Gonzalez og atvinnuleyfið

Það er ansi mikið rætt um chíleska kantmanninn **Mark ‘Speedy’ Gonzalez** í breskum fjölmiðlum þessa dagana, ekki síst eftir að hann skoraði gegn Real Madríd fyrir Real Sociedad um helgina. Ég missti reyndar af þeim leik en mér skilst að hann hafi verið yfirburðamaður á vellinum í heilar 90 mínútur, þótt markið sem hann skoraði hafi víst verið frekar mikið klúður af hálfu Iker Casillas, markvarðar Madrid.

Það er vissulega áhugavert að lesa tilvitnani í Rafa Benítez í blöðunum þessa dagana, þar sem hann keppist við að hrósa Gonzalez og leggja áherslu á það hversu mikilvægur leikmaður hann á eftir að vera þegar hann loksins fær atvinnuleyfi og kemur til Liverpool:

>”We are hopeful he will come in the summer because he can be an important player for us. He has pace, quality and can score, and he works very hard for the team – all qualities which will help him settle in quickly here. He works very hard for the whole 90 minutes for his team-mates.”

Ég minnist þess ekki að Rafa hafi talað af jafn miklum ákafa áður um leikmann sem hann er að kaupa til Liverpool, ekki einu sinni Alonso eða Pepe Reina. Það er meira en bara þessi eina tilvitnun, því Rafa hefur síðustu vikur verið duglegur að tjá sig um Gonzalez og hversu spes og góður og frábær og yndislegur og snjall hann er.

mark_gonzalez_sociedad.jpgAuðvitað á þessi hegðun Rafa sér ástæður. Maðurinn er vanur að kaupa menn á borð við Alonso og Reina, en segja aldrei meira en “he works hard for the team” eða “he’ll have to earn his place” um viðkomandi í viðtölum. Það er ekki hans stíll að slefa í fjölmiðlana yfir væntanlegum leikmanni. En Gonzalez virðist vera þar undantekningin sem sannar regluna. Þetta er einfaldlega vegna þess að Rafa er að reyna að halda nafni Gonzalez í fjölmiðlum, í umræðunni, og hann er líka að reyna að leggja mikla, mikla áherslu á það hversu mikilvægur leikmaður Gonzalez er/verður fyrir Liverpool. Þetta gerir hann í þeirri von að umtalið og hans eigin ummæli hafi áhrif á þessa bjánalegu nefnd í Englandi sem ákveður hvaða útlendingur er hæfur til að koma til Englands og hver ekki. Það er nefnilega ekki nóg fyrir Gonzalez að fá spænskt ríkisfang í sumar, né að Chile séu aftur komnir upp í topp-70 á heimslista FIFA. Neibb, hann verður að vera *metinn sem ‘special talent’ til að þeir hleypi honum í gegn.*

Ekki spyrja mig, þetta er í hæsta máta heimskulegt.

Annars þarf Rafa ekkert að eyða of mörgum orðum í þennan strák, sérstaklega ekki þar sem við vitum að um leið og hann stígur fæti inná Melwood fær hann sömu meðferð og allir hinir, “hlýddu reglunum strákur, skildu egóið eftir við útidyrnar og öðlastu traust mitt. Fyrr ferð þú ekki í liðið.”

Rafa þarf ekkert að eyða orðum í ágæti Speedý Gonzalez ef hann heldur áfram að spila eins og hann hefur verið að gera að undanförnu. Frammistaða hans gegn stærstu liðum Spánar síðustu mánuðina talar sínu eigin máli – þessi strákur á alveg jafn mikið erindi í ensku Úrvalsdeildina og allir Afríku- og Asíubúarnir sem enginn hafði heyrt um fyrr en þeir skutu upp kollinum hjá [setjið inn nafn meðalgóðs Úrvalsdeildarliðs að eigin vali hér) …

Ég hlakka æ meir til að sjá þennan strák í rauðu treyjunni. Daginn sem hann gefur í fyrsta skiptið í framhjá Gary Neville á kantinum býð ég bjór á línuna …

Sjá einnig: Rafael Benítez: “Gonzalez will be a huge hit!”

8 Comments

  1. Hann þarf ekki að vera metinn sem special talent ef hann fær spænskt vegabréf. Þá þarf hann ekki atvinnuleyfi. Frjálst flæði vinnuafls innan evrópu. Annars er þetta alveg rétt. Það sem klikkaði í haust var að Benitez sagði að hann myndi vera að berjast um stöðu í liðinu í stað þess að ljúga því bara að hann yrði byrjunarliðsmaður. Svona fer heiðarleikinn með menn stundum!

  2. Já en það er víst ekki 100% víst að hann fái vegabréfið. Hann er gjaldgengur til að sækja um það, en þar sem það er vel kunn staðreynd að hann muni nota það til að flytja úr landi (s.s. frá Spáni) er ekki 100% víst að þeir muni veita honum það.

    En já **auðvitað** er það hárrrétt hjá Rafa að ljúga sig bara fullan í þessu máli. Auðvitað verður Gonzalez okkar mikilvægasti leikmaður, hann verður stjarnan, demanturinn í kórónunni, og þeir Gerrard, Alonso og Carragher verða bara þarna til að styðja við bakið á honum. 🙂

  3. Kristján ég ætla að eiga bjórinn inni hjá þér, því Speedy mun borða Neville systurina í morgunat, hádegismat og kvöldmat, og jafnvel í kaffinu líka. :laugh:

  4. Það er best að stíla inn á að vera “á línunni” þegar Neville systirin verður tekin í nefið á næstu leiktíð……. :biggrin2:

    Er í lagi að panta kaffi í staðinn fyrir bjór??

  5. Djöfull mun ég pikka í öxlina á þér þegar þetta gerist, því ég mun klárlega rukka þig um þennan bjór :tongue: :laugh: 😉

  6. Það verður að setja upp sérstakan dálk hér á síðunni þar sem svona loforð verða “hengd upp”! Svo verður leigður salur, stefnt saman margmenni og reynt að hafa “línuna” sem þarf að bjóða á sem lengsta.

  7. Ég stóð alltaf í þeirri trú að þetta væri hægri kantmaðurinn sem við biðum eftir þegar hann var fyrst í umræðunni.

    Ég hef sjálfur aldrei séð hann spila svo mér er spurn, er hann betri en Kewell og Zenden? Og ef svo er þá efast ég um að annar þeirra sætti sig við að vera númer 3 í goggunarröðinni.

Hverjir eru orðaðir við Liverpool

Hillsborough og nýji Anfield