FA Cup – fjórða umferð

Norwich á heimavelli

Þessi upphitun og leikurinn líklega líka fellur nú verulega í skuggann af tíðindum gærdagsins, Jurgen Klopp hættir með Liverpool þegar tímabilinu lýkur. Það er mjög sjaldgæft að svona mikill einhugur ríki um framkvæmdastjóra stórliða eins og ríkir um Jurgen Klopp. Ég hef trú á því að Anfield eigi eftir að gera eitthvað magnað á sunnudaginn.

En…þá er komið að enn einum bikarleiknum, þeim fjórða og síðasta í janúar. Mótherjarnir eru Kanarífuglarnir, Skallagrímur Englands, frá Norfolk sýslu sem kenna sig við borgina Norwich.

Síðustu áratugir hafa verið nokkuð skrautlegir hjá félaginu, það hefur verið skoppandi á milli deilda, ekkert náð að festa sig í sessi og hafa á köflum verið hálfgert fallbyssufóður fyrir stærri liðin – ja eða ákveðna leikmenn þeirra (les. Luis Suarez). Nú um stundir situr liðið í áttunda sæti Championship deildarinnar eftir 1-0 tap gegn Leeds í síðasta leik. Þeir eru tveimur stigum frá umspilssæti en 18 stigum frá því að komast beint upp um deild, sem gerist varla héðan af, nema þeir komist á eitthvað svakalegt skrið. Nágrannarnir í Ipswich sitja í öðru sæti þannig að stemmingin hjá Norwich er sennilega ekkert alveg súper.

Norwich City Football Club var stofnað árið 1902, á svipuðum tíma og flest atvinnumannafélög Englands. Árið 1908 flutti félagið á sinn fyrsta heimavöll, Hreiðrið (The Nest). Árið 1934 flutti félagið síðan á núverandi heimavöll sinn, Carrow Road, völlur sem tekur í dag 27.150 manns.

Næstu áratugina þvældist félagið um neðri deildirnar með misjöfnum árangri og árið 1962 tókst þeim að landa fyrsta titli félagsins. Þeir unnu deildarbikarinn (nú Carabao Cup) þrátt fyrir að vera í 2.deild (sem er núna Championship deildin). Þeir komust loks upp í efstu deild árið 1971 og léku fyrsta tímabilið sitt þar. Næstu áratugir voru líklega þeir bestu í sögu félagsins. Liðið vann sinn annan deildarbikar árið 1985, sem hefði undir eðlilegum kringumstæðum komið þeim í Evrópukeppni, en atburðir sem gerðust á Heysel-leikvanginum í Brussel urðu til þess að enskum liðum var vikið úr Evrópukeppnum. Áfram hélt góður árangur félagsins í efstu deild og árið 1993 náðu þeir þriðja sæti deildarinnar, sem gaf Evrópusæti þar sem banni ensku liðanna hafði verið aflétt. Þar fengu þeir ágætis mótherja, fóru í gegnum Bayern Munchen með sigri á Ólympíuleikvanginum í Munchen – sem engu öðru ensku liði tókst að gera – og Inter Milan, sem var þá með lygilega gott lið. Enda fór litla Norwich ekki í gegnum bæði Bayern og Inter. Gaman að segja frá því, fyrir áhugasama um ítalska boltann á þessum tíma, Inter vann báða leikina 1-0. Ég held að þeir hafi unnið flesta sína leiki á þessum tíma 1-0.

Árið 1996 urðu svo eigendaskipti, þegar núverandi meirihlutaeigendur keyptu sinn hlut í félaginu. Það eru þau Delia Smith og Michael Wynn Jones. Síðan þau tóku við hefur félagið skoppað á milli Premier League og Championship. Yfirleitt verið í toppbaráttunni í Championship en verið of lélegir og stundum allt of lélegir fyrir úrvalsdeildina.

Helstu nöfnin sem maður kannast við eru t.d. markvörðurinn Angus Gunn, varnarmaðurinn Grant Hanley og sóknarmaðurinn Ashley Barnes. Ekki veit ég hvort þeir allir spili leikinn gegn okkur. Gunn spilaði síðasta leik og Barnes kom inn á en Hanley spilaði ekki.

En þá að okkar mönnum.

Eins og áður sagði, þá eru helstu fréttirnar, og það sem á eftir að lita andrúmsloftið á Anfield, yfirvofandi brottför Jurgen Klopp. Það er alltaf áhætta að tilkynna svona á miðju tímabili og ómögulegt að segja hvaða áhrif þetta hefur á leikmenn, stjórann og starfsliðið. Vonandi þýðir þetta að menn eiga eftir að þjappa sér saman á bak við Klopp og gera síðasta dansinn hans með félaginu ógleymanlegan. Eftir allt sem hann hefur gefið okkur þá er það nákvæmlega það sem hann á skilið. Anfield þarf að reyna að telja honum trú um að halda áfram, Anfield þarf að styðja hann og leikmenn, Anfield þarf að þakka honum fyrir. Anfield hefur núna fjóra mánuði til að gera allt þetta, gera síðustu stundirnar með honum ógleymanlegar. Ok, kannski full dramatískt. En samt, maðurinn er legend.

Liðið mun taka mið af síðasta leik og næsta leik. Við eigum að fara þægilega í gegnum Norwich með góðri blöndu af aðal- og varaliði. Fáir þurfa hvíld en jafnframt þarf að spila nokkrum í gang. Ég tippa á að Robertson byrji en fari út af eftir 45-60 mínútur – eða að hann komi inn síðust 30. Jones verður eflaust hvíldur og þá eru litlar sem engar líkur á því að Szoboszlai og Trent spili leikinn. Liðið er þó ansi mikil ágiskun en here goes:

Þetta gæti þó alveg eins litið einhvern veginn allt öðruvísi út.

Spáin: Öruggur 4-1 sigur fyrir okkur. Elliott, Gakpo og Jota með tvö.

10 Comments

 1. Nú er hún Snorrabúð stekkur. Söfnuðurinn hér á Ystu Nöf kom saman í Snorrabúð. Gunna spákona hafði fært okkur tíðindin af brotthvarfi Klopp í desember en engu að síður féllu mörg tár oní hyldjúpar sprungur Snorrabúðar. Ég leiðtoginn fékk mörg knús og kossa með tárvotum hvörmum. En upp skal rísa og að leiknum. Þetta verður afskaplega erfiður leikur og einnig fyrir aftaní heilann. Þetta verður allt á ystu nöf.

  15
 2. Maður er bara enn dofinn yfir þessum fréttum. Vonandi nær Klopp að vekja leikmenn eftir þessar fréttir. Hefði hann ekki frekar átt að gefa þessa yfirlýsingu eftir síðasta leik ? Ég held að þetta stuði leikmenn mikið og vonandi ekki á neikvæðann hátt.
  Mikið vona ég að við kveðjum KLOPP með nokkrum titlum.

  4
 3. Auðvitað vilja allir kveðja Klopp með toppárangri og það munum við gera!

  Norwich eru örugglega fegnir að Suarez er hættur að spila með Liverpool en ég spái okkur góðum 2-0 sigri.

  4
 4. Ljómandi upphitun Ívar. Heldur betur engin fókus verið hjá manni á þennan leik núna um helgina, magnað t.d. að Thiago mætti aftur á æfingu og það kemst varla í umræðuna.

  Byrjunarliðið þarf að innihalda eins fáa af þeim sem koma til með að spila gegn Chelsea á miðvikudaginn, sá leikur er það sem skiptir öllu máli.

  7
  • Tökum Norwich örugglega á morgun með góðri blöndu….Verðum vonandi nálægt því að vera með okkar sterkasta lið gegn Chelsea…

   2
 5. Ætli það sé hrein tilviljun að Xavi Hernandez tilkynnti í kvöld brottför sína frá Barcelona frá og með sumri? Hann var með samning til 2026. Ég þekki lítið til hans sem þjálfara en man auðvitað slyngan leikmann. Allir spekúlantar veðja á Alonso hjá Bayer Leverkusen eða þá de Zerbi hjá Brighton en erum við hér að fá kandidat úr óvæntri átt?

  1
  • Já held að það sé hrein tilviljun og beintengd því að Barcelona er líklegt til að reka hann á næstunni. Hafa fengið á sig 4-5 mörk í þremur af síðustu fimm leikjum, eru átta stigum á eftir Girona í deildinni.

   2
  • Og það var að bætast einn kandidat við: Sporting Lissabon þjálfarinn Ruben Amorim. Þetta verður spennandi.

   1

Gullkastið – Klopp hættir eftir tímabilið!

Byrjunarliðið gegn Norwich