Heimsókn til erkifjandas, United í bikarnum

Hundar og kettir. Batman og Jókerinn. Liverpool og Manchester United. Sumir eru bara fæddir óvinir, andstæðingar af guðs náð. Á morgun fara Liverpool á Old Trafford í næst síðasta sinn undir stjórn Jurgen Klopp og freista þess að tryggja sér farseðil í undanúrslit elstu fótboltakeppni sem keppt er í.

Saga liðanna.

Í FA bikarnum hafa Liverpool og Manchester United mæst átján sinnum á 125 árum. Fyrsti leikurinn fór núll núll á því herrans ári 1898, en Liverpool sigraði einvígið á Anfield. Í átján leikjum, hafa Liverpool aðeins sigrað fjórum sinnum en United farið áfram tíu sinnum. Á jákvæðari nótum þá hefur Liverpool farið áfram í sautján af síðustu átján átta liða úrslitum í bikarnum. Eina tapið kom á því herrans ári 1995, mér finnst ég verða að minnast á að það er jafn langt síðan Liverpool hefur tapað í átta liða úrslitum bikarsins og síðan Everton vann bikar.

Síðustu ár hefur Liverpool haft heljartak á United. Í síðustu tíu leikjum liðanna hafa United unnið tvo, þrír farið jafntefli og Liverpool unnið fimm. En þessir fimm hafa upp til hópa verið slátranir, sú frægasta var sjö núll sigurinn í fyrra. Í síðustu fimm leikjum hafa Liverpool skorað átján mörk og síðan Salah kom til Liverpool hefur hann fengið fleiri gul spjöld fyrir að fara úr að ofan eftir mörk gegn United á Anfield, en United hafa skorað mörk á Anfield.

Hvað er annars hægt að segja um United árið 2024 sem ekki hefði verið hægt að segja um Liverpool árið 1998. Það er rúmur áratugur síðan þeir unnu deildina. Tíu ár, tuttugu og fimm krísur og átta þjálfarar. Ef Ryan Giggs og Ole Gunnar Solskjær geta talist þjálfarar. Nú var spennandi nýr eigandi að taka við félaginu, hver veit hvernig næstu mánuðir munu líta út hjá þeim.

Erik Ten Hag, er hann maðurinn fyrir United? Það er erfitt að dæma um það. Fótboltinn sem hann stóð fyrir áður en hann kom til United var spennandi og skemmtilegur en eins og síðustu sjö forveran hans hefur hann ekki náð að setja mark sitt á spilamennsku liðsins. Hann hefur persónutöfra þvottatusku, en gæti einhver náð stjórn á svo illa samsettum og rándýrum leikmannahóp? Það sem United þurfa líklega er Arteta eða Klopp týpa. Það er að segja mann sem er tilbúin að taka fjóra-fimm leikmannaglugga í að hreinsa út rotnu eplin og byggja upp nýjan hóp. En það þarf þolinmæði og tíma og það hefur verið af skornum skammti í leikhúsi draumana.

En leikurinn. FA bikarinn er eini séns United á alvöru bikar þetta árið og eins mikið og okkar menn vilja kveðja Klopp með fjórum bikurum, væri ekkert sem myndi gleðja United eins og að vera þeir sem skemma þann draum. Þeir munu tefla fram sínum sterkasta hóp og Old Trafford verður hópandi óður í þessum leik. En okkar menn eiga að vera verkefninu megnir.

Liverpool.

Eftir að hafa niðurlægt tékkana koma leikmenn Liverpool brattir inn í leikinn gegn United. Eftir þennan leik eru tveggja vikna pása þar sem einhverjir fara í landsliðsverkefni en mun færi en ætla mætti. Vonandi mun sú pása nýtast í að tjasla saman einhverjum af meiðslalistunum, jafnvel koma meiðslalistanum undir það fylla venjulegan varamannabekk.

Það er svolítið síðan maður gat spáð næstum því sterkasta byrjunarliði Liverpool. Kelleher er auðvitað engin Alisson en strákurinn hefur staðið sig vel undanfarið. Hverjir voru teknir útaf á fimmtudaginn er ákveðin vísbending um hverjir eiga að byrja þennan leik.

Varnarlínan verður væntanlega Bradley, Quansah, Van Dijk og Robbo, þó margt væri verra en Gomez í bakverðinum. Endo virðist geta spilað heilan leik fimm daga í röð svo hann verður á sínum stað. Szoboszlai tók allan leikinn fyrir helgi, en ég held að hann byrji samt við hlið Mac Allister. Elliot kemur svo inn til að sprengja upp leikinn í seinni hálfleik.

Framlínan verður svo Salah, Nunez og Diaz. Þetta verður þá svona:

Spá.

United munu liggja til baka og reyna að sækja hratt á okkar. En það mun ekki virka. Okkar lið mun reynast alltof sterkir og enda á frægum 3-0 sigri.

12 Comments

  1. Sælir félagar

    þetta verður svakalegur leikur þar sem MU leikmenn munu berjast rosalega til að skemma partíið hjá Liverpool liðinu og Klopp. Hvort það tekst er erfitt að segja. Ef þeir liggja til baka allan leikinn skora þeir varla mörg mörk og okkar mönnum tókst ekki að koma á þá marki á Anfield í fyrri umferð deildarinnar, Hitt er svo annað hvað þola áhorfendur á Gamla Klósettinu lengi svoleiðis leiðindi og vesaldóm á heimavelli

    Ég hefi svo sem engar áhyggjur af þessum leik. Hann getur orðið hunderfiður og “dómgæslusyndrómið” gæti auðveldlega bitið okkar menn illa og ekkisíst á heimavelli MU þar sem allir dómarar fá í hnéin af gamalli landlægri “fergie hræðslu”. En hvað sem því líður þá vona ég hið besta fyrir strákana hans Klopp.

    PS. Ég er að horfa á Fulham flengja T’ham og djöfull er ég hrifinn af Robinson vinstri bak hjá Fulham. Ekta Klopp strákur, eldfljótur, áræðinn og góður varnarlega með fína krossa þegar því er að skipta.

    Það er nú þannig

    YNWA

    10
  2. Nokkuð ljóst hvernig gamli Ajax þjálfarinn (sem var keyptur til að spila leiftrandi skemmtilegan Cruyff fótbolta) leggur upp leikinn: 1) hanga í vörn, 2) hanga í vörn 3) hanga í vörn 4) reyna skyndisókn (endurtakist eftir þörfum).

    Vonandi verður komin flóttamannastraumur frá OT þegar í fyrri hálfleik

    15
  3. Ég veit ekki hvort ég má setja þetta hér inn, enn ég ætla samt að gera það.

    Kenny Dalglish er nátturulega ekkert annað enn goðsögn, sennilega besti leikamaður í sögu Liverpool Fc maðurinn hafði allann pakkann, góður leikmaður, frábær leiðtogi, flottur þjálfari !

    https://www.youtube.com/watch?v=swLY9OgAzUg

    3
    • Sælir félagar

      Ég man vel eftir Dalglish á hans velmektardögum með Liverpool. Þá fannst mér hann besti leikmaður heims og mér finnst það ennþá. Á sínum tíma komst enginn með tærnar þar sem King Kenny hafði hælana. Svo einfalt var það. Liverpool liðið á þeim tíma var svo gott að meginlands mafían ákvað að reka liðið úr (þáverandi meistaradeild Evrópu) keppni og hafði þannig afgerandi áhrif á meistardeildartiltlafjölda Liverpool sem væru miklu fleiri annars.

      Það er nú þannig

      YNWA

      6
    • Sammála þessu með kónginn, alltaf nr eitt. Gerrard hefur stundum verið settur fyrir ofan hann í allskynns könnunum og úttektum. Sem leikmaður kannski á svipuðu leveli en sem sigurvegari þá slær enginn King Kenny út það er næst víst.

      4
  4. verður tap allann daginn hjá Liverpool að sjáfsögðu enda Man Utd stókostlegt lið 😉

Atalanta í 8 liða úrslitum í EL

Stelpurnar fá West Ham í heimsókn