Chelsea heimsækja Anfield

Fréttirnar um að Klopp ætli að hætta í lok leiktíðar skullu á okkur eins og flóðbylgja síðastliðinn föstudag. Þetta var eitthvað sem við máttum alveg vita að myndi að lokum gerast, en innst inni vorum við held ég langflest að vonast til þess að það væri ekki komið að þessum tímapunkti, a.m.k. ekki alveg strax. Klopp ætlaði jú upphaflega bara að vera til 2024, en svo settust hann og Ulla Klopp niður við eldhúsborðið sitt í Liverpool eitt kvöldið, og ákváðu að þau sæu ekki fyrir sér að yfirgefa borgina. Klopp samdi til 2026 í framhaldinu. En svo breyttist sú sýn, og líklega getum við þakkað Ullu fyrir að Klopp gekk ekki frá borði á miðju tímabili á síðasta ári. Svo ég hálf-vitni nú í ágætan mann: “Ulla við elskum þig”. En sumsé: í sjálfu sér er það bara þessi framlenging sem Klopp er að bakka með. Ef það er einhver huggun, sem það er nú líklega ekki.

Völdu Klopp og klúbburinn slæman tíma til að tilkynna brotthvarfið? Ég held ekki. Núna fáum við ákveðið ráðrúm til að meðtaka að þessu tímabili er að ljúka, og fáum gott tækifæri til að virkilega vera þakklát fyrir þann tíma sem við þó fáum saman. Það má yfirfæra þetta yfir á svo margt annað í lífinu. Þið ykkar sem eruð með ung börn: kannski finnst ykkur það yfirþyrmandi og mikil vinna. En svo eigið þið eftir að vakna einn daginn og átta ykkur á að þið hafið ekki haldið á börnunum ykkar í einhvern tíma, og eigið sjálfsagt aldrei eftir að gera það aftur. Eða að þið vaknið upp við það einn daginn að börnin eru flutt út. Það er því kannski ágætis tækifæri fyrir okkur að nota þessar fregnir til að vera þakklát fyrir það sem við höfum, og muna að njóta þess sem við höfum á meðan það er enn í boði. Því öll tímabil renna sitt skeið á enda að lokum.

Og nú er það ljóst að Klopp tímabilið er að renna sitt skeið á enda. Við eigum 21 leik eftir með Klopp við stjórnvölinn. Vonandi fleiri, þ.e. ef liðinu gengur vel í 16 liða úrslitum FA bikarsins og svo í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Ef allt gengur að óskum, og liðið kemst í úrslit í báðum þessum keppnum, þá bætast 8 leikir við. Semsagt: að hámarki 29 leikir (ok 30 ef ákveðinn leikur verður spilaður aftur, en við skulum ekki halda niðri í okkur andanum við að bíða eftir því).

Ég veit ekki hvers konar kaldhæðni það er, en það stefnir í að rétt tæplega 10% af þessum leikjum verði gegn Chelsea (2 af 21). Jafnvel meira, ef Liverpool og Chelsea dragast saman í FA bikarnum, við gætum þess vegna séð 3 leiki af 22. Ekkert hægt að útiloka að það gerist.

Næsti leikur er semsagt gegn Chelsea. Á Anfield.

Það má alveg gera ráð fyrir að þetta verði aftur tilfinningarík stund á Anfield. Sjálfsagt munu áhorfendur byrja að syngja “I’m so glad that Jürgen is a Red” örlítið fyrr en í síðasta leik. Sjálfsagt munu einhver tár falla, kannski hjá áhorfendum, og kannski hjá Klopp sjálfum.

En þó við megum alveg sýna tilfinningar, þá má heldur ekki láta þær bera sig ofurliði. “There is a title to be won”, og titlar vinnast ekki nema með blóði, svita og tárum. Og baráttu. Helling af henni. Okkar menn þurfa núna að bretta upp ermar og fara í næstu orrustu. Andstæðingarnir verða alveg örugglega sýnu erfiðari viðfangs heldur en Norwich um helgina. Alveg sama þó Chelsea séu bókstaflega um miðja deild. Klopp sagði sjálfur að þeir væru ólseigir, og við skulum ekki gera ráð fyrir neinu öðru. Ef tölur um xG eru skoðaðar, þá eru Chelsea mun ofar þar heldur en í stigatöflunni. Hættan er sú að slíkt þýði að liðið sé að spila undir getu, og að á einhverjum tímapunkti þá snúist gæfan þeim í vil. Það er því ALLS EKKI hægt að líta á þetta sem leik sem megi meðhöndla af einhverri léttúð.

Síðustu viðureignir þessara liða hafa líka ekki verið eitthvað sérstaklega afgerandi. Reyndar þarf að fara aftur til ársins 2021 til að finna leik milli þessara liða sem ekki lauk með jafntefli í venjulegum leiktíma. Ef eitthvað er að marka söguna ættum við því að sjá 0-0 eða 1-1 leik á Anfield.

En við vonum að nú bíti okkar menn í skjaldarrendur og hristi þennan jafnteflispúka af öxlinni. Eins og kom fram í podcastinu, þá má líka segja að liðið okkar skuldi Klopp það að taka Chelsea og rasskella því. Einfaldur 1-0 sigur myndi líka alveg virka fyrir undirritaðan.

Hvernig stillir Klopp liðinu upp? Jú hann spilar á sínu sterkasta liði, eftir að tillit hefur verið tekið til líkamsástands leikmanna, sem og í hvaða leikformi þeir eru.

Nokkrar stöður á vellinum ættu að vera sjálfvaldar. Alisson í marki, Virgil og Konate í miðvörðunum. Eru Robbo og Trent tilbúnir í að byrja? Hugsanlega, og þá byrja þeir. Ef ekki, þá bíða Gomez og Bradley á hliðarlínunni, eldheitir. Miðjan er aðeins stærra spurningamerki. Gerum ráð fyrir að Mac Allister byrji, þó hann hafi verið of tæpur um helgina. Er Szoboszlai tilbúinn í að byrja? Mögulega. Við værum svo líklega að sjá Jones byrja sem þriðja mann, en Gravenberch og Elliott eru ekkert langt undan. Eigum við að þora að nefna Thiago á nafn? Hann er reyndar bara nýbyrjaður að æfa, og ég efa að við sjáum hann nema kannski rétt svo á bekk.

Miðað við hvað Gakpo var ískaldur (í neikvæðu merkingunni) í síðasta leik þá er líklegast að hann fari á bekkinn, og það verði Díaz, Jota og Nunez sem fái það hlutverk að sjá um að halda markaskoruninni uppi.

Spáum þessu svona:

Maður yrði samt í raun ekkert hissa að sjá í raun hvaða leikmann annan sem er í liðinu. Conor Bradley í byrjunarliði? Bara frábært! Quansah við hliðina á Virgil eða Konate? Pís of keik. Elliott á miðjunni? Fyllilega verðskuldað. Gakpo í framlínunni? Stórhættulegur.

Við vitum þó að við sjáum engan Owen Beck, engan Nat Phillips, og engan Calvin Ramsay enda voru þeir allir að fara á láni. Líklega verður Bobby Clark ekki heldur á skýrslu, slúðrið segir að hann fari á lán út tímabilið á næstu tveim dögum.

Jafnframt vitum við að Endo er enn upptekinn með Japan, Salah er upptekinn við að ná sér aftan í læri, Tsimikas er á góðri leið til baka en ekki klár, og Bajcetic er ekki langt undan heldur. Sjáum líklega engan þeirra á skýrslu. Kannski Thiago. Kannski.

Ég ætla að spá 3-0 sigri, Nunez með þrennu. Lásuð það fyrst hér.

KOMA SVO!!!!!

8 Comments

 1. Líst vel á þetta byrjunarlið, get einmitt séð fyrir mér að Gomez taki 60 mín í vinstri bakverðinum og færi sig svo í hægri bakvörðinn þegar Robbo kemur inn og Trent fer út.
  Jones er að spila sig inn í hlutverk lykilmanns á miðjunni sem er virkilega flott enda nauðsynlegt að hafa þessa scousera í liðinu.
  Er nokkuð bjartsýnn á þetta og segi 2-0

  4
 2. Er þetta ekki eitthvað rugl með hvenær Klöpp ætlaði að hætta. Var það ekki 2022 sem hann átti að hætta en Úlla fékk hann til að vera lengur en kannski er ég að misskilja. En Liverpool tekur þetta í kvöld.?

  4
  • Hann er svosem búinn að framlengja oftar en einu sinni. Síðasta framlenging var fyrir 2 ár, þ.e. frá 2024 til 2026, og það er sú framlenging sem er verið að bakka með.

   3
 3. Sælir félagar

  Ég vona að allir þeir leikir sem eftir er verði falleg og góð kveðjugjöf til Klopp og félaga. Hvað leiknum í kvöld líður þá verður hann hunderfiður og ekkert annað. Ég vonast eftir sigri en þori ekki að spá um tölur.

  Það er nú þannig

  YNWA

  6
 4. Pælum í því að það er lokadagur gluggans og það er nákvæmlega núll að frétta hjá ÖLLUM liðum
  Það er ekkert lið að kaupa eða selja leikmenn núna.
  Sennilegast rólegasti leikmannagluggi í sögunni.
  ég er meira að segja bara sáttur með liðið eins og er, held að við séum með flotta breidd og góð gæði í öllum stöðum vallarsins.

  4
  • Brunar í bæinn og kíkir á Ölver eða Mosley i kópavoginum, fagnar og keyrir svo aftur til Ak.

   Annars er ég úr Kópavoginum og hef ekki hugmynd.

   2

Gullkastið – Byrjunin á endanum

Liðið gegn Chelsea