Latest stories

  • Leicester 3-1 Liverpool

     

    Mörkin

    0-1  Mohamed Salah 67.mín
    1-1  James Maddison 80.mín
    2-1  Jamie Vardy 81.mín
    3-1  Harvey Barnes 85.mín

    Leikurinn

    Leikurinn byrjaði afar líflega með góðri fyrirgjöf Robertson á fyrstu mínútunni sem var naumlega bjargað og Maddison svaraði fyrir gestina með langskoti af eigin vallarhelming en náði ekki að grípa Alisson í landhelgi. Varnarlína beggja liða var afar hátt uppi og bæði ógnuðu með stungusendingum inn fyrir og sér í lagi var áferðarfalleg utanfótarsending TAA á Mané næstum orðin að dauðafæri.

    Rauði herinn pressaði vel fram á við, vann boltann ítrekað og hélt boltanum vel innan sinna raða. Á 9. mínútu sendi Henderson frábæra sendingu inn fyrir á Salah sem var næstum sloppinn einn í gegn en flæktist í eigin fótum og féll við áður en hann náði skoti á markið. Leicester ógnuðu á móti með stungu á Vardy sem reyndi að herma eftir Danny Ings frá síðasta mánuði með því að lyfta yfir Alisson en boltinn fór yfir markið. Örstuttu síðar var ansi tæpt á vítaspyrnu er Salah féll í teignum eftir spark frá varnamanni sem strauk legginn á honum en bæði grasdómari og VAR-dómstóllinn létu sér fátt um finnast.

    Eftir korter fór maraþonmaðurinn Milner að haltra og ljóst að hann kæmist ekki í endamarkið í þessum leik. Áður en Milner tókst að framkvæma innáskiptin við Thiago þá féll skoppandi bolti í teignum til Salah sem tók karatespark í knöttinn á lofti en því miður fór skotið vel framhjá. Á 19. mínútu áttu Liverpool leiftrandi skyndisókn sem Mané tókst næstum að tækla inn í markið eftir undirbúning Salah en Amartey gerði vel að bjarga á síðustu stundu.

    Okkar menn héldu áfram að vera öflugri og á 25. mínútu endaði gott samspil með þröngu færi hjá Firmino sem Schmeichel varði vel. Stuttu síðar fékk Firmino enn betra færi sem Kasper varði stórkostlega en að öllum líkindum hefði rangstaða verið dæmd ef boltinn hefði þanið netmöskvana.

    Eftir hálftíma leik fóru heimamenn að braggast og komust stöku sinnum yfir miðju. Sú bragarbót endaði með ágætu skallafæri Vardy en boltinn fór á mitt markið í fangið á Alisson. Rauði herinn var þó enn með töglin og haldirnar á leiknum og laglegt samspil kom Robertson í skotfæri í teignum en skotið fór af varnarmanni og framhjá. Leicester fengu þó dauðafæri á 41. mínútu er Vardy slapp einn inn fyrir vörnina og hinn sprettharði stræker hamraði boltann í miðja þverslánna. Nokkrum mínútum síðar slapp Vardy aftur inn fyrir en Alisson mætti snöggur út á móti og varði vel af stuttu færi. Líflegum fyrri hálfleik lauk því með markaleysi.

    0-0 í hálfleik

    Bláliðar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og unnu nokkrar aukaspyrnur á vallarhelming alrauðra og úr einni þeirra skapaðist hætta í teignum en Alisson var með á nótunum í markinu að grípa inní. Robertson átti einnig upphlaup sem endaði með skot en örfættu skotlöppinni brást bogalistin. Á 56. mínútu fengu Liverpool aukaspyrnu eftir að brotið var á Salah um 35 metra frá marki. Trent tók spyrnuna og eftir viðkomu í varnarmanni í veggnum small skotið í slánni rétt við markskeytin með Kasper sigraðan en því miður var það stöngin út en ekki inn. Í kjölfarið náði LFC aftur tökum á leiknum og sóttu mikið en ávallt vantaði nægilega nákvæmni í lokasendingu eða skoti.

    En það var ekki skortur á hágæðum á 66. mínútu þegar Liverpool braut loksins ísinn með frábæru marki. TAA átti skot sem fór í varnarmann og náði sjálfur frákastinu og lagði boltann á Firmino í teignum. Brassinn Bobby sýndi samba-takta og sendi boltann bráðskemmtilega með hælspyrnu á Salah sem slúttaði snilldarvel með innanfótarsnuddu í fjærhornið. Geggjað mark og verðskuldað miðað við yfirburðina í leiknum. 0-1 fyrir Liverpool.

    Hurð skall nærri hælum á 77.mínútu þegar að Thiago braut á Harvey Barnes rétt við vítateigslínuna og Liverpool rétt slapp við að fá vítaspyrnu dæmda á sig með VAR-dómgæslu. Úr aukaspyrnunni fór boltinn í gegnum þvöguna í teignum og í netið en til að byrja með var rangstaða dæmd en VAR var aftur í aðalhlutverki og dæmdi réttstöðu þannig að markið stóð. Hvernig VAR fær það út að skóstærð Firmino sé nr.80 er umdeilanlegt en við lifum á hátæknilegum tímum. 1-1.

    Örstuttu síðar kom langur stungubolti inn fyrir vörn gestanna og Kabak horfði til himins í von um að hreinsa boltann en Alisson mætti í úthlaup og úr varð slysalegt samstuð sem gaf Vardy mark á silfurfati. 2-1 fyrir Leicester.

    Liverpool voru í algjöru losti og í tómu tjóni á þessum mínútum. Til að hámarka hörmungina þá gaf Salah boltann illa frá sér á miðjunni, Kabak var of djúpur í varnarlínunni og Barnes fékk sendingu inn fyrir sem hann lauk með laglegu slútti með grasinu og framhjá Alisson. 3-1 og þriggja marka hryllingur á fimm mínútna kafla. Eftir það fjaraði leikurinn út án merkilegra viðburða og ótrúlegur endakafli gerði út um toppslaginn.

    3-1 tap fyrir Leicester staðreynd.

    Bestu menn

    Margir leikmenn okkar áttu fína frammistöðu framan af leik og var framlínan kraftmikil í pressunni þó að mörkin létu á sér standa mest megnis. Salah var sérstaklega mikið í boltanum í fyrri hálfleik og markið var einstaklega flott slútt út við stöng. Firmino voru mislagðar fætur framan af en stoðsendingin frábæra fer í minningamöppuna. Henderson var fínn í vörninni og með margar flottar leikstjórnanda-langsendingar inn fyrir vörnina. Það var fínn dugnaður í miðjumönnunum öllum og mestmegnis var spilið fínt ásamt öflugri pressu.

    Bakverðirnir voru einnig í banastuði á löngum köflum með Robertson óþreytandi fram á við þó að hann mætti fara á skotæfingu til að geta komið sínum sénsum á rammann. Minn maður leiksins er Trent Alexander-Arnold sem átti margar glæsilegar sendingar, sláarskot og flotta sóknarspretti ásamt sínum þætti í markinu.

    Vondur dagur

    Kabak hafði átt hina ágætustu byrjun í 80 mínútur í sínum upphafsleik en á augabragði varð það að hörmung með samskiptaleysi hans og Alisson í markinu. Ekki það að Tyrkinn eigi meiri sök en Brassinn sem hafði verið að bæta ágætlega fyrir skelfingar frammistöðu sína í síðasta leik en þetta voru einstaklega dýrkeypt mistök sem kostuðu okkur leikinn. Við stöndum samt áfram með okkar mönnum fram í Liverpool-rauðan dauðann.

    Tölfræðin

    Umræðan

    Það verður þungt hljóð í Púlurum allra landa þegar ræða á þriðja tapleikinn í röð í deildinni og þessi ósigur getur reynst okkur ansi dýrkeyptur í því sem er að snúast upp í nauðvörn um að halda Meistaradeildarsæti. Frá því að vera á toppi deildarinnar um jólin eftir 7 marka veislu gegn Palace þá hefur formið á okkar mönnum hrunið og tímabilið á barmi þess að leysast upp í vitleysu. Auðvitað hefur annus horribilis í meiðslamálum ekki hjálpað okkur en það getur ekki verið eina útskýringin á því af hverju mentality monsterin eru svona mistæk þessa dagana.

    Þetta var samt ótrúlega skrýtinn leikur eftir á að hyggja og þeirrar sanngirni skal auðvitað gætt að í 80 mínútur vorum við betri aðilinn og á góðri leið með að landa öflugum útisigri sem hefði gert mikið fyrir okkur í deildinni og einnig upp á sjálfstraustið. Hvernig himnarnir hrynja á fimm mínútna kafla er því enn undarlegri og meira svekkjandi þegar leikurinn er gerður upp. Það er eitthvað ólukkuský sem vofir yfir Liverpool þessi dægrin og við þurfum að þrauka til komast í gegnum óveðrið. Því að eftir endalok stormsins þá er gylltur himinn í boði og við gefumst aldrei upp. Áfram gakk!

    YNWA

  • Byrjunarliðin á King Power í Leicester

    Liverpool-liðar mæta Refunum frá Leicester-skíri í dag í toppuppgjöri liðanna í 3. og 4.sæti. Brendan Rodgers mun freista þess að sigra LFC í fyrsta sinn sem stjóri LCFC á meðan Rauði herinn leitar að viðspyrnu eftir tap gegn öðru City-nefndu liði í síðasta leik.

    Byrjunarliðin

    Klopp hefur stillt upp sínu upphafsliði og er það eftirfarandi:

    Liverpool: Alisson; TAA, Kabak, Henderson, Robertson; Wijnaldum, Milner, Jones; Salah, Mane, Firmino

    Bekkurinn: Adrian, Phillips, N. Williams, R. Williams, Tsimikas, Thiago, Oxlade-Chamberlain, Shaqiri, Clarkson

    Ozan Kabak spilar sinn fyrsta leik fyrir Liverpool og spilar hann í miðri vörninni við hlið fyrirliðans Henderson. Thiago fær hvíld frá byrjunarliðinu en er til taks á bekknum ásamt ungliðanum Leighton Clarkson.

    Hjá heimamönnum þá hafa Refir Rodgers endurheimt Vardy í framlínuna og stilla einnig upp sínum eigin tyrkneskum varnarjaxli í Caglar Söyüncü.

    Leicester: Schmeichel, Pereira, Evans, Soyuncu, Amartey, Ndidi, Tielemans, Albrighton, Maddison, Barnes, Vardy.

    Bekkurinn: Thomas, Under, Mendy, Fuchs, Ward, Perez, Iheanacho, Daley-Campbell, Choudhury

    Upphitunarlagið

    Til að rífa alla í gang um hádegisbil er hið reffilega Refalag Foxy Lady vel til þess fundið. Gítarriff gjöriði svo vel:

    Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

    YNWA!

    Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

  • Refaveiðar í Leicester

    Hjólum í stutta upphitun fyrir stórleikinn í hádeginu á morgun laugardag. Liverpool mætir sterku liði Brendan Rodgers og félaga sem hafa verið í fínu formi undanfarnar vikur öfugt við okkar menn sem hafa tapað tveimur leikjum í röð og allt of mörgum undanfarnar vikur.

    Ef að Liverpool er núna búið að ljúka leik í baráttunni um titilinn og fókusinn kominn á Meistaradeildarsæti er ljóst að þetta er einn af stærri leikjunum sem eftur eru af þessu tímabili. Leicester liðið er ekkert að fara úr baráttunni.

    “Gleðifréttirnar” halda reyndar áfram úr herbúðum Liverpool, Fabinho er með smávægileg vöðvameiðsli (aftur) og verður ekki með í þessum leik og líklega ekki þeim næsta. Eitthvað hefur verið slúðrað um að Thiago hafi ekki æft í þessari viku ek Klopp kom svosem ekki inn á það á blaðamannafundi í dag. Vandamálið er að slúður um möguleg meiðsli í herbúðum Liverpool eru ALLTAF rétt.

    Diogo Jota er ekki væntanlegur fyrr en í byrjun mars líklega en Naby Keita er mun nær (enn eina ferðina) en ekki klár í þennan leik og líklega ekki heldur gegn sínum gömlu félögum í Leipzig.

    Eins fréttum við af því í þessari viku að Jurgen Klopp hefði misst móður sína í lok síðasta mánaðar og í ofanálag getur hann ekki verið viðstaddur útför hennar vegna mjög strangra Covid reglna í Þýskalandi. Þannig að það er ekki bara álagið tengt Liverpool sem hvílir á okkar manni þessa dagana.

    Það er því fátt annað í stöðunni en að gefa a.m.k. öðrum ef ekki báðum nýju miðvörðum Liverpool séns í byrjunarliðinu gegn Vardy og félögum.

    Kabak er talin líklegri til að byrja en báðir ættu þeir alveg að vera í leikæfingu þó þeir þekki ekki nógu vel inn á leikstíl Liverpool, hvað þá leikstíl þessarar útgáfu af Liverpool. Þetta sem við höfum verið að horfa á í vetur er ekkert Liverpool liðið sem hefur verið svo frábært undanfarin ár. Það eru alltaf 4-6 lykilmenn frá vegna meiðsla.

    Byrjunarliðið tippa ég á með takmarkaðri sannfæringu á að verði svona:

    Alisson

    Trent – Kabak – Henderson – Robertson

    Jones – Thiago – Wijnaldum

    Salah – Firmino – Mané

    Ef að Thiago er frá er spurning hvort Ben Davies komi í vörnina eða þá hvort Ox/Shaqiri taki hans stöðu á miðjunni. Ótrúlegt að vera í þessari stöðu

    Leicester varð reyndar fyrir áfalli fyrir þennan leik þar sem það kom í ljós að vinstri bakvörðurinn frábæri James Justin er meiddur út tímabilið. Þeir áttu leik í bikar í miðri viku en hvíldi mikið af lykilmönnum í þeim leik.

    Liverpool vann fyrri leikinn með Milner í hægri bakverði með Matip og Fabinho í vörninni. Þetta var fyrsti leikurinn eftir að komið var í ljós að Joe Gomez væri líka frá út mótið. Á miðjunni vorum við með Keita – Wijnaldum og Jones. Varamenn sem komu inná voru Minamino, Origi og Neco Williams. Salah var ekki með í þessum leik en Jota var vissulega heill. Þannig að Liverpool hefur alveg unnið Leicester áður með vængbrotið lið.

    Spá:
    Bara vinna takk, sagði 0-2 minnir mig í Gullkasti og held mig við það.

  • Gullkastið – Það er alltaf næsta tímabil

    Veik von um alvöru titilbaráttu dó í síðstu viku og ljóst að Liverpool er í bullandi erfiðri baráttu um Meistaradeildarsæti ef gengi liðsins fer ekki að breytast til batnaðar. Afar erfið vika á dagskrá að þessu sinni. Framundan eru svo þrír stórir leikir.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    MP3: Þáttur 323

  • Liverpool 1 – Man City 4 (Skýsla uppfærð)

    Menn mega gera mistök, markmenn ekki.  Þessi frasi kemur ansi hratt upp í hugan þegar maður hugsar um leikinn sem kláraðist áðan, þar sem City gripu titilinn með annari hendi. Það skrýtna er að maður er mun minna pirraður en eftir marga tapleiki vetur, það er engin skömm að tapa fyrir City og lokatölurnar gefa engan veginn rétta mynd af gangi leiksins. Málið er að ef einn leikmaður gerir risamistök… þá er afar slæmt ef viðkomandi leikmaður er markmaður.

    Fyrri hálfleikur.

    Eins og oft þegar tvö mjög góð lið sem svipaðan leikstíl mætast þá var fyrri hálfleikur hálfgerð skák. Það var lítið um færi og stóra viðburði (nema nátturulega að Thiago náði sér í sitt venjubundna gula spjald óvenju snemma) framan af hálfleiknum. Manni fannst eins og bæði liðin vildu helst að hinir væru með boltann.

    Þegar hálfleikurinn var hálfnaður var eins og okkar menn fyndu taktinn og fóru að leysa þau vandamál sem hörku vörn City bauð uppá. Mané fékk frábært færi sem hann átti að skalla inn eftir fyrirgjöf frá Trent og skömmu seinna náði Firmino trufluðu skoti sem Ederson varði. Manni fannst vera stígandi í liðinu en þá kom höggið. Fabinho felldi Sterling (sem var varnarmönnum okkar afar erfiður í dag) klaufalega í teig Liverpool og víti dæmt.

    Gundogan fór á punktinn og horfði djúpt í augun á Alisson. Í fjarkynnum huga þjóðverjans ómaði samba tónlist, hann dansaði að boltanum og skaut honum hærra yfir mark Liverpool en nokkrum manni hefur tekist í Ryan Mahrez á síðasta tímabil. City endaði því fyrri hálfleik án þess að hafa átt skot á mark þrátt fyrir að hafa fengið víti.

    Seinni hálfleikur.

    Hér tapaðist skákinn. Seinni hálfleikur byrjaði eins og martröð þegar Sterling komst í einn á einn stöðu við Trent, dansaði í kringum okkar mann og sendi á Foden. Alisson varði frábærlega en því miður var Gundogan fyrstu í frákastið og negldi í netið. 0-1 staðan.

    Viðbrögð Liverpool voru hins vegar afar góð. Þeir settu kraft í sóknarleikinn og eftir tæplega tuttugu mínútna leik þá gerði Dias slæm mistök í vörn City sem Salah nýtti sér til að komast í færi. Dias braut á honum inn í teig City og undir og stórmerki gerðust… það var dæmt víti!! Salah jafnaði öruglega úr vítinu, 1-1.

    Skömmu seinna gerði Klopp tvöfalda skiptingu, góður Curtis Jones og Thiago sem var ekki að gera mót véku fyrir Shaqiri og Milner. En þeim verður ekki kennt um neitt. Alisson átti skuldlaust næstu tvö atvik, sendi boltann með þriggja mínútna millibili beint í fæturnar á City mönnum sem refsuðu miskunarlaust. Allt í einu staðan orðin 1-3 og leik í raun lokið. Foden bætti svo við fjórða markinu þegar tíu mínútur voru eftir. Okkar menn blésu og blésu en þetta nýja City lið er miklu betra í að verjast en fyrri Guardiola lið hafa verið og átti í litlum vandræðum með að koma í veg fyrir að okkar menn löguðu stöðuna. Fyrsti sigur City á Anfield í áratugi staðreynd og lítil hætta á öðru en að þeir vinni deildina úr þessu.

    Slæmur dagur.

    Sjaldan verið jafn auðvelt að velja hann. Hver veit hvað gerðist í kollinum og brassanum Alisson Becker um miðjan seinna hálfleik en eitthvað var það. Hann er nagli og jafnar sig á þessu hratt.

    Bestir.

    Þangað til að Curtis Jones fór af velli var hann búin að vera ansi góður, pressan öflug hjá honum og var að finna fínar sendingar. Það er stígandi í leiknum hans og maður er farin að trúa því að hann endi á að verða lykilmaður hjá okkur næsta áratug.

    Umræðupunktar eftir leik.

    • Þrír tapleikir í röð á Anfield í fyrsta sinn síðan Shankly var með liðið. Það eru batamerki á liðinu en betur má ef duga skal. Fókusinn er á að halda Meistaradeildarsætinu, hef fulla trú á að það takist.
    • Vonandi þurfum við ekki aftur að sjá liðið með okkar tvo bestu miðjumenn í vörninni.
    • Fyrri hálfleikur var virkilega góður hjá okkar mönnum og sömuleiðis viðbrögðin við fyrsta markinu. En maður fær ekki marga sénsa á móti City og það er dauðadómur að gera mistök á móti þeim. Þess vegna tapaðist þessi leikur.
    • Ég held hreinlega að ef ég þyrfti að velja myndi ég frekar setja Fabinho á miðjuna en Hendo. Þá er rosalegur missir að hafa hann ekki til að brjóta niður sóknir andstæðinga og vernda vörnina.

    Næst á dagskrá

    Strákarnir okkar fá næstum viku á æfingasvæðinu áður en við heimsækjum gamlan vin á laugardaginn. Brendan Rogers og Leicester eru einir af keppinautum okkur um meistaradeildar gullgæsina, einfaldlega risaleikur við þá um næstu helgi.

  • Byrjunarliðið gegn City: Alisson snýr aftur í markið

    Klukkutími í leik og byrjunarliðið klárt. Liðið er nokkurn veginn það menn bjuggust við. Leikir við City eru alltaf erfiðir og verður áhugavert að sjá hvernig okkur gengur að skora gegn liði sem hefur fengið eitt mark á sig í 10 leikjum.

    Bekkur: Adrian, Milner, Alex Oxlade-Chamberlain, Kabak, Tsimikas, Shaqiri, Origi, Phillibs, N. Williams.

    Stressið er að ná ákveðnu hámarki hérna megin, hvernig lýst ykkur á þetta?
  • Kvennaliðið mætir Charlton

    Það verður leikið á tveim vígstöðvum hjá félaginu okkar í dag, því til viðbótar við leik Liverpool og City sem fram fer núna kl. 16:30, þá ætla stelpurnar okkar að heimsækja Charlton Athletic í næstefstu deild.

    Stelpurnar okkar eru sem stendur í 4. sæti deildarinnar með 21 stig eftir 12 leiki, 9 stigum á eftir Leicester og Durham sem sitja á toppnum, og 4 stigum á eftir Sheffield í 3ja sæti. Sheffield hafa þó spilað 2 leikjum meira, rétt eins og Durham, en Leicester einum leik meira. Durham eru að spila við London City Lionesses í þessum töluðu orðum, en Sheffield mæta London Bees á sama tíma og leikurinn við Charlton fer fram. Rétt eins og með stöðu karlaliðsins, þá er allt opið ennþá, en þó er ljóst að hlutirnir verða að falla með okkar konum ef það á að takast að komast aftur í hóp þeirra bestu. Og rétt eins og í karladeildinni hefur verið talsvert um frestanir, bæði vegna Covid og eins vegna vallaraðstæðna, og því ekki alveg gott að átta sig á stöðunni í augnablikinu.

    Liðið er enn án framkvæmdastjóra eftir að Vicky Jepson hætti (eða var sagt upp) núna í janúar. Ekkert hefur frést af því hver muni taka við, en þó er vitað að klúbburinn var að auglýsa eftir stjóra…. á Linkedin af öllum stöðum. Sama var reyndar gert síðast, og þarf kannski ekki að koma á óvart þess vegna, en maður spyr sig hvort þetta sé besta leiðin til að finna stjóra sem nær að stýra liðinu upp í efstu deild aftur. Amber Whiteley stýrir liðinu á meðan, en hún var aðstoðarstjóri hjá Vicky.

    Liðinu barst liðsauki á dögunum þegar hin velska Ceri Holland gekk til liðs við félagið eftir að hafa spilað í Bandaríkjunum í 3 ár, en hafði verið hjá unglingaliði Manchester City þar á undan. Þá hafa leikmenn verið að koma til baka úr meiðslum og Covid veikindum, og því nánast fullskipað lið sem er til taks í leiknum á eftir. Þó mun Rylee Foster ekki taka þátt þar sem hún var kölluð í landsliðsverkefni hjá kanadíska landsliðinu og verður þar næstu vikurnar. Það fellur því í hlut hinnar ungu en efnilegu Eleanor Heeps að vera til taks á bekknum ef Rachel Laws forfallast í marki. Jú og Melissa Lawley er í banni eftir rauða spjaldið sem hún fékk eftir að hafa verið inná í 20 sekúndur í síðasta leik. Leikmenn tala oft um að vilja líkjast Gerrard, en það má alveg finna aðrar leiðir til þess.

    Þá að liði dagsins, en það lítur svona út:

    Laws

    Robe – Roberts – Fahey – Hinds

    Clarke – Rodgers – Furness

    Parry – Thestrup – Kearns

    Bekkur: Heeps, Jane, Bailey, Hodson, Moore, Holland, Linnett, Brough

    Það vekur kannski athygli að hin kornunga en bráðefnilega Lucy Parry er í byrjunarliði, sem og Missy Bo Kearns, en undirrituðum er ekki kunnugt um hvað Rinsola Babajide er niðurkomin.

    Leikurinn virðist því miður ekki vera sýndur beint svo vitað sé, en við fylgjumst með úrslitum og birtum þau síðar í dag.

  • Upphitun: Manchester City mæta á Anfield

    Eftir falska dögun með góð úrslit gegn Tottenham og West Ham voru við degnir aftur á jörðina með mjög slökum leik gegn Brighton í vikunni. Nú er hinsvegar komið að Manchester City, leikur milli liðanna sem hafa endurskilgreint toppbaráttu í ensku úrvalsdeildinni á síðustu árum. Allt í einu voru einstaka jafntefli orðinn að martröð og hvert stig skipti öllu máli. Leikir liðanna hafa því verið hápunktur tímabilsins á undanförnum árum.

    Andstæðingurinn

    City hófu tímabilið í ár svipað og í fyrra, voru frekar óstöðugir. Þeir töpuðu illa gegn Leicester og misstu nokkra leiki í jafntefli og áttu erfitt með að skora sjálfir en þegar fór að nálgast jólatörnina kviknaði á City vélinni og þeir hafa unnið alla sína leiki síðan þeir gerðu 1-1 jafntefli við West Brom þann 15. desember og eru nú á toppnum þremur stigum á undan grönnum sínum í United með leik inni.

    Um miðjan janúar misstu þeir sinn besta mann þegar Kevin De Bryune meiddist gegn Aston Villa en hans hefur ekki verið saknað hingað til. Gundogan færðist aðeins framar og er að spila sinn besta bolta síðan hann færði sig yfir til City ásamt því að Joao Cancelo hefur átt frábærar síðustu vikur sem bakvörður sem leitar inn á miðsvæðið.

    Það er þó varnarlína City manna sem hefur verið lykillinn að velgengni þeirra í vetur en þeir Dias og Stones hafa myndað öflugt miðvarðarteymi og hafa City aðeins fengið eitt mark á sig í deildinni síðan í umræddum leik gegn West Brom, þá sárabótamark í uppbótatíma gegn Chelsea.

    Guardiola gerði þó breytingar í síðasta leik þar sem Laporte kom inn í liðið í vinstri bakverði og sjáum við það líklega aftur á morgun. Með því sækir liðið í 3-4-3, Laporte, Stones og Dias verjast meðan Cancelo sækir upp á miðjuna en þegar þeir missa boltann bakkar Cancelo aftur og þá verjast þeir með fjögurra manna varnarlínu.

    Á miðjunni er stóra spurningin hvort Fernandinho fái pláss. Í undanförnum leikjum hefur Rodri spilað djúpur með Bernardo Silva og Gundogan fyrir framan en Guardiola gæti alveg freistast til að spila aðeins varkárari leik og fórnað Silva í þessum leik og byrjað leikinn með tvö djúpa miðjumenn og stillt Fernardinho upp við hlið Rodri.

    City menn hafa verið nánast sóknarmannslausir á tímabilinu en Aguero og Jesus hafa báðir glímt við mikil meiðsli en Jesus er byrjaður að spila aftur og hefur skorað í síðustu tveimur leikjum og því líklegt að við sjáum hann uppi á topp og tvo af Sterling, Mahrez, Torres eða Foden sitt hvoru megin við hann.

    Liverpool

    Eins og er virðist titilbaráttan á burt og við í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti. Meiðslalistinn hefur leikið okkur grátt í ár en það birtir þó líklegast aðeins til fyrir þennan leik. Alisson snýr aftur og líkur á því að bæði Mané og Fabinho verði einnig með. Hinsvegar eru þeir Van Dijk, Gomez, Matip, Keita og Jota allir enn frá.

    Gegn Brighton horfðum við upp á endursýningu af leik sem við höfum séð alltof oft í vetur. Lið sem sat aftarlega til að byrja með og vann sig hægt og hægt inn í leikinn. Við höfum átt erfitt með að finna svör sem er ekki eitthvað sem við könnumst við frá síðustu árum. Liverpool liðið hefur verið þekkt fyrir gríðarlegan vilja og ótrúlegar leiðir til að ná að loka erfiðum leikjum en undanfarið er það horfið. Liðið virðist brotið og bugað, ekki eitthvað sem maður vill sjá fyrir leik gegn City liði í því formi sem þeir hafa verið í.

    Liðið er fyrir umferðina í fjórða sæti deildarinnar en liðið hefur aðeins unnið helming leikja sína í vetur eða ellefu af tuttugu og tveimur. Óstöðugleiki hefur einkennt Liverpool að undanförnu og ljóst að liðið þarf að fara hrista af sér slenið ef það á ekki að skemma næsta ár.

    Eftir sögulegt gengi á heimavelli þar sem liðið tapaði ekki leik í 68 leikjum hefur liðið nú tapað tveimur í röð og ekki skorað á Anfield í 348 mínútur. Með þá tölfræði og þá sem áður kom að City fái hreinlega ekki á sig mörk er útlit fyrir að morgundagurinn verði langur.

    Stóra spurningin er hinsvegar hvenær við fáum að sjá annan af tveimur nýju miðvörðum okkar fá að spila. Undir lok félagsskiptagluggan mættu þeir Kabak og Davies en ef þær fréttir eru réttar að Fabinho sé heill eru allar líkur á því að hann og Henderson verði miðverðir í leiknum á morgun enda ólíklegt að Klopp setji inn nýjan mann í byrjunarliðið í leik gegn City.

    Með Hendo og Fab í vörninni er spurning hvernig miðjan verður. Í síðustu leikjum höfum við séð Milner, Thiago og Wijnaldum en Milner hefur verið að spila tæpur og hinir tveir búnir að spila alveg heilan helling af fótbolta undanfarið. Þykir líklegt að Thiago og Wijnaldum verði beðnir um að taka aðra vakt en Milner fái að setjast á bekkinn fyrir Jones sem gæti komið með orku inn á miðsvæðið.

     

     

    Mín spá

    Held ég hafi aldrei spáð Liverpool tapi síðan ég hóf skrif hér en ég hef litla trú á leiknum á morgun. Ég spái 2-1 tapi þar sem Mané skorar eina mark okkar manna. City lestinn er á fullri ferð og ég á erfitt með að sjá okkar menn finna þau svör sem þarf til að knýgja fram sigur í þessum leik. Hinsvegar hefur maður lært í gegnum árin, þá sérstaklega áður en liðið okkar varð jafn gott og það hefur verið síðustu ár að það er nánast ómögulegt að segja hvernig svona stórleikir fara og við höfum marg oft séð ansi slakt Liverpool lið ná að gíra sig inn í stóra leiki og ná í úrslit og þrátt fyrir langan meiðslalista er þetta enn með betri Liverpool liðum á minni lífstíð.

  • Liverpool 0-1 Brighton

    Liverpool tapaði enn einum leiknum á alltof skömmum tíma og í annað skiptið á Anfield og í þetta skiptið var það gegn Brighton. Alisson var veikur, Mane og Fabinho meiddir og svo allt annað ofan á það.

    Ég nenni í sjálfu sér ekki að fjalla um þennan leik og finn bara enga hvöt eða vilja í að sitja hérna seint á virku kvöldi að skrifa ítarlega lýsingu á leik þar sem pretty much ekkert sem við höfum ekki verið að sjá undanfarnar vikur var á boðstólnum.

    Liveprool stjórnaði ferðinni, var með boltann nær allan leikinn, leitaði út á vænginn til að krossa eða þræða boltann í gegnum nálarauga í gegnum miðjan völlinn og allt það. Ekkert gekk. Salah fær dauðafæri á fyrstu andartökum leiksins eftir geggjaðan bolta frá Henderson yfir vörn Brighton. That was about it. Nær engin skot á markið. Þið ættuð að þekkja þetta.

    Ég veit ekki alveg hvað maður á að segja eða hvernig manni á að líða í tengslum við þetta lið, þessa leiktíð og þetta form. Er ég reiður? Nei, ég get ekki sagt það. Er ég sár? Nei eða jú, kannski. Er ég svekktur? Já, alveg rosalega. Er ég skilningsríkur á hvað gæti verið að spila inn í eða er ég að reyna að blekkja mig með einhverjum afsökunum á þessu öllu? Já, alveg 100%.

    Það er enginn sem getur í fúlustu alvöru haldið því fram að árangur liðsins hingað til og það sem hefur verið að gerast megi ekki reka að miklu leiti til allra þessara meiðsla, veikinda og brottfalla lykilmanna liðsins. Ekkert lið í heiminum held ég að myndi höndla það eitthvað mikið betur að missa svona marga lykilmenn og þurfa að troða eins mörgum hringlaga kubbum í kassalaga form. Kannski er til eitthvað gáfulegra orðatiltæki svona á íslensku en fuck it. Þetta spilar sinn part og hefur sinn áhrif á leik liðsins, það er bara þannig.

    Hins vegar það sem stingur og svíður hvað mest er að þetta sést bara alltof mikið á liðinu og leikmönnum þess sem eru að spila. Það sem einkenndi liðið undanfarin ár – öll þessi barátta, töffaraskapur og allt það er bara orðið alltof dauft. Við sjáum brot af því hér og þar og sjáum þá að það eru augljós gæði í þessu liði og þessum hópi sem ég held að sé alveg 100% enn sá besti í deildinni ásamt Man City. Því miður þá virðist þessi neisti bara ekki kvikna nægilega oft og í ákveðnum leikjum og aðstæðum til að það skili sér í betri árangri.

    Mér finnst alveg margt sem við erum að sjá sem minnir mig á það sem var gjarnan talað um að væri að hrjá Man City í fyrra sem hrundu frá því sem þeir höfðu gert í tvö eða þrjú ár fyrir það. Kannski er Liverpool að ganga í gegnum svipað og það í bland við öll þessi meiðsli. Ég yrði í raun ekki hissa ef það er partur af því. Það er eflaust erfitt að þurfa að gíra sig upp í 38-63 “úrslitaleiki” á hverri leiktíð í tvö heil tímabil. Þar sem gjörsamlega allt þarf að vera fullkomið annars færðu bara ekki neitt. Það virtist rosa mikið vera málið hjá Man City í fyrra og þeir þurftu greinilega bara að núllstilla sig, þeir bæta ekki miklu við sig á milli leiktíða en eru allt annað lið í vetur. Ég get alveg séð fyrir mér að Liverpool muni vera líkara liðinu í fyrra en í ár eftir þessa leiktíð. Kannski er þetta bara reality check og blaut tuska í andlitið.

    Kannski þurfti líka bara að gera miklu meira við hópinn í fyrrasumar en var hægt að gera. Ansi margir þeirra sem þurfa að spila marga leiki og mínútur þessa dagana hafa verið í söluglugganum í eitt, tvö eða jafnvel þrjú ár og eru kannski orðnir útrunnin vara í þessu liði. Það getur líka verið fullkomlega eðlilegt.

    Ég get nöldrað og tuðað um eitthvað svona endalaust svo einhvers staðar mun ég þurfa að setja punktinn við þetta og er þetta eflaust alveg eins fínn staður til þess og hver annar. Ástandið er ekki gott en þetta lið á að vera alveg nógu gott til að klára tímabilið með sæmd og sjá svo bara hvar það stendur uppi í lokin. Meira fer maður ekki fram á akkúratt núna, titilbaráttan virðist hafa farið fyrir nokkrum vikum og kannski endanlega í þessari viku en það er nóg eftir af leiktíðinni til að vonandi gera gott úr henni. Í versta falli enda þægilga í 2.sætinu og ekki of langt á eftir Man City og gera alvöru atlögu að Meistaradeildinni. Rífa hausinn úr rassgatinu, berjast fyrir málstaðinn og sýna meiri gæði og lífsmark en við höfum séð undanfarið. Mér finnst maður ekki vera að biðja um mikið og vonandi munu þeir skila þessu verkefni nógu vel af sér. Ég nenni ekki meira svona. Það getur alveg verið í lagi og skiljanlegt að lið tapi stigum á svona leiktíð en ekki svona takk.

    Góða nótt!

  • Liðið gegn Brighton – enginn Alisson

    Það er enginn Alisson á milli stangana í dag en hann er veikur. Kelleher tekur hans stöðu hans í markinu, Shaqiri heldur sæti sínu sem og Phillips en Fabinho og Mane eru enn frá.

    Nýji miðvörðurinn Ben Davies er á bekknum og Firmino kemur í byrjunarliðið í stað Origi.

    Kelleher

    Trent – Henderson – Phillips – Robertson

    Thiago – Wijnaldum – Milner

    Salah – Firmino – Shaqiri

    Bekkur: Adrian, Chamberlain, Jones, Tsimikas, Origi, Davies, Rhys Williams, Cain, Neco Williams

    Það vantar ansi marga í þetta lið í kvöld en þetta er nógu sterkt til að fara fram á mikilvægan sigur.

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close