Newcastle heimsækir Anfield á nýársdag

Á morgun er fyrsti leikur Liverpool á árinu 2024 þegar Newcastle kemur í heimsókn á Anfield. Fyrir umferðina sat Liverpool með tveggja stiga forskot á toppnum og geta haldið því með sigri eða stigi á morgun.

Síðast þegar liðin mættust vann Liverpool ansi fínan 2-1 sigur á St. James’ Park með tveimur síðbúnum mörkum frá Darwin Nunez snemma á leiktíðinni. Liverpool hefur verið á mjög fínu skriði undanfarið en það sama verður ekki sagt um Newcastle sem hafa tapað fjórum deildarleikjum í desember ásamt því að detta út úr Deildarbikarnum og alveg úr Evrópukeppnunum.

Jurgen Klopp sagði á blaðamannafundi fyrir leik að hann býst við að Mac Allister verði í leikmannahópnum á morgun og verður frábært að fá hann aftur inn í liðið þar sem leikurinn á morgun verður síðasti leikur Endo og Salah áður en þeir fara í Asíu- og Afríkukeppnina. Diogo Jota kom aftur inn í leikmannahópinn í síðasta leik og skoraði strax svo það er frábært að fá hann inn í liðið aftur á þessum tímapunkti.

Töluvert er um meiðsli og bann hjá Newcastle og hefur það verið að gera þeim hlutina ansi erfiða undanfarið. Leikmenn hafa þurft að spila of mikið á skömmum tíma og breiddin hjá þeim er heilt yfir ekki merkileg þessa stundina.

Miðað við það sem á hefur gengið í mánuðinum þá á þetta klárlega að vera algjör skyldu heimasigur hjá Liverpool þó svo að Newcastle verði nú alveg örugglega erfiðir viðureignar.

Alisson

Trent – Konate – Van Dijk – Gomez

Szoboszlai – Endo – Jones

Salah – Nunez – Diaz

Ætli ég giski ekki á að byrjunarlið Liverpool verði eitthvað á þessa leið. Jones og Szoboszlai byrjuðu út af gegn Burnley svo mér þykir ekki ólíklegt að þeir komi aftur inn í byrjunarliðið. Sama held ég að verði raunin með Luis Diaz sem byrjaði líka á bekknum. Ég væri mjög til í að sjá Jota aftur í byrjunarliðinu ásamt Mac Allister en mögulega er það kannski bara einum leik of snemmt til þess og þeir kjósi að fara varlega með þá og fái þá svo inn í byrjunarliðið þegar Endo og Salah fara.

Við viljum auðvitað byrja nýtt ár með sigri og toppsætinu og vonum nú að það verði raunin! Annars óska ég ykkur bara gleðilegs nýs árs og hafið það sem allra best í kvöld.

16 Comments

 1. Liverpool getur aukið forskotið á toppnum með sigri í þessum leik. Vonandi lætur Salah finna fyrir sér á morgun og setur nokkur kvikindi áður en hann hverfur burt.
  Þessi leikur er “möst win” leikur.

  7
 2. Liverpool vinnur deildina. Arsenal eru búnir á því og shitty munu ekki ná hæðum.

  16
  • þrátt fyrir að Arsenal tapi hverjum leiknum á fætur öðrum þá eru þeir einungis 2 stigum á eftir okkur í augnablikinu, þó vissulega eigum við leik til góða.

   City eru að fá lykilmenn til baka, missa engan á Afríku og Asíuleikana og styrkja sig væntanlega í janúar. Þeir verða því miður að teljast ansi líklegir.

   3
 3. Deildin er geggjuð núna allir geta tapað fyrir öllum en vonandi munu okkar menn koma dýrvitlausir í leikinn á morgun gegn olíuliði Newcastle. Á von á hörkuleik en hvíði líka leiknum.
  Gleðilegt nýtt Liverpoolár kæru félagar og takk fyrir stórskemmtilegt ár og þið snillingar á kop.is eigið þakkir skildar fyrir ykkar framlag og þrautsegju

  10
 4. Liverpool verður að vinna Newcastle á morgun það er algjört möst.
  Eins og úrslitin eru að fara í öðrum leikjum eru hlutirnir að falla með okkur þessa stundina.

  Ef Liverpool ætlar sér að gera enhverja alvöru atlögu að úrvalsdeildartitlinum í vor þurfum við að styrkja hópinn í Janúargluggnanum. Hvað finnst fólki hér um það að Liverpool ætti að fara í viðræður við Mbappe og tryggja sér hann sumar áður enn Salah yfirgefur okkur sem gæti gerst núna í sumar?

  9
 5. Ég leiðtoginn í söfnuðinum hér á Ystu Nöf man tímana tvenna. Í 23 ættlið er ég komin frá Agli Skallagrímssyni. Ættmenni mín vógu þann hvimleiða Gunnar er ku hafið stökkið hæð sína í herklæðum. Bleikir akrar og slegin tún ég fer ekki rassgat og hundurinn gól. Nú þurfum við að safna liði. Gegn Newcastle dugir ekkert minna en 3-1. Áfram gakk Liverpool. Gunna spákona var aftur flutt á bráðamóttökuna vegna meins í tánni. En í fjarveru Gunnu þá spáir Sunna Dís frá Syðri Borg 1-1. Ég leyfi mér að efast. Gleðilegt nýtt ár frá Ystu Nöf. YNWA.

  14
  • Þetta gengur ekki. Ég vil fá Gunnu. Það þarf einhver umsvifalaust að drífa sig á bráðamóttökuna og renna á rjúkandi heitan spábolla handa aðal-manneskjunni! Hér dugar ekkert nema hreint lak. Bæði fyrir Guðrúnu og Liverpool. YNWA!

   10
   • Jamm, humm en takk. Gunnhildur Ragnars Loðbróks biður að heilsa. En af henni er alls ekkert gott að frétta. Það er ansi tvísýnt með þetta elsku en fátæktin á lífsins leið, lystisemdir bannar, þó hef ég fengið reið og reið, rétt eins og hver annarr.

    4
 6. Ég lít ekki á neinn leik í enksku deildinni sem skyldusigur. Gæðamunur á milli liðana er það lítill að allir sigrar kosta mikla fyrirhöfn og vinnast ekki nema liðið sé allt á tánum. Allir geta tapað fyrir öllum í þessari deild. Eða hvað er skyldusigur ? Er það ekki leikur sem við “ættum að vinna”: Newcastle er í 9unda sæti og er ríkasta lið í heimi.

  Seigla liðsins okkar hefur verið ótrúleg. Liðið hefur oft ekkert spilað neitt sérstaklega vel en nær samt yfirleitt að snúa leikjum sér í vil og hafa sigur. Ég á stundum bágt með að trúa að við séum efst- því mér hefur liðið oft hafa spilað mun betri bolta en verið neðar í töflunni. Núna fáum við gullið tækifæri að ná þriggja stiga forustu en það gerist ekki nema liðið nær upp gæðum í leik sínum.

  Vona innnilega að það gerist

  7
 7. Sælir félagar

  Fyrsti leikur nýs árs er okkar og þar dugir ekkert annað en sigur og setja línuna fyrir árið. Kaupa svo Olise frá Palace og Robertson frá Fulham og deildin verður okkar. Ég verð þó að segja að ég hefi ákveðnar áhyggjur fyrir leik og veit að hann verður drulluerfiður. En hann ætti að vinnast ef dómgæslan verður eðlileg en ég þori þó ekki að setja neinar tölur á leikinn..

  Það er nú þannig

  YNWA

  3
 8. Gleðilegt nýtt ár 2024 kæru Púllarar nær og fjær, til sjávar og sveita.

  Skyldusigur, bananahýði eða hvað svo sem við viljum kalla það, 3 stig í kvöld takk fyrir hvernig svo sem við förum að því. Það er algjört “möst” því eins og skrifað hér ofar, City að fá De Bruyne til baka, Haaland einnig og enginn á þeim bænum á leið í Afríku eða Asíu keppni – á meðan erum við að missa Salah og Endo, vinstri bakverðirnir frá þó stutt sé í Robertson.

  Sammála Sigkarli með Olise hjá Palace, sprækur strákur sem gæti örugglega gert enn betri hluti hjá Rauða Hernum, ef Robertson á þeim bænum er Skoti þá er hann velkominn.

  Verður spennandi á sjá hvort eitthvað óvænt og spennandi sé að gerast á bakvið tjöldin varðandi leikmannakaup í janúar, sjáum til, þangað til…… áfram gakk, YNWA.

  3
  • Ég held að Robertson sé kani en hann er magnaður leikmaður, fljótur, áræðinn og sterkur varnarlega.

   Það er nú þannig

   4
   • Robinson er fæddur og uppalinn í Englandi en valdi bandaríska landsliðið (föðurætt).

    1

Gullkastið – Gleðilegt ár

Áramótakveðja og hlaupalið kop.is