Leicester 3-1 Liverpool
Mörkin
0-1 Mohamed Salah 67.mín
1-1 James Maddison 80.mín
2-1 Jamie Vardy 81.mín
3-1 Harvey Barnes 85.mín
Leikurinn
Leikurinn byrjaði afar líflega með góðri fyrirgjöf Robertson á fyrstu mínútunni sem var naumlega bjargað og Maddison svaraði fyrir gestina með langskoti af eigin vallarhelming en náði ekki að grípa Alisson í landhelgi. Varnarlína beggja liða var afar hátt uppi og bæði ógnuðu með stungusendingum inn fyrir og sér í lagi var áferðarfalleg utanfótarsending TAA á Mané næstum orðin að dauðafæri.
Rauði herinn pressaði vel fram á við, vann boltann ítrekað og hélt boltanum vel innan sinna raða. Á 9. mínútu sendi Henderson frábæra sendingu inn fyrir á Salah sem var næstum sloppinn einn í gegn en flæktist í eigin fótum og féll við áður en hann náði skoti á markið. Leicester ógnuðu á móti með stungu á Vardy sem reyndi að herma eftir Danny Ings frá síðasta mánuði með því að lyfta yfir Alisson en boltinn fór yfir markið. Örstuttu síðar var ansi tæpt á vítaspyrnu er Salah féll í teignum eftir spark frá varnamanni sem strauk legginn á honum en bæði grasdómari og VAR-dómstóllinn létu sér fátt um finnast.
Eftir korter fór maraþonmaðurinn Milner að haltra og ljóst að hann kæmist ekki í endamarkið í þessum leik. Áður en Milner tókst að framkvæma innáskiptin við Thiago þá féll skoppandi bolti í teignum til Salah sem tók karatespark í knöttinn á lofti en því miður fór skotið vel framhjá. Á 19. mínútu áttu Liverpool leiftrandi skyndisókn sem Mané tókst næstum að tækla inn í markið eftir undirbúning Salah en Amartey gerði vel að bjarga á síðustu stundu.
Okkar menn héldu áfram að vera öflugri og á 25. mínútu endaði gott samspil með þröngu færi hjá Firmino sem Schmeichel varði vel. Stuttu síðar fékk Firmino enn betra færi sem Kasper varði stórkostlega en að öllum líkindum hefði rangstaða verið dæmd ef boltinn hefði þanið netmöskvana.
Eftir hálftíma leik fóru heimamenn að braggast og komust stöku sinnum yfir miðju. Sú bragarbót endaði með ágætu skallafæri Vardy en boltinn fór á mitt markið í fangið á Alisson. Rauði herinn var þó enn með töglin og haldirnar á leiknum og laglegt samspil kom Robertson í skotfæri í teignum en skotið fór af varnarmanni og framhjá. Leicester fengu þó dauðafæri á 41. mínútu er Vardy slapp einn inn fyrir vörnina og hinn sprettharði stræker hamraði boltann í miðja þverslánna. Nokkrum mínútum síðar slapp Vardy aftur inn fyrir en Alisson mætti snöggur út á móti og varði vel af stuttu færi. Líflegum fyrri hálfleik lauk því með markaleysi.
0-0 í hálfleik
Bláliðar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og unnu nokkrar aukaspyrnur á vallarhelming alrauðra og úr einni þeirra skapaðist hætta í teignum en Alisson var með á nótunum í markinu að grípa inní. Robertson átti einnig upphlaup sem endaði með skot en örfættu skotlöppinni brást bogalistin. Á 56. mínútu fengu Liverpool aukaspyrnu eftir að brotið var á Salah um 35 metra frá marki. Trent tók spyrnuna og eftir viðkomu í varnarmanni í veggnum small skotið í slánni rétt við markskeytin með Kasper sigraðan en því miður var það stöngin út en ekki inn. Í kjölfarið náði LFC aftur tökum á leiknum og sóttu mikið en ávallt vantaði nægilega nákvæmni í lokasendingu eða skoti.
En það var ekki skortur á hágæðum á 66. mínútu þegar Liverpool braut loksins ísinn með frábæru marki. TAA átti skot sem fór í varnarmann og náði sjálfur frákastinu og lagði boltann á Firmino í teignum. Brassinn Bobby sýndi samba-takta og sendi boltann bráðskemmtilega með hælspyrnu á Salah sem slúttaði snilldarvel með innanfótarsnuddu í fjærhornið. Geggjað mark og verðskuldað miðað við yfirburðina í leiknum. 0-1 fyrir Liverpool.
Hurð skall nærri hælum á 77.mínútu þegar að Thiago braut á Harvey Barnes rétt við vítateigslínuna og Liverpool rétt slapp við að fá vítaspyrnu dæmda á sig með VAR-dómgæslu. Úr aukaspyrnunni fór boltinn í gegnum þvöguna í teignum og í netið en til að byrja með var rangstaða dæmd en VAR var aftur í aðalhlutverki og dæmdi réttstöðu þannig að markið stóð. Hvernig VAR fær það út að skóstærð Firmino sé nr.80 er umdeilanlegt en við lifum á hátæknilegum tímum. 1-1.
Örstuttu síðar kom langur stungubolti inn fyrir vörn gestanna og Kabak horfði til himins í von um að hreinsa boltann en Alisson mætti í úthlaup og úr varð slysalegt samstuð sem gaf Vardy mark á silfurfati. 2-1 fyrir Leicester.
Liverpool voru í algjöru losti og í tómu tjóni á þessum mínútum. Til að hámarka hörmungina þá gaf Salah boltann illa frá sér á miðjunni, Kabak var of djúpur í varnarlínunni og Barnes fékk sendingu inn fyrir sem hann lauk með laglegu slútti með grasinu og framhjá Alisson. 3-1 og þriggja marka hryllingur á fimm mínútna kafla. Eftir það fjaraði leikurinn út án merkilegra viðburða og ótrúlegur endakafli gerði út um toppslaginn.
3-1 tap fyrir Leicester staðreynd.
Bestu menn
Margir leikmenn okkar áttu fína frammistöðu framan af leik og var framlínan kraftmikil í pressunni þó að mörkin létu á sér standa mest megnis. Salah var sérstaklega mikið í boltanum í fyrri hálfleik og markið var einstaklega flott slútt út við stöng. Firmino voru mislagðar fætur framan af en stoðsendingin frábæra fer í minningamöppuna. Henderson var fínn í vörninni og með margar flottar leikstjórnanda-langsendingar inn fyrir vörnina. Það var fínn dugnaður í miðjumönnunum öllum og mestmegnis var spilið fínt ásamt öflugri pressu.
Bakverðirnir voru einnig í banastuði á löngum köflum með Robertson óþreytandi fram á við þó að hann mætti fara á skotæfingu til að geta komið sínum sénsum á rammann. Minn maður leiksins er Trent Alexander-Arnold sem átti margar glæsilegar sendingar, sláarskot og flotta sóknarspretti ásamt sínum þætti í markinu.
Vondur dagur
Kabak hafði átt hina ágætustu byrjun í 80 mínútur í sínum upphafsleik en á augabragði varð það að hörmung með samskiptaleysi hans og Alisson í markinu. Ekki það að Tyrkinn eigi meiri sök en Brassinn sem hafði verið að bæta ágætlega fyrir skelfingar frammistöðu sína í síðasta leik en þetta voru einstaklega dýrkeypt mistök sem kostuðu okkur leikinn. Við stöndum samt áfram með okkar mönnum fram í Liverpool-rauðan dauðann.
Tölfræðin
Umræðan
Það verður þungt hljóð í Púlurum allra landa þegar ræða á þriðja tapleikinn í röð í deildinni og þessi ósigur getur reynst okkur ansi dýrkeyptur í því sem er að snúast upp í nauðvörn um að halda Meistaradeildarsæti. Frá því að vera á toppi deildarinnar um jólin eftir 7 marka veislu gegn Palace þá hefur formið á okkar mönnum hrunið og tímabilið á barmi þess að leysast upp í vitleysu. Auðvitað hefur annus horribilis í meiðslamálum ekki hjálpað okkur en það getur ekki verið eina útskýringin á því af hverju mentality monsterin eru svona mistæk þessa dagana.
Þetta var samt ótrúlega skrýtinn leikur eftir á að hyggja og þeirrar sanngirni skal auðvitað gætt að í 80 mínútur vorum við betri aðilinn og á góðri leið með að landa öflugum útisigri sem hefði gert mikið fyrir okkur í deildinni og einnig upp á sjálfstraustið. Hvernig himnarnir hrynja á fimm mínútna kafla er því enn undarlegri og meira svekkjandi þegar leikurinn er gerður upp. Það er eitthvað ólukkuský sem vofir yfir Liverpool þessi dægrin og við þurfum að þrauka til komast í gegnum óveðrið. Því að eftir endalok stormsins þá er gylltur himinn í boði og við gefumst aldrei upp. Áfram gakk!