaði þetta svona í viðtali við ítalskan fjölmiðil
“I’m sure that 40,000 people hugging and kissing each other while standing a centimetre apart – four times, because Atalanta scored four goals – was definitely a huge accelerator for contagion.
Innan við viku eftir leikinn var fyrsta Covid smitið í Bergamo staðfest. Á sama tíma var annað smitið á Valencia svæðinu staðfest þegar spænskur blaðamaður sem var nýkomin frá Milan greindist.
Seinni leikurinn fór fram þremur vikum seinna en í allt öðru landslagi. Þá var búið að skella í lás í Bergamo og raunar líka á Spáni, eftir seinni leikinn (sem endaði með 3-4 sigri Atalanta) voru 35% af leikmönnum og starfsliði Valencia greind með Covid-19 sem mátti rekja til fyrri viðureignar liðanna. Ezequiel Garay varnarmaður Valencia varð fyrsti leikmaðurinn í La Liga til að fá Covid, Mangala, samherji hans í vörn Valencia bættist við skömmu síðar. Eftir leikinn kom einnig í ljós að Gian Piero Gasperini stjóri Atalanta hefði verið smitaður þegar leikurinn fór fram.
Eftir þetta var Meistaradeildin sem og fótbolti yfirhöfuð settur á pásu og Bergamo varð miðpunktur umfjöllunar heimsins um afleiðingar Covid. Eitt af fjölmörgum litlum dæmum sem sýna hversu miklar hörmungarnar í Bergamo voru er munurinn á fjölda minningargreina í einu staðarblaðanna með ca. mánaðar millibili í febrúar og mars.
Einn glæsilegasti sigur í sögu Atalanta var svo gott sem gleymdur áður en flautað var af í seinni leiknum. Það var á tímabili um sex tíma bið eftir sjúkrabíl í Bergamo og um 16 tíma bið á bráðamóttökunni. Það er talið að rúmlega 6.000 manns hafi fallið fyrir Covid á svæðinu í kringum Bergamo.
Það er því skiljanlegt að leikmenn Atalanta hafi viljað gleðja stuðningsmenn liðsins þegar fótboltinn sneri aftur í júní. Liðið var í góðum séns á Meistaradeildarsæti og átti framundan leik gegn PSG í 8-liða úrslitum. Ekki heima og heiman heldur einn leik sem var spilaður í Portúgal.
Staðan var 1-0 fyrir Atalanta þegar komið var í uppbótartíma og líklega ekki nokkur maður utan París eða Abu Dhabi sem hélt með frökkunum í þessum leik. Mbappe sem kom inná sem varamaður hafði breytt leiknum töluvert en ítalirnir virtust vera að tryggja sér sæti í undanúrslitum gegn RB Leipzig og þannig góðan séns á sjálfum úrslitaleiknum.
Svo varð þó ekki eins og við þekkjum, 2020 var greinilega ekki búið er að vera alveg nógu hræðilegt fyrir íbúa Bergamo því PSG jafnaði í uppbótartíma og áður en flautað var af slóu fótboltaguðirnir á létta strengi og létu sjálfan Eric Maxim Choupo-Moting skora sigurmarkið.
Gasperini stjóra Atalanta var mikið niðri fyrir eftir leik enda fór þarna úrvals tækifæri forgörðum. Hann er engu að síður maðurinn á bak við þetta ævintýri Atalanta og á heiðurinn af því að þeir voru yfir höfuð í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili og eru mættir aftur til leiks á þessu tímabili.
Atalanta undir Gasperini
Gasperini tók við Atalanta árið 2016 en hann hafði áður verið stjóri Genoa og Palermo. Árið 2011 tók hann við Inter Milan en fékk aðeins 3 mánuði hjá hinum “geðgóða” Moratti, hann var einn af þremur stjórum Inter það tímabilið.
Besta tímabil Atalanta í deildinni fyrir komu Gasperini var 5.sæti árið 1948. Magnað fyrir félag sem hafði þá verið vel rúmlega hálfa öld í Seria A. Hann lagði mjög mikla áherslu strax frá byrjun að breyta hugsunarhættinum alveg. Atalanta skyldi alltaf sækja til sigurs, sama hver mótherjinn væri og hvar væri leikið, æfingaprógrammið varð miklu þéttara og samhliða var innleitt nýtt leikkerfi, 3-4-2-1 / 3-4-3
Atalanta skoraði nítján mörkum meira en tímabilið á undan og fór úr 13.sæti í það fjórða. Því miður var fjórða sæti ekki Meistaradeildarsæti í Seria A það tímabilið en þeir komust í Evrópudeildina. Sjöunda sætið varð niðurstaðan tímabilið á eftir. Árangur Atalanta vakti athygli stóru liðanna og jafnan töluverð leikmannavelta hjá félagi eins og Atalanta. Þeim hefur þó haldist ágætlega á mannskapnum undir stjórn Gasperini og gert vel á leikmannamarkaðnum. Það er engin stórstjarna í liðinu. Innan félagsins tala margir um að mikilvægasta viðbótin við leikmannahópinn hafi komið í október 2018 þegar danski styrktarþjálfarinn Jens Bangsbo bættist við starfsliðið. Hann hafði unnið áður með Gasperini hjá Juventus. Hann hefur komið Atalanta í rosalegt form sem er grunnurinn á bak við velgengni liðsins samhliða leikstíl og hugmyndafræði Gasperini. Atalanta er líkamlega sterkt lið en mjög vel skipulagt taktískt einnig.
Æfingar Jens Bangsbo fóru strax að skila sér því Atalanta endaði í þriðja sæti tímabilið 2018/19 og komst þar með í Meistaradeildina í fyrsta skipti. Liðið skoraði mest allra í Seria A, bættu markaskorun frá tímabilinu á undan um tuttugu mörk en vörnin lak vissulega helling inn hinumegin einnig. Atalanta leikir voru veisla. Mesta svekkelsið var þó í bikarnum þar sem liðið komst í úrslit en tapaði 2-0 gegn Lucas Leiva og félögum í Lazio. Atalanta vann t.a.m. Juventus 3-0 á leiðinni í úrslit.
Eins hræðilega svekkjandi og endirinn var á Meistaradeildarævintýri Atalanta á síðasta tímabili verður að hafa í huga að það er ennþá stórmál fyrir félagið að tryggja sér þáttökuréttinn annað árið í röð. Þeir enduðu aftur í þriðja sæti þegar tímabilið endaði í sumar. Núna skoraði Atalanta ekki bara flest mörkin heldur langflest mörkin í deildinni eða 98 mörk og enduðu fjórum stigum á eftir Inter í öðru sæti. Nokkuð gott fyrir lið sem er í 13.sæti fyrir launaveltu liðanna í Seria A. Allt liðið er með svipað í laun samanlagt og Ronaldo hjá Juventus.
Eitt af því sem hefur einkennt leik Atalanta undanfarin tvö ár er hversu oft þeir koma til baka eftir að hafa lent undir. Þeir fengu 22 stig á síðasta tímabili eftir að hafa lent undir, stundum jafnvel tveimur mörkum undir. Þetta þakka þeir Jens Bangsbo að miklu leiti. Martin De Roon miðjumaður Atalanta kom inná þetta í viðtali við The Atheltic á síðasta tímabili þar sem hann útskýrði að í 70.mínútur væru þeir kannski á pari við andstæðinginn í flestum leikjum, enda Atalanta lið sem er að spila töluvert langt “yfir getu” m.v. fjárhag. Síðustu tuttugu halda þeir hinsvegar sama tempói á meðan það fer að draga af andstæðingnum.
“For 70 minutes we’re maybe on the same level as them. But the last 20 minutes we can keep the same (intensity).”
Upphitun fyrir síðasta Meistaradeildarleik fór vel inn á hugmyndafræðina á bak við Total Football sem maður myndi klárlega tengja að einhverju leiti við leikstíl Atalanta núna. Þeir eru óhræddir við að láta leikmenn hlaupa úr stöðum og er mikið flæði í öllum leik liðsins. Liðið er með um 58% possession að meðaltali í Seria A en skv. de Roon hefur Gasperini alls ekki áhuga á að halda boltanum bara til þess að halda honum, hann innstimplar mjög ákveðið í sína menn að hugsa alltaf framávið.
“Now, of course, he loves possession but he hates possession for possession’s sake. He hates it. He wants to go forward. His first mindset is to go forward. He hates a ball wide, he hates a ball back. Honestly in training, where you can make mistakes, he wants you to play forward, always. He doesn’t want you to play back, even if you make a mistake, because if you go backwards the other team has an opportunity to press us, to go forward and everything. They’re the ones who have to go backwards.
Atalanta getur unnið hvaða lið sem er skv. de Roon og þeir hafa sannarlega sýnt einmitt það undanfarin ár. Þeir hafa hinsvegar ekki neitt plan B ef illa gengur. Það eru mjög litlar líkur á að Atalanta komi inn í þessa leiki gegn Liverpool eins og dæmigert ítalskt lið og reyni að halda jöfnu eða verja 1-0 forystu. Eitthvað sem gæti vel hentað okkar mönnun mjög vel.
Liverpool
Þrátt fyrir rosalegan meiðslalista og höktandi byrjun tímabilsins er Liverpool komið á toppinn í deildinni og búið að vinna báða leikina í Meistaradeildinni. Þessi leikjatörn núna snýst um það að safna stigum, það er deildarleikur og meistaradeildarleikur í hverri viku milli landsleikjahléa á þessu október til nóvember tímabili. Eitthvað sem lið eins og West Ham, Sheffield United, Aston Villa og Everton hafa ekki verið að glíma við.
Næsta vika er sú langerfiðasta í dagatalinu fyrir áramót, besta lið riðilsins á útivelli og svo Man City á útivelli í kjölfarið. Kosturinn er að bæði þessi lið eru í sama leikjaálagi og Liverpool en reyndar alls ekki að glíma við eins alvarlegan meiðslalista.
Klopp þarf að velja byrjunarlið gegn Atalanta með hliðsjón af síðasta leik, meiðslum og stórleiknum gegn Man City um helgina. Vonandi fáum við Matip, Thiago og Keita alla inn aftur fyrir a.m.k. annan ef ekki báða þessa leiki. Fabinho svo vonandi strax í kjölfarið á City leiknum.
Stóra spurningamerkið er staða miðvarðar. Rhys Williams 19 ára byrjaði síðasta leik í Evrópu en Nat Phillips sem er fyrir framan hann í röðinni er ekki partur af Meistaradeildarhópnum byrjaði deildarleikinn. Phillips er vissulega efnilegur miðvörður og stóð sig vel en höfum alveg í huga að hann er eldri en Joe Gomez! Það er alls ekki spennandi tilhugsun að fara með 19 ára óreyndan miðvörð í útileik gegn einu besta sóknarliði heims. Ætla að vinna út frá því að Matip verði klár í þennan leik en þar erum við að treysta á miðvörð sem hefur spilað 165 mínútur í deildinni undanfarna 11 mánuði. Það er fáránlegt að Liverpool vari svona illa mannað inn í mótið í þetta mikilvægri stöðu með Gomez og Matip sem 2/3 af valkostunum. Menn sem hafa verið meira meiddir en ekki á tíma sínum hjá Liverpool.
Byrjunarliðið:
Þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því að það væri mjög gott að klára riðilinn í Meistaradeildinni strax í fjórum leiknum. Það er svo rosalega mikið álag og hætta á meiðslum að tveir leikir þar sem hægt er að skipta nánast öllum út sem skipta máli.
Held að Klopp haldi áfram með 4-6 breytingar á byrjunarliði milli deildar og meistaradeildarleikja. Milner hefur verið að byrja í Meistaradeildinni og Klopp hefur verið að gefa Henderson frí a.m.k. hálfan leikinn. Gæti alveg trúað að við sjáum eitthvað svipað þessum leik. Thiago og Keita koma líklega við sögu ef þeir eru leikfærir og ég gæti alveg séð Klopp hvíla tvo af þremur í sóknarlínunni. Jota á klárlega skilið að byrja og ég tippa á að Shaqiri geri það líka.
Spá:
Þegar það var dregið sá ég fyrir mér að sóknarþenkjandi fótbolti Atalanta hentaði Liverpool vel og það á sannarlega við ennþá. Hjálpar samt alls ekkert að toppliðið í deildinni er jafnfram liðið sem hefur fengið á sig flest mörk það sem af er tímabili. Megnið af þeim leikjum innihélt Van Dijk. Það gengur ekki að gefa svona ódýr mörk og treysta á að sóknarlínan bjargi þessu. Ætla samt að spá því að þetta verði einmitt málið og leikurinn endi 2-4. Jota með tvö, Trent og Mane með hin tvö.
Þetta er búin að vera fínasta helgi fyrir okkar fólk. Það þarf auðvitað ekkert að rifja upp sigurinn gegn West Ham í gær hjá aðalliðinu (en gerum það nú samt, þá sérstaklega sigurmarkið). U23 liðið vann góðan sigur á Arsenal 1-0 á föstudagskvöldið þar sem Paul Glatzel fékk sínar fyrstu mínútur eftir slæm meiðsli á síðasta ári, og U18 vann Newcastle örugglega í gær, úrslitin urðu 4-1.
Núna í hádeginu mæta svo stelpurnar okkar stallsystrum sínum hjá Lewes. Liðin eru hnífjöfn í deildinni, bæði með 10 stig eftir 5 leiki, en Liverpool reyndar með umtalsvert betra markahlutfall.
Leikurinn verður sýndur á The FA Player en það hefur því miður ekki verið hægt að ganga að því vísu að leikirnir í næstefstu deild séu sýndir þar, svo virðist sem það séu aðeins 1-2 leikir í hverri umferð.
Við uppfærum svo færsluna síðar í dag með úrslitum og uppfærðri stöðu í deildinni.
Í kvöld mætti David Moyes í heimsókn á Anfield í sextánda sinn á átján árum. Hann fór ekki heim með þrjú stig frekar en fyrri daginn og Liverpool settist að á toppi deildarinnar á ný, allavega þangað til leikir morgundagsins hafa klárast. Já og þetta gerðist þrátt fyrir að dýrasti varnarmaðurinn í byrjunarliði Liverpool hafi verið Andy Robertson, sem kom til liðsins fyrir sirka einn Kevin Stewart.
Fyrri hálfleikur.
Þessi blessaði hálfleikur var lengri og leiðinlegri en slæm bók sem manni er sett fyrir á busaári í menntó. Liverpool voru ögn sprækir á fyrstu mínútunum, án þess að það væri eitthvað til að hrópa húrra fyrir. Svo á tíundu mínútu fóru West Ham í sókn og Joe Gomez skallaði fyrirgjöf í burtu, illa. Boltinn flaug nánar tiltekið beint í lappirnar á Fornals sem var algjörlega einn á auðum sjó í teignum og hafði nægan tíma til að koma boltanum þægilega fyrir sig og skjóta á markið fram hjá Alisson. 1-0 fyrir West Ham.
Ef ég væri stuðningsmaður West Ham væri ég afar ósáttur með það sem gerðist næst. Það var ekki eins og Liverpool væru að spila eitthvað sérstaklega vel og ef ég væri sóknarmaður á móti þessari vörn myndi ég alveg vilja spreyta mig. En David Moyes er einfaldlega ekki djarfur þjálfari, svo fyrirsjáanlega féll lið hans til baka og reyndi að verja stigið. Ég man einfaldlega ekki til þess að fleiri en þrír leikmenn West Ham hafi komið yfir miðlínu það sem eftir lifði hálfleiksins, þó ég sé mögulega að gleyma einhverri sókn eða jafnvel tveimur. Er hægt að fagna því að Liverpool hafi verið 60% með boltann og ekki hleypt andstæðingnum yfir miðju, þegar andstæðingurinn hafði engan áhuga á að fara yfir miðju?
En það er ekki eins og Liverpool hafi leikið stórleik þennan hálfleik. Þeir létu boltann ganga endalaust fyrir framan West Ham múrinn en það var ekkert um litlu hlaupinn og sniðugu snúninganna sem þarf til að komast í geggnum svona níu manna varnarmúr. Á einum tímapunkt komust Liverpool í skyndisókn og ég blótaði því að þeir gæfu ekki boltann fram, þangað til að myndavélinn sýndi að þó West Ham hafi verið að taka horn voru þeir með minnst sex leikmenn fyrir aftan boltann á eigin helmingi. Þetta var einfaldlega lélegur hálfleikur á móti varnarsinnuðu liði. Mané hefði kannski átt að fá víti á einum tímapunkti, en það var annars lítið að frétta… þangað til í lok hálfleiksins.
Curtis Jones sendi ákaflega fallegan bolta yfir vörn West Ham manna sem Salah tók á móti boltanum. Salah reyndi að snúa á varnarmanninn Masuaku tók sú afar skiljanlegu ákvörðun að fella Salah með því að traðka á hælunum á honum en viti menn! Dómarinn ákvað að brjóta af vananum þegar brotið er á Salah og dæmdi vítaspyrnu! Ég trúði ekki eigin augum en fagnaði innilega þegar Egypski kóngurinn skoraði en eitt markið! Þetta róaði alla töluvert fyrir hálfleikinn.
Seinni hálfleikur
Það var allt annað að sjá til Liverpool eftir að þeir byrjuðu að sækja í átt að Kop stúkunni. Curtis Jones, sem var svolítið týndur í fyrri hálfleik, færði sig lengra út á hægri vænginn og men fóru að sækja af meiri og meiri krafti. West Ham átti eitt fínt færi snemma í hálfleiknum en annars fór hann meira eða minna fram á vallarhelming þeirra.
Þegar tuttugu mínútur voru eftir kom svo skiptingin sem breytti leiknum. Jota og Shaqiri mættu inn á völlinn í stað Firmino og Jones. Þetta breytti líka aðeins skipulagin, Jota fór í stöðuna hans Mané, Senegalinn fór upp á topp. Eftir þetta var það spurning um hvenær ekki hvort mark tvö kæmi.
Á 77. Mínútu var svo handagangur í öskjunni og Jota setti boltann í netið. Maður svona VAR fagnaði því í fyrstu sín var eins og Mané hefði tæklað markmanninn rétt fyrir markið. Svo komu endursýningarnar og maður var ekki jafn viss. Kevin Friend gerði hér hárrétt og fór bara sjálfur að skoða þetta á skjánum. Hann dæmdi markið af. Verð að játa að ég hef sjaldan verið jafn óviss með dóm. Mané tæklar boltann og markmanninn en fóturinn rann undir markmanninn. Var þetta brot? Ég er bara ekki viss.
En það skipti engu. Því að Svisslendingurinn ferhyrnti tók sig til örstuttu seinna og gaf guðdómlega í sendingu í gegnum klofið á varnarmanni West Ham, sem Jota náði til og skoraði úr! Þvílík sending, geggjað mark og hvílíkur leikmaður sem skoraði það!
Moyes svaraði þessu með að setja inn á tvo sóknarmenn en það dugði honum ekki til. Liverpool sigraði og eru nú komnir með 63 heimaleiki án taps í deildinni, sem jafnar liðsmetið!
Maður leiksins
Það er afar freistandi að segja Nathaniel Phillips hér, sem spilaði sinn fyrsta leik í deild fyrir Liverpool og stóð sig með prýði. Hann vann slatta af skallaeinvígum, man ekki til þess að hann hafi tapað bolta og virðist þekkja sín takmörk. Þannig að ég vel hann bara.
Umræðupunktar eftir leik
Þvílíkur lúxus að hafa Shaqiri á bekknum. Nei hann er ekki nógu góður til að taka fast sæti í byrjunarliðinu, en hann virðist alltaf getað töfrað fram eitthvað gull þegar hann er heill og kemur inná. Afar feginn að hann fór ekki í sumar.
Vörnin heldur áfram að leka mörkum, en það sem ég sakna mest frá Van Dijk eru löngu gæða boltarnir fram. Það var ekki nógu mikið talað um hversu oft hann náði að opna leiki með eitraðri sendingu fram á við.
Trent átti ekki stórleik, en var klárlega mun betri en undanfarið. Vonandi heldur það áfram því við þurfum hann.
Firmino var svolítið týndur í þessum leik. Hann bara fann ekki pláss á milli manna West Ham, þessir leikir þar sem andstæðingar liggja djúpt eru alla jafna erfiðir fyrir hann.
Að lokum: Diego Jota. Maður minn. Þvílíkur leikmaður.
Að lokum aftur: Liverpool eru efstir í deildinni, mikið er það fallegt að sjá.
Það er orðið ljós hverjum Jurgen treystir til að hrifsa efsta sæti deildarinnar af hinu liðinu í Liverpool. Nathaniel Phillips mun væntanlega aldrei gleyma þessum degi, þar sem hann spilar sinn fyrsta deildarleik fyrir liðið. Á miðjunni er annar ungur, en þó ögn reyndari leikmaður, Curtis Jones verður með þeim Henderson og Gini í miðju baráttunni. Framlínan er svo eins og venjulega.
Á bekknum eru svo Williamsarnir tveir, Shaqiri, Minamino, Milner og Jota.
David Moyes stillir hins vegar upp þessu liði
Jæja. Liverpool hefur ekki tapað á heimavelli í deildinni í síðustu 62 leikjum, koma svo strákar!
Þá er komið að næsta verkefni, þriðji heimarleikurinn í röð hjá ríkjandi Englandsmeisturum, þegar West Ham kemur í heimsókn (laugardag kl. 17:30) áður en við förum í tvo erfiða útileiki fyrir næsta landsleikjahlé.
Formið og sagan
Liverpool hefur gengið nokkuð vel gegn West Ham síðustu árin og hafa til að mynda eingöngu gert eitt jafntefli en sigrað fimm sinnum í síðustu sex viðureignum og þrír sigrar í síðustu þremur heimaleikjum.
Það þarf að leita aftur til þess tíma sem að West Ham spilaði ennþá á Upton Park til að finna síðasta tapleik okkar gegn þeim í deildinni – það var 2. Janúar 2016 en það tímabilið töpuðum við tvöfalt gegn Hömrunum, sælla minninga. Til gamans má geta þess að einungis einn leikmaður af þeim átján sem voru á leikskrá í þessu (ó)eftirminnilega tapi spilar enn með liðinu en það er Firmino. Hópurinn þann daginn sýnir okkur kannski svart á hvítu hve mikið vatn hefur runnið til sjávar á ekki lengri tíma: Mignolet, Clyne, Lovren, Sakho, Moreno, Coutinho, Leiva, Can, Ibe, Benteke og Firmino hófu leikinn og bekkurinn var ekkert slor: Bogdan, Touré, Brad Smith, Randall, Lallana, Allen, Brannagan.
Í gær fengum við sendan þennan flotta pistil frá honum Ágúst Þór Ragnarssyni. Hann setti pistilinn svo í athugasemd við færslu en ég fékk leyfi til að henda honum inn hjá okkur.
Ef ykkur langar að senda á okkur umræðu eða góðan pistil þá endilega hendið á maggimark14@gmail.com og hver veit hvað verður!
Ég leyfði mér að þýða ensku punktana í pistil Ágústar.
Vandamálið með VAR og dreifing ábyrgðar
Margir hafa spurt sig hvað er að VAR og af hverju það virkar ekki sem skyldi.
Nú virðast ensku dómararnir ekki hafa leyst neitt sérstaklega vel úr þessu nýja tæki sem þeim var gefið til að hafa betri yfirsýn.
En hvað veldur? Vandamálið er að VAR kerfið eins og það er uppsett í Bretlandi er í eðli sínu mein gallað og kallar fram þekkt sálfræðilegt vandamál sem nefnist dreifing ábyrgðar ,,Diffusion of responsibility“.
Á heimasíðu Premier League eru nákvæmlega skilgreind þau atriði sem farið er eftir í framkvæmd VAR og hver vinnuregla og nálgun þeirra er í framkvæmdinni; ,,the minimum interference – maximum benefit“
VAR verður eingöngu notað við „skýrar og augljósar villur“ eða „alvarleg mistök hjá atvikum“ í fjórum leikjabreytingum:
Á heimasíðu Premier League eru eftirfarandi grundvallarreglur við notkun á VAR settar fram:
• Lokaákvörðunin verður alltaf tekin af dómara á vellinum.
• VAR mun ekki ná 100 prósenta nákvæmni en mun hafa jákvæð áhrif á ákvarðanatöku og leiða til réttari og réttlátari dóma.
• VAR mun sjálfkrafa athuga þau atriði sem koma fram í áhersluþáttunum fjórum, leikmenn þurfa ekki að biðja um eða gefa merki um það.
• Leikmenn verða alltaf að spila þar til flauta gellur.
• Það verður hár þröskuldur með inngripum VAR af huglægum ákvörðunum dómarans á vellium til að viðhalda hraða og styrkleika í úrvalsdeildarleikjum.
• Raunverulegar ákvarðanir, svo sem hvort leikmaður sé á rang- eða réttstæður, kalla ekki á sjálfkrafa inngrip VAR.
• Gult spjald verður gefið út til leikmanna sem gefa VAR merki til leikmannsins með árásargjöf.
• Endursýning atviks í rauntíma verður upphaflega notað til að athuga atriði á ákefð. Endursýning á hægum hreyfingum verður notuð til að bera kennsl á snertipunkt.
• VAR eru starfsmenn leikja og tilnefningar þeirra verða tilkynntar fyrir hverja leik umferð sem hluti af dómgæsluliðinu.
Fyrirbærið dreifing ábyrgðar (diffusion of responsibility eða the bystander effect).
Það að viðvera/nálægð annars breyti hegðun einstaklingsins þannig að þeir finna fyrir minni ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna (Bandura, 1991). Sjá einnig Kitty Genovese morðið í New York þar sem 37 vitni horfðu á morðingjan að verkum en gerðu ekkert.
Fyrirbærið dreifing ábyrgðar (diffusion of responsibility eða the bystander effect). Er þekkt sálfræðilegt hugtak. Það að viðvera/nálægð annars breyti hegðun einstaklingsins þannig að þeir finna fyrir minn ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna (Bandura, 1991). Sjá einnig Kitty Genovese morðið í New York þar sem 37 vitni horfðu á morðingjan að verkum en gerðu ekkert.
Tilfinningin að vera fulltrúi einhvers er að maður hafi stjórn á atburðum með eigin íhlutun. Þessi tilfinning skiptir miklu máli á samskiptum og er þar af leiðandi tengt ábyrgðartilfinningu.
Í ritrýndri rannsókn Beyer og félaga (2017) sýndu þeir fram á að aðkoma annars fulltrúa veldur því að að ábyrgð dreifist þannig að fulltrúinn beri minni ábyrgð og veldur minni tengingu á aðgerðum fulltrúans við niðurstöðuna. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC5390744/
Það sem óneitanlega flækir þetta er að ákvarðanatakan er oft í neyðaraðstæðum s.s hættu, stressi eða menn undir pressu. Eftir því sem fleiri koma að ákvarðanatöku þeim mun minni ábyrgð finnur fulltrúinn fyrir afleiðingum ákvarðanna sinna.
Þegar einn dómari sem ber ábyrgð á dómgæslunni er kominn með teymi í kringum sig er ábyrgðin farin að dreifast á meðal eftirtalinna fulltrúa:
• Dómarinn (ber ábyrgð á dómgæslunni)
• tveir línuverðir (gæta rangstöðu, línuvarsla og aðstoð við dómgæslu
• þrír VAR dómara (ákvarðanir varðandi mark/ekki mark, víti/ekki víti, beint rautt spjald, mistök við spjöldun leikmanna)
Vinnuregla Premier league sem segir ,,the minimum interference maximum benefit“ veldur því að VAR dómarar skerast ekki í leikinn nema nauðsyn sé.
Vandamálið er að með því að vera með hið svokallaða silent check frá VAR dómurunum getur dómarinn treyst því að VAR sjái atvik betur en hann sjálfur. Þessi vitneskja veldur í eðli sínu dreifingu á ábyrgð. Í Bretlandi er VAR aftur á móti þannig að þeir vilja lágmarka íhlutun. Þannig að í með þessari vinnureglu mun dómarinn nánast undantekningalaust treysta meira á að VAR heldur sína eigin dómgreind þegar VAR tilkynnir ákvörðun.
Það sem er enn alvarlegra er það að traust dómarans á VAR mun ávallt samkvæmt fræðunum slæva/minnka ábyrgð hans á ÖLLUM umdeildum atvikum leiksins sem aftur bitnar á gæðum dómgæslunnar.
Þetta hefur margskonar eftirtaldar afleiðingar fyrir leikinn:
• Engin ákvörðun tekin í ákveðnum aðstæðum þar sem taka þarf erfiða ákvörðun verður jafnvel enginn ákvörðun tekin því VAR vinnur skv. minimum interference og á samkvæmt reglunum ekki að fara með valdið. Dómarinn treystir á að VAR hafi með ,,silent check“ séð atvikið og tekið ákvörðun.
• Rangur dómur dómarinn telur sig sjá atvikið en dæmir rangt. Ábyrgðin færist yfir á VAR teymið að grípur inn í en gerir það ekki vegna pressu, álags eða hræðslu við umræðu (Champon, 2014)
• VAR sér brot en ákveður að gera ekkert samkvæmt vinnureglunni um minimum interference. Dómarinn sjálfur gæti hafa séð atvikið og hann á að bera hina endanlegu ábyrgð. Hvenær kallar atvik á interference? Hvenær nær það hinu huglæga marki sem kallar á íhlutun?
Niðurstaðan er sem sagt sú í stuttu máli að VAR er ekki að virka eins og það er upp sett og sérstaklega í Bretlandi vegna óskýrleika í verklaginu minimum interference.
1-0 Diogo Jota 55. mín 2-0 Mohamed Salah 90+3 mín (víti)
Leikurinn
Heimamenn stilltu upp með hvíldarróteringu í huga með hina heilögu heimsklassa þrenningu Salah, Mané og Firmino í hásæti á bekknum. Sú uppstilling virtist vera hughreystandi fyrir gestina sem mættu óhræddir til leiks og fengu dauðafæri strax á 2. mín leiksins. Einföld sending frá hafsentinum Scholz inn fyrir vörnina hleypti Dreyer í dauðafæri einn gegn Alisson en sá brasilíski lokað vel og varði skotið.
Það var ljóst frá þessari byrjun og næstu tuttugu mínútur til viðbótar að Danirnir voru mættir til að gera kvöldið erfitt fyrir Liverpool sem voru alls ekki með neinn ryþma eða melódíu í sinni spilamennsku. Gestirnir pressuðu ágætlega og þegar þeir unnu boltann þá héldu þeir honum vel innan liðsins og voru óhræddir við að láta finna fyrir sér með tilheyrandi spjaldasöfnun. Liverpool fór ekki að komast í gang fyrr en nálgaðist miðbik fyrri hálfleiks og fóru þá loks að ógna með ágætlega uppbyggðum sóknarlotum með nokkrum hálffærum hjá Minamino og ógnun hjá Trent upp hægri vænginn.
En enn hélt meiðslamartröðin áfram hjá Liverpool þegar að á einföldum spretti og án snertingar að varnartröllið Fabinho lá óvígur á vellinum. Allar líkur eru á að hamstrengurinn hafi gefið sig aftan á læri á köldu kvöldi í Norður-Englandi og það þýðir nokkurra vikna bataferli hjá Brassanum sem hefur brillerað í bráðri neyð. Inn kom 197 cm og 19 ára unglingurinn Rhys Williams sem er sérlega efnilegur en alls óreyndur utan nokkurra deildarbikarleikja fyrr í vetur.
Viðleitni rauðliða til að ná skoti á rammann jókst síðustu mínútur hálfleiksins með hálffæri Milner, rangstæðum Origi og skalla Minamino en heimamenn luku hálfleiknum án þess að hafa látið Mikkel í markinu þurfa að verja einn bolta.
0-0 eftir hörmulegan fyrri hálfleik
Klopp gerði þá breytingu í hálfleik að fyrirliðinn Henderson vék fyrir Gini Wijnaldum og vonandi var það ekki alvarlega meiðslatengt. Flæðið var betra í byrjun seinni hálfleiks og boltinn gekk hraðar manna í milli. Á 55. mínútu kom góð sóknaruppbygging upp hægri vænginn, Trent fór í trekant við Shaqiri og lagði síðan boltann upp á Diogo Jota fyrir opnu marki. Glæsilegt spil og gott mark. 1-0.
Í kjölfarið fylgdu áhugaverðar skiptingar er ofurstirnin Salah og Mané komu inná og stuttu síðar bættist Íslendingurinn Mikael Anderson í hópinn fyrir Midtjylland. Íslenski landsliðsmaðurinn var settur í framlínuna til þess að reyna að feta í fótspor samlanda sinna Gylfa Þórs, Jóa Berg, Brynjars Björns og Hemma Hreiðars sem hafa afrekað það að skora gegn Rauða hernum á ferlinum. Leikurinn róaðist og ef eitthvað var þá voru óx gestunum ásmegin sem endaði með góðu færi á 77.mínútu er Evander skaut rétt framhjá í teignum.
Firmino var skipt inná en lítið var samt að frétta í sóknarleik okkar manna nema hvað að Bobby fékk dauðafæri á silfurfati frá Trent á 88.mínútu sem hefði klárað leikinn endanlega. Sú vannýting á góðu færi hefði geta reynst afar dýrkeypt þar sem að Dreyer kom sér að nýju í dauðafæri maður á móti Alisson en vippaði rétt framhjá markinu. Kæruleysi og slappleiki okkar manna kom þeim næstum því illþyrmilega í koll.
Í uppbótartíma þá átti Trent glæsilega sendingu inn fyrir vörnina á Salah sem var sloppinn í gegn en brotið var á egypska undrinu og vítaspyrna réttilega dæmd. Mohamed steig upp til spyrnutöku með boltann á punktinum og hamraði vítaspyrnuna niðri hægra megin í markið.
2-0 lokatölur fyrir Liverpool
Bestu menn
Margir leikmenn voru flatir í kvöld en Shaqiri leit mjög vel út, spilaði allan leikinn og mikill þátttakandi í þeirri litlu jákvæðu sóknaruppbyggingu sem var í gangi. Diogo Jota setti gott liðsmark og var sæmilegur þess utan og sama má segja um innkomu Salah sem vann vítaspyrnu og skoraði úr henni. Minamino var smá líflegur í fyrri hálfleik en hvarf í þeim seinni. Alisson stóð sig líka vel í einvíginu gegn Dreyer í dauðafærunum og Gini átti góða innkomu í hálfleik. Rhys Williams fær einnig broskarl í kladdann fyrir að koma inn af bekknum, ná af sér stressinu og vinna sig inn í leikinn.
Yfirburðarmaður leiksins var þó Trent Alexander-Arnold sem var frábær og sýndi mikil gæði í sinni spilamennsku eftir risjóttar síðustu vikur. Tvær stoðsendingar og lagði einnig upp önnur bestu færi leiksins sem gerir hann klárlega að manni leiksins.
Vondur dagur
Fabinho sem hefur verið bjargvætturinn í grasinu og miðvarðarstöðunni var svo óheppinn að meiðast aftan í læri og vonin er að vikurnar verði ekki of margar á hliðarlínunni. Þá nýtti Origi sitt tækifæri í byrjunarliðinu gegn takmörkuðum andstæðing ekkert sérlega vel þó að vissulega hafi hann hlaupið sæmilegt meðaltal af kílómetrum þegar allt er talið saman í bókhaldinu.
Viðtalið
Klopp beint eftir leik um frammistöðuna, mörkin og meiðslin:
Tölfræðin
Upphafsmark leiksins hjá Jota var 10.000 markið í glæstri 128 ára sögu Liverpool Football Club. Jock Smith skoraði fyrsta mark LFC í september 1892.
Liverpool átti tvö skot á markið í leiknum og það endaði sem tvö mörk.
Tæknihornið
Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Anderson fær fálkaorðuna fyrir frumlegustu fótboltaflíkuríklæðningartæknina í bransanum:
Mikael Anderson of Midtjylland has the strangest technique for putting a football shirt on… ? pic.twitter.com/oc4OBV7dfr
Rauða herinn var í algeru óstuði í kvöld og liðið náði sjaldan góðri spilamennsku í gang. Það sem líta má jákvætt á þetta er að 3 stigum var landað á meðan Atalanta og Ajax töpuðu stigum og að við komumst upp með róteringu á lykilmönnum. Það ætti að þýða enn þægilegri og öruggari útkomu í auðveldum riðli með frekari róteringum ef þurfa þykir.
Að sama skapi er áhyggjuefni að þriðja leikinn í röð er frammistaðan ekki upp á marga fiska þó að úrslitin skili sér í hús. Sérlegt áhyggjuefni eru ítrekuð miðvarðameiðsli og hvernig okkur tekst að manna þá stöðu næstu mánuðina. Vonandi fer Matip að ná heilsu til lengri tíma en stakra leikja (7,9,13) og við megum alls ekki við því að Gomez lendi í neinu hnjaski (aftur 7,9,13).
Þó að Rhys Williams hafi geta stigið inn í leik gegn dönsku liði gefur það ekki endilega fyrirheit um að hann sé tilbúinn í úrvalsdeildina eða gegn sterkari liðum í Meistaradeildinni. En kannski munum við ekki hafa neina aðra valkosti en að spila Rhys í einhverjum þeirra leikja sem gerir innkaupamál í janúar enn meira knýjandi til þess að fylla skarðið af meiðslum VvD og vanrækslu við að manna stöðuna fyrir veturinn.
Næsti leikur er heima gegn West Ham sem hafa verið að stríða toppliðunum Man City, Tottenham, Leicester og Wolves í sínum síðustu 4 leikjum með 2 sigra og 2 jafntefli í þeim einvígum og því ekkert gefins gegn Hömrunum.
Danskir miðlendingar hafa lagt Jótland undir fót og eru mættir til fótboltahöfuðborgar Englands, nánar tiltekið á höfuðvígi Rauða hersins á Anfield í Liverpool. Þar mun fara fram fyrsti leikur knattspyrnusögunnar á milli liðanna og verður hann hluti af annarri umferð í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þennan fótboltaveturinn.
Midtjylland fengu hressilega jarðtengingu með 4-0 jarðsetningu í síðasta leik gegn Atalanta á meðan Liverpool gerði góða ferð til Amsterdam þar sem 3 stigin voru rausnarleg umbun fyrir ósannfærandi frammistöðu.
Startopstilling
Liðsuppstilling kvöldsins liggur klár fyrir með áhugaverðum innkomum Minamino, Shaqiri og Origi í byrjunarliðið með alla heilögu þrennuna á bekknum ef þörf krefur.
Gestirnir frá Mið-Jótlandi stilla sínu liði upp eftirfarandi:
Pressekonference
Meistari Klopp sat fyrir svörum á blaðamannafundi gærdagsins og rýndi í stöðu mála. Markvarðarmeistari Alisson mætti í seinni hlutann og mælti mjúklega úr myndarlegum munni:
Brian Priske tjáði sig einnig við fjölmiðlana og hér er hans framlag:
Opvarmningslaget
Der kan kun være et opvarmningslag som vi spiller før kampen mod Midtjylland begynder og det kommer fra albummet Midt om Natten. Musikeren er selvfølgelig den afdøde Kim Larsen med sin klassiske og meget populære sang Papirsklip. Midtjyllenderne spillerne er ingen papkasser, men vi håber, at den Røde hær kan skære igennem dem mange gange og sætte masser af mål i nettet.
Leikurinn hefst klukkan 20:00 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.
We are red! We are white! We are Liverpool dynamite!
Vi er røde, vi er hvide! Vi står sammen, side om side!
Kom nu du RØDE! Allez! Allez! Allez!
YNWA!
Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.